25 febrúar, 2018

Hegðunarreglur - Code of conduct - étiquette

Ég veit varla hvort þessara erlendu hugtaka sem nefnd eru í fyrirsögninni eiga betur við það sem ég hyggst fjalla um hér.
"Í hverju ætlarðu að fara?" spyr fD. Ég spyr hana aldrei í hverju hún ætlar. Hún spyr mig oftast og lætur mér í famhaldinu oft í té vinsamlegar ábendingar um það sem betur megi fara í fyrirætlunum mínum.
"Í hverju á maður að fara?" spyr ég stundum, og svarið er nánast undantekningalaust "Bingófötum".  Mér skilst að þannig föt séu vel þekkt fyrirbæri meðal fataspekúlanta.

Ég ætla mér ekki að fjalla um föt, en þau virðast standa mér nær en ég hélt.
Tilefni þess að ég legg hér í enn eina færsluna, er óvenjutíð menningarneysla okkar fD að undanförnu og í tengslum við hana, brot af þeim reglum sem maðurinn hefur komið sér upp við slík tækifæri.

FATNAÐUR
Ég spurði ekki um klæðaburð þegar við skelltum okkur á Sálir Jónanna í Aratungu, því ég þykist þekkja mitt heimafólk. Bingóföt urðu fyrir valinu og fóru vel með rauðvínsdrykkjuaðferðunum sem ég beitti þar.
Þegar maður leggur leið sína í sjálft Þjóðleikhúsið, gegnir nokkuð öðru máli. Það hefur mér í það minnsta fundist. Þá "klæðir maður sig upp á".  Þegar maður gerir það, er  það jakki og bindi ásamt betri buxum, en auðvitað komst ég að því að tiltölulega formlegur klæðnaður tilheyrir nú nánast liðinni tíð í leikhúsumhverfi. Maður gengur ekki lengur inn í hóp uppstrílaðs fólks í þessu þjóðarleikhúsi. Þarna var fólk mætt, klætt í fatnað sem varla náði bíngóstaðli í sumum tilvikum. Ég hef sennilega verið meðal þeirra sem voru hvað uppstrílaðastir (hvað þýðir þetta orð eiginlega?  Svarið er: decked-out, overdressed, dressed to kill, dressed to the nines, skv orðabók).
Í þriðju menningarreisunni lá leiðin í Hörpu og þá tók ég af skarið, til að stinga ekki of mikið í stúf og skellti mér í bingófötin. Þá bar svo við, að slík föt voru ekkert sérlega algengur klæðnaður, en þarna gat að líta allan fatnaðarskalann, allt frá fatnaði sem maður færi varla í, í uppskipunarvinnu (já, ég stundaði slíka vinnu eitt sinn) í klæðskeraðasaumaðan alklæðnað, pelsa og perlufestar.  Niðurstaðan af þessara reynslu var, að það má allt, alltaf.
Mér finnst sú þróun reyndar fremur dapurleg, að ýmsu leyti, þó ég sýti hana ekki að öðru leyti. Það var nefnilega heilmikill viðburður að fara í leikhús, þegar ég hafði ekki safnað jafn mörgum árum og nú.  Ætli hugtakið virðing hafi ekki verið í meiri hávegum haft á þeim tíma. Klæðaburðurinn fól í sér túlkun leikhúsgesta á virðingunni sem þeir báru fyrir leikhúsinu og einnig fyrir sjálfum sér og öðrum.
Túlkun Oskar Schlemmer á hinum sjálfmiðaða manni.
Nú er inni að gera bara nákvæmlega það sem manni dettur í hug og virðing fyrir einhverju, síðasta hugtakið sem kemur upp í hugann. Kannski er það afleiðing þess að virðingin hvarf þegar fólk uppgötvaði innihaldið í fólkinu sem virðingar naut í aðdraganda margumfjallaðs hruns, eða kannski var hrunið afleiðing af virðingarleysinu; þessu frelsi fólks til að gera nákvæmlega það sem því datt í hug og skeyta engu um annað fólk; innreið hins sjálfmiðaða manns: HOMO EGOCENTRICUS.

Þetta leiðir mig að hinum þættinum sem ég ætlaði að koma frá mér um þær óskráðu reglur sem gilda eða giltu í mannlegu samfélagi.  Mannlegt samfélag er til, vegna þess, að mennirnir hafa komið sér upp tilteknum aðferðum við að lifa saman á þessari jörð okkar, í stórum dráttum í sátt og samlyndi í einhver þúsund ára.

AÐ SETJAST
Ein af þessum reglum, sem mér finnst vera fremur víkjandi hjá hinum sjálfmiðaða manni, tengist einmitt leikhúsferðum.
Ef ég kaupi miða í leikhús, þá sé ég umsvifalaust í hvaða röð ég á að sitja og í hvað sæti. Þetta er allt númerað í bak og fyrir.  Ef sætisnúmerið mitt vísar á sæti sem er í enda raðar, get ég verið alveg rólegur þó svo mér seinki aðeins. Seinkoma mín truflar ekki annað fólk. Ég sest bara í sætið mitt á endanum eins og vera ber.
Ef númerið mitt er hinsvegar í miðri röðinni, geri ég mitt besta til að vera kominn tímanlega í sæti mitt. HOMO EGOCENTRICUS, sem á sæti í miðri röðinni, kemur hinsvegar rétt í þann mun sem sýningin hefst, helst aðeins seinn, með "Sjáið mig, hér kem ég, fokk jú" svipbrigðin á andlitinu og veldur því að upp undir tuttugu manneskjur þurfa að rísa úr sætum fyrir honum.
Ég viðurkenni, að ég á erfitt með að sætta mig við mannleg samskipti af þessu tagi. Þau verða hinsvegar æ meira áberandi.


Mér finnst ekki ólíklegt að HOMO EGOCENTRICUS sé dálítið að misskilja hlutina, blanda saman virðingu fyrir öðrum annarsvegar og virðingu fyrir sjálfum sér hinsvegar.   Hann hafnar því að bera virðingu fyrir öðrum, vegna þess, að geri hann það, sýni hann sjálfum sér virðingu, sem er auðvitað grundvallarmisskilningur þegar nánar er skoðað.
Beri maður ekki virðingu fyrir öðrum, þá ber maður ekki heldur virðingu fyrir sjálfum sér.
Maður breytist í lítinn kall, eða litla kellingu.

21 febrúar, 2018

Er það í raun bara þriðjungur?

Heildarvökutími 3ja ára barns á ári, miðað við 14 klukkustundir á sólarhring er 5110 klukkustundir.

Ef skoðað er dagatal leikskóla fyrir veturinn 2017 og 2018 og miðað við að þetta barn sé í 8 tíma vistun dvelur það í um 1810 klukkustundir á ári í umsjón annarra en foreldranna. Í umsjá foreldranna væri barnið þá 3300 klukkustundir. . Í þeirri tölu eru allir þeir dagar á árinu sem leikskólinn starfar ekki og 6 klukkustundir á hverjum virkum degi, fyrir og eftir að leikskóla lýkur.

Þetta þýðir að í um það bil 36% af vökutíma sínum dvelur barnið í umsjá leikskóla og þar með um það bil 64% í umsjá foreldra eða forráðamanna.

Svona getur þetta verið fyrstu 4-5 æviárin, ef frá er talið það fyrsta. Þannig má segja að barn í 8 tíma leikskóla á virkum dögum  í 4 ár, eyði þar 7240 klukkustundum.

Eftir er að svara spurningunni, að hve miklu leyti þessi 64% af vökutímanum getur talist vera svokallaður „gæðatími“, þar sem foreldrarnir taka með virkum hætti þátt í lífi barnsins: lesa fyrir það, tala við það, kenna því, skemmta sér með því, og svo framvegis. Hve mikill hluti þessa tíma fer í þætti þar sem barnið kemur eiginlega ekki við sögu: samfélagsmiðla, sjónvarp, matargerð, heimilisstörf, heilsurækt, skemmtanir, verslunarferðir og annað að þeim toga?

Ég hef ekki svarið við þeirri spurningu, en geng út frá því, að foreldrarnir séu þreyttir eftir vinnudaginn og vilji helst hvíla sig. Barnið er einnig þreytt eftir sinn dag sem hefur verið undirlagður af áreiti frá jafnöldrum. Líklega vill það einnig hvíla sig. Það væri ef til vill nær að ætla að virkur tími með foreldrunum sé talsvert lægra hlutfall vökutímans en 64%. Mér kæmi ekki á óvart ef hann er í kringum 30% eða þaðan af minna, en ég ítreka auðvitað, svo sanngjarn sem ég nú er, að þetta bara veit ég ekki og þetta er vísast misjafnt eftir fjölskyldum og fjölskylduaðstæðum.

Til samanburðar og gamans ætla ég að hverfa aftur um 60-70 ár, til reykvískrar fjölskyldu. Fjölskyldur þá voru taslvert barnfleiri en nú, enda svokölluð barnasprengja í gangi, börnin oft 5 eða fleiri. Ekki voru miklir möguleikar á að fá pössun fyrir þessi börn og það kom í hluta konunnar að gæta bús og barna meðan karlinn aflaði tekna til heimilishaldsins.

Ekki veit ég nákvæmlega hvenær dagvistun fyrir börn kom fram á sjónarsviðið fyrst, en hér neðst er umfjöllun frá 1928, sem er gaman að lesa.

Á stríðsárunum var tekið til við að senda börn úr borginni í sveit á sumrin og þá ekki síst vegna hættu á loftárásum á borgina. Á þeim tíma og síðar dvaldi mikill fjöldi reykvískra barna fjarri fjölskyldum sínum yfir sumartímann, annaðhvort á sveitabæjum, eða á sérstökum barnaheimilum. Reykjavíkurdeild Rauða krossins kom upp og rak heimili af þessu tagi, meðal annars í Laugarási, en þar var, frá 1952, tekið við um 120 börnum, 3-8 ára, til 8 vikna dvalar á sumrin. Sem sagt, börn, allt niður í þriggja ára, voru send að heiman í júní og komu ekki aftur í bæinn fyrr en í ágúst. Þegar ég nefni þetta, tekur fólk andköf. Börnin sem send voru til sumardvalar voru þar í átta vikur, og ef miðað er við sama vökutíma og ég geri hér efst, 14 tíma á sólarhring, gerir það 770 klukkustundir á ári, sem var þá sá tími sem börnin eyddu í umsjá annarra en foreldra sinna. Til upprifjunar þá dvelur 3ja ára barn nú 1810 klukkustundir í umsjá annarra en foreldranna, jafnvel í 4 ár.

Þegar upp er staðið, má segja að aðgengi barna að foreldrum sínum nú, sé umtalsvert minna en á þeim tíma þegar sumardvalarheimili fyrir reykvísk börn voru rekin víða um land.
Til að halda því nú til haga, þá sjá nútímabörnin allavega foreldra sína á hverjum degi.  
Eftir stendur spurningin um nýtingu þess tíma sem börn og foreldrar eru samvistum. Um það má margt segja, en það verður ekki gert hér og nú.

------------------------------------------

Sumargjöfin, í apríl. 1928 

Dagheimilið.

Ilt er að horfa á börnin á götunni hjer í Reykjavík alt sumarið, og góðir þykjast þeir foreldrar og eru það líka, sem hafa einhver ráð með að koma þeim þaðan og upp í sveit einhvern part úr sumrinu. Og þó að þeir sjeu orðnir margir, sem sjá ráð til þess, þá eru hinir fleiri, sem engin hafa ráðin. Barnavinafjelagið Sumargjöf rjeðst í það í fyrrasumar, að hafa nokkurskonar sveitaheimili, getur maður vel sagt, fyrir börn í Kennaraskólanum. Dagheimili var það kallað, því að börnin fóru heim til sín á kvöldin. Tilgangur félagsins var sá fyrst og fremst, að koma þeim, sem þar voru af götunni og veita þeim þar gott heimili, sem var svo í garðinn búið, að þau fengu góðan og einfaldan mat og nóga mjólk, — og vöndust þar góðum siðum, jafnframt því, sem þau gátu lifað lífi sínu úti í Guðs grænni náttúrunni, á Grænuborgartúnunum og melunum þar í kring, laus við götuna og alt, sem henni fylgir. Þyrftu þau einhvers með eða óskuðu einhvers, var hjálpin við hendina, þar sem við vorum, sem tekist höfðum á hendur að vera höfuð heimilisins. Ekki gat heldur verið um það að tala, að hópurinn væri nokkra stund eftirlitslaus, slíkt ungviði, sem þar var saman komið.  

Reynsla var hér engin fyrir, hvernig þetta mætti takast, eða hvert gagn mætti af verða, og undirbúningurinn heldur lítill. Félagið ungt, stofnað um sumarmálin í fyrra, og hafði litlu öðru yfir að ráða, en góðum og einlægum vilja, til þess að verða börnunum að liði. 

2000 kr. sem safnast höfðu á sumardaginn fyrsta í fyrra, var það eina fje, er það byrjaði þessa starfsemi sína með. Með sannfæringu og von þeirra, sem mestan áhuga höfðu fyrir að eitthvað gæti fjelagið gert fyrir uppeldi barna, var byrjað með þessu litla dagheimili, þannig að þó að þessi vísir, sem alveg væri ókunnugt um árangur af, væri lítill, þá myndi fjelagið altaf geta bygt upp af honum og haldið áfram, þótt ef til vill yrði breytt eitthvað til. 

Hvað voru nú börnin að gera? 
Þau veltu sjer og ljeku á túnunum, þau mokuðu upp melinn með skóflum sínum, óku sandi fram og aftur í litlu hjólbörunum. Stundum var stafrófið á ferðinni, blýantar og teiknibækur, og búnir til rammar o. fl. úr basti. Þau hlupu af stað, þegar bjallan kallaði í máltíðir, og þá var að þvo sjer, áður en tiltækilegt var að setjast að borðum, og þá varð oft handagangur í öskjunni, því höndurnar voru margar og moldugar, enda fór líka stundum vatn á gólfið, en þau hjálpuðu sjálf til að þurka það upp, eins og þau líka þurkuðu af í dagstofunni sinni og löguðu þar til á morgnana til skiftis og báru af borðinu eftir máltíðir og sópuðu molana, sem dottið höfðu af borðum. Borð öll og sæti voru lág og við þeirra hæfi. Þegar þau höfðu sest niður að borða, lásu þau öll í einu og hvert fyrir sig góða og gamla borðbæn, tóku "mundlínuna, sem lá í umslagi á hverjum diski og létu framan á sig og tóku sér skamt, eftir að búið var að biðja þau að gera svo vel. Stóðu upp frá borðum þökkuðu fyrir sig og fóru til leikja sinna. Þessu líkt liðu dagarnir þarna þessa tvo mánuði, júlí og ágúst. Foreldrar barnanna voru ánægð með börnin sín þarna, og unnið var í þeim anda eins og áður er áminst, að þau ættu þarna heimili, sem ljeti sjer ant um að þeim liði

18 febrúar, 2018

Af öllu karlkyni meðal yðar skal skera eyrnasnepilinn.

Nýjasta atlagan að trúarbrögðum heimsins er gerð þessar vikurnar. Hún felst í því, að banna með lögum að framfylgt verði á Íslandi sáttmála sem Abraham nokkur, þá 99 ára á að hafa gert við Drottin.  Sáttmálinn fólst í því að Drottinn ætlaði að gera þetta:

Fyrsta Mósebók, 17. kafli

Sjá, það er ég, sem hefi gjört við þig sáttmála, og þú skalt verða faðir margra þjóða. Því skalt þú eigi lengur nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig. Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér skulu konungar koma. Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála: að vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig. Og ég mun gefa þér og niðjum þínum eftir þig það land, sem þú nú býr í sem útlendingur, allt Kanaanland til ævinlegrar eignar, og ég skal vera Guð þeirra."

Á móti átti Abraham að gangast undir þetta:
"Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera".

Ég birti 17. kafla 1. Mósebókar hér neðst, fyrir þau ykkar sem áhuga hafið.

Í þessum kafla kemur fram, að Abraham, sem svo gamall ssem kemur fram hér að ofan muni eignast syni með konu sinni, henni Söru, sem er níræð.
Ég ber fulla virðingu fyrir þeim sem trúa. Þeir hafa fullan rétt á því, og ég er meira að segja svo óstöðugur í vantrú minni að ég tek reglulega þátt í trúarathöfnum.  
Ég trúi ekki á vitleysu.
Þá er auðvitað spurningin: Hvað er vitleysa?  Svarið við henni er ekki einfalt. Mín vitleysa er einhvers annars, jafnvel, dýpsta speki.

Ég er æ meir að komast á þá skoðun, að við (það er að segja þeir sem trúa) veljum það úr helgiritunum sem er okkur þóknanlegt og sem við teljum ekki vitleysu. Tínum til allt það sem styður skoðanir okkar, reynum að líta framhjá hinu og ef við getum það ekki, segjum við ef til vill að það séu breyttir tímar. Við viljum þá ákveða hverju breyttir tímar eiga að fá að breyta. 
Þetta er oft frekar vandræðalegt.

Lengi var hangið á þessu:

Þriðja Mósebók 18. kafli
Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.

Nú erum við Íslendingar búnir að komast að því, að það sé kannski fulllangt gengið að tala um þetta sem viðurstyggð. Hversvegna skyldi það nú vera?  Ég tel það til komið vegna baráttu fyrir mannréttindum. Texti hinna fornu trúarrita varð að víkja fyrir þeirri ætlan að hver maður skuli njóta sama réttar þau fáu ár í eilífðinni sem hann fær að ganga á þessari jörð.

Eru það fyrst og fremt hagsmunir trúarleiðtoga, eða starfsmanna trúfélaga sem eiga að ráða för, þegar ákveðið er hverju í trúarritum skal framfylgt og hverju má líta framhjá?.

Umskurður ungbarna er aldeilis fyrirlitlegur verknaður. Ekki nenni ég að elta þær röksemdir sem halda  kostum hennar á lofti, þegar trúarrökum sleppir. Í mínum huga eru engin rök fyrir þessari gjörð og ég er hissa á íslenskum kennimönnum sem koma henni til varnar.

Ekki veit ég hvort það er samhengi milli umskurðar og herskárra þjóða, en ég neita því ekki að sú hugsun hefur læðst að mér. Skyldi umskurðurinn mögulega hafa eitthvað með það að gera? Hefur það verið rannsakað?

Kristnir menn ákveða, að reifabörnum sínum forspurðum að bera þau til skírnar. Látum það vera, enda gefst þeim einstaklingum sem skírast færi á því að ákveða síðar hvort þeir staðfesta  skírnina í fermingunni. Í fermingunni staðfestir barnið skuldbindingu foreldra og guðfeðgina í skírnarathöfninni ef það svo kýs. Þar með er skírnin afturkræf aðgerð, gagnstætt umskurðinum. 

Ef Drottinn hefði gert það að skilyrði í sáttmálanum sem hér um ræðir, að skera skyldi eyrnasnepil af drengjum innan 8 daga frá fæðingu, væri það gert enn í dag?  
Hver veit?
Ekki ég, enda á ég oft í braski með að skilja samferðafólk mitt á þessari jörð. 

............................................

Fyrsta Mósebók 17. kafli
Er Abram var níutíu og níu ára gamall, birtist Drottinn honum og sagði: "Ég er Almáttugur Guð. Gakk þú fyrir mínu augliti og ver grandvar, þá vil ég gjöra sáttmála milli mín og þín, og margfalda þig mikillega."
Þá féll Abram fram á ásjónu sína, og Guð talaði við hann og sagði: "Sjá, það er ég, sem hefi gjört við þig sáttmála, og þú skalt verða faðir margra þjóða. Því skalt þú eigi lengur nefnast Abram, heldur skalt þú heita Abraham, því að föður margra þjóða gjöri ég þig. Og ég mun gjöra þig mjög frjósaman og gjöra þig að þjóðum, og af þér skulu konungar koma. Og ég gjöri sáttmála milli mín og þín og þinna niðja eftir þig, frá einum ættlið til annars, ævinlegan sáttmála: að vera þinn Guð og þinna niðja eftir þig. Og ég mun gefa þér og niðjum þínum eftir þig það land, sem þú nú býr í sem útlendingur, allt Kanaanland til ævinlegrar eignar, og ég skal vera Guð þeirra."
Guð sagði við Abraham: "Þú skalt halda minn sáttmála, þú og niðjar þínir eftir þig, frá einum ættlið til annars. Þetta er minn sáttmáli, sem þér skuluð halda, milli mín og yðar og niðja þinna eftir þig: Allt karlkyn meðal yðar skal umskera.
Yður skal umskera á holdi yfirhúðar yðar, og það sé merki sáttmálans milli mín og yðar.
Átta daga gömul skal öll sveinbörn umskera meðal yðar, ættlið eftir ættlið, bæði þau, er heima eru fædd, og eins hin, sem keypt eru verði af einhverjum útlendingi, er eigi er af þínum ættlegg.
Umskera skal bæði þann, sem fæddur er í húsi þínu, og eins þann, sem þú hefir verði keyptan, og þannig sé minn sáttmáli í yðar holdi sem ævinlegur sáttmáli.
En óumskorinn karlmaður, sá er ekki er umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni. Sáttmála minn hefir hann rofið."
Guð sagði við Abraham: "Saraí konu þína skalt þú ekki lengur nefna Saraí, heldur skal hún heita Sara.
Og ég mun blessa hana, og með henni mun ég einnig gefa þér son. Og ég mun blessa hana, og hún skal verða ættmóðir heilla þjóða, hún mun verða ættmóðir þjóðkonunga."
Þá féll Abraham fram á ásjónu sína og hló og hugsaði með sjálfum sér: "Mun hundrað ára gamall maður eignast barn, og mun Sara níræð barn ala?"
Og Abraham sagði við Guð: "Ég vildi að Ísmael mætti lifa fyrir þínu augliti!"
Og Guð mælti: "Vissulega skal Sara kona þín fæða þér son, og þú skalt nefna hann Ísak, og ég mun gjöra sáttmála við hann sem ævinlegan sáttmála fyrir niðja hans eftir hann. Og að því er Ísmael snertir hefi ég bænheyrt þig. Sjá, ég mun blessa hann og gjöra hann frjósaman og margfalda hann mikillega. Tólf þjóðhöfðingja mun hann geta, og ég mun gjöra hann að mikilli þjóð.
En minn sáttmála mun ég gjöra við Ísak, sem Sara mun fæða þér um þessar mundir á næsta ári."
Og er Guð hafði lokið tali sínu við Abraham, sté hann upp frá honum.
Þá tók Abraham son sinn Ísmael og alla, sem fæddir voru í hans húsi, og alla, sem hann hafði verði keypta, allt karlkyn meðal heimamanna Abrahams, og umskar hold yfirhúðar þeirra á þessum sama degi, eins og Guð hafði boðið honum.
Abraham var níutíu og níu ára gamall, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar.
Og Ísmael sonur hans var þrettán ára, er hann var umskorinn á holdi yfirhúðar sinnar.
Á þessum sama degi voru þeir umskornir Abraham og Ísmael sonur hans,
og allir hans heimamenn. Bæði þeir, er heima voru fæddir, og eins þeir, sem verði voru keyptir af útlendingum, voru umskornir með honum.

16 febrúar, 2018

Rautt af stút fyrir augliti djöfulsins

Það er upplífgandi þegar maður loksins togar sjálfan sig upp úr sófanum eftir kvöldmat og skellir sér á leiksýningu.  Togið sjálft tók auðvitað á, enda finnst mér aldeilis ágætt að vera ekkert mikið að taka þátt í einhverju útstáelsi svona þegar líður á dag og jafnvel farið að nálgast háttatíma.
Þar sem engin regla er án undantekninga og tilefnið ærið létum við fD verða af því að leggja í ökuferð upp í Aratungu í gærkvöld til að upplifa leikverkið:
Sálir Jónanna ganga aftur 
sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir þessar vikurnar á milli þess sem lægðir skella á ströndinni suðaustanverðri og ná jafnvel að valda ófærð á þessu annars veðurfarslega rólega svæði.
Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson og má líklega halda því fram að hann hafi verið og sé fastráðinn hjá leikdeildinni árum saman.
Talning mín í leikskránni leiðir í ljós að hér er á ferðinni þrítugasta uppfærsla á vegum ungmennafélagsins frá því Aratunga tók við sem félagsheimili Tungnamanna árið 1961. Af þessum 30 sýningum hef ég tekið að mér hlutverk í einni, Tobacco Road sem byggir á skáldsögu eftir Erskine Caldwell. Ég hef ávallt verið jafnundrandi á því að ekki skuli hafa verið leitað til mín með þátttöku í leiksýningum síðan. Hversvegna skyldi það nú vera?

Jæja, jamm og já.

Þarna komum við í leikhúsið Aratungu, fengum þessa fínu, grænu miða og leikskrá, að lokinni hóflegri greiðslu. Við höfðum lagt af stað snemma þar sem sálfræðilegt innsæi okkar gaf skýrt til kynna að húsið yrði sneisafullt þar sem sveitungarnir væru orðnir aðframkomnir af innilokunarkennd eftir óveðurskafla og tvö sýningarföll. 15 mínútum fyrir sýningu vorum við komin með miða í hendur  frá þeim Bajrna á Brautahóli og Skúla Sæland. Þá birtist Oddný á Brautarhóli okkur í sjoppulúgunni. Hún reyndist hafa ýmislegt til sölu, svo sem rauðvín og hvítvín og bjór, svo eitthvað sé nefnt. Við létum slag standa og skelltum okkur á rauðvín, sem afgreitt var í svona litlum flöskum. Þetta gerðum við ekki síst til að það myndi losna lítillega um hláturtaugarnar undir sýningunni, því ekki var nú hægt að halda því fram að fólkið streymdi að og því nauðsynlegar að þeir sýningargestir sem til staðar voru myndu hlæja með óheftari hætti á viðeigandi stöðum og þannig teljast "góður salur".
Það fylgdi ekki glas flöskunni, og ekki heldur brúnn bréfpoki. Þetta var auðvitað til fyrirmyndar og í góðu samræmi við hið umhverfisvæna samfélag sem Bláskógabyggð er. Hvaða vit er líka í því að hella úr glerflösku í plastglas til þess, síðan, að henda plastglasinu að notkun lokinni, ásamt flöskunni.  Sannarlega viðurkenni ég, að sú aðgerð að drekka áfenga drykki af stút, lítur ekki vel út svona til að byrja með og ég viðurkenni að ég var nokkuð feiminn við það, en þessi tilfinning hvarf fljótt, þar sem ég skýldi flöskunni með leikskránni og lét sem ég þyrfti að geispa í hvert skipti sem ég fékk mér sopa. Þetta var bara hið besta mál og mér leið betur á eftir, ekki síst við þá tilhugsun að ég hafði engu bætt við ruslahauga heimsins.

Þá er best að snúa sér að leikverkinu, sem Hugleikur frumsýndi fyrir tuttugu árum: Sálir Jónanna ganga aftur.
Ég er enginn leikhúsfræðingur eða bókmennta og freista þess því ekki að dæma eitt eða neitt eða einn eða neinn.
Verkið fjallar um áhyggjur Satans sjálfs (Hjalta Gunnarssonar) af lélegri aðsókn í neðra. Hann nýtur dyggs, en vanþakkláts stuðnings Móra (Írisar Blandon) við að reyna að bæta úr þessu.  Ekki verða tilraunir þeirra hjúanna til að veiða sálir taldar mjög árangursríkar og það gengur á ýmsu, sem ég ætla auðvitað ekki að ljóstra upp um hér. Fólk verður bara að fara á stjá og sjá með eigin augum hvernig sálir Jónanna (sem eðli máls samkvæmt) láta lífið hver með sínum afar trúverðuga hætti og eru síðan háðir því hvernig maki þeirra eða nánasti vinur freistar þess að koma þeim í hið efra með mis markvissum og vel meintum hætti, undir stöðugum tilraunum Satans og Móra til að koma í veg fyrir að svo geti orðið.
Allt fer þetta einhvernveginn að lokum.

Það veit maður, áður en maður fer á svona sýningu, að hún er ekkert að reyna að keppa við Ibsen eða Albee. Hún er ekki að þykjast vera neitt annað en hún er: hreint ágæt kvöldskemmtun.

Ég heyrði sagt fyrir aftan mig (í öftustu röðinni af þeim þrem sem setnar voru): "Mér finnst miklu skemmtilegra að fara á svona áhugamannasýningu heldur en á leikrit með atvinnuleikurum".  Ég get eiginlega alveg tekið undir þessa skoðun. Maður veit að fólkið sem þarna kemur fram hefur lagt á sig feikilega mikla vinnu ofan á fullan vinnudag,  vikum saman , oftar en ekki með heilu fjölskyldurnar á bak við sig, sem verða þannig óbeint þátttakendur í uppsetningunni með því að leikarinn eða ljósamaðurinn, eða búningahönuðurinn er meira eða minna að heiman á kvöldin og um helgar allan afingatímann.  Þetta gera aðstandendur svona sýninga einvörðungu vegna þess að þeir fá út úr því ómælda ánægju.
Ég tala af reynslu, maðurinn sem einu sinn varð nánast leiklistarbakteríunni að bráð.

Við hin, sem ekki tökum þátt, skuldum þessu fólki viðveru okkar á eins og eina sýningu hvert og það sem meira er: við skuldum sjálfum okkur að rífa okkur upp af r.......nu og hafa gaman eina kvöldstund.

Myndirnar sem ég birti hér tók ég ófrjálsri hendi af Facebooksíðu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna. 
Á þessari síðu má fylgjast með næstu sýningum.

12 febrúar, 2018

S*N*J*Ó*R

Kva, þetta er nú ekkert! Þegar maður hefur upplifað það að fá flutning með vélsleða frá Laugarási á Laugarvatn, eftir hálfs mánaðar fjarvist úr vinnu, segir maður nú bara "piff!".
Jæja, en þetta er nú bara karlagrobb, svona dæmigerð aðferð við að toppa það sem síðasti maður sagði.
Ekki taka mark á þessu, frekar en þú vilt, en samt er þetta alveg satt. Kristinn Kristmundsson, skólameistari greip til þess örþrifaráðs, þegar vegir í uppsveitum voru búnir að vera lokaðir lengi vegna snjóþyngsla, líklega í kringum árið 1990, að senda vélsleðakappa frá Laugarvatni, Sigurð Sigurðsson, sem kallaður er Siggi súper, eftir mér. Þá var ég búinn að vera hálfan mánuð frá vinnu.
Það var komið kvöld þegar vélsleðinn renndi í hlað. Veðrið var bara ágætt, lítilsháttar fjúk, en gott skyggni. Ég settist fyrir aftan Sigga og svo var brunað af stað. Vegurinn út að Spóastöðum var enganveginn sjáanlegur, allt rennislétt, vegheflarnir löngu hættir að reyna að opna.  Eftir að komið var yfir Brúará lá leiðin að afleggjaranum að Seli og síðan Haga.
Frá Haga stóð Siggi sleðann þvert yfir Apavatn og síðan beinustu leið út á Laugarvatn, rétt framhjá Hjónavökinni og þaðan stystu leið upp í skóla.  Þetta ferðalag tók ekki langan tíma og mér hefur stundum orðið hugsað til þess síðan, hve mikinn tíma ég hefði nú sparað mér á 31 ári, ef vegur lægi þessa leið milli Laugaráss og Laugarvatns.

Já, það hefur snjóað eitthvað undanfarið, varla von á öðru í febrúar á Íslandi. Mér finnst fólk nú vera veðurhræddara en áður, sem kannski er misskilningur minn. Sennilegast er gert meira úr málum vegna ferðamanna sem hafa engan grun um hvað getur komið upp á, á þessum slóðum.

Sem fyrr, varð þessa veðurs lítið vart í Laugarási, það heyrðist hvinur í trjátoppum á einhverjum tíma, en það var allt og sumt. Þetta hefur ekki alltaf verið svo. Áður en skjól trjánna fór að hafa þau áhrif sem það hefur nú, brast hér á með stórviðrum eins og annarsstaðar.

Eftir ævintýrin síðasta sólarhringinn er víst önnur lægð á leiðinni og fátt er vitða hvað hún mun hafa í för með sér fyrir landann og ferðamennina. Mér finnst nú bara spennandi ap bíða og sjá, enda hef ég engar fyrirætlanir um að leggja af stað í vinnuna í fyrramálið um sjöleytið.
Ágætis tilhugsun.

Í dag hefur veðrið veitt okkur andrúm til að kíkja út, og draga ofaní okkur ferskt vetrarloftið. Svo skríðum við aftur í hýði okkar og sjáum hvað setur.

Matthías Líndal Jónsson, Slakkamaður og fD skeggræða um veður og færð.

06 febrúar, 2018

Umboðsmaður málleysingja

Ég læt mér fátt óviðkomandi og hef reyndar áður fjallað um þetta málefni, en geri það aftur nú í tilefni af degi leikskólans.
Það er eins með alla þá sem ekki hafa mál til að tjá sig, eða þroska til að gefa skýrt til kynna vilja sinn eða þarfir. Þannig er það með smáfuglana sem bíða í trjánum á hverjum morgni og éta síðan af hjartans lyst allan daginn, ef þeir fá fóður. Þeir kunna ekki að þakka fyrir sig, þeir banka ekki á gluggann til að tilkynna að þeir séu svangir og vilji fá mat, þeir halda áfram að leita þó þeir séu búnir með allt. Loks hverfa þeir í náttstað og sjást ekki aftur fyrr en daginn eftir.  Ég spyr mig:
Hvað get ég gert betur til að þessir "litlu skrattar" lifi af veturinn og ali síðan af sér næstu kynslóðir til að gleðja mig.
Hvenær er nóg gefið, hvenær of mikið, hvenær of lítið?
Þeir geta ekki sagt mér það með öðrum hætti en þeim að flögrið verður léttara og tístið ef til vill glaðlegra þegar allt er í lagi.
Ég þarf að reyna að lesa í þarfir þeirra og það gengur svona og svona. Mögulega þarf ég að læra meira um eðli þessara litlu vina minna til að nálgast svörin.

Ómálga barn hefur eðli máls samkvæmt ekki mál eða þroska til að tjá vilja sinn eða þarfir. Það er samt mikið fjallað um börn í þessu samfélagi og þarfir barna. Við berjumst fyrir því að vel sé gert við börn.
Í rauninni erum við ekkert að því.
Við erum fyrst og fremst að berjast fyrir þörfum foreldra. Börnin hafa ekkert um málið að segja.  Börn hafa hinsvegar verið rannsökuð fram og til baka af vísindamönnum úr ýmsum geirum. Skyldu niðurstöður úr þeim rannsóknum benda ótvírætt til þess, að það sé börnum mikilvægt að dvelja utan heimilis í allt að níu klukkustundir á dag, í umsjá fólks sem er ofhlaðið vinnu? Skyldu niðurstöðurnar benda til þess að það sé örvandi, þroskandi og hollt fyrir börn að dvelja með jafnöldrum sínum á hverjum virkum degi í allt að níu klukkustundir? Börn á þessum aldri eru nú ekki hljóðlátustu verur sem fyrirfinnast. Er það hugsanlega þroskandi eða hollt fyrir velferð barna að eyða átta til níu tímum á dag í stöðugum klið?
Reynum að hugsa þetta mál út frá börnunum, en ekki foreldrunum. Breytum síðan samfélaginu þannig, að ómálga börn dvelji ekki á stofnunum meira en 5-6 tíma að hámarki á hverjum degi.
Þetta er samfélagslegt mál, sem brýnt er að taka á.

Það þarf að hlusta á það sem ómálga börn geta ekki sagt. Því er ég kominn á það stig að kalla eftir því að sett verði á fót embætti umboðsmanns ómálga barna.  Jú, það er til embætti umboðsmanns barna, en ég hef ekki heyrt af því að það embætti taki sérstaklega fyrir þau börn sem ekki hafa mál. Þau eru ofurseld því sem foreldrar þeirra telja þeim eða sjálfum sér fyrir bestu, og þeir taka þá jafnvel frekar mið af eigin þörfum en þörfum barnsins.

Ég er nú ekki alveg grænn gagnvart þessu og vil því fara varlega í að kenna foreldrum um þetta allt saman, en þeir eiga sannarlega sína sök, ekki kannski viljandi, heldur frekar vegna þess að þeir hreinlega vita ekki betur. Það fæðist enginn með þekkingu til að vera foreldri. Hvernig á fólk að læra það?
Foreldrar sem nú eru að sjá fyrir þörfum ómálga barna voru flestir sjálfir undir þá sök seldir að vera geymdir á dagvistunarstofnunum 40-50 klukkustundir á hverri viku. Fyrir þeim er þetta eðlilegt og sjálfsagt - jafnvel spurning um rétt frekar en þarfir.

Í mínum huga þurfa ómálga börn umhyggju foreldra sinna stærstan hluta sólarhringsins. Þau þurfa að fá að hlusta á foreldra sína tala við sig, segja sér sögur, lesa fyrir sig, segja sér til, kenna sér hvað rétt er og rangt, setja sér mörk, nota hnífapör og allt það annað sem rannsóknir vísindamanna hafa leitt í ljós að er þroskavænlegt fyrir börn.

Samfélagið á sannarlega sína sök, ekki hvað síst að því er varðar það umhverfi sem fólki með börn er búið. Annað hvort hefur raungildi tekna fólks verið að fara stöðugt minnkandi eða þá að kröfur til lífsgæða hafa tekið stökk upp á við.  Nú þurfa allir að vinna fulla  vinnu til að hafa í og á sig og fjölskylduna.  Þessu finnst mér þörf á að breyta. Fólk þarf að temja sér rólyndislegra líferni og afslappaðra. Meiri tekjur auka nefnilega ekki lífshamingjuna, gagnstætt því sem virðist viðtekin skoðun.

Við þurfum að stytta vinnuvikuna og mér finnst að það gæti verið góð hugmynd að greiða foreldrum úr einhverjum sjóði fyrir að stytta vinnudaginn gegn því að vera í samvistum við börn sín.  Þannig gætu foreldrar í mörgum tilvikum minnkað starfshlutfall sitt án þess að tekjur skertust.
Það eru börnin sem skipta máli í þessu og það eru um þau sem þetta á að snúast, en ekki foreldrana. Börn eru ekki einhver óæskilegur baggi á foreldrum sínum, heldur beinlínis tilgangur tilveru þeirra, hvorki meira né minna.

Ég skal fyrstur manna viðurkenna, að ég er á sjötugsaldri og þarf því ekkert að vera að pæla í þessu og það má alveg skella því framan í mig að ég viti ekkert hvað ég er að tala um. Það má alveg segja við mig að minn tími sé liðinn, nú séu aðrir tíma og þarfir barna öðruvísi. Það má jafnvel spyrja mig, með hneykslunartón, hvað ég vilji eiginlega upp á dekk.
Ég held hinsvegar að á hvaða öld sem er fæðumst við eins inn í þennan heim. Það sem við tekur er síðan í höndum foreldranna og samfélagsins.

Ég hef eytt starfsævinni í að fást við ungt fólk og tel mig harla heppinn að hafa fengið það. Ég hef hinsvegar oft hugsað miður fallega til foreldra sem hafa augjóslega veitt börnum sínum hörmulegar aðstæður fyrstu árin í lífi þeirra, með allskyns afleiðingum fyrir bæði samfélagið allt og fjölskylduna.

Breytum þessu, eða ætti ég kannski að segja: "Breytið þessu!"



04 febrúar, 2018

Ég nálgast efsta stig.

Ég ætla að reyna að komast að niðurstöðu um hvað felst í því að vera góður. Ég tæpti á þessu málefni í síðasta pistli og ætla að freista þess að halda áfram.  Ég hef ákveðið, við þessa pælingu mína að líta til smávinanna sem njóta veitinga í görðum landsmanna yfir vetrartímann. Ég ætla meira að segja að þrengja vinfengið alveg niður í eina tiltekna tegund: auðnutittling.

Í framhaldi af því hyggst ég freista þess að flokka fólk niður eftir nálgun þess að "litlu kvikindunum" eins og fD kallar þessa smáfugla oftast.

Hefst nú flokkunin:
1. Sá sem er ekki góður, lætur sem vind um eyru þjóta auglýsingar um að við skulum muna eftir smáfuglunum með því að fóðra þá í garðinum.

2. Sá sem segist vera góður, en er það ekki, hvetur fólk til að muna eftir smáfuglunum, en gerir ekkert í málinu sjálfur. Hann lítur svo á að hann sé búinn að senda frá sér skilaboð um gæsku sína með því að tjá sig um málið og fá kannski einhverja til að bregðast við. Þar með telur hann sig vera búnn að uppfylla kröfur um það sem telst að vera góður. Það er hann auðvitað ekki. Hann er bara búinn að lemja einhver orð á lyklaborðið.

3. Þetta er neðsta stig þess sem telst vera góð manneskja. Þessi kaupir eitthvert korn í Bónus án þess að velta fyrir sér hvort það hentar auðnutittlingum. Hendir því síðan einu sinni að morgni út á pall og lætur þar við sitja. Telur sig þar með vera búinn að sjá nægilega fyrir þörfum þessa fiðurfjár. Þarna skiptir hann engu máli hvort það er brunagaddur eða mígandi rigning, eða allt þar á milli. Hann fóðrar þessa fugla út frá SÍNUM forsendum og innan síns þægindaramma. Tekur jafnvel myndir af ræflunum rétt eftir að hann er búinn að henda korninu út, birtir síðan á samfélagsmiðli, nánast með skilaboðunum: "Sjáið hve góður ég er!"

4. Á þessu stigi er góða manneskjan farin að henda út fóðri tvisvar til þrisvar á dag. Jafnframt kíkir hún inn á Fuglavernd.is til að nálgast upplýsingar um hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Er búin að komast að því að bónuskornið er harla takmarkað, leitar uppi aðra aðila sem mögulega selja fuglafóður, og næst þegar hún á leið í kaupstað, jafnvel nokkrum dögum seinna, eykur hún fjölbreytni fóðursins með því að fara á fleiri staði. Nú er hún jafnvel farin að kaupa inn eftir vigt hjá Fóðurblöndunni og einnig farinn að fylgjast vel með birgðastöðunni á pallinum og bæta á eftir þörfum. Hún er þó ekki farin að huga að veðurfarslegum þáttum, þannig að úrkoma veldur því að síður er sett út fóður, enda hverfur það fljótt undir snjóinn, eða rignir niður og verður að mauki.

5. Auk þess sem getið er á fjórða stigi, er góða mannskjan nú búin að átta sig á því, að smáfuglarnir þurfa ekki síður fæðu þegar snjóar eða rignir. Þar með upphugsar hún leiðir til að skýla fóðrinu, og þá einnig litlu kvikindunum fyrir ofankomu. Þannig nýtir hún ef til vill garðbekk sem hún skellir masóníttplötu ofan á, vitandi að hún býr við aðstæður þar sem úrkoma fellur ávallt lóðrétt úr loftinu. Hún fylgist nákvæmlega með lífinu á pallinum og sér til þess að þar sé ávallt eitthvað að bíta og brenna. Stofuborðiið er nú orðið þakið pokum og fötum með fóðri og það er jafnvel svo komið, að þessi góða manneskja er farina að reyna að lesa í tístið til að átta sig á hvað mætti betur fara.
Auk þess sem að ofan er nefnt er þessi góða manneskja farin að gera sér sérstaka ferð í kaupstað til fóðurkaupa.

6. Þegar hér er komið, á efsta stig þess að vera góð manneskja, er litlu kvikindunum boðið húsnæði. Þannig yrði stofunni lokað og opnað út á pall. Fyrir innan væri komið fyrir fóðurstömpum og jafnvel brynningartækjum. Í tilvikum þar sem aðeins tveir einstaklingar búa í tiltölulega stóru einbýlishúsi, gæti hér verið um að ræða hina endanlegu lausn. Hástig manngæskunnar.

Þá er ég búinn að flokka fólk, með tilliti til gæða þess.  Það skal skýrt tekið fram, að hér er um að ræða dæmisögu sem hægt er að beita hvar sem er í samfélaginu. Það eru allstaðar einhverjir sem eru aflögufærir og einhverjir sem þurfa.
Hvar ert þú á þessum skala?


Mér finnst líka nauðsynlegt að fram komi, að fD hefur hafnað hugmynd minni um að opna inn í stofuna og þar með verður bið á að ég ná hástigi manngæsku.

Loks, svona til að fyrirbyggja misskilning, þá er ég í rauninni ekkert sérstaklega góður - fell bara vel að þessum skala.

03 febrúar, 2018

Fer hún upp?

Ekki veit ég hverskonar hugsunarháttur það er, kannski eitthvað eðlislægt og sem er hluti af því að vera manneskja, en ég er ekki alveg viss nema það hvarfli að mér að það gæti verið spennandi ef Hvítá leysti af sér klakaböndin með dálitlum látum.
Þetta er ekki beinlínis falleg hugsun, en ég skýli mér á bak við það, að við mannfólkið viljum alltaf hafa einhverja "sensasjón", einhver átök, eitthvað stórt sem setur líf fólks úr skorðum. Þannig nærast fjölmiðlar á hörmungafréttum því enga næringu fá þeir úr því sem slétt telst og fellt.
Flóð í Hvítá gæti sett og hefur sannarlega sett líf fólks úr skorðum

Vísir, 3. mars, 1930
Áin mun hafa runnið alveg yfir Bræðratungu heim að bæ og yfir alla Skálholtstungu upp að Skálholtsásum. Bærinn Reykjanes í Grímsnesi, við Brúará, var umflotinn, og varð ekki í ívo daga komist úr bænum. Bátur úr Skálbolti komst þangað í morgun. Vatnið var á miðjar síður á bestunum i hesthúsinu í Reykjanesi. Við nánari fregnum úr Tungunum er vart að búast fyrr en í fyrsta lagi í kveld, er menn geta farið á milli, sem horfur eru á

Já, við mannfólkið viljum einhverskonar uppnám, eitthvað sem kemur eilitlu róti á tilfinningar okkar, eitthvað sem snertir okkur, við viljum "sensasjón". Hvað ætli við höfum einhvern áhuga á einhverju venjulegu? Ófarir annarra eru okkur að skapi, ekki í orði, auðvitað,  Það er meira að segja svo, að allt þjóðlífið er orðið gegnsýrt af þessari þrá okkar eftir "sensasjón", allt frá athugasemdakerfum (kommentakerfum) fjölmiðla eða samfélagsmiðla til æðstu stofnana ríkisins.

Það er nefnilega orðið þannig, að það ná engin mál í umræðuna hjá okkur, nema þau feli í sér "sensasjón".  Ef persónulegur harmleikur liggur að baki, þá er áhugi okkar vakinn. Ef lögbrot eða siðferðisbrestur liggur að baki rísum við upp í heilagri vandlætingu.  Við erum nefnilega svo óskaplega "góð". Samt erum við það ekki í reynd. Við erum dálitlir hrægammar, ekki í orði, heldur innra með okkur, eða í raun.
Ég er svona líka, tel ég, þó ég voni að svo sé ekki. Ég vel og hafna, skanna yfir fyrirsagnir og ef þær vekja ekki áhuga minn, læt ég vera að lesa lengra.  Svona er þetta bara.    

Ég er í aðstöðu til að rannsaka þetta eilítið þar sem ég hef dundað mér við að skrifa þessa pistla við og við. Ég get síðan séð hve margir skoða eða lesa. Ég hef tekið eftir því, að ef ég fjalla um eitthvert ólán sem hefur hent mig, fjölgar lesendum, ef ég fjalla um skoðanir, án þess að þær feli í sér einhverjar öfgar, hlýtur umfjöllunin heldur dræmar viðtökur.  Ef ég skreyti umfjöllunina með fyrirsögn sem gæti jafnvel talist hneykslanleg, þá fjölgar lesendunum.
Hér má sjá nokkur dæmi af handahófi um fjölda þeirra sem hafa í það minnsta opnað á bloggpistla.  Þessir tveir sem fóru upp fyrir 2000 lesendur eiga sínar skýringar í allmikilli "sensasjón".

Svona gerir maður í janúar         84  Hér greini ég frá linsukaupum.
Austur verður vestur og öfugt     83 Hér pæli ég hvernig Hvítárbrúin snýr.
Ekki mjög trúlegt                        57 Hér segir frá myndatökuferð í Skálholtsása og fleira.
Árás á náttúruöflin                      75 þetta er um tilraun til að skjóta niður fellibyl.
Jón frændi                                   71 segi frá nokkuð fjarskyldum frænda frá Alberta sem við tókum á móti.
„Fokkings fávitar“                      501  um viðskipti við rútubílstjóra á brúnni
Aumingja konurnar                    5758
Til Hildar                                    2684
Svo segi ég ekki meira um það  963 um hjúkrunarheimili í Laugarási.

-------

Eins og svo oft áður, tókst mér að víkja umtalsvert frá því efni sem til stóð að fjalla um: mögulegt flóð í Hvítá.  
Ég er í sjálfu sér engu nær. Áfram lifir í mér strengurinn sem kallar á að áin "fari upp" með látum. Hann togast á við hina strengina, sem eru talsvert mildari í afstöðu sinni og leiða mig frekar inn á þau svið þar sem allt er slétt og fellt.  
Ég afgreiði þetta bara þannig, að það skiptir engu máli hverjar óskir mínar eru í þessum efnum. Þær breyta engu um það sem verður.

Smá sensasjón í lokin: 



Haförn þessi flaug rétt ofan Hvítárbrúar í gær í fylgd annars. Bráðabirgðagreining Kristins Hauks Skarphéðinssonar hjá Náttúrufræðistofnun er svona: 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...