01 október, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (5)


Þetta er framhald af 1  2  3  og 4

Hallormsstaður
Það er svo sem ekki margt sem ég finn til að segja frá dvöl Guðnýjar á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað, en þar var hún í skóla veturna 1937-38 og 1938-39.  
Eitt bréf er þó að finna frá haustinu 1938. Það byrjaði hún að skrifa  á 17 ára afmælisdaginn sinn, þann 7. október, til Möggu [Margrétar Júnúsdóttur rjómabússtýru á Baugsstöðum] og fjallar um daginn þann. Hún heldur síðan áfram með bréfið þann 9. október og lýkur því þann 16.  Mér varð á að hugsa, að fólk hljóti að hafa hugsað með allt öðrum hætti um tímann á þessum árum. Ég sé sjálfan mig setjast niður til að skrifa tölvupóst og taka mér 10 daga í það. Þarna var nú ekki asanum fyrir að fara.

Margrét Júníusdóttir t.h. og Guðrún 
Andrésdóttir. Mynd frá því um 1960.

Hvað um það hér koma brot úr bréfinu, og það gefur nokkra mynd af lífinu á Hallormsstað hjá þessari 17 ára yngismey.

[Laugardagur 7. okt.]
Fyrst í morgun þegar ég opnaði augun, lá bréf á koffortinu mínu og í því var bók og kort frá skólasystrum mínum. Bókin var: Þitt ríki komi, eða 77 sálmar.
Svo í dag var ég að fara að sækja vambir út í tunnu við ána og önnur stelpa var með mér. Mæti ég þá Blöndal [Benedikt Blöndal] og hann sagði mér að ég ætti 2 skeyti niðri á Hallormsstað og hvort ég vildi ekki stökkva eftir þeim núna. Ég þáði það og hljóp með allt gorið og strigasvuntuna niður eftir. Og ég varð alveg hissa á öllum þessum ósköpum. 
Svo núna í kvöld var drukkið kaffi og skreytt borðið með blómum og allskyns kökur með kaffinu. Og ég látin sitja við vinstri hönd frúarinnar [Sigrún P. Blöndal, skólastýra] og matreiðslukonan svo við hliðina á mér. Ég er hrædd um að ég hafi ekki á von á þessu. Og nú er ég komin upp í rúm og skrifa þetta á hnjánum og þá kom Rósa upp til mín með vasa með blómum frá Þórnýju.

Mér líður vel hérna og ég vona að það standi sem lengst. Ég get ekki sagt að ég finni til leiðinda. Það hefur alltaf verið nóg að gera. Við höfum núna í heila viku verið að atast í slátri og verðum víst líka í næstu viku. Það er nú bara skemmtilegt.Ég hef nú ekki meiri vilja núna. Við förum á fætur kl. 7 á morgnana og oft seint að sofa og nú er ég orðin syfjuð. Ætla að hætta.

[Sunnudagur 9. okt.]
Það er komið kvöld og ég er óánægð með dagsverkið. Fyrst fengum við kakó kl 8 1/2 , svo strax þegar ég kom upp eftir fór ég undir sæng og svaf til að ganga 1. Svo hefur dagurinn farið alveg til einskis. Ekki kemur pósturinn ennþá og ég er orðin langeyg eftir honum, því núna hlýt ég að fá mikið af bréfum.
Ég var að enda við að skrifa mömmu, það er þriðja bréfið sem ég skrifa henni. Mér finnst það nú lítið. Ég er ekki í myrkrinu við að skrifa. Það eru hér tvö ljós, annað er ég með hérna á borðinu hjá mér.
Það er öðruvísi en heima, en samt held ég að ég vildi heldur vera komin heim og sitja við kerti eða lampa. En það er samt allt gott hérna hjá mér núna og ég er alltaf ánægð. En það versnar víst allt þega bóklegu tímarnir koma og fara að verða reglulegir tímar. En vonandi verður það nú ekki.

[ Sunnudagur 16. okt.]
Inga [ Ingunn Ósk Sigurðardóttir] er komin. Nú líður mér vel. Ég get ekki sagt þér neitt nýtt. Verð nú að slá botninn í bréfið því bíllinn er að fara. Ég bið hjartanlega að heilsa Gunnu [Guðrún Andrésdóttir] og líka Rjómabúinu.
Annað bréf hef ég undir höndum sem Guðný skrifaði móður sinni í mars 1939, og var þá farið að styttast í námslok.  Þetta bréf er skrifað af ákveðinni ástæðu og er konan að leita liðsinnis foreldranna í því efni. Hér er hluti bréfsins:

(19. marz 1939) 
Ég er að koma af samkomu austan úr Skriðdal, en þangað hefði ég ekki átt að flækjast. Mig langar til að skrifa Sillu [Sigurlaug Siggeirsdóttir] þá ferðasögu. Ég ætla að skrifa þér um annað, þ.e. Frú Blöndal talaði við mig á laugardaginn og spurði hvort mér væri ekki sama þó hún skrifaði pabba og talaði um næsta vetur við hann. Eins sagði hún, að sig langaði til að ég yrði á þriggja vikna prjónanámskeiði hér í vor og vill spyrja ykkur hvort þið vilduð það ekki. Hún ætlar þá að fæða mig.  En ef ég yrði á þessu námskeiði yrði ég ekki heima þegar Geiri [Siggeir Pálsson]yrði fermdur  og komi ekki heim fyrr en í byrjun júní. 
En nú ætla ég að biðja ykkur um það, ef pabbi fær bréf frá frúnni og skrifa henni aftur, að hann segist í bréfinu ekki geta látið mig vera hérna svona lengi. En hún vill láta mig læra að prjóna til þess að ég yrði hérna næsta vetur, að ég gæti þá kennt prjón. En ég held ég láti ykkur alveg um það hvort ég verð heima eða hérna. "Ég vil heldur vera heima". Þið skuluð segja frúnni allt sem ykkur sýnist ef hún hefur skrifað ykkur.

 Svo segir Guðný frá veikindum Frú Blöndal og heldur síðan áfram:

Mikið er hún góð við mig. En ég finn það að ég get ekki orðið eftir þegar Inga [Ingunn Ósk Sigurðardóttir] fer heim, þó ekki séu nema þrjár vikur. Ég vona að þið getið ráðið fram úr þessu. Ef þið álítið gott að ég verði hérna, þá verð ég. Ég veit að ég hef gott af því. Mér þykir verst hvað frúin treystir mér vel og leggur mikið uppúr mér - því ég á það ekki skilið, alls ekki.
Sigrún og Benedikt á Hallormsstað með syni sínum,
Sigurði (standandi) of fóstursyni, Skúla Magnússyni.


Loks segir Guðný í eftirskrift:

Segið Frú Blöndal ekki að ég vilji ekki vera hjá henni. Heldur að þið megið ekki missa mig, því ég vil vera hjá henni, en frekar hjá ykkur.

Já, þær eru ýmsar klemmurnar sem finna þarf lausn á. Ekki trúi ég að það hafi verið auðvelt fyrir Guðnýju að ákveða að skrifa þetta bréf til foreldra sinna, enda fer ekki á milli mála í bréfinu og síðar á lífsleiðinni að Frú Blöndal reyndist henni ávallt afskaplega vel og fyrir henni bar hún mikla virðingu. 

Ég kem síðar að því hvernig dvöl Guðnýjar á Hallormsstað hafði afgerandi áhrif á tilveru okkar Hveratúnssystkina og afkomenda okkar. Mögulega má einnig segja að þetta bréf hafi skipt sköpum í því efni.....hver veit?

Guðný (fyrir framan til vinstri) með nokkrum skólasystrum á Hallormsstað, sem ég veit ekki nöfnin á.



29 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (4)

Þetta er framhald af 1, 2 og 3

Ég hef nú setið við og reyni að átta mig á hvað ég má eða má ekki fjalla um í þessum skrifum um móður mína, hana Guðnýju Pálsdóttur frá Baugsstöðum. Ég játa það, að í mínum fórum er þykkur bunki af bréfum til hennar og frá henni og ýmislegt fleira í rituðu máli. 

Mér finnst það ljóst nú, að skriftarkennslan sem Guðný fékk, líklegast hjá henni Jarþrúði Einarsdóttur, eða konu sem hét Krístín, var til fyrirmyndar og rithöndin var falleg alla tíð.

Ég hef ákveðið að leika núna biðleik, meðan ég reyni að komast að niðurstöðu um hvernig best er að taka á framhaldinu.

Það var haustið 1934, og Guðný var orðin 14 ára. Sennilega var hún þá undir handarjaðri Jarþrúðar Einarsdóttur sem áður er nefnd. Stílabókina, sem hún notaði við skriftarnámið, bæði til að æfa skriftina sjálfa og einnig til að ástunda skapandi skrif, geymdi hún síðan alla tíð. 
Ég held að mér sé alveg óhætt að birta hér eftirfarandi sögu sem hún skrifaði haustið 1934.



3. stíll Skáldsaga eftir mig
Einu sinni var maður, hann átti 3 dætur, sem hétur Helga, Sigga og Dóra. Helga var þeirra els og var hún þeirra duglegust og laglegust. En hún var alltaf höfð útundan hjá hinum systrunum.
Einu sinni átti að verða dans skemmtun í sveitinni sem Helga átti heima í. Og áttu nú yngri systurnar báðar að fá að fara, en Helga átti að vera heima, ein alla nóttina, en pabbi hennar og mamma fóru og báðar yngri systurnar líka.
Nú fara þau, en Helga er ein eftir. Hún tekur bók og fer að lesa og les uppundir klukkutíma. Svo verður hún syfjuð og fer að hátta sig og lét loga á kerti, því þetta var skömmu fyrir jól.
Síðan leggst hún útaf, en getur með engu móti sofnað, hvernig sem hún fer að. Þá heyrir hún að það er eitthvað þrusk fyrir utan gluggann. Hún verður hálf smeyk og þorir ekki að líta upp. Heyrist henni svo vera bankað, svo hátt og ónotalega á þilið að henni verður svo bilt við að hún þorir sig ekki að hreyfa. Og er þá kallað með hárri rödd: "Ljúk þú upp fyrir mér, eða ég bryt gluggann!" og brá henni nú enn meira en áður því hún gat ekki hreyft sig til þess að ljúka upp, hvað þá að hún gæti nokkuð, ef þessi maður kæmi inn um gluggann. Þá heyrist henni eins og einhver rödd hvíslaði að sér: "Rís þú upp og lúk þú upp fyrir honum, því það verður þér til góðs".
Þá sagði hún við sjálfa sig: "Ekki get ég það, því það þori ég ekki."
Þá sagði röddin: "Ekkert að óttast, ég er með þér."
Þá fór Helga að reyna að standa upp og átti hún þá hægt með það. Hún setti í sig kjark og klæddi sig, tók kertið og labbaði ú í bæjardyr. Þegar hún hafði opnað bæinn kom maður að dyrunum og ávarpaði hana á þessa leið: "Góða stúlka, gef þú mér bita, ég er svo svangur, hef ekki bragðað mat í 3 sólarhringa."
"Já", sagði Helga, "gjörðu svo vel og komdu inn."
Hann var nú ekki álitlegur, með hrafnsvart hár og allur grútskítugur og rifinn frá hvirfli til ilja og þar að auki berfættur.
Er hann hafði matast, fór Helga að spyrja hann hvað hann héti og sagðist hann ekki muna það, því það væri svo langt síðan hann var hjá mennskum mönnum. Svo sagði hann henni ævisögu sína, þegar hann hafi verið strákur hafi honum verið rænt burtu og honum hafi ekki tekist að flýja fyrr en þetta. Og ef hún geti bjargað sér úr höndum óvinanna þá geti hún fengið mikil auðæfi, því hann hafi átt svo ríka foreldra og ef honum tækist að finna þá, þá ætti hann henni líf sitt að launa.
Nú lánaði hún honum vatn og greiðu og hann þvoði sér og Helga varð alveg hlessa. Þarna var kominn laglegur unglingur í staðinn fyrir skítuga manninn.
Síðan kom fólkið, þegar kl. var 4 um nóttina og var nú allt til gert til þess að bjarga manninum.
Svo liðu tveir dagar og enginn kom til þess að leita að honum og hélt hann þá, að hann væri úr allri hættu.
Svo á 4. degi lögðu af stað, Helga og ókunni maðurinn til þess að komast heim til foreldra mannsins.
Á 3. degi komust þau alla leið og varð nú mikill fagnaðarfundur. Og skömmu síðar var haldin veisla mikil og voru þau þá gift, Helga og ókunni maðurinn. Svo tóku þau vð búinu og bjuggu saman við góð kjör til æviloka.

Áttu börn og burur
grófu rætur og murur;
smjörið rann,
roðið brann,
sagan upp á hvern mann
sem hlýða kann.
Brenni þeim í kolli baun
sem ekki geldur mér sögulaun
fyrr í dag en á morgun.
Köttur út í mýri,
setti upp á sér stýri,
úti er ævintýri.

Guðný Pálsdóttir 14 ára 

Nú get ég farið að hugsa næsta leik, í friði og ró. 


             FRAMHALD

 
 

 


27 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (3)

Elín Jóhannsdóttir með börn sín,f.v. Guðnýju,
Elínu Ástu og Siggeir. Móðir hennar, Elín 
Magnúsdóttir standandi.
  Fyrri færslur um sama efni: (1) og (2)

Hún kom í heiminn þann 7. október 1920, fyrsta barn foreldra sinna, sem þá voru skriðin tvö og þrjú ár yfir þrítugt. Á Baugsstöðum var nóg af fólki til að sinna henni og leiðbeina fyrstu skrefin á lífsgöngunni, enda voru þetta ár 10 einstaklingar með heimilisfesti á Baugsstöðum. Ég hlýt að reikna með, að auk móður hennar, hafi þær Elín, amma hennar, þá 64 ára og frænka hennar, Kristín María Sæmundsdóttir (Stína María), 14 ára, gegnt veigamiklu hlutverki við að sinna henni. 
Það var nóg að bíta og brenna á heimilinu, enda gnægtaborð hafsins í túnfætinum. Faðir hennar Páll var formaður á báti sem hann gerði út frá Loftsstaðasandi og Baugsstaðir voru verbúðir fyrir eina 40 karla á vertíð. 

Þegar Guðný var tveggja ára fæddist foreldrum hennar önnur dóttir, Elín Ásta, síðan kom Siggeir í heiminn 1925, og loks Sigurður 1928. Það segir nú fátt af fyrstu árum í lífi systkinanna þarna til að byrja með. Sigurður er sá sem enn er til frásagnar og eðlilega er minni hans um það sem gerðist á Baugsstöðum áður en hann fæddist, harla gloppótt, þó svo hann sé eins og alfræðiorðabók um fólkið og lífið á Baugsstöðum og í nágrenninu, að ýmsu öðru leyti. 

Hann gat sagt mér það, af skólagöngu þeirra systkina fyrstu árin, að hann sótti um tíma farskóla í Gaulverjabæ og um tíma var ráðinn, að undirlagi Magnúsar Hannessonar í Hólum, kennari sem kom að Baugsstöðum og kenndi Sigga, Helga Ívarssyni, fóstursyni Magnúsar og Hinrik Ólafssyni í austurbænum. Helgi og Hinrik voru ári yngri en Siggi.  Að sögn Sigga taldi Magnús í Hólum farskólann í Gaulverjabæ vera hálfgerðan vandræðastað fyrir fósturson sinn réði þess vegna kennara sem kom frá Eyrarbakka og kenndi þremenningunum á Baugsstöðum.  Siggi segir skólagöngu sína hafa verið um það bil eitt ár alls.

Guðný fékk að njóta leiðsagnar Jarþrúðar Einarsdóttur á Tóftum ásamt æskuvinkonu sinni, Ingunni Ósk Sigurðardóttur, en hún var bróðurdóttir Jarþrúðar. Síðar þróuðust málin þannig, að Jarþrúður fékk inni fyrir Ingunni á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað og það æxlaðist svo, að Guðný fór þangað einnig. 

Bréf Guðnýjar til systur sinnar 1932 (12 ára)

Af systkinum Guðnýjar er það að segja, að systir hennar, Elín Ásta, lést skömmu fyrir 11 ára afmælið sitt*.  Bræður hennar, Siggeir (Geiri) (1925-2001) og Sigurður (Siggi) (1928 -) ólust upp á Baugsstöðum og tóku þar við búi foreldra sinna í fyllingu tímans. Það sagði Siggi mér, að eftir að Páll afi hætti að stunda sjóinn (1958) réru bræðurnir (eða bara Geiri) í um tvö ár, en þá var báturinn seldur, hvort sem það var vegna þessað Páll vildi ekki að bræðurnir héldu áfram að stunda róðra frá Loftsstaðasandi, þar sem það var ekki hættulaust (segir Siggi), eða vegna þess að aflinn hafði farið mjög minnkandi..  

Maður veltir auðvitað fyrir sér hvernig ungt fólk á þeim árum sem hér um ræðir hagaði lífi sína, en reikna með að hugsunarhátturinn hafi ekki verið ósvipaður því sem er á öllum tímum. Ég geri ráð fyrir að það hafi komið í hlut Guðnýjar að aðstoða móður sína við húsverkin og að passa bræður sína þegar hún tók að stálpast. Ekki minnist Siggi neinna árekstra milli þeirra systkinanna.   

Guðný og Ingunn Ósk

Sem fyrr segir, varð það úr að Guðný hleypti heimdraganum ásamt vinkonu sinni, Ingunni Ósk frá Tóftum (Tóttum) í Stokkseyrarhreppi. Þær fengu námsvist í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað haustið 1937 og þar var Guðný tvo vetur hjá þeim Sigrúnu P. Blöndal og Benedikt Blöndal, sem fóstruðu þann sem síðan átti eftir að verða lífsförunauturinn. Sennilega mun ég koma að því síðar.

Ég held að það sé nú svo með lífsferil okkar, að okkur finnst hann svo stór hluti af sjálfum okkur, að einhver miðlun á honum til afkomendanna sé okkur ekki ofarlega í huga, fyrir utan það, að afkomendurnir eru börn og síðan fólk með eigin börn og lífsferil, sem fer ekki að velta mikið fyrir sér fortíð foreldra sinna fyrr en á efri árum. Allavega var það þannig að einhver heildstæð og tiltölulega nákvæm sýn af lífi móður minnar á uppvaxtarárum hennar, var aldrei rædd að neinu ráði. Vissulega þekki ég hana í afar grófum dráttum, en við mörgum spurningum sem upp hafa komið síðar, fást líklega engin svör.  Hún skildi eftir sig ógrynni af bréfum frá ýmsu samferðafólki á ýmsum tímum, en úr þeim er ekkert sérlega mikið að fá af upplýsingum, enda oft sem svona bréf oft byggð að sameiginlegri þekkingu þeirra sem skrifuðust á og því tilvísanir harla óljósar, oft á tíðum.

Það sem er framundan hjá mér er að taka saman einhverskonar, sæmilega heildstæða mynd af móður minni, brot frá tíma hennar á Hallormsstað og þann tíma sem leið frá því skólagöngunni lauk og þar til hún var orðin húsfreyja í Hveratúni, með eiginmanni og síðar börnum.  Þetta ætla ég að reyna að kljást við næstu daga.

*þau sem til þekkja segja dánarorsök Elínar Ástu hafa verið skarlatssótt.

Nokkrar myndir:

Systurnar Kristín, Guðlaug og Elín Jóhannsdætur.
 

Páll og Elín á Baugsstöðum


Baugsstaðasystkinin á fermingardegi Sigga (1942?)
Siggeir, Guðný og Sigurður.


Systkinin frá Baugsstöðum og Tóftum. Aftast Ingunn Ósk og Guðný,
miðja Einar og Geiri, fremst Siggi.



Siggi á Baugsstöðum. Hann segir þetta
vera fyrstu myndina sem var tekin af honum.




Börn Siggeirs Guðmundssonar og Kristínar 
Jóhannsdóttur. Aftari röð f.v. Ásmundur, 
Sigurður og Jóhann. Fyrir framan Sigurlaug 
og Guðmundur Siggeir.

23 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (2)

Guðný og Elín Ásta
Pálsdætur.
Þetta er framhald af þessu: Að efna í aldarminningu 2 (1).

Baugsstaðir árið 1920, já. Ég tók mig reyndar til og fletti í gegnum sóknarmannatal í Gaulverjabæjarsókn frá árinu 1917 til 1947, svona til að reyna að átta mig á því fólki sem var með skráða heimilisfesti í vesturbænum á því 30 ára tímabili sem hér um ræðir.

Í árslok 1920, þegar Guðný kíkti fyrst á heiminn, voru 10 aðrir einstaklingar með heimilisfesti á bænum. 
Þetta voru auðvitað hinir nýbökuðu foreldrar Elín og Páll (32 og 33 ára), amma barnsins, Elín Magnúsdóttir (64), Krístín, systir Elínar (37) og fimm börn hennar og Siggeirs, bróður Páls: Guðmundur Siggeir (14), Jóhann (11), Ásmundur (8), Sigurlaug (6) og Sigurður (2). Loks var þarna Kristín María Sæmundsdóttir (14), Stína María, sem var dóttir Guðlaugar, systur Elínar, eins og áður hefur verið nefnt.
11 manna heimili, sem sagt.

Aðeins um Kristínu Jóhannsdóttur og börn hennar.

Kristín var með börn sín á Baugsstöðum til ársins 1922, en þá flutti hún, eftir því sem sóknarmannatalið segir, til Reykjavíkur. Hún var síðan orðin húsfreyja á Læk í Ölfusi 1927(44). Maður hennar var þá Ísleifur Einarsson (52). Þar voru þá með henni börnin Jóhann, Sigurlaug og Sigurður Siggeirsbörn
Ásmundur og Sigurlaug Siggeirsbörn og 
Guðný og Elín Ásta Pálsdætur.

Tveir synir Kristínar og Siggeirs, þeir Guðmundur Siggeir og Ásmundur urðu eftir þegar Kristín fór frá Baugsstöðum. Guðmundur var þar skráður til 1932, þá 26 ára og Ásmundur  til 1943.  
Sigurlaug flutti með móður sinni til Reykjavíkur 1923, en kom aftur á Baugsstaði árið eftir og var þar þar til móðir hennar flutti að Læk. Þar var hún síðan þar til hún kom aftur á Baugsstaði 1935 með nýfædda dóttur sína Sigríði, sem var alltaf kölluð Sigga Ísafold í mín eyru. Sigurlaug (Silla) var síðan á Baugsstöðum með dóttur sína til 1946.
Ég ákvað að setja þennan stutta kafla um Kristínu og börn hennar og Siggeirs Guðmundssonar hér, til að halda til haga hve náin tengsl voru milli þessara fjölskyldna.

Annað fólk á Baugsstöðum 1920-1947
Guðný Ásmundsdóttir, móðir Páls, lést í maí 1920, á 67. aldursári, en ný Guðný tók síðan við keflinu í október það ár, Guðný Pálsdóttir.

Elín Magnúsdóttir með
Siggeir Pálsson (líklegast)

Elín Magnúsdóttir
, móðir Elínar, fékk að njóta heldur fleiri lífdaga en Guðný. Hún lést í apríl 1944, þá rétt að verða níræð. 
Kristín María Sæmundsdóttir  (Stína María) hvarf til Reykjavíkur, 1925, þá á 19. aldursári.
Vigfús Ásmundsson kom á Baugsstaði 1922 (62) og var þar til 1932 en fór þá að Seli í Grímsnesi, þá 72 ára.  Vigfús var bróðir Guðnýjar Ásmundsdóttur og því móðurbróðir Páls. 
Vigfús var bóndi í Haga 1889-1892 og í Fjalli á Skeiðum 1892-1896. Fæddur 23. desember 1859, d. 8. nóvember 1945. Um hann segir Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi: „Tók við búi af föður sínum, hóglætismaður og drengur góður. Kona hans var Guðrún Jónsdóttir frá Minna-Núpi, systir Guðmundar á Baugsstöðum; voru barnlaus. Bjuggu allvel, en fóru eftir fá ár að Fjalli á Skeiðum. Þar hættu þau búskap er heilsan bilaði." Jón Guðmundsson í Fjalli bætir við: „Skildu barnlaus um aldamótin. Son átti Vigfús, sem var Kjartan bóndi í Seli í Grímsnesi."  (Fréttabréf ættfræðifélagsins, 1. tbl. 1. jan. 2005).

Vigfús Ásmundsson (Fúsi)

Kjartan, bóndi í Seli í Grímsnesi var faðir Árna, "Árna á Seli", sem tók síðan við jörðinni. Það voru allmikil samskipti milli Hveratúns og fólksins Seli, Árna og Ellinor konu hans. Ég vissi, minnir mig, að það væru skyldleikatengsl, en það var ekki fyrr en fyrir nokkrum árum sem ég uppgötvaði hvernig þeim var háttað.

Sveinbarn var skráð til heimilis að Baugsstöðum 1924. Í athugasemd segir að það sé frá Hellum og sé frændi. Þetta vekur forvitni, en ekki hef ég fundið frekari upplýsingar um þennan pilt.

Hólmfríður Bjarnadóttir, skráð vinnukona, var með heimilisfesti á Baugsstöðum frá 1931-1935 eða 6. Hún var 54 ára þegar hún kom og hvarf síðan á braut 59 ára. Í sóknarmannatali er skráð í athugasemd, að hún hafi komið frá Ási í Hrunamannahreppi, en síðan strikað yfir það. Í sóknarmannatali Hrunasóknar er hún skráð sem vinnukona í Ási og þar kemur fram að hún hafi fæðst í Klapparkoti í Miðneshreppi.  Þetta er rannsóknarefni.

---------------------

Jæja, gott fólk. Nú er ég búinn að tína til það fólk (fyrir utan Elínu, Pál og börn þeirra) sem litaði heimilishaldið á Baugsstöðum í þá tvo áratugi eða svo sem Guðný, móðir mín, var að slíta barnsskónum. Mér fannst nauðsynlegt að reyna að ná utan um þetta og þykist all miklu fróðari eftir.

Næst á dagskrá er síðan að fabúlera um æsku og uppvöxt Guðnýjar og systkina hennar. Sömuleiðis hef ég í hyggju að  birta myndir af persónum og leikendum, eftir föngum. Þarf bara að hitta einn mann.


FRAMHALD



20 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (1)

Fimmtudaginn 7. október, árið 1920 fæddist á Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi, stúlka sem hlaut nafnið Guðný og hún var dóttir hjónanna Elínar Jóhannsdóttur og Páls Guðmundssonar. Þetta þýðir að við blasa þau tímamót að 100 ár verða liðin frá fæðingu móður minnar, en hún lést þann 19. desember, 1992, fyrir tæpum 28 árum.
Af þessu tilefni hyggst ég tína saman eftir getu, helstu þætti í ævigöngu Guðnýjar, frá fyrstu skrefunum á Baugsstöðum til dauðadags. Hvernig til tekst verður bara að koma í ljós.

Ég hef nú alltaf átt fremur efitt með að átta mig á samsetningu íbúa á Baugsstöðum á þeim tíma sem mamma fæddist, en veit samt eitthvað og reyni að bæta aðeins við þekkinguna af þessu tilefni.

Í ársbyrjun 1918 voru þessi skráð í sóknarmannatal Gaulverjabæjarsóknar, með búsetu á vesturbænum á Baugsstöðum:
Guðmundur Jónsson, bóndi (68)
Guðný Ásmundsdóttir, kona hans (64)
   Siggeir Guðmundsson, sonur þeirra (38)
   Kristín Jóhannsdóttir, kona hans (34)
      Guðmundur Siggeir Siggeirsson, sonur þeirra (11) 
      Jóhann Siggeirsson, sonur þeirra (8)
      Ásmundur Siggeirsson, sonur þeirra (5)
      Sigurlaug Siggeirsdóttir, dóttir þeirra (3)
   Páll Guðmundsson, vinnumaður (30)
Elín Jóhannsdóttir, vinnukona (29)
Elín Magnúsdóttir, vinnukona (62)
Kristín María Sæmundsdóttir, á sveit (11)

Sóknarmannatal 1917

Það sem lesa má út úr þessum lista er, meðal annars, að á Baugsstöðum bjuggu þau Guðmundur og Guðný ásamt tveim sonum sínum, þeim Siggeiri og Páli

Siggeir var kvæntur Krístínu og þarna höfðu þau eignast fjögur börn og það fimmta, Sigurður, var á leiðinni og fæddist þann 10. mars þetta ár. 

Páll er skráður vinnumaður í sóknarmannatalinu, enda hefði mátt reikna með að eldri sonurinn tæki við búinu á Baugsstöðum í fyllingu tímans. Þarna var einnig á bænum Elín Jóhannsdóttir, systir Kristínar konu Siggeirs.  
Ennfremur var þarna móðir Elínar og Kristínar, Elín Magnúsdóttir, en eiginmaður hennar og faðir systranna, Jóhann Hannesson, varð úti 1891, en þá höfðu hann og Elín komið sér fyrir á Baugsstöðum.

Loks er nefnd í sóknarmannatalinu Kristín María Sæmundsdóttir og hún sögð vera "á sveit". Þessa konu þekkti ég og mitt fólk sem Stínu Maríu. Stína María var dóttir Guðlaugar, sem var systir Kristínar og Elínar, en auk systranna þriggja sem hér hafa verið nefndar eignuðust Jóhann og Elín fjögur börn saman og Elín eina dóttur, nokkrum árum eftir lát Jóhanns.  

Hér velti ég fyrir mér hve mörg ykkar eruð búin að gefast upp, en nú finnst mér ég var búinn að kynna nóg af persónum sem tengjast vesturbænum á Baugsstöðum, þarna í upphafi ársins 1918. Þetta ár var mikið örlagaár.

Árið 1918

Kristín og Siggeir 
á Baugsstöðum
Guðmundur Jónsson, bóndi, lést
 í byrjun febrúar, eftir heilablóðfall haustið 1917.  Þar með kom það í hluta bræðranna Siggeirs og Páls að taka við búinu.
Siggeir drukknaði síðan þann 1. desember. 
Slys. 
Það sorglega slys vildi til á Baugstöðum nálægt Stokkseyri, að ungur myndarmaður, Siggeir Guðmundsson á Baugsstöðum, var að reka kindur upp frá sjó og var lasinn, kom ekki heim um kvöldið og er leitað var fanst hann um miðjan dag daginn eftir í sjónum og vissu menn eigi hvort hann hefði dottið og rotast, eða druknað
 (Tíminn .21.12.1918)
Í Íslendingabók er þetta sagt um dauða Siggeirs: Drukknaði, sennilega féll hann niður af völdum Spænsku veikinnar.


Þarna féllu bóndinn á bænum og eldri sonurinn báðir frá á sama ári.  Kristín, skráð í sóknarmannabók sem "búandi ekkja" með 5 börn á aldrinum 0-12 ára. Páll og Elín enn skráð sem vinnuhjú, Guðný, móðir Elínar, sem ekkja og Stína María sem "á sveit".

Árið 1919

Páll og Elín á Baugsstöðum

Sóknarmannatal greinir frá því að Páll Guðmundsson (32) sé tekinn við búinu. Elín (31) er skráð sem vinnukona. Á Baugsstöðum eru nú 3 ekkjur og 6 börn. 
Einhverntíma var mér sagt að Páll og Elín hafi alist upp eins og systkini, enda jafnaldrar, feður þeirra bræður og mæður þeirra systur. Þetta gat varla endað nema á einn veg.  
Á jóladag þetta ár gengu Páll og Elín í hjónaband. 

Árið 1920                                                            

Sóknarmannatal 1920

Þetta ár verður að teljast upphafið á þessara samantekt minni í tilefni af aldarafmæli móður minnar, en eins og áður segir, kom hún í heiminn þann 7. október og var fyrsta barn hjónanna Páls Guðmundssonar og Elínar Jóhannsdóttur.

--------------------------------
Svo kemur bara meira næst.

Til athugunar:

Þann 29. september, 2018 hefði faðir minn, Skúli Magnússon, átt aldarafmæli ef henn hefði lifað. Af því tilefni tók ég saman helstu þætti í ævi hans og birti hér í 7. pistlum. 


09 september, 2020

Þetta með nafngiftir

Það er meiri og afdrifaríkari ákvörðun en margur hyggur, þegar foreldrar ákveða nöfn á börnin sín. Auðvitað getur fólk síðan ákveðið að breyta nafni sínu, ef það hefur valdið því óþægindum, en það breytir ekki mikilvægi ákvörðunar foreldra.
"Veistu hversvegna þú heitir Páll?" spurði Siggi frændi (Sigurður Pálsson á Baugsstöðum) mig í gær. Ég vissi ekki alveg hverju svara skyldi, enda augljóst öllum sem til þekkja, að ég fékk nafn afa míns. Siggi átti við það hvernig þetta nafn kom inn í fjölskylduna, yfirleitt og í framhaldinu upplýsti hann mig um það.

Afi minn, Páll Guðmundsson á Baugsstöðum fæddist þar þan 31. júlí, árið 1887.  Viku fyrir þennan merka atburð, þann 23 júli, lést presturinn í Gaulverjabæ, Páll Sigurðsson, af slysförum,  48 ára að aldri og var sóknarfólkinu mikill harmdauði.
Að Baugsstöðum kom síðan, þegar afi var nýfæddur, prestur (sem ég á eftir að staðfesta nafnið á) og hann taldi mikilvægt að nafn Páls í Gaulverjabæ fengi að lifa áfram í hinum nýfædda sveini. Guðmundur bóndi á að hafa dregið heldur úr, en presturinn gafst ekki upp og sagði að þar sem vatn væri og barn, þar væri hægt að skíra og það varð úr að afi fékk sitt nafn. (einhvern veginn í þessa veru var þatta, held ég)

Við leiði sr. Pál í Gaulverjabæ

Ég fór auðvitað að leita mér upplýsinga um þennan prest og fann í Kirkjuritinu frá 1960, erindi sem séra Magnús Guðjónsson (presturinn sem skírði mig) hafði flutt í tilefni af 50 ára afmæli Gaulverjabæjarkirkju, 1959). Magnús fjallar þarna um ýmsa presta, meðal annars Pál Sigurðsson (6. tbl. 01.06.1960, bls 263-275): 
Sá prestur, sem flestum kemur í hug enn í dag, þegar minnzt er á Gaulverjabæ, er séra Páll Sigurðsson. Hann er langkunnastur síðari tíma presta í Gaulverjabæ og gnæfir hátt yfir, að sínu leyti eins og séra Torfi um miðbik 17. aldar. Elztu menn í Gaulverjabæjarsókn muna enn andlega stórmennið og ljúfmennið séra Pál. Hann var ættaður að norðan, bóndasonur frá Bakka í Vatnsdal. Þar fæddist hann 16. júlí 1839. Hann var framúrskarandi gáfaður maður og glæsilegur. Hann vígðist að Miðdal í Laugardal, síðan fékk hann veitingu fyrir Hjaltabakka, nálægt æskustöðvunum, en fékk Gaulverjabæ 2. febrúar 1880. Þar var hann prestur til æviloka, en þau urðu allslysaleg. Hann, þessi frækni maður , „féll, er hann ætlaði að stíga á hestbak til þess að fara í embættisferð“. Sennilega hefur flísazt úr beini. Nú hefði slíkt varla orðið nokkrum manni að aldurtila.
Séra Páll var ágætiskennari, m. a. kenndi hann undir skóla Guðmundi Hannessyni, síðar prófessor, og dr. Valtý Guðmundssyni, sem kemur mjög við sögu stjórnarskrármálsins. En þekktastur er séra Páll sem skörulegur kennimaður. Er það rómur fróðra manna, að hann fylli flokk mestu ræðuskörunga, sem íslenzk prestastétt hefur átt. Ég hef lesið, að fólk hafi streymt víða að til Gaulverjabæjar til að hlýða á þennan mikla kennimann, sem var á undan sinni samtíð og flutti með sér nýjan kenningarmáta. Ekki má skiljast svo við séra Pál, að ei sé minnzt á samband hans við séra Matthías Jochumsson, en það var mikið og náið, þó að oft væri langt milli bústaða. Sagt er, að séra Matthías hafi ort einn fegursta og mesta sálm sinn: „Fyrst boðar Guð sitt blessað náðarorðið", út af ræðu, sem séra Páll hélt, þegar hann var ungur prestur í Miðdal. Kennir þar að ýmsu leyti annars kenningarmáta en síðar varð. Og sennilega hefur séra Matthías fyrst haft þau áhrif á unga prestinn. Byltingarkenndir straumar frelsis, jafnréttis og bræðralags fóru um álfuna. Þeir komust inn í guðfræðina, og eins og venja er í slíkum átökum, skolaðist margt gamalt og gott brott í bili. Ungi presturinn gáfaði hreifst með, bylting varð í huga hans, Gaulverjabær var á hvers manns vörum. Séra Páll var skemmtilega orðheppinn. Einu sinni fóru þeir séra Matthías og hann upp að Móum á Kjalarnesi, en séra Matthías var þá prestur þar. Þá spurði hann séra Pál: „Heyrðu, veiztu, hvað Esjan er þung?" Séra Páll svaraði: „Það mátt þú vita, þú býrð undir henni." Séra Páll er einnig þekktur fyrir ritstörf sín, þ. á m. er skáldsagan Aðalsteinn, sem kom fyrst út á Akureyri 1876 og nú aftur nýlega. Árið 1894 kom út húslestrarbók séra Páls, sem víða hefur verið til. Og svo er það Páskaræðan, sem haldin var í Gaulverjabæ 1885, en hún vakti mikið umtal á sínum tíma. Það, sem einkum hefur einkennt séra Pál mest, er sannleiksást, hreinskilni og einurð.

Ég hygg nú að það sé að verða fátíðara að börn séu skír í höfuð móður- eða föðurforeldra, enda tískustraumar í nafngiftum eins og öðru.

Hveratúnsfjölskyldan 1960
Mynd Matthías Frímannsson

Foreldrar mínir viku ekki hænufet frá þeirri hefð að skíra börn sín nöfnum fólks sem þeim hafði staðið næst og ég leyfi mér að gera grein fyrir því hér á eftir:

Elín Ásta (f. 1947) hlaut nöfn móðurömmu sinnar Elínar Jóhannsdóttur (1887-1980) og móðursystur sinnar Elínar Ástu Pálsdóttur (1922-1933) sem lést á barnsaldri.

Sigrún Ingibjörg (f. 1949) var skírð í höfuð tveggja kvenna sem nærri stóðu föður hennar. Þær voru Sigrún Pálsdóttir Blöndal, skólastýra á Hallormsstað (1883-1944), fóstra Skúla og móðir hans Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968).

Páll Magnús (f. 1953) hlaut nöfn beggja afa sinna, sem bendir til að foreldrarnir hafi ekkert sérstaklega reiknað með að eignast fleiri syni. Þessir afar voru þeir Páll Guðmundsson (1887-1977) og Magnús Jónsson (1887 (eða 1888)-1965).

Benedikt (f. 1956) var síðan næstur og nafnið sem honum var valið var nafn fóstra föður hans á Hallormsstað, Benedikts Magnússonar Blöndal (1883-1939).

Magnús (f. 1959). Þegar enn bættist við sonur, hljóta góð ráð að hafa verið dýr, enda nöfn allra feðra og fóstra þegar frátekin, en niðurstaða þeirra Hveratúnshjóna var, að skíra þann yngsta nafni föðurafa síns, Magnúsar Jónssonar (1887(eða 1888)-1965). Magnús afi var okkur sérlega tengdur, þar sem hann bjó hjá okkur í Hveratúni síðustu æviárin og átti fyllilega skilið að drengur fengi nafn hans sem fyrsta nafn. Jóni Vídalín  á Sólveigarstöðum mun ekki hafa fundist mikið  til um andagiftina hjá Hveratúnshjónum.

Þessi yngsti, Magnús, fagnar í dag 61s árs afmæli sínu.  Svona líður tíminn.

Magnús á síðari hluta sjöunda áratugarins. 
Á bakvið er þekktur maður ;)
Mynd frá Sólveigarstöðum





 

05 september, 2020

Laugarás: Hvað ef þetta hefði gengið eftir?


Þann 6. apríl, árið 1972 var haldinn svokallaður almennur sveitarfundur í Aratungu. Þar var meðal annars fjallað um skólamál í uppsveitunum. Á þessum tíma var Þórarinn Þorfinnsson á Spóastöðum, oddviti hreppsnefndar. Arnór Karlsson, ritari fundargerða hreppsnefndar, ritaði fundargerð þessa fundar. 
 Á þessum tíma var ég nú bara unglingsræfill sem vann við brúarsmíðar á sumrin og gekk í ML á vetrum. 
 Ætli þetta sé ekki nægilegur formáli að þeim lið í fundargerðinni þar sem fjallað var og ályktað um skólamálin. Ekki á ég von á að þetta falli öllum í geð, en hafa ber í huga, að það er tæp hálf öld síðan þetta var. 
Ég mun freista þess að skrifa lítilsháttar viðbrögð við þessu, í lokin. Feitletranir eru mínar.

 

2. Skólamál

Sveinn Skúlason, formaður skólanefndar Reykholtsskólahverfis, reifaði þessi mál.

Sagði hann frá fundi, sem haldinn var í Árnesi í Gnúpverjahreppi, fyrr á þessum vetri með skólanefndamönnum og oddvitum í uppsveitum Árnessýslu. Þar var fjallað um framtíðarskipan fræðslumála í þessum sveitum. Einnig sagði hann frá umræðum um fræðslumál, sem fram fóru á aðalfundi Sambands sveitarfélaga í Suðurlandskjördæmi 25. marz, s.l, og tillögum til umræðna um skólaskipan á Suðurlandi, sem fulltrúar Menntamálaráðuneytisins lögðu þar fram.

Þórarinn Þorfinnsson ræddi þessi mál og lagði fram frumdrög að tilllögum til samþykkta.

Þorsteinn Sigurðsson tók til máls og drap á nokkkur atriði í sögu skólamála í Biskupstungum. Hann taldi, að mörg rök mæltu með að byggður væri skóli fyrir efstu bekki skyldunámsins í Laugarási og lýsti eindregið stuðningi sínum við þá hugmynd.

Taldi hann heppilegt að stofna búnaðarskóla á Laugarvatni. Grímur Ögmundsson lýsti stuðningi við þá hugmynd.

Sveinn Skúlason tók til máls og gaf nokkrar, nánari skýringar og óskaði eftir smávægilegum orðalagsbreytingum á tillögum Þórarins.

Tillögurnar voru síðan bornar upp og samþykktar samhljóða.

Þær voru á þessa leið:

Á almennum sveitarfundi í Biskupstungum, höldnum í Aratungu 6. apríl, 1972, þar sem rætt var um skólamál í uppsveitum Árnessýslu, með hliðsjón af nýjum tillögum Menntamálaráðuneytisins um skipan fræðslu- og skólamála á Suðurlandi, var samþykkt eftirfarandi:

1. Fundinum er ljóst, að til þess að leysa fræðslumálin á viðunandi hátt á þessu svæði, verða mörg sveitarfélög að vinna saman með rekstur skóla fyrir efstu bekki skyldunámsins og telur eðlilegt að sveitir þær, sem mynda Laugaráslæknishérað, vinni saman að lausn þessa máls.

2. Fundurinn telur Laugarvatn ekki heppilegan stað fyrir slíkan skóla. Bendir í því sambandi á að Laugarvatn er alveg úti á jaðri þess svæðis sem skólann á að sækja og því lítið hægt að koma við daglegum heimanakstri, vegna fjarlægðar, en mikill heimanakstur er talinn mjög æskilegur.

Einnig er vafasamt, að heppilegt sé, að setja svo marga, ósamstæða skóla hvað aldur nemenda snertir, á einn stað, eins og er á Laugarvatni.

3. Fundurinn vill benda á Laugarás, sem heppilegan stað fyrir slíkan, sameiginlegan skóla uppsveitanna. Til stuðnings við Laugarás má nefna:

a. Laugarás er miðsvæðis, og skóli vel settur þar með tillliti til daglegs heimanaksturs.

b. Í Laugarási, sem er sameign Laugaráshéraðs, er vaxandi þéttbýli og öll nauðsynleg þægindi fyrir slíka stofnun.

c. Barnaheimili Rauða krossins í Laugarási þarf endurbyggingar við og virðist eðlilegt að samvinna væri höfð við Rauða krossinn um bygginguna, þannig að skólinn væri notaður fyrir barnaheimili að sumrinu. Nýtist þá húsið betur og rekstur þess yrði hagkvæmari.

d. Ekki er ólíklegt að einhver samvinna gæti orðið um kennslukrafta milli skólans í Laugarási og skólans sem verið er að reisa í Skálholti, þar sem svo stutt er á milli. Einnig er ekki lengra til Reykholts en það, að sami sami kennari gæti kennt á báðum stöðunum, ef það þætti henta.

 

Ég viðurkenni það, hér og nú, að ég hafði ekki búist við að sjá samþykkt af þessu tagi á almennum sveitarfundi í Aratungu. Þá neita ég því ekki, að ég hlakka dálítið til að kynna mér fundargerðabækur oddvitanefndar Laugaráslæknishéraðs þarna um vorið 1972. Því miður virðast gjörðabækur annarra sveitarfélaga í uppsveitum, frá þessum tíma ekki vera aðgengilegar á vefnum enn, en það væri fróðlegt að kynna sér hvaða samþykktir áttu sér stað þar, um þetta efni. 

Ég veit veit hvernig fór með þessa samþykkt, en mér er ekki ljóst enn, hvað leiddi til þess að svo fór sem fór. 

Það eru spennandi tímar framundan hjá þessum nörd.

02 september, 2020

Ungmennafélagsandinn í myndum

Héraðsskjalasafn Árnessýslu. Ljósmyndari
Tómas Jónssson
Sumarið 1968 mun ég hafa verið á 15. ári og búinn að öðlast þá eldskírn að eyða einum vetri í Héraðsskólanum á Laugarvatni. Þetta var landsmótsár og einhvernveginn æxlaðist það svo, að við félagarnir, ég og Pétur Hjaltason fengum að slást í för með fræknu íþróttafólki og forkólfum frá HSK, Héraðssambandinu Skarphéðni á Landsmót Ungmennafélags Íslands, sem var haldið á Eiðum. 
Það er með þessa ferð eins og svo margt annað úr fortíð minni, sem er fallið í gleymskunnar dá, allavega geymt í einhverju hólfi í heilabúinu, sem mögulega opnast eftir mörg, mörg ár. Ég reikna með  að Pétur muni þetta allt í smátriðum. En ég á nokkrar myndir.
Ég þykist viss um, að á þessum tíma hafi ég verið búinn að eignast Kodak Instamatic myndavél, og hef metið það svo, að þetta ferðalag yrði svo merkilegt, að ég yrði að splæsa í slæds-filmu. Myndirnar sem ég síðan fann áratugum seinna voru þeirrar gerðar og nokkrar þeirra þess eðlis að þeim var við bjargandi og ég fór í þann leiðangur að reyna mitt besta til að þær gætu orðið minnig um þessa merku ferð.

Ég veit að ljósmyndasafn Héraðsskjalasafns Ásnessýslu, geymir mikið af myndum úr ferðinni, flestar sýnist mér Tómas Jónsson hafi tekið.
En ég á mínar myndir, og kem þeim kannski á Héraðsskjalasafnið sem greiðslu fyrir notkun einu myndarinnar af mér úr þessari ferð, en hana tók Tómas Jónsson (sjá efst).

Eðlilega var myndum ekki spreðað á hvað sem var í þessari ferð, enda slæds-filmur og framköllun á þeim dýr. Það er því skemmtilegra að velta fyrir sér hvað unglingnum, mér, þótta hvað merkilegast myndefni.
Ég læt myndirnar tala hér fyrir neðan, en það er þetta með ungmennafélagsandann, sem hefur heldur látið á sjá, í tímanna rás. Mig grunar, að í þessari ferð, hafi hann birst mér í sinni tærustu mynd. HSK-rúturnar liðuðust eftir malarvegunum norðurleiðina, með her Héraðssambandsins Skarphéðins innanborðs. Hann var á leið í stríð, þar sem allt skyldi lagt í sölurnar fyrir sambandið. Þarna var fólk sem stefndi allt að sama marki: að lyfta sigurlaunum í mótslok og svo fór að HSK stóð uppi sem stigahæsta liðið. Einhvern veginn minnir mig, að á þessum mótum hafi hættulegasti andstæðingurinn verið UMSK.

Ekki meira um það, enda færi ég þá bara að bulla, eða vitna í fréttir dag blaða á timarit.is. Hér eru myndirnar sem mér tókst að bjarga:

Þuríður Jónsdóttir og Jón "sterki" Guðlaugsson merkja HSK-tjaldið

Það var blíðviðri. Nokkrir liðsmanna HSK: f.v Jón M. Ívarsson, Hulda Finnlaugsdóttir, Þór Jens Gunnarsson, Lilja Lindberg, Kristín Stefánsdóttir, Guðmundur Guðmundsson, Unnur Stefánsdóttir 
(Jón M. Ívarsson aðstoðaði við að nafngreina fólkið á myndinni)

Jón "hlaupari" Sigurðsson frá Úthlíð. Einn merkasti fulltrúi Tungnamanna.

Mótssetning. Fremst er Tómas Jónsson, sem hljóp þvers og kruss með myndavélina.

Gengið til mótssetningar. Glæsilegur var hópurinn, í einkennisbúningum sínum.

Stefán Jónsson, fréttamaður (pabbi hans Kára) að taka viðtal við Hafstein Þorvaldsson

Tjaldbúðir HSK

Það var safnast saman á kvöldin og farið yfir afrek dagsins, sungið og leikið.

Markús Ívarsson á herðurm Guðmundar Steindórssonar, skellir merkingu á HSK-tjaldið.





30 ágúst, 2020

Umferðarskipulag og lögbrot því tengd.

Svæðið sem um er fjallað.
Já, ég viðurkenni það alveg: ég á það til að nota þennan vettvang til að tjá mig um það sem gæti verið betra og það ætla ég að gera núna líka. Ég er nú tiltölulega nýfluttur hingað á Selfoss, í Sveitarfélagið Árborg. Ég er nú bara harla ánægður með lífið og tilveruna og fagna því að kynnast nýju umhverfi, nýju fólki og nýjum áskorunum. Við erum flutt hér í afar skemmtilega íbúð og erum nánast hætt að þurfa að nota bíl, svo Qashqai stendur að mestu ónotaður úti á hlaði.  Fólkið sem býr hérna í kringum okkur hefur, til þessa, reynst vera vel innréttað og hefur vísast marga fjöruna sopið og fátt sem það hefur ekki reynt á langri ævi.

Ég væri nú að kríta liðugt, ef ég neitaði því að ég saknaði kyrrðarinnar, umhverfisins, fólksins og fuglanna. Sannarlega er það sem betur fer, of svo, að breytingar kalla fram söknuð. Ef maður saknaði einskis frá liðnum tíma, hefði sá tími nú verið lítils virði.

Ég hef einsett mér að hverfa í rólegheitum í fjöldann og sinna mínu; leyfa öðrum að lifa sínu lífi í friði og bæjarstjórninni að þurfa ekki að þola gagnrýni af minni hálfu.  Ég ætla bara að reyna að vera góði, ljúfi karlinn, af fremsta megni. Ég á þó ekki von á öðru en að ég sjái ástæðu til að minnast á hitt og þetta, bæði það sem mér finnst jákvætt og það sem mér finnst að betur megi fara, svona eins og gengur.

Málefnið sem ég tek fyrir núna, er mögulega eitthvað sem ekkert verður gert við úr því sem komið er, allavega eru ekki nein teikn á lofti um að það fái úrlausn sem allir geta sætt sig við.  
Hér er um að ræða:

Aðgengi fyrir akandi umferð að Pálmatrésblokkunum hér á Selfossi.

Ég tók mig til og teiknaði þetta svæði upp og myndina þá má sjá hér efst. Þarna hef ég reynt að setja inn umferðarmerkingar eins og þær eru nú og glöggt auga sér fljótt, að þar er að ýmsu að hyggja.  Hinumegin við Austurveginn (sunnan megin) er slatti af þjónustufyrirtækum sem kalla á að aðgengi sé tryggt. Þess bera götumerkingar glögg merki. Þetta þýðir, að samsvarandi aðgengi að húsunum hinumegin (norðan megin) við Austurveginn, getur ekki orðið með sama hætti.
Til þess að koma akandi inn á áhrifasvæði húsanna þriggja sem þarna eru, þarf að koma akandi austan að, eða til dæmis frá Laugarási um Skeiðaveg. Sé maður að koma hinumegin frá, til dæmis frá Stokkseyri, er um tvennt að ræða, ef maður ætlar að fylgja umferðarlögum: 1. Aka alla leið að hringtorginu sem austast er og síðan til baka til vesturs. 2. Aka inn á athafnasvæði fyrirtækjanna sunnan götunnar og svo þaðan út á Austurveginn hjá N1num til vinstri. Sætti maður sig við að brjóta lög og taka áhættuna af því að sleppa frá tiltækinu, beygir maður inn, yfir óbrotna línu og brotalínu. Ég viðurkenni, að þessa áhættu tek ég ítrekað.

Rauðu örvarnar sýna það sem ekki má og það sama má segja um rauða krossinn.

Til þess að aka löglega frá þessum húsum, þarf maður að vera að vesturleið, t.d. eiga erindi í Hveragerði, eða taka Grímsnesið upp í Laugarás. Ætli maður upp Skeiðin þarf að beygja til vesturs og aka síðan um hringtorgið við Ölfusárbrú, áður en stefnan er aftur tekin til austurs. 

Grænu örvarnar sýna það sem má þegar ekið er frá húsunum eða að þeim.

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að þegar gefið var leyfi fyrir byggingu þessara húsa, hafi verið unnið deiliskipulag eins og lög gera ráð fyrir. Ég hef reyndar ekki séð það skipuleg. Það er ekki augljóst hvernig þessi umferðarmál verða leyst svo öllum líki, hérna í kringum okkur..




24 ágúst, 2020

Reykjadalur: Það sem ég átti kannski ekki að gera, en ...

Ekki næstum komin upp, en við blasir útsýnið til sjávar.

"Það er bara bratt rétt til að byrja með og síðan er þetta bara nánast jafnslétta"
. Þetta er um það bil orðrétt haft eftir börnum okkar fD sem gengu í Reykjadal þann 8. þessa mánaðar. Það var á grundvelli þessa, sem ég, með gildandi veðurspár bak við eyrað, stakk upp á því í fyrradag, við fD, að það væri ekki óvitlaust að ganga í þennan Reykjadal, sem er upp af Hveragerði. Uppástungan fékk betri undirtektir en ég hafði vonast til, enda eru fjallgöngur og hafa verið, í litlu uppáhaldi hjá mér gegnum tíðina. Ég hét því, meðal annars, eftir göngu á Vörðufell fyrir nokkrum árum, að gangan sú skyldi verða mín síðasta fjallganga.
"Úr því þetta er svo létt ganga sem sagt var, eigum við þá ekki að fara með einhverja dalla til að tína ber á eftir?" stakk fD upp á, en ég brást nú ekkert sérlega vel við þeirri tillögu; taldi svo sem ekkert gera til að taka með einhver ílát, svona ef gangan yrði nú ekki nægilega krefjandi.

Einhversstaðar þarna uppi, en á niðurleið.

Segir ekki meira af þessu máli fyrr en við vorum komin á bílastæðið sem markar upphaf göngu í Reykjadal. Ég horfði upp eftir fjallinu sem blasti við, og neita því ekki, að það fór lítillega um mig. Ekki var um að ræða að snúa bara við, því, eins og fD ítrekaði á flestum tuga áningastaða á leiðinni upp, þá myndi slík uppgjöf sitja í okkur það sem eftir væri ævinnar. Í hljóði voru viðbrögð mín við þeirri möntru þau, að það væri bara í góðu lagi að sjá eftir einhverju alla ævi, því þegar ævinni lyki yrði ekkert lengur til: engin eftirsjá, ekkert. Þar með væru allar ástæður til eftirsjár foknar út í veður og vind. Nei, ég hafði ekki orð á því, en lét teymast áfram á þessum eftirsjár grundvelli. 
Jú, það var sannarlega bratt fyrst, þá 10 metra jafnslétta, þá enn meiri bratti, svo næstum því jafnslétta nokkur skref áður en meiri bratti tók við. Eftir því sem fleiri brattar brekkur voru lagðar að baki, fjölgaði áningarstöðunum, oft undir því yfirskini að ég væri að dást að útsýninu, með lofthúsið í Hveragerði, sem glitraði á í ágústsólinni, hafið fyrir utan Ölfusárósa og bílakeðjuna sem brunaði upp og niður Kambana, fyrir augum.  
Andlega tók einna mest á þegar kom að beygjum á slóðanum og maður var búinn að sjá fyrir sér enda brattans og framundan jafnsléttuna, en í staðinn blöstu við fleiri brattar, sem prjónuðu sig einhvernveginn til himins. Ég var jafnvel farinn að ímynda mér að þangað lægi leið mín ef áfram héldi sem horfði. 

Náttúrustemning.

Á þessari leið inn í Reykjadal má segja að það sé "bratt alla leið nema rétt síðast". Því naut ég þess þegar síðasti brattinn var frá, að leggjast endilangur í mosató, horfa til himins, sem ég reyndist þá ekki vera á leið til, eftir allt saman og dást að sjálfum mér fyrir að hafa ekki gefist upp, heldur barist allt til enda. 

Baðalækurinn

Síðasti hluti þessarar göngu upp að baðalæknum, þar sem fólk lá eins og hráviði og naut hitans og veðurblíðunnar, var létt og löðurmannleg. Því neita ég ekki, að umhverfið þar og reyndar alla leiðina þarna uppeftir, er sérlega fagurt, í það minnsta það sem ég sá þegar ég gaf mér stund til að hugsa um annað en aumingja mig. 

Sönnun þess að þarna fórum við.

Ekki fórum við fD í lækinn, heldur nutum þess að leggjast fyrir um stund, láta líða úr okkur, fylgjast með mannlífinu og hugsa til göngunnar til baka, en óhjákvæmilega beið hún okkar.

Ég neita því ekki að mér fannst nú brekkurnar upp á við, vera heldur margar á niðurleiðinni, en á heildina litið, segir fátt af þeirri för. 
Mig langaði að stökkva og hrópa þegar ég var kominn niður á jafnsléttu, áfallalaust, en ákvað að láta það vera, enda stöðugur straumur fólks sem var að hefja gönguna þarna, og ég veit að fD hefði ekki tekið slíkum gleðilátum fagnandi.

Hungrið var farið að sverfa að þegar niður var komið og ég sá fyrir mér að setjast inn á veitingastað þar sem við gætum snætt aðalmáltíð dagsins og fagnað þeim hetjuskap sem við höfðum sýnt. Okkur var vísað til sætis á þekktum veitingastað í Hveragerði, afhentir matseðlar og síðan ekki söguna meir. Við biðum eftir að fá frekari þjónustu, en hún kom bara ekki innan þess tíma sem við treystum okkur til að bíða.  Við ísbúðina var biðröð langt út á götu og það sama var uppi á teningnum í bakaríinu þar sem við höfðum sæst á að fá okkur súpu og brauð. Í bónus var allt búið sem kalla mátti samlokur og það sama var uppi á teningnum á bensínstöðinni. Þá vorum við komin talsvert langt frá upprunalegum hugmyndum um gómsæta máltíð á veitingastað og fengum okkur innpakkaðar kökur á bensínstöðinni og orkan sem fékkst úr þeim skilaði okkur heilu höldnu heim í kotið. 

Það getur einhver skilið mig sem svo, að þessi fjallganga hafi bara verið hið versta mál, en það var hún sannarlega ekki og ég sé hreint ekki eftir að hafa lagt þessa tæplega 10 km gönguferð að baki á einstökum dýrðardegi.  Það sem ég er að koma á framfæri með þessum skrifum, er sú staðreynd að ég er ekki byggður fyrir fjallgöngur. Annað var það nú ekki.

Ég hef efast um hvort það sé gáfulegt að setja hér inn sjálfu af okkur fD á þessari gönguför. Ég hef ákveðið að gera það samt. Hún er þannig til komin, að við stilltum okkur upp þannig að í bakgrunni væru fallegir fossar þarna í Reykjadal. Niðurstaðan varð, eins og sjá má: engir fossar og fD með lokuð augu, enda ekki nema von í glampandi sólskininu, eða kannski vegna þess að undir niðri vildu hún bara ekkert vera á þessari mynd, svona "out og sight, out of mind" dæmi. Ég auðvitað, eins og ávallt, sjálfuöryggið uppmálað.


Það varð ekkert úr berjatínslu. Annað reyndist mikilvægara.

20 ágúst, 2020

Ég og Galdra-Imba

Sæbjörg Jónasdóttir (1871-1946) og Björn Sigurðsson (1864-1900) ásamt börnum sínum: Haraldi (1896-1908) og S. Ingibjörgu (1893-1968).
Sæbjörg Jónasdóttir (1871-1946) og Björn Sigurðsson
(1864-1900) ásamt börnum sínum:
Haraldi (1896-1908) og S. Ingibjörgu (1893-1968).
Þau eignuðust tvö önnur börn: Guðrúnu Björgu
(1892-1895 og Sigurbjörgu (1898-1898).
Myndin er líklegast tekin 1896.
Sjálfsagt á ég það sammerkt með mörgum núlifandi Íslendingum, að vera kominn af fólki sem á að hafa fiktað við, eða ástundað galdra. Ég er nú kominn aðeins nær sannleikanum um hvernig því er háttað í mínu tilfelli.
Faðir minn hét Skúli Magnússon, eins og ýmsum er kunnugt.  Foreldrar hans, afi minn og amma, voru þau Magnús Jónsson og Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir. Þau voru bæði Austfirðingar í húð og hár, langt aftur í ættir. Fólk virðist ekkert hafa verið sérstaklega mikið í því, áður fyrr, að sækja sér maka út fyrir sína sýslu eða landsfjórðung.
Hvað um það, Ingibjörg amma mín tengir mig við galdra.
Nú ætla ég að freista þess að lýsa þessum tengslum, en fyrst að greina aðeins frá langömmu minni og afa, þeim Sæbjörgu og Birni, sem bjuggu á Álfhól á Seyðisfirði þegar þau eignuðust börn sín. Fyrst Guðrúnu Björgu sem dó rétt fyrir þriggja ára afmælisdaginn sinn, Sigríði Ingibjörgu, ömmu mína, sem ein barnanna lifði til fullorðinsára, Harald sem dó tólf ára og Sigurbjörgu, sem lifði í nokkra daga. 
Björn lést árið 1900 frá konu sinni og tveim börnum og upp úr því var Ingibjörg send í fóstur til ömmubróður síns, Páls Geirmundssonar og konu hans Guðfinnu Guðmundsdóttur í Litluvík, sem er sunnan Borgarfjarðar (eystri). 
Ég læt þetta duga í bili, enda yfirlýstur tilgangur minn með þessum skrifum að fjalla um ættartengsl mín og hennar Galdra-Imbu.

1. Amma mín var, sem sagt Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir.
2. Faðir hennar var Björn Sigurðsson, sem bjó á Álfhól í Seyðisfirði, átti Sæbjörgu Jónasdóttur.
3. Móðir Björns var Ingibjörg  Geirmundsdóttir  átti  Sigurð bónda Þórarinsson.

4. Móðir Ingibjargar var Sigríður Jónsdóttir sem var kona Geirmundar Eiríkssonar og þau bjuggu í Stóru-Breiðuvík í Borgarfjarðarhreppi.
5. Faðir Sigríðar var Jón Ögmundsson, kvæntur Þórdísi Árnadóttur og þau bjuggu á Hólalandi í Borgarfirði.
6. Faðir Jóns var Ögmundur Oddsson, sem var kvæntur Guðfinnu Einarsdóttur. Þau bjuggu í Stóru-Breiðuvík í N-Múlasýslu. 
7. Faðir Ögmundar var Oddur Guðmundsson sem var kvæntur Þuríði Jónsdóttur.
Ættin sem er  frá honum komin hefur verið kölluð Galdra-Imbu ætt.
8. Móðir Odds var Þuríður Árnadóttir sem var kona Jóns Ketilssonar. Þau bjuggu í Nesi í Loðmundarfjarðarhreppi (1703). 
„Haldin ekki síður göldrótt en móðir hennar“, segir Espólín. „Þótti væn kona og kvenskörungur“, segir Einar prófastur. (Íslendingabók)
9. Móðir Þuríðar var sjálf Galdra-Imba, Ingibjörg Jónsdóttir, sem var fædd um 1630.
Var kennd við fjölkynngi og kölluð „Galdra-Imba“. Lærði að sögn galdra hjá Leódagaríusi eða Leka. (Íslendingabók)
Magnús Jónsson (1887-1965) og S. Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968) - afi minn og amma. 

Í 5. bindi bókaflokksins Ættir Austfirðinga er fjallað um formóður mína hana Galdra-Imbu og afkomendur hennar. Þar sem ég veit um fólk sem helst vill sem minnst lesa fræðilega ættfræðitexta, hef ég reynt að einfalda þessa frásögn eftir mætti, en hvort það er nóg, verður að koma í ljós.

Galdra-Imba

Ingibjörg Jónsdóttir, er kölluð hefur verið Galdra-Imba‚ var dóttir Jóns prests Gunnarssonar á Tjörn í Svarfaðardal‚ er þar var orðinn prestur 1619 og hefur víst verið þar prestur fram undir 1653. Hefur Ingibjörg verið fædd þar á því tímabili snemma‚ eða jafnvel fyrir 1619. Líklegast er þó‚ að hún sé fædd milli 1619 og 1630, því að Árni‚ maður hennar er orðinn prestur 1650, og Þuríður dóttir þeirra er fædd um 1660.

Ein sögn er sú um Ingibjörgu, að þá er hún var á barnsaldri hjá föður sínum‚ hafi hann eitt sinn sett hana á kné sér og kveðið þetta við hana:

Augun eru eins og stampar, 
í þeim sorgarvatnið skvampar,
ofan með nefinu kiprast kampar
kjafturinn eins og á dreka. 
Mér kemur til hugar‚ kindin mín‚
að koma þér fyrir hjá Leka.

Mynd af vef Landsbókasafns.
Leki þessi var nafnkunnur galdramaður. Var Ingibjörgu síðan komið fyrir hjá honum til náms‚ þegar hún hafði aldur til‚ og varð þar vel fær í fjölkyngi.

Þá er faðir hennar var prestur á Tjörn‚ var sá prestur á Völlum‚ gegnt Tjörn‚ er Jón hét Egilsson (1622—1658, vígður 1615, dáinn 1660), 

Sonur Jóns prests á Völlum og Þuríðar Ólafsdóttur hét Árni. Hann varð prestur til Rípur og Viðvíkur 1650, fékk Fagranes 1669 og Hof á Skagaströnd 1673. Kona séra Árna var Ingibjörg Jónsdóttir á Tjörn, Galdra-Imba.
Þá er þau voru á Hofi á Skagaströnd var séra Árni borinn galdri um 1680 og dæmdur tylftareiður. Var kona hans þó sökuð miklu meira um galdur af almenningi en hann. Þá strauk séra Árni til Englands. Ingibjörg kona hans elti hann og rakti slóð hans til sjávar í Loðmundarfirði. Kvaðst hún eigi hafa vitað af er hann strauk. Hún staðnæmdist síðan eystra og eru ýmsar sagnir um fjölkyngi hennar. Hún var síðast hjá Þuríði dóttur sinni á Nesi í Loðmundarfirði fyrir 1703. 


Börn séra Árna og Ingibjargar voru Gunnar, Gísli‚ Margrét‚ Þuríður. 
Þuríður, dóttir Árna prests og Galdra-Imbu átti Guðmund son Odds bónda í Húsavík Jónssonar úr Reyðarfirði, bjuggu á Nesi í Loðmundarfirði. Þeirra börn voru Jón, Oddur og fleiri.

Það bar til einn páskadag, að Oddur Guðmundsson var að leika sér og lét fremur ósiðsamlega. Sló þá faðir hans hann og kvað ljótt‚ hvernig hann hagaði sér. Galdra-Imba var þar þá hjá þeim Guðmundi. Féll henni þetta illa‚ því að Oddur var hennar eftirlæti. Kvað hún þá óvíst‚ að Guðmundur yrði oft til að berja hann.
Fé var niðri í Hellisfjörum og var lausasnjór mikill í bakkanum. Guðmundur gekk ofan í fjöruna til kinda sinna. Þuríður vissi af ferðum hans‚ settist á hlaðvarpann og starði ofan á bakkann.
Þá bar að ferðamann nokkurn, er var kunnugur Þuríði‚ og bað hana gefa sér að drekka. Hún kvaðst skyldu gera það eftir litla stund. Hann spurði hvað hún væri að stara‚ og bað hana gefa sér strax að drekka. Hún kvaðst ekki gera það strax. „Það er þó ef þú tímir ekki að gefa mér að drekka“, sagði hann. Hún styggðist við‚ sagði‚ að hann skyldi að vísu fá að drekka‚ en hún mundi ekki hljóta gott af því. Hljóp hún inn og kom að vörmu spori aftur með drykkinn. Þá sá komumaður‚ að Guðmundur kom upp á bakkabrúnina, en þá hljóp bakkinn allur með Guðmund út að sjó. Þuríður kvað hann nú sjá hvað hlotizt hefði af áfergju hans. Hún þótti væn kona og kvenskörungur. Hún bjó ekkja á Nesi í Loðmundarfirði 1703, 43 ára‚ og voru þá hjá henni synir hennar Jón (19) og Oddur (15).

Oddur Guðmundsson, f. um 1688, sonur Galdra-Imbu, bjó á Nesi við Loðmundarfjörð góðu búi‚ átti Þuríði (f. um 1696) Jónsdóttur frá Brimnesi Ketilssonar. Þ. b.: Jónar 2, Guðmundur, Ögmundur, Tómas  Snjólfur,  Málfríður, Guðrún.
Það er sérstaklega ættin frá Oddi‚ sem kölluð hefur verið GALDRA-IMBU ÆTT.
Ögmundur Oddsson frá Nesi  bjó í Breiðuvík í Borgarfirði, átti  tvær konur. Síðari kona hans var Guðfinna Einarsdóttir frá Úlfsstöðum (f. um 1744). Börn þeirra voru Jón‚ Guðmundur bl., Sigríður, Sigríður önnur bl., Arndís bl., Steinunn, dó 18 ára 1791. Ögmundur dó 1790, 67 ára.  Hann mun hafa átt 17 börn.

Jón Ögmundsson var langa langafi ömmu minnar, Ingibjargar. Ekki hefi ég haft af því fregnir, eða séð þess merki neinsstaðar, að þessir forfeður mínir eða formæður hafi lagt stund á galdra eftir að þær mæðgur Ingibjörg og Þuríður áttu leið um jarðlífið. 


Þetta er að finna um Galdra-Imbu 
í tímariti Sögufélags,  Sögu, 1. tbl. 1954 bls 46-58



Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...