30 júní, 2017

Gerum við gluggana

- Þessi bloggpistill er ekki kostaður og af honum hef ég enga fjárhagslega eða aðra hagsmuni utan að búa í Skálholtssókn - 

Ég hef í tvígang fjallað um listaverkin sem liggja undir skemmdum í Skálholtsdómkirkju, annarsvegar í Facebookhópnum Laugarás - þorpið í skóginum og hinsvegar á þessu bloggsvæði í grein sem ég kallaði Uppeldi og viðhald. 

Ég hef reynt að líta þannig á þetta mál, að um sé að ræða menningarverðmæti; þjóðargersemar, rétt eins og Kjarvalsmálverk eða höggmynd eftir Ásmund Sveinsson, en ekki  verðmæti í eigu eða umsjón íslensku þjóðkirkjunnar.
Það virðist vera svo, að þegar minnst er á að þessi verk, Gerðar Helgadóttur (gluggarnir) og Nínu Tryggvadóttur (altaristaflan), liggi undir skemmdum, rísi fólk upp og fari að fjalla um þá fjármuni sem þjóðkirkjan fær á hverju ári úr sameiginlegum sjóðum, yfirleitt með þeim orðum, að þar ættu að vera til nægir fjármunir ef rétt væri á málum haldið.
Ég tel mig ekki vera í aðstöðu til að meta hvort kirkjan fær nægilegt fé til að standa undir því sem henni er ætlað. Í þá umræðu ætla ég ekki að blanda mér. Það er að mínu mati, önnur umræða en sú sem ég er að reyna að taka þátt í.

Ég hafna því hér með, að nauðsynlegt sé að blanda saman fjárhag kirkjunnar og varðveislu þessara menningarverðmæta. Ykkur er auðvitað frjálst að hafa hvaða skoðanir sem þið viljið á kirkju og kristni. Auðvitað má segja margt um þessa stofnun og þessa trú, meira að segja að kirkjan hafi sjálf átt verulegan þátt í að koma sér í einhverskonar andstöðu við umtalsverðan hluta þjóðarinnar.

Kristján Valur Ingólfsson,
vígslubiskup
Ég vil bara tala um björgun á þessum verkum og vil tala fyrir því að sú björgun verði framkvæmd óháð þjóðkirkjunni sem stofnun, því það liggur fyrir að þaðan mun sennilega aldrei koma nægilegt fjármagn til þessa verks.

Það var haldinn fundur í Skálholti í gærkvöld, þar sem ástand glugganna var megin umfjöllunarefnið. Vígslubiskup, Kristján Valur Ingólfsson, boðaði til fundarins og kynnti stöðu mála.  Drífa Hjartardóttir, formaður stjórnar Skálholts, stýrði fundinum.

Það sem vakti athygli mína var nú ýmislegt.
Það kom fram, að listgluggarnir (steindu gluggarnir) voru settir upp rétt eins og um rúðugler væri að ræða, á sínum tíma: Þeir voru, sem sagt, settir í gluggakarm, síðan var settur listi og þar fyrir utan einfalt hlífðargler. Mér skilst að þetta hafi ekki mátt gera, en var gert engu að síður.  Rétta aðferðin, og sú sem notuð verður þegar listglerið hefur verið lagfært í Þýskalandi og gluggakarmar endurnýjaðir, er að tvöfalt einangrunargler verður sett í alla glugga.
Drífa Hjartardóttir,
formaður stjórnar Skálholts
Listglerinu verður síðan komið fyrir innan frá þannig, að loft nái að leika um það frá báðum hliðum.
Verkið sem framundan er, er þannig í stórum dráttum tvennskonar. Annarvegar þarf að flytja listgluggana  með öruggum hætti til Þýskalands í viðgerð hjá Oidtmann, en það fyrirtæki vann gluggana upphaflega.
Fyrir utan að gera við skemmdirnar, þarf að taka allt að 5 mm utan af gluggunum (sem Evrópustaðlar munu segja að megi), svo hægt verði að koma þeim fyrir að innanverðu.. Hinsvegar þarf að skipta um gluggakarma og setja í þá tvöfalt gler.
Það er ljóst að þetta mun kosta tugi milljóna og þar stendur hnífurinn í vorri kú.
Það liggja fyrir loforð um einhverja fjárupphæð til verksins og nú er gert ráð fyrir að fara í það, með því að græja 2-3 glugga til að byrja með.

Ef einhver skyldi svo ímynda sér að gluggarnir séu það eina sem taka þarf á í Skálholtsdómkirkju, þá er það heilmikill misskilningur.
Hér er listi yfir það helsta sem nefnt var:
1. Altarisverk Nínu Tryggvadóttur, sem farnar eru að sjást sprungur í.
2. Ofnana þarf að endurnýja, sérstaklega er mikilvægt að skipta um ofna bak við orgelið, en fari þeir að leka hlytist af milljónatjón.
3. Smám saman er er verið að lagfæra stólana, í það þarf að skipta um böndin í þeim.
4. Uppi í turni liggur brotin klukka og er búin að gera síðan 2002. Hún verður ekki fjarlægð nema gert verði gat á vegg turnsins og nýrri komið þar í gegn í staðinn. Grindin sem heldur klukkunum uppi er afar veikbyggð.
5. Það er orðið brýnt að gera við sprungur í útveggjum kirkjunnar og mála hana.
6. Talsvert er farið að brotna úr kirkjutröppunum
og svona mætti sjálfsagt lengi telja.

Hvernig verður svo mögulegt að fjármagna þetta allt saman? Það finnst mér góð spurning.
1. Sjóðir á vegum þjóðkirkjunnar. Þær eru margar kirkjurnar sem halda þarf við.
2. Sjóðir sem viðhalda menningarverðmætum. Þau eru mörg, menningarverðmætin.
3. Ríkissjóður. Þar kemur pólitíkin við sögu og sjálfsagt ekki margir pólitíkusarnir sem treysta sér að leggja pólitískan frama sinn að veði í baráttu fyrir viðhaldi sem tengist kirkjunni.
4. Fyrirtæki. Mögulega ekki mörg sem telja það sér til framdráttar að styrkja verk af þessu tagi. Ekki veit ég það þó.
5. Einstaklingar. Það má segja að margt smátt geri eitt stórt, en ekki finnst mér ólíklegt staða kirkjunnar í samfélaginu komi til skoðunar þegar fólk veltir fyrir sér hvort rétt sé að setja fé í þetta verkefni, en þá reynir á hvort fólki tekst að gera greinarmun á kirkjunni, annarsvegar og listaverkunum, hinsvegar. Hér er hlekkur á sjóð sem hægt er að greiða í.
6. Gjaldtaka af ferðamönnum.  Þetta finnst mér sjálfsagt og eðlilegt, en við Íslendingar erum óskaplega feimnir við að láta túristana okkar borga fyrir að njóta þess sem telja má til menningarverðmæta okkar.  Við leyfum hinsvegar ferðaþjónustufyrirtækjum að hafa fé upp úr þeim, án þess að blikna. Ekki finnst mér spurning um þetta. Auðvitað eiga ferðamenn að greiða. 
7. Erlendir sjóðir - það er sjálfsagt skoðað, en um það veit ég ekkert.
8. Sveitarfélög. Ja, hver veit hvort hægt er að koamst eitthvað það það. Ætli þau eigi ekki nóg með að styðja við sínar kirkjur. Það væri varla hægt að ætlast til mikils af uppsveitahreppunum, þrátt fyrir að Skálholtskirkja hýsi flestar útfarir á svæðinu.

Svona má lengi velta hlutunum fyrir sér, en ég held, eins og ég hef áður sagt, að þetta verði torsótt, nema takist að kynna þetta verkefni sem björgun menningarverðmæta, eða þjóðargersema, frekar en sem einhvers sem kirkjan ber ábyrgð á, ein og sér.

-------------

Það hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan faðir minn og fjölskylda hans barðist í öllum veðrum til kirkju á sunnudögum til að bjarga sér frá helvítisvist.

Þessar vísur heyrðust oft við borðstofuborðið í Hveratúni, síðustu árin sem gamli maðurinn lifði:
Fyrri vísan er ort af bónda austur á Héraði sem var eitthvað illa við prestinn sinn:

Mikið er hvað margir lof´ann
menn sem aldrei hafa séð´ann
skrýddan kápu Krists að ofan,
klæddan skollabuxum neðan.
(Skollabuxur er húðin frá mitti og niður úr, en klæði menn sig í slíkar buxur skortir þá ekki fé í þessum heimi – en brenna munu þeir að eilífu í víti annars heims). 
Í sveitinni var annar bóndi og honum líkaði einnig illa við prestinn og langaði að læra vísuna. Það tók hann talsverðan tíma (3 ár, að sögn), en lokst taldi hann sig hafa náð henni. Útkoman var svona: 

Mikið er hvað margir lof ´ann
að ofan
menn sem aldrei hafa séð´ann
að neðan.

Það má hafa gaman að öllu, en mikilvægast kannski að gera greinarmun; blanda ekki saman málum.

Gerum við gluggana


21 júní, 2017

Finslit

Einhverntíma kom mér í hug, að þar sem það fólk sem telst til "vina" manns á Facebook, sé ekki endilega vinir í hefðbundinni merkingu þess orðs. Þetta er fólk sem annaðhvort kaus að tengjast þarna við þig, eða þú við það.  Þetta geta auðvitað verið allt frá bestu bestu raunverulegum vinum þínum, í að vera bláókunnugt fólk. Mér hefur aldrei fallið við þetta orð "vinur" í þessu samhengi. Þannig hefur það væntanlega komið til, að fólk talar um "facebook-vini" eða "vini á Facebook".

Þar með datt mér í hug hið frábæra nýyrði
F I N U R
sem er stytting á orðinu Facebook vinur.
Ef sú stað kemur síðan upp einhverntíma að slettist upp á finskapinn þá ófinast finirnir, eða þú ófinast við einhvern fina þinna. Það verða finslit.

Ég ófinaði þrjá fina minna í morgun.  Slíkt gerist.

Ástæðan er einföld.
Þessir finir mínir höfðu lýst sig sammála lýsingum kvenpersónu sem ég hef nýlega átt í (og á sennilega enn) einhverskonar útistöðum við. Þetta gerðu finirnir með því að smella á læk-hnapp viðkomandi. Ég skil það svo, að ef maður smellir á þennan hnapp hjá fini sínum, er maður að samþykkja það sem hann segir og taka undir það.

Ég mun nú eiga 31 fin sameiginlegan með umræddri kvenpersónu. 
Eftir viku mun ég ófina þá einnig.

Já, ég get verið svona prinsipp-maður, það sem stundum er kallað að vera einstrengingslegur, stefnufastur eða jafnvel þrjóskur (hversvegna datt mér faðir minn í hug þegar ég skrifaði þetta?). Ég á það til að taka afstöðu, sem ég stend síðan við, vegna þess, að ég álít hana snúast um grundvallaratriði.

--------

Gengi kvenpersónunnar sem um ræðir byggist á fjölda fólks sem kýs að vera í finfengissambandi við hana. Án finanna væri hún ekkert. 
Mig grunar að margir í hópi þeirra þúsunda sem eru í finfengi við hana, séu þar fyrir forvitnissakir, sem er alveg lögmæt ástæða til finfengis. Hverfi þeir hinsvegar á braut, ófini hana, hverfur einnig grundvöllurinn að veldi hennar.  Næringin hverfur og þá er ekkert orðið eftir nema hatrið og mannfyrirlitningin sem hún elur í brjósti sínu eða huga, en kemur ekki frá sér, því enginn nennir að hlusta.

Ég hef enn þá trú, að við séum nægilega skynug til að hafna þeirri aðferð sem ofangreind kvenpersóna beitir í "málflutningi sínum"

Mér finnst finur bara fínt orð, og það virkaði í öllu samhengi hér fyrir ofan, að mínu mati. 
😎
Ef einhver skyldi ekki átta sig á tilefni þessa þá er það að finna hér.

20 júní, 2017

Til Hildar

Komdu sæl, Hildur Lilliendahl Viggósdóttir.

Ég geng út frá því, þar til þú sannfærir mig um annað, að það sem þú sendir frá þér á Facebook síðunni þinn, sé ekki mynd af hinni raunverulegu Hildi Lilliendahl Viggósdóttur, heldur sé um að ræða tiltekna framhlið sem þú sýnir á þessum vettvangi og sem virðist höfða til fjölda fólks.

Ég vil auðvitað byrja á það þakka þér fyrir að vekja athygli á greininni minni, sem birtist á blogginu mínu, undir heitinu: "Aumingja konurnar".

Ég veit það núna, að þú átt marga vini á Facebook, í það minnsta viðhlæjendur, því kl. 11 að morgni sunnudagsins 18. maí tókust heimsóknir á bloggið mitt á slíkt flug að annað eins hefur aldrei gerst. (Ég þakka fyrir ef fjöldinn nær 200 að jafnaði) Það var einmitt á sama tíma og þú kaust að eyða á bloggfærsluna nokkrum vel völdum orðum á facebook síðunni þinni. Þegar þetta er ritað, eru gestir á bloggfærsluna mína orðnir nokkuð á sjötta þúsundið. Vel gert og ég ítreka þakkir mínar.

Ég fékk skýringu á þessum óvæntu vinsældum skrifa minna þetta sama kvöld, en þá fékk ég sendan hlekk á facebooksíðuna þína með þessum orðum:
"Þér hefur tekist að pirra mesta feminista Íslandssögunnar 😀"

Ég telst ekki til vina þinna eða viðhlæjenda á Facebook og hyggst ekki freista þess að breyta þeirri stöðu minni á næstunni.
Ég smellti á hlekkinn. Þarna tók þetta á móti mér:
  
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir18. júní kl. 10:51 · Hæ, litli hræddi hvíti kall. Fyrirgefðu að ég skuli hafa verið að flækjast fyrir þér í útvarpinu með allt þetta glerþak og sjálfsvorkunn. Auðvitað átti ég bara að vera meira með tippi. Man það næst. P.s. Árið sem við fögnuðum 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna var 2015, ekki 2016.

Þú hafðir fellt þinn dóm. Þú hafðir skilgreint mig. Þú varst með þetta allt á hreinu. Þarna þurfti engin grá svæði, enga túlkun. Nei, þú vissir bara hver ég var.  Það búa ekki allir yfir hæfileikum til að geta áttað sig svona vel á fólki. Til hamingju með það, Hildur. Þarna birtist þú sem sannur leiðtogi  á Facebook síðunni þinni. Þú hafðir afgreitt eitt karlrembusvínið enn "in one fell swoop" eins og segir í á einum stað í Macbeth (ég vona að þú fyrirgefir mér hrokann, en ég þykist vita að það gerirðu ekki).

Þú ávarpar mig sem lítinn kall.
Það getur meira en verið að ég sé lítill kall, ekki síst gagnvart slíku stórmenni sem þú virðist telja þig vera. Þessi litli kall sér hinsvegar ekki stórmennið, heldur leiðtogann í eineltinu á skólalóðinni, sem segir við félagana: "Tökum þennan niður!"  Þessi aðferð þín er ekki síst alvarleg, þar sem þú telur þig vera að berjast fyrir því sem þú telur rétt vera og gott í samfélaginu.

Þú ávarpar mig sem hræddan kall.
Nei, Hildur, ég fann ekki til ótta við þig. Mögulega ótta við það að aðferðir af þessu tagi séu það sem er að verða viðtekið í samfélaginu. Mögulega, eins og við flest, ótta vegna framgöngu nýs forseta Bandaríkjanna, sem er ekki af ólíkum toga og sem lesa má út úr málflutningi þínum: Hann gefur út tilskipanir sem fylgdarsveinar og fylgdarmeyja sjá síðan um að útfæra.
Nei, Hildur. Ég óttast þig ekki og ég tel mig ekki hafa látið í ljós neinn ótta í greininni sem þú afgreiddir. Kannski notaðir þú þetta orð í ávarpi þínu vegna þess að það er svo góð kveikja: "Ertu hrædduuuuuur?" (hér vísa ég aftur á skólalóðina).

Þú ávarpar mig sem hvítan kall.
Þarna hittirðu sannarlega naglann á höfuðið. Ég er hvítur karl, í þeirri merkingu, að ég tilheyri hvíta kynstofninum. Það er víst fátt sem ég get gert til að breyta því. Þú ert hvít kona, ekki sýnist mér annað.
Það kann að vera röng túlkun hjá mér, en ég held, að þú notir orðið "hvítur" í ávarpi þínu, til þess að árétta enn frekar flokkun þína á mér. Þannig myndi það teljast neikvætt að vera hvítur karlmaður, væntanlega þá vegna þess að þeir eru ekki menn að þínu skapi. Ég veit ekki, svei mér þá.
Til að gefa þér nú ekki færi á því að saka mig, á þessu stigi, um rasisma, kýs ég að taka það fram, að að seint verð ég víst sakaður um þann isma (nema þú takir upp á því).

Ég held áfram að fjalla um ávarpið þitt.

Þú biður mig að fyrirgefa þér.
Hildur, það er ekkert að fyrirgefa, því í greininni minni, vék ég ekki einu orði að þér og þú komst ekki einu sinni í hugann þar sem ég sat og skrifaði þennan, að einhverra mati, skelfilega pistil. Þú verður í staðinn að fyrirgefa mér að ég skyldi ekki hafa hugsað til þín.
Vissulega hef ég ýmislegt að athuga við málflutning þinn, eins og hann birtist á facebook síðunni þinni. Ef hann er með sama hætti þegar þú kemur fram í fjölmiðlum, þá finnst mér að þú eigir ekki heima þar.  Mér má finnast það, er það ekki?
Ég get, hinsvegar, sannarlega játað, að ég tek undir með þér, af heilum hug, þegar þú beinir spjótum þínum að ofbeldismönnum. Í þeim efnum ber harla lítið í milli, nema kannski orðavalið.
Ég átta mig ekki á tilvísun þinni í þetta með "typpið", sem þú nefnir þarna. Ég læt mér í léttu rúmi liggja hvort þú ert með typpi eða ekki. Ef þú ert almennileg manneskja er mér slétt sama.

Þú leiðréttir mig.
Ég er fyrstur manna til að viðurkenna mistök og þykir leitt að hafa farið rangt með ártalið. Ég geri mér grein fyrir að mistök eða rangfærslur í málflutningi veikja hann.

Áfram með smjörið, því þú varst ekki búin að tjá þig um mig.
(Þetta gæti farið eitthvað yfir 1000 orðin, þannig að orðateljandi þingmaðurinn gæti gefist upp, og aðrir "vinir" þínir gætu þurft að leggjast á spítala vegna líkamlegra verkja. en ég verð bara að taka því).
Í athugasemdum við stöðufærslu þína segir þú (eftir að "lækin" eru farin að hrúgast inn):

18. júní kl. 10:59
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir „Ég vona að ef einhver kýs að tjá sig með einhverjum hætti um þetta efni, þá geri hann það á eigin forsendum og málefnalega.“

Takk fyrir áréttinguna, Páll. Ég hef verið að hugsa málið eftir að ég las þessa djúpu hugleiðingu þína og ég hef komist að þeirri niðurstöðu að best sé að segja a) fokkaðu þér og b) mikið ofsalega ertu vitlaus.

Til áréttingar, þá er þetta innan gæsalappanna, tilvitnun í greinin mína.
Þú hugsaðir í heilar 8 mínútur, Hildur.  Frá 10:51 til 10:59. Ertu nú alveg viss um að þú hafir yfir höfuð lesið öll orðin í umræddri grein? Ertu nú alveg viss um að þú hafir velt fyrir þér öllu sem þar kom fram?  Fannstu virkilega ekkert, sem féll þér þar í geð? Alveg viss?  Ef  þú skyldir nú svara þessum spurningum neitandi, hljóta mín viðbrögð að verða þau að álíta sem svo að þig skorti nokkuð á að hafa trú á kynsystrum þínum.
Snýst þetta ef til vill meira um það að ég, lítill, hræddur og hvítur kallinn, hafi bara hreint ekki rétt til þess að koma inn á þitt svæði?  Er bara þín skoðun rétt, Hildur?  Ef svo er, hver er þín skoðun, og í hverju víkur hún frá minni?  Þetta er ekki svona "Ein Volk, ein Reich, ein Führer"- dæmi, er það?

Segðu mér nú hvað það er sem þér finnst vera rétt. Leyfðu mér svo að velta fyrir mér, að hve miklu leyti við erum sammála um málin.  Þó þú sért kannski "mesti feministi Íslandssögunnar" eins og stóð í skilaboðunum sem ég fékk, þá tel ég ekki að þú búir ein yfir réttinum til að segja hvað er rétt og hvað er rangt.  Sannleikurinn er ekki þín eign, Hildur.
Þú hefur auðvitað fullan rétt á að tjá skoðanir þínar og birta öðrum sannleikann eins og hann blasir við þér, en heldur finnst mér nú fátækleg afgreiðsla þín á skoðunum mínum. Þú dæmir þær ekki heldur mig.  Fellur það vel að þeirri hugmyndafræði sem þú byggir framgöngu þína á, svona almennt séð?

Niðurstöður þínar eru, svo því sé nú haldið til haga:
a) fokkaðu þér 
Ekki efast ég nú um að þetta sé það sem þér finnst rétt að segja við mig. Hildur. Það skal ég segja þér, að í mínum eyrum, að teknu tilliti til hvaðan það kemur, er þetta hrósyrði.
b) mikið ofsalega ertu vitlaus
Viðbrögð mín við þessu gullkorni, þessari orðkyngi, eru þau sömu og við a-lið.

Ég reikna með, að þú teljir þetta hafa verið náðarhöggið;
Þarna væri þetta ömurlega og heimska karlrembusvín endanlega afgreitt.
Dómur fallinn.
Hvað var hann líka að voga sér inn á svið sem honum kemur ekki við og þar að auki með rangar skoðanir?
Vel gert, Hildur, eða þannig.
"Þú ert flottust!", 
"Burn! Djöfulsins meistari ertu Hildur!"
(svo vitnað sé til tveggja áhangenda þinna, reyndar við önnur innlegg þín á síðunni þinni).

Þú kemur næst við sögu í Facebookfærslu þinni þegar háskólaprófessorinn í hópnum spyr:

"Hvur er þessi náungi?" ·
18. júní kl. 13:47
Hildur Lilliendahl Viggósdóttir Kennir í Menntaskólanum á Laugarvatni.
· 18. júní kl. 14:36
NN1:  nei hann er nýhættur störfum. Útskýrir kannski eitthvað...
· 18. júní kl. 15:18
NN2: Eins gott að þau eru að fá stórkvendið NN3 sem kennara!
· 18. júní kl. 15:50
Háskólaprófessorinn: Hildur Lilliendahl Viggósdóttir Púff!

Ég kýs að nafngreina ekki vini þína eða viðhlæjendur hér, þar sem ég er með þessum skrifum að beina máli mínu til þín, Hildur, þar sem þú ert ritdómarinn. Hinir koma síðan inn, einn af öðrum til að setja sinn lit á "umræðuna", og er þar allt á einn veg, eins og ég hefði svo sem getað sagt mér sjálfur.

Þú leiðréttir mig, réttilega varðandi ártalið og því er mér ljúft að leiðrétta þig. Ég hef ekki starfað sem kennari við Menntaskólann Laugarvatni síðastliðin 7 ár, svo því sé nú haldið til haga.   Jafnframt vil ég fara fram á að þú blandir Menntaskólanum Laugarvatni ekki inn í umfjöllun þína um mig eða skoðanir mínar.  Sannarlega er þar og hefur verið afskaplega öflugt skólastarf og þar eru jafnréttismál í öruggum höndum (þú berst fyrir jafnrétti, er það ekki, Hildur? - jafnrétti til að halda fram ólíkum skoðunum, jafnvel?). 

Mér er ljúft að upplýsa þig um það, Hildur, að ég starfaði við skólann í rúmlega 30 ár, fyrst sem kennari, síðan sem kennari og námsráðgjafi, þá sem aðstoðarskólameistari, til að byrja með ásamt kennslu, þar til s.l. haust að ég fór á eftirlaun, en ég var áfram í hlutastarfi með starfstitilinn ráðgjafi og verkefnastjóri. Ég er nú á 64. aldursári. Vonandi fyllir þetta að einhverju leyti inn í mynd þina af mér.
Þá hef ég svarað spurningunni sem háskólaprófessorinn varpaði fram: "Hvur er þessi náungi?"  
Í samskiptunum sem sjá má hér fyrir ofan, og sem tekin eru af  facebooksíðu þinn, er aðeins eitt sem ég átta mig ekki á: "Hildur Lilliedahl Viggósdóttir Púff!" háskólakennarans.  Ég er dálítið forvitinn um það hvað hann á við.

Niðurlag
Ég skrifaði grein og kallaði hana "Aumingja konurnar", á bloggsvæði mitt. Þar er hægt að skrá athugasemdir og það hefur einn gert það, kurteislega og málefnalega, að ég tel.  
Þú kaust, Hildur, að fella þinn dóm, á þínu heimasvæði, þar sem tínast inn þúsundir vina þinna eða viðhlæjenda um leið og þú byrjar að slá inn skoðanir þínar eða fella dóma um menn og málefni.   
Ekki áfellist ég þig fyrir það, það er þitt val, en þú gerir þér væntanlega grein fyrir ábyrgð þinni gagnvart fólkinu sem fylgir þér.
Það hvarflar að mér, að það sé þér efst í huga við dómana sem þú fellir, að upphefja sjálfa þig á kostnað annarra, í stað þess að velta fyrir þér hvort það er rétta aðferðin við að vinna þeim málefnum sem þú segist berjast fyrir, fylgi.   Það voru ríflega 5000 manns sem opnuðu bloggfærsluna mína. Hve margir lásu hana og veltu innihaldi hennar fyrir sér, veit ég ekki. Ég veit að sumum fannst tíma sínum illa varið við lesturinn, allt í lagi. Sumir fundu til líkamlegra óþæginda, og það þykir mér leitt, auðvitað. Brugðust sumir við, án þess að lesa greinina; treystu þér bara til að dæma hana "rétt"?.

Einn álitsgjafinn sagði: Held að svona pistill eins og hann er að skrifa flokkist undir þöggunartilburði og er dæmigert karlrembufyrirbæri.
Já, það er með þetta hugtak, þöggun, Hildur. Finnst þér þinn málflutningur geta flokkast þannig, Er til einhver handbók þar sem hægt er að lesa sér til um þetta hugtak? Fer merking þess í manngreinarálit?

Jæja, Hildur. Nú er þessi pistill orðinn rúmlega 2000 orð (2242), og þingmaðurinn væntanlega farinn að bæta hag barna, öryrkja og aldraðra, hvað veit ég? Einhverjir eru búnir að eyða dýrmætum tíma af lífi sínu. Þú búin að fella dóminn. Allt eins og vera ber, ........eða?

Ég lét mig hafa það að setjast við þessar umtalsverðu skriftir, vegna þess að mér mislíkar hvernig þú afgreiddir skoðanir mínar og persónu mína. Það gerðir þú með því að reyna að gera lítið úr mér sem persónu, þó þú hefðir aldrei heyrt á mig minnst. Ég fer auðvitað fram á að þú biðjir mig afsökunar, en veit að það verður víst aldrei, enda tel ég að slík afsökun hefði ekkert raunverulegt innihald. 

Eins og ég sagði í upphafi, þá held ég að framganga þín á facebook síðu þinni, sé ekki það sem þú ert í raun. Ég veit það auðvitað ekki. Kannski ertu bara að þessu til að búa til "sensasjón", því það er sensasjón sem gengur í "pöpulinn". Hver veit?

Njóttu dagsins og megi þér ganga vel að takast á við þau verkefni sem lífið færir þér.
----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

VIÐBÓT 
vegna framhalds málsins.

Þessa viðbót set ég inn í framhaldi af því að Hildur fór að gera athugasemd við pistil sem ég hafði skrifað í framhalda þessa og bar titilinn FINSLIT.  Hann fjallar í sem stystu máli um að ég hygðist fjarlæga snertifleti milli mín og konunnar á Facebook.

Hér birti ég samskipti okkar Hildar við þetta tækifæri:

19 júní, 2017

Ævintýri á gönguför

Ég fór út að ganga í gær, sem er ekki í frásögur færandi. Þetta geri ég oft og tel mig hafa harla gott af því. Göngutúrar hressa líkama og sál, ekki síst þegar maður er kominn á minn aldur. Ég hef um ýmsar leiðir að velja hér í Laugarási: hringinn, upp Bæjarholtið, út á Höfðaveg, í áttina að Skálholti, jafnvel hestastiginn, niður að brú, út að Iðu, upp í Vesturbyggð og svo má lengi telja. Ég þekki þessar leiðir orðið afskaplega vel, hver annarri skemmtilegri og fegurri.

Ýmsir nágrannar mínir eiga hund og eins og hunda er síður, gelta þeir þegar ég nálgast lóðina, alveg þar til þeir bera kennsl á mig. Þá koma þeir kannski til mín að taka við eins og einu litlu klóri bak við eyrað, áður en þeir rölta aftur inn á svæðið sem þeir voru að verja.  Það kemur meira að segja fyrir að þeir koma með mér í göngutúrinn, skoppa í kringum mig, baða sig í Undapollinum, eða elta fugla. Mér finnst hreint ekki leiðinlegt að hafa svona skemmtileg dýr í för með mér.

Nú bar svo við í gær, að ég valdi enn nýja leið. Mér finnst nefnilega gott að breyta til við og við.  Þar sem ég nálgaðist eina lóðina byrjaði hundur að gelta. Hundar, sem ekki þekkja mig gelta hátt og ógnandi, eins og eðli þeirra bíður þeim. Þar sem ég kom að lóðarmörkum ágerðist geltið, og hundurinn nálgaðist lóðarmörkin, setti upp kambinn, og sýndi tennurnar, en það hefur nú svo sem oft gerst, en það sem meira var, út úr einhverjum kofa við hliðina á íbúðarhúsinu tóku að birtast fleiri hundar, af öllum stærðum og gerðum og geltu eins og þeir ættu lífið að leysa.  Úr þessu varð mikil hundgá og engu líkara en þeir væru að reyna að yfirgnæfa hver annan.

Þar sem ég sá ekki fram á, að mér tækist að róa þá alla og sætta þá við þá tilhugsun að ég væri ekki þarna kominn til að skaða þá eða húsbónda þeirra og var jafnvel hálf smeykur við allan þennan hávaða, tók ég það ráð að halda áfram göngu minni. Gekk mína 4 kílómetra, valdi aðra leið til baka og komst heim, endurnýjaður maður.  Auðvitað skíthræddur við hundahópinn, en vissi að ég þyrfti ekkert að velja þessa leið aftur.
Það er nóg af gönguleiðum í Laugarási.

17 júní, 2017

Þjóðhátíðarávarp vort

Kæru Íslendingar.
Vér erum þjóð meðal þjóða. Vér ölum aldur vorn við ysta haf, langt fá heimsins vígaslóð. Land vort er dýrt og á hátíðastundum sem þessum, biðjum vér Drottin að geyma það, þjóðina, tunguna, jöklana, dalina, firðina, sjávarþorpin og hvaðeina sem oss dettur í hug að biða Drottin að geyma.

Á þessum degi ár hvert freistum vér þess að vekja með oss þjóðerniskennd, dásama þá staðreynd að vér tilheyrum frjálsri þjóð í frjálsu landi. Forsætisráðherra vor tjáir gleði sína yfir lífinu og tilverunni og að vér höfum aldrei fyrr notið jafn ríkulega af öllu því góða sem lífið getur fært oss. Hann leyfir því að fylgja með, undir rós, að líf vort sé svo óumræðilega gott fyrir hans tilstilli. Vér virðumst trúa því sem forætisráðherra vor og aðrir ráðamenn segja oss um líf vort. Vér trúum því litla stund að vér séum ein þjóð, eitt ríki með einn leiðtoga og það sé allt sem þarf til.

Oss finnst þægilegt að heyra hve gott líf vort er og vér köllum fram á sviðið Fjallkonuna sjálfa, kjarna þess sem vér erum, og felum henni að flytja gamalt ljóð, sem ætlað er að minna oss á hver vér erum í raun. Auðvitað er Fjallkonan oft leikkona í hlutverki, eða falleg stúlka, klædd í skautbúning af tilefninu.

Þetta árið má allt eins búast við að undir faldinum leynist Glock.
Vér erum víst ekki svo langt frá heimsins vígaslóð lengur. Vér erum víst ekki lengur þjóðin sem barðist fyrir frelsi sínu með ljóðum.  Hver erum vér þá?

Vér erum þjóðin sem þjáist vegna smæðar sinnar og þráir að verða stærri. Vér viljum tilheyra því sem stærst er og öflugast, en ekki því sem er minnst og veikast. Vér teljum oss vera þjóð sem rúmast ekki í landi við ysta haf, landinu bláa með jökla, víðerni, sindrandi bárur sem falla í drafnar skaut til að deyja.Vér erum þjóðin sem leitum annað að fyrirmyndum,en til feðra vorra og mæðra. Vér erum þjóðin sem krefst alls, en vill fátt gefa. Vér erum þjóðin sem tileinkar sér menningu sem tilheyrir öðrum þjóðum fremur en þeirri sem oss er falin.  Vér erum þjóðin sem vill gleyma því sem Fjallkonan er látin fara með einu sinni á ári. Fokk it, að það sé eitthvað annað en upplestur leikkonu á rómantískum kveðskap eftir löngu dauðan kall.

Kæra þjóð.
Oss tekst vel að feta þá braut sem vér teljum að leiða muni oss, börn vor og barnabörn til fyrirheitna landsins, lands hinna frjálsu og hugrökku.
Vér þekkjum betur til í því landi en voru eigin landi (á hverjum degi fáum vér greinargóðar upplýsingar um hvernig veðri þar er háttað), enda teljum vér menningu vora og sögu fremur lítilmótlega. Vér kunnum betur tungu hinnar frjálsu og hugrökku þjóðar, en tunguna sem sögur vorar voru ritaðar á.  Hvað höfum við svo sem  að gera við gamla sögu. Vér teljum oss betur borgið með því að vita sem minnst um hana. Framtíðin er oss ekki heldur ofarlega í huga.
Vér lítum svo á að lífið sé núna, fortíð eða framtíð sé ekki málið.
Vér höfum tileinkað oss og alið með drauminn, íslenska drauminn, drauminn um að dag einn blasi við okkur tækifæri til að verða auðug og valdamikil. Þessi draumur endurspeglast í vali voru á höfðingum til að leiða oss veginn, þar sem draumur vor, hinn íslenski draumur, gæti ræst.

Já, kæra þjóð. Vér lifum núna. Hvernig vér lifum, skiptir að voru mati harla litlu máli. Vér lifum. Vér förum í biðröð til að kaupa kleinuhring, þegar oss langar í kleinuhring, ekki síst ef sá kleinuhringur hefur ratað hingað alla leið yfir hafið. Vorir kleinuhringir eru síðri, þeir flytja ekki með sér ilminn af þeim menningarheimi sem vér viljum tilheyra og sem draumur vor tekur mið af.

Nú erum vér farnir að gelta og ýlfra á samkomum, eins og kúasmalar í landi frelsis og hugrekkis. Vér höfum uppgötvað annarskonar sannleik, sannleik sem er bara okkar og eigi annarra. Vér höfum tekið í sátt hugmyndina um að með Glock takist okkur að bægja frá hinu illa.

Jú, kæra þjóð. Vissulega eigum vér sögu. Sagan sú er þyrnótt, bæði vegna legu lands vors við ysta haf, eðlis landsins og draumsins, íslenska draumsins, sem ýmsir samlandar vorir, fyrr og nú hafa þráð svo heitt. Þetta er draumurinn um efnislega hagsæld og völd til handa sér og sínum, en ekki draumurinn um velferð allra. Hvurskonar draumur væri það nú?
Saga vor hefur einnig krýnst rósum, bæði vegna legu lands vors við ysta haf , vegna eðlis þess og vegna draums, ekki hins íslenska draums, heldur draumsins um að oss takist að eflast sem þjóð á eign verðleikum. Að oss takist að verða þjóð meðal þjóða, þjóð sem geltir ekki þegar hún fagnar velgengni listamanna sinna,




Hvort sem krýnist þessi þjóð 
þyrnum eða rósum
hennar sögur, hennar ljóð,  
hennar líf vér kjósum. 
Ein á hörpu ísa og báls 
aldaslag síns guðamáls 
æ hún leiki ung og frjáls 
undir norður ljósum. 
                                                                                  (Jóhannes úr Kötlum)




15 júní, 2017

Aumingja konurnar.

Ég er ekki enn viss um að ég láti verða af því að senda þennan pistil frá mér þannig að hann birtist hverjum sem lesa vill (það gerðist nú samt). Ég hyggst samt skrifa hann, því ef ég geri það ekki, held ég bara áfram að burðast með efni hans í höfðinu. Þetta efni vill komast út og nú reynir á.
Við lifum tíma þar sem maður þarf að gæta að hvað maður segir og jafnvel hvað maður hugsar. Ég er sammála því að maður eigi að gæta að því hvað maður lætur frá sér og ekki síst HVERNIG maður tjáir það.

Tilefni þessa pistils er svosem ekkert merkilegra en efnisval á útvarpsrás.

Árið 2016 var haldið upp á að það voru 100 ár liðin frá því konur fengu kosningarétt. Ég tók það ekki og tek það ekki til mín að þær skyldu ekki  hafa fengið hann á sama tíma og með sama hætti og karlar. Það var þá og á ábyrgð annars fólks.

Margt hefur áunnist og ég fæ ekki betur séð, en konur á þessu landi á þessum tíma geti staðið, á heildina litið, við hlið eða framar körlum, alveg nákvæmlega eins og hugur þeirra stendur til. Það sama á við um karla, svona þegar á heildina er litið.
Barátta kvenna fyrir þessari stöðu hefur verið löng og ströng og að mestu skiljanleg.

Hvað um það. Árið 2016 var árið sem minnst var 100 ára kosningaréttar  kvenna. Það var gert með ýmsum hætti eins og gengur.  Ég var búinn að fá upp í kok af dagskrá fjölmiðla, sérstaklega á RUV, sérstaklega Rásar1 (Rásinni þar sem ég, aldurs míns vegna, finn helst eitthvað sem höfðar til mín). Ekki opnaði ég fyrir þá rás öðruvísi en þar væri verið að fjalla um aumingja konurnar, hvað þær ættu nú bágt í þessum heimi þar sem karlar hafa völdin og hafa sett upp glerþök og glerveggi til að halda þeim á viðeigandi stað.  Allt sem stendur í vegi fyrir því að konur fái að njóta sín og vera þær sjálfar, eru víst karlar.

Eftir að hafa, með fjórðungi úr eyra, hlustað á kvartanir yfir þeirri valdníðslu karla og ofbeldi sem á að vera ástæðan fyrir bágri stöðu kvenna, allt árið 2016, hugsaði ég sem svo, að þegar árið 2017 gengi í garð, myndi komast eitthvert jafnvægi á. En það hefur ekki gerst: áfram heldur þessi "væll" um bága stöðu kvenna, sem er körlum að kenna.  Þetta gengur svo langt, að ég er farinn að leita á aðrar rásir frekar, jafnvel "Lindina" frekar en Rás 1.

Þegar hér er komið reikna ég með að einhver lesenda sé þegar farinn að hita fingurna fyrir lyklaborðsásláttinn. Farinn að tína fram orðin sem hægt væri að nota um svona karlrembusvín eins og mig. Farinn að tína til orðin sem lýsa mér og skoðunum mínum, orð eins og "staðalmyndir". 

Í framhaldi af hér að ofan skrifaðri bunu vil ég segja þetta:

Konur, gerið nákvæmlega það sem ykkur langar að gera. Gerið það, en hættið þessum endalausa orðaflaumi um það. 
Fjandinn fjarri mér, að það skipti mig máli eða að ég sé eitthvað mótfallinn því. 

Ef ykkur langar að fella "karlavígi", þá skuluð þið bara gera það. Kynsystur ykkar gegna æðstu embættum meðal þjóðríkja og standa sig alla jafna engu síður en karlar í þeim hlutverkum. Þar héldu engin "glerþök". Kynsystur ykkar eru í forystu stjórnmálaflokka, í æðstu embættum, stýra menntastofnunum, hafa nánast alvald í grunn- og leikskólum.
Kynsystur ykkar eru vélvirkjar, rútubílstjórar, leiðsögumenn, framkvæmdastjórar, bankastjórar, sjómenn. Er eitthvert vígi eftir?

Ef ykkur langar að vera eins og karlar, þá skuluð þið bara gera það. Er einhver sem neyðir ykkur til að klæða ykkur eins og konur hafa klæðst og/eða klæða sig? Er einhver sem neyðir ykkur til að raka á ykkur fótleggina? Er einhver sem bannar ykkur að vera með skegg, eða skalla, eða hrjúfa húð á andlitinu?
Gerið bara nákvæmlega eins og ykkur finnst best henta ykkur.
Ef þið teljið eitthvað hamla ykkur í lífinu, brjótið það þá niður.
Hefur ykkur dottið í hug að vandinn geti legið hjá ykkur sjálfum, frekar en körlum?
Getur það verið að stór hluti kvenna vilji bara vera konur, sjái ekki tilgang í því að reyna að vera eins og karlar og finnist það bara ekki eftirsóknarvert (staðalmyndir)?

Getur það verið að þetta snúist að stórum hluta um ykkur sjálfar? Viljið þið kannski að karlar eða aðrar konur komi til ykkar og færi ykkur allt á silfurfati? Þurfa ekki allir að hafa fyrir hlutunum?
Eigum við ekki öll að fá að vera eins og við erum?
Ykkur finnst kannski að grasið sé eitthvað grænna þarna hinumegin, þar sem typpið er?

Bæði kynin hafa sína djöfla að draga og bæði kynin búa við ýmsa kosti, sem eru bara þeirra. Sjálfsagt er enn talsvert í land með að karlar og konur gangi á þessari jörð sem algerir jafningjar á öllum sviðum. Kannski næst það aldrei fyllilega, einfaldlega vegna þess að þarna er um að ræða tvö kyn sömu spendýrategundar, sem náttúran hefur úthlutað mismunandi eiginleikum og er eitthvað að því?

Ef þið hættið að fella mig inn í einhverjar "staðalmyndir" og hættið að kalla mig nauðgara og ofbeldismann, þá er ég bara sáttur.

Ef ykkur, ágætu konur, finnst að þið séuð órétti beittar, rísið þá upp, á eigin verðleikum og sækið það sem ykkur ber.  Það eru mistök, að mínu mati, að kalla eftir réttindum til handa konum með því að tala út í hið óendanlega um hversu bágt þær eiga vegna mannvonsku karla.  Ég vil nú halda því fram, að bágindi þeirra séu síst meiri en karla. Líklega öðruvísi, en hreint ekki meiri. Ég ræð ykkur að skoða fyrirmyndirnar sem hvarvetna blasa við, og fara síðan þangað sem þið viljið.

Við erum öll mismunandi og engin leið að ætla að setja alla í einhvern einn flokk. Bæði yrði það skelfilega leiðinlegt og litlaust líf, og myndi sennilega ekkert bæta í þessum heimi okkar.

Hér með fer ég fram á það, að þættir um kúgun kvenna verði eingöngu á RÁS 1 einu sinni í viku.

Svo bæti ég því við að ég mun með engum hætti bregðast við athugasemdum við þennan pistil nema einhver troði mér inn í einhverja "staðalmynd".

Ég vona að ef einhver kýs að tjá sig með einhverjum hætti um þetta efni, þá geri hann það á eigin forsendum og málefnalega.

10 júní, 2017

Forsetaheimsókn í máli og myndum

Í gær var tekið á móti Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni í Bláskógabyggð. Um heimsóknina verður vísast fjallað annarsstaðar.  Forsetinn kom í Laugarás, ásamt konu sinni Elízu Reid og heilbrigðisráðherranum Óttarri Proppé. Tilefnið var undirritun samnings um Heilsueflandi samfélag í Bláskógabyggð.
Þessi heimsókn í Laugarás fór nú ekkert sérlega hátt og ekki mikill mannfjöldi á staðnum, en þetta var samt hin ágætasta viðkoma þjóðhöfðingjans og heilbrigðisráðherrans.
Þarna hafði ég reyndar hlutverk, sem fólst í því að renna yfir sögu heilsgæslu á svæðinu. Til þess voru mér ætlaðar 5-10 mínútur, en það má telja fremur knappan tíma, en reyndist niðurskurður efnis fremur strembið verkefni.
Úr því ég lagði í þessa vinnu, birti ég hér það sem ég þarna hafði fram að færa, auk ýmissa þátta, sem ég sleppti, tímans vegna.

Hlekkur á myndir frá heimsókn í Laugarás og Aratungu

Sigurjón Kristinsson, Anna Ipsen og forsetahjónin
Saga læknisseturs/ læknasetur og heilsugæslu í Laugarási hefur ekki enn verið skrifuð nema að hluta, en Bjarni Harðarson, sem á hér rætur,  birti ágæta samantekt í riti Sögufélags Árnesinga fyrir rúmum 20 árum.
Ég ætla að stikla á stóru í samantekt Bjarna og bæta við eftir því sem mér finnst hæfa.

Laugarás er ekki sérstaklega þekktur sögustaður, enda hefur staðurinn staðið í  skugga Skálholts frá fyrstu tíð. Líklega er eitt það merkilegasta sem nefnt hefur verið um staðinn, að hér lést Ketill biskup Þorsteinsson í laug árið 1145. 
Þá hefði verið gott að hafa lækni á staðnum.
Laugin er ófundin en leit stendur yfir.

Það má halda því fram, að heilsugæsla hafi hafist í Laugarási með Guðmundi Vigfússyni hómópata (smáskammtalækni) 1883, en þá keypti hann jörðina og bjó hér fram að aldamótum. Hann hvarf þá á braut, en átti jörðina til 1917, en þá keypti hana Guðmundur Þorsteinsson, sonur Þorsteins bónda í Höfða og Guðrúnar Guðmundsdóttur, konu hans. Guðmundur var móðurbróðir Guðrúnar Víglundsdóttur, en hún bjó í Höfða til 1980.

1875 var stofnað með lögum læknishérað Árnessýslu, en 1896 var settur læknir í aukalæknishéraði Árnessýslu með aðsetur á Kiðjabergi í Grímsnesi. 
Magnús Ásgeirsson var skipaður í embættið. Hann þjónaði því svæði sem nú kallast alla jafna uppsveitir Árnessýslu.

1899 var Grímsneshérað stofnað og fyrsti læknirinn var Skúli Árnason. Hann tók Skálholt á leigu og var þar með heilmikinn búskap til 1927 og gegndi stöðu héraðslæknis til 1921.
Þegar hann lét af störfum þurfti að finna stað fyrir læknissetur og Laugarás varð fyrir valinu, enda landfræðilega miðsvæðis.
Jörðin var keypt af Guðmundi Þorsteinssyni fyrir 11000 krónur. Hann mun hafa fengið bakþanka og reynt að rifta sölunni þear honum hafði verið bent á að líklega væri mikið verðmæti í jarðhitanum.  
Á fjárlögum 1922 fékk  Sýslunefnd Árnessýslu kr.10.000, til kaupa á Laugarásjörðinni. Í ræðu sem Jón Eiríksson í Vorsabæ flutti 1977 segir að framkvæmdanefndin, sem oddvitar uppsveitahreppanna höfðu valið til að gera tillögu að jarðakaupum, hafi keypt LAugarásjörðina á kr. 11.000. Ekki kemur fram hvaðan það fé er komið, en hafi það komið úr ríkissjóði í gegnum sýslunefnd Árnessýslu, sýnist mér líklegt að uppsveitahrepparnir hafi lagt fram kr. 1000 af þeim 11000 sem jörðin kostaði.
Það var einn hængur á þessari staðsetningu læknisseturs. Það var engin brú  á Hvítá milli Ölfusárbrúarinnar við Selfoss og Brúarhlaða, en við Brúarhlöð hafði verið sett bráðabuirgðabrú vegna konungskomunnar 1907. 
Það kom ekki akvegur milli Laugaráss og Spóastaða fyrr en 1931. Til að komast yfir Hvítá að öðru leyti, þurfti að nota ferju og við Laugarás voru tvær lögferjur. Milli Skálholtshamars og Iðuhamars, þar sem brúin stendur nú og við Auðsholtshamar.

En Laugarás var keypt og fyrsti læknisbústaðurinn var hús sem hafði verið byggt vegna konungskomunnar 1907, við Geysi.  Það var tekið niður og flutt í Laugarás. Það var bárujárnsklætt að utan en panilklætt að innan. Flutningarnir fóru fram í kalsarigningu og panillinn verptist. Þetta hús hun ekki hafa reynst vel, var víst hálfgerður hjallur, en var samt  eitt af fyrstu húsum hér á landi sem hitað var með hveravatni.
Á síðari hluta fjórða áratugarins var byggt hús á tveim hæðum þar sem læknirinn bjó á efri hæðinni og læknastofa á þeirri neðri.
Þannig var þetta til 1966 þegar tekin var í notkun sambyggð heilsugæslustöð og læknisbústaður hér í Launrétt . Enn var bara einn læknir starfandi og hann sá um alla læknisþjónustu á svæðinu auk þess að reka lyfsölu. 

1970 höfðu umsvifin aukist, ekki síst vegna byggingaframkvæmda við Búrfell. Þá var ákveðið að bæta við lækni og hjúkrunarfræðingi og byggja annan læknisbústað. Einnig var byggt við lækningaálmu heilsugæslustöðvarinnar.  Þar var hinsvegar ekki aðstaða nema fyrir einn lækni í einu
Frá því á fyrri hluta áttunda áratugarins hafa starfað hér tveir læknar í senn.
  
1997 var þetta húsnæði síðan tekið í notkun og gerbreytti allri aðstöðu heilsugæslunnar, auk þess sem hér er starfsstöð velferðarþjónustu Árnesþings. Gamla heilsugæslustöðin hýsir nú lyfsölu.

2004 var heilsugæsla hér flutt undir hatt Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, og ekki er því að neita, að það skapaði hér ákveðinn ótta við að þar með færðist læknisþjónusta í uppsveitunum í auknum mæli á Selfoss.
Nú er meiri ástæða en oft til að efla frekar en draga úr.
Íbúarnir á svæðinu voru tæplega 2000 þegar fyrsti læknirinn tók til starfa 1922. Nú eru þeir rétt um 3000.
Það má segja að það sé aðallega þrennt sem kallar á að vel verði haldið á spöðunum hér í uppsveitum:
-          nú eru ríflega 7000 frístundahús á svæðinu, en þeim hefur hefur fjölgað um 3000 á síðustu 20 árum.
-          fjöldi ferðamanna er vel á aðra milljón á ári og þeir leggja hingað leið sína í stórauknum mæli allt árið
-          miklu meiri kröfur fólks til heilsugæslunnar.
  

Læknarnir í Laugarási. 

Það má segja að við höfum verið afar heppin með lækna, svona á heildina litið.
Óskar Einarsson
1922 var Óskar Einarsson skipaður læknir. Þá var ekki búið að ljúka húsbyggingu og til að byrja með var hann með aðsetur í Birtingaholti.
Óskar staldraði stutt við, eða til hausts 1924.  Hann „...., þoldi ekki ferðalög á hestbaki í þvi stóra héraði,...“. – segir í minningargrein um hann.
„Það stóra hérað" er milli 7 og 8000 ferkílómetrar (líklega ríflega 2000 ferkílómetrar í byggð), ívið stærra en hin danska eyja Sjáland.

Við af Óskari tók Sigurmundur Sigurðsson sem var hér í ein 7 ár. Hann barðist fyrir lagfæringum á húsinu. Eftir hann tók Ólafur Einarsson við. Hann starfaði hér í ein 15 ár og tók slíku ástfótri við staðinn að hann byggði hér sumarhús og var hér sumargestur með fjölskyldunni svo lengi sem hann hafði heilsu til.
  
Ólafur H. Einarsson
Sigurmundur Sigurðsson
Knútur Kristinsson
1947 kom Knútur Kristinsson til starfa og stóð við 8 ár á eftir honum Jón G, Hallgrímsson  í tvö ár.  Hann hvarf á braut þrem mánuðum áður en ný brú á Hvítá var tekin í notkun.
Grímur Jónsson varð fyrsti læknirinn í Laugarási sem komst í vitjanir yfir Hvítá á jeppanum sínum, sem var um skeið  Austin Gypsy, sem okkur sumum fannst algjör drusla í samanburði við Land Rover.
Í desember 1957, fyrir 60 árum, var brúin opnuð og með tilkomu hennar breyttist afar margt.
Grímur var hér í 10 ár.
Konráð Sigurðsson var næstur, en hann var síðasti læknirinn til að gegna héraðinu einn. Hann var hér að mestu frá 1967- 1983. Guðmundur Jóhannsson var ráðinn með Konráð 1973 og var hér í um 10 ár.
  
Jón G. Hallgrímsson
Grímur Jónsson
Konráð Sigurðsson
Guðmundur B. Jóhannsson
Eftir það hófst lengsti og ég vil segja farsælasti tíminn í sögu heilsugæslu í uppsveitunum með því Pétur Skarphéðinsson og Gylfi Haraldsson komu á svæðið.  Þeir störfuðu hér frá byrjun 9. áratugarins, þar til þeir létu báðir af störfum vegna aldurs á síðasta ári, eða í rúma þrjá áratugi.

Hvað sem má segja um þróunina úr húskofa sem hélt varla vatni eða vindum í glæsibyggingu eins og þessa, þá stendur það eftir sem lýtur að mennskunni í þessu öllu saman.  
Læknir er ekki betri eða verri læknir vegna þeirra aðstæðna sem hann býr við.
Það er manneskjan sem gerir gæfumuninn.
Læknirinn fæst við fólk, oft á erfiðustu og viðkvæmustu augnablikum lífsins. 
Læknir sem býr meðal okkar, þekkir okkur, deilir kjörum með okkur, skilur okkur, leggur sig fram í þágu okkar. Það er læknirinn sem við viljum hafa.  Við höfum lengst af notið þess að hafa lækna af þessu tagi. Þannig viljum við auðvitað að því verði háttað áfram.

05 júní, 2017

Af barnasprengjukynslóðinni

Ég hef nefnt það hér, að ég fermdist árið 1967. Um fermingaraldurinn verður tónlistin í kringum
mann á einhvern hátt mótandi afl í lífinu. Unglingar eru alltaf með tónlist við höndina og máta hana við tilfinningar sínar. Ég hef haldið því fram að tónlistarlega séð tilheyri ég einni heppnustu kynslóð sem uppi hefur verið.
Hér ætla ég að sýna nokkur dæmi um það sem ég á við, en þau eru öll frá árinu 1967, fermingarárinu mínu. Þetta er bara örlítið brot af því sem átti þátt í að móta mig. Það má eiginlega segja að út frá tónlistinni sem kom fram á unglingsárum hefi ég að einhverju leyti tekið stefnur í lífinu, eða mótað mér lífsskoðun. Það á vísast við um alla unglinga á öllum tímum: tónlistin á mótunarárunum hjálpar þeim í einhverjum skilningi að finna sig.
Á þessu ári byrjaði hippamenningin, svokallaða, að festa rætur. Við vorum aðeins of ung til að tileinka okkur hana, en það munaði ekki miklu.
Næstu árin báru keim að hippamenningunni hjá okkur; sítt ár, litríkur fatnaður, peace merki um hálsinn, útvíðar buxur, þykksólaðir skór.

Þá að dæmunum:
1.  Ég þarf auðvitað ekki að minnast á Bítlana sem gáfu út eitt mesta stórvirki sitt "Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band". Ekki þarf að hafa mörg orð um það, en ekki held ég að ég hafi þá leitt mjög hugann að innihaldinu í þessu lagi. 



2. Um miðjan maí, nánast sama dag og við fermingarsystkinin staðfestum skírn okkar í Skálholti, rataði þetta lag inn á vinsældalista. Það var og er, að mínu mati ein þeirra perla sem standa upp úr meðal þeirrar tónlistar sem síðan hefur hljómað. Já, já, maður verður að taka stórt upp í sig. 


3. 10 dögum eftir ferminguna hélt þessi snillingur tónleika í Stokkhólmi.


4. Það var líka margt léttara, eins og t.d. þetta:


5. Og svo var þetta líka, sem ég, með réttu eða röngu, tel hafa átt þátt í að skapa það sem síðar varð að hippamenningunni, með blómabörnin sín. Sumarið 1967 hreiðruðu ungmenni um sig í ákveðnu hverfi San-Francisco með blóm í hárinu og ást og frið á vörum.



Ég gæti haldið lengi áfram við að flytja ykkur í huganum 50 ár til baka, þegar 10 Tungnamenn gengu upp að altarinu í Skálholtskirkju og sögðu "Já" við spurningu prestsins.  Kannski var sá tími ekkert sérlega merkilegur, eða frábær meðan á honum stóð, en hann hefur þroskast einstaklega vel.

Í Skálholtskirkju, 14. maí 1967.  Myndin er spegluð eins og glöggir munu sjá.




04 júní, 2017

Uppeldi og viðhald

Það fæðist barn í þennan heim, sem er vissulega ekki í frásögur færandi, í það minnsta ef það er ekki þitt barn eða þinna.
Foreldrarnir eru yfirmáta stoltir af litlu krúttbollunni sinni og kalla eftir því, með myndum af afkvæminu, að aðrir "læki" myndirnar á ólíkustu miðlum og skrifi jafnvel eitthvað yfirmáta fallegt um krúttsprengjuna.  Þetta er ekkert undarlegt í sjálfu sér, enda ung börn yfirleitt afskaplega falleg fyrirbæri og kalla á aðdáun og væntumþykju.
Svo líða dagarnir, mánuðirnir og árin. Hversdagurinn er algengari en hátíðirnar. Daglegt líf er kannski ekkert stórfenglegt svona út á við, en það er einmitt þar sem reynir á.  Þar þarf að veita umhyggju, næringu, fæði, klæði og skjól,,,, og uppeldi.  Þar skiptir máli hvernig á málum er haldið, því lengi býr að fyrstu gerð og allt það.
Sem betur fer, á þessu landi er það sennilega algengara að umhverfi barna sé til þess fallið að úr verði góðir einstaklingar, vel byggðir, sem njóta síðan góðs viðhalds.  Skrýtið orð "viðhald" í þessu samhengi.

Hús eru byggð, stór og lítil.
Að mörgu leyti má segja að þau þurfi það sama og börnin, Falleg hús, sem er vel við haldið, endast lengi og gegna hlutverki sínu vel, áratugum og jafnvel árhundruðum saman. Ending þeirra ákvarðast auðvitað að stórum hluta af því hvernig grunnurinn var lagður. Hverjir byggðu og hverjum var ætlað viðhaldið.  Sum hús eru byggð af einstaklingum sem bera síðan ábyrgð gangvart sjálfum sér, á því að viðhaldið sé það gott að gott verð fáist ef húsið er selt.

Önnur hús eru byggð á öðrum forsendum; t.d. til að halda nafni einhvers á lofti. Þau hús er þá alla jafna byggð fyrir almannafé til pólitískrar upphafningar einhverra einstaklinga, eða sameiginlegt átaksverkefni þjóðar til að halda á lofti trú eða menningu hennar.

Það er yfirleitt gert mikið með þessi hús og mikið í þau lagt. Færustu byggingamenn fengnir til að hanna og reisa, Mestu listamennirnir fengnir til að fegra og skreyta.  Þessar byggingar eru stolt þjóðarinnar. Þær eru eign þjóðarinnar.
Svo líða árin og áratugirnir.
Hversdagurinn tekur við.
Pólitíkusarnir byggja ný hús í nafni þjóðarinnar, en þó aðallega til að halda eigin nafni á  lofti.
Það er þarna sem byggingar eiga það til að verða munaðarlausar. Þær eru búnar að fá öll "lækin" og aðdáunina. Þar með telst markmiðinu náð.  Það telst víst ekki neinum til framdráttar að sinna viðhaldi.

Hver á að sinna viðhaldi þjóðargersema? ÉG að gera það?" segja menn. "Ég á engan pening í það. Hann fer allur í nýju, glæsilegu bygginguna sem ég er að reisa. Það verða einhverjir aðrir að sjá um þessar gömlu byggingar".

Þannig er þetta.
Samanburður við börnin.
Þegar kúfnum af myndasýningunum, með öllum "lækunum" og krútt "kommentunum" er lokið, er barnið látið í hendur annarra og þeim ætlað að sjá um uppeldið.
Foreldrarnir taka myndir fyrir samfélagsmiðla á jólum, páskum og jafnvel hvítasunnu, eða einhverjum sérstökum hátíðastundum. Eftir því sem tímar líða fækkar þessum myndum, og "lækunum" fækkar að sama skapi. Þörfin fyrir "lækin" hverfur ekki og það er búið til nýtt barn, til að endurvekja, í hugum annarra, einhverskonar aðdáun.
Öðrum er ætlað á sjá um uppeldið, öðrum er ætlað að sjá um viðhaldið. Hverjir eru þeir? Eru þeir starfi sínu vaxnir? Fylgir nægilegt fjármagn? Eru þeir kannski sjálfir að búa til sín eigin börn, eða byggja sínar byggingar?

Við lifum á tímum þar sem  við erum lítið að velta fortíðinni fyrir okkur, hvað þá framtíðinni. Við lifum í núinu, rétt eins og hundurinn sem fyrirgefur eiganda sínum allt og þakkar honum ekkert. Eins og fuglar himinsins sem gleðja með söng sínum, en geta lent í kattarkjafti á morgun.

Það er eins og við lifum í samhengislausum heimi.

Ég ætla að hætta hér, áður en ég sekk mikið dýpra. Einnig tel ég að þú sért ein(n) afar fárra sem hafa lesið alla leit hingað niður.

Við þig segi ég: "Gleðilega hátíð"


.

01 júní, 2017

Hálf öld er stuttur tími

F.v. Páll, Pétur, Silli, Einar, Gunni, Steini, Maggi,
sr. Guðmundur, Loftur, Ragnhildur, Þrúða.
Í einhverju limbói milli þess að vera barn og unglingur. Það var engra spurninga spurt, bara gert eins og maður átti að gera. Uppreisn gegn þessu kom aldrei til greina. Eftir að hafa verið reglulegur kirkjugestur, aðallega fyrir tilstuðlan móður minnar, Guðnýjar í Hveratúni, var aldrei spurning um annað en staðfesta skírnina með því að fermast. Ég ímynda mér stundum hvað hefði gerst ef ég hefði sett niður fótinn og harðneitað. Þá sviðsmynd tekst mér ekki að kalla fram í hugann. Ekki neita ég því að það hafa orðið allnokkrar breytingar á samfélaginu á þeim fimmtíu árum sem eru horfin í aldanna skaut síðan.

Það er reyndar ekkert sérstaklega margt sem ég man frá þessum tíma; einstaka smámyndir koma upp í hugann og þá aðallega fyrir tilstuðlan myndefnis í tengslum við þennan merkisviðburð í sögu Hveratúnsfjölskyldunnar.
Ég man eftir fermingarbarnamóti á Laugarvatni, í Húsó (Lindinni). Þangað mætti ég með myndavél (kodak instamatic), man bara eftir einni svarthvítri mynd af jafnaldra sem var að taka mynd af mér. Held að það hafi verið Áslaug Eiríksdóttir frá Grafarbakka í Hrunamannahreppi. Að auki gerðist þarna eitt og eitt atriði, sem ekki verður rifjað upp hér.

Orgelið tekið til kostanna
Um aðdraganda fermingarinnar er frekar fátt að segja.
Ég hafði verið að læra á orgel hjá Guðjóni Guðjónssyni organista, sem síðan gerðist prestur (kannski vegna reynslunnar af að reyna að kenna mér) og ég held að hann hafi lengi starfað sem slíkur í Svíþjóð. Allavega hvarf hann af landi brott einhverntíma. Ég var hinsvegar í orgeltímum hjá honum. Ekki veit ég hvort orgelnám mitt var tilefnið, en í Hvertún kom gamalt kirkjuorgel, svona sem maður þurfti að stíga. Á þessa græju æfði ég mig á "fjárlögunum" og mig grunar að móðir mín hafi lagt að mér að undirbúa mig fyrir að leika á þetta orgel í fermingarveislunni. Sem ég auðvitað gerði - ávallt hlýðinn.

Sr. Guðmundur Óli Ólafsson var presturinn sem undirbjó hópinn með kristilegri uppfræðslu, tvær stúlkur og átta pilta. Einhvern veginn finnst mér að frú Anna (Magnúsdóttir) hafi aldrei verið fjarri og hafi haldið mikið til utan um hina praktísku hlið þessa. Hún var það þeirra hjóna sem hafði agann á okkur. Maður vogaði sér ekki að vera með neinn uppsteyt þegar hún var nálæg, ekki það að ég hafi nokkurntíma verið með uppsteyt - aðrir voru ef til vill meira í því, þó ekki telji ég að svo hafi verið.

Allt annar bragur á fólkinu.
Fermingardagurinn væri í algerri þoku, nema vegna þeirra mynda sem til eru og sem Gústi (Gústaf Sæland) mágur minn og þá tiltölulega nýbakaður faðir, tók. Gústi tók ekki bara myndirnar, hann sá einnig um hárgreiðsluna. Þarna var bítlatískan ekki búin að ná neinni festu hér í uppsveitum. Ennþá réðu þeir Elvis Prestley og Cliff Richards hártísku ungra karlmanna og Gústi kunni sannarlega á slíkri greiðslu lagið, enda sjálfur ávallt vandlega greiddur með  góðum skammti af briljantíni.  Það var þannig greiðsla sem ég fékk, en myndirnar sýna hana glögglega.  Ekki man ég hvort það var á undan eða eftir þessum tím sem menn greiddu í píku, eins og það kallaðist, en þannig greiðslu fékk ég ekki hjá Gústa.

Ég er viss um að einhver fermingarsystkina minna muna eftir athöfninni sjálfri, fyrir hana og eftir. Ég man ekkert um þann tíma, annaðhvort var ég í einhverju losti af streitu, eða ekkert sérstakt gerðist.  Jú, ég man að ég gekk fyrstur á eftir sr. Guðmundi inn í kirkjuna, úr Biskupshúsinu, en þar bjuggu prestshjónin þá, og síðastur út, eftir að skírnin hafði verið staðfest með pomp og prakt, móður minni án efa til mikillar gleði. Einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að faðir minn hafi ekki sýnt af sér jafn mikinn áhuga á tilstandinu, en hann lék með, eins og góðum eiginmanni sæmir.

Þetta var nú aðeins
veraldlegt líka.
Svo var það veislan, og allir þessir venjulegu fermingagestir. Það voru fermingargjafirnar, það var veislukaffið, með glæsilegri rjómatertu. (mér hefur alltaf þótt rjómaterta með betra bakkelsi).
Ég lék, kófsveittur á orgelið og fékk klapp og hrós í kjölfarið. Mér fannst ég aldrei ná góðum tökum á þessu spiliríi, kannski vegna þess að ég var frekar latur við æfingar.

Stolt systranna, Sigrúnar og Ástu, leynir sér ekki.
Já, ekki veit eg annað en þetta hafi verið ágætis dagur, þó þarna hafi ég verið í einhverskonar miðpunkti, sem ég var og er allajafna heldur lítið fyrir.

Svo hélt lífið áfram og um haustið hófst samskiptasaga mín við Laugarvatn í Laugardal, sem hefur staðið síðan, með litlum hléum.

Þennan dag, 14. maí, 1967, hvítasunnudag, staðfestu þessi ungmenni skírn sína í Skálholtsdómkirkju:
Einar Jörundur Jóhannsson frá Ljósalandi
Geirþrúður Sighvatsdóttir frá Miðhúsum (Þrúða í Miðhúsum)
Gunnar Sverrisson frá Hrosshaga  (Gunni í Hrosshaga)
Loftur Jónasson frá Kjóastöðum  (Loftur á Kjó)
Magnús Kristinsson frá Austurhlíð (Maggi í Austurhlíð)
Páll Magnús Skúlason frá Hveratúni  (ég)
Pétur Ármann Hjaltason frá Laugargerði (Pési)
Ragnhildur Þórarinsdóttir frá Spóastöðum (Ragnhildur á Spó(astöðum))
Sigurður Þórarinsson  Reykholti (Silli)
Þorsteinn Þórarinsson frá Fellskoti (Steini í Fellskoti).

Sex okkar búa enn í Biskupstungum - geri aðrir árgangar betur.

Fjölskyldan í Hveratúni með tvær nýjar viðbætur, Skúla Sæland
og Agnar Örn Arason.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...