06 október, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (8)

Þetta er framhald af 1  2  3  4  5  6 7 

Ég giska á að þessi mynd gæti verið tekin nálægt
þeim tíma sem Guðný hvarf úr foreldrahúsum.
Guðný með Elínu, móður sinni.
(mynd frá Baugsstöðum)
Það má segja að það sé þakkarvert, að síminn tók ekki algerlega yfir yfir í samskiptum milli fólks þarna til að byrja með. Hann var kominn á Baugsstaði á krítískum tíma í lífi Guðnýjar og Skúla í byrjun árs 1946, en var tveim stórum annmörkum háður. Annarsvegar var sambandið stundum afar lélegt og hinsvegar gat fjöldi manns hlustað og því þurfti að tala varlega. Þarna var Guðný á Baugsstöðum og símstöðin í Gaulverjabæ og Skúli á S.-Reykjum með símstöð á Torfastöðum. Í bréfi þann 12. mars, segir Skúli: 

 Símtalið áðan. Þetta var annars ljóta sambandið. Ég komst bókstaflega í illt skap vegna þess, enda að vonum, þar sem ég þurfti að tala af öllum kröftum og var það þó varla nægilegt. Það er nú víst allt í lagi með símann hjá þér, eftir því sem Áslaug segir. Hún ætlaði að tala við Rvík rétt áður og sagði að varla hefði heyrst nokkuð til hennar. Samkvæmt þessu eru mistökin sennilega hérna megin, en það er auðvitað jafn afleitt fyrir okkur. Ekki þykir mér líklegt að við getum notað símann að nokkru gagni, jafnvel þótt hann sé í lagi, vegna þess, að ég hef ekki skap til að láta 10 - 15 eða 20 manns hlusta á það sem ég myndi, undir venjulegum kringumstæðum segja.


Nú sit ég hér, áratugum síðar, og þakka fyrir þetta lélega símasamband. Án þess væri þetta allt snúnara hjá mér.

Þann 9. desember, 1945, birtist þessi auglýsing í Morgunblaðinu:


Þarna er um að ræða gróðrarstöðina sem Skúli vísar síðan til, í bréfi, sem "Lemmingsleifarnar" og sem átti eftir að breyta ýmsu.

Áður en lengra er haldið finnst mér rétt, að setja Laugarás í aðeins meira samhengi:

Sumardvalarheimili.
Fyrr á árinu 1945 upplýsti Rauði krossinn um fyrirætlanir sínar um að byggja sumardvalarheimili fyrir reykvísk börn. Heilmikil grein birtist um þetta í Þjóðviljanum og fleiri blöðum, í apríl.

Þjóðviljinn 14. feb. 1945
Það má finna umfjöllun um þetta sumardvalarheimili á vefnum laugaras.is, HÉR

Héraðslæknir
Á þessum tíma var Ólafur Einarsson héraðslæknir í Laugarási, en viðtal við fjögur barna hans og Sigurlaugar Einarsdóttur má finna á vefnum laugaras.is HÉR.




Náttúrulækningafélagið
Loks rak Náttúrulækningafélag Íslands gróðrarstöð í Laugarási, en það reyndist stutt gaman. Fjallað er um þessa gróðrarstöð á laugaras.is, HÉR. Í Tímanum er grein frá áformum NLFÍ þann 23 nóvember, 1946:
Garðyrkjustöð mun verða sett upp í Gröf á næsta ári á vegum hlutafélagsins Gróska h.f., sem er eign NFLÍ og nokkurra félagsmanna. Stöð félagsins í Laugarási verður seld, en hin nýja mun halda áfram að sjá Matstofunnl fyrlr grænmeti og svo heilsuhælinu sjálfu, þegar þar að kemur. 


En, aftur að Guðnýju og Skúla og þeirra framtíðarplönum.

Við erum, sem sagt komin til fyrri hluta árs 1946 með söguna og unga parið er farið að hugsa alvarlega um hreiðurgerð. Þau hafa greinilega rætt ýmsa möguleika sín í milli, bæði í heimsóknum og að einhverju leyti í símtölum, en það er ekki fyrr en í bréfi frá Skúla þann 26. mars, sem birtist eitthvað sem hönd á festir:

Næst þegar ég skrifa get ég vonandi eitthvað sagt þér um Lemmingsleifarnar. Dálítið hef ég kvefast við þessa Rvíkurför, en samt er ég varla þungt haldinn.

Fyrir okkur sem vitum lengra en nef okkar nær, þá voru umræddar Lemmingsleifar, fremur hrörlegt garðyrkjubýli í Laugarási, sem Daninn Börge Jóhannes Magnus Lemming og kona hans Ketty höfðu komið sér upp. Þegar þarna var komið voru þau Skúli og Guðný farin að líta til þess að kaupa það af bankanum, enda mun Lemming hafa rekið það í strand. Það er nokkuð ítarleg umfjöllun um Lemming fjölskylduna á Laugarássíðunni undir þessum hlekk.
Það er ekki hægt að segja annað en að Guðnýju hafi litist rúmlega sæmilega á hugmyndina um að setjast að í Laugarási:
Guðný 27. mars - á Baugsstöðum
Ég er alltaf að vona að þér lítist á staðinn, sem þú varst að tala um, um daginn.Ég hef, satt að segja, mikinn áhuga fyrir honum. Og mér finnst að þar muni okkur geta liðið vel. Þar erum við frjáls og áháð öðrum. Og þú ert svo duglegur og ég mun reyna að hjálpa þér. Ég ætla að hafa nokkrar hænur, svo við höfum egg að borða, Svo getum við haft svolitla garða. Æ, ég hugsa svo margt í sambandi við þetta og þó þetta sé í ólagi og niðurníðslu, þá ættum við að geta reist það við fljótlega. Mér finnst að þetta yrði okkur tryggari staður, en ef þú yrði hjá Stefáni........
Páll bóndi á Baugsstöðum, 1962

Pabbi fór að spyrja mig um hvað gengi í sambandi við tilvonandi bústað okkar og sagði ég honum þá eins og var. Hann varð himinlifandi og honum fannst að þetta væri góður staður fyrir okkur. Sagðist hefði viljað skoða þetta með þér og mér og mér heyrðist á honum að hann skyldi hjálpa okkur eins og hann gæti. Og honum þótti stór kostur að bankinn átti þetta, þá væri öðru máli að gegna. Og líka ef þessi gróðurhúsaræktun ætti ekki framtíð, væri eins um alla aðra framleiðslu.
Ég er tilbúin að koma til þín hvenær sem er og gæti skaffað mann þér til aðstoðar - Geira eða Sigga, ef með þarf.

Í eftirskrift segir Guðný Skúla að taka þetta ráðslag hennar ekki of alvarlega, heldur gera það ssem honum sýnist réttast; hún muni verða alveg sátt við það.

Ekki get ég séð að faðir minn hafi átt auðvelt með að standast það sem þarna kom fram, en hann virðist samt ekki hafa verið nægilega ákveðinn til að taka stökkið, si svona. Hann vildi hugsa sinn gang, svona eins og Hveratúnsmenn gera:

Skúli, 2. april - á Syðri-Reykjum
Mér þótti mjög gaman að heyra, betra að segja, sjá álit þitt á tilv. búskaparháttum okkar. Í raun og veru erum við alveg sammála. Helst vildi ég hafa mitt kot út af fyrir mig og vera engum háður hvað atvinnu snertir. Konungur vill sigla, en byr verður að ráða. Það er nú einu sinni svo, að ekki er allt heppilegast sem maður vill þegar á allar hliðar málanna er litið, þó er sagt, og eflaust er það rétt, að viljinn sé fyrsta og æðsta skilyrði þess að sigur vinnist í hverri raun.
Mikið sé ég eftir því nú, að hafa ekki fest mér Laugarásfyrirtækið um daginn, þegar ég talaði við umboðsmanninn. Það var nú svona, ég vildi athuga minn gang, en ekki flana allt blindandi.
Ég hringdi til [...] (umboðsmannsins), þegar ég kom að Torfastöðum frá þér, í þeim tilgangi að biðja hann að fresta sölunni um stundarsakir. Þá stóð þannig á, að aðrir voru búnir að fresta henni á meðan þeir athuguðu málið, og hann bað mig því að gera sér aðvart síðari hluta vikunnar. Þetta gerð ég með því að senda Elís Pétursson á hann um síðustu helgi. Þá var nú karlinn fullur og ekki auðtalað við hann, en samt fékk Elli það frá honum, að ekki væri full útkljáð með söluna ennþá. 
Siggi bílstjóri fer á morgun og ætlar hann að athuga þetta nákvæmlega fyrir mig og festa það ákveðinn tíma, sé það ekki þegar selt.
Eðlilega varstu dálítið undrandi á þessari deyflu minni, að ég skyldi ekki vera búinn að skoða Laugarás. Orsökin var nú sú, sem ég hef þegar greint. Þó að þessi fyrirhuguðu áform mislukkist, sem er eins líklegt og hitt, þá trúi ég því, að maður geti einhversstaðar  holað sér niður, en ánægður þó, með tilveruna þegar stundir líða. 
Gott var, að pabbi þinn skyldi vera ánægður með þessa hugmynd í sambandi við Laugarás. Það er alltaf örvun ef reyndir og nýtir menn leggja jákvæð orð til málanna.
Ég hef talað við Stefán bónda um þetta ráðabrugg mitt. Hann sagði að það væri afleitt að missa mig, einkum um þennan tíma, en siðferðilega gæt hann ekkert við því sagt, fyrst svona stæði á.

Með góðri samvisku held ég að ég geti haldið því fram að með þessum bréfaskriftum sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu, að steininum hafi verið kastað. Þau Guðný og Skúli festu kaup á Lemmingslandi í því ástandi sem það var, vorið 1946 og hófu þar líf sitt saman, engum háð, nema bankanum og öllum víxlunum sem þurfti að samþykkja.

Um líf þeirra í Hveratúni fjölyrði ég ekki, umfram það sem ég skrifaði um pabba fyrir rúmum tveim árum.

Ég bendi einnig að umfjöllun um Hveratún á Laugarássíðunni. 

Svo bendi ég að viðtal Geirþrúðar Sighvatsdóttur við pabba, sem birtist í Litla Bergþór og sem ég fékk að birta á Laugarássíðunni, margnefndri.

Ég hyggst svo reyna að setja frá mér nokkur orð um móður mína á afmælisdegi hennar á morgun, 7. október.



FRAMHALD

05 október, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (7)

Þetta er framhald af 1  2  3  4  5 6 

Ég gekk nú alltaf út frá því sem gefnu, að foreldrar mínir hafi kynnst á Hallormsstað, enda þar bæði á sama tíma. Nú veit ég aðeins betur og aðeins vegna þess að þau tóku að skiptast á myndum á fyrri hluta árs 1945. 

Mikið þykir mér vænt um myndina af þér, ..... Mér þykir verst að ég á enga litla, sæta til að senda þér. En ég sendi þér þá beztu sem ég á - af minni sortinni. Þú færð stærri þegar þú kemur að heimsækja mig. Á þessari mynd er ég 17 ára gömul námsmey á Hallormsstað. Mér finnst vel viðeigandi að senda þér hana. Þá sá ég þig fyrst. Ég man ennþá eftir þér þar sem þú sast á móti mér við borðið hjá Guðrúnu Jens[*]. Manst þú eftir því? Ekki datt mér í hug þá að ég ætti nokkurntíma eftir að kynnast þér. - Mér finnst satt að segja hálf skrítið hvað við erum orðin góðir kunningjar allt í einu. Við sem vorum svo ósköp feimin hvort við annað. Allt "Saklausa svallaranum" að þakka. Mikið er ég honum þakklát. Já, og henni Ingu, að hún skyldi eignast barn og fá mig til að hjúkra sér.
* Guðrún Jensdóttir kenndi matreiðslu, hússtjórn og matarfræði í eldri deild og ræstingu í báðum deildum, allavega þegar skólinn tók til starfa 1930.

Eins og er með sendibréf milli fólks, þá fjalla þau oft um sameiginlega reynslu utan bréfasendinga og því allskyns tilvísanir sem erfitt getur verið að ráða í.  Ég ætla samt að reyna að útskýra fyrir sjálfum mér og ykkur hinum hvernig þetta var.
Ingunn Ósk, margnefnd, var fædd 1917 og því þrem árum eldri en Guðný. Hún fór til náms að Hallormsstað haustið 1936, var síðan við nám í tvö ár, en starfaði síðan við skólann veturinn 1938-9. Guðný kom hinsvegar í skólann haustið 1937, eins og áður segir og var þar í tvo vetur og lauk námi vorið 1939.
Skúli Magnússon var í Menntaskólanum á Akureyri veturna 1936-7 og 1937-8 og lauk þaðan gagnfræðaprófi. Hvar hann ól manninn veturinn 1938-9 (síðari veturinn sem Guðný var á Hallormsstað), bara hreinlega veit ég ekki. Varla hefur hann verið á Hallormsstað því ef svo hefur verið þá ættu þau nú að hafa rekist oftar hvort á annað en einu sinni sitthvorumegin við matarborð.  Guðný var 17 ára frá október 1937 til október 1938, en þá segir hún þau hafa sést fyrst.

Svo er það með tilvísunan í "Saklausa svallarann", sem ég átta mig ekki alveg á. Finnst ég hafa heyrt af því að þau hafi hist þar sem þetta leikrit var sýnt í Þykkvabæ á einhverjum tíma og hafi þar rifjað upp sameiginlega dvöl á Hallormsstað. Um þetta er ég hreint ekki viss. Það getur vel verið, að tilvísunin sé miklu dýpri og vísi til aðstæðna þar sem þau hittust og þar sem "saklausi svallarinn" hafi verið tekinn til bæna. Hvað veit ég, allavega eru víst fáir eða engir til frásagnar um hvernig þetta gerðist.  Ég gekk meira að segja svo langt að leita á timarit.is að auglýsingumum sýningar á þessu leikverki í Þykkvabæ, einhverntíma, en fann ekkert nægilega sannfærandi.

Jæja, ég held ég reyni ekki að pæla í þessu frekar.

Skúli og Ólafur Stefánsson, síðar garðyrkjubóndi
á Syðri-Reykjum (mynd frá S-Reykjum)

Skúli fór suður í desember 1939, var fyrst á Torfastöðum í tæpa tvo mánuði, áður en hann fór að Syðri-Reykjum, þar sem hann var síðan í starfsþjálfun og  við störf næstu árin.
Guðný lauk náminu á Hallormsstað vorið 1939 og hélt á heimahagana.
Fyrsta bréfið sem ég hef, sem fór á milli þeirra, er frá Skúla, ritað í febrúar 1942 og ekki er annað að skilja á því en þá væru þau farin að hittast þegar tækifæri gafst. Eftir þetta bréf er gat í bréfasafninu þar til í febrúar 1945. Ekki efa ég að mörg hafi bréfin verið milli 1942 og 1945, en þau finnast ekki. Fyrir því kunna að vera gildar ástæður - hvað veit maður?

Ég tek mér það bessaleyfi að leyfa innihaldi bréfanna sem Guðný og Skúli sendu sín á milli, að stærstum hluta  árin 1945 og 46 að vera áfram óþekkt á samfélagsmiðlum, að því leyti sem snýr að persónulegri tjáningu þeirra og tilfinningamálum. Hlutverk þessara bréfa var að viðhalda sambandi sem smám saman þróaðist yfir í hjónaband.  Ég reyni að sjá foreldra mína (sem áttu eftir að verða) sem ungt fólk, sem var að fóta sig í tilverunni. Manni finnst oft að eldra fólk hafi aldrei verið ungt og reynslulítið, sérstaklega foreldrar manns, sem oftar en ekki eru holdgervingar fullkomnunarinnar. Auðvitað er það aldrei svo. 

Skúli og Stefán Árnason
(Mynd frá S-Reykjum) 

Skúli og Guðný opinberuðu trúlofun sína árið 1945, svo mikið er víst, en það sá ég í bréfi frá Ellý (Elín Ágústdóttir, dóttir Viktoríu Guðmundsdóttur, sem var hálfsystir Elínar, mömmu Guðnýjar (ömmu minnar) og átti heima á Aðalbóli í Vestmannaeyjum ásamt foreldrum sínum og systkinum).    
Í bréfinu segir Ellý meðal annars:
9/9 - 1945
Ja, sá óratími síðan ég hefi skrifað þér. Mikið vildi ég að það væri sími á Baugsstöðum, þá fylgdist maður kannski svolítið með fjölskyldunni og fengi smá tilkynningu áður en fólk opinberar. Annars grunaði mig nú að þetta myndi ske þá og þegar,bæði af því að ég hugsa að þú hefðir komið hingað og svo var Stefán nú eitthvað að blammera með blómamanninn.  ....
Já, Guðný mín, þú fannst þá þann rétta. Þetta kemur eins og skrugga, segja sumar giftu kellurnar.

Hér fylgja nokkrir kaflar úr bréfunum, sem eru þess eðlis að ég tel mér óhætt að láta þær fljóta hér með:
Starfsfólk á S.-Reykjum. Fremst fyrir miðju er 
Ólafur Stefánsson (mynd frá S-Reykjum)

 Skúli 25. feb. 1945 - á S.-Reykjum
Í morgun vaknaði ég með þeim góða ásetningi að láta það verða mitt fyrsta verk að skrifa þér. Lítið varð nú samt úr þessu, því að rétt í því er hefja skyldi starfið, fylltist allt af strákum í kringum mig og þar með var draumurinn búinn. Síðan var talað og talað eins og gengur. Að lokum fengu þeir mig með sér á skíði. Deginum hef ég eytt að mestu við skíðagöngu. Þá á ég eftir að framkvæma það, er ég síst hefði viljað láta sitja á hakanum, en það er bréfið til hennar vinkonu minnar. Hvernig verður nú með það? Nú er ég þreyttur, bráðum syfjaður og hugurinn mestmegnis á skíðum úti á hjarni, stritandi við að verja slæman skíðamann falli.
Í dag ætluðum við héðan frá Reykjum niður á Eyrarbakka til að sjá leikinn Mann og konu. Vegna atvika sem þér munu kunnug var leiknum frestað, sem og öðrum skemmtunum. Þetta tækifæri ætlaði ég að nota til að sjá framan í þig, þó ekki væri nú meira. Síðar koma dagar og ráð, hvað sem skeður.
Það er annars mikið hvað þú getur enzt til að stunda þessar blessaðar sængurkonur. Starfið er auðvitað gott og göfugt, enda skyldi það síst lasta. En ömurlegt held ég það hljóti að vera. Þú gefur mér það nú raunar til kynna í bréfi þínu, að ekki sértu fullkomlega ánægð. Líklega ferðu engar grafgötur um hvernig hentast muni að hegða sér, er þú gerir skyldu þína við þjóðfélagið.
Guðný 15. mar. 1945 - á Baugsstöðum
Þegar ég var að fara í fjósið til að mjólka, þá kom strákur úr hinum bænum og færði mér bréf frá þér. Það hafði komið með mjólkurbílnum. Ég ætla ekki að lýsa vímunni, sem ég hef verið í frá því ég fékk bréfið. Og nú, þó ég sé orðin þreytt og syfjuð, get ég ekki stillt mig um að "tala við þig".
Nú er ég komin heim í "ríki mitt" og sit á "prívatinu mínu" og hef góða birtu frá raflampa á borðinu - og hlýju. Auk þess hef ég aldrei haft svona gott næði þegar ég hef skrifað þér.
Það er svo yndislegt að vera komin heim, en nú þarf ég að fara upp að Ölfusá á laugardagsmorguninn og hjálpa síðustu húsmóður minni á Aðalbóli. Bóndinn þar á 20 ára bílstjóraafmæli og langar hann að bjóða heim körlum, og ég er beðin að hjálpa til við að taka á móti þeim.
Starfsmenn á S-Reykjum. (mynd frá S.-R.)


Skúli 13. sept. 1945 - á S.-Reykjum
Stefán [Árnason] talaði við mig á mánudaginn og tjáði mér þau vandræði sín, að Sigríður hefði alveg neitað sér og spurði mig hvort líkur væru til að ég gæti eitthvað bætt hag hans og aukið kvennaliðið. Sagði ég honum þá að ef til vill myndir þú geta verið hjá honum í vetur, ef hann gæti þá sagt ákveðið um það fljótlega, hvort hann vildi þig eða ekki. Af eðlilegum viðskiptaástæðum gaf ég honum bendingu um að þér væri þetta ekki neitt sérstakt áhugamál. Hann spurði hvenær þú myndir geta komið, en það vissi ég ekki.. Líklegt þótti mér að heyannir og garðar myndu halda þér heima fram í næsta mánuð. Þú lætur mig vita hvað hugsanlegt væri að þú gætir komið fljótt, búinu á Baugsstöðum að meinalausu. Einnig, hversu lengi þú getur verið fram á vorið og hve mikið kaup þú vilt hafa.
Guðný 17. sept. 1945 - á Baugsstöðum
Pabbi, Silla og ég vorum ein á engjum í dag og slógum öll. Bræður mínir báðir slæmir í kringum sig. Siggi hefur lítið mátt reyna á sig síðan ég skrifaði síðast og hefur orðið að fara til læknis við og við.
Svo var Geiri að kasta upp í alla nótt og hefur legið í dag. Við hirtum okkur upp í gær. Það er slæmt ástand að þurrkurinn skuli ekki ætla að verða lengri en þetta.

Þá er að snúa sér að aðal efni bréfsins - ég var auðvitað ósköp ánægð þegar ég fekk þessar fréttir - er mun léttari á mér síðan. Það er víst ekkert því til fyrirstöðu að ég geti þetta. Og býst ég við að Silla verði heima. Mamma vill auðvitað helst ekki missa mig, en ekki get ég alltaf verið mömmubarn. Núna togar líka annað, syerkara afl í mig. Hún heldur að ég sé alveg farin ef ég fer, segist ekki reikna með því að ég verði heima næsta sumar, en ég reikna með því - og hughreysti hana.
Já,þú vilt fá að vita hvenær ég geti komið - það held ég að geti ekki orðið fyrr en um miðjan október. En sé mjög áríðandi að ég komi fyrr þá gæti ég reynt það. Hvað vorinu viðvíkur, þá get ég ekkert ákveðið um það. Það fer eftir kringumstæðum. En ég lofa því að hlaupa ekki fyrirvaralaust í burtu. Ég er ekki bundin við neitt sérstakt hvað því viðvíkur. Þá er það kaupið. Ég styn og veit ekki hvað ég á að segja, 4-500 - Jóhanna hafði 500 í fyrra - auðvitað þarf ég pening eins og hún. Annars er ég ekkert hörð á því, það fylgja vistinni svo mörg hlunnindi, er það ekki satt? Þú ræður hvað þú segir við hann um það. Veist hvað má bjóða höfðingjanum.
 
Það varð úr að Guðný var ráðin að Syðri-Reykjum frá 15. október og til 14. maí, ef mögulegt væri. Kaupið skyldi vera kr. 500 á mánuði.

Svo byrjar að verða vart við framtíðarpælingar skötuhjúanna.

Guðný - 28. jan. 1946
í eftirskrift bréfsins segir hún:
Ég ætla að lofa þér að heyra hérna auglýsingu úr Mogganum í morgun.
    Garðyrkjustöð í nágrenni Reykjavíkur óskar eftir garðyrkjumanni, eða mann sem            gæti tekið að sér rekstur stöðvarinnar. Meðeign gæti komið til mála. Tilboð merkt            "Framtíð" leggist inn á afgreiðslu blaðsins fyrir n.k. laugardagskvöld.
Ég hugsaði til þín - annað var það nú ekki.

Dvöl Guðnýjar á Syðri-Reykjum varð styttri en til stóð, þar sem hún veiktist og þurfti að dvelja í Reykjavík um hríð. Ekki kemur fram hverskonar veikindi var um að ræða, en hún dvaldi hjá hjónunum Bjarneyju Bjarnadóttur (1901-1981) og S. Þorkeli Sigurðssyni (1897-1965) að Ránargötu 9a. Dóttir þeirra hjóna er Guðrún, húsfreyja á Seglbúðum í Landbroti. Það var afar oft gist á Ránargötunni þegar Hveratúnsfólk átti leið í borgina. 
Þarna er símasamband komið á, þó kvartað sé yfir að sambandið sé lélegt og að það sé hægt að hlera það sem sagt er.  
Með auknu símasambandi fækkaði bréfasendingum - þannig var það nú bara.

Þarna var byrjaður að koma skriður á hlutina, en frá því greini ég næst. 


Rétt er að geta þess að ég ákvað að setja hér inn myndir frá Syðri-Reykjum, þar sem ég gat tímasett þær nokkurnveginn. Myndir frá veruleika Guðnýjar á þessum tíma, eru ekki til staðar svo ég viti. Sannarlega hefðu slíkar myndir frekar átt að vera hér, enda snúast skrifin um hana, fyrst og fremst.


04 október, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (6)


Þetta er framhald af 1  2  3  4  5 
 
Það varð ekki úr að Guðný yrði þriðja veturinn á Hallormsstað til að kenna prjónaskap og ég geri fastlega ráð fyrir að hún hafi náð að vera viðstödd ferminguna hans Geira.
Þegar suður var komið, vorið 1939, tók við tími sem hægt er að lesa ýmislegt um í bréfum. Ég geri nú ráð fyrir að Guðný hafi farið að leita fyrir sér um vinnu, en hafi jafnframt áfram átt Baugsstaði sem heimahöfn.  Mér sýnist, að fljótlega hafi hún fengið vinnu hjá hjónunum Grétari Fells (1896-1968), rithöfundi og Þuríði Kolbeinsdóttur Fells (1896-1943),  og að þar hafi allt gengið eins og best verður á kosið og myndaðist mikill vinskapur milli hennar og þeirra hjóna. Þuríður lést þann 9. október, 1943 (f. 1896), tveim dögum eftir að Guðný varð 23 ára, en í tilefni afmælisins sendu þau hjón henni eftirfarandi kveðju:

Guðný mín, er gengur þú til sængur,
gott er, ef þín bíður draumsins vængur
og lypt þér getur ofar öllum stjörnum.-
En - ýmislegt fleira er nauðsynlegt jarðarbörnum.

Þau klæðast þurfa og halda á sér hita.
Hérna er náttkjóll. - Megi hann á það vita,
að fáklædd bráðum farir þú að skarta
í faðmi einhvers sveins, er kýs þitt hjarta.

Hún fékk, sem sagt, náttkjól í afmælisgjöf.

Þuríður, Grétar og Svava

Grétar Fells kvaddi Guðnýju þegar hún hvarf til annarra starfa vorið 1944, með þessum hætti:

Til
Guðnýjar Pálsdóttur
frá Baugsstöðum, orkt
við burtför hennar
14. maí, 1944.

Til okkar komstu - aldrei því ég gleymi -
er yfir grúfðu helský, þung og dökk,
og illur grunur var sem vofa á sveimi. -
Mín vitjar oft sú minning, hljóð og klökk.
Og konan mín - í sínum hulda heimi -
mun hugsa til þín og - með kærri þökk.

Og þó þú hafir flúið Flóa engið
og fengið í staðinn kaldan malarstig
og hafi kannski óorð af mér fengið,
ég ætla samt - að Drottinn blessi þig,
og þarna hafirðu heillaspor þín gengið,
og himinninn muni borga fyrir mig.

---"---
Frá þeim, sem urðu að mæta hel og harmi,
þú hefur trausta fylgd um lög og grund:
Þökk og vinarhug, sem verndararmi
mun vefja þig á hverri reynslustund.
Lát gróa allt hið besta í þínum barmi,
og bernsku þína geym og fórnarlund.

Vináttan við Grétar Fells og síðari konu hans Svövu (1907-1995) hélst alla tíð og ég man heimsóknir þeirra í Hveratún.

Af bréfi sem Þuríður Fells skrifaði Guðnýju í apríl 1943, má ljóst vera, að það er kominn ungur maður í spilið, en þar segir:

... Og nú kem ég að "HONUM", sem ekki má nefna. Já, þú ert hamingjusöm, Guðný mín, að vera ástfangin. Þetta er einkennilega sætt eitur eða sæl vansæld, eða hvað á nú að kalla það - allt saman af því að mennirnir eru svo lagnir á það, að láta hið bezta og fegursta verða sér til kvalar. Því hvað er fegurra en að elska og vera hrifinn eða heillaður af annarri mannlegri sál - eða einhverju sem er þess vert, að það sé elskað, t.d. fagurt landslag, fagurt sönglag eða fagurt málverk? Gallinn er aðeins sá, þegar um mannlegar sálir er að ræða, að þá viljum við fara að nudda okkur utan í þær, - og þó fyrst og fremst utan í þetta ytra gerfi, sem þær birtast í - og úr því verður auðvitað oft - leiðinlegt "nudd". Nei, ég segi þér satt, Guðný mín, að ég er karlinum mínum sammála um það, að svo kölluð "óhamingjusöm ást" er ekki til, það er að segja ef ástin er sönn. Hvers vegna ætti þér að líða illa þótt þú vitir af einhverjum yndislegum - voðalega - agalega - sætum manni, jafnvel þótt þú getir ekki gert þér vonir um að smakka á honum eða borða hann upp til agna???  Karlinn minn segir - og hann veit nú stundum hvað hann syngur - að hægt sé að prófa ástargildi sitt og annarra með því að spyrja sjálfan sig:

ER ÞESS TILFINNING, SEM ÉG KALLA ÁST, FRIÐGÆF?

Það er að segja: Veitir hún mér frið?

Sé svo ekki, þá er ekki um sanna ást að ræða, heldur eitthvað annað - lílega girnd eða holdsfýsn - kjötkraft ........ En þetta fer nú að verða allt of hátíðlegt hjá mér og mér hefur aldrei látið það að vera hátíðleg, og því er bezt að snúa sér að einhverju öðru.

Árin sem Guðný var í þessari vist hjá Grétari og Þuríði, líklega frá því fljótlega eftir að hún kom frá Hallormsstað, glímdi Þuríður  við mikla vanheilsu sem lyktaði með því, að hún lést haustið 1943. Guðný virðist síðan hafa haldið heimili fyrir Grétar til vors 1944. 

Það sem hún tók sér fyrir hendur í þegar hún kom úr borginni, virðist hafa verið af sama meiði: að sinna þeim sem þurftu á hjálp að halda. Ég veit um, í það minnsta þrjá staði, þar sem hún kom til skjalanna þar sem um var að ræða fjölskyldur með nýfædd börn og var hún þá að aðstoða mæðurnar við heimilishaldið, sem gat verið þungt víða, enda barnafjöldinn oft talsvert meiri en nú tíðkast.  

Guðný og Ingunn Ósk á Hallormsstað.

Í janúar fæddist þeim Ingunni Ósk Sigurðardóttur, oft nefndri vinkonu Guðnýjar, og Páli Björgvinssyni á Efra-Hvoli í Hvolhreppi, sitt fyrsta barn, Ragnheiði Sigrúnu, og má nærri geta að Guðný hafi verið til taks tila að aðstoða hina nýbökuðu móður, enda annasamt heimili. Páll var á kafi í félagsmálum og var oddviti Hvolhrepps frá 1949 til dauðadags 1967.  Ingunn á Efra-Hvoli kom talsvert við sögu í tilhugalífi foreldra minna, trúi ég.

Bræðraborg (Kirkjuvegur 8)

Frá Efra-Hvoli fór Guðný til aðstoðar á Bræðraborg (Kirkjuvegi 8) á Selfossi, en þar höfðu þá nýhafið búskap á Ólöf Bryndís Sveinsdóttir (Binna), frá Tóftum eins og Ingunn Ósk og æskuvinkona Guðnýjar og Jón Ingibergur Guðmundsson, sem þá var bifreiðastjóri hjá Mjólkurbúi Flóamanna og Kaupfélagi Árnesinga. Hann varð seinna yfirlögregluþjónn í Árnessýslu og var alltaf kallaður Jón lögga í mínu ungdæmi. Saman gengu þessi hjón undir heitinu Jón og Binna og komu oft í heimsókn í Hveratún. Þarna í janúar 1945 eignuðust Jón og Binna sinn fyrsta af fimm sonum, Ingvar og auðvitað kom Guðný til aðstoðar.

Aðalból (Hrísholt 8) 
þarna var Bifreiðaeftirlitríkisins til húsa um tíma


Þriðji staðurinn sem ég veit að hún kom við sögu í samsvarandi erindagjörðum, var Aðalból á Selfossi, en það var hjá fólki sem hún þekkti ekkert til.

Ég var dauf af því að nú er ég ennþá einusinni að hafa vistaskifti, og fer ég til fólks sem ég þekki ekkert. Hef ekki einusinni séð frúna. Það er hér við Ölfusá. Þar eru vandræði af því það vantar svo stúlku. Og ég er nokkurskonar líknarsystir. Í þessu  tilfelli ól konan barn og kom það dáið. Hún hefur haft stúlku, sem verður að fara heim til sín vegna þess að þar eru veikindi. Barneignir eru mitt fag, þó ég þurfi ekki að fæða neitt af mér til þess að stunda þær. Ég fæ ekki að vera í friði. Það eru tveir staðir sem búið er að að biðja mig um aðstoð og þykir mér ekki meira en svo vænt um að fólk sé að fást við þessa framleiðslu.
(úr bréfi til Skúla, dags 18. febr. 1945)

Í bréfi sem hún sendir síðan Skúla í byrjun marz segir hún um dvölina á Aðalbóli:

Ég hef mikið að gera, en ég hef ekki nema gott af því - er orðin spikfeit. Hér eru fimm drengir 12-10-8-6 og 3ja ára gamlir og konan getur lítið ennþá. Hún er mjög myndarleg svo ég hef gott af því að vera með henni. Læri að minnsta kosti hvernig ég á að hegða mér ef ég eignast svona marga stráka!! Og það er ekki lítill kostur. Þeir eru mjög góðir við mig og hefur mér tekist vel að hæna þá að mér.*

Ég geri  mér alveg grein fyrir því að Guðný kom víðar við en á þeim stöðum sem hér  hafa verið nefndir, á þeim 5 árum sem liður frá því hún lauk dvöl sinni á Hallormsstað og þar til  samband hennar og fóstursonarins á Hallormsstað fór að taka á sig verulega alvarlega mynd.  Ég hyggst reyna að gera grein fyrir því eftir mætti - næst. 


* Hjónin sem Guðný var þarna hjá voru að öllum líkindum, Guðrún Jónsdóttir frá Melshúsum á Eyrarbakka og Vigfús Guðmundsson. Elsti sonurinn var Eggert sem lærði bifvélavirkjun og var síðar slökkviliðsstjóri á Selfossi. Næstur var Guðni, seinast umsjónarmaður á Nesjavöllum í Grafningi. Svo kom Þór, hagfræðingur að mennt, síðar skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurlands. Þá Jón, sem var skipstjóri hjá Eimskip. Yngstur sonanna var Örn, sem var mjólkurfræðingur. Guðrún lést 1950.  


FRAMHALD

01 október, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (5)


Þetta er framhald af 1  2  3  og 4

Hallormsstaður
Það er svo sem ekki margt sem ég finn til að segja frá dvöl Guðnýjar á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað, en þar var hún í skóla veturna 1937-38 og 1938-39.  
Eitt bréf er þó að finna frá haustinu 1938. Það byrjaði hún að skrifa  á 17 ára afmælisdaginn sinn, þann 7. október, til Möggu [Margrétar Júnúsdóttur rjómabússtýru á Baugsstöðum] og fjallar um daginn þann. Hún heldur síðan áfram með bréfið þann 9. október og lýkur því þann 16.  Mér varð á að hugsa, að fólk hljóti að hafa hugsað með allt öðrum hætti um tímann á þessum árum. Ég sé sjálfan mig setjast niður til að skrifa tölvupóst og taka mér 10 daga í það. Þarna var nú ekki asanum fyrir að fara.

Margrét Júníusdóttir t.h. og Guðrún 
Andrésdóttir. Mynd frá því um 1960.

Hvað um það hér koma brot úr bréfinu, og það gefur nokkra mynd af lífinu á Hallormsstað hjá þessari 17 ára yngismey.

[Laugardagur 7. okt.]
Fyrst í morgun þegar ég opnaði augun, lá bréf á koffortinu mínu og í því var bók og kort frá skólasystrum mínum. Bókin var: Þitt ríki komi, eða 77 sálmar.
Svo í dag var ég að fara að sækja vambir út í tunnu við ána og önnur stelpa var með mér. Mæti ég þá Blöndal [Benedikt Blöndal] og hann sagði mér að ég ætti 2 skeyti niðri á Hallormsstað og hvort ég vildi ekki stökkva eftir þeim núna. Ég þáði það og hljóp með allt gorið og strigasvuntuna niður eftir. Og ég varð alveg hissa á öllum þessum ósköpum. 
Svo núna í kvöld var drukkið kaffi og skreytt borðið með blómum og allskyns kökur með kaffinu. Og ég látin sitja við vinstri hönd frúarinnar [Sigrún P. Blöndal, skólastýra] og matreiðslukonan svo við hliðina á mér. Ég er hrædd um að ég hafi ekki á von á þessu. Og nú er ég komin upp í rúm og skrifa þetta á hnjánum og þá kom Rósa upp til mín með vasa með blómum frá Þórnýju.

Mér líður vel hérna og ég vona að það standi sem lengst. Ég get ekki sagt að ég finni til leiðinda. Það hefur alltaf verið nóg að gera. Við höfum núna í heila viku verið að atast í slátri og verðum víst líka í næstu viku. Það er nú bara skemmtilegt.Ég hef nú ekki meiri vilja núna. Við förum á fætur kl. 7 á morgnana og oft seint að sofa og nú er ég orðin syfjuð. Ætla að hætta.

[Sunnudagur 9. okt.]
Það er komið kvöld og ég er óánægð með dagsverkið. Fyrst fengum við kakó kl 8 1/2 , svo strax þegar ég kom upp eftir fór ég undir sæng og svaf til að ganga 1. Svo hefur dagurinn farið alveg til einskis. Ekki kemur pósturinn ennþá og ég er orðin langeyg eftir honum, því núna hlýt ég að fá mikið af bréfum.
Ég var að enda við að skrifa mömmu, það er þriðja bréfið sem ég skrifa henni. Mér finnst það nú lítið. Ég er ekki í myrkrinu við að skrifa. Það eru hér tvö ljós, annað er ég með hérna á borðinu hjá mér.
Það er öðruvísi en heima, en samt held ég að ég vildi heldur vera komin heim og sitja við kerti eða lampa. En það er samt allt gott hérna hjá mér núna og ég er alltaf ánægð. En það versnar víst allt þega bóklegu tímarnir koma og fara að verða reglulegir tímar. En vonandi verður það nú ekki.

[ Sunnudagur 16. okt.]
Inga [ Ingunn Ósk Sigurðardóttir] er komin. Nú líður mér vel. Ég get ekki sagt þér neitt nýtt. Verð nú að slá botninn í bréfið því bíllinn er að fara. Ég bið hjartanlega að heilsa Gunnu [Guðrún Andrésdóttir] og líka Rjómabúinu.
Annað bréf hef ég undir höndum sem Guðný skrifaði móður sinni í mars 1939, og var þá farið að styttast í námslok.  Þetta bréf er skrifað af ákveðinni ástæðu og er konan að leita liðsinnis foreldranna í því efni. Hér er hluti bréfsins:

(19. marz 1939) 
Ég er að koma af samkomu austan úr Skriðdal, en þangað hefði ég ekki átt að flækjast. Mig langar til að skrifa Sillu [Sigurlaug Siggeirsdóttir] þá ferðasögu. Ég ætla að skrifa þér um annað, þ.e. Frú Blöndal talaði við mig á laugardaginn og spurði hvort mér væri ekki sama þó hún skrifaði pabba og talaði um næsta vetur við hann. Eins sagði hún, að sig langaði til að ég yrði á þriggja vikna prjónanámskeiði hér í vor og vill spyrja ykkur hvort þið vilduð það ekki. Hún ætlar þá að fæða mig.  En ef ég yrði á þessu námskeiði yrði ég ekki heima þegar Geiri [Siggeir Pálsson]yrði fermdur  og komi ekki heim fyrr en í byrjun júní. 
En nú ætla ég að biðja ykkur um það, ef pabbi fær bréf frá frúnni og skrifa henni aftur, að hann segist í bréfinu ekki geta látið mig vera hérna svona lengi. En hún vill láta mig læra að prjóna til þess að ég yrði hérna næsta vetur, að ég gæti þá kennt prjón. En ég held ég láti ykkur alveg um það hvort ég verð heima eða hérna. "Ég vil heldur vera heima". Þið skuluð segja frúnni allt sem ykkur sýnist ef hún hefur skrifað ykkur.

 Svo segir Guðný frá veikindum Frú Blöndal og heldur síðan áfram:

Mikið er hún góð við mig. En ég finn það að ég get ekki orðið eftir þegar Inga [Ingunn Ósk Sigurðardóttir] fer heim, þó ekki séu nema þrjár vikur. Ég vona að þið getið ráðið fram úr þessu. Ef þið álítið gott að ég verði hérna, þá verð ég. Ég veit að ég hef gott af því. Mér þykir verst hvað frúin treystir mér vel og leggur mikið uppúr mér - því ég á það ekki skilið, alls ekki.
Sigrún og Benedikt á Hallormsstað með syni sínum,
Sigurði (standandi) of fóstursyni, Skúla Magnússyni.


Loks segir Guðný í eftirskrift:

Segið Frú Blöndal ekki að ég vilji ekki vera hjá henni. Heldur að þið megið ekki missa mig, því ég vil vera hjá henni, en frekar hjá ykkur.

Já, þær eru ýmsar klemmurnar sem finna þarf lausn á. Ekki trúi ég að það hafi verið auðvelt fyrir Guðnýju að ákveða að skrifa þetta bréf til foreldra sinna, enda fer ekki á milli mála í bréfinu og síðar á lífsleiðinni að Frú Blöndal reyndist henni ávallt afskaplega vel og fyrir henni bar hún mikla virðingu. 

Ég kem síðar að því hvernig dvöl Guðnýjar á Hallormsstað hafði afgerandi áhrif á tilveru okkar Hveratúnssystkina og afkomenda okkar. Mögulega má einnig segja að þetta bréf hafi skipt sköpum í því efni.....hver veit?

Guðný (fyrir framan til vinstri) með nokkrum skólasystrum á Hallormsstað, sem ég veit ekki nöfnin á.



29 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (4)

Þetta er framhald af 1, 2 og 3

Ég hef nú setið við og reyni að átta mig á hvað ég má eða má ekki fjalla um í þessum skrifum um móður mína, hana Guðnýju Pálsdóttur frá Baugsstöðum. Ég játa það, að í mínum fórum er þykkur bunki af bréfum til hennar og frá henni og ýmislegt fleira í rituðu máli. 

Mér finnst það ljóst nú, að skriftarkennslan sem Guðný fékk, líklegast hjá henni Jarþrúði Einarsdóttur, eða konu sem hét Krístín, var til fyrirmyndar og rithöndin var falleg alla tíð.

Ég hef ákveðið að leika núna biðleik, meðan ég reyni að komast að niðurstöðu um hvernig best er að taka á framhaldinu.

Það var haustið 1934, og Guðný var orðin 14 ára. Sennilega var hún þá undir handarjaðri Jarþrúðar Einarsdóttur sem áður er nefnd. Stílabókina, sem hún notaði við skriftarnámið, bæði til að æfa skriftina sjálfa og einnig til að ástunda skapandi skrif, geymdi hún síðan alla tíð. 
Ég held að mér sé alveg óhætt að birta hér eftirfarandi sögu sem hún skrifaði haustið 1934.



3. stíll Skáldsaga eftir mig
Einu sinni var maður, hann átti 3 dætur, sem hétur Helga, Sigga og Dóra. Helga var þeirra els og var hún þeirra duglegust og laglegust. En hún var alltaf höfð útundan hjá hinum systrunum.
Einu sinni átti að verða dans skemmtun í sveitinni sem Helga átti heima í. Og áttu nú yngri systurnar báðar að fá að fara, en Helga átti að vera heima, ein alla nóttina, en pabbi hennar og mamma fóru og báðar yngri systurnar líka.
Nú fara þau, en Helga er ein eftir. Hún tekur bók og fer að lesa og les uppundir klukkutíma. Svo verður hún syfjuð og fer að hátta sig og lét loga á kerti, því þetta var skömmu fyrir jól.
Síðan leggst hún útaf, en getur með engu móti sofnað, hvernig sem hún fer að. Þá heyrir hún að það er eitthvað þrusk fyrir utan gluggann. Hún verður hálf smeyk og þorir ekki að líta upp. Heyrist henni svo vera bankað, svo hátt og ónotalega á þilið að henni verður svo bilt við að hún þorir sig ekki að hreyfa. Og er þá kallað með hárri rödd: "Ljúk þú upp fyrir mér, eða ég bryt gluggann!" og brá henni nú enn meira en áður því hún gat ekki hreyft sig til þess að ljúka upp, hvað þá að hún gæti nokkuð, ef þessi maður kæmi inn um gluggann. Þá heyrist henni eins og einhver rödd hvíslaði að sér: "Rís þú upp og lúk þú upp fyrir honum, því það verður þér til góðs".
Þá sagði hún við sjálfa sig: "Ekki get ég það, því það þori ég ekki."
Þá sagði röddin: "Ekkert að óttast, ég er með þér."
Þá fór Helga að reyna að standa upp og átti hún þá hægt með það. Hún setti í sig kjark og klæddi sig, tók kertið og labbaði ú í bæjardyr. Þegar hún hafði opnað bæinn kom maður að dyrunum og ávarpaði hana á þessa leið: "Góða stúlka, gef þú mér bita, ég er svo svangur, hef ekki bragðað mat í 3 sólarhringa."
"Já", sagði Helga, "gjörðu svo vel og komdu inn."
Hann var nú ekki álitlegur, með hrafnsvart hár og allur grútskítugur og rifinn frá hvirfli til ilja og þar að auki berfættur.
Er hann hafði matast, fór Helga að spyrja hann hvað hann héti og sagðist hann ekki muna það, því það væri svo langt síðan hann var hjá mennskum mönnum. Svo sagði hann henni ævisögu sína, þegar hann hafi verið strákur hafi honum verið rænt burtu og honum hafi ekki tekist að flýja fyrr en þetta. Og ef hún geti bjargað sér úr höndum óvinanna þá geti hún fengið mikil auðæfi, því hann hafi átt svo ríka foreldra og ef honum tækist að finna þá, þá ætti hann henni líf sitt að launa.
Nú lánaði hún honum vatn og greiðu og hann þvoði sér og Helga varð alveg hlessa. Þarna var kominn laglegur unglingur í staðinn fyrir skítuga manninn.
Síðan kom fólkið, þegar kl. var 4 um nóttina og var nú allt til gert til þess að bjarga manninum.
Svo liðu tveir dagar og enginn kom til þess að leita að honum og hélt hann þá, að hann væri úr allri hættu.
Svo á 4. degi lögðu af stað, Helga og ókunni maðurinn til þess að komast heim til foreldra mannsins.
Á 3. degi komust þau alla leið og varð nú mikill fagnaðarfundur. Og skömmu síðar var haldin veisla mikil og voru þau þá gift, Helga og ókunni maðurinn. Svo tóku þau vð búinu og bjuggu saman við góð kjör til æviloka.

Áttu börn og burur
grófu rætur og murur;
smjörið rann,
roðið brann,
sagan upp á hvern mann
sem hlýða kann.
Brenni þeim í kolli baun
sem ekki geldur mér sögulaun
fyrr í dag en á morgun.
Köttur út í mýri,
setti upp á sér stýri,
úti er ævintýri.

Guðný Pálsdóttir 14 ára 

Nú get ég farið að hugsa næsta leik, í friði og ró. 


             FRAMHALD

 
 

 


27 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (3)

Elín Jóhannsdóttir með börn sín,f.v. Guðnýju,
Elínu Ástu og Siggeir. Móðir hennar, Elín 
Magnúsdóttir standandi.
  Fyrri færslur um sama efni: (1) og (2)

Hún kom í heiminn þann 7. október 1920, fyrsta barn foreldra sinna, sem þá voru skriðin tvö og þrjú ár yfir þrítugt. Á Baugsstöðum var nóg af fólki til að sinna henni og leiðbeina fyrstu skrefin á lífsgöngunni, enda voru þetta ár 10 einstaklingar með heimilisfesti á Baugsstöðum. Ég hlýt að reikna með, að auk móður hennar, hafi þær Elín, amma hennar, þá 64 ára og frænka hennar, Kristín María Sæmundsdóttir (Stína María), 14 ára, gegnt veigamiklu hlutverki við að sinna henni. 
Það var nóg að bíta og brenna á heimilinu, enda gnægtaborð hafsins í túnfætinum. Faðir hennar Páll var formaður á báti sem hann gerði út frá Loftsstaðasandi og Baugsstaðir voru verbúðir fyrir eina 40 karla á vertíð. 

Þegar Guðný var tveggja ára fæddist foreldrum hennar önnur dóttir, Elín Ásta, síðan kom Siggeir í heiminn 1925, og loks Sigurður 1928. Það segir nú fátt af fyrstu árum í lífi systkinanna þarna til að byrja með. Sigurður er sá sem enn er til frásagnar og eðlilega er minni hans um það sem gerðist á Baugsstöðum áður en hann fæddist, harla gloppótt, þó svo hann sé eins og alfræðiorðabók um fólkið og lífið á Baugsstöðum og í nágrenninu, að ýmsu öðru leyti. 

Hann gat sagt mér það, af skólagöngu þeirra systkina fyrstu árin, að hann sótti um tíma farskóla í Gaulverjabæ og um tíma var ráðinn, að undirlagi Magnúsar Hannessonar í Hólum, kennari sem kom að Baugsstöðum og kenndi Sigga, Helga Ívarssyni, fóstursyni Magnúsar og Hinrik Ólafssyni í austurbænum. Helgi og Hinrik voru ári yngri en Siggi.  Að sögn Sigga taldi Magnús í Hólum farskólann í Gaulverjabæ vera hálfgerðan vandræðastað fyrir fósturson sinn réði þess vegna kennara sem kom frá Eyrarbakka og kenndi þremenningunum á Baugsstöðum.  Siggi segir skólagöngu sína hafa verið um það bil eitt ár alls.

Guðný fékk að njóta leiðsagnar Jarþrúðar Einarsdóttur á Tóftum ásamt æskuvinkonu sinni, Ingunni Ósk Sigurðardóttur, en hún var bróðurdóttir Jarþrúðar. Síðar þróuðust málin þannig, að Jarþrúður fékk inni fyrir Ingunni á Húsmæðraskólanum á Hallormsstað og það æxlaðist svo, að Guðný fór þangað einnig. 

Bréf Guðnýjar til systur sinnar 1932 (12 ára)

Af systkinum Guðnýjar er það að segja, að systir hennar, Elín Ásta, lést skömmu fyrir 11 ára afmælið sitt*.  Bræður hennar, Siggeir (Geiri) (1925-2001) og Sigurður (Siggi) (1928 -) ólust upp á Baugsstöðum og tóku þar við búi foreldra sinna í fyllingu tímans. Það sagði Siggi mér, að eftir að Páll afi hætti að stunda sjóinn (1958) réru bræðurnir (eða bara Geiri) í um tvö ár, en þá var báturinn seldur, hvort sem það var vegna þessað Páll vildi ekki að bræðurnir héldu áfram að stunda róðra frá Loftsstaðasandi, þar sem það var ekki hættulaust (segir Siggi), eða vegna þess að aflinn hafði farið mjög minnkandi..  

Maður veltir auðvitað fyrir sér hvernig ungt fólk á þeim árum sem hér um ræðir hagaði lífi sína, en reikna með að hugsunarhátturinn hafi ekki verið ósvipaður því sem er á öllum tímum. Ég geri ráð fyrir að það hafi komið í hlut Guðnýjar að aðstoða móður sína við húsverkin og að passa bræður sína þegar hún tók að stálpast. Ekki minnist Siggi neinna árekstra milli þeirra systkinanna.   

Guðný og Ingunn Ósk

Sem fyrr segir, varð það úr að Guðný hleypti heimdraganum ásamt vinkonu sinni, Ingunni Ósk frá Tóftum (Tóttum) í Stokkseyrarhreppi. Þær fengu námsvist í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað haustið 1937 og þar var Guðný tvo vetur hjá þeim Sigrúnu P. Blöndal og Benedikt Blöndal, sem fóstruðu þann sem síðan átti eftir að verða lífsförunauturinn. Sennilega mun ég koma að því síðar.

Ég held að það sé nú svo með lífsferil okkar, að okkur finnst hann svo stór hluti af sjálfum okkur, að einhver miðlun á honum til afkomendanna sé okkur ekki ofarlega í huga, fyrir utan það, að afkomendurnir eru börn og síðan fólk með eigin börn og lífsferil, sem fer ekki að velta mikið fyrir sér fortíð foreldra sinna fyrr en á efri árum. Allavega var það þannig að einhver heildstæð og tiltölulega nákvæm sýn af lífi móður minnar á uppvaxtarárum hennar, var aldrei rædd að neinu ráði. Vissulega þekki ég hana í afar grófum dráttum, en við mörgum spurningum sem upp hafa komið síðar, fást líklega engin svör.  Hún skildi eftir sig ógrynni af bréfum frá ýmsu samferðafólki á ýmsum tímum, en úr þeim er ekkert sérlega mikið að fá af upplýsingum, enda oft sem svona bréf oft byggð að sameiginlegri þekkingu þeirra sem skrifuðust á og því tilvísanir harla óljósar, oft á tíðum.

Það sem er framundan hjá mér er að taka saman einhverskonar, sæmilega heildstæða mynd af móður minni, brot frá tíma hennar á Hallormsstað og þann tíma sem leið frá því skólagöngunni lauk og þar til hún var orðin húsfreyja í Hveratúni, með eiginmanni og síðar börnum.  Þetta ætla ég að reyna að kljást við næstu daga.

*þau sem til þekkja segja dánarorsök Elínar Ástu hafa verið skarlatssótt.

Nokkrar myndir:

Systurnar Kristín, Guðlaug og Elín Jóhannsdætur.
 

Páll og Elín á Baugsstöðum


Baugsstaðasystkinin á fermingardegi Sigga (1942?)
Siggeir, Guðný og Sigurður.


Systkinin frá Baugsstöðum og Tóftum. Aftast Ingunn Ósk og Guðný,
miðja Einar og Geiri, fremst Siggi.



Siggi á Baugsstöðum. Hann segir þetta
vera fyrstu myndina sem var tekin af honum.




Börn Siggeirs Guðmundssonar og Kristínar 
Jóhannsdóttur. Aftari röð f.v. Ásmundur, 
Sigurður og Jóhann. Fyrir framan Sigurlaug 
og Guðmundur Siggeir.

23 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (2)

Guðný og Elín Ásta
Pálsdætur.
Þetta er framhald af þessu: Að efna í aldarminningu 2 (1).

Baugsstaðir árið 1920, já. Ég tók mig reyndar til og fletti í gegnum sóknarmannatal í Gaulverjabæjarsókn frá árinu 1917 til 1947, svona til að reyna að átta mig á því fólki sem var með skráða heimilisfesti í vesturbænum á því 30 ára tímabili sem hér um ræðir.

Í árslok 1920, þegar Guðný kíkti fyrst á heiminn, voru 10 aðrir einstaklingar með heimilisfesti á bænum. 
Þetta voru auðvitað hinir nýbökuðu foreldrar Elín og Páll (32 og 33 ára), amma barnsins, Elín Magnúsdóttir (64), Krístín, systir Elínar (37) og fimm börn hennar og Siggeirs, bróður Páls: Guðmundur Siggeir (14), Jóhann (11), Ásmundur (8), Sigurlaug (6) og Sigurður (2). Loks var þarna Kristín María Sæmundsdóttir (14), Stína María, sem var dóttir Guðlaugar, systur Elínar, eins og áður hefur verið nefnt.
11 manna heimili, sem sagt.

Aðeins um Kristínu Jóhannsdóttur og börn hennar.

Kristín var með börn sín á Baugsstöðum til ársins 1922, en þá flutti hún, eftir því sem sóknarmannatalið segir, til Reykjavíkur. Hún var síðan orðin húsfreyja á Læk í Ölfusi 1927(44). Maður hennar var þá Ísleifur Einarsson (52). Þar voru þá með henni börnin Jóhann, Sigurlaug og Sigurður Siggeirsbörn
Ásmundur og Sigurlaug Siggeirsbörn og 
Guðný og Elín Ásta Pálsdætur.

Tveir synir Kristínar og Siggeirs, þeir Guðmundur Siggeir og Ásmundur urðu eftir þegar Kristín fór frá Baugsstöðum. Guðmundur var þar skráður til 1932, þá 26 ára og Ásmundur  til 1943.  
Sigurlaug flutti með móður sinni til Reykjavíkur 1923, en kom aftur á Baugsstaði árið eftir og var þar þar til móðir hennar flutti að Læk. Þar var hún síðan þar til hún kom aftur á Baugsstaði 1935 með nýfædda dóttur sína Sigríði, sem var alltaf kölluð Sigga Ísafold í mín eyru. Sigurlaug (Silla) var síðan á Baugsstöðum með dóttur sína til 1946.
Ég ákvað að setja þennan stutta kafla um Kristínu og börn hennar og Siggeirs Guðmundssonar hér, til að halda til haga hve náin tengsl voru milli þessara fjölskyldna.

Annað fólk á Baugsstöðum 1920-1947
Guðný Ásmundsdóttir, móðir Páls, lést í maí 1920, á 67. aldursári, en ný Guðný tók síðan við keflinu í október það ár, Guðný Pálsdóttir.

Elín Magnúsdóttir með
Siggeir Pálsson (líklegast)

Elín Magnúsdóttir
, móðir Elínar, fékk að njóta heldur fleiri lífdaga en Guðný. Hún lést í apríl 1944, þá rétt að verða níræð. 
Kristín María Sæmundsdóttir  (Stína María) hvarf til Reykjavíkur, 1925, þá á 19. aldursári.
Vigfús Ásmundsson kom á Baugsstaði 1922 (62) og var þar til 1932 en fór þá að Seli í Grímsnesi, þá 72 ára.  Vigfús var bróðir Guðnýjar Ásmundsdóttur og því móðurbróðir Páls. 
Vigfús var bóndi í Haga 1889-1892 og í Fjalli á Skeiðum 1892-1896. Fæddur 23. desember 1859, d. 8. nóvember 1945. Um hann segir Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi: „Tók við búi af föður sínum, hóglætismaður og drengur góður. Kona hans var Guðrún Jónsdóttir frá Minna-Núpi, systir Guðmundar á Baugsstöðum; voru barnlaus. Bjuggu allvel, en fóru eftir fá ár að Fjalli á Skeiðum. Þar hættu þau búskap er heilsan bilaði." Jón Guðmundsson í Fjalli bætir við: „Skildu barnlaus um aldamótin. Son átti Vigfús, sem var Kjartan bóndi í Seli í Grímsnesi."  (Fréttabréf ættfræðifélagsins, 1. tbl. 1. jan. 2005).

Vigfús Ásmundsson (Fúsi)

Kjartan, bóndi í Seli í Grímsnesi var faðir Árna, "Árna á Seli", sem tók síðan við jörðinni. Það voru allmikil samskipti milli Hveratúns og fólksins Seli, Árna og Ellinor konu hans. Ég vissi, minnir mig, að það væru skyldleikatengsl, en það var ekki fyrr en fyrir nokkrum árum sem ég uppgötvaði hvernig þeim var háttað.

Sveinbarn var skráð til heimilis að Baugsstöðum 1924. Í athugasemd segir að það sé frá Hellum og sé frændi. Þetta vekur forvitni, en ekki hef ég fundið frekari upplýsingar um þennan pilt.

Hólmfríður Bjarnadóttir, skráð vinnukona, var með heimilisfesti á Baugsstöðum frá 1931-1935 eða 6. Hún var 54 ára þegar hún kom og hvarf síðan á braut 59 ára. Í sóknarmannatali er skráð í athugasemd, að hún hafi komið frá Ási í Hrunamannahreppi, en síðan strikað yfir það. Í sóknarmannatali Hrunasóknar er hún skráð sem vinnukona í Ási og þar kemur fram að hún hafi fæðst í Klapparkoti í Miðneshreppi.  Þetta er rannsóknarefni.

---------------------

Jæja, gott fólk. Nú er ég búinn að tína til það fólk (fyrir utan Elínu, Pál og börn þeirra) sem litaði heimilishaldið á Baugsstöðum í þá tvo áratugi eða svo sem Guðný, móðir mín, var að slíta barnsskónum. Mér fannst nauðsynlegt að reyna að ná utan um þetta og þykist all miklu fróðari eftir.

Næst á dagskrá er síðan að fabúlera um æsku og uppvöxt Guðnýjar og systkina hennar. Sömuleiðis hef ég í hyggju að  birta myndir af persónum og leikendum, eftir föngum. Þarf bara að hitta einn mann.


FRAMHALD



20 september, 2020

Að efna í aldarminningu 2 (1)

Fimmtudaginn 7. október, árið 1920 fæddist á Baugsstöðum í Stokkseyrarhreppi, stúlka sem hlaut nafnið Guðný og hún var dóttir hjónanna Elínar Jóhannsdóttur og Páls Guðmundssonar. Þetta þýðir að við blasa þau tímamót að 100 ár verða liðin frá fæðingu móður minnar, en hún lést þann 19. desember, 1992, fyrir tæpum 28 árum.
Af þessu tilefni hyggst ég tína saman eftir getu, helstu þætti í ævigöngu Guðnýjar, frá fyrstu skrefunum á Baugsstöðum til dauðadags. Hvernig til tekst verður bara að koma í ljós.

Ég hef nú alltaf átt fremur efitt með að átta mig á samsetningu íbúa á Baugsstöðum á þeim tíma sem mamma fæddist, en veit samt eitthvað og reyni að bæta aðeins við þekkinguna af þessu tilefni.

Í ársbyrjun 1918 voru þessi skráð í sóknarmannatal Gaulverjabæjarsóknar, með búsetu á vesturbænum á Baugsstöðum:
Guðmundur Jónsson, bóndi (68)
Guðný Ásmundsdóttir, kona hans (64)
   Siggeir Guðmundsson, sonur þeirra (38)
   Kristín Jóhannsdóttir, kona hans (34)
      Guðmundur Siggeir Siggeirsson, sonur þeirra (11) 
      Jóhann Siggeirsson, sonur þeirra (8)
      Ásmundur Siggeirsson, sonur þeirra (5)
      Sigurlaug Siggeirsdóttir, dóttir þeirra (3)
   Páll Guðmundsson, vinnumaður (30)
Elín Jóhannsdóttir, vinnukona (29)
Elín Magnúsdóttir, vinnukona (62)
Kristín María Sæmundsdóttir, á sveit (11)

Sóknarmannatal 1917

Það sem lesa má út úr þessum lista er, meðal annars, að á Baugsstöðum bjuggu þau Guðmundur og Guðný ásamt tveim sonum sínum, þeim Siggeiri og Páli

Siggeir var kvæntur Krístínu og þarna höfðu þau eignast fjögur börn og það fimmta, Sigurður, var á leiðinni og fæddist þann 10. mars þetta ár. 

Páll er skráður vinnumaður í sóknarmannatalinu, enda hefði mátt reikna með að eldri sonurinn tæki við búinu á Baugsstöðum í fyllingu tímans. Þarna var einnig á bænum Elín Jóhannsdóttir, systir Kristínar konu Siggeirs.  
Ennfremur var þarna móðir Elínar og Kristínar, Elín Magnúsdóttir, en eiginmaður hennar og faðir systranna, Jóhann Hannesson, varð úti 1891, en þá höfðu hann og Elín komið sér fyrir á Baugsstöðum.

Loks er nefnd í sóknarmannatalinu Kristín María Sæmundsdóttir og hún sögð vera "á sveit". Þessa konu þekkti ég og mitt fólk sem Stínu Maríu. Stína María var dóttir Guðlaugar, sem var systir Kristínar og Elínar, en auk systranna þriggja sem hér hafa verið nefndar eignuðust Jóhann og Elín fjögur börn saman og Elín eina dóttur, nokkrum árum eftir lát Jóhanns.  

Hér velti ég fyrir mér hve mörg ykkar eruð búin að gefast upp, en nú finnst mér ég var búinn að kynna nóg af persónum sem tengjast vesturbænum á Baugsstöðum, þarna í upphafi ársins 1918. Þetta ár var mikið örlagaár.

Árið 1918

Kristín og Siggeir 
á Baugsstöðum
Guðmundur Jónsson, bóndi, lést
 í byrjun febrúar, eftir heilablóðfall haustið 1917.  Þar með kom það í hluta bræðranna Siggeirs og Páls að taka við búinu.
Siggeir drukknaði síðan þann 1. desember. 
Slys. 
Það sorglega slys vildi til á Baugstöðum nálægt Stokkseyri, að ungur myndarmaður, Siggeir Guðmundsson á Baugsstöðum, var að reka kindur upp frá sjó og var lasinn, kom ekki heim um kvöldið og er leitað var fanst hann um miðjan dag daginn eftir í sjónum og vissu menn eigi hvort hann hefði dottið og rotast, eða druknað
 (Tíminn .21.12.1918)
Í Íslendingabók er þetta sagt um dauða Siggeirs: Drukknaði, sennilega féll hann niður af völdum Spænsku veikinnar.


Þarna féllu bóndinn á bænum og eldri sonurinn báðir frá á sama ári.  Kristín, skráð í sóknarmannabók sem "búandi ekkja" með 5 börn á aldrinum 0-12 ára. Páll og Elín enn skráð sem vinnuhjú, Guðný, móðir Elínar, sem ekkja og Stína María sem "á sveit".

Árið 1919

Páll og Elín á Baugsstöðum

Sóknarmannatal greinir frá því að Páll Guðmundsson (32) sé tekinn við búinu. Elín (31) er skráð sem vinnukona. Á Baugsstöðum eru nú 3 ekkjur og 6 börn. 
Einhverntíma var mér sagt að Páll og Elín hafi alist upp eins og systkini, enda jafnaldrar, feður þeirra bræður og mæður þeirra systur. Þetta gat varla endað nema á einn veg.  
Á jóladag þetta ár gengu Páll og Elín í hjónaband. 

Árið 1920                                                            

Sóknarmannatal 1920

Þetta ár verður að teljast upphafið á þessara samantekt minni í tilefni af aldarafmæli móður minnar, en eins og áður segir, kom hún í heiminn þann 7. október og var fyrsta barn hjónanna Páls Guðmundssonar og Elínar Jóhannsdóttur.

--------------------------------
Svo kemur bara meira næst.

Til athugunar:

Þann 29. september, 2018 hefði faðir minn, Skúli Magnússon, átt aldarafmæli ef henn hefði lifað. Af því tilefni tók ég saman helstu þætti í ævi hans og birti hér í 7. pistlum. 


09 september, 2020

Þetta með nafngiftir

Það er meiri og afdrifaríkari ákvörðun en margur hyggur, þegar foreldrar ákveða nöfn á börnin sín. Auðvitað getur fólk síðan ákveðið að breyta nafni sínu, ef það hefur valdið því óþægindum, en það breytir ekki mikilvægi ákvörðunar foreldra.
"Veistu hversvegna þú heitir Páll?" spurði Siggi frændi (Sigurður Pálsson á Baugsstöðum) mig í gær. Ég vissi ekki alveg hverju svara skyldi, enda augljóst öllum sem til þekkja, að ég fékk nafn afa míns. Siggi átti við það hvernig þetta nafn kom inn í fjölskylduna, yfirleitt og í framhaldinu upplýsti hann mig um það.

Afi minn, Páll Guðmundsson á Baugsstöðum fæddist þar þan 31. júlí, árið 1887.  Viku fyrir þennan merka atburð, þann 23 júli, lést presturinn í Gaulverjabæ, Páll Sigurðsson, af slysförum,  48 ára að aldri og var sóknarfólkinu mikill harmdauði.
Að Baugsstöðum kom síðan, þegar afi var nýfæddur, prestur (sem ég á eftir að staðfesta nafnið á) og hann taldi mikilvægt að nafn Páls í Gaulverjabæ fengi að lifa áfram í hinum nýfædda sveini. Guðmundur bóndi á að hafa dregið heldur úr, en presturinn gafst ekki upp og sagði að þar sem vatn væri og barn, þar væri hægt að skíra og það varð úr að afi fékk sitt nafn. (einhvern veginn í þessa veru var þatta, held ég)

Við leiði sr. Pál í Gaulverjabæ

Ég fór auðvitað að leita mér upplýsinga um þennan prest og fann í Kirkjuritinu frá 1960, erindi sem séra Magnús Guðjónsson (presturinn sem skírði mig) hafði flutt í tilefni af 50 ára afmæli Gaulverjabæjarkirkju, 1959). Magnús fjallar þarna um ýmsa presta, meðal annars Pál Sigurðsson (6. tbl. 01.06.1960, bls 263-275): 
Sá prestur, sem flestum kemur í hug enn í dag, þegar minnzt er á Gaulverjabæ, er séra Páll Sigurðsson. Hann er langkunnastur síðari tíma presta í Gaulverjabæ og gnæfir hátt yfir, að sínu leyti eins og séra Torfi um miðbik 17. aldar. Elztu menn í Gaulverjabæjarsókn muna enn andlega stórmennið og ljúfmennið séra Pál. Hann var ættaður að norðan, bóndasonur frá Bakka í Vatnsdal. Þar fæddist hann 16. júlí 1839. Hann var framúrskarandi gáfaður maður og glæsilegur. Hann vígðist að Miðdal í Laugardal, síðan fékk hann veitingu fyrir Hjaltabakka, nálægt æskustöðvunum, en fékk Gaulverjabæ 2. febrúar 1880. Þar var hann prestur til æviloka, en þau urðu allslysaleg. Hann, þessi frækni maður , „féll, er hann ætlaði að stíga á hestbak til þess að fara í embættisferð“. Sennilega hefur flísazt úr beini. Nú hefði slíkt varla orðið nokkrum manni að aldurtila.
Séra Páll var ágætiskennari, m. a. kenndi hann undir skóla Guðmundi Hannessyni, síðar prófessor, og dr. Valtý Guðmundssyni, sem kemur mjög við sögu stjórnarskrármálsins. En þekktastur er séra Páll sem skörulegur kennimaður. Er það rómur fróðra manna, að hann fylli flokk mestu ræðuskörunga, sem íslenzk prestastétt hefur átt. Ég hef lesið, að fólk hafi streymt víða að til Gaulverjabæjar til að hlýða á þennan mikla kennimann, sem var á undan sinni samtíð og flutti með sér nýjan kenningarmáta. Ekki má skiljast svo við séra Pál, að ei sé minnzt á samband hans við séra Matthías Jochumsson, en það var mikið og náið, þó að oft væri langt milli bústaða. Sagt er, að séra Matthías hafi ort einn fegursta og mesta sálm sinn: „Fyrst boðar Guð sitt blessað náðarorðið", út af ræðu, sem séra Páll hélt, þegar hann var ungur prestur í Miðdal. Kennir þar að ýmsu leyti annars kenningarmáta en síðar varð. Og sennilega hefur séra Matthías fyrst haft þau áhrif á unga prestinn. Byltingarkenndir straumar frelsis, jafnréttis og bræðralags fóru um álfuna. Þeir komust inn í guðfræðina, og eins og venja er í slíkum átökum, skolaðist margt gamalt og gott brott í bili. Ungi presturinn gáfaði hreifst með, bylting varð í huga hans, Gaulverjabær var á hvers manns vörum. Séra Páll var skemmtilega orðheppinn. Einu sinni fóru þeir séra Matthías og hann upp að Móum á Kjalarnesi, en séra Matthías var þá prestur þar. Þá spurði hann séra Pál: „Heyrðu, veiztu, hvað Esjan er þung?" Séra Páll svaraði: „Það mátt þú vita, þú býrð undir henni." Séra Páll er einnig þekktur fyrir ritstörf sín, þ. á m. er skáldsagan Aðalsteinn, sem kom fyrst út á Akureyri 1876 og nú aftur nýlega. Árið 1894 kom út húslestrarbók séra Páls, sem víða hefur verið til. Og svo er það Páskaræðan, sem haldin var í Gaulverjabæ 1885, en hún vakti mikið umtal á sínum tíma. Það, sem einkum hefur einkennt séra Pál mest, er sannleiksást, hreinskilni og einurð.

Ég hygg nú að það sé að verða fátíðara að börn séu skír í höfuð móður- eða föðurforeldra, enda tískustraumar í nafngiftum eins og öðru.

Hveratúnsfjölskyldan 1960
Mynd Matthías Frímannsson

Foreldrar mínir viku ekki hænufet frá þeirri hefð að skíra börn sín nöfnum fólks sem þeim hafði staðið næst og ég leyfi mér að gera grein fyrir því hér á eftir:

Elín Ásta (f. 1947) hlaut nöfn móðurömmu sinnar Elínar Jóhannsdóttur (1887-1980) og móðursystur sinnar Elínar Ástu Pálsdóttur (1922-1933) sem lést á barnsaldri.

Sigrún Ingibjörg (f. 1949) var skírð í höfuð tveggja kvenna sem nærri stóðu föður hennar. Þær voru Sigrún Pálsdóttir Blöndal, skólastýra á Hallormsstað (1883-1944), fóstra Skúla og móðir hans Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968).

Páll Magnús (f. 1953) hlaut nöfn beggja afa sinna, sem bendir til að foreldrarnir hafi ekkert sérstaklega reiknað með að eignast fleiri syni. Þessir afar voru þeir Páll Guðmundsson (1887-1977) og Magnús Jónsson (1887 (eða 1888)-1965).

Benedikt (f. 1956) var síðan næstur og nafnið sem honum var valið var nafn fóstra föður hans á Hallormsstað, Benedikts Magnússonar Blöndal (1883-1939).

Magnús (f. 1959). Þegar enn bættist við sonur, hljóta góð ráð að hafa verið dýr, enda nöfn allra feðra og fóstra þegar frátekin, en niðurstaða þeirra Hveratúnshjóna var, að skíra þann yngsta nafni föðurafa síns, Magnúsar Jónssonar (1887(eða 1888)-1965). Magnús afi var okkur sérlega tengdur, þar sem hann bjó hjá okkur í Hveratúni síðustu æviárin og átti fyllilega skilið að drengur fengi nafn hans sem fyrsta nafn. Jóni Vídalín  á Sólveigarstöðum mun ekki hafa fundist mikið  til um andagiftina hjá Hveratúnshjónum.

Þessi yngsti, Magnús, fagnar í dag 61s árs afmæli sínu.  Svona líður tíminn.

Magnús á síðari hluta sjöunda áratugarins. 
Á bakvið er þekktur maður ;)
Mynd frá Sólveigarstöðum





 

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...