28 febrúar, 2017

Svar mitt: JÁ

Úr því ég hef lítið gert annað á þessum degi en drita inn skoðunum mínum og umfjöllun á ólíkum viðfangsefnum, bæti ég hér við einu enn. Það sér ekki á svörtu.
Í Stundinni birtist í dag pistill með fyrirsögninni: Kemur þetta okkur við? eftir hinn markmiðadrifna Valgeir Sigurðsson, sem er búinn að ná sér í svokallaðan Trump Blocker og útilokar þar með allar fréttir sem tengjast Bandaríkjaforseta.
Í upphafi pistilsins segir maðurinn markmiðadrifni:
 Það sem ég hef lært á öllum þeim árum sem markmiðadrifinn einstaklingur er að áhyggjur af því sem ég get ekki haft áhrif á bara draga úr mér orku og minnka líkurnar á því að ég nái árangri. Það stuðlar að verri líðan og líka fólksins í kringum mig. Eftir að ég áttaði mig á þessu breyttist líf mitt til muna. Eftir efnahagshrunið tók það til dæmis aðeins um eina viku þar til ég áttaði mig og breytti um afstöðu. Ég ætlaði ekki að velta mér upp úr því hverjum væri um að kenna heldur hvernig best væri að komast út úr aðstæðum í rekstri og tryggja mitt nánasta umhverfi. Einbeittur í því án áhyggja um ytri aðstæður eða sökudólga var líklega ástæða þess að markmiðin náðust.
Ég tel hinsvegar að þetta komi okkur einmitt afskaplega mikið við og ég þarf ekki að leita langt eftir rökum fyrir því. Með nokkrum smellum var ég kominn inn á dagskrár tveggja "íslenskra" sjónvarpsstöðva á þessum þriðjudegi, sem er alveg eins góður dagur og hver annar. Dagskrár þeirra í dag má finna á myndunum sem ég læt fylgja.
Hjá annarri stöðinni eru þrjú orð á íslensku í þeim hluta dagskrárinnar sem sjá má á myndinni: fréttir, íþróttir og Nágrannar (sem er reyndar Amerísk sápa (leiðr. eftir ábendingu: þetta mun vera áströlsk sápa)). Í dagskrá hinnar stöðvarinnar, sem þykist vera íslensk, er ekki eitt íslenskt orð.
Ég hef svo sem ekki skoðað hvað stendur á bak við hvern lið, en reynslan sýnir að þar er að langstærstum hluta á ferð amerískt léttmeti, amerísk menning, amerísk lágmenning. Eðlilega litast sjónvarpsefni hverrar þjóðar af menningu hennar og stjórnarfari. Eðlilega litast síðan íslenskt samfélag smám saman af þessari amerísku menningu og stjórnarfari.
Auðvitað kemur okkur við hvað er að gerast í henni Ameríku - "landi hinna frjálsu og hughraustu".

Ég ætla að klykkja út með þakklæti mínu til RUV fyrir að bjóð okkur upp á Norræna bíódaga. Það er búin að vera ánægjuleg upplifun, að langstærstum hluta. Megi Norrænir bíódagar verða viðvarandi.

En, sannarlega kemur okkur þetta við. Það þýðir ekkert að grafa hausinn í sandinn, jafnvel þó við séum markmiðadrifin.


Einn af þeim

Þetta er reyndar ekki ég, heldur bara einhver kennari
í eldri kantnum.
Ég er einn þeirra kennara sem eru að stíga af sviðinu þessi árin.
Ég byrjaði í þessum bransa haustið 1979, eftir að hafa lokið tilskildu námi í sérgrein minni í háskóla, auk þess að leggja stund á uppeldis- og kennslufræði til kennsluréttinda.
Allt í lagi með það.
Ég var tiltölulega ákveðinn í því að kennari skyldi ég verða. Í 30 ár gekk það síðan svo, að á nánast hverjum virkum degi hvern vetur þurfti ég að vera klár í slaginn, hvernig sem á stóð. Klár í slaginn þýddi auðvitað að ég þurfti að vera undirbúinn fyrir það sem dagurinn myndi bera í skauti sér. Ég þurfti að reyna að vera búinn að sjá fyrir hvernig mismunandi hópar brygðust við því ég bar á borð fyrir þá. Ég hafði lært kennslufræði, sem gerði ráð fyrir því að nemendur væru alltaf tilbúnir að ganga í takt við það skipulag sem ég setti upp.
Það komu tímar þegar ég komst að þeirri niðurstöðu að kennsla væri ekki starf við mitt hæfi, velti því fyrir mér hvern andsk. ég væri búinn að koma mér út í. Það komu tímar sem ég naut starfsins og fannst ég vera að gera gagn.

Ég hóf þennan kennsluferil minn fyrstu sex árin í grunnskóla. Undir lok þess tíma var ég orðinn talsvert þreyttur á því hve stór hluti tíma míns fór í að sinna öðru í kennslustundum en starfinu sem ég var ráðinn til að sinna. Agastjórnun hefur aldrei verið meðal uppáhaldsverkefna minna og því greip ég tækifærið þegar það baust og flutti mig yfir á framhaldsskólastigið. Það gerði ég haustið 1986.

Veturinn sá leið eins og í þoku og ég veit raunar ekki enn hvernig mér tókst að halda andlitinu í stórum dráttum. Þennan fyrsta vetur kenndi ég 37 tíma á viku, efni sem ég hafði aldrei kennt áður. Daganir liðu þannig að eftir að hafa kennt átta til níu tíma, þurfti ég að taka til við að undirbúa næsta dag, útbúa verkefni og fara yfir verkefni. Á þessum tíma var skóli annan hvern laugardag og það má segja að ég hafi verið í fríi annan hvern laugardag. Aðrir dagar voru vinnudagar.
Því get ég ekki neitað að þennan vetur komu þeir tímar að mig langaði að leggja upp laupana.
Ég gerði það ekki og næsti vetur var heldur viðráðanlegri þar sem undirbúningurinn frá þeim fyrsta nýttist, kennslustundafjöldinn breyttist ekki. Síðan varð þetta smám saman auðveldara og viðráðanlegra og það hlýtur að hafa gengið sæmilega úr því ég hélt mig við þetta starf í 30 ár, en árið 2010 hætti ég að kenna og hef meira og minna setið við tölvur síðan.

Ég held að í augum nemenda hafi ég að stærstum hluta talist þolanlegur, sumir veit ég, voru bara nokkuð ánægðir við mig, en aðrir áttu erfitt með að láta sér lynda við mig.  Mér sjálfum fannst ég mistækur, það komu tímar sem mér fannst ég vera fæddur í þetta starf og síðan aðrir tímar þar sem ég nánast ákvað að hætta eftir veturinn.

Það sem ég tel vera jákvæðast við kennslustarfið er samskipti við ungt fólk á hverju einasta ári. Mér fannst ég aldrei fá tækifæri til að eldast, var alltaf í einhverskonar sambandi við það nýjasta á hverjum tíma, eins viturlegt að það var nú oft.  Ég fann það fljótt eftir að ég hætti kennslunni og fór að fylgjast meira með svona utanfrá, að ég missti taktinn við unglingana og fór frekar að beina sjónum annað.

Það versta við kennarastarfið voru stærstan hluta starfsferilsins, hörmulega léleg laun.  Þó þau hafi skánað talsvert held ég að ef á að takast að særa metnaðarfullt fólk inn í kennarastéttina, þurfi launakjör að batna enn frekar. Ef fólk leggur í 5 ára háskólanám þá þarf eitthvað að bíða sem er þess virði. Hugsjón er ágæt í sjálfu sér, en hún verður ekki sett á matarborðið.
Ég ímynda mér síðan aðra ástæðu fyrir lítilli aðsókn í kennaranám, en hún snýr að agaleysi í samfélaginu og bjargaleysi kennara til að takast á við það.

Svo er auðvitað þessi eilífi sannleikur, að annaðhvort er fólk kennarar í eðli sínu eða ekki. Ég hef unnið með sprenglærðum kennurum sem hafa ekki ráðið við starfið  og réttindalausum kennurum sem hafa fallið við það eins og flís við rass - og allt þar á milli.   Það er ekki lengd námsins sem ákvarðar hæfni kennarans heldur eðliseiginleikar hans.

ÖGURSTUND?


Fann ekki upplýsingar
um höfund myndarinnar
Til útskýringar á því að ég set þennan texta inn hér, í mínu einkabloggi tel ég rétt að greina frá því, að ástæðan er svo sem engin sérstök, nema ef vera skyldi að hér á ég auðveldara með að setja myndir þar sem ég vil og haga leturgerð eins og mér finnst við hæfi.
Það sem hér fylgir eru bara mínar pælingar um Litla-Bergþór, og ég einn ber ábyrgð á þeim. 

Ég er nú búinn að sitja í nokkur ár þessu sinni, en var einnig um tíma í ritnefndinni á upphafsárum útgáfunnar 
Mér stendur hreint ekki á sama um þetta blað og vil gjarnan sjá útgáfu þess haldið áfram með einhverjum hætti.

Það hefur reynslan kennt okkur, sem lifað höfum einhverja áratugi, að allt er breytingum háð. Það sem var sjálfsagt, og jafnvel „hipp og kúl“  í gær, þykir heldur klént í dag og stefnir í að verða fornleifar á morgun. Svo hraðar eru breytingarnar sem við lifum í kringum mót 20. og 21. aldar.
Það má jafnvel halda því fram, að breytingarnar séu hraðari en mannskepnan ræður við með góðu móti. Við erum ekki fyrr búin að venja okkur við eitthvað, en eitthvað annað er komið í staðinn, sem er auðveldara, skemmtilegra og jafnvel betra. Jafnvel betra, já.

Svo er það auðvitað með okkur mennina eins og allar venjurnar, hlutina, smekkinn eða svo sem allt, hverju nafni sem nefnist, að við erum háð tímanum, sem leiðir okkur áfram, mínútu eftir mínútu, klukkustund eftir klukkustund, viku eftir viku, mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, öld eftir öld.  Við eigum okkar blómatíma í tilverunni og hverfum síðan smám saman og breytumst í sögu.  Í stað okkar koma aðrir menn, aðrir siðir, annarskonar smekkur.

Svona er þetta bara. Það eina sem við þurfum í rauninni að passa okkur á er að verða ekki að nátttröllum. Til að forðast það er tvennt í stöðunni: að láta okkur hverfa áður en svo verður, eða taka slaginn með nýjum hætti.

Ritnefnd Litla Bergþórs hittist á fund í gær.  Fyrst vorum við þrjú, en síðan tvö.

Litli Bergþór, blað Ungmennafélags Biskupstungna er arftaki Bergþórs (í Bláfelli). Eftir að útgáfu Bergþórs var hætt varð langt hlé allt þar til í mars 1980, að upp reis Litli Bergþór úr duftinu og var þá í höndum Gríms Bjarndal, ritstjóra,  Sigríðar Björnsdóttur, fréttamanns, Sólveigar Róbertsdóttur, prófarkalesara og vélritara og Sigrúnar Maríu Þórisdóttur, sem gerði káputeikningu. Fyrsta tölublaðinu var dreift lesendum að kostnaðarlausu en síðan var hægt að fara í áskrift.
Það eru á þessu ári 37 ár síðan Litli Bergþór hóf göngu sína.
Fyrsta ritstjórnargreinin var svohljóðandi:
Í GAMNI OG ALVÖRU Einu sinni var ritnefnd og afrek hannar eru elstu Tungnamönnum kunn, þvi hún gaf út blað  er nefnt var Bergþór, eftir karli rniklum er bjó i Bláfelli.
Nú er öldin önnur.
Ritnefnd er að visu til, en hver hún er og hvar hún er, vita sjálfsagt fáir. Það dettur engum í hug að vekja Bergþór i Bláfelli til lifsins, en ég er sannfærður um, að til eru þeir sem hafa hug á að hefja á ný útgáfu Bergþórs.  En hinir frómustu menn segja þaö jafnerfitt verk að vekja ritnefnd til dáða og aö særa fram draug. Fleiri nefndir eru brenndar sama brennimerki og ritnefnd.  Nálega eitt ár er frá þvi aö útgáfunefnd var komiö á fót og má segja að þetta sé hennar fyrsta skref, það er þvi hœgara um aö ræða en í að komast, en vonandi er timi kraftaverkanna ekki liðinn. Hér með hefur göngu sina „Fréttablaðið Litli – Bergþór“. Nafniö er komið frá áður nefndu blaði og er nafngift útgáfustjóra. Markmið þessa blaðs er að koma alls konar uppiýsingum, fréttnæmu efni héðan úr byggðarlaginu á framfæri við ykkur lesendur góðir. Öllum er heimilt að senda inn efni til birtingar og mun útgáfunefndin sjá til þess að sem flest komi i blaðið. Formenn starfandi nefnda eru hvattir til þess að koma öllum starfsárangri í blaðiðj en það fylgir böggull skammrifi þvi þeir verða að koma efninu á stensla. Vonandi verður þetta blað til fróðleiks og skemmtunar.
Grimur Bjarndal.
Eins og áður er sagt, hér ofar, á allt sinn tíma. Það á Litli Bergþór einnig.

Já, ritnefnd Litla Bergþórs hittist á fundi í gær. 
Fyrst vorum við þrjú, en síðan tvö. 

Þar var rætt um efni næsta blaðs. Þar voru lagði fram reikningar fyrir síðasta ár. og þar var rætt um framtíð útgáfunnar.
Auðvitað ákvað nefndin ekki nokkurn skapaðan hlut um framtíð útgáfu á þessu menningarriti, sem Litli Bergþór óneitanlega er.  Nefndin ræddi hinsvegar hvað framtíð blaðsins gæti falið í sér í ljósi þess að áskrifendur, eins og nefndarmenn sjálfir, bæta við sig ári eftir ár. Þannig hefur tíminn þau óhjákvæmilegu áhrif, að áskrifendur hverfa af sjónarsviðinu, hver á fætur öðrum.  Nýjum fjölgar lítið.
Það kann að mega rekja til þess að ritnefndinni tekst ekki að fylgja tímanum nægilega vel, slær ekki rétta tóninn, heldur sig við að gefa út blað á pappír á sama tíma og útgáfa og miðlun efnis færist hratt eitthvert upp í skýið.

Á nefndarfundinum var framhaldið rætt - en bara rætt.

Fyrir áratugum síðan var gefin út hljómplata sem bar heitið Útvarp Matthildur, sem á var allskyns gamanefni.  Í einu atriðinu spyr fréttamaður formann ungmennafélags hver sé stærsti vandi ungmennafélaganna í dag.  Formaðurinn, sem eftir röddinni að dæma, var karlmaður á níræðisaldri, svaraði: „Maðurinn með ljáínn“.

Þeir eru örugglega fáir sem vilja sjá útgáfu Litla Bergþórs hætt án þess að nokkuð komi í staðinn.  Það sem blaðið hefur fram að færa er mikilvægt og skiptir máli fyrir samfélagið sem hann reynir að endurspegla og tala til.

Nefndin, sem er búin að safna árum talsvert lengi, telur ástæðu til að innan ungmennafélagsins fari fram umræða um hvaða stefnu er rétt að taka.


24 febrúar, 2017

Hversvegna? Vegna þess...

"Til hvers ertu nú að ergja þig yfir þessu? Það breytir engu."
Auðvitað er þetta alveg skiljanleg athugasemd hjá fD.  Fyrir mér snýst þetta hinsvegar ekki um vonina um að snúa einhverju til betri vegar. Ég er svo sem ekkert að ergja mig yfir einu eða neinu, miklu fremur að undrast þann hugsunarhátt sem við búum við og sem felur í sér stöðugt ýktari lítilsvirðingu gagnvart tungumálinu sem þessari kynslóð sem og öðrum á undan hefur verið trúað fyrir.
Af einhverjum ástæðum dettur mér Hreinn Ragnarsson, heitinn, (kennari við Menntaskólann að Laugarvatni og þar áður Héraðsskólann), í hug þegar ég stend frammi fyrir þeirri staðreynd, að það sem mér finnst vera rétt og eðlilegt málfar er smám saman að víkja fyrir hálfgerðu barnamáli.
Auðvitað þykist ég vita hverjar megin ástæður þessarar þróunar eru, og þær pælingar mínar hef ég fjallað um áður.  Varnarleysið er algert og ég er smám saman að sætta mig við það og reyna að fara bara að hugsa um eitthvað annað. Ég hef samt enga trú á öðru en að ég muni henda inn við og við athugasemdum við misþyrmingu samborgaranna á tungunni.  

Það er einmitt það sem ég ætla að gera núna:

Ég hef áður nefnt "af hverju?"
Við höfum í það minnsta tvær leiðir til að inna eftir ástæðu einhvers. Annars vegar er "hversvegna?" og hinsvegar "af hverju?".  Það er sjálfsagt smekksatriði hvort er valið, en ég lít svo á að "af hverju" sé óformlegra og hafi frekar verið notað af börnum og unglingum, þá oftast borið fram með þessum hætti: "AKKURU?". Þeir sem eldri voru og notuðu þessa aðferð sögðu þá frekar "af hverju?" og það var og er einnig ritmálstjáningin.
Jæja. 
Svarið við "Hversvegna? er, "Vegna þess að...."  
dæmi: Hversvegna sagði hann af sér?  Vegna þess að hann klúðraði viðtali."
Svarið við "Af hverju?" er "(af) því (að)..." 
dæmi: Afhverju/Af hverju sagði hann af sér? Af því hann klúðraði viðtali.
Af þessum tveim aðferðum við að leita skýringa og svara, tel ég það fyrra vera umtalsvert betra mál, en hitt er auðvitað einnig nothæft.

BERNSKUN TUNGUNNAR

Hvert er þá vandamálið?
Því er auðsvarað og þar kemur til það sem ég vil kalla "bernskun tungunnar". Bernskun þýðir það einfaldlega að það sem eitt sinn einkenndi málfar barna á máltökuskeiði er að verða málfar lærðustu vísindamanna.

Hér eru nokkur dæmi af handahófi til útskýringar á þessu:
Ræðumaður á 1. maí:
Einn sagði af sér sennilega bara út af því að hann klúðraði viðtali í alþjóðlegum fjölmiðli.
 Viðskiptamaður: 
Og við skulum bara vona að menn hafi ekki tekið rangar ákvarðanir varðandi þætti sem tengjast til dæmis ferðaþjónustu, út af því að krónan hefur verið kerfisbundið of veik.

Handknattleiksmaður:
Þeir búa eitthvað til út af því að þetta er sjónvarpsleikur
Haffræðingur:
Við sjáum vissulega að sýrustig er að falla hér við land,” segir Jón. “Í samanburði við önnur hafsvæði er það að falla hraðar hér en annars staðar. Það er út af því að hér við land, sérstaklega norðan við landið, tekur hafið í sig mikið af koldíoxíði.”
Hvert skyldi nú vera hlutverk þessa "ÚT"?

16 febrúar, 2017

Túristi í 101

fD í hlutverki sínu.
Það er búið að búa til ákveðna "staðalmynd" (leiðinlegasta og þvældasta orð sem til er í íslensku, að mínu mati) af erlendum ferðamönnum á Íslandi. Klæðnaður þeirra felst í prjónahúfu með dúski og eyrnaskjóli, úlpu og vindbuxum frá 66°, með myndavél og borgar- eða landakort.
Svona er erlendi ferðamaðurinn, svona var okkur sýndur hann á leiksýningunni í Borgarleikhúsinu sem var hluti helgardagskrár okkar fD um liðna helgi.

Þannig var það, að í tilefni af helgardvöl í höfuðborginni, eða borg óttans, eins og einhverjir kjósa að kalla Reykjavíkurborg, var það gert af einum liðnum í dagskránni, að leyfa okkur að líða um stræti hins víðfræga hverfis sem kallast oftast 101, þar sem latte lepjandi borgarbúarnir vilja víst helst halda sig.
Síðast þegar við áttum þarna leið um var það til að mótmæla og auðvitað var full ástæða til.
Nú gerðumst við túristar. 
Áttum reyndar ekki húfu með skúf eða 66°N alklæðnað. Við áttum samt húfur, trefla og einhverja jakka - og auðvitað myndavél.
Í sem stystu máli féllum við afar vel í hópinn, enda ekki allir túristarnir með húfu með rauðan skúf, í peysu.
Leið okkar lá af Sóleyjargötu inn Fríkirkjuveg, þá Lækjargötu, upp Bankastræti, upp Skólavörðustíg, þar sem við heyrðum fyrstu íslensku orðin í ferðinni en hún kom úr munni afgreiðslumanneskju sem er af erlendu bergi brotin (eins og okkur finnst svo gaman að segja; maður sér þá fyrir sér Alpana eða klettana í Dover, eða Kákasusfjöllin, Alpana eða Kilimanjaro).
Íslenskan var samt betri en hjá mörgum þeirra sem þó eru af íslensku bergi brotnir, t.d. Vörðufelli, Esjunni eða Efstadalsfjalli.
Inn í Hallgrímskirkju þar sem áð var um stund.
Síðan var haldið niður Frakkastíg, þá Laugaveg, Bankastræti aftur, Austurstræti, (fish n´chips á sjúskuðum Hressó, "Table for two?" "Já takk, borð fyrir tvo" "Fyrirgefiði, það koma eiginlega bara útlendingar hingað").
"Ég hef aldrei komið í þetta fræga Hafnarhús" - nú auðvitað fórum við þangað (sjá hér).
Eftir þá reynslu lá beint við að fara í Kolaportið, en ég ætla ekki einu sinni að anda út úr mér fordómaflækjunni sem varð til í höfðinu á mér við þá reynslu.  Út, út, út!
Við tók Pósthússtræði og Austurvöllur, hljóður og mannlaus. Þar ættu að vera mótmæli alla daga, af nógu er að taka.  Þar stóð túristi með götukort og horfði í kringum sig.
Þegar við nálguðumst sagði hann: "Hey, you are a native. Could you....?" Þá var hann að tala við mann sem gekk fyrir aftan okkur, en ekki við okkur. Dulargerfið virkaði.   En, "native!". Í gamla daga var þetta orð notað um frumstæða ættbálka í svörtustu Afríku, ekki um hin göfugu þjóð sem byggir land elds og ísa. Svona breytist veröldin.

Tjörnin með máva- og álftager og einhver slatti af öndum.
Einhvernveginn er ekkert merkilegt að taka myndir af fuglum á Reykjavíkurtjörn. Fuglarnir virka á mann eins og ódýr leikmynd.

Svo var það eiginlega bara Fríkirkjuvegur, Fjólugata (þar sem húsin vinstra megin standa við Fjólugötu en húsin hægra megin við Sóleyjargötu.

Æ, hve ég var nú hvíldinni feginn eftir fjögurra klukkustunda túristaskap.

Aumingja, blessaðir erlendu ferðamennirnir.







13 febrúar, 2017

Hvað er list, eiginlega?

Þessi mynd er list. Hún ber heitið:
"Un pissoir dans une galerie d'art"
Fyrirsögnin er spurning sem mannfólkið hefur spurt sig gegnum aldirnar. Áður var skilgreiningin örugglega talsvert þrengri en nú og ég held að það sé vegna þess að það er enginn lengur sem telur sig þess umkominn að ákvarða hvar skilin liggja milli þess sam kalla má list og þess sem er bara ruglað flipp, eða eitthvað þaðan af vitlausara.
Ég held að nú sé allt list, ef sá sem setur það frá sér segir að það sé list.

Tilefni þessa pistils míns er helgarferð okkar fD í höfuðborgina. Ég mun mögulega síðar gera grein fyrir öðru í því sambandi, en núna læt ég duga þann þátt ferðarinnar sem snéri að listneyslu okkar í ferðinni, sem sem má segja að hafi verið talsverð.
Það sem ég segi hér á eftir, ber enganveginn að túlka sem árás á þá listamenn sem voru svo óheppnir að fá mig í heimsókn,  Þetta er almennara en svo. Lýsingar mínar á verkunum sem ég fékk að upplifa munu væntanlega eiga ekki síður við margt annað sem, hlotnast hefur sá heiður að skoðast sem list, í einhverjum kimum.
Ykkur, lesendur góðir, er velkomið að taka skoðunum mínum eins og ykkur finnst réttast, en hafið það í huga, að ég er á sjötugsaldri og þessvegna: "Hvað veit ég svo sem?"

Upplifun 1: Við höfðum aldrei komið í Hafnarhúsið, sem oft ber á góma þegar listir eru annarsvegar. Þetta eru feikilega mikil húsakynni. Á neðri hæðinn er risastór og hrár sýningarsalur (það virðist vera inni í dag, hrátt og dimmt). Þar sem við gengum inn í þennan sal, tók fyrst á móti okkur saltbingur (virtist vera salt). Honum hafði verið sturtað þannig að hann lá utan í dyraumbúnaðinum og ég velti fyrst fyrir mér hvernig dyrakarmurinn muni fara út úr snertingunni við þetta efni.   Nokkru innar, á miðju gólfi, var annar saltbingur og á hann var varpað hreyfimynd ofan úr loftinu. en þar hafði verið komið fyrir skjávarpa innan í hluta úr loftræstistokk.   Flest verkin á sýningunn fólust síðan í samskonar aðferð: hreyfimynd sem sýndi nærmyndir af líkamshlutum (væntanlega listamannsins) þar sem hún/hann var í ræktinni. Aldeilis var þetta ógurlega merkilegt, ef þannig má að orði komast, eða hitt þó heldur. Mér fannst þetta mikil sóun á stóru rými.
Eftir þetta, ég eins og ávallt, til í að gefa hlutum séns, öfugt við samferðamanninn, héldum við upp á næstu hæð. Hafi neðri hæðin kveikt efasemdir um að list væri að ræða, þá slokknaði þarna uppi öll von um að heimsóknin í þetta musteri listarinnar yrði til þess að auðga andann á nokkurn hátt. Uppi komum við inn í þrjá myrkvaða sali þar sem sjónvarpstækjum hafði verið komið fyrir hér og þar og eitthvert ótrúlegt flipp átti sér stað á hverjum skjánum á fætur öðrum.  Ég sagði fátt, var orða vant.

Þegar sýningarsalirnir höfðu verið afgreiddir stóð eiginlega bara eitt eftir: "En hvað með 1600 kallinn sem ég borgaði við innganginn?" 

Mér leið dálítið eins og karlinum í einu vídeoverkinu, sem hafði verið komið fyrir aftan í sendibíl með grímu fyrir andlitinu þannig að hann gat ekkert séð eiginlega ekki andað. Svo var þessum sendibíl  ekið eftir hálf ófærum vegi, að því er vistist og karlinn hentist fram og til baka, hjálparlaus og við það að kafna.  Þannig var nú líðanin.

Upplifun 2: Listupplifun kvöldsins fólst í þriggja tíma setu í Borgarleikhúsinu undir verki sem gerði ekkert nema draga mann niður í þunglyndi, ef það hefði þá verið hægt.  Leikararnir skiluðu sínu með miklum sóma, en að öðru leyti....... Jæja, ætli ég þegi ekki bara um það, enda hefur traustið á sjálfum mér, þegar list er annars vegar, beðið hnekki eftir þessa menningarreisu.

06 febrúar, 2017

Hvernig var vírunum komið fyrir?

Ekki neita ég því, að oft velti ég því fyrir mér, hér áður fyrr, hvernig vírunum sem halda brúargólfinu á Iðubrúnni (Hvítárbrú hjá Iðu). Viti menn, rakst ég ekki á frásögn af því í Mogganum frá því í ágúst 1957, Þar voru á ferð þeir Sverrir Þórðarson, blaðamaður (handahafi blaðamannaskírteinis nr. 3) og Gunnar Rúnar Ólafsson, ljósmyndari.   
Ég birti hér umfjölllun þeirra.






GÓÐU DAGSVERKI LOKIÐ

Við Iðubrú er verið að leggja 12 burðarvíra sem vega 4,5 t. hver. Brúin opnuð í vetur

Það var verið að undirbúa að senda níunda burðarvírinn milli stöpla á hinni nýju hengibrú á Hvítá í Biskupstungum, sem venjulega er kölluð Iðubrú, er við komum þangað austur síðdegis á mánudaginn. Er brúin nú mesta brúarmannvirkið, sem er í smíðum hér á landi, hið veglegasta í hvívetna og mun verða mikil samgöngubót fyrir hinar efri sveitir Árnessýslu. Hófst smíði brúarinnar, sem áætlað er að alls muni kosta 6,5 milljónir króna, árið 1951. Nú eftir um 2 ára hlé við brúarsmíðina, er kominn þangað brúarsmiðaflokkur frá vegamálastjórninni. Er hugmyndin að halda verkinu áfram, þar til brúarsmíðinni er að fullu lokið, og sagði yfirsmiðurinn, Jónas Gíslason, að hann vonaðist til að það gæti orðið í nóvembermánuði n. k.

Þegar hlé var gert á smíði Iðubrúar, var lokið við að steypa báða turna hengibrúarinnar, beggja vegna hinnar straumþungu Hvítár. Eru turnarnir um 20 metra háir. Gera þurfti rammbyggilegar undirstöður, sem í fóru um 500 tonn af sementi og sandi, og í brúna eru nú komin um 70 tonn af steypustyrktarjárni. „Við komum hingað austur fyrir nær hálfum mánuði“, sagði Jónas Gíslason yfirsmiður og hófst þá undirbúningur að því verki, sem nú er verið að vínna þar, að koma fyrir burðarvírum brúarinnar. Verða þeir alls 12, sex hvorum megin. Er hver vír 3 1/8 tomma (8 cm) í þvermál.

Á vestari bakka árinnar er bækistöð brúarsmiðanna, og þar standa tjöld þeirra hlið við hlið og mötuneytisskáli með eldhúsi. Efni er geymt á þessum bakka árinnar, og þar standa t.d. nokkur stór kefli, sem burðarvírinn er undinn upp á. Er á hverju kefli nákvæmlega sú lengd, er með þarf til þess að strengja hann á milli akkeranna, sitt hvorum megin árinnar og er vírinn 173 metrar á lengd. Á hvorum enda er „skór", sem vírinn er fastur í, en skórinn er svo settur á tvær festingar í akkerinu, en síðan er hann festur með tveim heljaröflugum róm.

Vírinn dreginn yfir Hvítá

Við eystri bakka árinnar var allt tilbúið til að hefja vírdráttinn yfir er við komum. Fyrir aftan brúarturninn er togvinda. Frekar grannur stálvír er dreginn yfir ána á vestri bakkann og þar taka nokkrir ungir menn við honum og læsa í burðarvírinn.

Jónas gefur nú merki með handauppréttingu yfir á hinn árbakkann, um það að láta vinduna byrja að vinna. Strákar við vírkeflið hafa það verk með höndum að standa tilbúnir við bremsurnar. — Þetta eru handbremsur, tvö löng járn, sem þeir leggjast á þegar hægja eða stöðva þarf vírkeflið, og er það stálvir sem grípur utan um hjólin á keflinu. — Hraðinn gæti fljótt orðið óviðráðanlegur ef slíkir hemlar væru ekki hafðir á. Uppi yfir okkur — ofan á turninum — standa nokkrir menn tilbúnir við tvær nokkurra tonna krafttalíur til þess að taka á móti vírendanum.

Innan stundar er keflið farið að snúast hægt áfram og vírinn er lagður af stað upp á turninn. Við heyrum skarkalann frá vindunni á hinum bakkanum og drunurnar í loftpressunni, sem dælir lofti í vinduna. Vírendinn er kominn upp undir vinnupallinn mjóa, sem mennirnir uppi á turninum standa á og Jónas gefur stöðvunarmerki yfir ána meðan þeir uppi á stöplinum lyfta vírendanum upp á turninn og fara með hann yfir.

Við höfum orð á því við Jónas yfirsmið, að hann og menn hans séu heppnir með veðrið við þetta erfiða og vandasama verk, því ekki væri neinn öfundsverður af því að þurfa að vinna við þetta í hvassviðri og rigningu.

Kemst upp í vana

Það er satt, sagði Jónas, en það kemst ótrúlega fljótt upp i vana að vinna í nokkurri hæð, en að auki eru þessir menn allir þaulvanir orðnir slíkri háloftavinnu, því margir þeirra eiga að baki alllangan brúðarsmíðaferil En sjálfur þekkir Jónas manna bezt slíka vinnu, því hann hefur verið við smíði fjölda brúa, t. d á Selfossi, Þjórsárbrú og eins austur á Jökulsá á Fjöllum, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Enn gefur Jónas merki og mennirnir uppi á turninum fyrir ofan okkur hafa komið vírnum yfir. — Nú liggur vírinn í hjóli, sem auðveldar dráttinn, en þann þyngist nú óðum. Vírendinn hefur farið alveg niður undir vatnsborðið. Úti yfir miðri ánni, sem er rúmlega 90 m breið, hækkar vírinn sig aftur í stefnu á turninn á vestri bakkanum. Nú fer hann rétt fetið áfram, því þyngslin aukast nú mjög, en vírinn vegur sjálfur 4.5 tonn.

Metdagur

Jónas sagði okkur að vírdrátturinn hefði gengið mjög vel þennan dag. Senn var kvöld og þetta var þriðji vírinn á einum og sama degi, sem þarna var kominn alla leið yfir. Það þykir gott að geta gengið frá tveim vírum á einum degi.

Jónas gaf strákunum á keflinu enn merki um að nema staðar. Hann hafði aldrei augun af vírendanum, sem nú var kominn upp að turnbrúninni á vesturbakkanum. Mennirnir, sem verið höfðu í turninum fyrir ofan okkur, voru nú komnir yfir ána til að taka á móti vírnum. Það tekur kringum eina klukku stund að draga vírinn á milli, en metið sögðu strákarnir okkur væri 57 mínútur. Er þá eftir að ganga frá vírunum í akkerunum, sem er erfitt verk og margar hendur þarf við með aöstoð handsnúinna spila, er lyft geta nokkrum tonnum. Það var gaman að sjá þetta verk unnið. Þarna var hver mað- ur á sínum stað og vissi nákvæm lega hvað hann átti að gera. Var þetta mjög vel skipulagður og samhentur vinnuflokkur, allt unnið fumlaust. Hann sagðist vonast til að vírarnir væru allir komnir upp á miðvikudaginn, þ. e. a. s. í gærkvöldi.
— Hvað liggur þá næst fyrir að gera?
Gekk Jónas nú með okkur þangað sem margir járnbitar lágu.
— Þetta eru þverbitarnir undir brúargólfið, sem hver vegur um 650 kg., 24 talsins. Það liggur næst fyrir að koma þeim fyrir í burðarjárnunum, sem aftur eru fest í vírana.
— Þá þurfið þið að fara út á þá?
— Jú, en það er eiginlega með öllu hættulaust, þvi strákarnir standa í kláfferju. Síðan verður svo langbitunum komið fyrir. Þeir eru ekkert smásmíði, þriggja tonna bitar, og síðan hefst smíði sjálfs brúargólfsins og verður það steinsteypt. Vona ég að hægt verði að opna brúna til umferðar í nóvembermánuði næstkomandi.

Hjá ráðskonunum

Að lokum þáðum við hressandi kaffisopa hjá ráðskonunum tveim, sem ýmist eru með mat eða kaffi handa vinnuflokknum, sex sinnum á sólarhring. Það er orðin nokkurra ára reynsla mín. að óvíða fæ ég eins gott kaffi og meðlæti og hjá ráðskonum vegavinnumanna, og þannig var það hjá þeim við Iðubrú. Strákarnir létu vel yfir fæðinu, en ráðskonurnar voru að matbúa kvöldmatinn, sem verða átti kjöt. Á olíukyntri eldavél, sem í eina tíð var sennilega kolavél, stóðu kjötkatlar og súpupottar.
- Þeir fengu saltfisk í dag, sagði önnur ráðskonan, en báðar sögðust þær kunna vel við sig eystra, og hafði önnur verið vestur í Dölum en hin uppi í Hvalfirði. Hún sagði að sér hefði þótt fallegt hjá Fossá, en þar var bækistöðin.
Við kvöddum Jónas Gíslason og menn hans. Einn strákanna ferjaði okkur yfir ána á vestri bakkann, þar sem bíllinn okkar stóð.

Skálholt — Hlöðufell

Ferjumaður sagði okkur að vinnuflokkurinn hefði ákveðið það skömmu eftir komuna austur, að flokksmenn skyldu nota einhvern sunnudaginn, sem ekki yrði farið til Reykjavíkur, til þess að ganga á Hlöðufell, en enn hefðu menn ekki gefið sér tíma til þess. Sumir hefðu ekki enn heimsótt hinn fræga stað helgi og sögu, Skálholt. Frístundirnar hafa farið í að „þjónusta" sjálfan sig, þvo galla, stoppa og annað þess háttar. Við erum ekki á förum héðan, og það gefast vafalaust tækifæri til þess að stunda fjallgöngur og koma í Skálholt, sagðí ferjumaðurinn um leið og hann ýtti kænunni fram í straumharða ána.

Þegar við gengum framhjá akkerinu voru brúarmenn þar að streitast við að festa níunda burðarvírinn fyrir Iðubrú og þann þriðja á sama degi. — Góðu dagsverki var senn lokið.

Sv. Þ.
Sverrir Þórðarson
Gunnar Rúnar Ólafsson

02 febrúar, 2017

Ein afsökun

Tvennt er ástæða þessa pistils:
Eiður Guðnason er nýlátinn, en eins og einhverjir vita þá skrifaði hann ótrauður ríflega 2000 pistla á vef sinn eidur.is  til varnar íslenskri tungu.
Hitt tilefnið er viðtal við Sigurjón Björnsson í Kiljunni í gærkvöld. Sigurjón er níræður hefur í ellinni lagt fyrir sig þýðingar öndvegisrita yfir á íslensku. Í því sambandi sagði hann:
Þetta gefur manni tækifæri til að liggja yfir þessari tungu okkar, íslenskunni, sem að ég vil nú segja að sé gimsteinn Norðurlanda, gimsteinn norðursins, alveg eins og grískan er gimsteinn Evrópu, sérstaklega Suður-Evrópu og vísindamálsins, en við eigum þennan frábæra, blettlausa gimstein sem íslenskan er, ef hún er vel gerð og vel skrifuð.

Ég hef áhyggjur af hvað við förum illa með þessa arfleifð okkar, því að ég verð nú að segja það (það getur vel verið að það kallist bara hroki og merkilegheit, ég veit ekki hvað á að kalla það, eða þjóðrembingur), að eiginlega eina afsökun Íslendinga fyrir því að hafa haldið út á þessu skeri í þúsund ár, er það að við eigum þetta tungumál.
Eiður hélt áfram, þrátt fyrir að margir litu á hann sem einhvern sérvitring sem hefði einhverja þörf fyrir að láta á sér bera, teldi sig merkilegri en annað fólk, væri uppfullur af menntahroka og þar fram eftir götunum.
Sigurjón segir hér fyrir ofan:
"það getur vel verið að það kallist bara hroki og merkilegheit, ég veit ekki hvað á að kalla það, eða þjóðrembingur".
Það er nákvæmlega þetta sem er smám saman að ganga af þessari tungu okkar dauðri. Við eigum afar erfitt með að taka því þegar einhver setur ofan í við málfar okkar og beitum á slíkt skammaryrðum á borð við þau sem hér hafa verið nefnd og kæfum þannig þá sem mögulega gætu staðið vörð um þetta stórmerkilega tungumál, sem okkur hefur verið falið til varðveislu..  Okkur er að verða skítsama hvernig farið er með íslenskuna, við segjum sem svo, að meðan það skilst sem við segjum þá sé það fullnægjandi. Þvílík steypa.

Það sem mér finnst ekki síst alvarlegt er þegar fólk sem ber stóra ábyrgð á íslenskunni og viðgangi hennar, afgreiðir hörmungarnar sem á manni dynja, sem "eðlilega" þróun tungunnar. Hvaða vald eða réttindi hefur þetta fólk til að ákvarða hvað er "eðlileg" þróun?  Í mínum huga felst eðlileg þróun í því að tungan aðlagar sig að breyttu umhverfi af einhverju tagi. Þar er ekki einnifalið bullið sem veltur upp úr "merkilegasta" fólki þessi árin.  Ábyrgð þessa merkilega fólks er óhemju mikil og ein vitleysa sem það lætur út úr sér í fjölmiðli er óðar orðið vitekið mál. Eitt dæmi þó þau séu auðvitað orðin fjölmörg:  Vegna byggingu hússins verður að fresta þessu.

Við getum auðvitað bara farið þá leið, að leyfa málfarinu sem börnin lærðu í leikskólum og uxu síðan ekki frá, að taka smám saman yfir. "Það hefur verið sagt mér að það var bara eðlileg þróun tungunnar".  

Það þarf fólk eins og Eið til að halda áfram að standa á bremsunni gagnvart þeirri óþróun sem er hér á ferð.

Og, nei, ég ætla ekki að verða sá maður. :) þó svo mér blöskri óstjórnlega.

Og hana nú.


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...