01 apríl, 2021

Nýr mánuður, nýtt vor

Villingarnir undirbúa atriði sitt,
fyrir nokkrum dögum
Ítalir tóku upp á því þegar kórónuveirufaraldurinn stóð sem hæst hjá þeim á vordögum á síðasta ári, að létta hver öðrum lundina með því að safnast út á svalir og syngja, hver fyrir annan. Ýmsir listamenn tróðu upp færðu fram allt það besta sem þeir höfðu að bjóða. Þessi siður breiddist síðan jafnvel til Íslands og naut talsverðrar hylli, þegar verst lét. 

Nú er aftur komið vor og páskahátíð handan við hornið, en enn setur kórónuveiran okkur skorður og þau okkar sem ekki viljum veltast á gosstöðvarnar, er ekki um annað að ræða, en beita hugmyndafluginu til að reyna að leyfa vorinu að umfaðma okkur. 

Þar sem við fD getum með engu móti hugsað okkur að láta ekki gott af okkur leiða, þegar og þar sem brýnust er þörfin, höfum við ákveðið að  létta lund Selfyssinga eftir megni. 
Þar sem við búum við aðstæður, sem fáir eiga kost á að njóta, ætlum við að efna til lítillar, en mikilvægrar vorhátíðar í útistofunni okkar klukkan 16.00 í dag, en þá verður gustlokunin dregin frá og borin verða fram, fyrir nágranna, gesti og gangandi, fjölbreytt atriði, sem við höfum verið að undirbúa nú á fyrsta ársjórðungi.

Fyrir utan það að tveir félagar úr Skálholtskórnum, tenór og sópran, munu flytja nokkra dúetta og einsöngsatriði (það eru nú að koma páskar), höfum við fengið til liðs við okkur nokkrar stórkanónur og þar má t.d. nefna þessar:
Hljómsveitirnar Mána og Skítamóral, sem munu flytja saman og sitt í hvoru lagi órafmagnaða (unplugged) dagskrá, með öllum þekktustu smellum sínum gegnum tíðina. Þessar hljómsveitir hafa lofað okkur að flytja, í það minnsta eitt frumsamið lag hvor. 
Þarna mun einnig koma fram pönkhljómsveit (gjörningahópur) sem var afar þekkt á sínum tíma, fyrir einstaklega frjóa nálgun að pönkinu, en þetta er hvorki meira né minna, en undan sveitin Villingarnir. Þessir félagar eru engum öðrum hljómsveitum líkir og munu án efa snerta strengi í hjörtum okkar, gömlu pönkaranna.

Til að slá síðasta tóninn, höfum við undirstungið bæjarstjórnina í Árborg og Vegagerð ríkisins, með að senda fulltrúa sína til að tilkynna opinberlega, formlega, um sameiginlega ákvörðun sína, sem tengist nýrri gangbraut yfir Austurveginn.

Eins og fyrr segir hefst þessi hátíð kl. 16.00 með setningarathöfn. Þá mun hvert atriðið taka við af öðru, allt til kl. 17.00, þegar gustlokunin verður dregin fyrir aftur og kófið heldur áfram, eins og áður, nema bara miklu skemmtilegra. 

Það þarf ekki að taka það fram, en sóttvörnum verður fylgt til hins ítrasta og hefur hvert smáatriði verið borið undir sóttvarnaryfirvöld, jafnvel þó margir þeirra sem fram koma séu þegar búnir að fá, í það minnsta fyrri skammtinn af Astra Seneca eða Pfizer Biontech.

Ákveðið hefur verið að Austurvegi verði lokað þann tíma sem þessi uppákoma stendur yfir, og umferð verður beint um Suðurhóla á meðan.

Njótum þessa fyrsta dags apríl mánaðar með frábærri skemmtun - kíkjum svo á þetta gos einhverntíma síðar.

Uppfært 1. apríl, kl. 16.30:
Ef svo ólíklega skyldi vilja til að einhver hafi talið sannleikskorn í textanum hér fyrir ofan, þá skal þess getið að hann var settur saman í tilefni dagsins.

06 mars, 2021

Hún Jóra

Jórunn hét stúlka ein; hún var bóndadóttir einhvers staðar úr Sandvíkurhrepp í Flóanum; ung var hún og efnileg, en heldur þótti hún skapstór. Hún var matselja hjá föður sínum. Einhvern dag bar svo við, að hestaat var haldið skammt frá bæ Jórunnar; átti faðir hennar annan hestinn, er etja skyldi, og hafði Jórunn miklar mætur á honum. Hún var viðstödd hestaatið og fleiri konur; en er atið byrjaði, sá hún, að hestur föður hennar fór heldur halloka fyrir. Varð Jórunn svo æf við það og tryllt, að hún óð að hinum hestinum og reif undan honum lærið; hljóp hún þegar með það, svo ekki festi hönd á henni, upp að Ölfusá hjá Laxfossi, þreif þar upp bjarg eitt mikið úr hömrunum við ána og kastaði því nálega út á miðja á; síðan hljóp hún yfir á stillum þessum og mælti um leið:

"Mátulegt er meyjarstig;
mál mun vera að gifta sig."

Heitir þar síðan Tröllkonuhlaup, aðrir segja Jóruhlaup. Þar hélt hún upp Ölfus, austan undir Ingólfsfjalli, og upp í Grafning
, uns hún kom að hamragili því, sem liggur vestur úr Grafningi, skammt frá Nesjum; eftir því fór hún og linnti ekki á, fyrr en hún kom upp í Hengil. Þar tók hún sér bólfestu, og er þar síðan kallaður Jóruhellir, og varð versta tröll og grandaði bæði mönnum og málleysingjum.

Þetta er fyrri hluti þjóðsögunnar um Jóru, en eðli máls samkvæmt er ég á kafi í því þessi missirin, að kynna mér nánasta umhverfi mitt og á sannarlega margt ólært. 

Þegar kemur að þjóðsögum vantar yfirleitt talsvert upp á að þær megi færa upp á raunverulegar aðstæður og maður bara sættir sig við það, enda eru þessar sögur þjóðsögur, eða ævintýri, sem lúta allt öðrum lögmálum en það sem maður gæti sætt sig við með góðu móti í daglegum veruleika - þær eru frekar trumpískar, ef svo má að orði komast.

En aftur að sögunni um Jóru.

Margar spurningar vakna eðlilega við lestur þessarar sögu og hér læt ég gossa þær helstu sem mér koma í hug núna:
- Hvar er þessi Laxfoss, sem nefndur er í sögunni? Er hann kannski Selfoss?
- Hvar hefði Jóra getað fundið "bjarg eitt mikið" hérna sunnan ár, hvað þá hamra, á öllu þessu sléttlendi?
-"kastaði því nálega út í miðja á" - Jóruklettur er miklu nær norðurbakkanum, en hann kann að hafa flust til í jarðskjálftum síðan þetta var.
- Segjum sem svo, að Jóra hafi getað stokkið af bakkanum sunnan megin og út í Jóruklett. Hvernig í ósköpunum datt henni síðan í hug að stökkva alla leið út í Hlaupklett, sem er í það minnsta  fimmföld sú vegalengd sem hún hafði stokkið yfir á Jóruklett? Hversvegna stökk hún bara ekki yfir á árbakkann?
Þannig er, að í framhaldi af færslu sem ég kom fyrir á Fb fyrir nokkrum dögum, þar velti ég fyrir mér nafninu á klettum sem ég hafði þá nýlega gengið á. Þarna var mér tjáð að þessir klettar kölluðust Hlaupklettur. Í framhaldi af því fékk ég síðan upplýsingar um, að nafnið væri til komið vegna þess að Jóra hefði stokkið á hann af Jórukletti, með lærið af hrossinu. Þetta seinna stökk Jóru virðist mér vera harla órökrétt.
- Hversvegna stökk Jóra bara ekki yfir Ölfusá þar sem brú var sett síðar? Þar yfir er nú ekki langur spotti, miðað við þau tröllastökk sem hún valdi til að komast yfir ána.

---------
Ætli ég láti ekki staðar numið hér, í þeirri von að þetta verði ekki til þess að sagan um Jóru missi gildi sitt í hugum fólksins sem þetta les.

05 febrúar, 2021

Skálholt: Spánska veikin

Skúli Árnason og Sigurður Skúlason

Skúli Árnason var héraðslæknir í Grímsneshéraði frá því það var stofnað árið 1900 og til  ársloka 1921. 
Ég er að braska við að taka saman sögu hans í uppsveitunum, sem hluta af sögu læknishéraðsins. 
Eins og hver maður getur ímyndað sér, vonandi, var starf  héraðslæknis á svæðinu hreint ekkert áhlaupaverk og raunar merkilegt að Skúli skyldi hafa enst jafn lengi og raun bar vitni.

Haustið 1918 gengu tvenns konar hörmungar yfir þjóðina, Kötlugosið sem hófst 12. október og Spánska veikin er talin hafa borist til landsins þann 19. október.  

Í bókinni “Faðir minn, læknirinn”, sem var gefin út 1974, skrifaði sonur Skúla, Sigurður, um föður sinn. Sigurður var fæddur 1903 og því 15 ára haustið 1918. Meðal þess sem Sigurður lýsir í greininni er hvernig Kötlugosið og Spánska veikin komu við Skálhyltinga og ekki síst föður hans, Skúla lækni. Mér finnst við hæfi að setja þessa frásögn hér, í tilefni reynslu okkar undafarið ár og sem við erum enn að kljást við. 



Frásögn Sigurðar:

Haustið 1918 gekk í garð. Það var óvenju milt, og menn áttu sér einskis ills von. Við Skálhyltingar vorum að vinna að jarðabótum í veðurblíðunni.

Dag einn birtist ferlegur skýstrókur í suðaustri. Fyrst héldum við að þetta væri óveðursský, en brátt sáu allir, að svo var eigi. Um kvöldið, þegar dimma tók, fóru að sjást eldglæringar í skýstróknum. Þóttust menn þá sjá, að hér væri um eldgos að ræða. Það var sunnar en Hekla, sem blasir við úr austri frá Skálholti. Faðir minn sagði, að nú myndi Katla vera farin að gjósa. það reyndist rétt. Snjór hafði fallið á jörð hjá okkur, skömmu áður en gosið hófst. Hann varð svartur af öskufalli daginn eftir. Ekkert tjón varð af gosinu hjá okkur, en óviðkunnanlegt myrkur fylgdi öskufallinu. Það reyndist einskonar fyrirboði annars verra. Á næsta leiti var mögnuð farsótt, sem barst frá útlöndum til Reykkjavíkur og þaðan austur um sveitir. Hún hlaut nafnið Spánska veikin og reyndist brátt svo mannskæð, að minnti á drepsóttir fyrri alda.

Auðvitað barst veikin brátt til okkar, enda læknissetur berskjaldað fyrir þvílíkum plágum. Systir mín veiktist fyrst, en varð ekki þungt haldin og komst á fætur eftir tæpa viku. Næst veiktist ég og varð ekki veikari en svo, að ég gat lesið Íslendingasögurnar mér til skemmtunar í bólinu. Uppgötvaði ég þá, hvílík heilsubót þær eru í vægum veikindum. Egilssögu las ég tvisvar og suma kafla úr henni margoft. Hafði ég orð á því við föður minn, að sagan hlyti að vera eftir Snorra Sturluson, því að þannig hefði enginn skrifað nema sá, sem skrifaði söguna af för Þórs til Útgarða-Loka. Faðir minn varð fár við og bað mig að reyna ekki að gizka á, hverjir væru höfundar Íslendingasagna. Þar hefðu verið að verki andleg stórmenni, sem hefðu verið gædd aðalsmerki sannra manna: að vera ekki að trana sér fram, heldur láta verk sín tala. Mér urðu orð hans ógleymanleg og því er þetta atvik tilfært hér, að það lýsir Skúla lækni vel.

Ég reis brátt albata úr rekkju og var um leið hrifinn úr töfraveröld fornbókmenntanna, en við blasti nöturleg alvara lífsins. Skúli læknir hafði verið í sífelldum sjúkravitjunum síðustu sólarhringana vegna sóttarinnar. Hann var sýnilega að verða örmagna af þreytu og veiktist nú hastarlega af pestinni, sem magnazt hafði, eftir því sem á leið. Hann varð brátt sárþjáður og sagði, að annað lungað í sér myndi hafa rifnað, svo að blætt hefði. Þetta reyndist rétt til getið, eins og síðar verður vikið að. Átti hann nú mjög örðugt um andardrátt. hann bað mig að afgreiða öll lyf fyrir sig, og gerði ég það. Reyndist mér það stautsamt. Menn frá sýktum heimilum stóðu nálega í biðröð hjá okkur á hverjum degi. Fyrst þurfti ég að fá hjá þeim sjúkdómslýsingar, fara síðan að sóttarsæng læknisins og spyrja hann, hvað gera skyldi, en afgreiða því næst meðulin eftir bestu getu. Að vísu voru sjúkdómslýsingarnar nokkuð samhljóða, en fleiri þörfnuðust þó lækninga en þeir, sem sýkzt höfðu af Spönsku veikinni. Gamalt fólk virtist einna ónæmast fyrir þessari farsótt. Elzta fólkið í Skálholti veiktizt a.m.k. ekki.

Dag einn kom til okkar roskin kona og kvartaði um langvinna magaveiki. Þann dag var Skúli læknir svo veikur, að við hugðum honum vart líf. Ég tók því það ráð að blanda lyf handa konunni af eigin rammleik, en auðvitað sem líkast því er ég hafði séð lækninn setja saman við svipuðum kvilla. Með það fór konan. Þegar við hittumst ári seinna, sagði hún mér, klökk af hrifningu, að lyfið hefði læknað sig af aldarfjórðungs innanslæmsku! Að svo mæltu þrýsti blessuð gamla konan kossi á kinn mér og innsiglaði með því þakklæti sitt. Þetta hefði ef til vill getað orðið örlagakoss, því að á þeirri stundu lá við, að mér fyndist ég ætti að reyna að verða læknir. Ég var þá nýorðinn gagnfræðingur og þóttist því heldur en ekki karl í krapinu. En faðir minn tók þá af skarið og sagði með miklum alvöruþunga: “Ef þí vilt verða dreplúinn og heilsulaus á 15 árum, skaltu lesa læknisfræði og verða héraðslæknir úti á landi.” - Málið var útrætt, og dyrnar að læknavísindunum lokuðust mér fyrir fullt og allt, sem einu gilti.

Spánska veikin magnaðist jafnt og þétt og varð að skæðri drepsótt. Í Reykjavík skapaðist hálfgert neyðarástnd, og voru lík þar stundum greftruð í fjöldagröfum.

Þegar við vorum að komast í öngþveiti, barst okkur kærkomin hjálp. Læknastúdent úr Háskóla Íslands var sendur austur að Skálholti okkur til bjargar. Hann hét Kjartan Ólafsson. Stóðst það á endum, að nauðsynlegustu lyf okkar voru á þrotum, er hann kom með nýjar birgðir. Skömmu síðar fór föður mínum að batna og var þá sem fargi létti af öllum.

Faðir minn varð ekki heill heilsu fyrr en sumarið eftir Spönsku veikina. Var hann m.a. ákaflega mæðinn og kenndi oft verkjar fyrir brjósti. Samt sinnti hann læknisstörfum, eins og ekkert hefði í skorizt. Dag einn á slætti var verið að reiða heima hey af Skálholtstúni. Var það bundið í bagga, eins og þá tíðkaðist. Skúli var nærstaddur, er baggi hrökk upp af klakki. Gleymdi hann þá, að hann þoldi ekki snögg viðbrögð, þreif baggann og snaraði honum til klakks. Við þessa áreynslu fékk hann ákafa hóstakviðu, og gengu upp úr honum dökkar blóðlifrar. Eftir það létti honum mjög. Kvaðst hann nú loksins hafa fengið fullan bata, en þetta blóð hefði setið þarna síðan í veikinni síðastliðinn vetur. Upp frá þessu var hann heilsugóður.


Ég hélt nú, að það yrði ekkert stórmál að taka saman sögu læknishéraðs í uppsveitum Árnessýslu, en það hefur reynst vera heldur meira verk en ág hugði. Það hlýtur að vera út af COVID.

25 janúar, 2021

Á dauða mínum ...

Það er þannig, að ég á mág, sem á það til að fara eigin leiðir. Hann er að byrja að feta sig inn á áttræðisaldurinn og maður skyldi ætla, að á þeim aldri væri fólk nú alla jafna bara tiltölulega sátt við heilsueflandi leikfimi af einhverju tagi - styrkja líkamann með því að hreyfa hann eins og er við hæfi og jafnvel ganga svo langt að svitna lítilsháttar. 
Ekki veit ég hvort það er vegna þess að einhverntíma stundaði mágur mín íþróttir af nokkrum krafti, eða þá að hann er svo mikill hestamaður í sér (og slíkir láta sér ekki allt fyrir brjósti brenna) en um leið og Þórólfur leyfði, skráði hann sig á námskeið í Crossfit, svokölluðu. Þá íþróttagrein hef ég nú bara tengt við fólk eins Annie Mist, sem maður hefur heyrt af undanfarin ár, í heimsmeistarakeppnum. Myndir af slíkum keppnum hafa algerlega sannfært mig um, að aldrei, aldrei muni ég koma þar nærri. Ég hef verið fullkomlega sannfærður um að það sem þar er um að ræða, sé hvorki hollt líkama né sál, það þurfi að vera hálfgeggjaður til að leggja það fyrir sig.

Jæja, mágurinn skráði sig í námskeið í Crossfit, og ekki nóg  með það: eftir þrjá tíma var hann orðinn uppveðraður og mjög áhugasamur um að draga mig með sér, sem ég taldi til að byrja með af og frá, þó sannarlega teldi ég að regluleg hreyfing undir stjórn einhverrar fagmanneskju, myndi gera mér gott. Slík hreyfing hefur legið niðri, sem þáttur í sóttvörnum, og fyrir utan heilsubótargöngur, hefur sófinn verið athvarf mitt meira en góðu hófi gegnir.

Ég er nú þannig innréttaður, að ég velti fyrir mér kostum og göllum. Það gerði ég einnig gagnvart þessari Crossfithugmynd. Hugsunin hvarf ekki úr huga mér í gær, daginn fyrir fyrsta mögulega tímann. Ég var meira að segja farinn að finna til líkamlegra verkja við tilhugsunina; verkja sem ég hefði getað túlkað sem skilaboð heilans til vöðvanna, um að betur yrði heima setið en af stað farið. Niðurstaðan um að láta slag standa, helgaðist kannski af því að talasvert eldri einstaklingur hafði komist frá þrem tímum af þessu púli og á honum var enginn bilbugur.

Ég ákvað, sem sagt, að skella mér í Crossfit, níu heila klukkutíma, næstu þrjár vikur.

Við mættum því galvaskir í morgun, fyrir allar aldir, mágur minn og ég. Grímur fyrir andlitinu meðan gengið var inn í, sennilega 250 fermetra salinn. Veggir og gólf máluð svört og endalaust úrval af líkamsræktartækjum hvert sem litið var. Samtals vorum við þarna þrír stútungskarlar mættir til að "taka áðí".
Þjálfarinn var ung kona, Crossfitmeistari.

Ekki ætla ég að fjölyrða um æfingarnar sem þarna fóru fram, að öðru leyti en því að greina  frá því að þær voru erfiðar. Alloft fann ég fyrir því að vöðvarnir brugðust ekki við skipunum heilans, sem minnti mig á fyrri reynslu af aðstæðum þar sem vöðvaafls var þörf, en sem reyndist þá ekki vera fyrir hendi.

Heim komst ég, nokkuð lerkaður, en ánægður með sjálfan mig, að mestu leyti. 
Ætli ég reyni ekki að halda þetta út, annað væri lélegt, ekki síst með talsvert eldri máginn til samanburðar.



22 janúar, 2021

Mjakast, enda kominn bóndadagur

Ég tengi þann tíma ársins, sem nú er að verða hálfnaður, við hrein leiðindi. Þetta er hreint úr sagt leiðinlegsti tími hvers árs - hefur alltaf verið það og verður líklega áfram, að óbreyttu. Þar hafið þið það. Það er myrkur og sólin mjakast alltof hægt ofar á festinguna, daginn lengir alltof hægt, ófærð, hálka, stormar, iðulaus stórhríð, skítkalt - fátt, sem sagt, sem er til þess fallið að létta á drunganum. Ekki bætir það nú úr skák, um þessar mundir, að kófið kýlir okkur niður og flest bendir til að enn þurfum við að bíða mánuðum saman eftir sprautum með bóluefni. Ó, vei, ó, vei!
 Janúar og febrúar, eru aldeilis ekki uppáhalds mánuðir mínur, ó, nei.


Ég held að ég beri nú samt í mér genin sem við flest, sem þetta land byggjum, skörtum, og sem hafa gert okkur kleift að lifa af þessa myrkustu mánuði ársins, í aldir. Þessi fínu gen valda því að  við finnum alltaf eitthvað til að gleðja okkur og hjálpa til  við að lýsa upp þennan myrka tíma.  Ég ætla hér að nefna nokkur atriði, sem hafa orðið þess valdandi að hinir myrku mánuðir eru bara glettilega vel til þess fallnir að létta lund, þrátt fyrir að maður geti átt erfitt með að koma auga á það.


1. Handboltamánuðurinn. 
Sem betur fer hefur okkur tekist flest ár, að eiga handknattleikslið sem fulltrúa okkar í Evrópu- eða heimsmeistarakeppnum, nanast á hverju ári. Þessi janúar er engin undantekning, þó vissulega gæti gengið betur - reyndar ekki útséð um að svo verði. Sérstaklega er ánægjulegt, að þarna eru margir ungir gaurar, sem eiga eftir að gleðja okkur í mörg ár.

2. Trumpleysi. 
Mér finnst eins og við séum að stíga út úr einhverjum dimmasta tíma í sögu mannkyns. Það er eins og sprengja hafi verið gerð óvirk á síðustu stundu, þegar skrípimennið vestan hafs varð að láta í minni pokann, fyrir heldur skárri náunga, sem maður þekkir svo sem hreint ekkert til og veit ekki hvort lifir árið eða hvort breytir nokkru, eða gerir eitthvað jákvætt. Samt er tilkoma hans eins og ferskur og hlýr vorblær sem er byrjaður að bræða jökulkaldan lygahramm ofan af okkur, með loforði um að brátt sjáum við til sólar. Eftir situr samt efi um að brotthvarf trúðsins breyti nokkru, þegar upp verður staðið.


3. Nýtt nágrenni.
 
Það er ekki sjálfgefið, að þegar maður tekur svo afdrifaríkt skref, sem við fD höfum gert, að flytja úr sveitinni í fjölbýlishús á Selfossi, að það fari sérlega vel. Það hefur farið vel til þessa og það er ekki síst tvennu að þakka: 1) íbúðin fer afar vel með okkur - hentar þörfum okkar hreint ágætlega og 2) nágrannar okkar eru nánast undantekningarlaust, hið ágætasta fólk - flest meira að segja hreint indælt. 
Við eigum enn eftir að upplifa drauminn um að sitja undir hitalampa í útistofunni, þegar úti geysar iðulaus stórhrið með tilheyrandi samgöngutruflunum, en það er enn von.


4. Tiltölulegt þakklæti. 
Það má margt segja um þessa þjóð, en það má hún eiga, að í þessum kófstæðum (kófaðstæðum) er hún sennilega að verða búin að læra það, að það er best, þegar upp er staðið, að hlýða sóttvarnayfirvöldum, því fram til þessa hafa þau metið stöðu og horfur rétt. Ég held að sé óhætt að þakka okkur sem þjóð, fyrir að okkur virðist hafa tekist, eftir nokkrar atlögur, að skilja hvað þarf til, til þessi að kveða niður þennan vágest sem hefur herjað á okkur í nánast heilt ár. Ég, í það minnsta, rölti inn í vorið í þeirri trú, að samhliða því muni kófið smám saman hverfa og sólin ná í gegn á ný.


5. Morgungöngur
Það er þægileg tilfinning, að hefja hvern dag, árla, með því að ganga tæpa fimm kílómetra með selfysskum, vel miðaldra körlum. Þetta er dálítið sérstakt fyrirbæri, þessar göngur, sem lýkur yfirleitt með  einskonar Mullersæfingum undir stjórn þess elsta, sem er 87 ára. Ég get alltaf vonað að þannig verði ástandið á mér eftir tuttugu ár. 
Eftir morgungönguna þarf maður ekkert að spá í hvort eða hvenær maður ætti að koma sér út að viðra sig þann daginn.   Gallinn er aðallega sá, að á þessum tíma hef ég átt það til að sofa þessar morgungöngur af mér, ansi oft, en það stendur vonandi til bóta.


6. Flest er þá þrennt er.
Um áramótin fluttu systir og mágur frá Laugarási, sem þýðir að nú erum Hveratúnsfólk að verða komin í stöðu til að gera okkur gildandi hér í höfuðstaðnum. Það fer ekki á milli mála, að Laugarás verður alltaf okkar staður, en við getum fagnað því að hafa tekist að gera þær breytingar sem gera þurfti. 
Ég á nú eftir að sjá bræður okkar tvo, sem enn gista Laugarás, hverfa þaðan á næstunni, en auðvitað veit maður aldrei. Þetta eru hálfgerðir unglingar enn.

----------------------------------

Þannig er það. Niðurstaða mín er sú, að þessir leiðindamánuðir tveir, eru bara ágætir, svona þegar maður fer að rýna betur í þá. Þeir eru tími upphafs að svo mörgu leyti, og tími vonar um að framundan sé vor. 
Nú er Þorrinn genginn í garð og við selfysskt Hveratúnsfólk, mun taka á honum eins og við hæfi er og það verður eitthvað..

----------------------------------
Myndirnar tók ég í Kvistholti á fyrstu mánuðum síðasta árs.  Ekki get ég neitað því að ég sakna þessara fiðruðu vina minna, en myndirnar á ég og get rifjað upp nágrennið við þá.



01 janúar, 2021

Fordæmalaus áramót.

Þau tímamót urðu um þessi áramót, að ekki var keypt ein einasta sprengja af neinu tagi hér á bæ og auðvitað er óhjákvæmilegt að ég velti því fyrir mér hvað olli. 
Loksins þegar ég bý við hliðina á tveim til þrem flugeldasölustöðum, kviknaði engin þörf fyrir "fíriverk".  Ég veit núna hversvegna þetta var og ástæðurnar eru nokkrar:

1. Það er vesen að koma sér á stað sem er hentugur til að kveikja í bombunum.

2. Leikurinn er tapaður fyrirfram. Hér má ein Guðrún Ósvífursdóttir eða einn Gísli Súrsson sín ekki mikils. Það var eitthvað annað í Laugarási, þegar það var að einhverju að keppa í þessum efnum.
 
3. Staðurinn sem ég bý á, er ekki beinlínis skotvænlegur, þó hér fyrir framan hjá mér, sé heill þyrlupallur. Hér býr fólk sem nýtur þess að horfa á skothríðina, frekar en skjóta sjálft. Þroskamerki?

4. Hér veit maður að ein og ein bomba breytir engu til eða frá. 
Maður er á stöðugum hlaupum - ná í  sprengjukassa, bera eld að kveiknum, hlaupa frá til að sjá sprengjuna sína skjóta sprengikúlum upp í himinhvolfið, í nokkrar sekúndur, athuga hvort einhver tók eftir glæsilegri sýningunni, ná svo í næsta kassa og endurtaka leikinn. Á meðan missir maður auðvitað af öllu hinu, sem er miklu glæsilegra og ókeypis þar að auki.

Þessi nýja reynsla (tiltölulega nýja) að eyða áramótum í svona þéttbýli, er alveg sæmileg. Þau reiðinnar býsn af púðri sem lýsti upp umhverfið meðan nýtt ár gekk í garð, féllu mér bara nokkuð vel, um stund. Svo fannst mér fljótlega, að nóg væri að gert, en það var bara enginn að velta fyrir sér mínum skoðunum að þessu leyti.
Ég verð hinsvegar að segja, að Selfyssingar eru ekki að vitleysast við að sprengja í tíma og ótíma. Við höfum nánast ekkert orðið vör við misnotkun að neinu ráði. Þetta byrjaði af krafti um 23.30 og svo var farið að draga úr því klukkutíma síðar. Einn og einn virðist þó hafa sofið af sér áramótin og vaknað svo klukkan tvö, með fullt hús af fíriverki, sem þurfti að kveikja í. Hann mátti það.

Hér sjáum við fyrir okkur stöðuna þessa um áramót framtíðar:
Setjast í útistofuna, með kveikt á hitaranum, í hlýjum fatnaðir, með heitan drykk í glasi og njóta sjónarspilsins sem nágrannarnir eru svo elskulegir að kalla fram fyrir okkur. Ekki slæm framtíðarsýn, svo sem.

Næst á dagskrá er að að ganga til móts við nýtt ár, sem miklar vonir eru bundnar við - mögulega of miklar.  Ég kýs að fara milliveg í væntingunum - vona hið besta, með það bak við eyrað, að eitthvað annað kann að verða uppi á teningnum.



30 desember, 2020

Í tilefni áramótasprengs.

Svona heldur nú lífið áfram, með þeirri kaflaskiptingu sem skapar umgjörð flestra mannvera í þann tíma sem þeim er úthlutað. Ég sagði við gamla vinkonu í símann í morgun, að nú væri ég kominn í sama kafla og hún, eini munurinn væri sá, að minn kafli er að byrja og hún er komin nokkrum blaðsíðum lengra. 
Merkilegt fyrirbæri þessi lífsbók okkar. Margir fá bara þunna bók með fáum köflum, en æ fleiri fá þykka og efnismikla bók. Það er víst ekkert réttlæti í því hvernig þessu er úthlutað.

Ég er bara harla þakklátur fyrir að hafa náð þessum kafla ævinnar og hlakka bara dálítið til að sjá hvað næstu blaðsíður færa mér.

Ekki meira um þessa bók.

Við fD höfum nú búið okkur heimili hér á Selfossi í 7 mánuði. Þegar við byrjuðum að búa voru heimkynnin ýmsar blokkaríbúðir, eða kjallarar hér og þar um höfuðborgarsvæðið á áttunda ártugnum. Svo fluttum við í sveitina. Þar bjuggum við í eintómum einbýlishúsum, allt þar til við komum okkur aftur fyrir í blokk. Komin aftur til upphafsins og freistum þess að sinna áhugamálunum af kostgæfni. Mitt verkefni snýr að því að safna saman heimildum um sögu Laugaráss. Það þokast áfram, en ég á enn eftir að ná almennilegum tökum á því að aga sjálfan mig. Eftir starfsævi þar sem bjalla tilkynnti mér með reglulegu millibili hvenær ég átti að fara á fætur eða standa mína pligt frammi fyrir fróðleiksþyrstu ungviði, er einhvern veginn svo afslappandi að ráða tíma sínum bara algerlega sjálfur. Það verður síðam til þess, að einhver púki á öxlinni hvíslar því stöðugt að mér, að ég hafi nægan tíma. Ekkert sérstaklega ráðagóður, þessi púki og ég mun nýta komandi ár til að pakka honum inn og koma fyrir í læstu geymsluhólfi í fataherberginu. 

Vonandi hef ég nægan tíma til að ljúka því sem ég hef sett markið á og gleðst jafnframt yfir því að hafa orðið mér úti  um áhugamál á eftirlaunaaldrinum, sem getur haldið mér tiltölulega ferskum (eða þannig) í einhvern slatta af árum til viðbótar. 


Árið 2020 hefur nú verið meira árið, en ég kvarta ekki. Ekkert okkar Kvisthyltinga hefur orðið fyrir barðinu á veiruskrattanum, utan þess auðvitað, að á okkur hafa verið settar ýmsar óþægilegar eða óskemmtilegar hömlur, svona rétt eins og aðrir hafa þurft að kljást við.  

Þetta ár megum við ekki afgreiða sem einhverja óþægilega minningu og halda síðan bara áfram eins og þetta gekk fyrir sig árið 2007 eða 2019. Við eigum að hafa lært ýmislegt nýtt, eins og til dæmis það, að lífið er ekki bara núna. Það er til eitthvað sem heitir saga. Hana nýtum við til að læra af. Svo er líka til framtíð, sem er algerlega í okkar höndum. Framtíð, sem vísindamenn segja okkur að sé ótrygg. Framtíð, sem er í okkar höndum, en ekki bara ykkar. 

Ekki neita ég því, að það er nokkur beygur í mér gagnvart komandi ári. Ég fæ það á tilfinninguna að stór hluti þessarar þjóðar og vel stætt fólk um allan heim, séu komin í spreng. Mér finnst að margir bíði þess að geta slett ærlega úr klaufunum á kostnað okkar allra, jafnskjótt og bólusetningin gegn veirunni er afstaðin.  
Auðvitað vona ég að við höfum dregið lærdóm af þessu ári. Vona að framundan séu rólegri tímar með minni neyslu og meiri skilningi á því, að við berum öll ábyrgð, ekki bara þið hin. 

Þá leyfi ég mér að þakka ykkur, sem hafið rennt í gegnum þessa pistla mína á árinu 2020, fyrir samfylgdina og óska ykkur þess að fá að takast á við árið 2021 af yfirvegun þess sem veit betur, eftir stórviðrið sem þá verður gengið yfir. 


22 desember, 2020

Fordæmalaus jólakveðja á öfgaári


Ég ætla ekkert að bæta verulega í öll þau orð sem sögð hafa verið, eða munu verða sögð um árið sem kveður bráðum. Þetta er merkilegt ár, ekki bara fyrir heimsbyggðina heldur og ekki síður fyrir Kvisthyltinga. 
Það verð ég að segja, að þetta er líklega skrítnasta ár sem ég hef fengið að upplifa. Við deilum öll allskyns reynslu af veiruskrattanum og líf okkar hefur litast af því. Ég get ekki látið hjá líða að geta þess, að mér hefur liðið harla vel í þessu ástandi, enda ekki mikið félagsmálatröll og get alveg lifað góðu lífi án þess að þurfa alltaf "að fara eitthvert eða gera eitthvað". Þetta er sennilega vegna þess að ég er sjálfum mér nægur og líður best í samfélagi við sjálfan mig. Ég er að  vissu leyti bara einkar skemmtilegur í sjálfum mér og sjálfum mér. 
Nóg þá um þetta veiruár.

Kvistholt kvatt
Brottför okkar úr Kvistholti á árinu tók heilmikið á, enda hefur sá góði staður verið heimili okkar frá haustinu 1984. Við byggðum það frá grunni, þar lágu spor okkar og þar höfum við sinnt mörgu verkinu. Að mörgu leyti má segja, að þessum flutningi sé ekki lokið enn og það eru meira að segja uppi þær raddir, í umhverfi mínu, að við séum svona bara eins og í fríi í lúxus hótelíbúð. Það er nú þannig með frí, að þeim lýkur alltaf - einhverntíma. 
Niðurstaða mín í gegnum þetta flutningastand er sú, að skynsemin hafi fengið að ráða; að það séu ákveðin forréttindi fólgin í því að fá að flytja á eigin forsendum, meðan við búum enn yfir nægilegum krafti til að sjá um þetta allt saman sjálf.


Selfossi heilsað
Jú sannarlega erum við flutt og kunnum vel við okkur í þægindunum sem okkur eru búin hérna við Austurveginn á Selfossi, við þjóðveg númer 1, hvorki meira né minna.
Flutningarnir gengu vel, enda höfðum við haft nægan tíma til undirbúnings. 
Svo hófst aðlögun okkar að nýjum heimkynnum og umhverfi, en af ástæðum sem ekki þarf að rekja, hefur hún ekki verið alveg jafn hröð og verið hefði við eðlilegar aðstæður.

Ég held að mér sé óhætt að segja, að Selfyssingar hafi tekið okkur almennt vel og hér í kringum okkur er ágætasta fólk, sem hefur að miklu leyti sætt sig við okkur eins og við erum: nýkomin í logninu og skóginum, með sérkenni okkar og tiktúrur. 

Því verður ekki neitað, að umbreytingin sem felst í því að flytja úr einbýlishúsi, sem stendur á hektara lands, í talsvert minni híbýli í fjölbýlishúsi, er sko alveg áskorun, en það snýst allt um hugarfar.
Íbúðin okkar er afar þægileg og hefur reynst duga okkur til þess sem þörf er á. 


Börnin og allt það
Við njótum þess að hafa hjá okkur tvö yngri börnin nú um jólin. Þeir tveir eldri sinna fjölskyldum sínum af kostgæfni, annar býr í höfuðborginni en hinn í Álaborg. 
Við fD erum heppin með börn, tengdabörn og barnabörn, svo það sé nú sagt.

-----------------

Ég ætlaði að láta þennan pistil vera nokkurskonar jólakveðju okkar Kvisthyltinga (við verðum víst seint eitthvað annað í hjartanu) en svo gripum við tækifærið, með videósnillinginn, örverpið okkar við höndina 
og í dag var skotin stuttmynd, sem verður hin formlega kveðja frá okkur til ættingja og vina, til sjávar og sveita, landa og heimsálfa. Hún verður birt áður en jólin ganga í garð og verður eitthvað.

Ég leyfi mér nú samt að óska lesendum þessara pistla minna og fjölskyldum þeirra, gleði og friðar á jólum og um áramót, meira svona innri gleði og innri friðar, frekar en taumlauss gjálífis og núvitundarskarkala.
Megi nýtt ár færa okkur bóluefni í vöðva, jafnvel tvisvar og í framhaldinu, upprisu til venjulegs lífs.







12 desember, 2020

Að skellihlæja eða hágrenja


Ég hef aldrei verið mikið fyrir upphrópanir eða hástemmd slagorð. Upphrópanir, vegna þess að þær skortir íhugun og yfirvegun, Slagorð vegna þess að þau finnst mér vera innantóm. Ég er ekki tilbúinn að hrópa á torgum, eða drepa fyrir málstað.
Ég er hinsvegar tilbúinn að hlusta, stundum og jafnvel ljá málstað lið, ef hann fellur að lífsskoðunum mínum.
Það hefur einusinni eða tvisvar gerst, að ég hef sett einhvern hring með slagorði í kringum höfuðið á mér á facebook. Það var vegna þess að um var að ræða hvatningu til dáða eða skilning á málstað.

Þessa dagana keppist fólk við að setja hring um höfuð sín á facbook, þar sem það lýsir sér sem "örlitlum grenjandi minnihluta". Allt í lagi með það svo sem. Öll vitum við að þetta er tilkomið vegna ræðu á Alþingi og vegna frumvarps um þjóðgarð á hálendi Íslands. Sannarlega er hér stórt mál á ferðinni og eðlilegt að vandað sé til verka. Það verður hinsvegar ekki gert með upphrópunum og slagorðum. Það kemur fjölmargt til skoðunar og ýmsir hagsmunir líta dagsins ljós. 

Þó svo ég setji þetta hér inn, í kjölfar þess að fjöldi fólks lýsir sig grenjuskjóður þessa dagana, ætla ég mér ekki að fara að eyða tíma mínum frekar í karp um þetta. Karp, segi ég, vegna þess að málefnaleg umræða á erfitt uppdráttar í svo tilfinningahlöðnu máli. Verst finnst mér vera, þegar fólk setur á sig grenjugrímuna án þess að vera búið að renna yfir þetta frumvarp. Ég skil betur þá sem eru búnir að kynna sér málið ofan í kjölinn og eru samt ekki sáttir.

Jú, ég er búinn að renna yfir frumvarpið og líklega vegna þess að ég á engra beinna hagsmuna að gæta, utan þess að vera íbúi í þessu landi, tilheyra þessari þjóð, þá varð ekkert það á vegi mínum sem ég þurfti að staldra sérstaklega við.  Þá er spurningin: Tilheyri ég þá "risastóra skellihlæjandi meirihlutanum"? Ég reikna með að margir muni líta svo á. Það væri þá um að ræða harla svart/hvíta hugsun, en hún á heldur betur upp á pallborðið þessi árin og þar hefur fólk verið duglegt að læra að forsetanefnunni vestanhafs.


Ég tilheyri sjaldan meirihlutum í þessu samfélagi. Hef oftast tilheyrt minnihlutum og lært að sætta mig við það, þó mér finnist hábölvað oft á tíðum og upplifa grátlega heimsku samferðamannanna. Varla er ég sá heimski og allir hinir spekingar. Því trúi ég nú ekki. Ég nenni hinsvegar ekki að fara að grenja vegna þessa, hvað þá hágrenja. 

Það er hægt að fella tár af ýmsu tilefni. Það eru sorgartár, gleðitár, reiðitár og frekjutár, svo einhverjar tegundir tára séu nefndar.  Algengasta merkingin sem ég legg í orðið "grenja" er, að fella tár vegna frekju. Ekki veit ég hvort Steingrímur beitti þessu afdrifaríka orðavali í þeirri merkingu og læt það liggja því milli hluta.



09 nóvember, 2020

Svona um það bil 15 ár

Laugarás á fremur sérstaka sögu og henni er hreint ekki lokið. 
Einhvern veginn æxlaðist það svo, að ég fór að safna saman ýmsu því sem verður að teljast hluti af þessari sögu og óhjákvæmilega kom að því, að ég þyrfti að takast á við sögu Laugaráshéraðs, sem ég hygg að hvergi hafi verið skráð nokkuð heildstætt.  

Frá upphafi voru það oddvitar sveitarfélaganna sem að Laugaráshéraði stóðu eða standa, sem fjölluðu um mál sem snertu læknisseetrið og Laugarásjörðina. Þeir komu alla jafna saman árlega til aðalfundar og tóku til umfjöllunar ýmis mál. Fundirnir urðu smám saman ítarlegri og tóku á flóknari málum. 

Ég er, um þessar mundir, að rekja mig í gegnum fundargerðir þessarar oddvitanefndar, sem gekk undir ýmsum nöfnum, reyndar og er þakklátur fyrir að okkur skyldi auðnast að koma flestum fundargerðabókum nefndarinnar og ýmsum gögnum hennar, til varðveislu á Héraðsskjalasafni Árnesinga, en þar á svona efni auðvitað heima.

Það vantar sem sagt ekki mörg ár inn í þessa sögu, ekki nema 15, reyndar.
Þessi 15 ár, eru hinsvegar afskaplega mikilvæg og má segja að þau myndi grundvöllinn að því sem síðan gerðist í málefnum Laugaráss. Þetta eru árin frá því um 1920 til um það bil 1935.

Héraðsskjalasafn Árnesinga, oddvitar í uppsveitunum og ég, erum nú að freista þessa að þefa uppi einhverskonar fundargerðir oddvitanna í þessi 15 ár og núverandi oddvitar tóku að sér að birta í miðlum sveitarfélaga sinna, nokkurskonar ákall um að afkomendur sveitarsjórnarmanna í þessum hreppum á umræddum tíma kæmu til liðs við okkur við að reyna að hafa upp á þessum bókum, eða bók.


Ég geri það sama hér, í mínum, ekki alltof áberandi miðli líka. Það er kannski von á að einhverjir eða einhverjar deili þessu áfram.

Hérna efst er upphaf elstu fundargerðinnar sem enn hefur fundist. Hún, og aðrar sem fylgdu, er skráð í bók sem er ekki nema 7x11 cm að stærð (kápan hér til hægri), sem bendir til að fyrri bækur hafi ekki verið mikið stærri.

Það er auðvitað möguleiki, að fundir oddvitanna frá 1920-1935 hafi verið skráðir í fundargerðarbækur einhvers hreppanna, en ýmsar þeirra hafa, að því er virðist, ekki skilað sér á héraðsskjalasafnið. Það er full ástæða til að leita þær uppi einnig og svo bara öll möguleg gögn sem leynast kannski í dánarbúum, eða hjá fjölskyldum, en ættu að komast til varðveislu á heráðsskjalasafni.

Ég ætla svo að láta fylgja hér fyrir neðan, textann sem ég klambraði saman og sem ætti að dreifast up uppsveitirnar um þessar mundir. 

Meðan ég held áfram að vinna mig í gegnum það efni sem þegar er fyrir hendi, lifi ég í voninni um að það takist að finna efni til að fylla í þessa 15 ára eyðu.

Undirskriftir oddvitanna sem sátu þennan fund, árið 1935.


Oddvitarnir á fundinum 1935, frá vinstri: Sr Guðmundur Einarsson Mosfelli, Páll Stefánsson 
Ásólfsstöðum, Eiríkur Jónsson Vorsabæ, Teitur Eyjólfsson Eyvindartungu, Árni Ögmundsson Galtafelli, Guðjon Rögnvaldsson Tjörn.

Þegar þarna var komið sögu læknishéraðsins, var sr. Guðmundur Einarsson prófastur á Mosfelli formaður nefndarinnar.

-------------------------------------

Þá er það textinn, sem nú er dreift í uppsveitunum:


Finnum þessar bækur 

Ég segi nú stundum, að án sögunnar, værum við ekki að spígspora um þessa jörð. Það fólk sem ól okkur af sér á líka sína sögu og þar fram eftir götunum, langt inn í fortíðina. Okkur ber skylda til að halda frásögnum af verkum og lífi þess til haga, eftir föngum.

Undanfarin ár hef ég verið að taka saman ýmsar upplýsingar um Laugarás og er búinn að koma upp vef sem kallast laugaras.is, sem geymir það sem ég hef tekið saman um þennan þéttbýliskjarna, sem á sér stutta, en sérstaka sögu.

Hluti af þessari samantekt á að vera nokkurskonar saga Laugaráslæknishéraðs, sem áður kallaðist Grímsneslæknishérað, en þar sem uppsveitamenn virðast hafa komið sér hjá því að vera mikið á síðum dagblaða, þarf að treysta á þau gögn sem hafa orðið til innan svæðisins, til dæmis fundargerðabækur.

Erindi mitt við þig er þetta:

Mig vantar enn bækur sem ná yfir tímabilið frá 1920 – 1935; það vantar fimmtán mikilvæg ár inn í þessa sögu. Gögn frá þessum tíma hefur mér ekki tekist að finna, utan fundargerðabóka hreppsnefndar Biskupstungnahrepps og Sýslunefndar Árnessýslu. Þar fyrir utan er um að ræða glefsur úr öðrum bókum sem tengjast uppsveitunum, sem héraðsskjalasafnið geymir.

Þú ert kannski afkomandi einhverra þeirra forystumanna sem komu við sögu á þessum tíma og hugsanlega geymir fjölskylda þín einhver gögn sem þeir létu eftir sig, þar sem ein til tvær litlar fundargerðabækur gætu leynst. Ert þú til í að leita þessi gögn uppi, eða láta okkur vita hvar líklegt er að þau sé að finna? Elsta bókin sem við höfum er ekki nema 11x17 cm að stærð (sjá meðfylgjandi mynd), svo hér er líklega ekki um að ræða stórar eða miklar bækur. Mögulega bara eina bók.

Það getur verið, að fundargerðir oddvitanna á þessum tíma, hafi verið skráðar í fundargerðabók einhverrar hreppsnefndarinnar, en því miður eru þær einnig ófundnar, utan fundargerðabóka Biskupstungnahrepps frá þessum tíma. Í þeim er ekki mikið fjallað um læknishéraðið.

Til fróðleiks læt ég hér fylgja nöfn forystumanna úr hreppunum sem komu að læknishéraðinu á árunum 1920-1935. Þeir eru sannarlega fleiri, en þessar upplýsingar eru úr fundargerðabókum sýslunefndar Árnessýslu, Biskupstungnahrepps og oddvitanefndar. Kannski kveikir það í þér

Biskupstungnahreppur
Sr. Eiríkur Þ. Stefánsson, Torfastöðum
Jörundur Brynjólfsson, Múla og Skálholti
Einar Jörundur Helgason, Holtakotum
Jóhann Kr. Ólafsson, Kjóastöðum
Guðjón Rögnvaldsson, Tjörn
Skúli Gunnlaugsson, Bræðratungu.

Hrunamannahreppur
Ágúst Helgason, Birtingaholti
Helgi Ágústsson, Syðra Seli

Gnúpverjahreppur
Sr. Ólafur Briem, Stóra Núpi
Páll Stefánsson, Ásólfssöðum 
Árni Ögmundsson, Galtafelli

Grímsneshreppur
Gunnlaugur Þorsteinsson, Kiðjabergi
Magnús Jónsson Klausturhólum
Sr. Guðmundur Einarsson, Mosfelli

Laugardalshreppur
Böðvar Magnússon. Laugarvatni
Teitur Eyjólfsson, Eyvindartungu

Skeiðahreppur
Guðmundur Lýðsson, Fjalli
Brynjólfur Bjarnason, Framnesi
Eiríkur Jónsson, Vorsabæ

Ef þér skyldi takast að grafa upp þessa gömlu bók (eða bækur), eða ef þú gætir veitt einhverjar upplýsingar um hvar hana gæti verið að finna, bið ég þig að hafa samband við eitthvert þeirra sem hér eru tilgreind:

Páll M. Skúlason netf. pallsku@gmail.com s. 8989152
Þorsteinn Tryggvi Másson netf. thorsteinn@heradsskjalasafn.is s. 4821259
eða oddvitann í þínu sveitarfélagi.


Með fyrirfram þökk.

Páll M Skúlason





30 október, 2020

Að koma lífi í rjóma

Þegar ég fæ mér kaffi, þykir mér harla gott að skella í það dreytli af rjóma, sem ég sæki í ísskápinn. Tek rjómann fram, ískaldan og frekar dofinn. 

Til þess að koma í hann lífi áður en ég hleypi honum í kaffibollann minn, hristi ég hann rækilega og vek hann þannig til lífsins, svo ann dragi fram hið nákvæmlega rétta bragð af indælis kaffidrykknum.

Ég fékk mér kaffi í dag og það gerði fD einnig. 

Hún vekur rjómann ekki með sömu aðferðum og ég, heldur skrúfar bara tappann af og hellir.

Í dag fékk hún sér rjóma í kaffið sitt, á undan mér og setti síðan á borðið og tappann við hliðina.

Svo tók ég upp hálfpottsfernuna af rjóma og vakti til lífsins, eins ég geri.

Hér á bæ var skúrað hátt og lágt í dag.


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...