11 september, 2022

Austfirskar rætur (3)

Magnús Jónsson og Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir.
Ætli ég byrji ekki á smá pælingum um hvernig það gerðist, mögulega, að Ingibjörg og Magnús náðu saman, með þeim afleiðingum sem afkomendur þeirra hafa síðan upplifað á sjálfum sér.

Kóreksstaðir og Kóreksstaðagerði 1905
Ég hef ekki fundið öruggan snertiflöt á mögulegum kynnum afa og ömmu í tengslum við þennan bæ. 
Dóttir þeirra Páls Geirmundssonar ömmubróður Ingibjargar, bjó í Kóreksstaðagerði til 1906, svo varla hefur stúlkan verið þar eitthvað eftir þann tíma. Ingibjörg, þá 11 ára, var í Kóreksstaðagerði 1904 með fósturforeldrunum. Þetta var sama ár og Magnús, þá 15 ára, fór frá Freyshólum í Ketilsstaði, þar sem hann var vinnumaður. 
Það er spurning hvort árið 1905 hafi verið nokkurskonar úrslitaár, en þá var Magnús (17) kominn í Kóreksstaði og dóttir Páls Geirmundssonar bjó enn í Kóreksstaðagerði. Það má alveg reikna með að Ingibjörg (12) hafi þá dvalið í Kóreksstaðagerði yfir sumarið. Hver veit?


Vallaneshjáleiga 1912
Ingibjörg kom frá Seyðisfirði í Vallaneshjáleigu, sennilega um vorið og Magnús kom frá Hólum, sennilega á svipuðum tíma. Það er auðvitað mögulegt að þetta hafi verið skipulagt hjá þeim, eftir bréfasamskipti síðan á Kóreksstaðaárunum. Það er líka möguleiki, að þetta hafi bara verið alger tilviljun.

Ættartengslin
Ljósbjörg hefur, án efa, verið í samskiptum við hálfbróður sinn, Jónas Valgerðarson Hansson, afa Ingibjargar og ekki ólíklegt að fjölskyldan hafi verið við útför hans á Seyðisfirði, en hann lést 1906, eins og áður hefur komið fram. Mér finnst lítill vafi leika á því, að Magnús og Ingibjörg hafi þekkst nokkuð vel, þó ekki væri nema vegna ættartengslanna. 
Ljósbjörg (65) var í Vallaneshjáleigu með syni sínum, Magnúsi (25) og barnabarni hálfbróður síns, Ingibjörgu (19), árið 1912. Ætli hún hafi átt einhvern þátt í að koma þeim í hnapphelduna? 

Sambúðin hefst

Auðvitað kemur mér ekkert við hvernig það kom til að afi minn og amma stofnuðu til hjúskapar 11. mars árið 1913. Mér finnst áhugavert að reyna að gera mér grein fyrir því hvernig mál þróuðust þannig að ég varð til. Það er, sem sagt, hrein og tær sjálfhverfa, sem ræður för. 
Það er líklegt að ástæðan hafi verið sú, að Ingibjörg varð þunguð og nauðsynlegt að barnið teldist skilgetið þegar það kæmi í heiminn. Daginn eftir brúðkaupsdaginn varð Ingibjörg léttari og eignaðist son, sem fæddist andvana, svo ekki hefur farið mikið fyrir hveitibrauðsdögum ungu hjónanna. 

Frá Vallaneshjáleigu í Freyshóla
Ég geri ráð fyrir að ungu hjónin hafi flutt frá Vallaneshjáleigu í Gunnlaugsstaði vorið 1914, þegar annað barnið var væntanlegt, en það fæddist þann 7. júni og fékk nafnið Alfreð. Ekki var viðdvöl þeirra á nýja staðnum löng, en fluttu þau í Freyshóla ári síðar.  Framundan var að reyna að átta sig á hvernig best væri að haga framtíðinni. Ekki töldu þau það neina framtíðarlausn, að vera í vinnumennsku á hinum og þessum bæjum í héraðinu. Það voru engar jarðir lausar til ábúðar og þau hafa örugglega velt ýmsum möguleikum fyrir sér.  Það varð um það niðurstaða, að þau flyttu á æskuheimili Magnúsar, þar sem fyrir var systir hans, Sigurbjörg og fjölskylda hennar. 

Tvíbýli á Freyshólum. 
Meðalstærð jarða á Íslandi mun vera um 1000 hektarar. Ég sá jörðina Freyshóla auglýsta til sölu fyrir nokkrum árum og þá var hún sögð 272 hektarar. Ætli megi ekki ætla, að hún hafi alltaf verið af þeirri stærð, fjórðungur af meðalstærð jarða?  Í öllu falli held ég að fullyrða megi að Freyshólar hafi varla borið tvær fjölskyldur. 
Hvað sem þessu leið, fluttu Magnús og Ingibjörg í Freyshóla, líklegast vorið (eða á útmánuðum) 1915 og þá var þriðja barn þeirra á leiðinni, Haraldur, sem fæddist þann 4. september. 
Þarna var stofnað annað býli á Freyshólum og þar bjuggu afi og amma með synina tvo til vors (líklegast) 1918. Þau hafa örugglega verið á fullu við að fylgjast með jörðum sem kynnu að losna, því varla hafa þau séð fyrir sér að hokra á landlítilli jörðinni til frambúðar. Það losnuðu greinilega engar jarðir og þá þurfti að hugsa út fyrir rammann. 

Um Guðrúnu Jónsdóttur og fjölskylduna á Kóreksstöðum. (smá hliðarspor)

Árið 1916 lést Sveinn Björnsson, bóndi á Kóreksstöðum, mágur Magnúsar, faðir Guðrúnar Sveins, úr lungnabólgu, 53 ára að aldri. Guðrún, systir Magnúsar var áfram á Kóreksstöðum með börn sín 4, sem líklega hefur ekki gengið til lengdar.  
Þannig var, að í upphafi ársins 1916 voru þessi á bænum:
Sveinn Bjarnason, bóndi (53) - hann lést úr lungnabólgu 20. apríl þetta ár.
Guðrún Jónsdóttir, kona hans (32)
Guðrún Björg Sveinsdóttir (10)
Björn Sveinsson (8)
Þórína Sveinsdóttir (6)
Ester Sveinsdóttir (1)
Einar Sveinsson (á 1)
Guðrún Sveinsdóttir, móðir bónda (87) - hún lést 2. febrúar þetta ár.
Geirmundur Magnússon, vinnumaður (33) hætti líklega um vorið.
Una Kristín Árnadóttir, vinnukona (20)
Síðari hluta ársins var kominn annar vinnumaður á bæinn: Pjetur Pjetursson (38). í sóknarmannatali ársins 1917 er kynnt til sögunnar óskírð stúlka á 1. ári, dóttir Guðrúnar og Pjeturs. 
Í framhaldinu hvarf þessi fjölskylda frá Kóreksstöðum. Guðrún og Pjetur áttu síðan eftir að giftast og þau eignuðust 5 börn saman, en Guðrún átti 6 börn með Sveini Björnssyni.
Ég gæti auðveldlega haldið áfram með þessa systur Magnúsar afa, móður Guðrúnar Sveins, en læt það eiga sig, að öðru leyti en því að í lok árs 1918 var hún komin í Freyshóla með tvö barna sinna og eignaðist þar son í lok árs. 

...... áfram inn á hina réttu braut.

Sannarlega veit ég ekki hvað olli því að tvíbýlið á Freyshólum gekk ekki til langframa, en grunar,að jörðin hafi einfaldlega ekki borið tvær fjölskyldur. Á fyrri hluta ársins 1918 var orðið ljóst að enn væri fjölgunar von hjá Ingibjörgu og Magnúsi. Eftir frostaveturinn mikla, sem gekk yfir fyrri hluta árs 1918, kann ástandið á Freyshólum að hafa verið orðið óburðugt og ekki um annað að ræða en taka af skarið. Niðurstaða varð um að fjölskyldan myndi flytjast að Rangárlóni í Jökuldalsheiði. 

-------------------------------------
Ég ætlaði nú ekki að dvelja svona lengi við þessi sex á frá 1912-1918, en, það er ekki alltaf svo að maður ráði sínum næturstað. Svo virðist þetta bara hafa verið áhugaverður tími.
Áfram gakk.

09 september, 2022

Austfirskar rætur (2)

Mæðginin Magnús Jónsson og
Ljósbjörg Magnúsdóttir við lok 19. aldar.
Ég reyni að rekja stuttlega sögu langafa míns, Jóns Guðmundssonar á Freyshólum og langömmu, Ljósbjargar Magnúsdóttur, fram til þess tíma þegar þau tóku við búi á Freyshólum, árið 1876. Þessi leit mín hefur ekki verið einföld, svo ekki sé meira sagt og niðurstaða mín var sú að láta kyrrt liggja að mestu.  En úr því ég er búinn að sitja við þessa leit, dögum saman, finnst mér óhjákvæmilegt að skrá hér þó það sem ég veit með nokkurri vissu. 

Aðeins um bakgrunn afa míns, 
Magnúsar Jónssonar 
(
05.11.1887-16.01.1965)

Hinn langafinn í föðurætt: Jón Guðmundsson.
Jón Guðmundsson, fæddist 6. mars 1829 og var sonur Guðmundar Jónssonar bónda í Borgargerði  og Katrínar Gunnlaugsdóttur. 
Árið 1834 var fjölskyldan flutt að Lambeyri í Reyðarfirði og var þar enn 1839.
1842 til 1844 var Jón léttadrengur í Vattarnesi en fór þá í Breiðuvík, þaðan hvarf hann árið eftir í Höfða og þaðan í Ketilsstaði 1848.
Árið 1851 var hann mættur sem 22 ára vinnumaður í Freyshóla og var þar til 1862, en þá flutti fjölskyldan að Hofteigi í Jökuldal og Jón flutti með þeim þangað. Þá var hann orðinn 34 ára.
Árið 1964 gerðist hann vinnumaður í Þingmúla og var þar til 1869, en er þá sagður hafa farið í Ormsstaði. Hvaða Ormsstaðir þetta voru veit ég bara ekki. Ormsstaðir í Breiðdal eða ....? 
Eftir það er ég hreint ekki vissu um verustaði hans, fyrr en hann tók við sem bóndi í Freyshólum.

Hin langamman í föðurætt: Ljósbjörg Magnúsdóttir.
Það kom fram í 1. hluta, að langalangafi minn Jónas Valgerðarson Hansson, var hálfbróðir langömmu minnar, Ljósbjargar Magnúsdóttur. Þar segir: "Valgerður giftist 1840 Magnúsi Magnússyni (1808-1866) og eignaðist með honum 7 börn og þar á meðal eitt, sem talsvert kemur við þessa sögu. Hér var um að ræða stúlku, sem hlaut nafnið Ljósbjörg Magnúsdóttir. sem síðar varð þess heiðurs aðnjótandi, að verða hin langamma mín."
Ljósbjörg er sögð fædd á Reykjum í Mjóafirði þann 8. janúar, 1848.

Ég verð að viðurkenna að mér gekk bölvanlega að finna upplýsingar um Ljósbjörgu fyrr en hún var nýkomin í Skjöldólfsstaði í Jökuldal árið 1868, en þá er engu líkara en hún hafi einnig farið í Þingmúla, en þar fann ég hana þetta sama ár. 

Jón og Ljósbjörg
Á þessu ári (1868) var Jón Guðmundsson einnig í Þingmúla, svo ég slæ því bara föstu, að þar hafi kynni þeirra hafist. Árið eftir var Jón áfram í Þingmúla, en Ljósbjörg farin þaðan, líklega í Skjöldólfsstaði, en þaðan er hún sögð hafa farið 1870, sama ár og Jón fór frá Þingmúla í Ormsstaði, sem ég veit ekki hvar eru og þá er Ljósbjörg einnig sögð hafa farið þangað. 
Hjúin eignuðust fyrsta barn sitt, Hólmfríði, í  Hofteigi 1874. Þar voru þau frá 1871 til 1876 og gengu í hjónaband meðan þau voru þar.
 

Freyshólar
Svo varð það 1876 að Þau komu í  Freyshóla frá Hofteigi og tóku þar við búi af Bjarna Bjarnasyni (68) og Salnýju Jónsdóttur (42). Þau attu 4 börn 9-18 ára.  Þau fluttu að Stóra-Sandfelli.
Jón var 48 ára og Ljósbjörg þrítug og þar með 18 ár á milli þeirra. Með þeim var frumburðurinn Hólmfríður Jónsdóttir (1).  Annað fólk á bænum voru 14 ára léttastúlka. Stefán Gunnlaugsson (38) vinnumaður, kona hans Herdís Jónsdóttir (44) og tvö börn þeirra 8 og 2ja ára.  Árið eftir var komið annað fólk í vinnumennskuna. 
1878
Annað barn hjónanna fæddist, Sigurbjörg Jónsdóttir.
1879
Auk fjölskyldunnar voru á bænum 12 ára tökustúlka, 40 ára vinnukona og 3ja ára sonur hennar, 36 ára vinnumaður og 85 ára niðursetningur. 
1880
Hér bættist þriðja barnið við, Guðjón Jónsson.
1881
Allt við það sama nema nú var kominn til sögu húsmaður, Benedikt Gíslason (29) ásamt Ólöfu Ólafsdóttur (28) konu hans og tveggja ára dóttur.
1882
Sama og síðasta ár.
1883
Fjórða barnið, Guðrún Jónsdóttir, bættist í barnahópinn.  og það var enginn húsmaður lengur, heldur þrjár vinnukonur og einn vinnumaður.
1884 - 1886
Hér bar fátt til tíðinda.

Gróft yfirlit yfir helstu staði sem koma við sögu. Grunnur er herforingjaráðskort.


Magnús Jónsson kemur til sögunnar
1887
Þann 6. nóvember kom í heiminn fimmta, og síðasta, barn þeirra Jóns og Ljósbjargar og fékk hann nafnið Magnús. Hann er önnur meginástæða þessarar samantektar og honum verður fylgt héðan í frá. 

Þegar piltur kom í heiminn var þetta fólk á Freyshólum:
Jón Guðmundsson, bóndi (59) - faðirinn sennilega í eldri kantinum. 
Ljósbjörg Magnúsdóttir kona hans (33)
Hólmfríður Jónsdóttir (12), Ingibjörg Jónsdóttir (9), Guðjón Jónsson (8) og Guðrún Jónsdóttir (5) börnin á bænum.
Jóhann Sigurðsson (48) vinnumaður og Herdís Kolbeinsdóttir (25) vinnukona.
1888-1899
Þetta voru nú bara ár sem Magnús var að slíta barnsskónum smám saman, hjá fjölskyldu sinni á Freyshólum. Það voru helst elstu systkinin sem byrjuðu að hreyfa sig á þessum tíma. Þannig fór Hólmfríður sem vinnukona í Sauðhaga og kom aftur með mann með sér, Jón Ólafsson að nafni. Þau eignuðust svo soninn Ólaf Björgvin árið 1895 og bjuggu á Freyshólum, sem vinnuhjú.
Guðrún, þá 18 ára,var komin í Hjaltastaði 1901.
1900
Þann 16. júlí, lést Jón bóndi 72 ára að aldri. Þarna var Ljósbjörg 53 ára og var skráð sem búandi síðari hluta ársins.  
1901
Svona var fjölskyldan á Freyshólum skráð á þessu ári:
Jón Ólafsson, bóndi (35)
Hólmfríður Jónsdóttir, hans kona (25),
Ólafur Björgvin Jónsson (6) þeirra sonur.
Ljósbjörg Magnúsdóttir, vinnukona (54)
Magnús Jónsson, léttadrengur (13)
Þarna fóru í hönd nýir tímar, sem sagt. 
1902
Jón og Hólmfríður eignuðust annað barn, Jóhönnu Björg.  Ljósbjörg var skráð sem "móðir konu" og Magnús áfram "léttadrengur". Það var komin vinnukona og 4ra ára tökubarn.
1903
Hér voru vinnukonan og tökubarnið farin og léttadrengurinn Magnús, orðinn 15 ára. 
Guðrún (20) var orðin vinnukona á Kóreksstöðum. 
1904
Hér var Ljósbjörg farin að Hryggstekk í Skriðdal. Á Kóreksstöðum hafði Guðrún fengið titilinn "ráðskona" hjá Sveini Björnssyni, bónda (42). 
Magnús (16) var orðinn "vinnumaður" á Ketilsstöðum.
1905
Á Freyshólum var kjarnafjölskyldan, hjónin með tvö börn.
Á Kóreksstöðum var Guðrún (22) orðin húsfreyja, gift Sveini Björnssyni (43) og þau höfðu eignast dótturina Guðrúnu Björgu, sem síðan var kunn sem Guðrún Sveins og bjó í Mávahlíð í Reykjavík.
Það sem skiptir hinsvegar mestu fyrir þessa samantekt er, að í Kóreksstaði var kominn 17 ára pilturinn Magnús Jónsson og gegndi hann þar stöðu vinnumanns. 
1906
Magnús var áfram vinnumaður á Kóreksstöðum.
Á Freyshólum voru orðin mikil umskipti. Sigurbjörg (28) var komin aftur heim, með manni sínum Guðmundi Jónssyni (47) og þrem börnum Guðmundi (3), Jóni Björgvin (2) og Sigrúnu (á1)
1907
Ljósbjörg var komin aftur í Freyshóla og fleira fólk. 
Enn var Magnús á Kóreksstöðum hjá systur sinni og nú var þangað kominn sonur Jóns og Hólmfríðar á Freyshólum, Ólafur  Björgvin (12)
1908
Þeir Magnús (20) og Ólafur (13) voru enn á Kóreksstöðum og óbreytt á Freyshólum, utan að Guðjón (27) var kominn sem lausamaður á heimaslóðir.
1909
Óbreytt á Kóreksstöðum og Freyshólum
1910
Magnús (23) kom aftur á Freyshóla, en annað var óbreytt. 
1911
Magnús enn á Freyshólum, en einning í Hólum, en þar var hann hjá Sistur sinn, Sigurbjörgu og hennar fjölskyldu, ásamt Ljósbjörgu móður sinni..
1912
Það vakti athygli að Sigbjörn Sigurðsson, föðurbróðir S. Ingibjargar ömmu, var kominn sem vinnumaður til þeirra Guðrúnar og Sveins á Kóreksstöðum. 
Ingibjörg kom frá Seyðisfirði og gerðist vinnukona í Vallaneshjáleigu, en þar var Magnús þá starfandi sem húsmaður.
1913 
Sigbjörn farinn frá Kóreksstöðum.
Magnús (27) gerðist húsmaður í Vallaneshjáleigu. Þann 2. febrúar var lýst með þeim Ingibjörgu og 2. mars gengu þau svo í hjónaband.  Þau fór svo saman að Strönd, en stöldruðu þar stutt við.
1914
Á þessu ári var Magnús (27) var orðinn húsmaður á Gunnlaugsstöðum. Þar var einnig kona hans, Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir (21) með Alfreð, son þeirra, á 1. ári.

--------------------------

Hér með er ég kominn þar með þessa samantekt, að Magnús og Ingibjörg er búin að stofna fjölskyldu.  Það sem nú liggur fyrir, er að fylgja þeim eftir næstu ár, sem líklega voru ekki alltaf dans á rósum - en meira um það síðar.









02 september, 2022

Austfirskar rætur (1)

Skúli Magnússon, Ingibjörg Björnsdóttir, Guðný Pálsdóttir
og Páll M Skúlason. Myntekin um miðjan 6. áratuginn. 
Eina  skiptið sem ég hitti Ingibjörgu ömmu.
Það er víst ljóst einhverjum, að ég og frændfólk mitt í föðurætt, eigum ættir að rekja til austfjarða. Það koma við sögu Loðmundarfjörður, Seyðisfjörður, Norðfjörður og Borgarfjörður eystri, í það minnsta. Ekki liggja rætur bara í fjörðum, heldur einnig á Fljótsdalshéraði, með nokkurra ára viðkomu uppi á Jökuldalsheiði. 
Þarna er um að ræða magnaða blöndu, þar sem við sögu kemur fólk sem þurfti að berjast fyrir lífi sínu og sinna og einmitt þess vegna get ég verið stoltur að þeim sögvef sem spunninn hefur verið fram á þennan dag, og sem ég er hluti af.  Ég vildi gjarnan þekkja þessa sögu miklu betur  og hver veit nema ég komist einhverntíma í tæri við frásagnir af  lífi þessa fólks, en það er líklega ekki af því tagi sem ævisögur hafa verið skrifaðar um.
Ég reyni hér að feta mig í gegnum þennan vef, þar sem forfeður mína í föðurætt er að finna og nota mér til aðstoðar kirkjubækur og svo mögulega frjálslegar vangaveltur.  

Aðeins um bakgrunn ömmu minnar, 
Sigríðar Ingibjargar Björnsdóttur
(
03. 09. 1893-17.11.1968)


Annar langafinn í föðurætt: Björn Sigurðsson
Árið 1824 fæddist í Sandvíkurseli í Sandvík Skorradalssókn (sunnan Norðfjarðarflóa), Sigurður Þórarinsson sem lést í snjóflóði í Seyðisfirði 1885. Hann kvæntist Ingibjörgu Geirmundsdóttur, sem fædd var 1837 í Desjamýrarsókn (Borgarfjörður eystri). Hún lést einnig í áðurnefndu snjóflóði. 
Ingibjörg og Sigurður eignuðust heilmikið af börnum, 16 ef marka má heimildir. Flest þessara dóu ung. Einn sonur þeirra var Björn Sigurðsson, fæddur 1864. Hann varð síðar, óafvitandi, þess heiðurs aðnjótandi, að verða langafi minn.

Önnur langamman í föðurætt: Sæbjörg Jónasdóttir
Árið 1837 fæddist á Selstöðum í Dvergasteinssókn (í Seyðisfirði?), Jónas Valgerðarson Hansson og hann lifði til ársins 1906. Móðir hans var Valgerður Jónsdóttir (1805-1874). Árið 1837 var hún vinnukona í Skálanesi (sem mér sýnist að hafi verið við utanverðan Seyðifjörð sunnan megin.  
Árið eftir (1838) virðist hún vera orðin vinnukona  á Selstöðum  (í norðanverðum Seyðisfirði ?). Þar er hún ekki skráð með soninn með sér. 
Íslendingabók: Í prestþjónustubók segir að lýstur faðir hafi verið Jónas Magnússon vinnumaður á Hofi í Mjóafirði en hann þverneitaði og virðist jafnvel hafa svarið barnið af sér ef rétt er ráðið í máð letur.

Ég held ég gangi ekki lengra í að finna út úr faðerni þessa langalangafa míns. Hann var sem sagt kenndur við móður sína og einhvern Hans, sem ég held að hafa hreint ekki verið neinn Hans, heldur var hann sonur HANS Jónasar.. Látum kyrrt liggja.
Valgerður giftist 1840 Magnúsi Magnússyni (1808-1866) og eignaðist með honum 7 börn og þar á meðal eitt, sem talsvert kemur við þessa sögu. Hér var um að ræða stúlku, sem hlaut nafnið Ljósbjörg Magnúsdóttir. sem síðar varð þess heiðurs aðnjótandi, að verða hin langamma mín.
Til að taka þetta saman, þá voru langalangafi minn Jónas og langamma mín Ljósbjörg, hálfsystkin.
Valgerður fór með syni sína tvo Jón Pétursson (6) og Jónas (1) 1938 frá Selstöðum að Reykjum (í Mjóafirði?).

Guðrún Magnúsdóttir (1842-1906) sem varð eiginkona Jónasar Valgerðasonar og langalangamma mín, var tökubarn á Nesi í Skorrastaðasókn og ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaðan hún kom þangað utan að hún fæddist í Hólmasókn  

Björn og Sæbjörg ná saman

1886
Jónas Valgerðarson Hansson (48) og kona hans, Guðrún Magnúsdóttir fluttu frá Norðfirði í Vestdalseyri í Seyðisfirði, með þrjú barna sinna, 1-9 ára. 
1887
Dóttir þeirra Sæbjörg var þá 16 ára, en kom ekki í Seyðisfjörð fyrr en ári síðar og gerðist vinnukona hjá þeim Einari Halldórssyni og Ragnhildi Gísladóttur.  
1888 - 1891
Árið þar á eftir var hún svo vinnukona í Stakkahlíð í Loðmundarfirði hjá Baldvin Jóhannessyni og Ingibjörgu Stefánsdóttur. Þar var hún til 1891. 
Björn (26) var vinnumaður í Stakkahlíð 1889, en 1890 fór hann í Seyðisfjörð og gerðist vinnumaður hjá Siggeir Sigurðssyni og Sigríði Helgadóttur.  Hann var síðan vinnumaður á Hjálmárströnd hjá Eileifi Magnússyni og Mörju Metúsalemsdóttur árið 1891.  Það ár voru Jónas og Guðrún í Firði í Seyðisfirði með yngri börn sín, tvö. 
1892
Eitthvað virðist hafa kviknað hjá þeim Sæbjörgu og Birni þegar þau voru samtíða í Stakkahlíð, því á þessu ári, þann 3. júlí fæddist þeim dóttirin Guðrún Björg. Þau voru þá skráð sem vinnuhjú í Firði og hún sögð kona hans. 

Sigríður Ingibjörg  elst upp


Sæbjörg og Björn með
Harald og Ingibjörgu

1893
Hér var stórfjölskyldan í Firði og Sæbjörg og Björn eignuðust dótturina Sigríði Ingibjörgu þann 3. september.  Þá var Sæbjörg 23 ára en Björn 30. 
1894
Óbreytt ástand í Firði.
1895
Dóttirin Guðrún Björg lést á þessu ári. Bróðir Sæbjargar, Halldór (14) var skráður sem niðursetningur á heimili þeirra í Firði og foreldrar hennar, Jónas (58) og Guðrún (53) sömuleiðis þar skráð. 
1896
Hér flutti fjölskyldan á Búðareyri í Seyðisfirði og þann 31. janúar fæddist þeim sonurinn Haraldur.
1897
Óbreytt ástand á Búðareyri.
1898 - 1903
Sigríður Ingibjörg, þá 6 ára, hvarf úr foreldrahúsum og var skráð í prestþjónustubók Dvergasteinssóknar sem burtvikin þetta ár og að hún hafi farið í Borgarfjörð. Hún á að hafa farið til ömmubróður síns, Páls Geirmundssonar og konu hans Guðfinnu Guðmundsdóttur, sem bjuggu í Litluvík í Desjamýrarsókn.  Ekki fann ég hana í Borgarfirði fyrr en í lok árs 1902, 3-4 árum eftir að hún er sögð hafa farið frá Seyðisfirði. Þetta ár var hún skráð sem tökubarn í Litluvík. Þar voru þá áðurnefndur ömmubróðir hennar Páll (53) kona hans Guðfinna (56) og tvo uppkomin börn þeirra, Ingibjörg (24) og Sigbjörn (18).
Ég leyfi mér að skýra þetta misræmi í kirkjubókum með  ástandinu á heimilinu í Seyðisfirði sem var átakamikið á þessum árum. Þó ég viti ekki hvað olli dauða Björns föður hennar árið 1900, þá reikna ég með að hann hafi haft aðdraganda og að foreldrarnir hafi viljað hafa dóttur sína hjá sér. Sigbjörn Sigurðsson, bróðir Björns, var kominn á heimilið 1899, þá 41s árs og það má gera ráð fyrir að það hafi tengst veikindum Björns, sem varð aðeins 36 ára þegar hann lést þann 3. júní.  
Ég, sem sagt, geri ráð fyrir, að Ingibjörg hafi verið á heimilinu meira og minna til 1903, en að prestunum í Dvergasteinssókn og Desjamýrarsókn hafi bara láðast að skrá hana á öðrum hvorum staðnum.  Viti eitthvert ættmenna minna meira um þetta, þætti mér vænt um að vita af því.

Seyðisfjörður: Eftir lát Björns flutti fjölskyldan í Álfhól í Seyðisfirði. Þarna voru árið 1902: Sæbjörg (30), Haraldur sonur hennar (6), Halldór Jónasson (21), bróðir hennar, foreldrar hennar, Jónas (64) og Guðrún (59) og loks bróðir Björns, Sigbjörn (44).  Þau Jónas og Guðrún létust bæði árið 1903 og Halldór hvarf á braut.   Það var fámennt á Álfhóli næstu ár. 
1904
Á þessu ári fluttu þau Páll og Guðfinna frá Litluvík í Kóreksstaðagerði, í Hjaltastaðasókn, en þar hafði dóttir þeirra, Ingibjörg, tekið við stöðu ráðskonu tveim árum fyrr.  Ingibjörg, sem þá var 11 ára, flutti með þeim þangað
1905
Hjónin voru aftur komin í Litluvík, Þar hafði sonur hjónanna, Guðmundur látist, rétt um þrítugt, frá þrem ungum börnum og ekkjan fór fyrir búinu. 
Ingibjörg, 12 ára fósturbarn var með í för. 
1906
Heimilið á Litluvík var ekki nefnt í sóknarmannatali á þessu ári og þau Páll og Guðfinna höfðu tekið sér bólfestu á Efri Hóli í sömu sókn (ekki veit ég hvar sá bær var). Þar voru þau með tvö tökubörn, Ingibjörgu, sem var orðin 13 ára og Pál Ingvar Guðmundsson, 8 ára, en hann var sonarsonur þeirra.
1907 - 1908
1907 Enn voru hjónin á ferðinni og á þessu ári voru þau skráð í Brekku í sömu sókn og enn með tökubörnin sín tvö, Ingibjörgu (14) og Pál Ingvar (9). Mér sýnist að Brekka hafi staðið við Húsavík.
Staðan var óbreytt hjá Ingibjörgu árið 1908, Haraldur bróðir hennar, lést árið 1908, 12 ára að aldri. 
1909
Þriðja árið á Brekku bættust tveir einstaklingar við á heimilinu, sonarsonur hjónanna, Sigbjörn Jakob Guðmundsson (6) og móðir hans, Ragnhildur Hjörleifsdóttir (37) húskona, en hún var ekkja Guðmundar, sonar þeirra.  Þarna var Ingibjörg (15) sem sagt áfram skráð, en það sem vekur athygli er, að á árinu var hún talin sem "innkomin" á Seyðisfjörð og til heimilis á Álfhóli hjá móður sinni og Sigbirni föðurbróður sínum.
1910 
Ingibjörg á saumanámskeið 1910.

Hér var tengdadóttir Páls og Guðfinnu, Ragnhildur komin í Sæból með syni sína tvo. Ekki fann ég í fljótheitum, hvað varð um Pál og Guðfinnu, en hann lést 1914 og Guðfinna 1921.
Ingibjörg (18) var ekki skráð í Álfhóli á þessu ári, en hefur þó varla verið langt undan. Á Álfhóli þetta ár voru þau Sæbjörg (39) og Sigbjörn (53) húsmaður, ásamt Þuríði Eiríksdóttur, húskonu (43). 

1911
Ingibjörg var aftur mætt til leiks í Álfhóli á þessu ári.
1912
Ingibjörg (19) gerðist vinnukona í Vallaneshjáleigu og þangað kom einnig Magnús Jónsson frá Freyshólum.

------------------------------------------
Ég treysti því að þau ykkar sem vita meira um þessa sögu, ekki síst um staðhætti þarna fyrir austan, láti mig vita. Ég veitt fátt nema það sem þessar skruddur prestanna segja.

Ég mun svo halda áfram ..... næst. 


19 ágúst, 2022

Baugsstaðir - epilogus

Sigurður Pálsson í stofunni í vesturbænum, 2013
 Það er fjarri mér að efast um það, að fólkið sem tilheyrir þeirra ætt sem ég er nú búinn að reyna að skilja betur, sé öndvegisfólk upp til hópa. Jafnframt viðurkenni ég, að upplýsingarnar sem ég byggi þessa niðurstöðu á, eru að langmestu leyti fengnar úr kirkjubókum: prestþjónustubókum og sóknarmannatölum og það má alveg ímynda sér að sumt hafi prestar bara ekki fengið að vita um, enda hefðu vafasamar upplýsingar í þeirra höndum getað verið afdrifaríkar. 

Ætli fólkið sem hefur haldið ættinni lifandi gegnum aldirnar, sé bara ekki eins og annað fólk; breyskt, á ýmsan máta.  

Ævagömul klukka í 
vesturbænum. 

Í uppvextinum heyrði ég ýmislegt, og á fullorðinsárum hef ég heyrt ýmislegt til viðbótar, jafnvel sitthvað sem ég vil helst ekki trúa, um forfeðurna.  Ég hef heyrt ýjað að ýmsu misjöfnu sem aldrei yrði um getið í minningargreinum um fólk.  Meðal annarra bresta sem svifið hafa í grennd  við eyrun á mér eru drykkjuskapur, framhjáhald, rangt feðruð börn og jafnvel það sem enn verra er. Ýmislegt af þessu tagi hefur helst komið til tals í hvíslingum fólks og þannig borist milli kynslóða.  
Uss, uss, ljótt er ef satt er! 
Ég held, að við sem nú lifum, værum harla litlu bættari með að grafast fyrir um bresti af þessu tagi, sem eflaust má finna heimildir um í höfðum einhverra okkar. Það sem við getum kannski helst gert, er að læra af og heita því að reyna að vera eitthvað betri.
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að láta kyrrt liggja. Látum sofandi hunda í friði. 

----------------

Ég fékk að kynnast afa og ömmu á Baugsstöðum talsvert, en þó minna en þau ykkar sem beinlínis ólust upp á Baugsstöðum. Mamma var afar dugleg við að viðhalda sambandi við foreldra sína og við systkinin fylgdum auðvitað þar með. Minningar sem ég ber síðan um gömlu hjónin, eru flekklausar. "Guð blessi allt góða fólkið mitt", var viðkvæðið hjá ömmu þegar Hveratúnsfjölskyldan steig út úr Land Róvernum hlaðinu fyrir framan vesturbæinn. Hún fórnaði höndum í einlægri gleði yfir gestunum og faðmaði að sér ungviðið, dótturina og tengdasoninn. Afi var fremur hæglátur og tjáði ekki með sama hætti tilfinningar sínar til okkar, en aldrei fann ég til annars en væntumþykju hans gagnvart mér, þó ekki minnist ég þess að hann hafi haft hátt um hana.. Mér finnst ágætt að hafa þessar minningar um afa og ömmu. Fyrst þau voru svona gott fólk, hef ég enga ástæðu til að hugsa til foreldra þeirra eða systkinabarna, nú, eða annarra forfeðra með öðrum hætti.

Elín Magnúsdóttir og dóttir hennar Elín
Jóhannsdóttir og börn þeirrar síðarnefndu:
f.v Guðný, Elín Ásta og Siggeir. (ca. 1926)
Annað fólk sem tilheyrði þessari fjölskyldu hefur mér alltaf fundist vera ósköp hlýtt í viðkynningu, en vissulega eru ansi margir áratugir síðan ég hitti þau elstu í fermingarveislum á Baugsstöðum, eða í Hveratúni. Þarna voru þau Gummi og Halldóra, Silla og Ingólfur, Ási og Bogga. Ég man minna eftir öðrum börnum Siggeirs og Kristínar, sonunum Jóhanni og Sigurði.  Finnst ég þó muna eftir því að í eina fermingarveisluna kom annar þessara bræðra og konan hans beið úti í bíl á meðan hann kíkti á  fermingarbarnið og veislugesti. 

Ég þarf auðvitað varla að taka það fram, að fjölskyldur bræðra mömmu hafa verið og eru með ágætum, en ónefndir mættu þó ganga í gegnum endurskoðun á pólitískum viðhorfum, en það telst varla með. 

Tvö ártöl

Eins og sjá má af samantektinni úr kirkjubókunum, standa tvö ár upp úr, sem umbyltu lífi fólksins á Baugsstöðum, þannig að sú ævi sem það hefði getað átt, var síðan allt önnur. 

Þegar Jóhann Hannesson lést sumarið 1891, má segja að fjölskylda hans og Elínar Magnúsdóttir hafi splundrast. Ef allt hefði nú gengið vel, hefðu þau mögulega tekið við búi í austurbænum af foreldrum Elínar og þannig hefði Baugsstaðaættin átt alla jörðina áfram.

Ekki varð áfallið minna árið 1918. Þá lést Guðmundur Jónsson í febrúar og Siggeir sonur hans tók við búinu. Það blasti við, að hann og Kristín myndu ala þarna upp börnin sín fimm. Þarna var óljóst hvað Páll hefði tekið sér fyrir hendur að óbreyttu. Það má meira að segja velta því fyrir sér, hvernig farið hefði með hjúskap hans og Elínar, sem var þarna búin að dvelja á vetrum í Reykjavík í ein átta ár. Hugsanlega hefði hann flutt á mölina með henni.  Fannst þeim mögulega eitthvað undarlegt við það, eftir að hafa alist upp nánast sem systkini frá barnæsku, að giftast og fara að eignast börn?   

Reiðarslagið sem Baugsstaðafjölsyldan varð fyrir í byrjun desember þetta ár, þegar Siggeir lést eftir slys, setti flest úr skorðum í lífi fólksins í vesturbænum.  Það má segja að framtíð þess hafi sundrast í einu vetfangi.
Árið eftir gengu Páll og Elín í hjónaband og hann tók við búinu. Kristín fór skömmu síðar til Reykjavíkur með þrjú barna sinna, til að finna aftur fótfestu í lífinu, en tveir sona hennar urðu eftir á Baugsstöðum til fullorðinsára, hjá afa og ömmu, og dóttir hennar kom svo síðar aftur á æskustöðvarnar þegar Kristín hafði gifst á ný og flutt að Læk í Ölfusi.

Siggeir er sagður hafa afstýrt því, að fjölskyldan flytti frá Baugsstöðum, ef marka má það sem "Kunnugur" skrifaði í minningarorðum um feðgana: 

Meðan Siggeir var enn innan við tvítugt, var afli mjög tekinn að þverra fyrir Loftsstaðasandi, en hann hafði verið aðal lífsviðurværi bænda þar um slóðir, landbúnaðurinn hinsvegar lítill og bágborinn. Voru horfurnar því óglæsilegar, og vildi Guðmundur þá, sem sá hvað að fór, að þeir flyttu til Reykjavíkur. Lagðist Siggeir á móti því, kvað Ieitt að yfirgefa gamalt ættaróðal, og þótt það væri rýrt og erfitt, þá mundi þó mega bæta það, ekki hlýddi að allir flýðu erfiðleikana, einhver yrði að vera þar sem erfitt væri, væri það enginn vandi að gera gott úr góðu.

Þessi sami "Kunnugur" segir einnig, að Guðmundur Jónsson (langafi) hafi sest að á Baugsstöðum fyrir orð móður sinnar. Að sögn hans voru Baugsstaðir "rýr ágangsjörð", sem Guðmundi féll ekki. Þá var bú Guðmundar lítið og honum mun frekar hafa hugnast smíðar en búskapur.   

Sennilega afmæli á 7. áratugnum. Fremst sitja f.v. Magnús Skúlason, Guðný Pálsdóttir,
Páll Guðmundsson, Elín Jóhannsdóttir og Sigríður Ísafold.
Fyrir aftan þau standa Benedikt Skúlason og Guðný Siggeirsdóttir.
Standandi þar fyrir aftan Elín Ásta Skúladóttir, Sigrún Ingibjörg Skúladóttir, Páll Magnús Skúlason, Þórarinn Siggeirsson, Una Kristín Georgsdóttir Dyrving, Elín Siggeirsdóttir Svanborg Siggeirsdóttir og Sigurlaug  Siggeirsdóttir.
Aftast standa Skúli Magnússon, Páll Siggeirsson, Siggeir Pálsson, og Sigurður Pálsson.

Það er sannarlega ýmislegt sem hefur áhrif á líf okkar mannfólksins. Það eina sem við getum verið nokkuð viss um á lífsgöngunni er, að framundan er alltaf óvissa. Þannig hefur það alltaf verið og þannig verður það. 

Hver verður nú framtíðin á Baugsstöðum, þegar yngsti sonur þeirra Páls og Elínar er farinn úr vesturbænum, orðinn 94 ára, til dvalar á hjúkrunarheimili?  Þeirri spurningu get ég ekki svarað, enda Baugsstaðir svo sem ekki annað fyrir mér en ættarsaga og minningar frá æskuárum.

 


Afkomendur Elínar og Páls á Baugsstöðum hittust á ættarmóti árið 2009


17 ágúst, 2022

Baugsstaðir - einhverskonar botn 1911-1944

Systkinin Guðlaug Jóhannsdóttir (1882-1965) og 
Stefán Jóhann Stefánsson (1885-1968)
Ætli þetta sé nú ekki að verða gott, bara. Hér ætla ég að ljúka samantektinni á beinagrindinni að sögu Baugsstaðaættarinnar. 

---------------------

Aðeins meira um Elínu á þeim tíma sem hún var vetrarstúlka hjá Sigurði Thoroddsen og Maríu Kristínu, konu hans.

Í minningargrein um Elínu, sem Kristín Anna Kress skrifaði kemur fram að Elín hafi verið 8 vetur á Thoroddsen heimilinu, en á sumrin  hafi hún unnið við Baugsstaðarjómabúið.  Þá kvaðst Elín Ingólfsdóttir hafa heyrt, að Elín hefði í einhver sumur starfað í Viðey, en þar hafi þá verið einhver búskapur.

 1912-1913

Hvað um það, áfram hélt lífið á Baugsstöðum og árið 1912 fæddist þeim Kristínu og Siggeir sonurinn Ásmundur.  Elín birtist í sóknarmannatali sem lausakona, en hefur þá líklega verið eitthvað tímabundið á þeim tíma sem presturinn skráði fólkið á bænum.  Hún var einnig lausakona árið 1913.

Fæðing Ásmundar skráð, árið 1926

 1914

Kristín og Siggeir bættu í barnahópinn þegar eina dóttir þeirra fæddist, Sigurlaug kom í heiminn þann 6. febrúar.

Á þessu ári lagði Viktoría Guðmundsdóttir land undir fót og er sögð hafa farið til Vestmannaeyja.  
Annað sem þetta ár fól í sér í vesturbænum var, að Sigurður Þorkell Sigurðsson, sem áður er nefndur sem tökubarn, var orðinn 17 ára og hvarf á braut, líklegast til foreldra sinna í Reykjavík. Hann hafði verið á Baugsstöðum frá árinu 1903.

Fæðing Sigurlaugar skráð.

Það kom annað barn í staðinn, Kristín María Sæmundsdóttir, 8 ára, skráð sem hreppsómagi. Systir hennar Laufey, 6 ára, var skráð með sama hætti í Gerðum þetta ár. Þær voru dætur Guðlaugar Jóhannsdóttur og Sæmundar Þórðarsonar, sem fluttu til Reykjavíkur árið 1903. Þar virðast þau hafa skilið (sem aðrir en ég vita sennilega meira um). Ekki fæ ég betur séð en Guðlaug hafi verið hjú í Gaulverjabæ árið 1916 -197, en ég elti hana ekki uppi frekar.
Loks má geta þess, að veturinn 1914-15 var á Baugsstöðum vetrarstúlkan Kristrún Guðjónsdóttir (20) og nýfæddur sonur hennar, Erlingur Dagsson. Lýstur faðir hans var Dagur Brynjólfsson, sem var sonur Brynjólfs Jónssonar á Minna-Núpi, sem var bróðir Guðmundar bónda, sem þarna hefur talið það skyldu sína að koma bróðursyni sínum til aðstoðar. Kristrún hvarf á braut með vorinu. Dagur var faðir Dags (Dadda), Ingibjargar (Imbu Dags) og Bjarna, sem við könnumst mörg við.

Ýmislegt í gangi og varasamt að reyna að elta það allt uppi, þó það gæti verið áhugavert.

 1915

Var allt með nokkuð kyrrum kjörum og fólkið það sama og árið áður.

 1916

Hér virðist langamma, Elín, hafa tekið sér ársleyfi frá lífinu á Baugsstöðum, en hún var aftur komin árið eftir.

 1917

Það er rétt að taka saman hvaða fólk gisti vesturbæinn á Baugsstöðum, samkvæmt sóknarmannatali á þessu ári:

Guðmundur Jónsson, bóndi, 68 ára.
Guðný Ásmundsdóttir, kona hans, 64 ára.
Páll Guðmundsson, sonur þeirra, vinnumaður, 30 ára.
Siggeir Guðmundsson, sonur þeirra, vinnumaður, 38 ára.
Kristín Jóhannsdóttir, kona hans, 34 ára.
Guðmundur Siggeir Siggeirsson, sonur þeirra, 11 ára.
Jóhann Siggeirsson, sonur þeirra, 8 ára.
Ásmundur Siggeirsson, sonur þeirra, 5 ára.
Sigurlaug Siggeirsdóttir, dóttir þeirra, 3ja ára.
Elín Jóhannsdóttir, vinnukona, systir húsfreyju, vinnukona, 30 ára.
Elín Magnúsdóttir, móðir Elínar og Kristínar, vinnukona, 61 árs.
Kristín María Sæmundsdóttir, á sveit, 11 ára.

 Svona var þá samsetning heimilisfólksins í árslok 1917. Þarna virðist ekki hafa annað legið fyrir, en að Siggeir og Kristín tækju við búinu á Baugsstöðum eftir foreldra hans. Í minningarorðum um Siggeir, sem ég læt fylgja hér neðar, segir meðal annars:  Siggeir var enginn augnabliksmaður, hann alheimti ekki daglaunin að kveldi. Hann var atkvæða verkmaður, vandvirkur og mikilvirkur, enda var hann óefað mestur jarðabótamaður í Stokkseyrarhrepp síðustu 10-15 árin. Hann hafði mikinn áhuga fyrir öllum framförum verklegum og andlegum, var andlega vel gefinn hafði sérlega góðar námsgáfur, hann var örlyndur og meirlyndur.

Það sem gerðist á árinu 1918 átti heldur betur eftir að umturna lífi fólksins í vesturbænum.

 1918

Guðmundur 

Það var ekki nema rúmur mánuður liðinn af árinu, þegar Guðmundur bóndi féll frá á 69. aldursári. Banamein hans var sagt vera heilablóðfall.  Þar með var komið að Siggeir að taka við keflinu. Fimmta barn þeirra, sonurinn Sigurður, fæddist 10. mars.

Þann 1. desember lést Siggeir eftir slys. Frásagnir í blöðum eru svipaðar: Siggeir Guðmundsson, bóndi Baugsstöðum við Stokkseyri fanst örendur í fjörunni fyrir framan bæinn. Hafði farið að reka saman fje, en dottið í grjótinu og fengið banahögg eða orðið snögglega ilt og ekki komist úr stað. Þetta var nokkru fyrir jólin.

 

Siggeir

Ég læt hér fylgja minningargrein sem „kunnugur“ skrifaði í Tímann:

Æfiminning

þeirra feðganna Guðmundar Jónssonar bónda á Baugstöðum og Siggeirs sonar hans.

Guðmundur var fæddur á Minna-Núpi 24. október 1849, sonur Jóns Brynjólfssonar og Margrétar dóttur Jóns Einarssonar hreppstjóra á Baugstöðum og seinni konu hans Sesselju Ámundadóttur frá Eystra-Geldingarholti í Gnúpverjahreppi. Var Ámundi þjóðhagasmiður, listfengur og skurðhagur vel. Eitt af verkum eftir hann er altaristafla í Gaulverjabæjarkirkju, smíðuð 1775. Ættartölur verða ekki raktar hér, það hefir verið gert í æfiminningum Brynjólfs frá Minna-Núpi, bróður hans. Var Guðm. heitinn hjá foreldrum sínum þar til hann var 25 ára, þá fór hann til Reykjavíkur og Iærði járnsmíði hjá Jónasi Helgasyni. 1878 fór hann að Haga í Gnúpverjahreppi og giftist sama ár Guðnýju, dóttur Ámunda [Ásmundar] Benediktssonar frá StóruvöIIum í Bárðardal.

Veturinn 1882 losnuðu hálfir Baugstaðirnir úr ábúð. Átti móðir hans nokkuð af þeim helming og vildi láta hann taka jörðina, og mun þar mestu hafa valdið trygð hennar við æskustöðvarnar, þvi jörðin var rýr ágangsjörð. Honum féll ekki jörðin en vildi þó fara að ráðum móður sinnar, hún hafði fram að því lagt honum beztu ráðin og gefíð honum bezta veganestið, gott andlegt uppeldi.

Minna-Núpssystkyn máltu segja eins og Ben. Gröndal: »Mín kendi móðir mitt að geyma hjarta trútt þótt heimur brygðist«.

Harða vorið 1882 flutti Guðmundur að Baugstöðum. Bú hans var mjög lítið. Jörðin var niðurnídd, ekki steinn yfir steini. Hann varð að velta í rústir og byggja á ný. Reisti hann Iítinn bæ Iaglegan, girti túnið og varði það mikið fyrir ágangi. Guðmundur var í rauninni ekki búhneigður en hafði þó mikla ánægju af öllu jarðræktarstarfi og mikla tilfinning fyrir fegurð náttúrunnar. Guðmundur stundaði smíðar eftir því sem tíminn leyfir einyrkjanum. Hann var vel skurðhagur þótt hann legði það ekki fyrir sig. Hann lagði hönd á margt og gerði alt vel. — Listgefnina mátti oft sjá. Rétt fyrir aldamótin 1900 smíðaði Guðm. líkingu af gömlu torfkirkjunni á Stóra-Núpi, var það fyrir milligöngu Brynjólfs bróður hans, en gerð fyrir forngripasafnið. Þótti líkingin góð og var hann beðinn að gera aðra og urðu þær að lokum þrjár. Það þótti Guðm. ilt, að fyrsta og lakast gerða líkingin er hér á forngripasafninu, en hinar seldar til útlanda, sú síðasta á Parísarsýninguna.

Guðmundur var greindur vel, glaðlyndur, gestrisinn og ræðinn við gesti sína enda fjölfróður, — hann hafði aldrei að umtalsefni framkomu náungans, lét sig annara mál litlu skifta, var laus við öfund, leitaði aldrei eftir uppgripagróða, en lagði áherzlu á að ávaxta vel sitt pund, hann skifti sér lítið af sveitamálum en fylgdist vel með um landsmál.

Guðmundur bjó allan sinn búskap á Baugstöðum. Þau hjón eignuðust 6 börn, dóu 4 þeirra ung en 2 synir náðu fullorðins aldri, Siggeir, dáinn 1. des. 1918 og Páll sem enn er á Baugstöðum.

Guðmundur dó af heilablóðfalli 6. febrúar 1918. Það er ekki ósennilegt að Guðmundur hafi verið á skakkri hillu í lífinu, og svo mun honum hafa fundist sjálfum. En um það er ekki að fást, því það hafa svo margir orðið að þola. Og hvað sem um það er, þá virðist Guðmundur hafa leyst hlutverk sitt vel af hendi. Er því nú lokið og hann kominn yfir landamærin, en minning hann lifir í þakklátum hugum eftirlifandi samferðamanna.

------------------------------

Siggeir, sonur Guðmundar var fæddur í Haga 10. júní 1879, og var hjá foreldrum sinum alla tíð. Svo virðist oft sem minna liggi eftir unga menn en raun er á. Veldur því hve um munar smiðshöggið. Siggeir á söguna stutta en eftirtektarverða. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum. Strax þegar kraftar leyfðu tók hann að bæta jörðina og húsakynnin. Sást það snemma að Siggeir var ósérhlífinn, vildi altaf vera þar sem mest á reyndi og hættan var mest. Var þetta ekki fyrir fordildar sakir heldur af eðlishvöt. Meðan Siggeir var enn innan við tvítugt, var afli mjög tekinn að þverra fyrir Loftsstaðasandi, en hann hafði verið aðal lífsviðurværi bænda þar um slóðir, landbúnaðurinn hinsvegar lítill og bágborinn. Voru horfurnar því óglæsilegar, og vildi Guðmundur þá, sem sá hvað að fór, að þeir flyttu til Reykjavíkur. Lagðist Siggeir á móti því, kvað Ieitt að yfirgefa gamalt ættaróðal, og þótt það væri rýrt og erfitt, þá mundi þó mega bæta það, ekki hlýddi að allir flýðu erfiðleikana, einhver yrði að vera þar sem erfitt væri, væri það enginn vandi að gera gott úr góðu. Á þessi hugsunarháttur erindi til ungu kynslóðarinnar, því bann ber vott um stöðuglyndi sem á virðist bresta, og trú á sigri yfir erfiðleikunum. Enda lét Siggeir ekki lenda við orðin tóm, hann fórnaði sér fyrir hugsjón sína og er kominn langt með að fullkomna framkvæmd hennar er hann fellur frá. Siggeir var enginn augnabliksmaður, hann alheimti ekki daglaunin að kveldi. Hann var atkvæða verkmaður, vandvirkur og mikilvirkur, enda var hann óefað mestur jarðabótamaður í Stokkseyrarhrepp síðustu 10-15 árin. Hann hafði mikinn áhuga fyrir öllum framförum verklegum og andlegum, var andlega vel gefinn hafði sérlega góðar námsgáfur, hann var örlyndur og meirlyndur. Trúhneigður þó ekki bæri á því á yfirborðinu.

Siggeir giftist 10. nóv. 1905, Kristínu dóttir Jóhanns Hannessonar frá Tungu og lifir hún mann sinn ásamt 5 börnum. Ekki vildi Siggeir þó taka við búi föður sins að því leyti að vera talinn fyrir, hann vildi láta föður sinn hafa sómann af verkum sínum, taldi sig altaf vinnumann, sýndi með því hvað hann var laus við metnaðargirnd og sérplægni. Hann var góður eiginmaður og umhyggjusamur faðir, lét hann sér ant um að öllu sem hann hafði yfir að ráða liði vel, bæði mönnum og skepnum. Hans er sárt saknað af vinum og vandamönnum og þeir munu altaf minnast hans með þakklæti fyrir samvinnuna og stóru og vel unnu verkin í þarfir þeirra og ókomna tímans. Siggeir dó 1. desember 1918, var að reka fé frá sjó, hefir að líkindum dottið og dáið af byltunni.

Kunnugur.  (Tíminn 6. febrúar 1919)

Ég læt hér einning fylgja minningarljóð um Siggeir, sem birtist í Heimilisblaðinu 1. júní, 1919

Siggeir Guðmundsson frá Baugstöðum.
F. 10. júni 1879. — D. 1. des. 1918.

Ber oss tíminn breiðu spjólin,
beiskra harma kveður lag.
Andláts fregna hörðu hótin
heyrast nærri sérhvern dag.
Margra fá er meina bótin,
myrkva slær á andans hag.

 Þannig var úr þessum ranni
þarfri burt kipt stoð og vörn.
Eiginmanninn syrgir svanninn,
sáran föður gráta börn.
Segir þjóð: „Hví mætum manni
er mörkuð stund svo ósanngjörn?“

 Hryggð ber vina hljóður skarinn,
honum verða' á bak að sjá.
Hlekkur þeirra’ úr festi´ er farinn,
fast sem treysta mátti á.
Heimilisins heitur arinn
hefir fallið nið’r í dá.

Hví er burtu hrifin öndin,
hugsjón dýrri sem að ann?
Hví er stirðnuð hrausta höndin,
háleitt starf er þráði’ og vann?
Hví eru ástar brostin böndin,
bönd, sem naut og festi hann?

 Skilið fær vor skammsýn eigi
skynsemin in huldu ráð,
Drottins skapadóma’ og vegi;
duldri speki það er háð.
Og þótt hjartað bölið beygi,
bregzt ei mildi hans og náð.

Lifðu æðra sæmdur seimi,
sælla heima guða ranns.
Beinin þótt að gröfin geymi,
gleymist eigi nafn þess manns,
sem með dáðum hér í heimi
heiðurs vann sér dýrstan kranz.

Vinur.

 1919

Páll og Elín 1962

Þegar presturinn skráði fólkið í vesturbænum í október þetta ár, var Páll Guðmundsson, 31 árs orðinn bóndi og Kristín Jóhannsdóttir „búandi ekkja“, með börnin sín fimm. Elín Jóhannsdóttir var vinnukona og móðir hennar einnig.  Þarna var einnig Guðný Ásmundsdóttir, ekkja og Kristín María, sem enn var skráð „á sveit“.

Á jóladag gengu þau Páll og Elín í hjónaband, í vesturbænum.

 1920

Guðný Ásmundsdóttir lést þann 18. maí, 66 ára að aldri og þann 7. október fæddist Páli og Elínu fyrsta barnið, dóttir sem fékk nafn ömmu sinnar. Guðný Pálsdóttir var komin til sögunnar.

 


1921

Það var einskonar logn í vesturbænum á þessu ári.

 1922

Guðný og Elín Ásta

Þann 12. apríl eignuðust Páll og Elín dótturina Elínu Ástu.

 1923

Kristín Jóhannsdóttir fór frá Baugsstöðum með þrjú barna sinna, þau Jóhann (13), Sigurlaugu (8) og Sigurð (4). Að sögn Elínar Ingólfsdóttir gerðist hún ráðskona hjá Sigurði Magnússyni, smið, móðurbróður sínum, í Reykjavík. Hún mun hafa verið hjá honum þar til hún giftist Ísleifi Einarssyni (1874-1960), árið 1925.  Þau fluttu að Læk í Ölfusi árið 1927.

Á Baugsstöðum dvöldu þeir áfram, bræðurnir Guðmundur Siggeir (16) og Ásmundur (10). Guðmundur var á Baugsstöðum til 1932 og Ásmundur til 1944 eða 1945.

Vigfús Ásmundsson (63), móðurbróðir Páls kom aftur á Baugsstaði og var þar vinnumaður til 1932, þá orðinn 72 ára.

 1924

Jóhann og Sigurlaug Siggeirsbörn komu á Baugsstaði á þessu ári, en Jóhann var farinn aftur innan árs, en Sigurlaug var áfram til 1927.

 


1925

Þriðja barn Páls og Elínar, Siggeir, fæddist þann 6. júlí.

 1926 - 1927


Í stað Jóhanns Siggeirssonar, var bróðir hans Sigurður (8) kominn á bæinn en dvaldi þar ekki nema ár eða svo.   Þau Sigurlaug fluttu þá með móður sinni og stjúpa að Læk í Ölfusi árið eftir.

 1928

Sigurður Pálsson

Þann 30. maí fæddist fjórða barn Elínar og Páls, sonurinn Sigurður. (Siggi var fram eftir aldri skráður sem Sigríður í sóknarmannatölum, af ókunnum ástæðum).

 1929 – 1932

Á þessum árum gerðist það helst, að Hólmfríður Bjarnadóttir (Fríða í Hólum) kom á bæinn 1931 og var þar til 1936.

 1933

Elín Magnúsdóttir með dóttursoninn
Siggeir (held ég)
Þann 6. apríl, lést Elín Ásta Pálsdóttir, rétt að verða 11 ára. Banamein hennar var skarlatssótt.

 1934-1945

Hér drep ég á það helsta sem gerðist í vesturbænum á Baugsstöðum þessi ár, samkvæmt prestþjónustubókum.

Sigurlaug Siggeirsdóttir kom til dvalar ásamt nýfæddri dóttur sinni, Sigríði Ísafold Ísleifsdóttur, sem fæddist í júní 1935. Þær mæðgur voru á Baugsstöðum að minnsta kosti til ársins 1945, þegar þessari samantekt minni lýkur.


Ættmóðirin, Elín Magnúsdóttir, sem sannarlega mátti muna tímana tvenna, lést í hárri elli þann 11. apríl, árið 1944 og náði því ekki að upplifa lýðveldið Ísland.  Mér finnst við hæfi að ljúka þessu verki, með dauða hennar.

Hver veit nema ég „fabúleri“ eitthvað um þessa sögu Baugsstaðaættarinnar í næstu framtíð – ef ég þori.

---------------------------------------------

Í tilefni af því að öld var liðin frá fæðingur móður minnar, Guðnýjar Pálsdóttir, í október 2020, tók ég saman ýmislegt um ævi hennar í nokkrum færslum.  Fyrsta færslan.

FRAMHALD

16 ágúst, 2022

Baugsstaðir - 1892-1910 botninn nálgast.

Hér getur fólk af þessari ætt
mátað sig inn, eftir því sem við á.
Þá er komið að smantekt um ári 1892 til 1910. Þetta er talsvert viðameira en ég hafði reiknað með þegar ég, í sakleysi mínu, ætlaði að fá einhverja mynd af þeim jarðvegi sem ég er sprottinn úr í móðurætt.  Við þessa yfirferð vakna margar spurningar, en ég verð að sætta mig við að svör við þeim fást sennilega aldrei.

En, áfram með smjörið.

1892

Það má kannski segja að þetta ár hafi farið í að jafna sig á áföllum síðasta árs. Áfram voru Þau Stefán Jóhann og Guðlaug Jóhannsbörn á Hólum.
Stefán hjá Sigurði Einarssyni (69) og Kristínu Maríu Hansdóttur (65), en Sigurður og Guðmundur á Baugsstöðum voru systkinabörn.
Guðlaug var hjá Hannesi Magnússyni (33), móðurbróður sínum og Þórdísi Grímsdóttur (24). 

Kristín var á Tóftum hjá Einari Sigurðarsyni (36) og Ingunni Sigurðardóttur (28).

Á Baugsstöðum voru þau Elín í austurbænum og Páll í vesturbænum, 5 ára og væntanlega farin að leika sér saman á hlaðinu. Siggeir, 13 ára farinn að taka virkan þátt í bústörfunum.

Hannes Einarsson í Tungu, faðir Jóhanns lést þann 6. október úr brjóstveiki.   

 1893

Nú var farið að líða að kynslóðaskiptum á Baugsstöðum. Þau hófust með því  Magnús Hannesson í austurbænum, 75 ára, lést í júlí úr taksótt, og við tók sonur hans Magnús, 32 ára að aldri. Bústýra hjá honum og síðar eiginkona, var Þórunn Guðbrandsdóttir (24). Þau voru skráð, ásamt Hólmfríði Bjarnadóttur (16) vinnukonu (Fríðu í Hólum), sem önnur fjölskyldan í austurbænum.
Í hinni fjölskyldunni í austurbænum voru bróðir Magnúsar, Jón Magnússon (35) bóndi og ráðskona hans, Helga Þorvaldsdóttir (33). Þriðji bróðirinn. Sigurður Magnússon (24), smiður, var skráður hjá þeim.  
Þessir bræður voru, svona til að halda því til haga, bræður Elínar Magnúsdóttur (39), langömmu minnar, sem nú var allt í einu orðin hluti fjölskyldunnar í vesturbænum, ásamt Elínu dóttur sinni. Hún bar þar titilinn "húskona". Um ástæður þess að þær fluttu sig þarna milli bæja hef ég engar upplýsingar, en þarna voru afi og amma, 6 ára að aldri, orðin hluti af sömu fjölskyldunni, ef svo má segja.
Að gamní mínu set ég hér skilgreiningu vísindavefsins á hugtakinu húskona/húskarl:

Hjú, vinnufólk, griðfólk, karlmenn líka kallaðir húskarlar. Þetta fólk bjó inni á heimilum bænda og hafði oftast vinnuskyldu hjá þeim allt árið. Fyrir það fékk fólk húsnæði (lítið meira en rúm til að sofa í), fæði og líklega oftast vinnulaun, að minnsta kosti karlmenn.

 Að öðru leyti bjuggu þessi í vesturbænum: Guðmundur Jónsson, bóndi (44), Guðný Ásmundsdóttir kona hans (41), Siggeir (14) og Páll (6) synir þeirra. Elín Erlindsdóttir húskona (35) og Jón Ásmundsson (36) vinnumaður.

 1894

Ekkert bar til  tíðinda á Baugsstöðum þetta árið, utan að  Elín Erlindsdóttir, húskona, fór burt.
Stefán Jóhann og Guðlaug voru áfram á Hólum, en Kristín (11) fór í Kampholt í Hraungerðishreppi.

 1895

Magnús bóndi í austurbænum og Þórunn bústýra, eignuðust dótturina Margréti í júní. Að öðru leyti hélt fólkið á Baugsstöðum áfram með daglegt líf. 
Kristín Jóhannsdóttir (12) fór frá Kampholti að Sóleyjarbakka í Hrunamannahreppi. Þar var hún síðan til 1898. Staða Stefáns Jóhanns og Guðlaugar á Hólum var óbreytt.

 1896

Þetta ár fól ekki í sér neitt það sem ástæða hefur verið að skrá í kirkjubækur.

 1897

Í vesturbænum urðu tíðindi, þegar Elín Magnúsdóttir eignaðist dótturina Viktoríu þann 22. febrúar. Hún lýsti Guðmund Brynjólfsson föður að stúlkunni.  Guðmundur var, árið áður, 29 ára gamall, til heimilis hjá foreldrum sínum á Sóleyjarbakka í Hrunamannahreppi, en þar var einmitt einnig dóttir Elínar,  Kristín Jóhannsdóttir, þá 12 ára.  Auðvitað hef ég engar heimildir um það, að hve miklu leyti Elín fylgdist með, eða heimsótti börn sín, sem hún hafði ekki hjá sér, en mér finnst líklegt að hún hafi heimsótt þau og jafnvel dvalið eitthvað á viðkomandi bæjum. Svona hluti geymir hin óskráða saga.

 Það vekur athygli mína að nafn stúlkunnar er þarna skráð "Wictoría" og og væri fróðlegt að vita hvort þessi stafsetning hafi verið frá móðurinni komin.


Í austurbænum bar það til tíðinda, að Sigurði Magnússyni og Ólöfu Þorkelsdóttur fæddist sonurinn Sigurður Þorkell. Hann þekktum við sem síðar sem Þorkel sem var kvæntur Bjarneyju á Ránargötu 9A í Reykjavík. Hann var seinna, í nokkur ár í vesturbænum á Baugsstöðum, eftir að foreldrar hans fluttu til Reykjavíkur, 

Jón Magnússon og Helga Þorvaldsdóttir í austurbænum eignuðust soninn Magnús, í september, en hann dó hálfum mánuði síðar úr krampa.

 1898

Á þessu ári voru 8 sálir skráðar í vesturbænum og þar varð engin breyting. Í austurbænum  fæddist Guðlaugur Magnús Sigurðsson í október, en hann dó 7 vikna gamall.
Vigfús Ásmundsson (39) bróðir Guðnýjar kom í vesturbæinn frá Stóra Hrauni.
Kristín Jóhannsdóttir (16) fór frá Sóleyjarbakka að Högnastöðum í Hrunamannahreppi

 1899

Hér urðu nokkur þáttaskil þegar Magnús Magnússon, bóndi í austurbænum lést um miðjan september úr „innvortis meini“. Hann var 36 ára og nýtekinn við búinu.

Til Jóns Magnússonar (41) snikkara og Helgu Þorvaldsdóttur (38) voru komnir tveir tökudrengir, þeir Jón Kristjánsson (10) og Ólafur Gunnarsson (3). Helga var föðursystir Ólafs, en móðir hans lést við fæðingu hans.

Í vesturbænum var ekki heldur tíðindalaust, en Guðlaug Jóhannsdóttir (17) kom frá Hólum.

Þarna voru þau Páll og Elín orðin 12 ára og Siggeir tvítugur. Jón Ásmundsson (37) var enn vinnumaður ásamt bróður sínum Vigfúsi (40).
Kristín Jóhannsdóttir flutti frá Högnastöðum, eftir ársvist, í Roðgúl á Stokkseyri.

 1900

Þá er það aldamótaárið.   Sigurður  og Ólöf í austurbænum eignuðust  soninn Guðmund, í maí, en hann dó hálfs mánaðar gamall úr naflakviðsliti.  Þau fluttu til Reykjavíkur 1902.

Þó svo áfram hafi verið fjölskyldutengsl milli bæjanna á Baugsstöðum, meðan Jón Magnússon lifði, en hann lést 1921, hyggst ég hér eftir einbeita mér að vesturbænum, ekki síst til að flækja ekki málin um of.
Við vitum það mörg, að Ólafur Gunnarsson, fóstursonur Jóns og Helgu, tók þar við búi eftir fóstra sinn og varð að Óla í austurbænum.
Vigfús Ásmundsson fór að Framnesi á Skeiðum og Jón bóðir hans fór einnig burtu.

Í sóknarmannatali þetta ár voru þessir einstaklingar skráðir í vesturbænum:
Guðmundur Jónsson (52) bóndi
Guðný Ásmundsdóttir (47) kona hans
Siggeir Guðmundsson (21) sonur þeirra
Páll Guðmundsson (13) sonur þeirra
Elín Magnúsdóttir (43) húskona
Elín Jóhannsdóttir (13) dóttir hennar
Viktoría Guðmundsdóttir (3) dóttir hennar
Guðlaug Jóhannsdóttir (18) dóttir hennar.

Tuttugasta öldin hefst.

Svo held ég inn í tuttugustu öldina og væntanlega verður fólk og viðburðir æ þekktari í elsta hópnum sem þetta les.

1901

Guðlaug Jóhannsdóttir (19) fór aftur að Hólum sem vinnukona, en þar hafði Sæmundur Þórðarson tekið við búi af Sigurði Einarssyni, sem lést 1899. Þau Guðlaug og Sæmundur gengu í hjónaband, eignuðust son og fluttu síðan til Reykjavíkur 1903. Þau urðu einnig foreldrar Kristínar Maríu (Stínu Maríu) meðal annarra barna. Stefán Jóhann (18) fór með þeim til Reykjavíkur.
Þá eru tvö barna þeirra Elínar Magnúsdóttur og Jóhanns Hannessonar úr sögu þessari að mestu og með þeim voru ættmenni horfin á braut frá Hólum.

Kristín Jóhannsdóttir (18) flutti frá Roðgúl á Stokkseyri í Skipholt í Hrunamannahreppi. þar var hún þar til hún kom að Baugsstöðum árið 1904.

1902

Siggeir Guðmundsson varð þarna 23 ára og kominn á giftingaraldur.  Hann hefur án efa verið búinn að taka eftir Kristínu Jóhannnsdóttur, ekki síst á meðan hún var í Roðgúl. Nú var hún hinsvegar í Skipholti og hver veit hvernig þetta þróaðist allt saman. Kannski eitthvert ykkar sem þetta lesa. 

Þá má reikna með að 15 ára unglingarnir á Baugsstöðum, þau Elín og Páll, hafi verið farin að velta ýmsu fyrir sér.

1903

Það varð til tíðinda, að Sigurður Þorkell Sigurðsson (6) var kominn á bæinn sem tökubarn.  Sannarlega veit ég ekki ástæður þess, en foreldrarnir fluttu til Reykjavíkur árið áður. Vel kann að vera að föðursystir hans, Elín Magnúsdóttir, hafi tekið hann að sér, ekki síst til að fá leikfélaga handa Viktoríu, en þau voru jafnaldrar.

1904

Þar kom að því að Kristín Jóhannsdóttir (21) kom aftur á Baugsstaði, en frá því faðir hennar lést, var hún búin að vera á Tóftum, Kampholti, Sóleyjarbakka, Högnastöðum, Roðgúl og Skipholti, en hún kom einmitt frá Skipholti.  Þarna var hún skráð sem vinnukona. Þarna var Siggeir orðinn 25 ára.

Kristín og Siggeir

 1905

Hjónaband þeirra Kristínar og Siggeirs, sem var innsiglað þann 10. nóvember 1905, hefur líklega ekki komið neitt á óvart og haft talsvert lengri aðdraganda en það tæpa ár sem Kristín hafði verið á Baugstöðum. Þetta var annar tveggja stórra viðburða í vesturbænum þennan veturinn.

 1906

Rúmum fjórum mánuðum (þann 24. mars) eftir að þau gengu í hjónaband, eignuðust þau Siggeir og Kristín fyrsta barn sitt, Guðmund Siggeir.

1907 - 1908

Allt óbreytt í vesturbænum, en örugglega ýmiskonar gerjun í gangi, ef að líkum lætur.

1909

Þann 12. ágúst kom Jóhann Siggeirsson í heiminn. Hann var skírður í Stokkseyrarkirkju.

1910

Það kom að þvi að Elín Jóhannsdóttir, 23 ára, hleypti heimdraganum og færi aðeins út í heim. Hún gerðist „vetrarstúlka“ hjá hjónunum Sigurði Thoroddsen og Maríu Kristínu Thoroddsen á Fríkirkjuvegi 3 í höfuðborginni. Þetta þýðir samkvæmt mínum skilningi, að hún hafi verið í borginni á veturna, en komið í sumarstörfin á Baugsstöðum. Sigurður var á þessum tíma menntaskólakennari og verkfræðingur.
Elín virðist hafa verið vetrarstúlka í borginni til vorsins 1917 og góð vinátta hélst með henni og Thoroddsen fjölskyldunni ævina á enda, og vináttan erfðist, að minnsta kosti í kvenlegg. Þannig var María Louisa, barnabarn Sigurðar og Kristínar "sumarstúlka" í Heratúni nokkur ár.

Kannski keypti amma jólagjafirnar þarna.

Fátt er vitað af Elínu í borginni í þessi ár, en það verður að reikna með að sveitamennskan hafi aðeins rjátlast af henni. Ætli Páll hafi haft áhyggjur?  Voru þau yfirleitt nokkuð að pæla í einhverri framtíð saman? 

Áður en ég fer lengra út í einhverjar spurningar sem engin svör eru fáanleg við, ætla að ég láta staðar numið í bili. Svo held ég áfram þar sem frá er horfið hér og fer að feta slóðir þar sem þekking í þessum hópi fer hratt vaxandi, en ég hef allta kirkjubækurnar til að styðjast við. Ekki ljúga þær - eða?


FRAMHALD

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...