13 ágúst, 2018

Þorlákshver, Litli hver og búnaðarskóli

Þorlákshver eða Litli hver?
Þegar oft þarf að ganga sér til heilsubótar þarf stundum að huga að því að skipta um gönguumhverfi.  Það gerðum við fD og ákváðum að leggja leið okkar eftir slóðanum sem liggur frá Skálholtsbúðum niður að Þorlákshver. Frá þeim stað sem bílnum var lagt og niður að Brúará eru tæpir 2 km.
Ég hef ekki komið þarna niðureftir í áratugi.
Í kjölfarið fór ég að velta ýmsu fyrir mér um þennan hver, Þorlákshver, en komst að því, í fljótu bragði að það eru ekkert umtaslverðar heilmildir um sögu hans í efstu lögum þeirra heimilda sem ég hafði aðgang að.

Í árbók hins íslenzka fornleifafélags 1927, þar sem fjallað er um ýmis örnefni í Skálholti (mjög áhugavert) segir þetta um Þorlákshver:
Þorlákshver er eitt þeirra örnefna, sem kennt er við Þorlák biskup hinn helga Þórhallason.

Svo fór ég að leita meira og það leiddi mig að ýmsu öðru og þar bar eftirfarnadi hæst:
Í Þjóðviljanum 1944 skrifar Björn Sígfússon:
SKÁLHOLT Náttúruskilvrði og kröfur til nýs skóla
Nytjun jarðyls á skilyrðislaust að vera ein meginkrafan, sem gera skal til bændaskóla í nýjum stíl, og hana á hann að hafa umfram hina skólana. Þegar borun eftir jarðhita kemst til framkvæmda um allt land, verður sá orkugjafi meiri þáttur í búnaðarframleiðslu og öllu lífi sveitanna en menn hefur grunað. Garðyrkjuskóli er bundinn á þröngu sviði við jarðylsnotkun til ræktunar og fullnægir ekki bændaefnum, enda ætlaður öðrum. Gufusuða og þrýstingsnotkun er t. d. mikilsvert framtíðarmál. Slíkt má prófa og kenna í bændaskóla, auk hitaræktar, þótt hann fáist ekki við mikla garðyrkju. Hinn ókomni landbúnaður er, eins og menn ættu að vita, ein af iðjurekstrargreinunum, og bændaskóli þarf a. n. l. að fullnægja iðnskólahlutverki. Þess vegna er nauðsyn, að bændaskólinn nýi hafi allmikinn jarðhita sjálfur, og jafnmikil nauðsyn, að í kring séu hitalindir beizlaðar á margvíslegan og stórfelldan hátt, án þess að skólinn sjálfur þurfi að eiga í þeim fyrirtækjum nema óbeinan þátt og leiðbeiningastarf.Hvanneyri og Hólar standa alllangt frá öllum jarðhita. Þessu skilyrði fullnægir Skálholt betur en. aðrir staðir á Suðurlandi. Þorlákshver, sem heilagur Þorlákur stundaði forð um, er með heitustu uppsprettum og svo vatnsmikill og vatns tær, að hitun mikilla húsa, smáíðja og ræktun við hann eru auðveldari og vænlegri til hagn aðar en gerist á góðum jarðhitastöðum.
Ég hafði vissulega heyrt af hugmyndum um að reisa bændaskóla í Skálholti, en aldrei hvarflaði að mér að þær væru komnar svo langt sem raun ber vitni. Í Tímanum frá júlí, 1948 birstist eftirfarandi grein á forsíðu:

Búnaðarskólinn í Skálholti

Þetta gulbrúna svæði er líklega það svæði sem skólanum var hugsaður staður.
Líkur til, að byrjað verði á byggingu búnaðarskólans í Skálholti
Bygginganefndin hefir staðfest uppdrátt húsameistara ríkisins af aðalskólabyggingunni
Byggínganefnd hins fyrlrhugaða búnaðarskóla að Skálholti hefir staðfest uppdrátt, sem húsameistari ríkisins , hefir gért að mannvirkjum þar á staðnum. Er gert ráð fyrir, að skólahúsið muni kosta um hálfa fjórðu milljón króna með núverandi verðlagi og kaupgjaldi. Fjárfestingarleyfi er ekki enn fengið, en reynt veíður að fá það, svo að byrjunarframkvœmdir geti hafist þegar í haust.
Draumur, er senn rætist.
Það hefir lengi verið draumur Sunnlendinga, að hinn sögufrægi staður, Skálholt, yrði á ný veglegt menningarsetur. Nú virðist það nálgast, að sá draumur rætist.

Fyrir tveimur árum var skipuö nefnd manna til þess að undirbúa byggingu búnaðarskóla á Suðurlandi. Eiga sæti í nefndinni Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri, sem er formaður hennar, Sigurður Ágústsson bóndi í Birtingaholti og Guðmundur Erlendsson bóndi að Núpi. En framkvæmdastjóri hennar er Hjalti Gestsson búfjárræktarráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands.

Veglegt og fullkomið skólahús.
Nefndin ákvað, að skólinn skyldi reistur að Skálholti, og hefir húsameistari ríkisins unnið aö uppdráttum að skólabyggingunum nú að undanförnu. Nú er þessi uppdráttur fullgerður, og hefir bygginganefndin staðfest hann. Verður skólahúsið veglegt mjög, og er gert ráð fyrir. að það kosti um hálfa fjórðumilljón, miðað við núverandi verðlag og kaupgjald. Verður byggingin hin fullkomnasta að öllu leyti. og mun bygginganefnd in vera hin ánægðasta með allt fyrirkomulag. — Byggingin er miðuð við fimmtíu nemendur.

Fagur staður og búsældarlegur.
Skólasetrinu er ætlaður staður á ásnum vestan við biskupssetrið gamla, mitt á milli þess og Þorlákshvers, en í hann verður sótt heitt vatn til þess að hita upp bygginguna. Er þar fagurt útsýni, og aðstaða til búskapar mun betri en heima á gamla bæjarstæðinu, sem er austast í landareign Skálholtsstaðar.

Von til, að framkvæmdir hefjist í haust.
Á undanförnum árum hefir í fjárlögum verið veitt allmikið fé til hins fyrirhugaða búnaðarskóla. Hefir nokkuð af því verið varið til þess að gera veg af þjóðveginum heim á staðinn, þar sem skólasetrið á að rísa upp. Einnig hefir verið mælt fyrir vatnsleiðslum, bæði hvað snertir heitt og kalt vatn. Verður leiðslan úr Þorlákshver heim á skólasetrið um einn kílómetri á lengd.

Bjarni Ásgeirsson landbúnaðarráðherra tjáði Tímanum i gær, að hann gerði sér vonir um, að unnt yrði að hefja frekari undirbúning að skólabyggingunni nú í sumar eða haust. Að vísu er ekki enn fengið fjárfestingarleyfi, svo að unnt sé að byrja á byggingarframkvæmdum þegar í stað, en unnið er að því að fá það. Hitt er vitanlega óvíst á þessu stigi málsins, hversu langt áleiðis verður hægt að þoka byggingunni á þessu ári.

Sunnlenzkir bændur bíða með óþreyju.
Sunnlenzkir bændur bíða með óþreyju, að skóli þeirra risi upp. Steingrímur Steinþórsson skýrði blaðinu frá því í gær, að bygginganefndinni hefðu borizt fjölmargar áskoranir frá bændum og bændasonum á Suðurlandi, þar sem heitið væri á hana að gera sitt til þess að byriað yrði sem allra fyrst á byggingunni. Hefir hún líka lagt sig í líma um það, að svo mætti verða.
Öll vitum við, að af þessari miklu byggingu og tilheyrandi framkvæmdum öðrum varð ekki. Hvernig þessu var sópað út af borðinu veit ég ekki nákvæmlega, en reikna með að svona starfsemi á hinum helga stað hafi ekki endilega fallið í kramið allstaðar, þó svo bændaskóli væri kominn á Hólum, án þess að það virtist hafa verulega skaðleg áhrif á þann stað. Ætla má, og mér sýnist á skrifum Sigurbjörns Einarssonar, þá dósents frá 1948, en hann má segja hafi farið fyrir þeim sem stóðu að endurreisn Skálholts, að ekki væri sæmandi að byggja búnaðarskóla í Skálholti meðan ekki væri þar vegleg kirkja.

Hver bullar úti í Brúará

Þorlákshver og Litli hver

Þarna niðri við Brúará er dæluhús, sem tekur vatn úr harla ómerkilegum hver, sem ég trúi nú varla að sé Þorlákshver. Getur verið að hverinn sá kallist Litli hver, sbr. myndin sem fylgir hér hægra megin, og að Þorlákshver sjálfur sé nú í Brúará skammt frá landi? Það bullaði heil ósköp eins og sjá má á annarri meðfylgjandi mynda.




Þessi skrif skulu ekki teljast einhver fræðileg úttekt hjá mér, heldur bara afleiðing þarfar minnar til að vita aðeins meira í dag en í gær.


Nokkrar myndir




                                                                                                             

02 ágúst, 2018

Ef ég þarf að fara á Selfoss.....

Myndin er ekki af Suðurlandsvegi við Selfoss. Þar sem ég
var akandi gat ég ekki tekið myndi til að birta hér,
en hefði gjarnan viljað. "Maybe I should have"
...þá auðvitað fer ég á Selfoss. Þar er margt að sjá og margt að gera.. Ég þarf kannski að fara í klippingu og ekki þarf ég að kvíða því að fá hana ekki. Ég þarf til tannlæknis og þeir eru þarna á hverju strái. Ég þarf að komast í búð og það veit sá sem allt veit, að maður getur varla snúið sér við fyrir búðum. Svona gæti ég lengi talið.

Stundum bara ætla ég ekki á Selfoss. 

Ég þarf að fara annað.
Ef ég vil ekki hætta lífi mínu á veginum um Grímsnesið, þá verð ég að gera svo vel að þræða þröngar og ofhlaðnar götur Selfoss, hvað sem tautar og raular.
Hversvegna skyldi þetta nú vera?

Þetta minnir ig reyndar á tíma þegar það voru til vísitölubrauð. Voru það ekki franskbrauð, heilhveitibrauð og normalbrauð? Þessi brauð lutu ákveðnum reglum og voru þessvegna ódýrari en önnur brauð. Neyslunni var beint að þessum tegundum brauðs.

Þegar umræða um nýja brú á Ölfusá var talsverð í upphafi aldarinnar, kom fljótt í ljós að ekki voru allir á eitt sáttir. Ekki nenni ég að rekja þá sögu, enda aðrir betur færir um það. Helst var að skilja að þjónustuaðilar á Selfossi væru uggandi um sinn hag. Mig grunar að sá uggur sé ein megin ástæðan fyrir því ástandi sem er í dag og þá kem ég að tilefni pistilsins - pistils sem ég hef oft hugsað mér að láta frá mér.

Ástandið í umferðarmálum í kringum Selfoss er ótækt.
Hvernig getur það verið að Selfyssingar virðast sætta sig við það umferðarkraðak sem er á Austurveginum nánast hvern dag?
Hver getur fólk sætt sig við það, nánast hljóðalaust að það skuli vera biðraðir inn á Tryggvatorg (heitir það það ekki?) alla daga?

Þetta lendir sjálfsagt minna á mér en mörgum öðrum, þar sem ég get yfirleitt bjargað mér með því að fara Grímsnesið, nema þegar ég þarf á Selfoss, því þá er hægara sagt en gert að taka vinstri beygjuna af Biskupstungnabraut.

Á þessum Drottins degi, fimmtudegi fyrir verlunarmannahelgi þurfti ég að sinna erindum á Selfossi, svona eins og gengur og gerist. Síðan lá leiðin í höfuðborgina, en þá var bílalest frá torginu við brúarendann og að torginu við Toyota.  Ég sagði auðvitað bara "VÁ", svona eins og maður segir, ekki síst þegar svona er. Þetta var um hádegisbil.
Þessi umfjöllun er frá 2008.
Síðan eru 10 ár, eins og hver maður getur éð.
Erindum lauk ég í borginni við sundin og hélt heim á leið.
Þegar mér, um fjögurleytið, tókst loksins að beygja inn á Biskupstungnabraut, eftir að hafa ekið í fyrsta gír eða minna  langleiðina frá Kögunarhól, varð mér litið í vesturátt og svo langt sem ég þá sá, að Kögunarhól, sem sagt, sniglaðist bílalestin milli þess sem hún stóð kyrr.

Ég telst líkast til óskaplega ósanngjarn og tilætlunarsamur, en svona aðstaða á þjóðvegi eitt, er bara hreint ekki boðleg, og ætti að vera búið að kippa í liðinn fyrir löngu.
Ég geri mér fulla grein fyrir því, að umferðin er ekki svona alla daga ársins hring. Það breytir engu um þá skoðun mína, að ekki verður búið við þetta lengur

Ástæður fyrir því að svo er ekki, er ekki síst að finna á Selfossi, þar sem hagsmunaaðilar hafa, að mínu mati, haft þau áhrif á þetta brúarmál að það hefur frestast úr hófi.
Það er þekkt í öðrum landshlutum að þingmenn hafa barið í gegn nauðsynlegar umbætur  á samgöngum.
Hvar eru sunnlenskir þingmenn, nú þegar hljóðnaður er söngurinn um að brú verði að vera þannig á Ölfusá sett, að hún beini allri umferð á þjóðvegi eitt í gegnum Selfoss?

Kannski erum við Sunnlendingar bara svona lítilþægir.

Hvur veit?


Þetta er umfjöllun frá 2005, síðan eru 13 ár. Hvað dvelur orminn langa?

Vísir september 2017. NÍU ÁRA BIÐ FRAMUNDAN!



27 júlí, 2018

Óðurinn til tenórsins 2003


Af Rósahöfn, fleiri stöðum og atburðum merkum í kórferðalagi Skálholtskórsins í ágúst 2003
(birt í Litla Bergþór í desember 2004)

Það er mér þung raun að geta þess, að myndir sem ég tók í þessari ferð virðast hafa glatast að eilífu þegar harður diskur á tölvu minni hrundi, sem varð til þess að ég þrítryggi síðan allar mínar myndir. Eigi einhver myndir frá þessari ferð og sem hann er til í að deila með mér, yrði ég afar þakklátur.
PMS fyrir 15 árum

Myndirnar sem birtast hér eru þær sem fylgdu skrifunum í Litla Berþór og túristamyndir af vefnum.


Allt í henni veröld á sinn tíma eins og alkunna er. Það sama á augljóslega við um þann ritaða texta sem hér birtist. Jarðvegurinn sem hann spratt upp úr er blanda af ýmsu:
• óviðráðanlegri samviskusemi höfundarins, sem lætur hann ekki í friði þegar kórstjórinn beinir þeim eindregnu tilmælum, skýrt og skilmerkilega, til kórfélaga að taka eitthvað það með sér í Slóveníuferð sem gæti orðið til að drepa tímann í löngum rútuferðum, 
• óvenjulega fagmannlegri nálgun höfundarins að hlutverki sínu sem tenór og þess vegna miklu sjálfstrausti fyrir hönd raddarinnar einu, til að fjalla um þau andlegu verðmæti sem verða til við þjálfun hennar og blómgunartíma, 
• takmarkalausri næmni fyrir þeim blæbrigðum sem lita allt líf og starf þeirra sem eru svo heppnir að geta með góðri samvisku kynnt sig fyrir veröldinni sem tenór í kór, í þessu tilviki Skálholtskórnum. - 

Sópraninn var að fjalla sín á milli um hvað tenórinn væri flottur í Íslandsbyggðarkaflanum í „Úr útsæ rísa", bassinn var að taka í nefið, eða ekki með viðeigandi tæki í sambandi og altinn var að ræða um hvernig hann gæti látið í sér heyra með glæsilegu altlínunni í „Sicut" þegar kórstjórinn kom ofangreindum tilmælum sínum á framfæri, skýrt og skilmerkilega. 
Tenórinn var hinsvegar að hlusta á stjórnandann, eins og raddir eiga að gera þegar þær eru í kór. 
Til að gæta allrar sanngirni þá er verið að tala um hinar raddirnar 3 heilt yfir og það kom reyndar í ljós að það eru til tenórískir tendensar í einum og einum einstaklingi í þeim hópi. 
Það varð reyndin, að rútuferðir voru ekki skornar við nögl, og þær út af fyrir sig eru efni í heila bók. Það olli, til dæmis, talsverðum titringi og kvíða meðal saklauss sveitafólks ofan af Íslandi þegar nálgaðist fyrstu landamærin og það lá fyrir skýrt og skilmerkilega hjá einum ferðafélaganum að hann ætlaði sko að tala við landamæraverðina með tveim hrútshornum og segja þeim til syndanna vegna styrjaldarátaka í fyrrum Júgóslavíu fyrir einhverjum árum. Það önduðu hinsvegar margir léttar þegar að landamærunum kom og viðkomandi víkingur hafði gefið sig svefninum á vald, enda eins gott því umræddir landamæraverðir bjuggu yfir alvæpni, gljáfægðum skammbyssum í leðurhulstri. Rútubílasaga þessarar ferðar verður að bíða betri tíma. 
Fyrsti leggur rútuferðanna lá frá flugvellinum skammt fyrir utan München í Þýskalandi, til Rósahafnar (Portoroz) í Slóveníu: 6 klukkutíma akstur, í 39 - 40° hita á Celsíus. Farartækið var tveggja hæða, loftkæld fólksflutningabifreið með ágætum, þýskum bílstjóra, sem stærði sig af því að kunna íslenska frasa, og það finnst okkur Íslendingum svo skemmtilegt. Viðbrögðin við athugasemdum, sem höfundur man ekki lengur, en mátti í öðru samhengi, t.d. ef tenór hefði þá yfir við samlöndu sína, vel túlka sem örgustu kvenfyrirlitningu, voru dillandi hlátur sóprana og alta. „Feita kelling!!" - hí, hí, hí, hí. 
Íslenskir tenórar og aðrir kórfélagar voru vansvefta eftir nálægt sólarhrings vökur, og reyndu með misjöfnum árangri að festa svefn, í ramma sem Alparnir stilltu upp fyrir samhengið. Þá ákvað höfundur, vansvefta eins og aðrir, en verandi tenór, ónæmur fyrir slíku álagi, að láta til skarar skríða og styðja dyggilega við tilraunir félaganna við að festa svefn. Hugmyndin var að flytja þeim í gegnum hátalarakerfið, með róandi, afslappaðri tenórröddinni, fyrirfram skrifaðan texta, sem saminn hafði verið til heiðurs röddinni, sem svo oft hefur kallað fram allt litróf tilfinninga og kennda áheyrenda, ekki síst í þeim kór sem hér um ræðir, og einnig vegna áðurnefndra tilmæla kórstjórans, sem höfðu ofangreind áhrif á höfundinn til að skrá hugrenningar sínar. 
Hér kemur óðurinn til tenórsins, eins og hann var fluttur við ofangreindar aðstæður. Þessi óður átti sinn tíma, en tímalaus fegurð raddarinnar, sem fær næturgalann til að heimsækja háls-, nef- og eyrnalækni, verður ekki með auðveldum hætti færð í letur, en þess var freistað, og hver, nema innvígður tenór gæti mögulega tekið að sér slíkt hlutverk? 

Úr veitingahúsi Avseniks (Arsesniks) sem fjallað er nokkuð um í textanum.


Líf og starf tenórsins 
Fyrri hluti 

Ákvað að skella mér í kórinn aftur eftir nokkurt hlé. Hafði heyrt að til stæði að setja kúrsinn á þriðju Evrópuferðina, ekki að það hefði minnstu áhrif á ákvörðunina. Hitaði upp með því að taka aðventuna og jólin og komst að því að silfurtær tenórröddin hafði í engu misst fegurðina og leist því bara vel á framhaldið. 
Alvaran hófst eftir ármótin og vel leit út með mönnun tenórsins, fimm til að byrja með, stundum fjórir, eða tveir, stundum með lán frá bassanum. Svo hættu tveir og tveir til þrír bættust við og slatti gekk úr skaftinu og slatti bættist við. Sjaldnast nema hluti á æfingu í einu. 
Bragi var næstum alltaf. 
Með komu vorfuglanna fór fegursta röddin loks að taka á sig þá mynd sem hún er nú komin til útlanda í: óaðfinnanleg — takmarkalausir hetjutaktar sem fá altinn meira að segja til að snúa sér við. 

Það gerðist þrátt fyrir þá afburða stöðu sem tenórinn er í nú, að ákveðnar efasemdir gerðu vart við sig; að sjálfstraustið tók eilitla dýfu niður á við. Þó það skipti svo sem engu máli nú, er ekki nema sanngjarnt að geta þessa, þó ekki sé nema til þess að sýna fram á hvernig ástsælir tenórarnir standa af sér hvaða áföll sem upp á kunna að koma. Ætli það hafi ekki haft eitthvað með fyrirbærið raddbeitingu að gera. Fannst í rauninni ekkert að henni fyrr en kannski í raddþjálfun í Brattholti. 
Hvernig getur raddþjálfun átt sér stað í Brattholti? 
Diddú
mynd: Kristinn Ingvarsson
Dívan Diddú — sópran — sýndi tenór og bassa hvernig skyldi beita röddinni. Hljóðið skyldi myndað með ákveðnum hætti á ákveðnum stað — með einhverjum öðrum hætti og á einhverjum öðrum stað en venja hafði skapast um. Áratuga raddbeiting, sem hafði gert sitt gagn svo lengi sem raun bar vitni, var samkvæmt þessu fyrir bí. Þindin skyldi með einhverjum hætti koma til skjalanna. Hún varð grundvallaratriði í beitingu hinnar tæru tenórraddar — átti erfitt með að tengja hana við hljóðmyndun hinna óæðri spendýra — það er engin samsvörun við gelt eða baul. 
Þannig er tenórröddin bara hreint ekki. 
Það kann að gilda annað um bassann. Gerði þó ítrekaðar tilraunir til að virkja þindina, en það er líklegast með hana eins og magavöðvana; við langvarandi notkunarleysi slappast hún — ekki nema von að 15 mínútna raddþjálfun skili ekki því sem af stað er lagt með. Nokkrir mánuðir í World Class gætu kannski lagfært þetta — ekki 15 mínútur með sópran, nema þá tímabundið, ef ekki þarf að hugsa neitt annað á meðan, en svo einfalt er líf tenórsins bara ekki. 
Til að gera íðilfögrum tónum sem tónskáld og útsetjarar veraldarinnar hafa skrifað handa þessari fögru rödd, fullnægjandi skil, þarf alvöru tenór að hugsa um fjölmargt á sama tíma. Hér skal hið helsta nefnt. 
Hugsum okkur eitthvert dæmigert tónverk —já, gerum það. 
Tenórinn þarf að hafa til reiðu nóturnar og textann, hann þarf einnig að vita hvenær hann á að syngja og hvenær ekki, hvort hann á að sleppa úr orði hér eða þar, hvort hann á syngja í A-dúr eða B-moll, sterkt eða veikt, angurvært, ástúðlega eða hetjulega, einn eða með hinum röddunum, sína rödd eða laglínuna. Bara þetta er nægilegt starf, en ofan á þetta bætist að kórstjórinn gerir stöðuga kröfu um að tenórinn fylgist með því hvernig hann hreyfir hendurnar, fingurna, augun, munninn, já, jafnvel hvernig dansspor hann tekur.  
Svo á tenórinn líka að brosa, jafnvel í dramatískustu kirkjukantötum!  
Þá ber þess að geta að tenórinn þarf að forðast af fremsta megni að verða fyrir truflun frá öðrum röddum. Það er sjaldan að bassinn nær að yfirgnæfa neitt, bæði vegna þess að hann er að dóla á tónum sem eru jafnvel fyrir neðan tónsvið sem tenórlegt eyra nær að nema (það þarf þá heyrnartæki bassans til) og einnig vegna þess að hann er ekkert mikið fyrir að trana sér fram — þetta var fremur jákvæð athugasemd um bassann. Það má sama segja um bassann og aðrar raddir, nema sópran (en fjöldinn er slíkur að 4-5 stelpur til eða frá breyta litlu), að fjöldinn hefur verið afar óstöðugur og það hefur meira að segja orðið liðhlaup yfir til tenórsins, sem viðkomandi óhjákvæmilega líta á sem skref upp á við. Hvað bassinn, sem eftir er, hugsar við slíkar aðstæður, er erfitt að segja til um; bassinn er ekki mikið fyrir að tjá tilfinningar sínar opinskátt; hann ræðir frekar heyskaparhorfur eða huldar vættir; hvorttveggja umræðuefni sem kalla ekki mjög á tilfinningalega tjáningu. 
Og tekur í nefið. 
Altinn er dálítið óreglulegur þegar um er að ræða truflun, sem hann getur valdið tenórnum. Það fer dálítið eftir mætingu og þá er ekki sama hverja eða hverjar vantar. Að öllu jöfnu má segja að altinn sé millistigið milli bassa og sóprans að þessu leyti. Altinn á stöðugt í innri baráttu um hvað hann er, eða stendur fyrir; hluti altsins telur sig vera með stelpunum, skýtur inn orði og orði í fundahöld sópransins og reynir að gera sig gildandi að því er varðar gagnrýni á ýmis mál sem skipta eða skipta ekki máli, hinn hluti altsins dregur frekar dám að tenórnum og freistar þess að ná yfirvegun hans og jafnaðargeði, en skortir að öllu jöfnu til þess þá dýpt sem tenórnum er svo eðlislæg. 
Altinum finnst gaman að syngja röddina sína, þó tenórnum reynist erfitt að átta sig á ástæðum þess. Þetta birtist fyrst og fremst í því að þegar altinn og sópraninn eiga að syngja eitthvert sálmaversið (sem tenórinn og bassinn gera auðvitað einraddað, í þessi fáu skipti sem þeir fá að spreyta sig á slíku, eins og kórstjórinn lagði upp með), þá vill altinn alltaf syngja sína rödd, kannski vegna þess að við þær aðstæður er líklegast að í þeim heyrist. Það skal þó ekki fullyrt hér að svo sé, því altinn getur verið óútreiknanlegur, ekki bara í fjölda heldur einnig í viðhorfum til lífsins og tilverunnar. Það er mikilvægt fyrir framtíð altsins að hann taki þá afdráttarlausu afstöðu til lífsins að hann sé kona, ekki stelpa. 
Mestri truflun getur tenórinn orðið fyrir frá sópraninum. Stelpnafjöldinn er með ólíkindum á stundum, og nægir einn sér til að gera auknar kröfur til einbeitingar. Hann er á stundum slíkur að tenórinn verður að gefa eftir stóran hluta af æfingasvæði sínu. Þetta gerir hann auðvitað af fúsum og frjálsum vilja, svo riddaralegur sem hann nú er. 
Hún er ennfremur eðlileg, ástleitni sópransins þegar tenórinn er annars vegar, og söguleg, en jafnframt truflandi þegar málið snýst um einbeitingu í söng fremur en opinskátt daður. Hæfileikar sópransins liggja á öðrum sviðum en annarra radda. Hann getur einbeitt sér að flóknum tónverkum á sama tíma og hann ræðir sín á milli um síðustu óléttuna eða framhjáhaldið, eða skoðar nýjustu myndir frá fyrirheitna landinu. 
Vissulega veldur þetta kórstjóranum umtalsverðu hugarangri á stundum, en honum er á vissan hátt vorkunn, verandi beintengdur inn í þessa hástemmdu rödd og getandi þar af leiðandi ekki beitt sér sem skyldi í málinu nema eiga á hættu tiltal síðar. 
Þess má ennfremur geta í framhjáhlaupi, að það er einmitt hinn mikli fjöldi sóprana sem hefur átt þátt í að efla með tenórnum hið mikla sjálfstraust, sem er honum svo nauðsynlegt. Þetta gerist í þau skipti sem kórstjórinn sér ástæðu til að fara þess á leit við 4 manna tenórinn að hann dragi úr raddstyrk til að yfirgnæfa ekki 20 stelpna sópraninn. Þetta segir tenórnum margt, og yljar honum um hjartarætur. 

Hér hefur verið gerð nokkur grein fyrir því hverjar aðstæður tenórsins eru og þá um leið skýrt með afgerandi hætti hversvegna þindarnotkun, sem viðbótar álag í vinnu hans, hefur ef til vill ekki komið jafn sterkt inn og þörf hefði verið á. 

Síðari hluti 
Þegar setið er í langferðabíl einhversstaðar í Suður Evrópu er einhvern veginn erfitt að stilla sig inn á atvik, hugsanir og tilfmningar með uppruna norðarlega í Atlantshafinu. Þetta getur tenórinn þó gert og fer létt með það, í það minnsta að því er varðar innri málefni hinnar ægifögru raddar. 

Bragi Þorsteinsson
Vatnsleysubóndinn, Bragi (Bragi Þorsteinsson), hefur, að því er sagt hefur verið, sungið tregafullan, barmafullan og seiðandi tenórinn í 40 ár samfleytt, og þá alltaf fyrst og fremst til að halda sér við fyrir réttasöng í september ár hvert. Hann ber öll merki hins þrautþjálfaða tenórs og hefur því ekkert þurft að hugsa um það sem flestir þurfa að sinna í tengslum við æfingar: raða nótum, læra texta, horfa á stjórnanda og því um líkt. Hann reyndar minnist þess á stundum þegar hann sat einn með sjálfum sér og velti því fyrir sér hvenær hann ætti að drífa sig í að raða nótunum sínum. Hann reyndar gerði það aldrei, en það var ekki vegna þess að hann gæti það ekki, ó nei. Honum hefur bara alltaf fundist að það væri svo vel æft og rækilega að hann þyrfti ekki á röðuðum nótum að halda. 
Það mun svo hafa verið einhver tenóraðdáandi, sem hlýtur að hafa haft einhverjar efasemdir um að hið sjálfsörugga yfirbragð Braga væri raunverulegt, sem tók sig til gerði þetta allt fyrir hann í lokin. Greina mátti ákveðinn létti í framgöngu Braga þegar hann fann nótnapakkann, en aldrei hefur hann fengist til að viðurkenna að hann hafi raunverulega þurft á þessu að halda. 

Þorleifur Sívertsen
Tolli (Þorleifur Sívertsen) átti lengi vel í braski með vaktirnar, og mætti því stopult á köflum, en æfði bara því betur heima. Það er nú svo að tenórinn verður að vinna með æfingunum. Þá kom pípan að góðum notum. Það er einnig alkunna að tenórröddin nýtur sín best í fremur þunnu lofti og því allar æfingar auðveldari — færri þættir sem þarf að taka með í reikninginn til að ná hinum eina sanna tón. Því skellti Tolli sér til fjalla nú undir lok æfingatímabilsins til að hnýta endahnútinn á þrotlausar æfingar undanfarinna mánaða. Tenórinn væntir mikils af framgöngu hans á næstu dögum. 

Jóhann I Stefánsson
Jói Mikki (Jóhann I. Stefánsson), annar vorfuglanna, var ekki fyrr kominn yfir frá bassanum en hann varð fárveikur í fjallgöngu á Borgarfirði eystra (svona var einhver útgáfa sögunnar). Það má velta því fyrir sér hvort umskiptin hafi átt einhvern þátt í veikindunum og þá vegna þess að honum hafi orðið um og ó að takast á við svo átakamikið verkefni sem tenórinn er. 
Það varð fljótlega ljóst, að Jói Mikki á líka að spila á trompet. Hann söng og spilaði á afmælistónleikum og Skálholtshátíð og notaði þar útfrymi úr sjálfum sér til að leysa verkið af hendi. Skemmst er frá því að segja að hann glansaði í gegnum tónleikana, enda eindreginn tenór að upplagi; hefur helst kvartað yfir að hæstu tónarnir væru óþarflega fáir í þeim verkum sem tenórinn þarf að takast á við. Fyrrgreint útfrymi verður ekki til staðar í Slóveníu, eftir því sem tenórinn gerir ráð fyrir. Eðalröddin er öllum venjulegum manninum nægilegt verkefni, en að syngja tenórinn í Hallelujah kórnum og spila á trompet um leið hlýtur að teljast ofurmannlegt og bíða tenórarnir spenntir eftir því að sjá Jóa Mikka leysa það verkefni. Tútútu Hallelúja — það fer í sögubækur tenórradda veraldar takist honum ætlunarverkið. 

Hermann G Jónsson
Hinn vorfuglinn (Hermann G. Jónsson) mun eiga uppruna á sviði dægurtónlistar, sem er þekkt af því, einmitt, að skemma hin viðkvæmari blæbrigði sem einkenna tenórinn svo mjög. Það var því með ákveðnum fyrirvara sem tenórinn tók við þessum nýja liðsmanni af gróðursnauðri suðurströndinni (sannarlega ekki von til að þar færi hinn sanni fjallatenór — eins og sá sem gjarna má heyra í réttum). Fyrsta aðkoma hins nýja tenórs að verkefninu einkenndist af ákveðinni varfærni, sem verður að skrifa á hið eðlislæga lítillæti hins sanna tenórs. Eftir nokkrar súkkulaðirúsínur altsins og rjómakökur sópransins fann hann þó fljótlega að hann var á réttum stað og eftir það urðu eftirtektarverð umskipti á strandarpiltinum. Það þarf ekki að orðlengja það að Hemmi reyndist ekki hafa verið söngvari dægurhljómsveitar á yngri árum, í það minnsta ekki þannig að skaðleg áhrif hafí haft á kliðmjúka, og klingjandi tenórröddina. Hann er með stóra svarta möppu í þessari ferð og ætlar sér stóra hluti. 

Sveinn Svavarsson
Sveinn Össur er beggja blands. Hann hóf aðkomu sína á bassneskum tónum, en hann hlýtur að hafa átt erfitt með að finna sig þar, því áður en við var litið hafði hann gengið til liðs við röddina einu, sönnu. Ekki hafa komið fram með afgerandi hætti ástæður þessara umskipta hjá drengnum, en tenórinn er, að vanda, ekki í vandræðum með að skýra þær fremur en annað í þessari veröld. Flauelsmjúkur dans tenórsins upp og niður fram og aftur til hliðar og til baka á tónstiganum, er hverjum þeim sem á annað borð hefur genetíska tenóríska tendensa í sér, fullnægjandi skýring í sjálfu sér. 
Sveinn Össur (Sveinn Svavarsson) er þó með einhverjum óskýranlegum hætti tregafullur í aðkomu sinn að tenórnum. Hann hefur heyrst taka undir með bassanum í hléum tenórsins, eins og til að halda sér við fyrir endurkomu þangað síðar meir, sem verður að skýrast með einhverri undarlegri þrá eftir vindi. Það verður þó ekki af Sveini Össuri tekið að hann er óðum að samsama sig sönnum tenórsanda og hefur meira að segja smám saman verið að nálgast, ekki bara hina sönnu tenórísku framgöngu heldur einnig fysíska útgeislun og útlit hinna sönnu tenóra, félaga hans. 

Kjartan Jóhannsson
Huldumaðurinn,- sjá „þeim var ég verst er ég unni mest" - (Kjartan Jóhannsson) sem hefur það eftirsóknarverða hlutverk að skreyta hina blæbrigðaríku unaðsrödd, að svo miklu leyti sem slíkt er hægt, sækir kraft sinn til sjávarguðsins sjálfs. Það reyndi vissulega nokkuð á þolrif eðaltenóranna hversu mjög hann sótti kraft sinn í faðm Ægis, en þeir efast í engu um það að sjávarilmurinn og seiðandi dans dætra sjávarguðsins muni skila sér með eftirminnilegum hætti í tónverkum eins og „Úr útsæ rísa Íslandsfjöll" eða „fráhneppt að ofan". 

Þá er aðeins einn ofurmennanna ótalinn og verður ótalinn áfram, enda óþarfi að fjölyrða um fádæma afgerandi, eðlislæga nálgun hans að hlutverki sínu. Nú ætti öllum þeim, sem nú sitja hér orðlausir af aðdáun á röddinni einu sönnu, að vera ljóst að ekkert, ekkert kemst í hálfkvisti þau forréttindi sem þátttaka í þessari unaðsrödd er. Það er fáum lagið að vera liðtækir innan vébanda hennar, og þáttur hennar í flutningi úr tónbókmenntum heimsins verður aldrei ofmetinn. 

Uppgjör — viðbætir 
Það sem hér fylgir má líta á sem nokkurs konar uppgjör tenórsins, eða allavega hluta hans, við þá ferð Skálholtskórsins, sem farin var suður til Adríahafsins í upphafi ágústmánaðar árið 2003, og sem var að hefjast þegar frásögnin sem hér hefur farið á undan, var flutt í loftkældri fólksflutningabifreið á tveim hæðum, í faðmi Alpanna. Hér er engan veginn um að ræða neina ferðasögu heldur bara einhverskonar myndbrot, sem leiftra fyrir hugskotssjónum höfundar jafnóðum og hann lemur á lyklaborðið. 

Pling — áningarstaður í einhverju landi á milli Þýskalands og Slóveníu — líklegast bara í Þýskalandi, því þetta var fyrsti áningarstaðurinn. Morgunverðarhádegisverður með geitungaívafi við hraðbraut. 
Óendanlega vel til fundið hjá forsvarsmönnum kórsins og þegið með þökkum. Brennandi sólin ekki komin í hádegisstað, en hitinn þó slíkur að eldsúrar gúrkur og geitungar náðu ekki að dreifa huganum frá steikjandi hitamollunni. 

Pling — annar áningarstaður í öðru landi nokkru síðar. Sögusagnir um að hitinn væri orðinn 40°C. Sannfærður um að ef tenór hefði reynt að pissa hefði vökvinn gufað upp áður en hann næði jörð, samanber þetta með að pissa í 40° gaddi og klakasúla á að myndast allt frá...... jæja förum ekki nánar út í það mál. Ekki svo að menn þyrftu mikið að losa sig við úrgangsefni eftir hefðbundnum leiðum í þessari ferð, nema helst í kvöldsiglingum og næturævintýrum.
Hvort um slíkt var að ræða í hótellyftunni, sem gafst upp um miðja nótt vegna þess að kílóatalningin (600 kg hámark) klikkaði eitthvað, eða þá lyftugestir voru að hugsa um eitthvað annað en telja, t.d. að flýta sér upp á herbergi til að sinna því kalli náttúrunnar, sem að ofan greinir, veit höfundur ekki. Hann telur þó líldegt að svo hafi getað verið, en jafnframt, að ef svo hefur verið, þá hafi heilastöðvar viðkomandi verið meira uppteknar af möguleikum á björgun úr lífsháska, en frumstæðum þörfum af þessu tagi. 

Hreyfingar voru strax orðnar hægar í hitasvækjunni og reyndist svo verða alla ferðina, sem birtist ekki síst í því, að áætlanir um brottför stóðust aldrei af þessum sökum, ekki heldur eftir þá áningu sem hér um ræðir. Það verður þó að geta þess, enda mikilvægt að halda því til haga sem er í lagi, að stór hluti tenórsins stóð sig óaðfinnanlega þegar kom að öllu því sem að stundvísi lýtur. 

Pling — tónleikar hjá Ausenik, Avsenik eða bara Arsenik, sem einstaka illa þenkjandi kórfélagar nefndu svo í hálfkæringi. 
Tenórinn á afar erfitt með að líta á sig sem aukanúmer, eins og öllum ætti að vera ljóst sem hafa kynnt sér það sem hér hefur verið skráð. Þó aðrar raddir hafi eflaust, í misskildu lítillæti sínu, álitið það heiður að fá að syngja í pásu hjá hljómsveit sem spilaði „Hvíta máva" allt kvöldið, þá var tenórinn misjafnlega ánægður með það. Kór með sjálfsvirðingu lætur ekki bjóða sér það að ferðast í 4 klukkutíma í þröngri flugvél, 6 klukkutíma í tveggja hæða rútu og síðan aftur þrjá tíma í tveggja hæða rútu til að syngja í 10 mínútur í þrumum og eldingum, í pásu hjá hljómsveit sem spilar bara „Hvíta máva" fyrir austurríska pílagríma, gleypandi í sig snitzel með frönskum og haldandi ekki vatni yfir, og getandi ekki hætt að tala um það, hvað Arsenik sé frábær. 
Höfundur óskar að geta þess, að það sem sagt var hér að ofan endurspeglar ekki endilega skoðanir hans á ofangreindum tónleikum. Hann er einungis að draga saman á einn stað, orð sem féllu í ýmsu samhengi þegar kórfélagar voru að gera upp upplifun sína eftir tónleikana. 
Það er hinsvegar skoðun höfundar, að það sem skapar hughrif sem gleymast ekki og hægt er að rifja upp árum saman og hafa gaman af aftur og aftur, er þess virði að upplifa það. 
Tenórinn er það víðsýnn að hann áttar sig á því að það er ómetanleg reynsla, ekki aðeins að fá tækifæri til að flytja nokkrar perlur íslenskra tónbókmennta fyrir hóp fólks, sem brosir smástund í kampinn þegar tilkynnt er að nú muni íslenskur kirkjukór flytja nokkur lög, og heldur síðan áfram að borða snitzelið sitt og tala saman, heldur ekki síður að fá tækifæri til að syngja „Hvíta máva" aftur og aftur við undirleik hljómsveitar, sem vissi alveg hvað hún var að gera - ekki síst ef nóg var af „schnapps", sem borðfélögunum þótti ekkert góður. 
Í þessu sambandi er rétt að gera sér í hugarlund viðbrögð okkar við svipaðar aðstæður. Við, í pílagrímsferð, sem við vorum búin að safna fyrir mánuðum saman, til að eyða einu kvöldi með Hljómsveit Bjarna frá Geysi og njóta góðs af sviðum og súrsuðum hrútspungum, þegar tilkynnt er að nú muni kirkjukór frá Azóreyjum flytja nokkur lög. Myndum við ekki glotta út í annað? 

-Myndi sópraninn ekki halda áfram að ræða sjálfsstjórnarnámskeiðið, sem kvenfélagið er að fara að bjóða upp á, um leið og hann renndi einu auga úr sviðahausnum með sjálfskeiðungnum sínum? 

-Myndi bassinn ekki halda áfram að ræða fyrningar á heyi, slökkva á heyrnartækinu og taka í nefið, eftir að hafa, án þess að blikna, sporðrennt 2 sneiðum af súrsuðum hrútspungum? 

-Myndi altinn ekki, í ljósi nýfenginnar reynslu, halda áfram að fjalla um helstu aðferðir við framreiðslu á íslenskum sérréttum um leið og hann rifi í sig, súrsaða magála eða lundabagga? 

-Myndi tenórinn ekki átta sig strax á mikilvægi alþjóðlegra strauma menningar og lista og hlusta af athygli, eftir að hafa lagt snyrtilega frá sér hnífapörin, sem hann var að borða flatkökurnar með hangikjötinu og rófustöppunni með? 

Hætt er nú við. 
Þótt einhverjir kórfélagar hafi ekki alveg kunnað að höndla reynsluna hjá Ausenik af mikilli karlmennsku, þá verður það sama ekki sagt um dívuna Diddú. Hún flutti söngdagskrá sem samanstóð af helstu perlum söngbókmenntanna og virtist í byrjum ekki ná fullkomlega sambandi við snitzel-snæðandi, Ausenik-umræðandi salinn. 
Hún var nú ekki að láta það á sig fá. 
Sveiflaði sér í síðkjólnum niður af meters háu sviðinu í miðri aríu og dillaði sér milli borða, horfandi girndaraugum á snitzelið, náandi augnsambandi við áköfustu Ausenik aðdáendurna og hafandi fullkominn sigur á umhverfi sínu. Dúndur frammistaða, sem jafnvel tenórinn hefði verið fullsæmdur af. 
Það er þá kannski eitthvað til í þessu með þindina þegar allt kemur til alls. 
Það var líka þarna sem firna öflugur undirleikari og óskeikull fararstjóri á heimleiðinni, hann Kári (Kári Þormar), var talinn hafa farið langt fram úr fyrri afrekum sínum á tónlistarsviðinu. 

Hver var svo að tala um að það hafi ekki verið gaman hjá Arsenik? 

Pling — Áning eftir Ausenik — næturlíf — almenningssalerni við hraðbrautina — þrumur og eldingar -kór sem ekki hafði fengið að syngja út, og þurfti að létta á sér. 
Þar sem höfundur er ábyrgur tenór sinnti hann því nauðsynlegasta og hvarf því næst til sætis síns. Slíkt framferði reyndist ekki „IN" við þessar aðstæður, því þarna voru flutt öll lögin sem ekki komust að hjá Arsenik. Náttúruöflin sáu um fagnaðarlætin. Ábyrgðarfullur tenórinn, maður á miðjum aldri, og vandur að virðingu sinni, ákvað, þegar honum fannst nógu langt gengið í söngnum, að leggja sitt af mörkum til að leiða kórfólk til sætis í tveggja hæða farkostinum. 
Það næsta sem gerðist var það, að farartækið ók úr hlaði, tenórlaust. 
Sú mynd, sem við tók var ekki fögur eða til eftirbreytni. Sárasaklaus tenórinn, á miðjum aldri og vandur að virðingu sinni, hlaupandi frá almenningssalerni í myrkri Slóveníu, fyrir utan að það voru eldingaleiftur á himni, á eftir tveggja hæða rútu út í nóttina. 
Aðrir, sekir, urðu að vísu að gera þetta líka, en ekki hugsaði tenórinn hlýtt til þýska bílstjórans sem kunni að segja „FEITA KELLING".

Pling — Brúará í kringum verslunarmannahelgi. Fimm ára mannskæðri styrjöld er lokið með skiptingu landa. Fólksflutningabifreið með kirkjukór frá Azóreyjum á leiðinni að skoða náttúruperlur Biskupstungna, kemur að brúnni. Grímsnesmegin kemur grímsneskur landamæravörður með alvæpni um borð og gaumgæfir vegabréf kórfélaga. Við hinn enda brúarinnar bíður biskupstungskur landamæravörður með alvæpni, tilbúinn í hvað sem er. 
Þetta leiftraði um hugann þegar kom að landamærastöð milli Slóveníu og Króatíu. Þarna var ekki einu sinni brú, bara svona venjulegur vegur yfir tún. Línan hafði verið dregin og vopnuðum vörðum komið fyrir. Ekki meira um það. 

Pling — Asnaskapur í Króatíu eftir siglingu meðfram nektarnýlendu Króata. 
Það getur verið að altinn og sópraninn hafi vitað af þessari nektarnýlendu þarna, en tenórinn hafði ekki hugmynd um hana og gat því ekki undirbúið sig með fullnægjandi hætti. 
Frá búgarðinum 2018 (mynd tekin ófrjálsri hendi
af síðu Sigrúnar frá Engi)
Í 500 metra fjarlægð frá ströndinni þarf hjálpartæki til að njóta náttúrufegurðarinnar til fullnustu. Það gekk því miður ekki upp og því var það, að kórfélagar einbeittu sér að annarri afþreyingu við undirleik einhvers, sem í upphafi ferðar var talinn vera óbreyttur harmónikkuleikari á lélegum launum, en reyndist síðar vera rikur óðalseigandi í botnlausri ferðamannaútgerð. 
Hann tók miklu ástfóstri við það sem íslenskt var og stefndi lengi dags í að brot af landinu bláa yrði þarna eftir, sem annar tveggja eigenda óðalsins. Hvort þetta brot hefði tekið að sér harmonikkuleikinn, vínræktina eða matargerðina, mun enginn nokkurn tíma fá að vita, nema þá að eitthvað hafi gerst fleira sem tenórarnir fengu ekki að vita af. Það hefur nú svosem gerst fyrr að þeim sé haldið frá upplýsingum eða upplýsingum frá þeim, algerlega óverðskuldað. 

Pling — spegilslétt Adríahafið, sigling í sjóræningjaskipi í ljósaskiptunum. Tenórar eru nú að öllu jöfnu ekki mikið fyrir að bera tilfinningar sínar á torg. Það rekur ekki oft á fjörur þær aðstæður sem kalla fram í þeim rómatískan streng. Þessi strengur er þarna, og þegar vélargnýrinn loksins þagnar, við þær aðstæður sem að ofan er lýst, verður ekki við neitt ráðið. 
Höfundur kemst að þeirri niðurstöðu hér og nú að orðaforði hans nái ekki að lýsa því sem þarna átti sér stað, meira að segja þótt hann sé af röddinni ljúfu, blíðu. 
Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að endurvekja þessa upplifun síðar í ferðinni, náðist hún ekki og verður örugglega bið á að hún skjóti upp kollinum aftur. Það er kannski eins með hana og hinn ógleymanlega og seiðmagnaða flutning á Lífi og starfi tenórs hér fyrir ofan. 
Töfraleiftur lýsa stundum upp dauflegt hugskot mannskepnunnar, svona rétt eins og eldingaleiftrin hjá Arsenik. 
Svo er það búið og verður ekki endurtekið. Það kemur aftur seinna af sjálfu sér. Punktur. 

Pling — Fjárrekstur í neðanjarðarhelli í skítakulda. 
Tenórar eru nú ekki mikið fyrir að barma sér, en eftir langa og ítarlega umhugsun ætlar þessi að gera það nú og vonar bara að það skaði ekki orðspor raddarinnar helgu til frambúðar. 
Það er auðvitað skiljanlegt, að slík karlmenni sem tenórar eru, ákveði að láta lönd og leið ráðleggingar um að hylja sólsteiktan líkamann þegar halda skal í iður jarðar í brunandi lest, ekki síst ef sá klæðnaður sem í boði var, varð að teljast fremur ókarlmannlegur nema fyrir munka. 
Þessi tenór er ekki munkur og hélt nú að létt verk yrði það og löðurmannlegt að skjótast niður í helli og upp aftur á svitastorknum stuttermabol í stuttbuxum einum fata. Hann var svo sem spurður að því ítrekað á leiðinni um þennan töfraheim náttúrannar hvort honum væri ekki kalt, en þverneitaði auðvitað jafnharðan, þó svo hann einbeitti sér svo að því að koma í veg fyrir tannaglamur, sem einhver gæti heyrt, að hann var næstum búinn að villast inn í tælenska hópinn, eða ítalska hópinn, eða brasilíska hópinn. 
Litadýrðin og ótrúlegur fjölbreytileikinn í þessari ólýsanlegu neðanjarðaveröld fór næstum því fyrir ofan garð og neðan, og ekki er ólíklegt að þessi tenór hefði orðið til þarna niðri, ef hann hefði bara getað numið staðar einhvers staðar á leiðinni. Það lá við að hann öfundaði eðlukvikindið sem lifði ljóslaust og matarlaust í þessu hellaumhverfi og hafði það bara gott. 

--------------------

Til að forðast hugsanlegar ásakanir um léttúð og ábyrgðarleysi í efni því sem hér hefur verið borið fram vill höfundur segja þetta: 

Það er hægt að klæða hvað sem er í hvaða búning sem er. Ef allt gengur vel að öllum líður vel þá skapast tækifæri til að færa atburði og umhverfi lítið eitt í stílinn, jafnvel svo að það verði óþekkjanlegt, og það er bara allt í lagi. 
Ferð þessi öll, fyrir utan náttúrulega ýmislegt sem var að, og hægt væri að tíunda fjálglega, var einstaklega vel heppnuð og skipuleggjendum, fararstjóra, kórstjóra, einsöngvara og undirleikurum til hins mesta sóma. 
Tenórar ferðarinnar fóru langt fram úr væntingum, sem þó voru feikilegar fyrir, en það sem kom hvað mest á óvart var, hvað margir eru í rauninni tenórar inni við beinið. 

23 júlí, 2018

Embættismaður í svörtum jakkafötum

Eina leiðin til að tryggja fordómaleysi gagnvart sjálfum sér, er að vera nakinn.
Auðvitað er það rugl, því þá myndi blasa við líkamlegt atgerfi manns, með allskyns upplýsingum um hið ytra byrði. Þar með dreg ég upphaflega yfirlýsingu til baka.
Því verður samt ekki neitað, að sá fatnaður sem maður klæðist er nokkurskonar merkimiði sem ætlaður er öðru fólki. Gefur til kynni hvað maður er, jafnvel frekar en hver maður er.
Það má líka segja að hann sé sameiningartákn; þar sem fólk kemur saman í eins klæðnaði og á sér sameiginleg markmið meðan það klæðist skrúðanum. Þannig er þetta til dæmis með hermenn og íþróttamenn. Þegar þeir eru að fara að berja á óvininum, berjast til sigurs, skiptir miklu máli að þeir komi fram sem einn maður, einn fyrir alla, allir fyrir einn, í eins búningum. Auðskilin skilaboðin sem þeir senda frá sér eru: við sameinuð, gegn hinum.

Þetta var nú bara svona inngangur þar sem þetta kom í huga mér í gær, á Skálholtshátíð, þegar einn gesturinn sem ég kannast við spurði mig hversvegna ég væri klæddur eins og embættismaður. Spurning þessi gaf skýrt til kynna að þarna var ég metinn út frá fötunum. Ég hafði sent frá mér ákveðin skilaboð. Fatnaður minn var svört jakkaföt, hvít skyrta og svart bindi (læt vera að nefna klæðnaðinn að öðru leyti). Þannig er það, að karlmenn sem  svona eru klæddir eru embættismenn.

Vissulega var ég nokkurskonar embættismaður. Ég fékk að ganga í prósessíu frá Skálholtsskóla út í kirkju, næsti maður á eftir biskupi Íslands og verðandi vígslubiskup í Skálholtsumdæmi, en þau tilheyra öðrum hópi en ég. Hópunum sem gengu þarna til kirkju var raðað í tiltekna röð og þeir máttu ekki blandast.  Hvernig þessi röð var ákveðin veit ég ekki, bara það að ég, ásamt öðrum félögum í Skálholtskórnum gengum á eftir biskupi og á undan pílagrímum. Þannig var það.
Við gengum bara ágætlega, en vissulega varð mér hugsað til skrautreiðar hestamannafélagsins á 17. júní.
Ég hefði getað farið að leika allskyns kúnstir þarna í röðinni, til dæmis stokkið úr úr henni þegar við nálguðumst kirkjuna og alla myndavélasmellina, og tekið eins og eitt kraftstökk, eða boðið biskup upp í dans, en ég gerði ekkert slíkt, enda hefði það ekki endað vel, líklega. Þar fyrir utan var ég þarna sem n.k. embættismaður í prósessíu og svoleiðis menn gera enga vitleysu, jafnvel þó þá langi til.

Sæti biðu okkar, eins og annarra þegar inn var komið. Það er ákveðið öryggi fólgið í því að vita að það bíður eftir manni sæti. Það biðu hinsvegar engin sæti pílagrímanna sem síðastir gengu inn kirkjugólfið, berfættir í göngufötum sínum, sem stungu talsvert í stúf við skrautklæðnað biskupanna og upphluti stórs hluta sóprananna og altanna. Pílagrímar kæra sig ekki um þægindi eða reikna ekki með þeim. Þeir komu sér fyrir í tröppunum fyrir framan kórinn (ekki samt Skálholtskórinn). Sátu síðan á grjóthörðum, norskum steinflísum, meðan nýi Skálholtsbiskupunn var settur í embætti og var klæddur í tilheyrandi biskupsskrúða. Þeir voru þarna eins og varnarveggur, tilbúnir að taka á móti ef einhver hygðist trufla athöfnina. Það sama má segja um alla prestana sem sátu fyrir framan altari Brynjólfs biskups.

Það varð engin uppákoma við þessa athöfn, enda flest fólk þarna vel upp alið. Það sem helst má nefna, sem vék frá venjulegum messum var, að það var fullt út út dyrum og myndatökumenn frá fjölmiðlum börðust um bestu staðina til að stilla upp græjunum sínum.

Svo var þetta bara búið að haldið í kaffi, áður en hið prestlærða fólk og leikmenn sem þarna tóku þátt stilltu sér upp til myndatöku. Þar voru ekki allir jafn þægir, en allt hafðist þetta að lokum og svo virðulega að vel má halda því fram að sómi hafi verið að.


Þessum pistli er ekki ætlað að fella neina dóma. Ég kann að hafa mínar skoðanir á þessu tilstandi öllu, en þær eru bara mínar. Ég neita því ekki að það er ákveðnn stíll yfir samkomum af þessu tagi, jafnvel hátíðleiki. Fólk fær tækifæri til að klæða sig upp á, finna sig eiga heima í einhverjum tilteknum hópi fólks sem vinnur að sameiginlegu markmiði. Gleðst eða fagnar jafnvel saman.

Það get ég þó sagt, að það er sjónarsviptir að Kristjáni Val Ingólfssyni og Margréti Bóasdóttur. Með þeim hverfa á braut einstaklingar sem hafa sett mark sitt á samfélag okkar hér í neðri sveitinni, laust við tilgerð eða prjál. Fólk eins og við hin, sem þykist ekki vera neitt annað.

Ekki hef ég kynnst nýjum vígslubiskup, Kristjáni Björnssyni eða konu hans Guðrúnu Helgu Bjarnadóttur að neinu marki.  Það sem ég þó veit og hef heyrt er að þar sé ágætt fólk. Ég þykist allavega viss um að vígslubiskupinn hefur góðan húmor og tekur sjálfan sig ekki of alvarlega.


Ég leyfi mér að bjóða Kristján og Guðrúnu velkomin í Skálholt.

-----------------
Þer sem ég sit og skrifa þetta er ég ekki lengur embættismaðurinn, heldur bara karlinn með EOS-inn, í kvartbuxum í skjóli Kvistholts, sem vonast til að tenórröddin verði ekki farin að láta verulega á sjá þegar á líður haustið.

MYNDIR FRÁ SKÁLHOLTSHÁTÍÐ OG BISKUPSVÍGSLU.

20 júlí, 2018

Þegar maður kann ekki að lesa


Þingpallurinn. Mynd tekin af vef RUV - okkar allra.
Það er heilmikið mál að læra að lesa, ekki bara stafina og orðin, heldur einnig merkinguna. Það er talað um að lesa sér til gagns; að skilja innihaldið, lesa milli línanna, kíkja jafnvel á bak við línurnar sem við manni blasa á síðunni eða skjánum, túlka.
Fundur Alþingis á Þingvöllum er gott dæmi um það hvernig fer þegar maður veit hvað stafirnir standa fyrir og skilur jafnvel merkingu orðanna, en áttar sig ekki á heildarsamhenginu, kann ekki að túlka. Með þessum fundi birtist glæsileg leturgerð, orðin sem gengu fram af munnum ræðumanna falleg, söngurinn vandaður, svo ekki sé nú minnst á lúðrablásturinn.
Þarna birtist hinsvegar óþægilegur skortur á tengingu við veruleikann og einhverri auðmýkt gagnvart sögu þessarar örþjóðar. Háreistir, teppalagðir stálpallar og mjúkir stólar undir risastóru þaki yfir valdið (það má ekki rigna á æðstu fulltrúa þjóðarinnar), með tugi ljóskastara til að þjóðin fengi nú að sjá sjálfa sig vel og rækilega í fulltrúum sínum á hinu háa Alþingi. Þarna var ekki að finna þá merkingu sem kallað er eftir heldur einhverja aðra, sem gaf til kynna, að túlkun væri verulega áfátt.

Það er heilmikið mál að lesa þjóð. Það fólk sem skipulagði þennan þingfund á Þingvöllum og tók þátt í honum, þarf að læra betur.
Fallegt letur, bakgrunnurinn svo sem í lagi, en hvað
með innihaldið?

Á Þingvöllum sat fólk með hlutverk, leikarar. Það var ekki þarna statt sem raunverulegar persónur, brennandi fyrir sameiginlegum málstað, með þanið brjóst vegna stoltsins yfir að vera að fagna 100 ára afmæli undirskriftar fullveldissáttmála. Þarna var fólk statt vegna þess að það þurfti að vera þarna. Ef það var ekki mætt, taldist það gagnrýnivert og móðgandi.

Mér fannst þessi uppákoma vandræðaleg og læt þar staðar numið í umfjöllun um hana, enda skilur hún ekkert eftir nema hneykslismál í tengslum við rasískan, danskan þingforseta, sem bætir enn á æpandi kunnáttuleysið í lestri.

Við erum í mörgu tilliti svo yfirmáta yfirborðskennd þjóð og það er nánast grátlegt. Það vantar ekki að við eigum fallega stafi og falleg orð, jafnvel fallegar setningar, en okkur mistekst oftar en ekki að tengja þetta allt saman svo úr verði skilningur.

Við þurfum að læra að lesa svo ótal margt, skyggnast bak við stafina og orðin, uppgötva það sem þar er að finna.
Við þurfum að læra að lesa börnin okkar. Þau er falleg og fín og okkur þykir svo undurvænt um þau, viljum þeim aðeins það besta, segjum við, en hversvegna er þau þá ekki læs, hversvegna þurfa þau allar þessar greiningar, hversvegna gengur strákum ver í skóla en stelpum? Hversvegna....?
Við þurfum að læra að lesa gamla fólkið okkar. Fólkið sem eyddi ævinni í að koma okkur á legg og lagði nótt við dag til að byggja upp þetta nútímalega samfélag, segjum við. Fallegt fólk og fínt, en hversvegna er ekki hægt að tryggja því  áhyggjuleysi síðustu árin sem það er meðal okkar? Hversvegna þarf gamalt fólk að berjast í bökkum? Hversvegna fær það ekki fullnægjandi þjónustu við ævilok?  Hversvegna....?

Það er svo margt fleira sem við þurfum að læra að lesa. Hvernig væri nú að hætta um stund að horfa bara á myndirnar og lesa fyrirsagnirnar?

---------------------------------------

Það getur svo sem vel verið að ég teljist óskaplega dómharður hér fyrir ofan. Þá, sem kunna að hafa móðgast við þessa lesningu, bið ég bara afsökunar með von um að þeir komist yfir þetta. Það er svo einfalt - enda bara orð.







16 júlí, 2018

Sagan um "Aðgerðina GULLKROSS"

Til þess að ekki komi til mögulegra málaferla á grundvelli laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018 eru  perósugreinanlegar upplýsingar ekki hafðar með eða afmáðar í því sem hér verður fram borið. Ég hugðist leita að glufu í þessum lögum, sem gerði mér í það minnsta kleift að sýna andlit fólks, án þess að þurfa að leita skriflegs leyfis, en þessi lög reynast ver 29 blaðsíður af texta af 12 pt stærð. Tæp 11000 orð.  Þar með ákvað ég að betra væri að sleppa fullum nöfnum einstakra persónua í þessari umfjöllun og sóða andlit sem kunna að sjást á myndum. 


Aðgerðin GULLKROSS

Aðdragandinn

Sumarið 2013 var í heimsókn í Kvistholti, ríflega ársgömul ungmey (uR) með fjölskyldu sinni og stórKvistholtsfjölskyldan saman komin. Þetta sumar var bjartara og hlýrra en það sem við lifum nú, reyndar svo gott að við ákváðum að borða úti á palli. Dekkað borð og allar græjur, ungviðið valhoppandi um pall og garð og stökkvandi á heitapottslok.
Ári fyrr hafði uR verið tekin í kristinna manna tölu og hafði af því tilefni fengið að gjöf gullkross, harla merkilegan, Lítinn, en merkilegan.
Myndin tekin 2013. Örin bendir á krossinn
Nú bar hún þennan kross um hálsinsinn og var farin að geta gert ýmsar kúnstir, svona eins og börn á hennar aldri, m.a. gat hún orðið klifrað upp á stól, ekki síst ef á borðinu var eitthvert góðgæti. Það var einmitt það sem hún gerði þennan dag og í því hún sveiflaði sér upp á stólinn vildi ekki betur til en svo að keðjan sem hélt skírnarkrossinum slitnaði, krossinn datt á pallinn og þaðan niður um rifu ofan í myrkrið undir.

Þannig fór um sjóferð þá.
Foreldrarnir vildu nú ekkert gera úr málinu, þó vissulega væra þarna um að ræða merkilegan kross, gott ef ekki afar merkilegan.

Síðan gerðist svo sem ekkert, utan það að fD bar með reglulegu millibili fyrir mig þetta mál með krossinn. Þar sem ég er nú eins og ég er, þá einhvernveginn stöðvaðist umræðan hjá mér. Ekki það að ég drægi úr mikilvægi þess að ná krossinum upp, heldur miklu frekar annað, sem ástæða er ekki til að fjölyrða um, en hefur með að gera áhuga minn á verklegum framkvæmdum.

Það eru liðin 5 ár síðan gullkrossinn hvarf undir pallinn.

Aðgerðin sjálf.


Það þurfti að skipta um rennur á húsinu. Mannskapur fenginn í það og allt gekk það ágætlega. Þarna fannst fD vera komið upplagt tækifæri til að freista þess að ná krossinum undan pallinum. Hraustir, vanir menn, sem gerðu það sem um væri beðið, umyrðalaust. Hún færði þetta í tal og sjálfsagt þótti þessum hraustu mönnum að verða við bón hennar.

"Þið þurfið bara að losa svona 4-5 spýtur. Ég leita svo undir pallinum og Palli festir svo spýturnar aftur".

Þeir losuðu 4 spýtur þar sem minnið sagði okkur fD að gullkrossinn hefði fallið niður. Svo hurfu hinir hraustu menn á braut. Eftir vorum við fD, en hún lagðist flöt á pallinn og kíkti niður um gatið. Með klóru í hönd byrjaði hún að kraka, en komst svo að því að 4 spýtur væru ekki nóg. Sú fimmta þyrfti að fara líka. Ég taldi að ekki væri kúbein til á þessum bæ og þar með væri málið sjálfdautt. Með það fór hún niður í kjallara og birtist hróðug skömmu síðar með kúbein, sem einhverntíma hefur dagað uppi þar. "Þú hélst að þú slyppir svona auðveldlega, já?"

Ég náði 5. spýtunni léttilega upp, eins og vænta mátti, en ljóst var að það breytti litlu, Að mínu mati yrði að fara undir pallinn til að leita. Fann ágætis plastdúk og breiddi hann ofan á moldina sem þarna er undir. fór síðan ofan í gatið, en sá strax að ég myndi aldrei geti lagst á þennan dúk, til þyrfti að koma einhver heldur smærri vexti og fíngerðari.

"Á ég þá að fara þarna niður", kvað fD. Svarið lá sjóst fyrir, það var engum öðrum til að dreifa. Niður fór hún og lagðist á plastdúkinn, leitaði inn undir pallinn.

Það var vart liðin mínúta og varla einusinni tími til að taka nóg af myndum af aðgerðinni, þegar heyrðist undrunarröddu: "Hann lá bara í höndinni á mér!" Síðan sýndi hún mér þennan örsmáa gullkross, varla nema centimetra að lengd.

Hvernig gat þetta hafa gerst? Það er hulin ráðgáta. Jafnvel ég hef ekki viðunandi skýringu. Mér hefur sýnst fD vera talsvert hugsi eftir þetta og ekki laust við að ætla megi að barnatrúin (veit reyndar ekki hvernig hún var hjá henni) hafi komið í huga hennar.

Krossinn fannst, það var nú aðalatriðið og 6 ára yngismey fær að skarta honum á ný.


13 júlí, 2018

Hvað er verið að tala um?

Ég ætlaði nú að hætta að vera að skipta mér af óljósum hugmyndum sem sveima um samfélagsmiðla í framhaldi af viðtali Magnúsar Hlyns Hreiðarssonar við oddvita Hrunamannahrepps, Halldóru Hjörleifsdóttur, á Bylgjunni fyrir nokkrum dögum, undir fyrirsögninni: Kanna möguleika á að koma upp hjúkrunarheimili.  Það reyndist  hinsvegar erfiðara en ég hafði haldið, því eftir lítilsháttar skrun yfir facebook í kjölfar þessarar frétta komst ég að því að þeir sem tjáðu sig virtust nokkuð almennt á því að heppilegsti staðurinn fyrir "hjúkrunarheimilið" væri húsnæðið sem Húsmæðraskólann á Laugarvatni skildi eftir sig og sem varð síðan að Íþróttafræðasetri KHÍ og síðar HÍ og sem tilheyrir nú HÍ, eftir því sem ég best veit. Ég get alveg verið sammála því að þarna er um að ræða afar hentugt hús fyrir dvalarheimili eldri borgara. Fjarri mér að hafa eitthvað á móti því.
Í fréttinni spyr MHH oddvitann ítrekað um hjúkrunarheimili og oddvitinn segir mikinn skort á hjúkrunarrými í uppsveitum.

Í umræðum í framhaldinu var mér tjáð þetta, af manni sem er vel inni í sveitarstjórnarmálum í uppsveitunum: Í mínum huga er ekki vafi á því að verið er fyrst og fremst með í huga dvalarheimili.

Þarna var sem sagt eitthvað annað uppi á teningnum en hjá oddvita Hrunamannahrepps í viðtalinu. 

Mér er því spurn: 
Um hvað er verið að tala? 
Til hvers að hleypa einhverri umræðu af stað þegar forsendurnar eru kannski vitlausar og fólk fer að tala í kross?
Á hvaða stigi er þetta mál meðal sveitarstjórnarfólks? 
Er kannski búið að ákveða eitthvað? 
Er búið að greina hvar þörfin liggur?
Er sveitarstjórnarfólk búið að koma sér niður á sameiginlegan stað?
Það eru reyndar margar aðrar spurningar, en það hefur engan tilgang að henda þeim út í tómið si svona.

Það sem ég gerði, til að fá betri mynd af því hvað um er að ræða, var að fara á vef Velferðarráðuneytisins og þar er að finna skilgreiningar á dvalarheimili, annarsvegar og hjúkrunarheimili, hinsvegar. Á þessu tvennu er talsverður munur. 

Dvalarheimili
Dvalarrými eru í húsnæði sem er sérhannað fyrir þarfir aldraðra sem ekki eru færir um að annast heimilishald þrátt fyrir heimaþjónustu. Skilgreint er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra hvaða þjónusta skuli vera fyrir hendi í dvalarrýmum, en þar á meðal annars að vera varsla allan sólarhringinn, öryggiskerfi í hverri íbúð og völ á fjölbreyttri þjónustu, svo sem mat, þvotti, þrifum og félags- og tómstundastarfi.
Hjúkrunarheimili
Hjúkrunarrými eru á hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum, ætluð öldruðu fólki sem er of lasburða til að geta búið heima með þeim stuðningi sem er í boði, svo sem heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagdvöl, hvíldarinnlögn eða búsetu í dvalarrými. Í hjúkrunarrými skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar og annarrar þjónustu sem skilgreind er í lögum um málefni aldraðra og reglugerð um stofnanaþjónustu aldraðra.
Þá höfum við það. Það er kannski búið að ákveða hvað er verið að tala um, en þá þarf það að liggja fyrir, opinberlega, trúi ég.

Ég skoðaði lítillega þá þjónustu sem er í boði á Lundi á Hellu og á Krkjuhvoli á Hvolsvelli.
Þjónusta á Lundi

Þjónusta á Kirkjuhvoli

Það er rétt að geta þess, að Lundur og Kirkjuhvoll eru hjúkrunar- og dvalarheimili og hýsa því nokkuð breiðan hóp fólks.

Mikilvægast í þessu öllu er að það verði fundið úrræði fyrir aldraða í uppsveitunum í samræmi við þörf.  Hvaða þjónustuþörf hefur helst leitt eldri borgara í uppsveitum í dvöl í öðrum byggðarlögum?
Er það stefna sveitarfélaganna í uppsveitum að gera eldra fólki kleift að dvelja á heimilum sínum eins lengi og nokkur kostur er?  Þessi hugmyndafræði virðist mér eiga talsvert upp á pallborðið þessi misserin.

Svo ætla ég að reyna að hætta þessu og treysti því að það verði fagleg niðurstaða, en önnur, óviðkomandi sjónarmið verði ekki látin ráða för.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...