25 september, 2021

Sama gamla

Það má hverjum manni vera ljóst, að ég ætla mér að nýta kosningaréttinn, þó ég viti, að eins og venjulega muni mér ekki verða að ósk mini um stjórn í þessu landi, sem mér hugnast. Ég man varla eftir kosningum sem fóru í samræmi við vilja minn. Samt kýs ég og kýs og kýs.

Jú, það hefur komið fyrir að ég ég hef fengið hluta óska minna uppfylltan, en þá hefur verið mynduð einhver samsteypustjórn þar sem sérhagsmunaöfl, sem við fáum aldrei að kjósa, taka til varnar með aðferðum sem sjaldan fara hátt.  
Svo fáum vð aldrei að kjósa embættismenn, E-flokkinn, sem hafa fengið völd langt umfram það sem eðlilegt er. Þeir hafa mikil völd til, og mikil tengsl við öflin sem stjórna bak við tjöldin.
Við kjósendur getum spriklað eins og við viljum, en það breytir bara harla litlu, því miður. Við þykjumst geta breytt einhverju, sjáum fyrir okkur fyrirmyndarsamfélagið og finnum einhvern hóp sem þykist tilbúinn að berjast með okkur fyrir því. Svo gengur bara harla fátt eftir, þegar upp er staðið. 

Gegnum árin hef ég auðvitað velt því fyrir mér hvernig stendur á því að fólk notar atkvæði sin til að styðja við öfl sem hafa það helst að markmiði að skara eld að eigin köku og tekst að blekkja okkur til að halda að það sé okkur fyrir bestu. Ég skil bara hreint ekkert í því og sé ekki fram á að skilja það. 

Hér hefur talað kjósandi sem hlakkar ekkert sérlega mikið til að vita hvað kemur upp úr kjörkössunum, því hann veit að það verður það sama og venjulega.
Þessi kjösandi ætlar, þrátt fyrir það að nýta kosningaréttinn. Allavega það.
Svo ætlar hann að halda áfram með líf sitt, fullur bjartsýni á að einhver finni leið, einhverntíma, til að bylta þessari samfélagsgerð.

-------------------------

Hvað á ég svo að kjósa? Hvað kemst næst því að get haft áhrif eftir kosningar, sem eru í einhverju samræmi við lífsskoðanir mínar? Á ég kannski bara að kjósa nákvæmlega þann flokk sem ég hallast helst að, þó ég viti að því atkvæði er ekki "taktískt" vel varið?  


22 september, 2021

Lögbrot á Kili

Fyrir framan Hallormsstaðaskóla. F.v Pálína,
ég, pabbi og mamma.
Fyrir ykkur sem tölduð að ég ætlaði að tjá mig um hálendisþjóðgarð, eða ofbeit á afrétti Tungnamanna, eða varpa einhverri annarri sprengju hér inn í aðdragana kosninga,  þá snúast eftirfarandi skrif um alls óskyld mál.

Lögbrotið, sem fyrirsögnin vísar til, er reyndar ekki nema hluti þess sem ég ætla að fjalla um í þessum pistli, en það var samt svo alvarlegt, að það er mér enn ljóslifandi í minni, 55 árum síðar. 
Árið 1967 var árið sem ég fermdist, þá 13 ára. Þrettán ára var ég allt þetta ár, nema tvo daga.

Einhvernveginn minnir mig að það hafi verið í ágúst þetta ár að Hveratúnshjónin, ásamt Pálínu systur pabba og Sigga á Baugsstöðum, bróður mömmu og mér lögðu í heilmikla ferð austur á land, Mig minnir að við höfum farið Sprengisand norður og þaðan yfir Möðrudalsöræfi austur á Hérað, til að heimsækja fólk. 
Á Víkingsstöðum á Völlum var amma mín  Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968). Hún bjó með syni sínum og bróður pabba, Alfreð.  Þá var fólkið á Hallormsstað líka heimsótt, en þar bjó fóstri pabba, Sigurður Blöndal (1924-2014)  með fjölskyldu sinni og þar hafði mamma gengið í húsmæðraskóla á sínum tíma. Frá þessu öllu saman greini ég í samantekt um ævi pabba, þegar 100 ára voru frá fæðingu hans og í samantekt um ævi mömmu þegar 100 ára voru frá fæðingu hennar og fer því ekki að orðlengja of mikið um það hér.

Árið 1965 lést Magnús Jónsson (1887-1965), afi í Hveratúni, en hann átti þar heima síðustu æviárin. Ég reikna með að þessi ferð hafi verið farin að einhverju leyti í tengslum við það. Mögulega hefði hún verið farin ári fyrr ef ekki hefði þurft að ferma mig, sem var auðvitað slíkur merkisatburður að flest annað þurfti að víkja. Amma lést ári eftir heimsókn okkar til hennar.

Ég minnist þess ekki að það hafi verið einhver umtalsverð samskipti við ömmu á Víkingsstöðum. Jú ég veit að það voru bréfaskriftir og mamma var dugleg að senda myndir af fjölskyldunni austur. Ég þykist viss um að amma kom aldrei í Hveratún. Það gerðu hinsvegar systkini pabba, flest og einhvernveginn minnist ég annarrar ferðar austur á land fyrir þessa og þá var afi með í för.
Auðvitað var hreyfing fólks ekki eins mikil milli landshluta þá og nú og öll samskipti flóknari, en það hefði verið gaman að kynnast þessari kjarnakonu, sem hafði eignast 9 (jafnvel 10) börn við erfiðari aðstæður en við getum ímyndað okkur. Sex þessara barna náðu fullorðinsárum. Það er ég viss um, að árin sem afi og amma bjuggu í Jökuldalsheiðinni, hafi tekið meira á en hægt er að orða þannig að við, allsnægtafólkið, getum skilið.

Föðursystkin mín: Alfreð (1914-1994), Haraldur (1915-1991) Björg (1919-1982),
Sigfríður (1921-1993) og Pálína (1925-1987).
 
F.v. Skúli, Ingibjörg, Guðný og ég.

Ég man ekki mikið frá þessari heimsókn að Víkingsstöðum. Það grillir í þessa góðlegu konu og frændfólkið, en fátt umfram það. 

Ingibjörg með fjórum barna sinna. Aftar f.v. Alfreð og Skúli. Fyrir framan, Pálína og Haraldur.

Lögbrotið

Það er kannski bara best að ég vindi mér í það sem ég man ofur vel frá þessari ferð austur á land. Í bláa Landróvernum, X1567, vorum við fimm á ferð. Þrjú sátu fram í og tveir aftur í. Hversvegna ég fékk að fara í þessa ferð hef ég engar upplýsingar um, en dettur einna helst í hug, að foreldrar mínir hafi viljað sýna ömmu nýfermdan piltinn. Heima voru þá væntanlega systurnar, Ásta (20) og Sigrún (18) og pössuðu sína nýfæddu syni, örverpið Magnús (7) og Benedikt (11).

Hvað um það, leiðin til baka suður skyldi liggja um Kjalveg. 
Ekki veit ég hvernig það kom til; hvort það var suðið í mér, eða frumlegheit föður míns, sameiginleg ákvörðun hinna fullorðnu í Landróvernum, eða einfaldlega það að ég var nægilega lítill töffari til að hægt væri að treysta því að ég gerði enga vitleysu. Eitt er ég þó nokkuð viss um: frú Guðný hefur ekki verið ánægð með að leyfa barninu keyra. Þegar þarna var komið hafði pabba oft tekist til að lokka mig til vinnu í gróðurhúsunum með því að ég fengi að snúa Landróvernum á eftir, svo ekki var ég alveg ókunnur gripnum.

Ekki held ég að ég hafi þarna gert mér grein fyrir því að með því að gerast bílstjóri með fjóra fullorðna, stressaða farþega innanborðs, var ég að takast á hendur umtalsverða ábyrgð, en ég veit, að ég var staðráðinn í því að leysa verkefnið óaðfinnanlega af hendi, enda Siggi á Baugsstöðum með í för, en hann var á þessum tíma ökukennari, ef ég man rétt.

Blái Landróverinn var farartækið. Þarna sennilega í Námaskarði.

Hvort ég keyrði að Hveravöllum, eða frá, man ég hreint ekki og hvernig getur það líka skipt máli? Adrenalínflæðið útilokaði allt annað en vegslóðann framundan, kannski þannig að leiðbeiningar þeirra sem vissu betur fóru fyrir ofan garð og neðan. Lengi ók ég Landróvernum og var stoltari og hamingjusamari en í annan tíma. Ég fékk að aka lengur en mig hafði grunað að yrði raunin. Ég túlkaði þann tíma sem ég fékk við stýrið sem mikla upphefð; nú væri ég sannarlega kominn í fullorðinna manna tölu.
Þetta var vissulega lögbrot, á því er enginn vafi og ég á erfitt með að sjá að ég hefði leyft nýfermdum börnum mínum svona lagað. Ég held að fyrir öllum þessum árum hafi allt verið svo miklu einfaldara og saklausara, og sannarlega var engin hætta á að Selfosslöggan væri að þvælast uppi á Kili og engin var hálendisvaktin.


12 september, 2021

Hermenn karlaleiðarinnar


Það var niðurstaða um það hjá fD í morgun, og sem ég féllst auðvitað á, að við skyldum njóta rigningarinnar með því að fara "karlaleiðina". Það kæmi mér ekki á óvart, ef einhver þeirra sem þetta lesa, kannist ekki við að hafa heyrt þessa leið nefnda, en mér er ljúft að upplýsa það og skýra.

Skömmu eftir að við fluttum á Selfoss, bauðst mér að taka þátt í morgungöngu með hópi harla hressra karla. Þetta fól það í sér að mæta á  tilteknum tíma (kl. 07.40) á tilteknum stað (á mótum Engjavegar og Rauðholts), sameinast þar tveim körlum og ganga með þeim, ásamt þeim þriðja sem bættist við milli Rauðholts og Langholts, en meðfram þeirri götu var síðan gengið, og nokkrir göngumenn til viðbótar tíndir upp, sem leið lá, vestur fyrir torgið hjá FSu, þaðan eftir Fossheiði, þar til beygt var inn á Kirkjuveg, eftir honum að Eyrarvegi, yfir hann og síðan brúarendann og að "Kaupfélagshúsinu". Þar bættust enn við nokkrir. Eftir þetta lá leið eftir Austurvegi, eða Árvegi, eftir því hvernig viðraði eða lá á mönnum, að tilteknum stað eða stöðum þar sem göngumenn liðkuðu sig (Müllersæfingar) undir styrkri stjórn eins göngumannsins. Skömmu eftir æfingarnar lauk svo göngu minni þann daginn. Svona var þetta fjóra daga vikunnar, en þann fimmta var oftast einhver tilbreyting: heimsóknir í fyrirtæki eða til einhverra stofnana eða félaga, nú eða þá að einhver félaginn bauð í afmæliskaffi í bakaríi.

Þessi gönguhópur fékk svo nafnið "Gönguhópur Hermanns" eftir manninum sem varð upphafsmaður að þessum göngum fyrir áratugum.

Mér fannst ágætt að ganga með þessum hópi á morgnana og fD tók upp á því að drífa sig í þetta eftir því hvernig á stóð. Þarna komst á föst venja sem gat ekki gert manni neitt nema gott. 

Svo fór ég að sofa lengur, en það ákvað ég að þegar ég hætti að vinna skyldi vekjaraklukkunni lagt. 
Oftar en ekki svaf ég af mér ofannefndan göngutíma á morgnana og þegar ég náði að vakna, fannst mér einhvern veginn ekki við hæfi að mæta, sérstaklega á föstudögum, þegar boðið hafði verið í afmæliskaffi.
Þetta þróaðist því þannig, að göngur mínar með þessum ágæta hópi lögðust af, en ekki er ég samt búinn að gefa upp á bátinn möguleikanna að ég muni eiga endurkomu, en það verður allavega ekki fyrir kosningar, ekki síst vegna þess að þeir eru farnir að fá pólitíkusa með sér, sem síðan fá umfjöllun eins og telst við hæfi.
Um pólitík karlanna í hópnum veit ég svo sem ekkert, enda ekki bein umræða um stjórnmál í hópnum, en tel mig samt nokkuð öruggan hvaða tveir stjórnmálaflokkar fá atkvæði þeirra í kosningum, alla jafna. Um stjórnmálaskoðanir þeirra fjalla ég ekki frekar, enda bara eðlilegt að fólk hafi sínar skoðanir á þjóðmálum. Ég hlakka til að sjá hvernig þeim gengur að fá fulltrúa frá öllum framboðum í morgungöngu með sér. 

Ganga okkar fD í morgun var nokkuð blaut, en karlaleiðina förum við alloft. Það er ákveðin stefnufesta sem fylgir henni - ákveðinn stöðugleiki. 

10 september, 2021

Miðjarðarhafið eða Melrakkaslétta

Á Melrakkasléttu (skiltin eru innfelld og óraunveruleg)
  Nokkrar myndir fylgja neðst 
(smella til að stækka).

Þegar þetta er ritað hefðum við fD átt að vera að spóka okkur við norðvesturhluta Miðjarðarhafsins í einstakri 13 daga ferð í góðum hópi, væntanlega. 
Þessi ferð var ákveðin fyrir hálfu ári og þá þóttumst við örugg um að allt yrði fallið í ljúfa löð; við fullbólusett og hömlur farnar um alla Evrópu. 
Jú við erum víst fullbólusett orðin, en Evrópa og sóttleysi vítt og breytt allt í einhverju fokki. 
Þessi draumaferð var, sem sagt, felld niður.
Við þessar aðstæður varð úr, ekki síst vegna þess að Miðjarðarhafið er nánast jafnlangt orð og Melrakkaslétta, og að báðir þessir staðir á jarðarkringlunni hefjast á sama bókstaf (sem gefur gott færi á skemmtilegri bloggfyrirsögn), að við myndum skreppa á Melrakkasléttu í stað Miðjarðarhafsins. Að auki var Melrakkasléttan sá staður á landinu, sem hvorugt okkar hafði komið til, jafn vel þó ég hefði lært það í barnaskólalandafræðinni minni að þar væri að finna næstnyrsta tanga Íslands, Hraunhafnartanga.

Ekki ætla ég að rekja ferðasöguna hér, enda um áfallalausa ferð að ræða í íslensku blíðviðri, eins og best hentar til ferðalaga. Gististaðirnir sem booking.com sá um að mæla með, á þeim stöðum sem við höfðum hug á að gista, voru hreint ágætir, hver með sínum hætti.

Þegar tvær manneskjur eins og við fD sitja saman í bíl á ferð - manneskjur sem ferðast hafa saman, árum saman, í blíðu og stríðu, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu, fór ekki hjá því að ýmislegt bæri á góma og fD var dugleg að rifja upp hina og þessa staði sem við höfðum komið á, sem, samkvæmt mínu minni, voru ekki þar sem hún taldi þá vera og öfugt. Þannig var það til dæmis með refasetrið sem við áttum að hafa heimsótt í einhverri ferðinni, en staðsetning þess hófst við Eyjafjörð, fór þaðan í Mjóafjörð og endaði loks sem Melrakkasetur Íslands á Súðavík, sem rétt mun vera.  Ýmislegt fleira í þessum dúr bar á góma, en það myndi æra óstöðugan ef ég færi að telja það allt upp hér.

Ferðin í hnotskurn
- gististaðirnir í bláum hringjum - Breiðdalsvík, Egilsstaðir, Raufarhöfn og Akureyri x2

Ekki hittum við margt fólk í þessari fínu ferð, en renndum við hjá Mannsa og Dísu á Egilsstöðum, fundum hús frænda á Fáskrúðsfirði, leituðum ekki uppi manninn á Raufarhöfn og rákumst að Laugvetningana Bödda og Sólveigu á Akureyri.  Við gerðum á móti, mikið af því að skoða fegurð landsins, eins og maður á að gera í svona ferðum. 
Aðvitað varð furðumargt ferðafólk af erlendu bergi brotið á leið okkar, en umferðin var aldrei til trafala og sérann stóð vel fyrir sínu, nema helst í brekkum.

Sem sagt, hin ágætasta ferð.

Nokkrar myndir til viðbótar:

FáskrúðsfjörðurNorðfjörður - Neskaupstaður

Egilsstaðir

Vopnafjörður

Bakkafjörður 

Rauðanes

Heimskautsgerðið Raufarhöfn

Hraunhafnartangi - um það bil

Við ysta (nyrsta) haf - Melrakkaslétta

Ásbyrgi

Raufarhöfn  

01 september, 2021

Eldri borgarar: Það vantar einn hlekkinn

Hjúkrunarheimili á Selfossi Mynd frá RUV
Ég bý við Austurveg á Selfossi, þar sem  mikil byggð íbúða fyrir eldri borgara er og hefur verið að rísa. Hér er um að ræða tiltölulega hentuga stærð íbúða, fyrir fólk sem er að stíga út úr önnum starfsævinnar og út úr stórum einbýlishúsum, sem eru orðin alltof stór fyrir þarfir þess.  Hér við Austurveginn er risið heilt hverfi fjölbýlishúsa fyrir eldra fólk, sem keypt hefur þessar ágætu íbúðir fyrir heilmarga tugi milljóna. Þetta er valkostur fyrir það fólk sem þetta getur - sem hefur getað selt einbýlishús og haft efni á að kaupa íbúðir í af þessu tagi, á þessum stað.

Hér skammt frá er verið að byggja glæsilegt hringlaga hjúkrunarheimili, sem ætlað er að taka við fólki sem komið er í þá stöðu að geta ekki séð um sig sjálft lengur. Það þarf hjúkrun. Þetta má segja að þetta hjúkrunarheimili sé, eins og önnur slík, endastöð fólks hér á jörð. Hjúkrunarheimili eru dýr valkostur, eins og okkur ætti að vera orðið ljóst, og þar að auki eru heilmiklir biðlistar eftir að plássi fyrir fólk, sem þarf þá að teppa rándýr pláss á þjóðarsjúkrahúsinu, sem síðan orsakar ofurlanga biðlista þar. 

Það eru, held ég, allir sammála um, að það sé mikilvægt að draga úr þörfinni fyrir innlögn á hjúkrunarheimili og það er almennt mikilvægt að skapa aðstæður til að takast á við stórvaxandi fjölda eldri borgara nú og á næstu árum.
Þessi mynd sýnir fjölda fæddra síðastliðin 120 ár. Í ljósa reitnum er fólk sem er núna
á aldrinum 50 til 70 ára - fólkið sem mun fylla hóp eldri borgara næstu árin.  Heimild Hagstofan.

Stjórnmálin og eldri borgarar

Í aðdraganda kosninga eru enn á ný ofarlega í talanda stjórnmálamanna ástin á velferð eldri borgara. Munurinn er kannski sá nú, að við baráttufúsari eldri borgara er að eiga. Hippakynslóðin og bítlakynslóðin sætta sig ekki við að gleymast milli kosninga. Þær kynslóðir sem eru nú að komast á eftirlaun gera allt aðrar kröfur til lífsgæða en þær sem á undan hafa komið. 
Eins og einhver sagði í útvarpsviðtali, þá lítur þetta fólk ekki á harmonikkuleik með polkum og rælum, sem afþreyingu. Það má vel segja að hér sé um alveg nýjan þjóðfélagshóp að ræða. Þetta er hópur sem lifir lengur og er hress lengur, sem bætist auðvitað ofan á, að um er að ræða fjölmennasta hóp eldri borgara sem nokkurn tíma hefur þurft að sinna.

Stjórnmálamennirnir tala nú hver í kapp við annan um að það þurfi að auka við og efla þjónustu við eldri borgara, án þess, að því er virðist, að vita mikið um við hvað er að eiga.
Það á að stórefla heimaþjónustu (sem sveitarfélögin hafa á sinni könnu). Þetta er áherslumál númer eitt.  Mér finnst þeir ekki hafa hugsað það mál til enda. Á sú heimaþjónusta að felast í þrifum á heimilum fólksins, líkamlegum þörfum, félagslegum og andlegum þörfum?  

Í þessum glæsilegu íbúðum sem eldri borgarar leggja í kaup á, hérna við Austurveginn, er fólk frá um það bil sjötugu til um það bil níræðs. Það er nokkuð algengt að annar makinn sé látinn og ekkillinn eða ekkjan sitja ein eftir í íbúðinni góðu. Þetta er að mestu leyti fólk sem getur vel séð um sig sjálft og stundað félagslíf af krafti, ef því er að skipta. Það er komið í litla og viðráðanlega íbúð, en rándýra. Það hentar vissulega sumum, sérstaklega þeim sem áttu  einbýlishús til að selja. Það eru ekki allir  í aðstöðu til kaupa á svona íbúðum. 


Milli heimilis og hjúkrunarheimilis.

Mér finnst sárlega vanta í umræðu um málefni eldri borgara hugmyndir um hvernig við ætlum að leysa úr málum þess stóra hóps fólks, sem  býr tiltölulega einangrað í of stóru húsnæði, en getur alveg séð um sig sjálft, jafnvel til æviloka. Sannarlega er það einn valkosturinn að kaupa íbúð eins og hér á Austurveginum. 
Mér finnst vanta hlekk á milli heimilis fólks sem kemst á eftirlaun, og hjúkrunarheimilis. Sá hlekkur á að vera til þess ætlaður, að fólk þurfi síður eða seinna, eða aldrei á hjúkrunarheimili að koma.  Þetta væru klasar með litlum, ódýrum/ódýrari íbúðum, sem fólk gæti keypt eða leigt. Jafnframt væri góð aðstaða fyrir íbúa þessara klasa til að sinna áhugamálum, njóta samvista við annað fólk, stunda heilsurækt og svo framvegis.  Litlu íbúðirnar væru athvarf, sem hver og einn dveldi í eftir því sem hann kærir sig um.


Heimaþjónustan

Jú, jú það er örugglega gott og gilt að efla heimaþjónustu, en hún mun seint ná að fullnægja öllum þörfum fólks. Hvað með ekkjuna, eða ekkilinn, sem hittir fáa eða engan utan manneskjunnar sem kemur (kannski daglega - hver veit) vegna þess að hún fær greitt fyrir það? Ætli þessi heimaþjónusta eigi að fela í sér að sinna félagslegum þörfum - spjalla, til dæmis?  Hvað með hjónin sem eru búin að vera saman í 70 ár og eru búin að tæma öll sín umræðuefni?  Svona fólk myndi eflast við að komast í sambýli eins og ég nefni hér að ofan, lífsgleðin myndi aukast og lífslíkur þar með. 

Það vantar millistig fyrir fólk sem þarf að forða frá einangrun inni á heimilum sínum. Maðurinn er félagsvera og samfélag við annað fólk frestar eða hindrar þörfina fyrir pláss á hjúkrunarheimili.

Elliheimili framtíðar

Nútímalegt elliheimili er það sem ég vil kalla eftir. Væri alveg til í að hjálpa til við að skipuleggja það, með mina kynslóð og þær næstu í huga. Heimili af þessu tagi ætti ekki að verða dýrt í rekstri, þar sem íbúarnir ættu íbúðirnar, eða væru með þær á leigu, og sæi mikið til um sig sjálft. 
Hringleikahúsið okkar hérna á Selfossi gæti örugglega nýst vel til þess arna - en það á að verða hjúkrunarheimili, segir sagan.27 ágúst, 2021

Fidelio - Atlaga að óperu

Í Norðurljósasal Hörpu fékk ég að upplifa óperusýningu í gærkvöld. Þar sem ég er einn þeirra sem þurfa helst að hafa heyrt óperutónlist nokkrum sinnum áður, til að fá verulega mikið út úr henni, hafði ég ekkert sérlega miklar væntingar fyrirfram, svo sem, utan auðvitað að fá að sjá og heyra son minn, tenórinn í óperuhlutverki. Þau hlutverk ættu raunar að vera miku fleiri og missir fyrir íslenskt tónlistarlíf að kraftar hans séu ekki nýttir betur.
Fídelío er ekki meðal þeirra tónverka sem ég hafði áður kynnst, en afskaplega var þarna um að ræða skemmtilega upplifun. Þar kemur ýmislegt til:
- söngvararnir skiluðu hlutverkum sínum hver öðrum betur.
- óhefðbundin, afslöppuð uppsetningin fangaði mig alveg frá fyrsta tóni.
- sjö manna hljómsveitin stóð heldur betur fyrir sínu.
- ofurskemmtilegur útúrdúr undir lokin, sem enginn átti von á, varpaði skæru ljósi á stöðu og aðstæður íslensks tónlistarfólks.
Þessa sýningu ætti fólk að sjá, en því miður er bara sýning í kvöld og síðan ekki söguna meir, hér á landi, í það minnsta.

Takk fyrir mig.

25 ágúst, 2021

Ég, peningasmyglarinn

Myndir af vef. Samsetning pms
Á Álaborgarflugvelli hefur lífið yfirleitt verið fremur afslappað og átakalítið þegar við höfum átt þar leið í gegn. 
Að aflokinni innritun og kveðjustund héldum við þrjú, ég, fD og uG í gegnum hefðbundna skoðun á handfarangri og sjálfum okkur, svona rétt eins og venjan er, enda engin leið að vita með öðrum hætti hvort við séum fólkið sem ætlar að sprengja flugvélina, eða ræna henni. 
Við skiljum þessar varúðarráðstafanir afar vel. 

Þar sem bakpokinn okkar fD var á ábyrgð fD, tók ég að mér að hafa umsjón  með annarri handtösku uG.   Við töldum víst að þessi afmarkaða leið okkaar í gegnum öryggiseftirlitið yrði jafn ljúf og hún hefur áður verið: auk farangursins fórum við yfir hefðbundinn tékklista, slógum á alla vasa, og tókum allt sem málmur var í af okkur og skelltum í bakka. Þessa rútínu þekkir fólk sem farið hefur um flugvelli auðvitað.
Að þessu búnu gekk ég að hliðinu, handan hvers öryggisvörður stóð og benti mér að koma í gegn, sem ég sannarlega gerði og fór píplaust í gegn, eins og jafnan. Þarna fyrir innan stóðu fleiri öryggisverðir og voru með svartan labrador hund í bandi, sem ég gerði auðvitað ekkert með, heldur fór að bandinu sem flutti farangurinn gegnum gegnumlýsingartækið og tók þaðan tösku uG og annað sem mér tilheyrði og komið var í gegn. Ég áttaði mig ekki strax á því, að bakkinn með bakpokanum og jakkanum mínum hafði á þessari stundu verið tekinn til hliðar og silaðist eftir öðru bandi í átt að sérstökum öryggisverði.

Mynd frá öryggisleit í Álaborg, af vef.

"Har du kontanter?" var ég allt í einu spurður og bak við mig stóð frekar góðmannlegur öryggisvörður með hundinn í bandi, en hann hafði þarna sett hægri framfótinn á tösku uG, sem ég hélt á, ósköp kurteislega. 
Í huganum þurfti að snarlega að þýða þetta orð "kontanter" og upp kom merkingin "peningar" eða "fjármunir" eða "reiðufé".  Ég játaði auðvitað strax að ég væri með "kontanter" og um leið ítrekaði hundurinn bendingu sína á tösku uG, afar kurteislega.  
Ég neita því ekki, að eitt augnablik hvarflaði að mér, að uG væri, með því að fela mér umsjá annarrar töskunnar sinnar, að nota mig sem burðardýr fikniefna í gegnum öryggisleitina - en bara eitt örstutt  augnablik. Ég hef ekki áður lent í því að hundur bendi ítrekað á að rétt sé að skoða mig eitthvað nánar og því mögulega skiljanlegt að í sekúndubrot hafi mér komið til hugar að sársaklaus dóttir mín væri þessarar gerðar.

Öryggisvörðurinn útskýrði í framhaldinu fyrir mér að hundurinn væri þjálfaður til að þefa uppi "kontanter" og bað mig að koma að sérstöku borði þar sem tveir öryggisverðir til viðbótar biðu mín og báðu um að fá að sjá reiðuféð sem ég hefði í fórum mínum, en einnig  leituðu þeir gaumgæfilega í bakpokanum sem fD bar ábyrgð á, og rákust þar að tvo danska osta sem við höfðum fest kaup á - afar góða, en þeir gerðu ekkert með þá.

Jæja, ég tók auðvitað fram veskið mitt og hóf að leita að seðlum inn á milli allra kvittananna og lét þá falla á borðið fyrir framan öryggisverðina. Annar þeirra horfði á seðlana, nokkra íslenska og nokkrar evrur, sem höfðu átt samastað í veskinu í einhver ár og voru kannski farnir að gefa frá sér einhverja ellilykt.  Hinn öryggisvörðurinn við borðið fyllti á meðan út eyðublað með helstu upplýsingum sem fram komu við þessa rannsókn, en að því búnu var mér leyft að setja seðlana/reiðuféð/fjármunina aftur í veskið og ekki neita ég þvi, að ég óttaðist að þeir tækju þá eftir lítilsháttar handarskjálfta, þar sem ég reyndi, af festu og smeygja seðlunum í veskið aftur. 
Að þessu búnu vildu þeir fá að vita erindi okkar í Álaborg og því svaraði ég greiðlega, sömuleiðis forvitnuðust þeir um hvert ég væri að fara, sem ég gat upplýst þá um.


Ég neita því ekki, að það hefur stundum hvarflað að mér að flytja bara peninga milli landa í tösku, frekar en senda þá í gegnum einhverja bankaþjónustu, en þarna komst ég að því að til eru sérþjálfaðir hundar, sem leita uppi fólk sem reynir að komast upp með að smygla peningum milli landa, nú eða landshluta, eins og í okkar tilfelli, enda vorum við á leið í flug til Kaupmannahafnar, eftir einkar ánægjulega dvöl hjá sonunum og þeirra fólki í Álaborg, með tvo "gullklumpa" í farteskinu, eftir frækilega 5 km, göngu, með frjálsri aðferð, í Guglöbet 2021. Ýmislegt leiðir af leiklestri

Frá því í menntaskóla hef ég haft talsverðan áhuga á leiklist, það verður að segjast. Það var Kristín Anna Þórarinsdóttir , leikkona, sem ko...