28 nóvember, 2016

Í "Leiðslu"

Flytjendur, tónskáld og Emilía Ísold Egilsdóttir, sem sá um afhendingu
blóma í lok tónleikanna.
Maður veltir stundum fyrir sér hvernig svo fór að okkur fD tókst að eignast börn, tengdabörn og barnabörn, sem virðast vera okkur endalaus uppspretta ánægju og stolts. Hvert af öðru sýna þau hvað í þeim býr og það er hreint ekki svo lítið.  Þó ég hafi nú yfirleitt ekki sérlega hátt um þessi mál, þá geri ég það hér með.
Á laugardaginn var hélt elsti sonurinn, Egill Árni, útgáfutónleika vegna nýja hljómdisksins sem hann hefur nú gefið út.  Þessi diskur ber heitið "Leiðsla" eða "Reverie". Á honum er að finna 22 íslensk sönglög.
Tónleikarnir voru í Salnum í Kópavogi og ég held að ég þurfi ekkert að fjölyrða um hve vel allt fór þar fram. Fyrir utan að vera þarna og njóta þess sem fram fór tók ég, óbeðinn, að mér hlutverk ljósmyndara, en afraksturinn er að finna  hér

Ekki er Egill alveg  einn flytjandi á diskinum, en Kristinn Örn Kristinsson leikur heldur betur fimlega á píanóið og Sophie Marie Schoonjans á hörpu.  Kristinn Sigmundsson syngur eitt lag með Agli og Oddur Arnþór Jónsson annað. Einnig má heyra Karlakórinn Þresti, félaga út Mótettukór Hallgrímskirku og Arnar Jónsson, leikara.  Einn skemmtilegasti meðsöngvari Egils er þó Júlía Freydís sem flytur eitt lag með föður sínum.
Þeir Kristinn Sigmundsson og Oddur Arnþór Jónsson gátu ekki verið með á tónleikunum vegna annarra starfa, en Ásgeir Páll Ágústsson fyllti skarð þeirra með sóma.  Þá komu einnig til liðs sóprandívurnar Þóra Gylfadóttir og Ingibjörg Aldís Ólafsdóttir auk harmonikkuleikarans Ólafs B. Ólafssonar.
Egill flutti lag eftir Björgin Þ. Valdimarsson, sem ekki er á diskinum og var Björgvin viðstaddur af því tilefni.


Eitt laganna á diskinum var sérstaklega samið fyrir þessa útgáfu, en það er "Skeljar" eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson, sem einnig  eyddi æskunni í Laugarási.  Annað lag er þarna í fyrsta sinn á hjómdiski og er eftir Gunnstein Ólafsson og heitir "Frændi þegar fiðlan þegir".


Egill hefur lagt mikið í þessa útgáfu. Með diskinum fylgir bæklingur með öllum textum laganna, bæði á íslensku og ensku. Hann hefur svo tekið saman yfirlit yfir ýmis laganna á diskinum og varpað ljósi á vinnuferlið HÉR. Þarna er einnig að finna frásganir Hreiðars Inga og Gunnsteins Ólafssonar, en þeir segja frá tilurð sinna verka.  Allt þetta er að finna  og þarna er að finna mikilvægar og skemmtilegar bakgrunnsupplýsingar. Það er snillingurinn, sonur okkar fD, Brynjar Steinn, sem tók upp mest af efninu sem þarna er að finna og vann það síðan til útgáfu.

Að sjálfsögðu er "Leiðsla" í mínum huga tímamótaverk.

Á bakvið vinnsluferli á svona verki gerist margt sem ekki fer hátt, en gerist samt. Í bakgrunninum er fjölskylda Egils, Soffía og dæturnar, Júlía Freydís og Emilía Ísold. Hlutverk Soffíu í þessu verki tel ég að verði seint ofmetið.

Júlía Freydís syngur "Mamma ætlar að sofna" með föður sínum.

Nú er það spurningin hvernig hægt er að nálgast diskinn, en Egill stendur sjálfur að útgáfunni og það er hægt að panta hann í gegnum síðuna hans.  Eftir því sem ég best veit verður hann seldur í Bókakaffinu á Selfossi, Bjarnabúð í Reykholti, Hagkaupum, 12 tónum á Skólavörðustíg og sjálfsagt víðar.
Svo erum við fD auðvitað tilbúin að redda eftir því sem þörf er á :).
pallsku að gmail.com s.8989152 drofnth að gmail.com s. 6951856 








25 nóvember, 2016

Svei svörtum fössara

Getur lágkúran orðið öllu meiri?
Hvað í ósköpunum kemur okkur það við þótt Bandaríkjamenn fagni einhverjum atburði í sögu sinni?
Hvað í ósköpunum kemur okkur það við að verslunarmenn í Bandaríkjunum hafi tekið upp þann sið að marka upphaf jólaverslunar með einhverjum tilboðum og valið til þess daginn eftir þakkargjörðardaginn sinn?
Er ekki komið alveg nóg af þessari gagnrýnislausu eftiröpun á öllu því sem amerískt er?
Mér finnst Íslendingar gera óskaplega lítið úr sér með þessum hálfvitagangi.

Ekki bætir svo úr skák þegar verslanir geta ekki lengur þýtt heitið á þessum föstudegi bara yfir á íslensku og kallað hann "svartan föstudag". Nei, annaðhvort verður hann að kallast "Black Friday", eða það sem jafnvel enn skelfilegra: "S V A R T U R   F Ö S S A R I" Almáttugur.

Ef einhverjir skyldu nnú ekki átta sig á samhenginu þá er þetta m.a. sagt á Vísindavefnum um Þakkargjörðardag Bandaríkjamanna:
Fyrsta þakkargjörðardaginn héldu enskir púrítanar, svonefndir pílagrímar, haustið 1621. Þeir höfðu í september árið áður hrökklast með skipinu Mayflower frá borginni Plymouth á Englandi að strönd Massachusettsflóa. Þar stofnuðu þeir nýlenduna Plymouth. Eftir harðan vetur en góða sumaruppskeru ákváðu pílagrímarnir að þakka Guði fyrir alla hans velgjörninga með þriggja daga hátíð. Þeir buðu innfæddum einnig að taka þátt í veislunni, en til matar voru einkum kalkúnar og villibráð.
Svo leiddi eitt af öðru:
Árið 1863 mælti Abraham Lincoln (1809-1865) forseti svo fyrir að allir Bandaríkjamenn skyldu halda hátíðlegan þakkargjörðardag fyrir gæði síðasta árs. Hann skyldi haldinn síðasta fimmtudag í nóvember, en sá dagur var í nánd við daginn sem George Washington gaf út yfirlýsingu sína. Ritstjóri kvennablaðsins Lady’s Magazine, Sarah J. Hale (1788-1879), hafði þá lengi barist fyrir þessu máli. Árið 1939 breytti Franklin D. Roosevelt (1882-1945) forseti dagsetningunni í fjórða fimmtudag nóvembermánaðar og bandaríska þingið staðfesti tillögu hans árið 1941.
Er einhver sérstakur skortur á dögum til að gera sér dagamun á þessu landi elds og ísa?

Það getur verið að svona séum við bara: að hingað hafi flykkst forðum fólk af sömu tegund og nú er nýbúið að kjósa stórundarlegan forseta yfir sig vestanhafs. Það eru ýmis merki þess að við höfum gert slíkt hið sama hér og meira að segja orðið á undan "frændum" okkar fyrir westan.
Ég vil hinsvegar skrifa þetta að stórum hluta að endalausa ásókn okkar í bandarískar sápuóperur og mátt fjármagnsins, sem dregur okkur til að kaupa það sem við höfum ekki raunverulega þörf fyrir.

Hættum þessari vitleysu.
---------------------
Það er enginn ritstjóri sem metur þessi skrif áður er þau fara í loftið, nema ég, sem kýs að láta mér vel líka.

Þetta var blástur dagsins og ég get þar með farið að hugsa um eitthvað uppbyggilegra.

19 nóvember, 2016

Eigi skal hún inn

Þegar smellt er, stækkar myndin. :)
Ekki fjölyrði ég um framkvæmdagleðina sem hrjáir mig, en það eru allmörg ár síðan fyrst komu fram tilmæli um að það gengi ekki annað en koma málum svo fyrir, að það væri hægt að hafa dyrnar út á pall eins og hentaði hverju sinni.  Ástæður tilmælanna hafa mér alltaf verið ljós, en í bakgrunni þeirra er örsmátt spendýr sem leitar sér að hlýju þegar fer að kólna á haustin. Þessi dýr eru velkomin á sumum bæjum sem ég hef heyrt af og lesið frásagnir um.  Þar er lýst tjáningarríku augnaráði og ákveðnu kæruleysi gagnvart húsráðendum. Þar eru þessi litlu dýr uppspretta líflegra frásagna af samskiptum tveggja spendýrategunda sem lifa saman í sátt og samlyndi,
Þannig er það ekki í Kvistholti.
Tilhugsunin um að hagamúsin geri sig heimakomna innandyra er óendanlega hrollvekjandi. Það er meira að segja svo, að það kveður við hálfkæft óp í hvert sinn sem mús bregður fyrir í ljósgeislanum þar sem ekið er um sveitir landsins.
Hagamýs eru ekki boðnar velkomnar í Kvistholt.
Nú er lokið framkvæmdum, að lokinni hönnun, efnisöflun og samsetningu hliðs í dyrnar út á pallinn. Eins og nærri má geta er hönnunin snilld í einfaldleika sínum, efnisöflunin tók aðeins á, þar sem áhöld voru um hve hátt hagamús gæti stokkið, eða klifið og það lágu fyrir frásagnir um að þær geti auðveldlega komist inn um op í 50 cm hæð, með því, einfaldlega, að stökkva. Þá munu þær einnig geta klifið veggi og komist þannig jafnvel upp á efri hæðir. Niðurstaðn varð því um að fest voru kaup á hóflegu magni af flugnaneti, enda er músaneti ekki treyst, eftir frásagnir um að hagamýs komist auðveldlega í gegnum op sem eru vart meira en sentimetri í þvermál.  Ágætir listar í hliðgrindina fengust í ruslagámi bygginavöruverslunarinnar.
Svo var ekkert að vanbúnaði. Ramminn útbúinn (reyndar aðeins mál á fá hann hornréttan) flugnanetið heft á hann, viðeigandi tappar settir á hurðarkarminn og hliðinu smeygt í.
Nú má sjá spendýrin litlu spígspora á pallinum, með biðjandi blik í auga, skjálfandi af kulda. Þeim mætir kuldalegt augnaráð og engin samúð, jafnvel  ákveðin ögrun: "Reyndu bara að stökkva."


18 nóvember, 2016

Gamalt en mögulega einnig nýtt (2)

Bókin

Hér held ég áfram að skella inn köflum og kaflabrotum úr sömu bók og síðast. margt að því sem þarna er að finna er eilífur sannleikur, annað hefur breyst með breyttum lífsháttun, tækniþróun og öðru.  Það var þannig að allt í einu vantaði mig bók til að lesa og renndi í gegum bókastaflann á heimilinu. Nennti ekki að byrja á Laxness safninu eða Íslendingasögunum og endaði því á óhefðbundnari ritverkum, þar sem ég fann þessa bók. Húnvar gefin út í íslenskri þýðingu Jóns Þórarinssonar árið 1917 af Bókaverzlun Sigfúsar Eymundssonar og var prentuð í Prentsmiðjunni Gutenberg. Titill hennar er BÖRN og undirtitill Foreldrar og kennarar og hún er eftir einhvern D.C. Murphy sem mun hafa verið "skóla umsjónarmaður í Ameríku" Um bókina segir þýðandinn m.a.: "þar þykir mikið til hennar koma og séð hef ég hana nefnda »kennslubók kennaranna og húslestrarbók heimilanna«.

Alþúðubl. 11.09.1943
Ökuskírteini Guðmundar, gefið út um ári áður en hann lést.

Eigandi bókarinnar

Bókin er merkt Guðmundi Þórarni Runólfssyni (1918-1943), en hann lést í slysinu sem lesa má um hér til hliðar. Bókin var gefin út ári áður en hann fæddist og hann hefur líklega eignast hana alllöngu seinna. Í Kvistholt barst bókin úr dánarbúi foreldra fD, en Guðmundur var föðurbróðir hennar.
Ekki vitum við margt um lífshlaup Guðmundar, annað en að hann fæddist í Heiðarseli á Síðu og að hann starfaði á Hvanneyri um það leyti sem hann lést. Það væri nú fengur í því ef einhver vissi eitthvað um Hvanneyri í kringum 1940, eða einhver gögn um lífið þar á þeim tíma.



 Guðmundur (fjórði f.v.), móðir hans, Sigurbjörg
Þórarinsdóttir og bræður, um 1925,
Gísli, f. 19. nóv. 1911, d. 23. apr. 1932,
Þorsteinn, f. 22. okt. 1913, d. 30. sept. 1991,
Ólafur, f. 16. des. 1914, d. 13. jan. 1939,
Guðmundur, f. 2. júní 1918, d. 9. okt. 1943 og
Þorvaldur, f. 4.1.1920, d. 15.3.2007.


 Úr bókinni

Ég ætlaði, sem sagt, að setja inn nokkur gullkorn úr þessari bók, en þar kemur í ljós, eins og búast mátti við, að manneskjan breytist ekki mikið, þó umhverfi hennar breytist. 

Foreldrar og kennarar

1. Sambandið milli foreldra og skóla.
Sumir hafa þá skoðun, að skólinn sé staður þar sem börnum sé komið fyrir til pössunar, en að öðru leyti er þeim lítið hugarhaldið um skólann eða kennarann. En þetta er röng hugsun. Verki foreldranna er ekki lokið með því að klæða börnin og sjá þeim fyrir líkamlegum þörfum; þeir hafa heldur ekki gert alla skyldu sína með því að láta þau ganga reglulega í skóla. Ef foreldrunum er áhugamál að börn þeirra komist  vel áfram og njóti svo góðrar skólafræðslu sem kostur er, þá verða þeir að neyta allra ráða til að gera þeim kost á því, búa sem allra best í haginn.

2. Hugmyndir foreldra um kennara
Foreldrar hafa mjög ólíkar skoðanir um það, hvað geri kennarann góðan fræðara. það minnir á munnmælasöguna um riddara, sem deildu um skjöldinn, hvað efni væri í honum; annar sagði að í honum væri silfur, en hinn að hann væri úr gulli. Þrátt þeirra endaði í einvígi. Þeir skilmdust langa stund, en með því að áþekt var um vígfimi þeirra og hreysti, bar hvorugur sigur úr býtum. Loks féllu báðir, örmagna af þreytu. Þá bar að þriðja riddarann, og báðu þeir hann að skera úr, hvor hefði rétt fyrir sér. Þegar hann fór að rannsaka skjöldinn reyndist hann öðru megin úr  gulli, en úr silfri hinumegin.

3. Tvennskonar foreldrar
Einhver hefur sagt að öllum foreldrum megi skifta í tvo flokka, skynsama og óskynsama. Ekki er allur sannleikurinn sagður með því, en það gefur fyllilega hugmynd um hvað er sannleikur í þessu efni. Fyr nefndi flokkurinn er langt um fjölmennari; en hinn síðarnefndi veldur öllum erfiðleikunum. Meðal óskynsamra foreldra eru þeir, sem hafa þá mölétnu hugmund að »kennarinn verði að fara eins með öll börn«.   Mörg ár eru síðan þessi hugmynd reyndist jafn óheilbrigð eins og hún er gömul. 
Kennarinn verður að fást við mjög ólíkt eðlisfar barna, sum þarf svo sem ekkert að aga; sum er auðvelt að aga, og við sum veitir ekki af að beita öllum þeim ráðum sem kennarinn kann. Læknir sem gæfi öllum sjúklingum sama lyf, myndi lækna suma en drepa suma.

4. Áhugaleysi foreldra
Hversu mjög gætu foreldrarnir stutt að því að skólinn ynni gott gagn, ef þeir fengju svo mikinn áhuga á skólavinnunni að þeir létu börn sín vera við nám í það minsta stundarkorn á hverjum degi! Foreldrar eru stundum algerlega hirðulausir um uppeldi barna sinna, og þó er gott uppeldi besti arfurinn sem þeir gætu leift þeim.  Eitt af verstu meinum vorrar þjóðar er slæpingshátturinn.
Á engan hátt geta heimilin stutt skólann að starfi betur en þann, að gæta barnanna sem best þann tímann, sem þau eru ekki í skólanum - varna því að þau leggist í iðjuleysi; að þau séu með góðum leiksystkinum og að ekkert hindri þau frá að sækja skólann reglulega.

5. Hirðulausir foreldrar.
Foreldrar sem eru hirðulausir um það, hvort börn þeirra sækja skóla reglulega, eru versta hindrun í starfi kennarans. Sumir foreldrar sýna aldrei að þeir skeyti  mikið um börn sín - fyr en þeim er refsað í skólanum, eða önnur börn tekin fram yfir þau; þá ranka þeir við sér; og mörg börn í barnaskólunum okkar fá litla hjálp eða upphvatningu heima fyrir. Það er eins og foreldrarnir segi við kennarann: »Ég fæði barnið og klæði, hitt verðið þér að gera« Fyrir getur það komið, að foreldrar undrist yfir því að ekkert heyrist um óþekt barna þeirra í skólanum, þó þeir ráði ekkert við þau heima.

6. Aðfinslur foreldra.
Annað er það sem oft angrar kennara en það eru aðfinslur foreldra barnanna, sem oft eru á reiðum höndum. Einn sagði: »Ekki gest mér að hvernig sá kennari kennir reikning; alt öðru vísi var mér kent«.  Drengurinn hans festr orðin í minni af því að faðir hans sagði þau, og honum þykir fremur gaman að því að eitthvað er út á kennarann að setja. Þegar hann fer í skólann, hljóma orð föður hans  í eyrum honum  og í reikningstímanum ber hann með sjálfum sér brygður á að kennarinn fari rétt með reikningsdæmin.  Hefði faðir hans verið skynsamur maður, þá hefði hann getað sagt sem svo:  »Aðferðirnar eru öðruvísi nú, en þær, er ég vandist, og líklega betir, því að allar kennsluaðferðir eru betri nú en áður.«  Þá hefði drengurinn farið í skólann með sannfæringu um að kennarinn hans segði betur til en kennarar föður hans höfðu gert.  
Stundum þarf að ávíta barn fyrir eitthvað í skólanum. Barnið fer heim og segir frá ofanígjöfinni, og gerir svo lítið úr misgjörð sinni sem það þorir. Foreldrarnir hafa heyrt einungis annan málsaðilann, hugsa að kennarinn hafi haft rangt  fyrir sér og segja það til allrar óhamingju svo barnið heyrir. Það fer aftur í skólann næsta dag, er nú í uppreisnarhug, gerir meira fyrir sér en fyrri daginn og er refsað þunglega. Þá er ekki einungis grátur í skólastofunni, heldur gnístran tanna á heimilinu.

7. Vinátta og heimsóknir
Milli kennara og foreldra ætti að vera innilegt vináttusamband og ef svo er ekki, þá er eitthvað athugavert, annaðhvort við kennarann eða foreldrana, og þá ættu þeir þegar að skilja að skiftum.
Í of mörgum sveitum má kennarinn heita ókunnur maður foreldrum barnanna. Sumstaðar koma foreldrar aldrei til kennarans, nema til að kæra yfir einhverju. Engin eftirtekt er veitt starfi hans, nema þegar eitthvað ber út af. Góð áhrif sem hann hefur á börnin eru skoðuð sem sjálfsagður hlutur; aldrei heyrir hann hlýtt orð fyrir það; en verði honum eitthvað á, þá hljóma áfellisdómar fjöldans bæði hátt og djúpt.

------------------------
Ég sé til hvort ég set inn eitthvað fleira úr þessari bók, en nú sem fyrr skiptir aðkoma foreldra að uppeldi barna sinna höfuðmáli, ekki aðeins til þess að vernda þau frá öllu illu, heldur til að beina þeim inn á þær brautir sem best munu gagnast þeim þegar þau vaxa úr grasi.

16 nóvember, 2016

Gamalt en mögulega einnig nýtt (1)


Eftirfarandi texti er ekki eftir mig, svo því sé nú haldið til haga. Ég skelli honum hér inn í tilefni af stöðu mála hjá grunnskólakennurum um þessar mundir.
Það er erfitt að skilgreina hugtakið »kennari«. Ef vér segjum að kennari sé maður vel bóklærður og lagaður til að kenna, maður hæfur til að stjórna, og leiða aðra, maður sem er skjótur að sjá hvað við nemendurna á í hvert sinn og sem ávalt beitir réttum tökum o.s.frv. - þá er ekki alt þar með sagt.
Þó að alt þetta sé tekið saman í eitt, þá skortir mikið á góða skilgreiningu, af því að það er eitthvað í góðum og vel hæfum kennara sem ekki verður skilgreint. Það skiftir ekki eins miklu fyrir barnið hvað það lærir. »Heiminn hungrar og þyrstir ekki nærri því eins eftir fræðslu eins og innilegri hluttekningu og samúð«, því að þegar öllum lexíunum er skilað, öllum kennslustundum lokið, þá munu áhrifin, sem eftir verða - þau áhrifin sem barnið geymir frá skólaverunni, - mynda lífsskoðun þess, og hugsunarhátturinn mótast eftir því, hvernig það hefur lært að hugsa af kennaranum.
Vér eigum enn engan áreiðanlegan mælikvarða á hæfileika manna og kvenna til kennarastarfsins; vér getum ekki metið kennarann eftir öðru en því, hve vel honum tekst að styrkja hjarta og skilning nemendanna. Þeir einir sem skilja til fulls mikilvægi kennarastarfsins, geta átt von á að vinna það til gagns.
Það er ekki nauðsynlegt að kennarinn sé neinn Samson að burðum, né spakur sem Salómon, né þolinmóður eins og Job, né engill að gæðum. En hann verður að hafa alla þessara mannhæfileika, þó að á lægra stigi sé. Þetta verður skiljanlegt, er vér minnumst þess að kennarastarfið er dag eftir dag og ár eftir ár að ná meira og meira áliti og virðingu. Kennararnir eru að vinna verk sitt betur og betur; þeir eru að fá hærri og hærri laun af því að starf þeirra verður æ verðmætara; kennarar njóta nú meiri virðingar en nokkru sinni fyr; öll skólaskipunin er nú áhugaefni hinna mætustu manna og uppskeran af starfinu er mjög undir henni komin. Starf kennaranna á mikla framtíð.
Vér erum að kenna börnum og ala þau upp, ekki einungis fyrir öldina sem er að líða, heldur fyrir allar komandi aldir. Í sannleika er það háleit hugsun, að þeir sem vinna að þessu mikla starfi, megi hafa áhrif á huga óborinna kynslóða.
Hvaðan hann er, frá hvaða tíma og hve mikið erindi hann á í dag, læt ég lesendur um að velta fyrir sér.
Það á sannarlega eftir að koma fleira í þessum brunni síðar.

14 nóvember, 2016

Dyngjan og athvarfið

Drungavaldandi regn undanfarinna vikna hefur engan veginn náð að slá Kvisthyltinga út af laginu. Listin er að verða búin að grípa stóran hluta þessarar Laugarásfjölskyldu heljartökum, þannig að daglegt líf snýst um að kanna þau mörk sem hún setur þessum ofurprúða hópi.
Eftir að fD tók sig til og sýndi afurðir sínar á þessu sviði fyrir nokkru, hefur hún æ meir horfið inn í dyngju sína, þar sem leirfígúrur eru hannaðar, mótaðar og málaðar. Við og við kíkir hún fram að talar um að fara út að ganga eða skjótast á Selfoss til að setja vetrardekkin undir. 
Þessi hendir burt andleysinu og hnoðar sama texta fyrir innansveitarblaðið, kemur því síðan frá sér upp á drævið. Hann tekur svo óvæntar syrpur á EOS-inn, smellir og smellir og gerir síðan tilraunir með útkomuna með dularfullum tölvuforritum, sem oftar en ekki hlýða ekk því sem þeim er ætlað að gera. 

Í aðdraganda aðventu sameinast þessi tvö í því að raða nótum í möppur, vita ekkert hvenær næsta æfing er, eða með hverjum, sem vissulega skapar gundvöll til hástemmdra umræðna um tilgang þessa alls. Þau líta svo að á tvo viðburðir á tónlistarsviðinu á næstunni beri hæst og séu mikilvægastir: útgáfutónleikar í Salnum í Kópavogi þann 26. nóvember þar sem frumburðurinn fylgir glænýjum hljómdiski sínum, sem kallast 'Leiðsla', úr hlaði og síðan árlegir aðventu- eða jólatónleikar í Skálholti þann 9. desember, þar sem ofangreindur frumburður og sunnlenskur eðalsópran leiða gesti inn í jólaskapið með aðstoð okkar sem erum búin að vera að flokka nótur og ruglast á æfingum, sem eru einhverntíma, einhversstaðar með einhverjum.

Við ætlum fyrir utan þessa tvo viðburði, að vera virkir þátttakendur í tónleikum á Laugalandi í Rangárþingi ytra þann fyrsta desember og Skálholti þann 3. desember, með rangæskum ágætis kór. 

Þessi hefur haft það á orði, að það sé eins gott að hann er farinn að minnka við sig. 

Málaralist, ljósmyndlist, ritlist og sönglist veita öllum litum regnbogans inn í drunga regnvotra vikna. 


11 nóvember, 2016

Persónulegur ávinningur

Þetta er hún, græna tunnan sem við bíðum eftir.
Við fD bíðum í ofvæni eftir grænu tunnunni sem á að taka við plasti sem til fellur á vestrænu heimili okkar og það er sko hreint ekki lítið, frekar en á öðrum vestrænum heimilum. Við erum meira að segja byrjuð að safna í svartan plastpoka. Tunnan birtist, af einhverjum ástæðum ekki enn og svarti plastpokinn fyllist óðum og það er meira að segja búið að kjósa alræmdan umhverfissinna til að stýra landi hinna frjálsu næstu fjögur árin (reyndar ekki, en þetta var tilraun til smá kaldhæðni), síðan tilkynning barst um að tunnan væri á leiðinni.
Það er verkefni út af fyrir sig að breyta venjum sínum og reyna að muna eftir að setja allt plast í sérstakan plastpoka. Þetta hefur bara allt farið í ruslafötuna undir eldhúsvaskinum, en nú þarf að staldra við og hugsa í hvert skipti sem rusl eða úrgangur af einhverju tagi fellur til, hvað á að gera við hann. Það er hreint ekki pláss fyrir fleiri rusladalla í eldhúsinu, fD búin að leggja stærstan hluta þess lausa rýmis sem var í húsinu undir verkefni sín.  Okkur tókst, blessunarlega að venja okkur á að flokka allan pappír í sérstaka tunnu fyrir nokkrum árum, en það var fyrir nokkrum árum. Nú á að fara að bæta þessu við.  Miðað við fregnir úr nágrannaþorpum, þá er græna tunnan þegar komin þar við hvert hús, en hún er ekki komin við hús í Laugarási enn, svo vitað sé, en hvað veit ég svosem, og það kemur mér ekkert sérstaklega á óvart.

Til hvers er allt þetta tunnutilstand, þegar upp er staðið?
Hvað græði ég á þessu? Það  er kannski einmitt kjarnaspurningin; spurningin um tilgang minn með því að hætta að vera það sem kallað hefur verið "umhverfissóði" og fara að gerast "umhverfissinni".

Er eitthvað sérstakt sem hvetur mig til þess (fyrir utan auðvitað frú Ragnheiði á Ljósalandi og mögulega frænku í Miðdal, sem báðar aka um á rafmagnsbílum og senda þannig frá sér þau skilaboð, að umhverfið skipti þær máli)?  Mér finnst að enn sé litið á fólk sem er ofurmeðvitað um mikilvægi þess að sinna umhverfisvernd af einhverju tagi, sem hálfgerða furðufugla. Ekki vil ég vera furðufugl, er það?
Er eitthvað sérstakt sem letur mig? 
Já, og þar er af nógu að taka. Meginstraumurinn í hinum vestræna heimi virðist vera að fara í hina áttina. Já, segi og skrifa.
Mér hefur verið sagt, að við Íslendingar, sem þykjumst vera voðalega framarlega í umhverfisvernd og einstaklega meðvitaðir um allt sem lýtur að því að bjarga heiminum, séum mestu umhverfissóðar allra. Mér hefur verið sagt (sel það ekki dýrar en ég keypti, eins og stundum er sagt) að vistspor hvers Íslendings sé stærra en nokkurs annars fólks á jörðinni okkar bláu.  Við erum bara svo fá og í svo stóru landi, að það munar svo lítið um það. Getum afsakað okkur með því. Svo er vindasamt hjá okkur og það blæs menguninni eitthvað út í hafsauga.

Ég, núna
Það er hægt að undirrita í hálfkæringi allskonar alþjóðasamninga.
"Ég fagna því að náðst hefur sögulegt og metnaðarfullt samkomulag í loftslagsmálum á Parísarfundinum og við munum leggja okkar af mörkum bæði hér heima og við að miðla þekkingu okkar og reynslu til annara þjóða", segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. (MBL12/12, 2015)
Rauðvín frá Chile sem heitir
TerraMater - Móðir Jörð -
nafnið er viðeigandi
Fór þá ekki allt á fullt hjá íslenskum stjórnvöldum við að vinna í málinu? Ekki aldeilis. Unginn úr árinu 2016 hefur farið í að fjalla um aðra hluti en að hefja björgunaraðgerðir. Ætli mestur krafturinn í starfi stjórnmálamanna  síðan (ekki síst forsætisráðherrans sem vitnað er til) hafi ekki farið í að bjarga sjálfum sér, frekar en að vinda sér að að vinna að málum sem skipta alla máli. Það er einmitt kjarni málsins. Parísarsamkomulagið var ekkert sérstaklega áberandi í umræðunni fyrir Alþingiskosningarnar þann 29. október.
Það eru allir að bíða eftir að einhverjir aðrir taki til í sínum garði. Við gerum kröfur til annarra, en ekki okkar sjálfra. Okkar hluti veraldar gerir út á einstaklingshyggjuna. Hver er sjálfum sér næstur, og allt það.


Þegar ég fer í vínbúðina til að kaupa mér rauðvín þá fer ég auðvitað ekki að blanda því við umhverfismál, er það?  Ég sé þetta fína rauðvín frá Chile. Fer ég að pæla í því að það sem búið að flytja ríflega 12000 kílómetra, væntalega með skipi sem brennir jarðefnaeldsneyti? Rauðvínið mitt frá Chile í glerflösku, sem er helmingurinn af þyngdinni, sem síðan endar í flöskumóttökunni (ef ég á annað borð pæli eitthvað í því). Ef ég leiði hugann að umhverfismálum í tengslum við rauðvínskaupin, er ég snöggur að segja við sjálfan mig, að það geti nú ekki haft mikil áhrif á umhverfi heimsins að flytja eina flösku af rauðvíni frá Chile. Ég get líka sagt við sjálfan mig að fyrst aðrir kaupa rauðvín frá Chile, megi ég það ekki síður. Hversvegna á ég að neita mér um það sem aðrir leyfa sér, ef ég hef efni á því?
Þetta rauðvín er bara lítið dæmi sem hægt er að yfirfæra yfir flest það sem telja má munaðarvarning sem er eitt megineinkennið á ofgnóttarsamfélaginum sem við  búum í.   Í þessu samfélagi hreykjum við okkur af því, frekar en hitt, að láta aðra vita af því þegar við kaupum exótískar vörur sem eru langt að komnar.

Ég hef ekki trú á því að neitt umtalsvert gerist til að bjarga jörðinni frá þeim ósköpum sem hennar bíða, að mati þeirra sem til þekkja, fyrr en Vesturlandabúum verður settur stóllinn fyrir dyrnar með einhverjum hætti. Til að svo megi verða þarf að setja lög og reglur sem takamarka hitt og þetta og það verður ekki sársaukalaust, ef af verður. Stærsta orrustan verður þá líklega á milli stjórnvalda og þeirra sem eiga hagsmuna að gæta í því að framleiða og flytja heimshorna á milli, varning til kaupenda sem eiga pening.

Ég lít ekki á þessi skrif mín hér og nú sem pólitísk. Það sem hér er um að ræða er miklu merkilegra og  örlagaríkara en svo að réttmætt sé að setja það í flokk með pólitík eins og við höfum búið við á þessu landi.





08 nóvember, 2016

"...all men are created equal" í tilefni dagsins

Ég velti því fyrir mér, svona í tilefni dagsins, hvort sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna heimili konu að vera forseti.

Ég lærði ensku þannig, að það væri munur á MAN og A MAN, þar sem hið fyrrnefnda vísar til alls mannkyns og er ekki  til í fleirtölu og hið síðarnefnda merkir karl(maður) sem er síðan MEN í fleirtölu.
Það hefur enginn fengið mig til að efast um að svona sé þetta og hafi alltaf verið.
Sambærilegt orð í íslensku er dálítið öðurvísi og vefst ansi mikið fyrir okkur.
Ef þú er kvenkyns mannvera þá ertu KONA eða KVENMAÐUR ef þú er karlkyns mannvera ertu með sama hætti KARL eða KARLMAÐUR. Orðið MAÐUR í íslensku vísar hinsvegar til beggja kynja.  Þetta virðist mörgum okkar ekki vera ljóst, enda tala þau um KONUR og MENN, sem maður hlýtur þá að skilja sem svo, að konur séu ekki hluti af mannkyninu, heldur eitthvað allt annað.
Nóg um það.

Eftirfarandi er umræddur hluti úr sjálfstæðisyfirlýsingunni:
"We hold these truths to be self-evident, that all men are created equal, that they are endowed by their Creator with certain unalienable Rights, that among these are Life, Liberty and the pursuit of Happiness."
Við lítum svo á að allir karlmenn séu skapaðir (fæddir) jafnir og svo framvegis.  Þetta var upprunalega merkingin, fyrir utan það, að sjálfsögðu, að þarna var aðeins átt við frjálsa, hvíta karlmenn sem áttu eignir. "really meant that "all free, property-owning males are created equal".
Það var meira að segja svo, að Thomas Jefferson, sem skrifaði yfirlýsinguna átti sjálfur 200 þræla, sem augljóslega nutu ekki sömu réttinda og hann.
Þó fólk segi nú að þó svo aðeins sé talað um karlmenn í yfirlýsingunni þá sé merkingin nú orðin miklu víðtækari og nái til allra.
En er það svo í raun?
Er ekki einmitt líklegt, að þessi yfirlýsing sé einn stærsti þröskuldurinn í vegi fyrir jafnrétti kynjanna og jafnrétti kynþáttanna, eða jafnrétti, yfirleitt?

Svona eru nú pælingar manns einfaldar á þessum mikla degi Bandaríkjamanna. Dálítið trumpískar, bara.

07 nóvember, 2016

Með hálfum huga

'Furðufuglar" með nýju merkingunni.
Hver er mögulegur tilgangur minn með því að auglýsa sjálfan mig?
Þykist ég hafa eitthvað fram að færa umfram aðra?
Er ég með þessu að sýna af mér samskonaar innræti og faríseinn í Biblíunni?
Þetta eru mikilvægar spurningar þegar maður spyr sjálfan sig þeirra þar sem maður stendur frammi fyrir því að ákveða hvort maður opinberar verk sín fyrir öðru fólki.

Fyrir nokkru hélt fD sýningu á myndverkum sem hún hefur unnið að undanfarin ár. Þetta gerði hún eftir mikla umhugsun og vangaveltur af því tagi sem nefndar eru hér fyrir ofan. Lét vaða og það sem meira er, henni tókst að draga mig inni í málið einnig.

Sýningin gekk glimrandi vel og nú er frúin nánast horfin inn í dyngju sína til að freista þess að vinna upp lagerinn sem tæmdist.  Tenórsöngurinn sem oftast hefur verið í bakgrunni er hljóðnaður um stund.

"Verð ég ekki að setja upp einhverja síðu?" var óhjákvæmileg spurning í kjölfar sýningarinnar. Svarið var einnig óhjákvæmilegt. Og framkvæmd verksins einnig.
Nú er hafin uppestning á galleríi í kjallaranum í Kvistholti.
Auðvitað mun það heita 'Gallerí Kvistur'
Sem fyrr þegar ég fæ spurningar, tæknilegs eðlis frá fD, kemur svar mitt: "Ég veit ekkert hvernig það er gert". Spurningin hljóðnaði samt ekki og ég fór að prófa mig áfram og komst fljótt að því, að enginn þeirra möguleika sem boðið var upp á passar við það sem um var að ræða.  Valdi þar með bara einhvern sem gat ekki verið langt frá því rétta.

Það var ekki um að ræða að mynd af fD yrði gerð að prófíl mynd síðunnar, en hún reyndist ekki í vandræðum með að finna lausn á því máli: "Getum við ekki bæði notað þessa síður og merkið sem þú bjóst til?"  og þar með var ég orðinn virkur þátttakandi í innihaldi þessarar kynningarsíðu. Þarna skyldu sem sagt vera myndverk okkar beggja, sitt á hvað undir vörumerki Kvisthyltinga, en það hannaði ég fyrir rúmum þrjátíu árum og gerði grein fyrir tilurð þess hér.  Merkið hef ég síðan notað til að merkja ljósmyndir sem ég hef dundað mér við að taka og vinna úr síðan. Nú fékk þetta merki nýtt og mikilvægt hlutverk: að fylgja öllum myndverkum fD héðan í frá.

Það þarf ekki að orðlengja það, en í morgun var síðunni https://www.facebook.com/kvisturart/ varpað út í alheiminn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég neita því ekki að það bærðust með mér ýmsar hugsanir þar sem ég sat frammi fyrir því að hefja útgáfuna, en lausnarorðin voru, á nútímamáli, en aðeins í huganum: "Fokkitt" og þar með smellti ég á fyrsta mögulega gestinn á síðunni.

Úr því ég er blandaður í málið hlýt ég að birta hér mynd
af minni mynd. Hún ber nafnið 'Verkfallsórar' máluð í
síðasta verkfalli ævi minnar í mars 2014.
Ég hef látið þess getið að mynd þessi sé föl fyrir
ISK350000. Þetta er akrýlmynd 140x130 cm.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...