09 ágúst, 2022

Baugsstaðir - leit að botni 1874 - 1887

Annað húsannar er Eyfakot en hitt læknishúsið,
eftir því sem ég kemst næst, ennþá.
(mynd af sarpur.is)
Ég er að reyna að fá botn í þetta allt saman.

Ætli sé ekki rétt að ég byrji bara árið 1874,  árið sem danski kóngurinn  Kristján IX kom færandi hendi með nýja stjórnarskrá. Er það bara ekki ágætur staður til að byrja á?

Á þeim tíma eru það aðallega þrír bæir í Flóanum sem þurfa að koma til athugunar: Tunga, Baugsstaðir og Eyvakot. Þessir fyrrnefndu eru nágrannabæir og loftlínan milli þeirra ekki nema rúmur kílómetri og vegalengdin eftir núverandi vegi er rétt um tveir kílómetrar. Byrjum bara á Tungu og Baugsstöðum og síðan bætist Eyfakot á Eyrarbakka við.

1874 

Þarna 1874 bjuggu í Tungu þau Hannes Einarsson. 62 ára og Kristín Bjarnadóttir 55 ára, ásamt fimm börnum sínum, þeim Bjarna (31), Jóhanni (22), Kristínu (20), Einari (18) og Guðmundi (16). Auk fjölskyldunnar voru á bænum fertug hjón með 7 ára dóttur og 16 ára niðursetningur. 
Hannes bjó áður í Kaldaðarnesi.

Í austurbænum á Baugsstöðum bjuggu þau Magnús Hannesson, 59 ára og kona hans Guðlaug Jónsdóttir, 49 ára, ásamt sex börnum sínum, en þau voru:  Jón (24), Elín (21), Jón (18), Hannes (17), Magnús (13) og Sigurður (6).

Í vesturbænum bjó ekkjan Guðrún Guðmundsdóttir (58) ásamt fyrirvinnu og vikadreng og þau koma í rauninni ekkert við sögu þessa.

Þarna voru þau Jóhann Hannesson í Tungu og Elín Magnúsdóttir í austurbænum á Baugsstöðum farin að skjóta sér saman (urðu síðar langafi minn og langamma, fyrir þau ykkar sem finnst erfitt að fylgja þessu).

1875 

Árið eftir höfðu þær breytingar orðið helstar, að Bjarni Hannesson og kona hans Sólveig  Eyjólfsdóttir, höfðu tekið við búinu í Tungu af foreldrum sínum, og Jóhann var vinnumaður hjá þeim. Þá var kominn á bæinn 3ja ára dóttursonur gömlu hjónanna, Hannes Sigurðsson, sonur Ragnheiðar Hannesdóttur, sem þá var flutt að heiman fyrir nokkru.

1876 

Á þessu ári fór nú ýmislegt að gerast. Fyrst ber að geta þess, að Jóhann Hannesson (24) var kominn á austurbæinn á Baugsstöðum og Elín (23), heimasætan á bænum kynnt sem kona hans. Fjórir bræður hennar voru þá á bænum, Jón (20),  Hannes (19), Magnús (15) og Sigurður (8). Auk þessa hóps var þarna ekkjan Steinunn Jónsdóttir (66).

Í vesturbæinn var komið nýtt fólk og óskylt Baugsstaðafólki, Þorsteinn Teitsson (31) með bústýru og vinnuhjú, en auk þeirra var ekkjan Guðrún áfram, svo og fyrirvinnan hennar, Jón Björnsson.

1877 

Hér eignuðust þau Jóhann og Elín fyrsta barnið sitt, Stefán Jóhannsson. Þar með voru íbúarnir í austurbænum orðnir níu talsins.  Það varð líka fjölgun á hinum bænum og þar voru níu sálir taldar á þessu ári, án þess að það komi svo sem málinu við hér, en þar fór Þorsteinn Teitsson fyrir áfram.

1878 

Á þessu ári fluttu þau Jóhann (26) og Elín (24)  frá Baugsstöðum í Tungu, en þar tók Jóhann við búsforráðum á öðru býlinu, því sem Bjarni bróðir hans hafði stýrt, en hann, kona hans og dóttir voru þá horfin á braut. Með þeim í Tungu fór sonurinn Stefán (2) og þau eignuðust dótturina Guðlaugu (0), en hún fæddist í lok nóvember þetta ár. Hinu býlinu í Tungu stýrði Jón Magnússon frá Baugsstöðum, bróðir Elínar.

Í austurbænum á Baugsstöðum fóru þau Magnús og Guðlaug áfram með búsforráðin. Með þeim voru þar fjórir synir, Jón yngri, Hannes, Magnús og Sigurður.  Á vesturbænum bjó áfram óskylt fólk.

1879  

Enn fluttu þau Jóhann og Elín og það er alveg ástæða til að velta fyrir sér hversvegna þeim gekk svo hægt að finna sér einhvern varanlegan samastað.  Í lok þessa árs voru þau komin á Eyrarbakka, í Eyfakot/Eifakot. Það er engu líkara en að Eyfakot hafi verið einhverskonar fjölbýlishús, en á árinu voru þarna skráð 7 býli með samtals  36 sálum.  Það er líka mögulegt að þarna hafi verið um að ræða nafnlaus smáhýsi eða kot sem voru byggð í landi Eyfakots. Í fljótu bragði hef ég ekki fundið neitt bitastætt um þetta, en mun reyna áfram að fá botn í það húsnæði sem þarna var um að ræða.  Mér finnst líklegast að þarna hafi verið um að ræða einskonar þurrabúðir.

Þarna í Eyfakoti fór lífið ekki mjúkum höndum um Jóhann og Elínu og börn þeirra.  Guðlaug lést úr barnaveiki í ágúst og eftir því sem Siggi tjáði mér hallaði mjög undan fæti hjá hjónunum. Jóhann kvað hann hafa verið dugandi formann, en að hann hafi farið illa út úr viðskiptum sínum við áfengið. Að sögn Sigga stunduðu kaupmenn á Bakkanum það, að mæta niður á bryggju þegar bátarnir komu að með aflann, og veittu þá ótæpilega af göróttum drykkjum, sem síðan lauk með því að sjómennirnir komu allslausir heim.
Á þessu ári var skráð hjá Jóhanni og Elínu vinnukona, Guðríður Bergsdóttir (22).

Aðstæður á Baugsstöðum voru óbreyttar þetta ár á báðum bæjum.

1880 

Gerðist ekkert sem ástæða er til að greina frá hjá þessu fólki. Jóhann var orðinn 28 ára og Elín 27 og sonur þeirra, Stefán varð 3ja ára. Enn var vinnukonan hjá þeim.

1881 

Hér urðu hjónin í Eyfakoti fyrir öðru stóráfalli, þegar sonur þeirra, Jóhann, sem fæddist þann 12. maí, lést úr kíghósta 1. júní, eftir því sem prestsþjónustubókin greinir frá.
Hjá þeim var enn vinnukonan Guðríður Bergsdóttir.  

Enn var staðan óbreytt á Baugsstöðum.

1882  

Það var hinn 3. júlí þetta ár sem Guðlaug Jóhannsdóttir fæddist í Eyfakoti. Hún var hinsvegar skráð sem tökubarn hjá hjónunum í austurbænum á Baugsstöðum árið eftir.  Af því má draga þá ályktun, að ekki hafi lífið í Eyfakoti verið neinn dans á rósum. Þarna var Jóhann orðinn þrítugur, Elín 29 ára og Stefán 5 ára. Ekki var lengur hjá þeim vinnukona.

Mikil tíðindi urðu á Baugsstöðum á þessu ári, reyndar var allt óbreytt í austurbænum. Í vesturbæinn voru flutt þau Guðmundur Jónsson, 33 ára og kona hans Guðný Ásmundsdóttir, 29 ára. Með þeim var þriggja ára sonur þeirra Siggeir. Þau komu, ásamt Gróu Magnúsdóttur (26) vinnukonu, frá Haga í Gnúpverjahreppi. 

Til að flækja ekki málin um og, ætla ég að fjalla, í næsta hluta, um ástæður þess að þessi hjón fluttu á Baugsstaði. Ég ætla því að halda mig við þau Jóhann og Elínu, enn um sinn, en samt greina einnig frá breytingum á öðum bæjum sem hér koma við sögu og skipta máli.

1883  

Jóhann og Elín í Eyfakoti eignuðust  dóttur þann 28. september á þessu ári og hlaut hún nafnið Kristín.  Þarna var Stefán sonur þeirra orðinn 7 ára.

1884 

Þetta ár var fremur tíðindalítið, allavega í sóknamannatölum eða prestsþjónustubókum.

1885 

Enn knúði dauðinn dyra hjá þeim Jóhanni og Elínu í Eyfakoti. Stefán sonur þeirra, á níunda ári, lést þann 4. febrúar úr barnaveiki.  Þarna voru þau búin að eignast 5 börn. Þrjú þeirra voru látin og eitt var tökubarn á Baugsstöðum.  Hjónin gátu þó glaðst yfir 6. barninu sínu sem fæddist þann 17. september, syni sem hlaut nöfn beggja látinna bræðra sinna, Stefán Jóhann.

Allt var óbreytt á Baugsstöðum þetta árið – nema fólkið bætti við sig einu ári.

1886  

Tíðindalítið ár.  Það kom þó nýr vinnumaður á vesturbæinn á Baugsstöðum, Jón Ásmundsson (30), bróðir Guðnýjar.

1887 

Þetta ár markar heilmikil tímamót – allavega að því er mig varðar og einnig mörg ykkar.

Þann 31. júlí fæddist Páll Guðmundsson í vesturbænum á Baugsstöðum  og þann 29. nóvember fæddist Elín Jóhannsdóttir í Eyvakoti á Eyarbakka. Þau áttu eftir að færast nær hvort öðru, blessuð.

Í tilefni af þessu, geri ég hér hlé á umfjöllun, en það kemur meira síðar.


FRAMHALD

Baugsstaðir - Hannes og ofurölvi prestur

Teikning Finns Jónssonar á Kerseyri,
bróðursonar séra Guðmundar.
Þetta er lítilsháttar millileikur og fyrir honum eru fyrst og fremst tvær ástæður: 
1. Ég ætla að taka mér góðan tíma til að reyna að greina í og koma frá mér því sem gerðist á og í kringum Baugsstaði í grennd við og um aldamótin 1900. Það er eins gott að ljúga allavega engu. Hvort ég skauta framhjá einhverju er annað mál, sem kemur í ljós. 
2. Verkefni bíða mín í hrönnum og má ætla að það verði til þess að ég þarf að setja annað í forgang.
Til að þið sem þetta lesið og bíðið í ofvæni, birti ég hér frásögn úr lesbók Morgunblaðsins frá 1957, þar sem Hannes Einarsson (faðir Jóhanns Hannessonar, sem var faðir Elínar Jóhannsdóttur, sem var móðir Guðnýjar Pálsdóttur, sem var móðir mín - sem sagt langa-langafi minn í móðurætt) málar Reykjavíkurbæ rauðan með kófdrukknum presti. 
Hannes var bóndi í Kaldaðarnesi áður en fjölskyldan fluttist að Tungu, sem er í næsta nágrenni við Baugsstaði. 


Hér er frásögnin

ÞEGAR Stefán Gunnlaugsson var bæjarfógeti í Reykjavík hófst hann handa gegn drykkjuskapnum í bænum. Þótti kaupmönnum sér nær höggvið með því og kærðu fyrir stiftamtmanni, í bréfi, sem Stefán skrifar sér til varnar, segir hann meðal annars: „Það er kunnugt, að fyrrum var drykkjuskapur dagleg iðkun allt of margra, þar i meðal virðulegra embættismanna, sem gáfu almúganum þar með illt fordæmi. Það var því nauðsynlegt að grípa í taumana og sýna alvöru. Og hinn 29. maí 1839 var t. d. prestur nokkur tekinn fastur fyrir ölæði á götu og dæmdur til að greiða 10 rdl í sjóð fátækra prestsekkna og 4 mörk í löggæzlusjóð Reykjavíkur. Þetta varð til þess að hann hætti að drekka og hefir nú að maklegleikum fengið gott embætti".

ÞESSI prestur var séra Guðmundur Torfason, er þá átti heima í Kálfhaga en þjónaði Kaldaðarnesi. En málavextir voru þessir, samkvæmt aukaréttarbók Reykjavíkur:

Séra Guðmundur var staddur í Reykjavík ásamt meðreiðarmanni sínum, Hannesi Einarssyni frá Kaldaðarnesi. Þeir komu inn í búð hjá Einari borgara Hákonarsyni, og var prestur allmjög ölvaður. Margir fleiri menn voru þá þarna í búðinni, en enginn þeirra er nafngreindur nema Jón nokkur Skúlason frá Ögmundarstöðum í Skagafirði.

Séra Guðmundur var knár maður og glíminn og hætti honum til þess að bjóða mönnum í glímu þegar hann var við öl, og var þá allsvakafenginn. Ekki er nú vitað hvort hann vildi glíma við þessa menn, er hann hitti í búðinni, en brátt lenti þarna í ryskingum og var prestur hinn æfasti. Hannes fylgdarmaður hans bað hann hvað eftir annað að koma með sér og ætlaði að reyna að koma honum burt úr bænum, áður en hneyksli yrði af drykkjuskaparlátum hans. En prestur var nú ekki á því, og er Hannes ætlaði að stilla til friðar og ganga á milli, hratt prestur honum svo óþyrmilega af höndum sér, að Hannes hentist út í glugga og mölbraut hann, en meiddist um leið í andliti og þó einkum á nefinu. Varð af þessu mikill brestur er glugginn brotnaði og heyrðist, nú út á götu hávaðinn og lætin inni í búðinni. Þusti þá þegar að margt fólk og myndaðist brátt þyrping á götunni úti fyrir húsinu, en það stóð á horninu á Brattagötu og Aðalstræti.

Tveir voru lögregluþjónar þá í bænum og báðir íslenzkir, Magnús Jónsson og Þorsteinn Bjarnason í Brunnhúsum. Þeir komu nú þarna að og réðust til inngöngu í búðina. Báðu þeir séra Guðmund með góðu að hætta öllum illindum, en hann skeytti því engu. Þá skipuðu þeir honum að koma með sér í skrifstofu bæjarins, sem þá var í vesturendanum á húsinu þar sem nú er Haraldarbúð í Austurstræti. Ekkert segir frá því hvort hann hlýddi þeim af fúsum vilja, eða þeir urðu að beita hann valdi, en í skrifstofuna komu þeir með hann „hvar nefnds prests ástand var prófað og fannst hann þá að vera töluvert kenndur af brennivíni og Séra Guðmundur Torfason (Teikning Finns á Kerseyri) sterkar en máske kynni að geta álitist eiga við hans geistlega stand“.

Til skrifstofunnar voru og kvaddir menn til að bera vitni, þar á meðal Einar Hákonarson, Hannes Einarsson og Jón Skúlason. En auk þess voru kvaddir þangað þeir Jón Snorrason hreppstjóri og bæarfulltrúi á Sölvahóli, og Helgi Jónsson snikkari (faðir þeirra tónskáldanna Helga og Jónasar). Skyldu þeir dæma um ástand prestsins og áverka Hannesar.

Presturinn var ofurölvi og dró upp úr vasa sínum rauðbláan brennivínspela og stútaði sig á honum inni í þingsalnum. Var þá pelinn af honum tekinn. En Hannes stóð þarna með bólgið og blóðugt nef og kvaðst ekki mundu heimta neinar bætur fyrir, en bauðst til þess að greiða helming kostnaðar af rúðubrotinu.

Þeir Einar Hákonarson og Jón Skúlason skýrðu frá því sem gerðist í búðinni, og var framburður þeirra mjög á sama veg og framburður Hannesar. Þess er getið í dómabókinni, að þeir Jón Thorsteinsson landlæknir og séra Ólafur Einarsson Hjaltested hafi orðið vottar að drykkjuskap séra Guðmundar.

Það er almælt, að vegna ölvunar og óstýrilætis séra Guðmundar, hafi bæjarfógeti sett hann í tugthúsið, en ekki er þess skilmerkilega getið í dómsgerðinni, enda þótt skilja megi að svo hefir verið gert. Fer bæarfógeti mildum orðum um það, því að hann segir:

„Prestinum var fleirum sinnum boðið að fara strax í burtu af götum og alfaravegi bæjarins, hverju hann með drykkjurabbi þverneitaði, hvers vegna honum, sem ófærum til að vera laus á almannafæri, var boðið til svefns á óhultum stað. En blárauður brennivínspeli, sem prestur var að drekka úr hér inni í skrifstofunni, og sem þar var eftir skilinn, er nú afhentur Hannesi Einarssyni til að ráðstafa honum til eigandans“.

Þessi „óhulti svefnstaður" hefir sjálfsagt verið uppi á loftinu yfir bæjarþingstofunni, því að þar var hið svonefnda „svarthol", sem vant var að stinga ölvuðum mönnum í, einkum aðkomumönnum. Þar hefir séra Guðmundur verið látinn dúsa um hríð. Síðan segir:

„Eftir nokkurn tíma rann svo ölið af presti, að hann kvaðst vilja fara á stað frá bænum með Hannesi Einarssyni, hvað að svo komnu ekki áleizt vert að hindra, þó með geymdum rétti frá pólitísins hálfu til í það minsta 4 marka óeirðar bóta til pólitíkassans — þó upp á háyfirvaldsins væntanlegt samþykki, undir eins og yrði að álitum gert hvaða verkan slík truflun á opinberri rósemi og góðri orðu kynni að hafa á ins seka geistlega verðugleik og embættisstöðu".

 Finnur Jónsson á Kerseyri, sem var bróðursonur séra Guðmundar, ritar um hann alllangan þátt í bók sinni „Þjóðhættir og ævisögur“. Segir hann þar frá þessu máli, en mjög á annan veg, því að hann hefir þar farið eftir sögusögnum annarra og segist aldrei hafa spurt séra Guðmund um það. Hann segir þar meðal annars: „Steingrímur biskup spurði séra Guðmund hvort hann ætlaði ekki að höfða mál á hendur landfógeta fyrir tiltækið. Ekki helt séra Guðmundur það, kvaðst heldur vilja sækja málið á vopnaþingi. „Láttu þá vopnin bíta“, mælti biskup. Það eru víst engin önnur dæmi til þess, að Steingrímur biskup hafi hvatt menn til að jafna á náunganum mótgerðir".

Séra Guðmundur hafði verið við nám hjá Steingrími biskupi meðan hann var prestur í Odda á Rangárvöllum. Gaf hann Guðmundi vitnisburð á jólunum 1812 og hælir honum mjög fyrir „gáfur hans, skarpleika, næmi og minni“. Var Steingrímur biskup honum jafnan síðan hliðhollur, en ekki egndi hann séra Guðmund upp á móti landfógeta, eins og sjá má á þessu:

Þegar er séra Guðmundi hafði verið sleppt, sendi landfógeti afrit af réttarhaldinu til Bardenfleth stiftamtmanns, en hann skrifaði biskupi þegar og skaut undir hans úrskurð hvað gera skyldi. En biskup skrifaði Jakob prófasti Árnasyni í Gaulverjabæ og fól honum að tilkynna séra Guðmundi, að ef hann vildi komast hjá opinberri lögsókn út af framferði sínu, þá verði hann að varast drykkjuskap framvegis og afplána þetta hneyksli með 10 rdl. sekt til fátækra prestekkna og 4 mörkum í bætur til lögreglusjóðs Reykjavíkur.

Séra Guðmundur mun ekki hafa séð sér annað fært en greiða þessar sektir og lofa bót og betrun Varð hann svo miklu hófsaman upp frá þessu og varð hinn vinsælasti meðal sóknarbarna sinna, glaður og reifur fram á elliár Hann fekk Miðdalsþing 1847 og Torfastaði 1860 og helt þá til 1875 Hafði hann þá verið prestur í 50 ár. Lýsir Finnur frændi hans honum svo: „Hann var því manna fjarlægastur að láta heyra til sín mögl eða harmatölur, þó eitthvað væri andstætt, lengst af efnalítill og mjög óeigingjarn, lítt fallinn til búskapar, en vann þó eins og vinnumaður fram á síðustu ár“. Dr. Hannes Þorsteinsson segir að fyrsta prestverk séra Guðmundar í Tungunum hafi verið að skíra sig og seinasta prestverk hans þar að ferma sig. Hann ber séra Guðmundi vel sögu, segir að hann hafi verið mesta ljúfmenni og vel þokkaður.
-----------------------------------

Reyndar mun helsti tilgangurinn með þessari frásögn hafa verið að birta brag sem sr. Guðmundur orti og sem kallaðist Reykjavíkurbragur yngri. Þið sem áhuga hafið, getið fundið hann hér.

06 ágúst, 2022

Baugsstaðir á hundavaði - landnám til 1883 (2)

Fermingardagur Sigga á Baugsstöðum.
F.v. Siggeir Pálsson (1925-2001), Elín Jóhannsdóttir (1887-1980),
Sigurður Pálsson (1928 - ), Guðný Pálsdóttir (1920 - 1992)
Fermingardagur Sigga á Baugsstöðum. 
Í fyrri þætti þessarar samantektar er rennt yfir þann hluta Baugsstaða, sem Einar Jónsson keypti í stólasölunni árið 1788. Hér er samskonar grein gerð fyrir hinum hluta jarðarinnar: þeim sem Magnús Jónsson keypti. Sem fyrr byggir þetta að langmestu leyti á riti Guðna Jónssonar, Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi sem Stokkseyringafélagið í Reykjavík gaf út 1952. Einnig á prestþjónustubókum og sóknarmannatölum Gaulverjabæjar- og Stokkseyrarsókna.


Magnús Jónsson - (1715-1797) bjó á Baugsstöðum 1775-1797. 
Magnús bjó áður á Stokkseyri og kona hans var Ólöf Bjarnadóttir, dóttir Bjarna Brynjólfssonar á Baugsstöðum (sjá fyrri þátt) og þar með afkomandi Brynjólfs "sterka". 
Magnús og Ólöf eignuðust tvo syni: Bjarna eldri og Bjarna yngri, sem síðan bjó á Leiðólfsstöðum. 

Ólöf Bjarnadóttir (1726-1805) - bjó eftir mann sinn á Baugsstöðum til 1805.
Ólöf bjó góðu búi og var jafnan talin fyrir meðan hún lifði, en Bjarni eldri, sonur hennar stóð fyrir búinu.

Bjarni eldri Magnússon (1762-1807) - bjó með Ólöfu móður sinni til dauðadags 1807. 
Bjarni var vel efnaður og nam dánarbú hans rúmum 1800 ríkisdölum. Átti hálfa Baugsstaði og Götu í Stokkseyrarhreppi.
Kona Bjarna var Elín Jónsdóttir, hreppsstjóra á Stokkseyri Ingimundarsonar. Þau áttu einn son, Magnús á Grjótlæk, en um hann hef ég ekkert fundið frekar, en vísað er til hans í Bergsætt, 115-116 - hvað sem það nú þýðir.

Elín Jónsdóttir  (1778-1853) - ekkja Bjarna var í góðum efnum. Giftist Hannesi Árnasyni á Baugsstöðum. Þau eignuðust Magnús Hannesson, sem varð síðar langafi Elínar Jóhannsdóttur (sjá mynd efst), sem flestir sem komnir eru til vits og ára, ættu nú að kannast við, en hún var t.d. amma mín.  
Hér erum við, sem sagt, að tala um austurbæinn á Baugsstöðum. 

Hannes Árnason (1777-1846) - byggði Baugsstaði frá 1808-1844.
Hannes var efnabóndi og formaður. 
Elín og Hannes eignuðust 5 börn og þar var yngsti sonurinn, Magnús Hannesson, sem tók við jörðinni af foreldrum sínum.

Magnús Hannesson (1818-1893) - bjó á Baugsstöðum frá 1854-1892. 
Magnús var áður bóndi á Fljótshólum, en þangað fluttu foreldrar hans þegar hann tók við Baugsstöðum. 
Magnús var góður bóndi. Kona hans var Guðlaug Jónsdóttir (1826-1890). Þau eignuðust 9 börn en sex þeirra náðu að verða fulltíða: Jón Magnússon í Austur Meðalholtum(1851-1921), Elín Magnúsdóttir (1854-1944), Jón Magnússon  (1857-1934), Hannes Magnússon bóndi í Hólum (1858-1937), Magnús Magnússon (1862-1899) og Sigurður Magnússon (1869-1926) smiður á Baugsstöðum. 

Magnús Magnússon (1862-1899) - bjó á Baugsstöðum frá 1892- til dauðadags 1899.
Magnús dó af "innvortis meini", 36 ára gamall. Kona hans var Þórunn Guðbrandsdóttir í Kolsholti. 
-----------
Svo segir Guðni Jónsson: "Um þessar mundir bjuggu hver um sig nokkur ár á Baugsstöðum, þeir Jóhann Hannesson, áður í Eyvakoti, Hannes Magnússon, síðar í Hólum og Sigurður Magnússon smiður, en ekki höfðu þeir jarðnæði."  
Það er eiginlega þarna sem málin fara að flækjast verulega og ég ætla mér að reyna að gera þessum umbrota og umskiptatímum skil í sérstökum þætti.
-----------
Jón Magnússon (1857-1899), var bóndi í austurbænum frá 1897-1933. 
Jón var sonur Magnúsar Hannessonar og tók við þegar bróðir hans, Magnús, lést.  Kona  Jóns var Helga Þorvaldsdóttir í Brennu í Flóa, Þorvaldssonar.  Guðni Jónnson segir í riti sínu, að þessi hjón hafi eignast einn son, en að hann hafi dáið ungur.  Umræddur son dó úr krampa, 9. september, 1897, 9 daga gamall og hafði fengið nafnið Magnús.  
Sama ár tóku hjónin að sér 8 ára dreng, Jón Kristjánsson, sem kom frá Bollastöðum. Hann var síðan hjá þeim til 15 ára aldurs. Hann drukknaði árið 1913 við England. 
Árið 1899 tóku þau Jón og Helga að sér annan dreng, 3ja ára, bróðurson Helgu. Þarna var kominn til skjalanna Ólafur Gunnarsson (1896-1984), sem ávallt var kallaður Óli í Austurbænum.  
Móðir Ólafs Guðríður Oddsdóttir á Ragnheiðarstöðum, lifði fæðingu Ólafs ekki af, en hún varð 24 ára.

04 ágúst, 2022

Baugsstaðir á hundavaði - landnám til 1883 (1)

Baugsstaðir líklega á 3. áratug 20. aldar.
Líklegast er það Páll Guðmundsson, afi minn, sem 
stendur úti á hlaði með hendur á mjöðm.
(mynd frá Baugsstöðum)
Það sem hér fer á eftir byggir að langmestu leyti á riti Guðna Jónssonar, Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi sem Stokkseyringafélagið í Reykjavík gaf út 1952. Einnig á prestþjónustubókum og sóknarmannatölum Gaulverjabæjar- og Stokkseyrarsókna.

Verði áhugasömum að góðu.

Jörðin Baugsstaðir er elsta byggt ból í Stokkseyrarhreppi og jörðin er kennd við Baug Rauðsson, fóstbróður Ketils hængs. Ekki meira um Íslendingasögur.

Um 1270 átti Þeóbaldus Vilhjálmsson frá Odda jörðina og hafði þá kaup á henni við Árna biskup Þorláksson: lét biskup fá Baugsstaði, en tók í staðinn Dal undir Eyjafjöllum. Baugsstaðir voru síðan stólsjörð fram undir lok 18. aldar, eða í meira en 5 aldir.  Þegar stólsjarðirnar voru síðan boðnar upp 1788, keyptu  þáverandi Baugsstaðabændur, Magnús Jónsson (sjá síðari færslu) og Einar Jónsson, jörðina, 23 hundruð og 80 álnir, fyrir 154 ríkisdali 72 skildinga. 

Brynjólfur “sterki” Hannesson - á Baugsstöðum 1703-1722

Árið 1703 var Brynjólfur “sterki” Hannesson (1654-1722) kominn að Baugsstöðum, en hann var farinn á búa á Skipum 1681 og var þar til 1697. “Hann var hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi, gildur bóndi og efnaður vel. Hann var lögréttumaður í Árnesþingi á árunum 1688-1710 og naut trausts og virðingar. Hann var annálaður kraftmaður og hraustmenni og kallaður “hinn sterki”. Er til saga ein er sýnir það og er hún á þessa leið:

«Svo er sagt, að ferðamaður einn hafi flutt á gráum hesti tvö heilanker með brennivíni, og reið dálítil stelpa ofan á milli. Þessi maður neitaði Eiríki á Vogsósum um brennivín og sagðist ekkert hafa. Fór Eiríkur heim við það. Segir nú ekki af ferð mannsins fyrr en hann kemur austur á Sandamót. Þá fer Gráni að draga fram undan, ok kom hann að ferjustaðnum í Óseyri, áður en lestin kom svo nærri að hún sæist. Margir ferðamenn voru fyrir við ferjustaðinn og var einn þeirra Brynjólfur bóndi á Baugsstöðum, orðlagður kraftamaður.  Gráni lagði þegar út í , en Brynjólfur var nærstaddur og vildi taka hann, en varð of seinn til að ná í beizlið. Þreif hann þá annarri hendi stelpuna, en hinni undir klyfberabogann og tók svo fast í að gjarðirnar slitnuðu; fór Gráni austur yfir allslaus en Brynjólfur hélt eftir klyfberanum, ankerunum og stelpunni, en reiðingurinn datt í ána. Þegar Eiríki var sagt frá þessu svaraði hann:» Sterkur maður er Brynjólfur á Baugsstöðum, heillin góð!».» (Huld 1. b. bls. 132)

Brynjólfur var tvíkvæntur. Seinni kona hans var Vígdís Árnadóttir (1659) frá Súluholti. Frá þeim er komin svokölluð Baugstaðaætt.

Brynjólfur og Vígdís bjuggu einbýli á Baugsstöðum, og með þeim hófst jörðin aftur til forns vegs og virðingar. Niðjar þeirra hafa búið á Baugsstöðum nær óslitið síðan.  Þau áttu nokkur börn, meðal annars Bjarna Brynjólfsson.

Bjarni Brynjólfsson (1695 - um 1758).  Á Baugsstöðum 1722-1758.

Bjarni var með efnuðustu bændum hreppsins. Hann var lengi hreppsstjóri í Stokkseyrarhreppi. Bjarni og kona hans Herdís Þorsteinsdóttir frá Hróarsholti,  eignuðust dótturina Vilborgu Bjarnadóttur (1730). Herdís bjó áfram góðu búi á Baugsstöðum eftir lát Bjarna og var talin ein fyrir jörðinni til ársins 1775.

Vilborg Bjarnadóttir (1730)

Vilborg giftist Einari Jónssyni (1719-1796) úr Skúmsstaðahverfi á Eyrarbakka. Hann var áður fyrir búi Herdísar, tengdamóður sinnar. Einar var einbirni og erfði allmikil efni og hann bjó góðu búi.  Hann var hreppsstjóri í Stokkseyrarhreppi á árunum 1768-1775.

Frá árinu 1775 hafa Baugsstaðir verið tvíbýli.

---------- 1788 - Einar og Magnús kaupa Baugsstaði ----------

Einar keypti hálfa Baugsstaði 1788, þegar stóljarðirnar voru seldar, á móti Magnúsi Jónssyni (sjá framhaldsfærslu). Vilborg eignaðist með manni sínum Einari Jónssyni (1719-1796), soninn Jón Einarsson.

Hér fyrir neðan er rennt yfir eigendur þess hluta Baugsstaða sem Einar Jónsson keypt, en um hluta Magnúsar Jónssonar er fjallað í næsta þætti: HÉR

Jón Einarsson (1765-1824)

Jón var hreppsstjóri í Stokkseyrarhreppi í 31 ár, en lét af því embætti 1823, vegna sjónleysis og talið að þá hafi hann verið orðinn alblindur. Hann var lengi formaður og var meðal annars á sjó þegar Guðmundur sonur hans drukknaði í Tunguósi árið 1810.  

Jón var góðmenni og gæflyndur og virðist hafa verið mannúðarmaður. Hann var efnaður vel og góður bóndi. Dánarbú hans nam nærri 900 ríkisdölum og voru þar í jarðirnar hálfir Baugsstaðir, Eystra-Geldingaholt, Sumarliðabær í Holtum og partur úr Kirkjuferju í Ölfusi.

Jón var tvíkvæntur, en síðari  kona hans var Sesselja Ámundadóttir (1778-1866), dóttir Ámunda Jónssonar, smiðs í Syðra-Langholti. Þau eignuðust meðal annars dótturina Margréti Jónsdóttur. Eftir lát Jóns var Sesselja skráð eigandi á Baugsstöðum nokkra mánuði 1824. Hún giftist aftur, Þorkeli bónda Helgasyni sem taldist eigandi jarðarinnar frá 1824 til 1826. Hann mun ekki hafa unað á Baugsstöðum, þar sem hann hneigðist frekar að sauðfé en sjóróðrum. Því hafði hann ábúðarskipti  við Ólaf Nikulásson í Eystra-Geldingaholti, en Sesselja, kona Þorkels, átti báðar jarðirnar.

Þau Sesselja og Þorkell voru barnlaus, en Margrét, dóttir hennar og Jóns Einarssonar, erfði hálfa jörðina eftir móður sína. Frá því Jón lést og til 1849, þegar Guðmundur Jónsson (sjá neðar) kom til sögunnar, bjuggu afkomendur Brynjólfs ”sterka” ekki á Baugsstöðum, en helmingur jarðarinnar var áfram í eigu þeirra.  Frá 1826, á þeim hluta Baugsstaða sem tilheyrði þessum afkomendu, bjuggu Ólafur Nikulásson (1826-1846, Solveig Gottsvinsdóttir (1846-1853, Guðrún Guðmundsdóttir 1853-1875 og Þorsteinn Teitsson 1876-1882.

Margrét Jónsdóttir (1804-1897)

Margrét giftist Jóni Brynjólfssyni (1803-1873) bónda á Minna-Núpi. Fyrir utan það, að þau voru foreldrar Brynjólfs, fræðimanns (1838-1917), eignuðust þau soninn Guðmund Jónsson ásamt allmörgum öðrum börnum.

Margrét tók hluta eignarhluta föður síns, Jóns Einarssonar, í arf eftir hann og sá hlutur gekk síðan til  Guðmundar Jónssonar, sonar hennar. 
Bróðir hennar Einar Jónsson í Hólum erfði hinn  hlutann, sem síðan gekk til sonar hans Bjarna (f. 19. maí 1837) og loks einnig til Guðmundar Jónssonar.


Guðmundur Jónsson
(1849-1918).

Guðmundur kvæntist Guðnýju Ásmundsdóttir frá Haga í Gnúpverjahreppi og þau eignuðust tvo syni, Siggeir Guðmundsson (1879-1918) og Pál Guðmundsson (1887-1977).

Guðmundur var kominn á Baugsstaði, árið 1861, þá 13 ára, sem vikadrengur hjá Guðrúnu Guðmundsdóttir ekkju (45) og Jóni Einarssyni, fyrirvinnu (39). Hann var síðan skráður þar til 1866 sem léttadrengur og síðan sem hjú, hjá Magnúsi Hannessyni (1818-1893) og Guðlaugu Jónsdóttur (1826-1890), foreldrum Elínar Magnúsdóttur, sem síðar giftist Jóhanni Hannessyni.

Það var svo árið 1883 að Guðmundur er kominn á Baugsstaði ásamt konu sinni Guðnýju Ásmundsdóttur og 4ra ára syni, Siggeir. Árið 1887 eignuðust þau hinn son sinn, Pál, afa minn.

 Guðlaug Jónsdóttir lést árið 1890 og Magnús Hannesson árið 1893.

Svo fóru málin að flækjast.

Næst greini ég frá þeim eigendum jarðarinnar, sem keyptu hinn hlutann, þarna í lok 18. aldar.


FRAMHALD

27 júlí, 2022

Tengslin við Fjall á Skeiðum.

Það eru áratugir síðan ég kom síðast að Fjalli á Skeiðum, en þangað ókum við fD, alla leið í hlað fyrir skömmu. Einhver kann að spyrja hvað leiddi okkur þangað, umfram eitthvert annað. Því skal ég reyna að svara, þó fá ykkar nenni að lesa - það kemur í ljós.
Þetta hófst með því, að langa- langafi minn og amma, þau Ásmundur Benidiktsson (1827-1917) og Sigurlaug Jónsdóttir (1830-1915) fluttu frá Stóru-Völlum í Bárðardal, suður Sprengisand, í Haga í Gnúpverjahreppi árið 1870, ásamt börnum sínum, meðal annars dótturinni Guðnýju (1853-1920), sem varð síðar langamma mín í móðurætt.

FJALL

Í Haga voru þau síðan til 1892, en fluttu þá með Vigfúsi syni sínum (1859-1945), að Fjalli á Skeiðum, þar sem hann varð bóndi. Í Fjalli var þá tvíbýli. Þrjú önnur barna þeirra Ásmundar og Sigurlaugar fluttu með þeim: Benedikt, Halldór og Ingibjörg. Í Fjalli voru þau síðan til 1898.
 
ÁRHRAUN
Árið 1898 fluttu þau til sonar síns Ásgeirs (1863-1947), sem þá bjó konulaus í Árhrauni. Með þeim fluttu þangað, þau Benedikt og Ingibjörg ásamt sonarsyninum Theodór Jónssyni (1884-1963). Í Árhrauni voru þau síðan til 1909.

KÁLFHOLTSHJÁLEIGA
Gömlu hjónin fluttu ásamt syni sínum, Ásgeiri, að Kálfholtshjáleigu í Ásahreppi og þar voru þau til dauðadags. Þau voru jarðsett í Stóra-Núpskirkjugarði. Benedikt, sem var geðfatlaður (Valdimar Briem sagði hann "vitfirrtan") flutti með systur sinni, Ingibjörgu, að Vesturkoti í Ólafsvallahverfinu á Skeiðum.

Fjallað eru nokkuð ítarlega um þennan legg ættar minnar HÉR.




Legsteinn Ásmundar og Sigurlaugar á Stóra-Núpi.





06 júlí, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (8 - lok))

Torre Civica í Bergamo
...Framhald af þessu.

Fimm rétta máltíðin í San Martino della Battaglia og beinakapellan Ossario di san Martino virtust ekki hafa haft nein sýnileg skaðleg áhrif á Flóamenn. Morgunverðinum voru gerð góð skil og síðan fór hver að sinna sínu: pakka niður í töskurnar, fanga síðastu augnablikin á sundlaugarbakkanum, gera upp við hótelið, eða bara íhuga allt það sem á dagana hafði drifið. Þarna var, sem sagt, kominn síðasti dagur þessarar langþráðu ferðar Kirkjukórs Selfosskirkju til Ítalíu. Nú lá fyrir að kveðja Gardavatnið og halda áleiðis til Malpensa flugvallar við Mílanó. Þetta var svo bara gert og gekk áfallalaust fyrir sig.
Hvort það var tilviljun, veit ég ekki, en ferðaáætlunin gerði ráð fyrir, að á leiðinni á völlinn, yrði komið við í Bergamo.
Ástandið er sérstaklega slæmt í bænum Bergamo. Þar hefur herinn þurft að grípa inn í flytja lík frá bænum til brennslu. Um sextíu lík voru flutt í gærkvöldi. Líkbrennslan í Bergamo getur sinnt um 25 líkum á dag, sé hún starfrækt allan sólarhringinn. (Vísir.is 19. mars, 2020)

Já, einmitt. Þarna þurfti að halda okkur við efnið - minna okkur á að Covid er hreint ekki horfið úr  veröldinni. Bergamo fékk aldeilis að kenna á því, en bar þess engin sjáanleg merki þar sem hópurinn brunaði í hlað, eftir gatnakerfi sem sagt var frekar erfitt viðureignar. Leiðin lá  að toglest, einhverskonar, sem flutti grímubúinn hópinn alla leið upp í gömlu borgina, þar sem ýmislegt var að sjá og reyna, feikna mikla dómkirkju, teiknimyndabók eftir Íslending og trufflusveppi í búðarglugga, bar sem tók við 500 kalli íslenskum, sem óbeina þóknun fyrir að fá að pissa í sérkennilegt salerni, matsölustað sem lokaði um miðjan dag og fleira og fleira. 


Meðan á heimsókninni þarna í Bergamo stóð, kom tilkynning um seinkun á fluginu til Íslands um klukkutíma. Síðar kom svo tilkynning um klukkutíma seinkun í viðbót, en svo kom í ljós, að meðvindur frá Íslandi varð til þess að seinkunin varð ekki nema klukkutími og tuttugu mínútur. 
Fararstjórinn sleppti af hópnum hendinni við flugstöðna, eftir að hafa bent á lyftu sem þyrfti að taka til að komast í innritunarsal. Flestum gekk nokkuð vel að finna lyftuna og síðan rétta hnappinn til að ýta á, en í einhverjum tilvikum þurfti að gera fleiri tilraunir til að komast upp í risastóran sal, þar sem við tók heillöng bið eftir að innritun hæfist, bið sem kostaði einhvern dýrasta bjór á jarðríki, en að því kom að innritunin hófst og þá einnig biðin í röðinni. 

Þar sem við fD komum loks að innritunarborðinu, bar ég fram hina augljósu beiðni: "Getum við ekki setið saman?" og svar hinnar ítölsku innritunarkonu var þvert nei og þá varð ég ósköp sorgmæddur á svipinn og tók ekki eftir hvort fD setti um samskonar svip, eða einhvern allt annan. Í framhaldinu setti ég upp "gerðu það" svipinn og í framhaldi af því, svona til að veita náðarhöggið, dró fram fegursta bros sem ég átti til, en þar er úr ýmsu að velja.
Þetta varð til þess að stöðva alla innritun í talsvert langan tíma, þar sem allar innritunarkonurnar, sem voru þrjár, tóku til við að ræða þessa uppákomu fram og til baka og meira að segja ég var farinn að hafa samviskubit yfir að hafa valdið því, að ferðalangarnir sem biðu eftir að komast að, urðu að bíða þarna von úr viti. Ætli afgreiðsla mál okkar hafi ekki tekið 5-10 mínútur. Þar kom þó, að ákvörðun hafði verið tekin, og orðalaust prentaði innritunarkonan mín út brottfararspjöldin og hinar tvær tóku til við að afgreiða bíðandi fólkið í röðinni á ný.  Brottfararspjöldin okkar fD sýndu, svo ekki varð um villst, að okkur voru ætluð sæti hlið við hlið og þar að auki talsvert framarlega í vélinni. Þar sem við tókum við spjöldunum og ég rak augun í sætanúmerin, setti ég upp geislandi gleðibros, en tók ekki eftir hvort fD gerði hið sama.  Þá var þetta frá.

Engin athugasemd var gerð við okkur í vopnaleitinni, utan að ég lenti í úrtaki vegna mögulegs fíkniefnasmygls og viti menn, grunur minn var staðfestur, ég hefði, samkvæmt mælingum sem gerðar voru, ekkert verið að fást við slíkt, en það vissi ég svo sem fyrir. Alltaf gott að fá staðfestinguna, samt.

Þar sem hópuinn týndist inn á fríhafnar- veitinga- og brottfarasvæðið, kom fljótt í ljós að veitingastaðir og verslanir voru að skella í lás, hvert af öðru. Þar með var ekkert annað að gera, en bíða. Þá þarf stundum að leita eftir aðstöðu til að púðra nefið og fD rakst á skilti sem benti í ákveðna átt þar sem slíka aðstöðu væri að finna. Svo hvarf hún inn eftir löngum og breiðum gangi og fylgdist grannt með öllum skiltum sem gáfu til kynna hvar aðstaðan væri. Þar kom, að ég var farinn að leggja drög að því að senda út leitarflokk, en til þess kom þó ekki, enda birtist frúin í nokkru ójafnvægi og hafði þá tekið einhverjar beygjur sem höfðu ekki leitt hana aftur til mín. Ég skildi hana vel.

Það er svo sem ekki frá mörgu að segja í viðbót. Úr ríflega 30°C hita (reyndar með smá aðlögun á leiðinni) stigum við út í norðan strekking og 6°C fyrir utan Flugstöð Leifs Eiríkssonar og fjarlægð hópferðabifreiðarinnar sem beið okkar var slík, að sólarlandakvartbuxurnar sem ég hafði valið sem heimferðarfatnað gerðu minna en ekkert gagn til skjóls frá þeim íslenska veruleika sem þarna beið okkar.   Ferðin austur gekk bara vel og hlýtt rúmið hrópaði. Það fékk ósk sína uppfyllta þegar klukkan var að verð 04.30 að morgni.

----------------------

Þessi Ítalíuferð var afskaplega vel heppnuð og við fD afar þakklát fyrir hafa, þrátt fyrir að hafa bara lagt fram krafta okkar í einn vetur, fengið að taka þátt. Undirbúningur að ferðinni hafði staðið árum saman, en af ástæðum sem allir þekkja frestaðist hún nokkrum sinnum.

Nú er framundan að njóta íslenska sumarsins, laus við allar áhyggjur að öngþveiti á erlendum flugvöllum.



02 júlí, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (7)

... framhald af þessu.

Litla hugmynd hafði ég um það sem framundan var, þar sem ég sleikti sólskinið á sundlaugarbakkanum á Hótel Oliveto að morgni og fram eftir degi  7. dags Ítalíuferðarinnar (24. júní) sem hér hefur verið til umræðu. Jú, ferðaáætlunin greindi frá því að síðdegis lægi leið okkar til San Martino della Battaglia þar sem ein stærsta orrusta fyrir tíma heimsstyjaldanna átti sér stað og sem varð til þess að Ítalía varð að einu ríki. Jú það var talað um litla beinakapellu, og Rauðakrosssafn. Þá var tilgreint að veitingastaðurinn sem við ætluðum að fara á væri þarna á svæðinu.  Svo hélt ég bara áfram í sólbaðinu og öðru því fylgir því að skjótast í skemmtiferð til Ítalíu. 


Klukkan 17.30 á þessum degi var lagt í hann til San Martino della Battaglia til að snæða mikinn hátíðarkvöldverð, enda síðasta kvöld ferðarinnar og mikið stóð til.  Þegar við komum á staðinn lá leiðin fyrst í litla kapellu, svokallaða beinakapellu, sem kallast Ossario di san Martino. Það sem við blasti þar innan dyra var ekki alveg það sem ég hafði búist við. Veggurinn þar sem altari er venjulega að finna, var mótaður úr ótal hauskúpum fallinna hermanna í orrustunni miklu og ef litið var niður sáust á neðri hæð staflar af beinum þessara hermanna.  

Að sögn fararstjórans kviknaði hugmyndina að þessari minningarkapellu eftir að stöðugt voru að finnast fleiri líkamsleifar fallinna hermanna á svæðinu árin eftir orrustuna.

 


Orrustan við Solferino (24.  júní, 1859)
Úrslita átökin í stríðinum um sameiningu Ítalíu í eitt ríki. Þjáningar særðra hermanna, sem fengu enga aðhlynningu urðu kveikjan að stofnun Rauða krossins.
Frakkar of Sardiníumenn undir stjórn Napóelons II börðust við Austurríkismenn. Fyrstu skotunnum var hleypt af um klukkan þrjú um nóttina og klukkan sex var orrustan háð af fullum krafti. Sumarsólin skein á um það bil 300.00 hermenn sem slátruðu hver öðrum. Síðdegis tóku Austurríkismenn að hopa af vígvellinum og um kvöldið var vígvöllurinn þakinn líkum meira en 6000 hermanna og 40000 særðir lágu eins og hráviði um völlinn.
Kórinn í Ossario kapellunni (mynd Garðar Már Garðarsson)

Sjúkralið Frakka og Sardiníumanna réði engan veginn við verkefnið sem við blasti; franski herinn hafði færri lækna á sínum snærum en dýralækna, engin flutningatæki voru fyrir hendi og hjúkrunarvörur höfðu ekki verið í farteskinu. Þeir hinna særðu, sem það gátu, komu sér til þorpsins Castiglione, sem var í nágrenninu til að leita matar og vatns, en þangað komust um 9000 manns sem ollu yfirþyrmandi álagi á þorpið og þorpsbúa. Í kirkjunni, Chiesa Maggiore, sinntu Henri Dunant og þorpskonurnar hinum særðu og deyjandi í þrjá daga og þrjár nætur. (vefsíða ICRC - Alþjóða Rauða krossins)

Þarna í San Martino er að finna turn sem reistur var til minningar um Viktor Emmanúel II konung og þá sem börðust á árunum 1848-1870 fyrir sjálfstæði Ítalíu sem ríkis. Hann stendur á hæstu hæðinni í San Martino. Hæðin náðist og tapaðist í ítrekuðum árásum í grimmilegum bardaganum og það var loks her Sadiníumanna sem náði henni og hélt.

Allt um það. Eftir að hafa orðið fyrir talsverðum áhrifum af  þessari ógnvænlegu sögu lá leiðin í veitingastað þar sem fimm rétta máltíð var borin fram, sungið og ávörp flutt, áður en heimleiðis var haldið til að gista síðustu nóttina á Ítalíu. 

Ekki neita ég því að ég leiði hugann að því, eftir að hafa komið á þennan stað, að landamæri þjóða hafa orðið til með því að úthella blóði æskumanna, enn þann  dag í dag.

Svo var bara að svífa inn í svefninn og halda áfram með lífið.



 



 




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...