21 janúar, 2019

Rúmlega níræð átthagafræði

Einhvernveginn hoppaði upp á skjáinn fyrir framan mig málgagn Harðjaxlsflokksins frá 1926. Þar hrasaði ég síðan um grein sem bar heitið Átthagafræði úr Biskupstúngum, eftir einhvern sem ekki lætur nafns síns getið. Þetta blað kom fyrst úr 1924 og það ár komu út 19 tölublöð. 9 tölublöð komu út 1925, 20 1926 og eitt 1927. Sem sagt ekki langlíft blað, kröftugt með köflum, en rólegra inn á milli. Ritstjórinn var Oddur Sigurðsson sjómaður. Ekki hef ég gert meira en glugga í þessu blaði, en þar virðist vera margt áhugavert og ekkert sérstaklega alvöruþrungið, í það minnsta í fljótu bragði.

Þeim sem fjallaði um átthagafræðina úr Biskupstungum virðist ekki hafa tekist að ljúka máli sínu, því miður, mögulega vegna þess að blaðið hætti að koma út, en hér fyrir neðan er það sem honum tókst að birta um átthagana. Það væri gaman ef einhver gæti greint hver er þarna á ferð.


Átthagafræði úr Biskupstúngum

eftir sjálfan mig.

Biskupstúngur eru stór og merkileg sveit, og liggur langt frá sjó. Þær eru umgirtar af stórvatnsföllum á alla vegu, nema að norðan, og þar taka við fjöll og jöklar. — Hvítá fellur að austanverðu og aðskilur þær frá Gnúpverjahreppi, Brúará að vestan og skilur þær og Laugardal aö ofan, en Grímsnes að neðan, en svo fellur hún í Hvítá og myndast þar heljarstór túnga, Skálholtstúnga.

Jökulvatn eitt fellur frá norðri til suðurs eftir endilöngum Túngunum og heitir Tungufljót, og skiftir það hreppnum í Eystri og Ytri túngu. Myndast þar einnig túnga austan megin, þar sem það fellur f Hvítá. Sú túnga var nefnd Sporður. Áður var þar ferja og flutt yfir frá Höíða. Þá var það örmjótt. Nú er fljótið búið að Ieggja undir sig Sporðinn og ferjan fyrir löngu afnumin.

Landslag er margvíslegt í Túngunum, fjöll og hálsar, hverir, flæðiengi, mýrar, valllendi, skógar, heiðar, melar, keldur og kviksyndi o. s. frv. Fjórir bæir, sem taldir eru að vera í Túngunum, eru fyrir utan endimörk vatnsfalla þeirra, sem umlykja þær, og er Ijótt til að vita. Skal þar fyrst telja Auðsholt, er stendur austan Hvítár en ofan Laxár, og væri því skemtilegra að láta það tilheyra Hreppnum, sem manni virðist það standa í.  Til að fyrirbyggja misskilning sauðheimskra manna, vil jeg taka það fram, að jeg tel bæina standa, en jarðirnar liggja, hversu sem landslagi kann að vera háttað.

Í Auðsholti eru mýrar miklar með tilheyrandi ósum, flóðum, keldum og drulludýkjum. Þar er líka ósinn stóri, sem allir þekkja, og er lítið betri en Kotlaugakelda. Þar hefur oft verið þríbýli. Þar er altaf einhver sem heitir Tómas, og Tómassynir eru þar margir.

Svo eru þrír bæir sunnan Hvítár og utan Laxár, sem mættu fylgja Skeiðunum: Fyrst er nú Eiríksbakki við Laxá. Þar býr Lýður þjóðhagasmiður, snyrtimenni og valmenni. Hann var bróðir Egils á Kjóastöðum.

Þaðan í vestur, austan í Vörðufelli, eru Helgastaðir. Sú jörð er svo dýr, að hún má heita konungsgersemi. Þaðan er Þóroddur, Þar var Eyvör. Þaðan var Einar.

Svo fyrir norðan fjallið er Iða. Þar er ferja. Þangað fór Jón Wíum frá Álfstöðum. Þar byrjaði Jóhann og Bríet að búa. Stundum var þríbýli á Iðu, en þá urðu heldur lítil hey.

Læt ég svo útrætt um þessar útskæklajarðir.

Þá skal nú fyrst frægan telja biskupsstaðinn gamla. Annars hef jeg ekki ætlað mjer að rekja bæina eins og umrenningur, heldur aðeins að geta hins helzta.

Í Skálholti er ætíð tvíbýli, og er það líka nóg fyrir tvo. Þar er kirkja, og þar eru hverir eða sjóðheitir drullupollar. Þar er andapollur, og er fallegt að sjá hann í kyrru og björtu veðri alþakinn mjallhvítum svönum. Einar bjó lengi i Skálholti, og Erlendur og Margrjet Ingimundardóttir frá Efstadal. Þar bjó Grímur, sem svo fór að Gröf. Hann er faðir Eyjólfínu, sem heitir Laufey.

Skúli læknir hefur búið allan sinn búskap í Skálholti. Hann er búhöldur og hann getur vel kent að prjóna sokka. Þar bjó Jón og átti fjöldamargar hryssur, og þar var Borga þegar skítugi kálfurinn var tekinn úr fjósínu og slátrað í nestið handa kaupafólkinu. —

Ojsen bara, sagði Borga.

Skúli hefur bygt vel upp í Skálholti, og er munur á húsakynnum þar nú eða þegar Manga missti næturgagnið undan sjer niður úr baðstofugólfinu.

Skúli er hættur læknisstörfum, en læknirinn sem nú er situr í Laugarási. Þar er myndarlegt íbúðarhús. Þar eru hverir margir, og þar er alt hverasoðið, hverabakað og hveraþvegið. Einu sinni í mánuði hverjum er kveiktur upp eldur. Þá er brent kaffi, búnar til kleinur og steikt roð.

Guðmundur hómópati var lengi í Laugarási, og þar fæddist Ágústa ekkja Þórhalla læknis. 
 Höfði er þar lítið ofar. Þar eru meyjar margar. Þar býr Víglundur, gáfumaður, hægur og athugull. Jórunn kona hans er með afbrigðum víðlesin. Meðal annars hefur hún lesið öll fræðirit, er út hafa komið á íslenzkri túngu hinn síðustu nítján og hálft ár. Þar bjó Bjarni afi Ágústu, og Þórður og Guðrún foreldrar Þorsteins vjelstjóra. Nú er þar einbýli, en áður var þar tvíbýli og þríbýli. 
Þá kemur nú Stórafljót. Þar var Hallur og þar bjó Guðmundur faðir hans. Hann var hinn mesti búmaður. Hjá honum ólzt upp að mestu hann Gvendur Árnason. Gvendur hafði gott af að vera á Fljóti. Hann hefði átt að vera þar lengur. Nú er búið að slengja saman báðum jörðunum, eins og víðar er gert. Þórður á Fljóti er mesti sæmdarmaður, enda er hann af hinni valinkunnu Bræðratúnguætt.

Eitthvað nálægt í suður frá Fljóti er Reykholt. Þar verpir stundum hrafn, og þar er hver uppi á háholti. Þangað fer fólk stundum til að skemta sjer.

Fell og Fellskot er svo. Þar var Pjetur, einn af þeim, er lenti í hrakningunum á Mosfellsheiði. Lengi var Fellskot talið myndarheimili. Jóhanna var ein af Fellskotssystrum. Guðlaugur er bróðir þeirra. Fellið eða fjallið sem bærinn er kendur við, er fallegt og skógi vaxið. Og mikið er gaman að flengríða eftir Gjóstunni — Vatnsleysa er skamt frá Fljótinu. Þar er gamli Halldór og þar var eldri Halldór. Nú er litli Dóri í horninu hjá Jóni. Þar býr lika Þorsteinn. Sigurður faðir hans bjó þar allan sinn búskap og kona hans Sigríður Þorsteinsdióttir. — Ekki þarf sá bær að heita Vatnsleysa af því að ekki sje hægt að vaða þar í fót. Halldór bóndi á Vatnsleysu var stórríkur maður. Halldór sonur hans er líka ríkur, þar sem hann var eini erfínginn, en hann kann víst vel að fara með efni sín. Ekki er yfirlætið og ekki berst hann á í klæðaburði, og það held jeg að hann vinni. Ekki hefur hann gifzt ennþá, og mun því valda fremur framkvæmdarleysi en efnaleysi. (Frh).

16 janúar, 2019

Minning um eitur


Við teljum það meðal þess jákvæða við íslenskar gróðurhúsaafurðir að þær eru framleiddar án þess að til þurfi að koma eiturefni. Það er fjarri mér að gera lítið úr þeirri staðreynd, þvert á móti. Hún, ein og sér, er næg ástæða til að velja íslenskt grænmeti umfram það sem nálgast má frá garðyrkjuverksmiðjum annarra landa. 

Það er nú samt ekki svo, að íslensk gróðurhús hafi alltaf verið eiturefnalaus. Sú var tíð, að allskyns eiturtegundir voru notaðar við að halda skaðvöldum í ræktuninni í skefjum og það þótti hreint ekkert tiltökumál. Ég velti því stundum fyrir mér hvernig við, sem ólumst upp í svo eitruðu umhverfi, lifðum af.

Textinn sem fylgir hér er tekinn úr grein í Timanum frá 1949, þar sem fjallað er um garðyrkju á Íslandi og á þeim tíma munu hafa verið 7 hektarar undir gleri á landinu, í gróðurhúsum og vermireitum. 

Brennisteinn
Fram í hugann stökkva mis skýrar minningar um eiturefnanotkun í gróðurhúsunum í Hveratúni. Eftirminnilegast held ég að sé þegar brennisteinn var notaður til sótthreinsunar, en það var gert þannig, að  lokum af kíttisdunkum (ef einhver veit nú hvað það er) var komið fyrir á nokkrum stöðum í viðkomandi gróðurhúsi. Síðan var brennisteinshrauk komið fyrir á þessum lokum. Brennisteinninn var einhvernveginn gulgrænn að lit, svona eiturlitur.
Þegar búið var að setja brennistein á öll lokin var kveikt í honum, fyrst þeim sem fjærst var dyrunum. Mig minnir að ekki hafi nú dugað eldspýtur til. Síðan var bara að koma sér sem allra fyrst út úr gróðurhúsinu. Húsið þurfti að vera eins þétt og kostur var og það mátti ekki koma inn í það fyrr en sólarhring síðar.

Þetta eru leiðbeiningar um notkun brennisteins til sótthreinsunar sem birtar voru í Ægi, 1940:
Brennisteinn. Brennistein má ekki nota á málaða fleti. Að minnsta kosti 1 kg af brennisteini (brennisteinsblómum) þarf til þess að sótthreinsa hverja 10 rúmmetra. Brennisteinninn er settur í breiðan, grunnan járnpott. Hentug stærð er ca 1/2 metir í þvermál og 10 cm á dýpt. Potturinn er látinn standa í bala með ca. 5 cm djúpu vatni. Er það gert bæði til þess að koma í veg fyrir tjón, ef potturinn skyldi rifna meðan á brunanum stendur, og til þess að nægur raki verði í loftinu. Hæfilegt er að brennisteinslagið í pottinum sé 7—8 cm þykkt og þarf yfirborðið að hallast ofurlítið frá pottröndinni og inn að miðju, en þar er gerð dálítil hola, sem fyllt er með ca. 30 rúmsentimetrum af spírítus. Þegar brennslan skal hefjast, er kveikt á spíritusnum með eldspýtu. Allar rifur, dyr og gluggar verða að vera svo vel þéttaðir með álímdum pappírsrenningum, að reykurinn af brennisteininum tapist ekki út. Að minnsta kosti 24 klst. þurfa að líða áður en húsið er opnað aftur. 
Brennisteinninn var ekki notaður nema í lok ræktunartímabils, þegar komið var að því að "henda út". Því fór fjarri að hann væri ein eiturefnið sem notað var í gróðurhúsunum, en ég kann ekki að nefna þau öll. Sum verkuðu á skorkvikindi, önnur á sjúkdóma af ýmsu tagi. Til að dreifa efnunum voru notaðar úðadælur af ýmsu tagi og gasgrímur fyrir andlitinu. 

Ég stundaði ræktun á papriku á níunda og tíunda áratugnum, en blaðlús er, af einhverjum ástæðum, afskaplega hrifin af paprikuplöntum.  Á fyrri hluta þess tíma sem ég stóð í þessari ræktun notaði ég eiturefnið Permasect og einnig annað sem kallaðist Torque til að úða yfir plönturnar þegar lúsarfjandinn lét á sér kræla. Það var svo undir hælinn lagt hvort tókst að ráða niðurlögum þessara kvikinda, sem fjölguðu sér ógnarhratt. Þarna þurfti maður að bakka í gegnum gróðurhúsið, með útðabrúsann, með gasgrímu fyrir andlitinu.

Svo var farið að tala um lífrænar varnir.

Sníkjuvespa að verpa í lús. Af vefnum innigardar.is

Ég get viðurkennt það nú, að við fyrstu kynni fannst mér þetta hlyti að vera húmbúkk,  sem ekkert gagn myndi gera. Samt sem áður ákvað ég nú að prófa. Pantaði svona sníkjuvespur (Aphidius ervi), en þær voru fluttar inn í plastflöskum með einhverju æti í. Þessuer dreift á plönturnar og svo þarf bara að bíða.
Ég lærði það fljótt að ef ég var búinn að missa lúsina og langt, tókst þessum sníkjuvespum ekki að yfirbuga þær. Ef gripið var nógu snemma inn í virkaði þetta afskaplega vel.  Sníkjvespurnar verpa í lýsnar og þær breytast við það í múmíur. Út úr dauðum lúsunum skríða síðan nýjar vespur sem taku til við að verpa í aðrar lýs. 
Ef lúsin var komin vel á skrið var og er til ránmýs og Maríuhæna, sem ég prófaði einu sinni (og horfði á fljúga út um gluggana).
É gkomst upp á lag með að nota lífrænar varnir og þá varð ekki aftur snúið. Þvílíkur munur sem það var, að þurfa ekki að vera að sulla í eitri.
Það er varla að þeim sem stunda matjurtaræktun í dag, detti í hug að nota annað en lífrænar varnir.
Sem betur fer. 
Þetta er ein af ástæðum þess, að við eigum að velja íslenskt grænmeti. 

06 janúar, 2019

Skoðun þessa vísindamanns

Það er í tísku að kasta rýrð á vísindin og vísindamenn. Ekki er það vegna þess að vísindamennirnir séu í sjálfu sér fábjánar, heldur vegna þess að niðurstöður þeirra eða skoðanir sem byggjast á rannsóknum, stangast á við hagsmuni valdamikilla hópa. Þetta vita nú allir sem vita vilja. Ef einhver skyldi nú ekki vita, vísa ég til stjórnarhátta í Bandaríkjunum.

Í gærkvöld var birt viðtal á RÚV við vísindamann, yfirlækni á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, sem varaði, með vísindalegum rökum við innflutingi á fersku kjöti og grænmeti.

Ekki var látið þar við sitja, heldur var framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda boðið í beina útsendingu í fréttasettið, til að bregðast við því sem vísindamaðurinn hafði látið frá sér fara.
Það fyrsta sem þessi framkvæmdastjóri gerði, því hann er maður sem veit hvað hann er að gera, var að kasta rýrð á vísindamanninn, gera lítið úr honum og málflutningi hans og gerði meira úr niðurstöðum "óháðra" aðila sem FA hafði fengið til að gera úttekt á sama máli og sem hafði leitt til allt annarrar niðurstöðu.

Framkvæmdastjóri FA, talsmaður þeirra sem hafa beinan hag af því að flytja sem mest inn, fékk þarna að eiga síðasta orðið.
Síðasta orðið er mikilvægast.

Fólkið sem horfði á þessa fréttaumfjöllun sat upp með þá tilfinningu að þessi "svokallaði" vísindamaður væri nú bara harla ómerkilegur pappír, með annarlega, pólitíska hagsmuni að leiðarljósi, meðan hið góða félag, Félag atvinnurekenda, vildi öllum allt hið besta og bæri hag neytenda og fólksins í landinu fyrst og fremst fyrir brjósti.
Góði kallinn og vondi kallinn - alger klassík.

Mér fannst þetta bara harla léleg fréttamennska hjá RÚV - ég sem hef verið eindreginn stuðningsmaður þess að það fái að eflast sem mest.

Það er vísast með þetta eins og annað hjá okkur, að við eigum okkar sannleika, hvert og eitt. Þetta eru ekki skoðanir lengur, heldur sannleikurinn í sinni tærustu mynd, séður frá einni hlið - þeirri hlið sem við sáum síðast.

Nokkrum sinnum hef ég slegið á lyklaborð í tengslum við innflutning á ferskum landbúnaðarvörum og þar er að ýmsu að hyggja öðru en bara því sem fram kemur hjá félagi atvinnurekenda.
Hér eru hlekki á nokkur tilvik:


Fáránleiki 21.11.2018
Engisprettufaraldur 20.09.2017

31 desember, 2018

Eitthvað svona áramóta

Hvort sem vilji stendur til þess eða ekki, kemst maður einhvern veginn aldrei hjá því að hugsa fram og til baka um áramót. Maður getur reynt að vera raunsær og gera tilraun til að telja sjálfum sér trú um, að það sé bara hreint ekkert merkilegra við skilin á milli 31. desember og 1. janúar, en á milli 6. og 7. mars, en það virðist bara ekki vera einfalt.
Eins og um allt sem viðheldur þeirri skipan sem maðurinn hefur komið sér upp, þá eru bara hlutirnir með ákveðnum hætti, sem enginn einn hefur á valdi sínu að breyta. Einhvernveginn, einhverntíma, var ákveðið að koma á aðferð við að telja tíma, sem meðal annars fólst í því, að ákvarða að þar sem 31. desember og 1. janúar mættust, skyldu vera áramót, í það minnsta hjá ákveðnum hluta mannkyns.

Það er þannig, sko, að áramót eru bara tilbúningur, eða mannanna verk.

Er nú eitthvað meira vit í því en tískuslagorðinu: "Lífið er núna"?   Auðvitað er lífið núna, en líka áðan og í gær og fyrir þúsundum ára. Lífið er ekkert frekar núna en á einhverjum öðrum tíma. Hvar værum við stödd ef lífið væri bara núna? Ekkert okkar væri hér til að halda þessu fram. Í mínum huga er þetta slagorð bara birtingarmynd ákveðins hroka gagnvart öllu því sem liðið er og öllu því sem kann að verða.

Ég þykist alveg vita hvað átt er við með þessu slagorði, var bara aðeins að snúa út úr því.
En kannski veit ég bara hreint ekki hvað átt er við. Er merkingin einhver önnur en hvatning til þess að njóta dagsins, njóta þess sem er núna, gera eins gott úr því sem lífið hefur fært okkur í dag? Ég vona að einhver geti svarað því. Því ef merkingin er sú, að við eigum að lifa bara í núinu verður enn auðveldara fyrir þau öfl sem þannig eru innréttuð, að leiða okkur eins og lömb til slátrunar, hugsjónalaus og óvitandi um söguna. Það er reyndar margt sem bendir til þess að slík öfl séu að ná æ meiri undirtökum meðal okkar.

Það er sannarlega, í fljótu bragði, falleg pæling, þetta með að lifa bara í núinu. Raunhæf er hún samt ekki og ávísun á vandræði. Frjór jarðvegur fyrir svokallaða popúlista; "leiðtoga" sem tala inn í líf hugsjónalauss fólks sem lifir bara núna. Þannig met ég það.

Ekki hef ég oft sett hér inn biblíutilvitnanir, en geri það samt núna. Fullviss þykist ég um að ég misskil það sem þessi texti felur í sér, en mig grunar að margir skilji hann eins og ég: Vertu ekki með þessar áhyggjur. Ef þú fylgir mér þá mun ég bjarga þessu, alveg eins og ég sé um fugla himinsins og liljur vallarins.
Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn? Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búin sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir! Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning. Mt 6.24-34
Því hefur verið haldið fram, að trúarbrögð hafi svipuð áhrif á fólk ópíum og í vissum skilningi má alveg halda því fram. Í vissum skilningi má einnig halda því fram, að framganga margra leiðtoga heimsins um þessar mundir minni nokkuð á á þessa hugmynd um trúarbrögðin. Hún birtist í hugarheimi fólks sem lifir í núinu, með lausnir sem virðast virka bara ansans ári vel núna.  Hvort sannleikurinn telst þar sagna bestur, er allt annað mál.  Sannleikurinn verður stöðugt umdeildari og óljósari. Það er að verða svo komið að hver og einn geti búið til sinn sannleika og þar með kallað sannleik annarra örgustu lygi.

---------------------

Þrátt fyrir það sem ég hef látið frá mér hér fyrir ofan þá horfi ég bjartsýnn til nýja ársins, því ég held að gervisannleikur vitgrannra þjóðarleiðtoga og predikara verði undir þegar upp verður staðið.

Svona í lokin: öllum ykkur sem hafið lesið alla spekina sem ég hef hellt hér inn á árinu, þakka ég einlæglega. Jafnframt óska ég ykkur heilla og farsældar á árinu 2019 og að ykkur auðnist að njóta hvers dags eins og hann kann að birtast ykkur. 

Lífið var í gær.
Lífið er núna.
Lífið er á morgun.
Lifum því.

28 desember, 2018

Enginn veit sína ævina...... (VARÚÐ)

Líf mannsins býður upp á ótal möguleika, svo marga að enginn mun nokkurntíma geta fullnýtt allt það sem hann gæti mögulega gert. Svo undarlegt sem það kann að hljóma, þá gildir það sama um mig og aðra menn. (KELM).
Stundum gerist eitthvað í lífi manns, sem maður hefur gengið út frá að aldrei muni gerast, annaðhvort vegna eigin ákvörðunar þar um, eða þá að það telst ekki svo eftirsóknarvert að maður sé tilbúinn að leggja sig eftir því.

Það hefur ekki hvarflað að mér, eitt augnablik að ganga á fjöll til að skjóta rjúpur. Rjúpur hafði ég talið til þess sem ég, á minni ævi, myndi aldrei leggja mér til munns. Nú hefur sannast, hið fornkveðna, að aldrei skyldi maður segja aldrei.

Með jólagestunum komu í Kvistholt 5 gaddfreðnar rjúpur ásamt fyrirheiti um að úr bringum þeirra skyldi búinn til forrétturinn "grafin rjúpa" og úr afganginum "rjúpusúpa".

Þessar rjúpur urðu fyrir skotum vísindamanna, sem eru að rannsaka m.a. sveiflur í rjúpustofninum - hvort t.d. þar geti sníkjudýr komið við sögu. Þátttakandi í skotveiðinni var sníkjudýrafræðingur Kvisthyltinga, sem að sýnatökum loknum, sat upp með 5 frosnar rjúpur, því eðlilega stunda vísindamenn ekki matarsóun.

Í dag eru þessir fiðruðu fjallagarpar hamflettir og ætilegir hlutar þeirra búnir undir gröft og súpugerð.
Ég veit ekki hvað mér á svo sem að finnast um þetta, en mér sýnist fD vera í essinu sínu gagnvart tilstandinu; líkir því helst við það þegar hún lendir í að hreinsa úr niðurfallinu í sturtunni, ef það skýrir eitthvað.

Grafin rjúpa mun vera nokkuð þekktur réttur og ég verð að segja, þar sem um er að ræða villibráð, sem er grafin og  kallast þar með væntanlega "carpaccio", sem hvorttveggja þykir frekar fínt í heimi matargerðarlistar, að ég hlakka allavega til að smakka - nálgast þetta allt með opnum huga, meðvitaður um, að það var ekki ég sem drap "eina sem var upp til fjalla, yli húsa fjær". Aðrir sáu um það verk, í þágu góðs málstaðar. Best að hugsa sem svo, að þessar rjúpur létu ekki lífið til einskis.

Svona kemst þekktur matarbloggari að orði um tiltekna rjúpusúpu:


Svo sem eðlilegt er, telst íslenskan ekki búa yfir viðeigandi orðfæri til að lýsa þessari dásemd - nú eða þá að bloggarinn er að sýna lesendum hve gott vald hann hefur á enskum orðatiltækjum.

Ég vona í það minnsta að rjúpusúpan sem ég fæ að smakka muni verða handan alls sem hægt er að búast við hér á jörð.

Svo bæti ég við einni náttúrumynd til viðbótar - ekki reyna að halda því fram að ég hafi ekki varað þig við, lesandi góður).



20 desember, 2018

Af aftansöng á aðfangadag

Skálholtskórinn æfir í Kistuholti 19
Það var kóræfing fyrir stuttu, sem ekki er í frásögur færandi, svo sem. það eru alltaf kóræfingar og alla jafna eru kóræfingar eins og kóræfingar eru.

Þessi var óvenjuleg í tvennu tilliti:

1. Hún fór fram í afskaplega glæsilegu húsi í Kistuholti 19 í Reykholti.
Þetta hús byggðu Guðni Karlsson, frá Gýgjarhólskoti og Inga Kristjánsdóttir, en það er nú í eigu Sjálfsbjargar og er auglýst til skammtímaleigu á bókunarsíðum. Um húsið segir á einni slíkri síðu:

Kistuholt 19 (mynd af bókunarsíðu)

Þetta sumarhús með eldunaraðstöðu er staðsett í Reykholti. Gististaðurinn er nútímalegur og býður upp á heitan pott á veröndinni, ókeypis WiFi og ókeypis bílastæði í bílskúr hússins. Það leiðir upphitaður rampur að útidyrunum sem gerir það auðveldlega aðgengilegt.
Rúmgóða húsið býður upp á aðgengi fyrir hreyfihamlaða hvarvetna um húsakynnin. Til staðar er fullbúið eldhús, borðstofuborð og rúmgóð stofa með flatskjá.
Það fór afar vel um kórinn í þessu æfingahúsnæði og ekki skemmdu indælar veitingar í boði Bergþóru og Jóns fyrir.

Skálholtskórinn æfir á aðventu 2018. Þarna vantar aðal, enda
á bak við myndavél.
2. Það kom fram hjá stjórnandanum, að ákvörðun hefði verið tekin um að það verði ekki aftansöngur kl. 18 á aðfangadag, eins og verið hefur um langa hríð, heldur aðeins miðnæturmessa kl 23.30.
Þessar fregnir hittu fólk misvel. Þetta breytir mig engu lengur.
Í gamla daga var aldrei neinn svona aftansöngur eða miðnæturmessa í Skálholtskirkju. Fólk var bara heima hjá sér, hlustaði á útvarpsmessu og borðaði að henni lokinni, áður en sest var inn í stofu.
Á jóladag var síðan haldið til messu með pomp og prakt og að henni lokinni gæddi fólk sér á súkkulaði og tertum.

Svo var farið að vera með aftansöng kl. 18. Lengi vel sinntum við því í engu, héldum uppteknum hætti, en þar kom að fD þótti ekki verra að losna við mig og barnaskarann meðan yfir stóðu krítískustu augnablik matseldarinnar. Þar með upphófst sú hefð að ég hélt með börnin til aftansöngs. Hún stóð þar til kirkjunnar menn gengu fram af mér og hefur ekki náð fótfestu síðan, jafnvel þó kirkjunnar menn séu aðrir nú en þá.
Það er sem sagt komin ný hefð á mitt heimili, sama hefð og í gamla daga: engar kirkjuferðir á aðfangadagskvöldi og þannig verður það.
Mér finnst reyndar, að í messufjölda eins og svo mörgu öðru, séu gæðin mikilvægari en fjöldinn.

Hvað um það, með upplýsingum um að enginn verði aftansöngurinn á aðfangadagskvöldi, skapaðist lítilsháttar órói í hópnum um stund, áður en haldið var áfram með æfinguna. Þessi ákvörðun umsnýr rótgróinni hefð hjá ýmsum, en bara ýmsum - ekki mér.

Ég finn auðvitað til með þeim sem hafa gert aftansönginn að föstum punkti í jólahefðinni hjá sér. Það er nefnilega þannig að flest í kringum þetta kvöld er í fastari skorðum en flest annað í lífi afar margra. 
Kannski eru það einmitt hefðirnar sem enn halda þessu samfélagi saman. Þeim hefur farið hratt fækkandi síðustu áratugina.

-----
Myndin efst er tekin á farsíma á æfingunni sem um er rætt. Svo léleg er hún, að ég ákvað að breyta henni í "innsetningu" frekar en sleppa henni. 
Farsímamyndir ber að forðast 😉

16 desember, 2018

Páll ósáttur: "Hvers eiga sveitabæir að gjalda?"

Ég leyfi mér að lýsa óánægju minni hvernig sveitabæir eru, í fjölmiðlum, markvisst útmálaðir sem ólánsstaðir . Nú síðast var frétt um að maður væri geymdur á sveitabæ gegn vilja sínum og meira að segja á Austurlandi, af öllum stöðum.  Það er að verða svo, að í hvert skipti sem ég heyri sveitabæ nefndan kemur mér í hug saga Stefáns Mána, "Nautið" en um hana er þetta m.a. ritað:
Á rólyndislegum austfirskum sveitabæ gerast skelfilegir atburðir. 
Ég bý nú næstum því á sveitabæ og bý við það viðhorf, að þegar fólk veit að ég bý á sveitabæ í Biskupstungum,  stimplar það mig sem einhverskonar ólánsmann, ég hljóti að geyma einhver skuggaleg leyndarmál, hljóti að halda veiku fólki í gíslingu, níðist á dýrum, rækti kannabis, hýsi glæpamenn og þar fram eftir götunum.
Svona umfjöllun um sveitabæi verður bara að linna.
Þetta getur ekki gengið svona lengur.

Það má frekar segja um sveitabæi að þar búi afi og amma með skepnurnar sínar, eða með gróðurhúsin sín í kyrrð og ró. Umhverfið allt ber með sér að vera laust við skarkala heimsins, hundurinn kúrir undir vegg og fuglarnir syngja í hlaðvarpanum.
Sveitabæir eru nefnilega þess eðlis að þar býr allt það sem ljúfast er í mannlífinu. Þeir eru beinlínis hannaðir fyrir lífið sem manninum er eðlilegast.

Það virðist hinsvegar vera svo að höfuðborgarbúar sjái einhverjum ofsjónum yfir því lífi sem lifað er í sveitum landsins og ekki er hægt að túlka það öðruvísi en sem blöndu af öfund og þekkingarleysi. Þeim færi betur að líta sér nær.

Það liggur við að ég sé móðgaður fyrir hönd sveitabæja. Við verðum öll að vera tilbúin að móðgast, ef ekki fyrir eigin hönd þá annarra.. Það er háttur nútímamannsins.

13 desember, 2018

Að heyra blaðið

Þorsteinn Þórarinsson, Guðríður Þórarinsdóttir og Stefán Sigurðsson
Það er sem ég segi, maður verður að hafa hemil á sér, og það ætla ég vissulega að gera, en ekki fyrr en þetta sem hér fylgir er frá.
Mig langaði að vita aðeins meira um þetta fyrirbæri, hann "Baldur", sem ég fjallaði aðeins um í gær.

Glugg mitt leiddi mig að eftirfarandi umfjöllun um "Baldur", sem Þorsteinn (Þórsteinn?) Þórarinsson frá Drumboddsstöðum skráði í "Baldur" 1932, en hann var þarna formaður ungmennafélagsins og sat einnig í ritnefnd "Baldurs"

Afmæli "Baldurs"
Á næsta nýári verður "Baldur" 22 ára gamall. Fyrsta blaðið var skrifað í janúar 1911. Síðan hefir það nokkurnveginn fylgt fundum fjelagsins. Og það hefir frá fyrstu verið svo, að hafi út af því brugðið að nýtt blað komi á hvern fund, þá hefur þótt mikils vant. Svo sterkur þáttur var blaðið í starfsemi fjelagsins, að sumir sögðust verða að fara á fundina, til að heyra blaðið. Það mun líka vera svo, að öllum þeim margháttuðu störfum, sem fjelagið hefir haft með höndum frá fyrstu, þá hefur "Baldur" best fullnægt tilgangi, allar götur fram á þennan dag.
Það hafa margar hendur verið hjer að verki. Eðlilega er það mjög misjafnt að vöxtum, sem fjelagarnir hafa lagt þar fram, en við munum það nokkurn veginn og það rifjast upp við endurlestur á blaðinu, að það er undarlega jafnt að gæðum og gildi, sem það hefur flutt, frá hverjum sem það er. Þetta er því merkilegra, sem margir  eiga þarna fyrstu og síðustu, einu ritgerðina, sem þeir hafa samið á æfinni.
Og þó er hver grein meira en læsileg; hver grein hefur eitthvað til ágætis og margar alt. Það er lifandi áhugi, yljaður af samkend og skilningi, sem blasir við á hverri opnu blaðsins og birtist oftar en ekki í búningi góðs máls og meðferðar.
Það þótti eiga við, að gera "Baldur" nú ný skil. Bar tvennt til. Fyrst, að nú er blaðið orðið það mikið umfangs, að erfitt er að finna þar ýmislegt, sem menn þó kynnu að vilja sjá. Hitt er, að óðum líður að 25 ára aldri félagsins. Og þá er það hvorttveggja, skemmtilegt og skylt, að gera þess nokkra grein, hvernig og á hverjar leiðir þetta starf félagsins hefir gengið. Því er þetta yfirlit efnis og höfunda gert, sem fylgir þessu tölublaði "Baldurs".
Um Baldur, hinn norræna, var það mælt, " að frá honum væri gott eitt að segja". Um "Baldur" ungmennafjelagsins held jeg að mætti hafa  sömu orð. Það ætti vissulega að vera efsta og æðsta mark fjelagsmanna allra, að hið sama mætti um hvern þeirra segja.
Skrifari: Þórst. Þórarinsson

Ritnefnd:
Stefán Sigurðsson (1901-2004)
Guðríður Þórarinsdóttir (1888-1971)
Þórst. Þórarinsson (1888-1933)

Svo fór ég að afla mér lítilsháttar upplýsinga um þessa ritnefnd og þá lenti ég á þessari frétt í Degi, frá ágúst 1933:
Fyrir rúmri viku fylgdi Þorsteinn Þórarinsson bóndi á Drumboddsstöðum í Biskupstungum ferðamanni að Efstadal í Laugardal og sneri síðan heim aftur. Hefir hann ekki komið fram síðan og er ætlað að hann hafi farizt í Brúará.
Í Skinfaxa  árið eftir, eða 1934 segir Viktoría Guðmundsdóttir frá systkinunum frá Drumboddsstöðum, þeim Þorfinni, Sigríði,  Þorsteini og Guðríði Þórarinsbörnum. Þar er m.a. þetta um Þorstein, þann sem ritaði þennan þátt um Baldur:
Full 22 ár var hann formaður Ungmennafélags Biskupstungna, og saga félagsins um þau ár er svo nátengd nafni hans, að vart verður um annað skrifað svo að hins sé ekki líka getið. Sú saga verður ekki framar rakin hér. Ungmennafélagið starfar enn i fullu fjöri, og margt í sögu þess heyrir engu síður framtíðinni til en fortíðinni. Síðastliðið vor hélt félagið 25 ára afmæli sitt. Va r þá gleði á ferðum, og hefir Þorsteinn sjálfsagt litið björtum augum á framtið félagsins. En honum auðnaðist ekki að sljórna starfinu lengur en að þessum vegamótum, því að þetta var síðasti fundurjim, sem hann sat i félaginu. Hinn 26. júlí fór hann að fylgja ferðamanni út i Laugardal, en fórst i Brúará á lieimleiðinni. Sjónarvottur var enginn að slysinu, því að hann var einn á ferð, og lauk svo þessi vinsæli maður æfi sinni „einn og óstuddur". Lík hans fannst rúmum 5 vikum síðar og var jarðsett að Bræðratungu 9. september. að viðstöddu miklu fjöhnenni. Þótti sveitungum hans og einkum félögum þar hafa farið hinn göfgasti maður. Um hann er bjart i hugum manna.

Hvort hét Þorsteinn "Þorsteinn" eða "Þórsteinn"?  Ekki fæ ég séð annað en hann hafi skrifað sig Þórstein, ef marka má undirskrift hans í "Baldri":



11 desember, 2018

Baldur - ungmennafélagsandríki og tengiskrift.

Á héraðsskjalasafninu á Selfossi er að finna ýmislegt. eins og nærri má geta, því þar er um að ræða héraðsskjalasafn.  Þarna hefur fólk verið að skanna allskyns efni þannig að það komist á rafrænt form. Þarna er að finna þrjár bækur frá Ungmennafélagi Biskupstungna:
BALDUR 1931-1941,
BALDUR 1941-1944 og
BALDUR 1956-1966.

Baldur reynist vera Félagsblað Ungmennafélags Biskupstungna. Fyrstu færsluna, árið 1931 skrifar Stefán Sigurðsson, frásögn sem hann kallar "Í Kiel" og þá næstu skrifar Þórður Kárason og hún kallast "Prýði".
Ég á enn eftir að komast að tilganginum með þessum skrifum, en þar sem Baldur var félagsblað Umf. Bisk. má reikna með að skrifin hafi verið lesin,  mögulega hafa bækurnar þá verið fengnar á láni í bókasafni, eða með öðrum hætti. Þetta gæti vísast einhver frætt okkur nútímafólk um.

Ég ákvað að minnast á Baldur hér og láta fylgja dæmi um grein sem hann geymir, vegna þess að ég sat fund í dag, þar sem einn fundarmanna kvaðst ekki ráða við að lesa tengiskrift. Þessi fundarmaður var í yngri kantinum, af kynslóð sem er að taka við stjórn samfélagsins. Þá rann upp fyrir mér, að það mun ekki líða á löngu áður en það ógrynni texta sem ritaðir hafa verið með tengiskrift, verða ólæsilegir öllum nema handritafræðingum.
Hvað gerum við í því? Kannski bara ekkert, enda þetta tengiskrifaða efni barn síns tíma, án erindis við nútíðina eða framtíðina, dæmt til að hverfa inn í hillumetrana á skjalasöfnum.

Við sem lesum tengiskrift veltum þessu auðvitað fyrir okkur.
Hér fyrir neðan er sýnishorn af rithönd Þórðar Kárasonar, en það er þó alls ekki víst, þar sem mér virðist að ekki hafi höfundarnir endilega skrifað sjálfir efni sitt í bækurnar.



Að gamni mínu greip ég niður í Baldri II. árgangi, 1. tbl. 27. marz, 1954 (þegar ég var þriggja mánaða - gaman að því :) ).
Forsíðu þessa tölublaðs má sjá hér efst.
Hér rennir Hreinn Erlendsson (1935-1997) sér fram á ritvöllinn, en hann var frá Dalsmynni og var um 18 ára þegar þarna var komið sögu hans.

Afstaða laglausra til söngsins.

Sjaldan er haldin samkoma hér í sveit, svo menn hópist ekki saman einhverntíma samkomunnar og syngi. Er ekkert við þetta að athuga og ágætt fyrir þá sem þátt taka í söngnum.

En, því miður, geta ekki allir sungið. Er það þá oft venja okkar, sem ekki syngjum, að reyna að standa einhversstaðar á bakvið þá sem sönginn fremja, þá er það er aðhafst. Vegna hinna tíðu augnagota sem syngjendurnir senda okkur, þora fæstir okkar að láta sjá sig þeirra á meðal.

Síðastliðinn vetur var höfuðborgarfrú ein, að fræða mig á því að synir hennar sæktu alloft samkomur í K.F.U.M.. Allar væru þær reknar með mjög kristilegum anda. „Fyrst kom einhver maður og hélt tölu, svo voru þeir látnir lesa bænir, biðja til guðs og svo sungu þeir. Það sungu yfirleitt allir og þeir sem ekki sungu, en reyndu að bora sér út úr, voru fyrirlitnir svo þeir héldust ekki við í félagsskapnum“. Þær fóru allar fram með ákaflega kristilegum anda, samkomur þessa ungmennafélags kristindómsins. Slíkur félagsandi, sem þessi hefur ákaflega negatíf áhrif á þá sem ekki syngja.

Alltítt er það, að þeir sem fremstir standa á sviði söngsins, reyna bæði með illu og góðu að fá okkur með í sönginn. Það mun aðallega gert til þess að við töpum ekki af þeirri skemmtun sem í söngnum felst. Hér skal það því ekki tekið illa upp.

Í mörgum framhaldsskólum þessa lands eru allir nemendur sem í skólann ganga, látnir taka söngpróf þegar þeir hefja nám. Síðan eru þeir sem sungið geta látnir æfa söng og þeim kennt eitthvað í tónfræði. Mun þetta vera gert til þess að skapa tónlistarmenntaða æsku. En er þetta rétt aðferð? Ég hygg að svo sé ekki. Væri ekki betra að hafa frjálsa þátttöku við tónfræðinámið? Þar sem nemendum væri kennd meðferð einfaldari hljóðfæra. Því þó svo að maðurinn geti ekki sungið, þá getur hann samt verið ágætur tónlistarmaður, má í því sambandi benda á okkar ágæta tónskáld, Sigvalda Kaldalóns, sem var hérumbil eða alveg laglaus.

Að sjálfsögðu mætti kenna þeim söng sem um það væru færir.

En flestir unglingar munu telja sig hafa fengið nóg af tónlistinni eftir að vera dæmdir laglausir af vönum kennara, sem sagður er kunna sína grein.

Þrátt fyrir hina miklu söngkeknnslu í skólum landsins, virðist almenn söngkunnátta ekki vera nógu mikil.

Einu sinni vorum við á ferð, í bíl, nokkrir Tungnamenn og fleiri. Var þar sungið eins og oft er gert á ferðalögum. Er söngvararnir voru orðnir í hraki með lög, lagði ég til að þeir syngju: „ Ég vildi að sjórinn yrði að mjólk.“ „Nei, blessaður vertu, ég kann það ekki“, sagði einn, „Syngjum heldur Ave Maria“. Síðan hóf hann upp rödd sína og söng Largo eftir Händel. Söng hann þríraddað og skorti aðeins eina rödd til að syngja kvartett með sjálfum sér.

Hreinn Erlendsson

Hér er annað dæmi um tengiskrift.úr Baldri.



29 nóvember, 2018

Strákarnir í klaustrinu

Það veit sá sem allt veit, að ekki vildi ég að allt það sem fram fer í samræðum okkar fD um menn og málefni, ekki síst stjórnmálamenn og stjórnmál, næði að festast á upptökutækjum. Þar er margt sagt sem sófinn fyrir framan sjónvarpið geymir og sannarlega uppljóstra ég ekki um það á þessum vettvangi frekar en öðrum.  Ég geri nú ráð fyrir að margir séu í sömu stöðu og við fD að þessu leyti.

Ég vorkenni strákunum í klaustrinu að vera svo óheppnir sem raunin er. Þeir eru í þeirri stöðu að þurfa, daginn út og inn, að segja það sem þeir halda að fólkið vilji heyra, á sama tíma og þeir eru að hugsa eitthvað allt annað. Þeir eiga pólitískt líf sitt undir því, að segja bara það sem fólkið vill heyra.  Hugsanir geta reynst barstrákunum hættulegar ef þeim tekst ekki að leyna þeim fyrir fólkinu.

Já, þeir biðjast afsökunar í bak og fyrir. Þeir voru ekki með sjálfum sér. Þetta var svona strákahittingur þar sem maður lætur flest fjúka, án þess að meina nokkuð með því. Þeir þurftu að gera sig gildandi í strákahópnum. Þetta var bara svona eins og strákar tala saman í búningsklefanum.

Aðalatriðið er ekki hvað barmennirnir sögðu og sem upptaka er til af, heldur það sem gerist í kjölfarið.
Munu samflokksmenn þeirra, Alþingi og almenningur veita þeim fyrirgefningu?
Munu þeir halda áfram eins og ekkert hefði í skorist?
Munu þeir sópa til sín atkvæðum í næstu kosningum?
Mun þetta verða fyrsta frétt í 2-3 daga og svo ekki söguna meir?
Munu þeir halda ótruflað áfram að leyfa okkur að bergja á skoðanabikurum sínum (sem innihalda mögulega ekki skoðanir þeirra) frá ræðustól Alþingis?

Ég er hræddur um að svarið við þessum spurningum sé jákvætt.

Einhverjir Klausturstrákanna sýndu á sér aðra hlið en sú sem blasir við okkur dags daglega.
Hvor hliðin er sú rétta?
Svarið við þeirri spurningu læt ég liggja milli hluta, jafnvel þó ég sé þegar búinn að svara henni.

Ferillinn næstu daga mun líklegast einkennast af afsökunarbeiðnum og hrokafullum ásökunum í garð fjölmiðla. Þannig er þetta nú bara hjá okkur.

Svo tekur næst mál við. Það eru nefnilega alltaf leiðir til að drepa svona löguðu á dreif.


27 nóvember, 2018

Uppreist aldursæru

Þegar upp er staðið bý ég smám saman yfir þeirri visku og yfirsýn, að ég geti kinnroðalaust tjáð skoðanir mínar í fullvissu þess, að þær séu í rauninni harla eftirtektarverðar. Það er ekki bara vegna þess að ég er sá sem ég er (sem er auðvitað mikilvægt í þessu sambandi), heldur ekki síður vegna þess að aldur minn hefur fært mig, sköpunarhæfni mína og hugsun, langt fram úr flestu því sem aðrir og yngri kunna að hafa fram að færa. 
Ég held að segja megi að ég sé "með þetta".
Þá er það sagt.

Einhver kann  að velta fyrir sér hvað veldur því að ég tek svo stórt upp í mig sem raun ber vitni og því er mér ljúft að svara. Ég horfði nefnilega á sjónvarpsþátt í gærkvöld sem heitir: Lífsins gangur, eða "Secret Life og Growing Up". Ekki nenni ég að fara að endusegja þennan þátt, en bendi þeim sem ekki sáu á að  horfa á hann hér.

Í þessum þætti kom allt það fram sem ég hef upplifað á sjálfum mér eftir því sem árin hafa liðið. Stöðugt hefur mér orðið ljósara hve margt mér yngra fólk á margt ólært um lífið og tilveruna. Það er eins og það sé bjargföst skoðun nýútskrifaðra doktoranna að þeirra sé sannleikurinn og þekkingin og skilningurinn og hvaðeina. Sannarlega þarf ekki doktora til, því það fólk er margt og margvíslegt sem telur sig eitt vita allt og skilja, en veit fátt og skilur enn minna.

Ég var sjálfur eitt sinn í þeirri stöðu að vera ungur og vitlaus. Ég gleymi seint viðbrögðum okkar þessara yngri, þegar gamli kennarinn á kennarastofunni hóf upp raust sína um skólamál. Hann vildi deila með okkur reynslu sem hann hafði öðlast við tilteknar aðstæður.  Jú, hann fékk svosem að segja sitt, en í kjölfarið ríkti þögn um stund, áður en þeir yngri (eftir að hafa sagt, í huganum: "Já, já, allt í lagi, gamli, en nú eru bara aðrir tímar") héldu áfram að reyna að leysa málin út frá sínum fátæklega þekkingargrunni, reynsluleysi og einstrengingslegu skoðunum.
Undir lokin á starfsferlinum upplifði ég æ oftar samskonar viðhorf til þess sem ég taldi mig hafa fram að færa, þó ég verði að segja, að kollegar mínir fóru ansi vel með mig, eða þá að ég hélt skoðunum mínum dálítið fyrir mig, í ljósi reynslunnar sem ég fékk við meðferðina á gamla kennaranum, sem ég minntist á hér fyrir ofan.

Ég held að það teljist ekkert sjálfsagt að maður á mínum aldri tjái sig mikið um uppeldismál. Ég hef samt gert það, en upplifi aðallega þögnina sem viðbrögð við þeirri tjáningu.  Það verður bara svo að vera. Við verðum bara að fá að reka okkur á, eða réttara sagt börnin okkar, sem, þegar sá tími kemur, þurfa að takast í æ meira mæli á við öldugang lífsins.  Hvað sem hver segir, þá mun ég halda áfram að halda því fram, að það skiptir í grundvallaratriðum ekki máli hvort maður fæddist árið 1630 eða 2018, maður þarf það sama: foreldra til að elska, leiðbeina, kenna, setja mörk. Á engum tíma þurfa börn foreldra sem geta ekki beðið þess að losna við þau inn á leikskóla, foreldra sem líta á það sem rétt sinn að geta komið af sér börnunum svo þeir geti farið að sinna því sem mikilvægast er: starfsframanum.   

Þetta er grundvöllurinn og honum verður ekki breytt. Síðan tekur hitt við: að kenna börnunum að takast á við allan tækjabúnaðinn sem þeim stendur til boða, öll öppin og spjaldtölvurnar og jútjúb og netflix og forritunina; takast á við veruleikann sem bíður þeirra síðar. Það er bara allt annað mál. það kemur ekkert app eða tölvuleikur í stað foreldra, nefnilega.


ps. Upptendraður af þættinum frá í gærkvöld, sendi ég þetta frá mér. Efast reyndar um hvort það sé rétt ákvörðun, en í ljósi þess að það mun enginn taka þetta til sín, þá ætti það að sleppa. 

psps Stararnir á myndinni endurspegla það sem ég er að reyna að tjá. Ég teldist þá vera sá sem ekki gapir.    

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...