16 febrúar, 2018

Rautt af stút fyrir augliti djöfulsins

Það er upplífgandi þegar maður loksins togar sjálfan sig upp úr sófanum eftir kvöldmat og skellir sér á leiksýningu.  Togið sjálft tók auðvitað á, enda finnst mér aldeilis ágætt að vera ekkert mikið að taka þátt í einhverju útstáelsi svona þegar líður á dag og jafnvel farið að nálgast háttatíma.
Þar sem engin regla er án undantekninga og tilefnið ærið létum við fD verða af því að leggja í ökuferð upp í Aratungu í gærkvöld til að upplifa leikverkið:
Sálir Jónanna ganga aftur 
sem leikdeild Ungmennafélags Biskupstungna sýnir þessar vikurnar á milli þess sem lægðir skella á ströndinni suðaustanverðri og ná jafnvel að valda ófærð á þessu annars veðurfarslega rólega svæði.
Leikstjóri er Gunnar Björn Guðmundsson og má líklega halda því fram að hann hafi verið og sé fastráðinn hjá leikdeildinni árum saman.
Talning mín í leikskránni leiðir í ljós að hér er á ferðinni þrítugasta uppfærsla á vegum ungmennafélagsins frá því Aratunga tók við sem félagsheimili Tungnamanna árið 1961. Af þessum 30 sýningum hef ég tekið að mér hlutverk í einni, Tobacco Road sem byggir á skáldsögu eftir Erskine Caldwell. Ég hef ávallt verið jafnundrandi á því að ekki skuli hafa verið leitað til mín með þátttöku í leiksýningum síðan. Hversvegna skyldi það nú vera?

Jæja, jamm og já.

Þarna komum við í leikhúsið Aratungu, fengum þessa fínu, grænu miða og leikskrá, að lokinni hóflegri greiðslu. Við höfðum lagt af stað snemma þar sem sálfræðilegt innsæi okkar gaf skýrt til kynna að húsið yrði sneisafullt þar sem sveitungarnir væru orðnir aðframkomnir af innilokunarkennd eftir óveðurskafla og tvö sýningarföll. 15 mínútum fyrir sýningu vorum við komin með miða í hendur  frá þeim Bajrna á Brautahóli og Skúla Sæland. Þá birtist Oddný á Brautarhóli okkur í sjoppulúgunni. Hún reyndist hafa ýmislegt til sölu, svo sem rauðvín og hvítvín og bjór, svo eitthvað sé nefnt. Við létum slag standa og skelltum okkur á rauðvín, sem afgreitt var í svona litlum flöskum. Þetta gerðum við ekki síst til að það myndi losna lítillega um hláturtaugarnar undir sýningunni, því ekki var nú hægt að halda því fram að fólkið streymdi að og því nauðsynlegar að þeir sýningargestir sem til staðar voru myndu hlæja með óheftari hætti á viðeigandi stöðum og þannig teljast "góður salur".
Það fylgdi ekki glas flöskunni, og ekki heldur brúnn bréfpoki. Þetta var auðvitað til fyrirmyndar og í góðu samræmi við hið umhverfisvæna samfélag sem Bláskógabyggð er. Hvaða vit er líka í því að hella úr glerflösku í plastglas til þess, síðan, að henda plastglasinu að notkun lokinni, ásamt flöskunni.  Sannarlega viðurkenni ég, að sú aðgerð að drekka áfenga drykki af stút, lítur ekki vel út svona til að byrja með og ég viðurkenni að ég var nokkuð feiminn við það, en þessi tilfinning hvarf fljótt, þar sem ég skýldi flöskunni með leikskránni og lét sem ég þyrfti að geispa í hvert skipti sem ég fékk mér sopa. Þetta var bara hið besta mál og mér leið betur á eftir, ekki síst við þá tilhugsun að ég hafði engu bætt við ruslahauga heimsins.

Þá er best að snúa sér að leikverkinu, sem Hugleikur frumsýndi fyrir tuttugu árum: Sálir Jónanna ganga aftur.
Ég er enginn leikhúsfræðingur eða bókmennta og freista þess því ekki að dæma eitt eða neitt eða einn eða neinn.
Verkið fjallar um áhyggjur Satans sjálfs (Hjalta Gunnarssonar) af lélegri aðsókn í neðra. Hann nýtur dyggs, en vanþakkláts stuðnings Móra (Írisar Blandon) við að reyna að bæta úr þessu.  Ekki verða tilraunir þeirra hjúanna til að veiða sálir taldar mjög árangursríkar og það gengur á ýmsu, sem ég ætla auðvitað ekki að ljóstra upp um hér. Fólk verður bara að fara á stjá og sjá með eigin augum hvernig sálir Jónanna (sem eðli máls samkvæmt) láta lífið hver með sínum afar trúverðuga hætti og eru síðan háðir því hvernig maki þeirra eða nánasti vinur freistar þess að koma þeim í hið efra með mis markvissum og vel meintum hætti, undir stöðugum tilraunum Satans og Móra til að koma í veg fyrir að svo geti orðið.
Allt fer þetta einhvernveginn að lokum.

Það veit maður, áður en maður fer á svona sýningu, að hún er ekkert að reyna að keppa við Ibsen eða Albee. Hún er ekki að þykjast vera neitt annað en hún er: hreint ágæt kvöldskemmtun.

Ég heyrði sagt fyrir aftan mig (í öftustu röðinni af þeim þrem sem setnar voru): "Mér finnst miklu skemmtilegra að fara á svona áhugamannasýningu heldur en á leikrit með atvinnuleikurum".  Ég get eiginlega alveg tekið undir þessa skoðun. Maður veit að fólkið sem þarna kemur fram hefur lagt á sig feikilega mikla vinnu ofan á fullan vinnudag,  vikum saman , oftar en ekki með heilu fjölskyldurnar á bak við sig, sem verða þannig óbeint þátttakendur í uppsetningunni með því að leikarinn eða ljósamaðurinn, eða búningahönuðurinn er meira eða minna að heiman á kvöldin og um helgar allan afingatímann.  Þetta gera aðstandendur svona sýninga einvörðungu vegna þess að þeir fá út úr því ómælda ánægju.
Ég tala af reynslu, maðurinn sem einu sinn varð nánast leiklistarbakteríunni að bráð.

Við hin, sem ekki tökum þátt, skuldum þessu fólki viðveru okkar á eins og eina sýningu hvert og það sem meira er: við skuldum sjálfum okkur að rífa okkur upp af r.......nu og hafa gaman eina kvöldstund.

Myndirnar sem ég birti hér tók ég ófrjálsri hendi af Facebooksíðu Leikdeildar Ungmennafélags Biskupstungna. 
Á þessari síðu má fylgjast með næstu sýningum.

12 febrúar, 2018

S*N*J*Ó*R

Kva, þetta er nú ekkert! Þegar maður hefur upplifað það að fá flutning með vélsleða frá Laugarási á Laugarvatn, eftir hálfs mánaðar fjarvist úr vinnu, segir maður nú bara "piff!".
Jæja, en þetta er nú bara karlagrobb, svona dæmigerð aðferð við að toppa það sem síðasti maður sagði.
Ekki taka mark á þessu, frekar en þú vilt, en samt er þetta alveg satt. Kristinn Kristmundsson, skólameistari greip til þess örþrifaráðs, þegar vegir í uppsveitum voru búnir að vera lokaðir lengi vegna snjóþyngsla, líklega í kringum árið 1990, að senda vélsleðakappa frá Laugarvatni, Sigurð Sigurðsson, sem kallaður er Siggi súper, eftir mér. Þá var ég búinn að vera hálfan mánuð frá vinnu.
Það var komið kvöld þegar vélsleðinn renndi í hlað. Veðrið var bara ágætt, lítilsháttar fjúk, en gott skyggni. Ég settist fyrir aftan Sigga og svo var brunað af stað. Vegurinn út að Spóastöðum var enganveginn sjáanlegur, allt rennislétt, vegheflarnir löngu hættir að reyna að opna.  Eftir að komið var yfir Brúará lá leiðin að afleggjaranum að Seli og síðan Haga.
Frá Haga stóð Siggi sleðann þvert yfir Apavatn og síðan beinustu leið út á Laugarvatn, rétt framhjá Hjónavökinni og þaðan stystu leið upp í skóla.  Þetta ferðalag tók ekki langan tíma og mér hefur stundum orðið hugsað til þess síðan, hve mikinn tíma ég hefði nú sparað mér á 31 ári, ef vegur lægi þessa leið milli Laugaráss og Laugarvatns.

Já, það hefur snjóað eitthvað undanfarið, varla von á öðru í febrúar á Íslandi. Mér finnst fólk nú vera veðurhræddara en áður, sem kannski er misskilningur minn. Sennilegast er gert meira úr málum vegna ferðamanna sem hafa engan grun um hvað getur komið upp á, á þessum slóðum.

Sem fyrr, varð þessa veðurs lítið vart í Laugarási, það heyrðist hvinur í trjátoppum á einhverjum tíma, en það var allt og sumt. Þetta hefur ekki alltaf verið svo. Áður en skjól trjánna fór að hafa þau áhrif sem það hefur nú, brast hér á með stórviðrum eins og annarsstaðar.

Eftir ævintýrin síðasta sólarhringinn er víst önnur lægð á leiðinni og fátt er vitða hvað hún mun hafa í för með sér fyrir landann og ferðamennina. Mér finnst nú bara spennandi ap bíða og sjá, enda hef ég engar fyrirætlanir um að leggja af stað í vinnuna í fyrramálið um sjöleytið.
Ágætis tilhugsun.

Í dag hefur veðrið veitt okkur andrúm til að kíkja út, og draga ofaní okkur ferskt vetrarloftið. Svo skríðum við aftur í hýði okkar og sjáum hvað setur.

Matthías Líndal Jónsson, Slakkamaður og fD skeggræða um veður og færð.

06 febrúar, 2018

Umboðsmaður málleysingja

Ég læt mér fátt óviðkomandi og hef reyndar áður fjallað um þetta málefni, en geri það aftur nú í tilefni af degi leikskólans.
Það er eins með alla þá sem ekki hafa mál til að tjá sig, eða þroska til að gefa skýrt til kynna vilja sinn eða þarfir. Þannig er það með smáfuglana sem bíða í trjánum á hverjum morgni og éta síðan af hjartans lyst allan daginn, ef þeir fá fóður. Þeir kunna ekki að þakka fyrir sig, þeir banka ekki á gluggann til að tilkynna að þeir séu svangir og vilji fá mat, þeir halda áfram að leita þó þeir séu búnir með allt. Loks hverfa þeir í náttstað og sjást ekki aftur fyrr en daginn eftir.  Ég spyr mig:
Hvað get ég gert betur til að þessir "litlu skrattar" lifi af veturinn og ali síðan af sér næstu kynslóðir til að gleðja mig.
Hvenær er nóg gefið, hvenær of mikið, hvenær of lítið?
Þeir geta ekki sagt mér það með öðrum hætti en þeim að flögrið verður léttara og tístið ef til vill glaðlegra þegar allt er í lagi.
Ég þarf að reyna að lesa í þarfir þeirra og það gengur svona og svona. Mögulega þarf ég að læra meira um eðli þessara litlu vina minna til að nálgast svörin.

Ómálga barn hefur eðli máls samkvæmt ekki mál eða þroska til að tjá vilja sinn eða þarfir. Það er samt mikið fjallað um börn í þessu samfélagi og þarfir barna. Við berjumst fyrir því að vel sé gert við börn.
Í rauninni erum við ekkert að því.
Við erum fyrst og fremst að berjast fyrir þörfum foreldra. Börnin hafa ekkert um málið að segja.  Börn hafa hinsvegar verið rannsökuð fram og til baka af vísindamönnum úr ýmsum geirum. Skyldu niðurstöður úr þeim rannsóknum benda ótvírætt til þess, að það sé börnum mikilvægt að dvelja utan heimilis í allt að níu klukkustundir á dag, í umsjá fólks sem er ofhlaðið vinnu? Skyldu niðurstöðurnar benda til þess að það sé örvandi, þroskandi og hollt fyrir börn að dvelja með jafnöldrum sínum á hverjum virkum degi í allt að níu klukkustundir? Börn á þessum aldri eru nú ekki hljóðlátustu verur sem fyrirfinnast. Er það hugsanlega þroskandi eða hollt fyrir velferð barna að eyða átta til níu tímum á dag í stöðugum klið?
Reynum að hugsa þetta mál út frá börnunum, en ekki foreldrunum. Breytum síðan samfélaginu þannig, að ómálga börn dvelji ekki á stofnunum meira en 5-6 tíma að hámarki á hverjum degi.
Þetta er samfélagslegt mál, sem brýnt er að taka á.

Það þarf að hlusta á það sem ómálga börn geta ekki sagt. Því er ég kominn á það stig að kalla eftir því að sett verði á fót embætti umboðsmanns ómálga barna.  Jú, það er til embætti umboðsmanns barna, en ég hef ekki heyrt af því að það embætti taki sérstaklega fyrir þau börn sem ekki hafa mál. Þau eru ofurseld því sem foreldrar þeirra telja þeim eða sjálfum sér fyrir bestu, og þeir taka þá jafnvel frekar mið af eigin þörfum en þörfum barnsins.

Ég er nú ekki alveg grænn gagnvart þessu og vil því fara varlega í að kenna foreldrum um þetta allt saman, en þeir eiga sannarlega sína sök, ekki kannski viljandi, heldur frekar vegna þess að þeir hreinlega vita ekki betur. Það fæðist enginn með þekkingu til að vera foreldri. Hvernig á fólk að læra það?
Foreldrar sem nú eru að sjá fyrir þörfum ómálga barna voru flestir sjálfir undir þá sök seldir að vera geymdir á dagvistunarstofnunum 40-50 klukkustundir á hverri viku. Fyrir þeim er þetta eðlilegt og sjálfsagt - jafnvel spurning um rétt frekar en þarfir.

Í mínum huga þurfa ómálga börn umhyggju foreldra sinna stærstan hluta sólarhringsins. Þau þurfa að fá að hlusta á foreldra sína tala við sig, segja sér sögur, lesa fyrir sig, segja sér til, kenna sér hvað rétt er og rangt, setja sér mörk, nota hnífapör og allt það annað sem rannsóknir vísindamanna hafa leitt í ljós að er þroskavænlegt fyrir börn.

Samfélagið á sannarlega sína sök, ekki hvað síst að því er varðar það umhverfi sem fólki með börn er búið. Annað hvort hefur raungildi tekna fólks verið að fara stöðugt minnkandi eða þá að kröfur til lífsgæða hafa tekið stökk upp á við.  Nú þurfa allir að vinna fulla  vinnu til að hafa í og á sig og fjölskylduna.  Þessu finnst mér þörf á að breyta. Fólk þarf að temja sér rólyndislegra líferni og afslappaðra. Meiri tekjur auka nefnilega ekki lífshamingjuna, gagnstætt því sem virðist viðtekin skoðun.

Við þurfum að stytta vinnuvikuna og mér finnst að það gæti verið góð hugmynd að greiða foreldrum úr einhverjum sjóði fyrir að stytta vinnudaginn gegn því að vera í samvistum við börn sín.  Þannig gætu foreldrar í mörgum tilvikum minnkað starfshlutfall sitt án þess að tekjur skertust.
Það eru börnin sem skipta máli í þessu og það eru um þau sem þetta á að snúast, en ekki foreldrana. Börn eru ekki einhver óæskilegur baggi á foreldrum sínum, heldur beinlínis tilgangur tilveru þeirra, hvorki meira né minna.

Ég skal fyrstur manna viðurkenna, að ég er á sjötugsaldri og þarf því ekkert að vera að pæla í þessu og það má alveg skella því framan í mig að ég viti ekkert hvað ég er að tala um. Það má alveg segja við mig að minn tími sé liðinn, nú séu aðrir tíma og þarfir barna öðruvísi. Það má jafnvel spyrja mig, með hneykslunartón, hvað ég vilji eiginlega upp á dekk.
Ég held hinsvegar að á hvaða öld sem er fæðumst við eins inn í þennan heim. Það sem við tekur er síðan í höndum foreldranna og samfélagsins.

Ég hef eytt starfsævinni í að fást við ungt fólk og tel mig harla heppinn að hafa fengið það. Ég hef hinsvegar oft hugsað miður fallega til foreldra sem hafa augjóslega veitt börnum sínum hörmulegar aðstæður fyrstu árin í lífi þeirra, með allskyns afleiðingum fyrir bæði samfélagið allt og fjölskylduna.

Breytum þessu, eða ætti ég kannski að segja: "Breytið þessu!"



04 febrúar, 2018

Ég nálgast efsta stig.

Ég ætla að reyna að komast að niðurstöðu um hvað felst í því að vera góður. Ég tæpti á þessu málefni í síðasta pistli og ætla að freista þess að halda áfram.  Ég hef ákveðið, við þessa pælingu mína að líta til smávinanna sem njóta veitinga í görðum landsmanna yfir vetrartímann. Ég ætla meira að segja að þrengja vinfengið alveg niður í eina tiltekna tegund: auðnutittling.

Í framhaldi af því hyggst ég freista þess að flokka fólk niður eftir nálgun þess að "litlu kvikindunum" eins og fD kallar þessa smáfugla oftast.

Hefst nú flokkunin:
1. Sá sem er ekki góður, lætur sem vind um eyru þjóta auglýsingar um að við skulum muna eftir smáfuglunum með því að fóðra þá í garðinum.

2. Sá sem segist vera góður, en er það ekki, hvetur fólk til að muna eftir smáfuglunum, en gerir ekkert í málinu sjálfur. Hann lítur svo á að hann sé búinn að senda frá sér skilaboð um gæsku sína með því að tjá sig um málið og fá kannski einhverja til að bregðast við. Þar með telur hann sig vera búnn að uppfylla kröfur um það sem telst að vera góður. Það er hann auðvitað ekki. Hann er bara búinn að lemja einhver orð á lyklaborðið.

3. Þetta er neðsta stig þess sem telst vera góð manneskja. Þessi kaupir eitthvert korn í Bónus án þess að velta fyrir sér hvort það hentar auðnutittlingum. Hendir því síðan einu sinni að morgni út á pall og lætur þar við sitja. Telur sig þar með vera búinn að sjá nægilega fyrir þörfum þessa fiðurfjár. Þarna skiptir hann engu máli hvort það er brunagaddur eða mígandi rigning, eða allt þar á milli. Hann fóðrar þessa fugla út frá SÍNUM forsendum og innan síns þægindaramma. Tekur jafnvel myndir af ræflunum rétt eftir að hann er búinn að henda korninu út, birtir síðan á samfélagsmiðli, nánast með skilaboðunum: "Sjáið hve góður ég er!"

4. Á þessu stigi er góða manneskjan farin að henda út fóðri tvisvar til þrisvar á dag. Jafnframt kíkir hún inn á Fuglavernd.is til að nálgast upplýsingar um hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Er búin að komast að því að bónuskornið er harla takmarkað, leitar uppi aðra aðila sem mögulega selja fuglafóður, og næst þegar hún á leið í kaupstað, jafnvel nokkrum dögum seinna, eykur hún fjölbreytni fóðursins með því að fara á fleiri staði. Nú er hún jafnvel farin að kaupa inn eftir vigt hjá Fóðurblöndunni og einnig farinn að fylgjast vel með birgðastöðunni á pallinum og bæta á eftir þörfum. Hún er þó ekki farin að huga að veðurfarslegum þáttum, þannig að úrkoma veldur því að síður er sett út fóður, enda hverfur það fljótt undir snjóinn, eða rignir niður og verður að mauki.

5. Auk þess sem getið er á fjórða stigi, er góða mannskjan nú búin að átta sig á því, að smáfuglarnir þurfa ekki síður fæðu þegar snjóar eða rignir. Þar með upphugsar hún leiðir til að skýla fóðrinu, og þá einnig litlu kvikindunum fyrir ofankomu. Þannig nýtir hún ef til vill garðbekk sem hún skellir masóníttplötu ofan á, vitandi að hún býr við aðstæður þar sem úrkoma fellur ávallt lóðrétt úr loftinu. Hún fylgist nákvæmlega með lífinu á pallinum og sér til þess að þar sé ávallt eitthvað að bíta og brenna. Stofuborðiið er nú orðið þakið pokum og fötum með fóðri og það er jafnvel svo komið, að þessi góða manneskja er farina að reyna að lesa í tístið til að átta sig á hvað mætti betur fara.
Auk þess sem að ofan er nefnt er þessi góða manneskja farin að gera sér sérstaka ferð í kaupstað til fóðurkaupa.

6. Þegar hér er komið, á efsta stig þess að vera góð manneskja, er litlu kvikindunum boðið húsnæði. Þannig yrði stofunni lokað og opnað út á pall. Fyrir innan væri komið fyrir fóðurstömpum og jafnvel brynningartækjum. Í tilvikum þar sem aðeins tveir einstaklingar búa í tiltölulega stóru einbýlishúsi, gæti hér verið um að ræða hina endanlegu lausn. Hástig manngæskunnar.

Þá er ég búinn að flokka fólk, með tilliti til gæða þess.  Það skal skýrt tekið fram, að hér er um að ræða dæmisögu sem hægt er að beita hvar sem er í samfélaginu. Það eru allstaðar einhverjir sem eru aflögufærir og einhverjir sem þurfa.
Hvar ert þú á þessum skala?


Mér finnst líka nauðsynlegt að fram komi, að fD hefur hafnað hugmynd minni um að opna inn í stofuna og þar með verður bið á að ég ná hástigi manngæsku.

Loks, svona til að fyrirbyggja misskilning, þá er ég í rauninni ekkert sérstaklega góður - fell bara vel að þessum skala.

03 febrúar, 2018

Fer hún upp?

Ekki veit ég hverskonar hugsunarháttur það er, kannski eitthvað eðlislægt og sem er hluti af því að vera manneskja, en ég er ekki alveg viss nema það hvarfli að mér að það gæti verið spennandi ef Hvítá leysti af sér klakaböndin með dálitlum látum.
Þetta er ekki beinlínis falleg hugsun, en ég skýli mér á bak við það, að við mannfólkið viljum alltaf hafa einhverja "sensasjón", einhver átök, eitthvað stórt sem setur líf fólks úr skorðum. Þannig nærast fjölmiðlar á hörmungafréttum því enga næringu fá þeir úr því sem slétt telst og fellt.
Flóð í Hvítá gæti sett og hefur sannarlega sett líf fólks úr skorðum

Vísir, 3. mars, 1930
Áin mun hafa runnið alveg yfir Bræðratungu heim að bæ og yfir alla Skálholtstungu upp að Skálholtsásum. Bærinn Reykjanes í Grímsnesi, við Brúará, var umflotinn, og varð ekki í ívo daga komist úr bænum. Bátur úr Skálbolti komst þangað í morgun. Vatnið var á miðjar síður á bestunum i hesthúsinu í Reykjanesi. Við nánari fregnum úr Tungunum er vart að búast fyrr en í fyrsta lagi í kveld, er menn geta farið á milli, sem horfur eru á

Já, við mannfólkið viljum einhverskonar uppnám, eitthvað sem kemur eilitlu róti á tilfinningar okkar, eitthvað sem snertir okkur, við viljum "sensasjón". Hvað ætli við höfum einhvern áhuga á einhverju venjulegu? Ófarir annarra eru okkur að skapi, ekki í orði, auðvitað,  Það er meira að segja svo, að allt þjóðlífið er orðið gegnsýrt af þessari þrá okkar eftir "sensasjón", allt frá athugasemdakerfum (kommentakerfum) fjölmiðla eða samfélagsmiðla til æðstu stofnana ríkisins.

Það er nefnilega orðið þannig, að það ná engin mál í umræðuna hjá okkur, nema þau feli í sér "sensasjón".  Ef persónulegur harmleikur liggur að baki, þá er áhugi okkar vakinn. Ef lögbrot eða siðferðisbrestur liggur að baki rísum við upp í heilagri vandlætingu.  Við erum nefnilega svo óskaplega "góð". Samt erum við það ekki í reynd. Við erum dálitlir hrægammar, ekki í orði, heldur innra með okkur, eða í raun.
Ég er svona líka, tel ég, þó ég voni að svo sé ekki. Ég vel og hafna, skanna yfir fyrirsagnir og ef þær vekja ekki áhuga minn, læt ég vera að lesa lengra.  Svona er þetta bara.    

Ég er í aðstöðu til að rannsaka þetta eilítið þar sem ég hef dundað mér við að skrifa þessa pistla við og við. Ég get síðan séð hve margir skoða eða lesa. Ég hef tekið eftir því, að ef ég fjalla um eitthvert ólán sem hefur hent mig, fjölgar lesendum, ef ég fjalla um skoðanir, án þess að þær feli í sér einhverjar öfgar, hlýtur umfjöllunin heldur dræmar viðtökur.  Ef ég skreyti umfjöllunina með fyrirsögn sem gæti jafnvel talist hneykslanleg, þá fjölgar lesendunum.
Hér má sjá nokkur dæmi af handahófi um fjölda þeirra sem hafa í það minnsta opnað á bloggpistla.  Þessir tveir sem fóru upp fyrir 2000 lesendur eiga sínar skýringar í allmikilli "sensasjón".

Svona gerir maður í janúar         84  Hér greini ég frá linsukaupum.
Austur verður vestur og öfugt     83 Hér pæli ég hvernig Hvítárbrúin snýr.
Ekki mjög trúlegt                        57 Hér segir frá myndatökuferð í Skálholtsása og fleira.
Árás á náttúruöflin                      75 þetta er um tilraun til að skjóta niður fellibyl.
Jón frændi                                   71 segi frá nokkuð fjarskyldum frænda frá Alberta sem við tókum á móti.
„Fokkings fávitar“                      501  um viðskipti við rútubílstjóra á brúnni
Aumingja konurnar                    5758
Til Hildar                                    2684
Svo segi ég ekki meira um það  963 um hjúkrunarheimili í Laugarási.

-------

Eins og svo oft áður, tókst mér að víkja umtalsvert frá því efni sem til stóð að fjalla um: mögulegt flóð í Hvítá.  
Ég er í sjálfu sér engu nær. Áfram lifir í mér strengurinn sem kallar á að áin "fari upp" með látum. Hann togast á við hina strengina, sem eru talsvert mildari í afstöðu sinni og leiða mig frekar inn á þau svið þar sem allt er slétt og fellt.  
Ég afgreiði þetta bara þannig, að það skiptir engu máli hverjar óskir mínar eru í þessum efnum. Þær breyta engu um það sem verður.

Smá sensasjón í lokin: 



Haförn þessi flaug rétt ofan Hvítárbrúar í gær í fylgd annars. Bráðabirgðagreining Kristins Hauks Skarphéðinssonar hjá Náttúrufræðistofnun er svona: 

22 janúar, 2018

Svona gerir maður í janúar.

Ætli janúar sé ekki sá mánuður ársins sem gæti verið betri. Með því að orða það þannig, er ég ekki að taka djúpt í árinni.
Þegar mánuður gæti verið betri, þá reynir maður að gera eitthvað sem eykur líkurnar á að hnn geti orðið betri.
Margt vitlausara lærir maður nú í þessu lífi.
Þetta er ég nú búinn að læra, börnin góð.

Ég gerði þennan janúar betri, hvorki meira né minna.
Ég gerði vel við sjálfan mig, auk þess, auðvitað, að ég dreifði gleðinni vítt og breitt, í það minnsta hér innan húss og í huganum hef ég séð fD dansa um allt hús í samfögnuði sínum vegna þeirrar gleði sem frá mér hefur stafað í þessum drungalega vetrarmánuði.
Ég á reyndar eftir að sjá dansinn raungerast, en hef fulla trú á að svo geti orðið.
Sjáum til.

Það sem ég gerði.
Þegar janúar gekk í garð, þurfti ég að finna eitthvað til að gera hann betri. Það hvarflaði ekki að mér að fara að stunda ræktina. Ekki kom til greina að taka þátt í veganúar, þvi það hefði nú bara aukið á drungann.
Nei, ég fór inn á vefverslun BogH fljótlega eftir áramót og pantaði mér linsu.


Segi og skrifa.
Sem ég er lifandi.

Áður en ég ákvað kaupin skoðaði ég allt sem auga á festi á veraldarinnar vef, um þessa linsu. Um hana var ekkert sagt nema gott eitt.
Ég ræddi við sjálfan mig um málið, velti fyrir mér viskunni sem fælist í mögulegum kaupum, og kannaði möguleika á að í þeim mætti mögulega finna viskuskort, jafnvel vitleysu.

Niðurstaðan varð sú, að sem vestrænn maður á góðum aldri, sem lifir í vellystingum og allt það, gæti ég vel réttlætt linsukaupin fyrir sjálfum mér. Öðrum er bara ekki til að dreifa.

Ég smellti á kaupa hnappinn og hef síðan beðið óþreyjufullur, meðan þessi mánuður hefur liðið hjá eins og vindurinn.  Það get ég sagt ykkur, að það er fátt betra til þrauka dimmustu og köldustu daga ársins en að láta sig hlakka til.

Linsan kom í morgun.
CANON EF 100-400 f/4,5-5,6L IS II USM  
L-ið sá ég einhvers staðar, að stendur fyrir LUXURY  og II þýðir að þetta er önnur útgáfa, sem beðið hefur verið eftir, í fjöldamörg ár.

Nú er næst á dagskrá, fyrir utan auðvitað að fara að prófa gripinn, að freista þess að selja öndvegis linsuna mína: CANON EF70-300 F4-5,6L IS USM, sem ég keypti árið 2011 (hægra megin á öftustu myndinni hér fyrir ofan). Þar er á ferð hreint ágætur gripur.  Það er bara svo með mig, eins og marga aðra: mikið vill meira.

Ég þarf (nú eða þarf kannski ekki, en stefni á) að selja þessa linsu.
Vilt þú kaupa?

Hvað þetta þýðir svo fyrir mig, veit ég ekki.

Eitt veit ég þó: Janúar hefur alveg sloppið til þetta árið.

Hér er fyrsta tilraunin með gripinn. Auðnutittlingurinn ber með sér svip sem auðvelt er að túlka sem lotningu, þar sem hann lítur linsuna fyrsta sinni:


Nei, reyndar var þessi fyrst:


😂

13 janúar, 2018

Sameinaðir stöndum vér, en ......

Það er ýmsar ástæður fyrir því að ég ákvað að fjalla lítillega um sameiningarmál í uppsveitim Árnessýslu.  Þær eru auðvitað bæði persónulegar og sögulegar.
Á þessu ári eru 20 ár síðan gerð var alvarleg tilraun til að sameina uppsveitirnar í eitt sveitarfélag.
Það kann að vera að margir viti fátt um stærstu tilraun sem gerð hefur verið á þessu svæði og ég ætla að reyna að varpa örlitlu ljósi á hana, frá mínum bæjardyrum.  Þá ætla ég að ljóstra upp hver skoðun mín er á þeim sameiningum sem orðið hafa síðan og loks upplýsa um skoðun mína á því sem ætti að gerast næst.
Ég sat í minnihluta í hreppsnefnd Biskupstungnahrepps frá 1995-8.

1998 Sameiningin sem átti að verða.
Árið 1998 fór fram kosning um sameiningu allra sveitarfélaganna 8 í uppsveitum Árnessýslu í tveim umferðum.
Önnum kafinn, 23. maí, 1998
23. maí  var kosið um sameiningu allra hreppanna, en íbúar Grafningshrepps og Gnúpverjahrepps felldu fyrir sitt leyti. Þessir hreppar áttu það sameiginlegt að njóta umtalsverðra tekna af virkjunum og því að vissu leyti skiljanlegt að þeir skyldu fella tillöguna.
Fimm hreppanna, ákváðu að endurtaka kosninguna þann 27. júní. Grímsneshreppur tók ekki þátt í þeirri kosningu, enda búinn að ákveða að sameinast Grafningi.
Niðurstaðan í þetta sinn varð sú, að íbúar Skeiðahrepps felldu tillögu um að sameinast Þingvallasveit, Laugardal, Biskupstungum og Hrunamannahreppi.

Með þessari niðurstöðu var úti um þessa tilraun, og fátt í stöðunni annað en hvíla málið. Þessi niðurstaða var mér mikil vonbrigði, ekki síst vegna þess að ég hafði átt sæti í framkvæmdanefndinni sem undirbjó kosninguna. Mér fannst og finnst enn, vera fremur fátækleg og boruleg rök sem færð voru fram gegn þessari sameiningu.

Sameiningarnar í framhaldinu
Þann fyrsta júní 1998 sameinuðust Grímsneshreppur og Grafningshreppur og mynduðu sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshrepp.
Árið 2002 var samþykkt sameining Þingvallasveitar, Laugardals og Biskupstungna* þannig, að úr varð Bláskógabyggð og einnig var á þessu ári samþykkt sameining Skeiðahrepps og Gnúpverjahrepps, þannig að úr varð Skeiða- og Gnúpverjahreppur.

Ég var andvígur þessari takmörkuðu sameiningu sem varð með tilurð Bláskógabyggðar og er raunar enn þó það skipti svo sem ekki máli úr þessu.  Ekkert gerði ég til að beita mér gegn henni hinsvegar, enda hættur afskiptum af sveitarstjórnarmálum. Fyrir afstöðu minni voru tvær megin ástæður: sameiningin væri of lítið skref til að úr yrði sæmilega stöndugt eða öflugt sveitarfélag, sem mér finnst hafa orðið raunin.
Hin ástæðan reyndist einnig eiga við rök að styðjast, því miður. Ég sá fyrir mér að með sameiningunni myndi öll orka sveitarstjórnar fara í að reyna að skapa traust milli Laugdælinga og Biskupstungnamanna. Annað yrði látið sitja á hakanum. Þarna er um að ræða að halda þyrfti ákveðnu jafnvægi milli Laugarvatns og Reykholts.  Þá fengu Þingvellir sinn fulltrúa í sveitarstjórn, með röðun á lista. Eftir situr Laugarás, sem hefur fengið það hlutverk að verða hálf utanveltu í þessu máli öllu.

Hvað um það, það hefur lítið upp sig að gráta það sem liðið er en það er allt í lagi að halda því til haga.

Hvernig verður framtíðin?
Á undanförnum mánuðum hafa aftur farið af stað þreyfingar um sameiningu í Árnessýslu. Þá ber svo við, að Bláskógabyggð skilar auðu, sem ég hef svo sem ekki séð nein rök fyrir, enda ekki verið að eltast við þau.


Mér finnst mikilvægt að gerð verði atlaga að því aftur að sameina.  Þar kemur tvennt til greina:
- sameining uppsveitanna, eins og reynt var 1998
- sameining Árnessýslu, sem verður stöðugt áhugaverðari kostur í mínum huga. Það er kominn tími til þess, að við sættum okkur við að Selfoss verði miðstöð stjórnsýslunnar. Það er alveg komið nóg af þessu smákóngasamfélagi í uppsveitunum. Hvert framfaramálið á fætur öðru er drepið vegna þess að allir vilja fá allt til sín.

Auk þess legg ég til að byggt verði dvalar- og hjúkrunarheimili í Laugarási. 

-------------------------


* Í nóvember kusu íbúar í Grímsnes- og Grafningshreppi, Þingvallahreppi, Laugardalshreppi og Biskupstungnahreppi um sameiningu þessara fjögurra hreppa. Íbúar í Grímsnes- og Grafningshreppi fellu tillöguna.  Í kjölfarið varð það niðurstaða í sveitarstjórnum þeirra þriggja sem höfðu samþykkt, að hefja viðræður um sameiningu, sem lyktaði með því að kosið var til sveitarstjórnar í sameinuðu sveitarfélagi í maí 2002. 

Ég læt fylgja tvær bókanir úr fundargerðum hreppsnefndar Biskupstungnahrepps frá byrjun árs 2002:



Fundur hreppsnefndar Biskupstungnahrepps 30. janúar, 2002
Ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga, Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Hreppsnefnd samþykkir sameiningu Biskupstungnahrepps við þau tvö sveitarfélög sem einnig samþykktu sameiningu viðkomandi sveitarfélaga í almennri kosningu, 17. nóvember 2001 í samræmi við 91. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Hreppsnefnd telur að með sameiningu sveitarfélaganna verði til ný sóknarfæri með sterkari stjómsýslu í stærri heild. Möguleikar aukast á betri nýtingu fjármuna og uppbyggingar í nýju sveitarfélagi. Það samstarf sem verið hefur á milli viðkomandi sveitarfélaga er staðfest með sameiningunni. Í ljósi vaxandi rekstrarkostnaðar sveitarfélaga verða þau að leita leiða til hagræðingar m.a. með aukinni samvinnu. Framundan eru krefjandi verkefni fyrir nýja sameiginlega sveitarstjórn að ná fram hagsæld og árangri þannig að hið nýja sveitarfélag geti áfram boðið upp á þjónustu sem íbúar geta verið stoltir af hér eftir sem hingað til. Sameiningin fékk afgerandi kosningu í sveitarfélögunum eða yfir 70%. Hreppsnefnd samþykkir sameininguna einhuga. Samþykkt að Margeir Ingólfsson og Sveinn A. Sæland fari með umboð hreppsnefndar í þeim sameiginlegu verkefnum og ákvörðunum sem vinna þarf að fram að kosningum.



Fundur hreppsnefndar Biskupstungnahrepps 13. febrúar, 2002

Ákvörðun um sameiningu sveitarfélaga. Lögð fram eftirfarandi fundargerð framkvæmdahóps sveitarfélaga, frá 4. febrúar 2002, sem ákveðið hafa sameiningu að vori komanda þ.e. Þingvallahrepps, Laugardalshrepps og Biskupstungnahrepps. Samkvæmt því samþykkir framkvæmdahópurinn eftirfarandi og mun leggja niðurstöður fyrir viðkomandi hreppsnefndir til endanlegrar staðfestingar: Að undangenginni almennri kosningu, 17. nóvember 2001 og með vísan til 2. mgr. 91. gr. og 95. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er hér með staðfest að sameining Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps í eitt sveitarfélag hefur verið ákveðin. Sameining framangreindra sveitarfélaga í eitt sveitarfélag skal taka gildi 9. júní 2002. Hið sameinaða sveitarfélag skal taka yfir allt það land, sem nú tilheyrir áðurgreindum þremur sveitarfélögum. Ibúar hinna þriggja sveitarfélaga skulu vera íbúar hins sameinaða sveitarfélags. Eignir, skuldir, réttindi og skyldur, sem tilheyra þessum þremur sveitarfélögum skulu falla til hins sameinaða sveitarfélags. Skjöl og bókhaldsgögn allra sveitarfélaganna skulu afhent hinu sameinaða sveitarfélagi til varðveislu. Sérstök athygli er vakin á eftirfarandi: Kosning sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags skal fara fram þann 25. maí 2002, sbr. 96. gr. Sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Kjósa skal sjö fulltrúa í sveitarstjórn hins nýja sveitarfélags, sbr. 1. mgr. 12. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Sveitarstjórnirnar þrjár kjósa sameiginlega þrjá fulltrúa í yfirkjörstjórn og þrjá til vara. Kjörstjómir þær sem kosnar voru í upphafi yfirstandandi kjörtímabils skv. 14. gr. laga um kosningar til sveitarstjóma nr. 5/1998 skulu vera undirkjörstjómir við kosningarnar. Samhliða sveitarstjórnarkosningum verður kosið um nafn hins nýja sveitarfélags samkvæmt tillögum framkvæmdanefndar sem áður skal auglýsa eftir hugmyndum á nafni hins nýja sveitarfélags.

12 janúar, 2018

"Fokkings fávitar!"

Það munaði litlu að ég þyrfti gifs á einhvern útlim, skömmu eftir hádegið, en mér tókst að rifja upp gamla danstakta frá kartöflumjölsstráðu gólfinu í Aratungu. Ég er samt viss um að aðfarir mínar á svellinu hefðu getað kallað fram brosvipru hjá þeim sem hefði séð, sem var enginn nema fD. Hún átti nú fullt í fangi með sjálfa sig og ekki í aðstöðu til neinna hlátraskalla.

Þetta er hinsvegar ekki efni pistilsins, þó það verði að teljast forsenda fyrir því að efni hans varð til.

Heilsubót dagsins fól í sér (ekki verða hissa) göngu út á brú. Aukaafurð heilsubótarinnar skyldi vera athugun á stöðu árinnar eftir síðustu veður.  Hún reyndist hinsvegar hin rólegasta, mikið til undir ís, en samt vaxandi lænur inn á milli, sérstaklega ein talsvert áhugaverð vestan megin. Þar er eiginlega gat í ísinn um það bil 3 sinnum 5 metrar. Framhjá þessu gati streymdi síðan jökulfljótið og sýndi, að þó yfirborðið væri að mestu rólegt, var þarna undir villidýr, sem bíður þess að láta til sín taka svo um munar.

Þar sem við fD stóðum þarna við brúarhandriðið norðan megin, hugfangin af skemmtilegu gatinu í ísinn, kom rúta inn á brúna að austanverðu.

Það veit maður, að þegar stórir bílar fara yfir brúna, sér þess glögg merki, með því það réttist úr boganum á brúargólfinu.
Það gerðist þarna.
Engu líkara en maður væri kominn á sjó.
En allt í lagi með það.
Þar sem um var að ræða hina verklegustu rútu stigum við upp á brúarkantinn og stóðum þétt upp við handriðið.
Frá Hangzhou
Þegar rútan var í um 30 metra fjarlægð frá okkur tóku ljósin á henni að blikka, hún hægði snarlega á sér og þegar mér varð litið á bílstjórann, var engu líkar en hann væri að stjórna hljómsveit. Kannski var þarna á ferð kínversk lúðrasveit frá Hangzhou, hvað vissi ég?
Þegar nær dró og mér tókst að greina andlit bílstjórans, var ekki annað að sjá en hann væri nokkuð æstur.  Handahreyfingarnar fóru einnig að benda til þess að hann væri að skipa okkur að fara frá, sem ég met út frá því að hann benti mjög ákveðið og ítrekað út fyrir brúna norðanmegin, þar sem gatið er á ísnum.
Var maðurinn að ætlast til þess, að við klifruðum yfir handriðið og stykkjum fram af?
Við fD?
Virkilega?
Með þann skilning í huga, og jafnframt staðfestu þess sem ætlar ekki að henda sér fram af brú, bara til að rúta, full af kínversku lúðrasveitarfólki kæmist framhjá, tók ég á það ráð, að brosa framan í bílstjórann og veifa, með fínu lopavettlingana mína á höndinni.  Auðvitað hefði ég getað sent frá mér annarskonar merki, en lopavettlingarnir gáfu ekki kost á slíku.
Í þann mund er Gray-line rútan ók framhjá, og til næsta áfangastaðar, sá ég andlit bílstjórans ummyndast af bræði og sannfærður er ég um að hann hefur sagt það sem fyrirsögnin gefur til kynna að hann hafi sagt.
Það hefði líka verið allt í lagi, því kínverska lúðrasveitarfólkið hefði alveg eins getað haldið að hann væri að benda á dæmi um það hvernig hraustir, Íslendingar haga lífinu og líta út.
Ég vil trúa á þann skilning þess.

06 janúar, 2018

Of snemmt

Sigurveig Mjöll Tómasdóttir
myndin fengin að láni af Facebook síðu Veigu.
Það vita þeir sem starfa við ræktun af einhverju tagi, að jarðvegurinn þarf að henta ungviðinu. Hlutfall næringarefna þarf að vera rétt, vökvun þarf að vera næg og hiti og birta þurfa að vera í samræmi við þarfir þeirrar jurtar sem rækta skal. Þegar allt er rétt í umhverfi plöntunnar getum við yfirleitt treyst því, að hún muni vaxa, dafna og bera ávöxt.

Það er eins með okkur mannfólkið og reyndar allar lifandi verur: umhverfi og aðbúnaður allur skiptir sköpum um hvernig þær vaxa úr grasi og verða fullþroska einstaklingar. Með umhyggju, uppeldi og utanumhaldi hverskonar, getum við yfirleitt búist við því að allt verði eins og það á að vera; uppskeran verði í samræmi við allan aðbúnað í æsku.

Það held ég fari ekki á milli mála, að sá jarðvegur sem Veiga spratt úr, það umhverfi sem henni var búið, sú umhyggja sem hún naut, var eins og best verður á kosið. Foreldrar hennar, þau Dísa og Tommi, fjölskyldan öll og stórfjölskyldan, allt þetta skapaði henni þær aðstæður sem allir myndu óska sér.

Sigurveig Mjöll Tómasdóttir, Veiga, lést á jóladag, 27 ára að aldri.
Ekki ætla ég að fjölyrða um það áfall sem aðstandendur Veigu, og aðrir sem hana þekktu, upplifðu við brotthvarf hennar. Það getur hver og einn ímyndað sér, en það var eitthvað sem enginn hafði átt von á.

Ég kynntist stúlkunni fyrst þegar hún gerðist nemandi við Menntaskólann að Laugarvatni. Þar var hún nemandinn sem var komin í skólann til að leggja sig alla fram og jafnvel talsvert umfram það. Hún var nemandinn sem kom með það veganesti úr foreldrahúsum að nám væri mikilvægt, skólinn væri góð og nauðsynleg stofnun og að til þess að ná árangri þyrfti að leggja hart að sér. Nemandinn Veiga hafði sannarlega tileinkað sér þetta viðhorf til náms og skóla. Allt sem henni var ætlað að sinna í náminu, sinnti hún af alúð og alvöru, staðráðin í að standa sig. Hún var einn af þessum nemendum sem fékk mig til að viðhalda þeirri bjargföstu skoðun minni, að kennslustarfið sé mikilvægt, eitt mikilvægasta starf sem unnið er.

Mér er Veiga ekki síst minnisstæð fyrir það að hún var ekkert sérstaklega mikið fyrir einhverja vitleysu. Ég er þannig innréttaður að ég hef átt það til að beita kaldhæðni í nokkrum mæli, einnig innan veggja skólastofunnar. Hún kunni ekkert sérstaklega vel að meta að of langt væri gengið í þeim efnum og alloft kom það fyrir að hún fór fram á það að ég léti af þessu, sem mér tókst auðvitað ekki, en reyndi kannski að vanda mig aðeins meira. Þannig má segja að hún hafið haldið mér á mottunni að vissu leyti og orðið til þess að ég vandaði mig aðeins meira í þessum efnum.

Eftir að Veiga hafði lokið námi í ML tók frekara nám við, en þó hún hafi þarna horfið úr daglegu umhverfi mínu, frétti ég af henni við og við, bæði vegna þess að hún leysti móður sína stundum af, dag og dag og einnig í gegnum samfélagsmiðil, eins og algengt er nú til dags.

Á liðnu hausti var allt á fullu hjá Veigu og kærastanum hennar, við að standsetja nýja íbúð. Framundan spennandi tímar.

Þeim tímum var ekki ætlað að verða að veruleika. Eftir sitjum við með spurningar sem ef til vill eiga sér ekki svör.

Þrátt fyrir að allar ytri aðstæður séu nýjum gróðri hagfelldar, þá getur ýmslegt óvænt komið upp, sem enginn getur séð fyrir og enginn gert neitt við.
Þannig er það með samning okkar við lífið.
Á móti fáum við að njóta þess að vera til, lifa, setja mark okkar á umhverfi okkar, þann tíma sem okkur er ætlaður. Þannig má segja að við lifum áfram þótt við deyjum: minningin um okkur, líf okkar og afrek, lifir áfram í huga þeirra sem halda áfram.

Svona pælingar eru nú ekki mikil huggun, heldur bara pælingar; tilraun til að setja ótímabært dauðsfall í eitthvert samhengi.

Von mín er auðvitað sú að fjölskyldu Veigu megi takast að komast í gegnum þetta stórviðri og finna leiðina áfram. Ég hef fulla trú á að svo geti orðið.



04 janúar, 2018

Þorpið í skóginum - Undirritunin

Á þessum degi rann upp sú stund, að ég undirritaði samning vegna styrkveitingar frá Uppbyggingarsjóði Suðurlands. Styrkurinn er ætlaður til að styðja við verkefni sem ber heitið: Laugarás, þorpið í skóginum. Ég er löngu búinn að hafa þetta verkefni í huga og er reyndar búinn að vinna talsvert í því undanfarin 4-5 ár.
Það má kannski segja að mig hafi vantað ákveðið spark til að fara nú að koma því þangað sem því er ætlað, nefnilega inn á vefinn: laugaras.is.  Þangað fer það efni sem safnað er víst ekki sjálfkrafa.
Af rælni sótti ég um þennan styrk. Átti ekkert frekar von á að fá hann, en nú blasir við að duga eða drepast.
Upphæðin sem mér var veitt til þess arna færi nú ekki langt ef vinnulaun til mín yrðu reiknuð inn í kostnaðinn. Það er hinsvegar ekki upphæðin sem slík, sem skiptir mestu máli, heldur þrýstingurinn sem styrkurinn skapar. Með henni eru settir upp frestir til framkvæmda og það er gott.

Leiðin lá í Fjölheima á Selfossi, þar sem Háskólafélag Suðurlands er til húsa. Þar tók Hrafnkell Guðnason á móti okkur fD og gengið var frá samningnum og hann undirritaður meðan fD, að mínu undirlagi, lét ítrekað vaða á EOS-inn. Mér fannst nauðsynlegt að skrásetja þennan, vonandi, merkisviðburð. Með honum hefst formleg vinna við að koma öllu því sem ég kem höndum yfir um sögu Laugarás og líf í þorpinu, fram á þennan dag.  Hvernig til tekst, verður tíminn síðan að leiða í ljós.

Nú þegar er ég búinn að safna saman upplýsingum um húsin í Laugarási fram undir aldamót og íbúa þeirra. Enn sem komið er er þar um að ræða nokkurskonar grunnupplýsingar og ég vona að ég geti bætt þar í að einhverju marki. Þá á ég efni um brúna, og vatnsveitufélagið (sem ég átti þátt í að drepa á sínum tíma).  Ég hef safnað nokkru af myndum frá ýmsum árum, en þarf að bæta þar talsvert í.
Ég veit um menn sem hafa skrifað heilmikið um Laugarás gegnum tíðina og bind vonir við að til þeirra megi ég leita um efni.

Hvað má lesa út úr þessum svip?
Ekki neitt?  Tilhlökkun? Áhyggjur?
Einbeitingu? Spennu?  Nú, eða bara
eftirvæntingu um hvort myndirnar 
verði nú í fókus hjá fD?  Hver veit,
Myndirnar, sem slíkar, reyndust
vel heppnaðar, hvað sem segja
má um myndefnið.
Framundan er einnig að taka saman helstu þætti í sögu heilsugæslunnar (læknishéraðsins), barnaheimilis RKÍ, hitaveitunnar og sláturhússins, svo stærstu þættirnir séu nú nefndir.  Það liggur við að mér falli einhver ketill í eld við tilhugsunina, en  ætli tilhlökkunin verði ekki yfirsterkari.

Á þessum tímapunkti er ef til vill viturlegt að fara ekki að segja of mikið, en leggja frekar áherslu á vonina um að allt fari þetta vel að lokum.

30 desember, 2017

Beðið eftir degi

Ég verð nú bara að fjalla um eitt fjölmargra perla sem Bítlarnir sendu frá sér á sínum tíma. Það var á þeim árum sem ég og jafnaldrarnir vorum að braska við að komast í gegnum táningsárin. 
Nafni minn, McCartney, mun hafa samið lagið þegar hann var 16 ára og þá væntanlega 1958,  en lagið  var ekki gefið út fyrr en á plötunni Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band 1967.   Sagt er að félagarnir hafi fram til þess tíma gripið til þess á tónleikum þegar magnarar biluðu eða rafmagnið fór af.
Þá er ástæðan fyrir því að lagið lenti á einmitt Sgt. Peppers hafa verið sú, að pabbi McCartney's hafi einmitt náð þessum fína aldri fyrr á árinu 1966, en lagið var tekið upp þann 6. desember það ár.

Hvað um það. Það er mér mjög í minni hve oft mér varð hugsað til þess þá, hvernig ástandið yrði hjá mér þegar ég yrði orðin svo ógnar gamall og þarna er fjallað um. Jafnvel hvort mér myndi takast að lifa svo lengi. 

Hér er umrætt lag í flutningi höfundar:


Textanum er beint til kærustu söngvarans og í honum veltir hann fyrir sér hvernig ævi þeirra saman muni geta orðið.  



When I get older losing my hair
Many years from now
Will you still be sending me a Valentine
Birthday greetings bottle of wine
Þarna er talað um að missa hárið. Það hafa margir misst meira hár en ég.
If I'd been out till quarter to three
Would you lock the door
Will you still need me, will you still feed me
When I'm sixty-four
Ég hef aldrei lent í því að fD hafi læst mig úti, eða að ég hafi stundað pöbbana mikið fram á rauða nótt.
You'll be older too
And if you say the word
I could stay with you
Þetta er kannski kjarni málsins: við erum saman í því að bæta á okkur árum, einu af öðru.
I could be handy, mending a fuse
When your lights have gone
You can knit a sweater by the fireside
Sunday mornings go for a ride
Doing the garden, digging the weeds
Who could ask for more
Skipta um öryggi, fara í sunnudagsbíltúra, vinna í garðinum og reyta arfa. Hver getur beðið um meira, svo sem.
Will you still need me, will you still feed me
When I'm sixty-four
Auðvitað er það alltaf huglægt hvað það er að þarfnast einhvers, en það er engin spurning þegar kemur að því að fá mat á diskinn.
Every summer we can rent a cottage
In the Isle of Wight, if it's not too dear
We shall scrimp and save
Grandchildren on your knee
Vera, Chuck and Dave
Þetta erindi mun hafa verið samið og sett inn þegar ákveðið var að lagið yrði gefið út, enda varla pælingar 16 ára unglings.
Send me a postcard, drop me a line
Stating point of view
Indicate precisely what you mean to say
Yours sincerely, wasting away
Þarna kemur fram að kærastan er stödd annarsstaðar. Engin sms, snapchat eða Fb-skilaboð, eða hvað þetta heitir nú allt.  Pilturinn vill að hún sendi póstkort til að láta hann vita hvaða skoðanir hún hefur á þessum vangaveltum hans, Hann er greinilega ekki alveg viss með þetta samband, þar sem hann segist vera að koðna niður, mögulega vegna þess að hún hefur ekki haft samband.
Give me your answer, fill in a form
Mine for evermore
Will you still need me, will you still feed me
When I'm sixty-four
Svaraðu mér, fylltu út eyðublaðið, mín að eilífu. Varla á stúlkan að fylla út eyðublað - líklegara að um sé að ræða umrætt póstkort, þar sem ákveðið svæði er ætlað til ritunar skilaboða.
-----------

Jæja. loksins er þessi dagur upp runninn og ég hef ekki hugmynd um hvort ég er sá, í dag, sem ég sá fyrir mér fyrir hálfri öld. Ég þykist samt viss um að ég er ekki það hrörlega gamalmenni, sem líklegt er að ég hafi reiknað mér þá.  Mér finnst ég enn vera að byrja eitthvað nýtt. Þó hárum hafi fækkað og önnur ytri einkenni gefi talsverðan þroska til kynna, býr allt annað og yngra hið innra.

Ég skelli hér einnig inn flutningi Bítlanna á þessu áhugaverða lagi eins og það var í uppunalegri útgáfu:




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...