30 júlí, 2023

Dagur til að gleyma, en læra samt af.

Egilsstaðir og Lagarfljót ofan af Fjarðarheiði.
Ekki hyggst ég hér skrá í smáatriðum ferð okkar frú Drafnar umhverfis landið, enda um hina ágætustu ferð að ræða í öllum meginatriðum. Sérstaklega þykir okkur vænt um ágætar móttökur á heimili frænda míns Sæbjörn Eggertssonar og Arndísar Þorvaldsdóttur konu hans, á Egilsstöðum, en þar fengum við að gista í tvær nætur.  
Það er hinsvegar svo, eins og alkunna er, að engar fréttir eru góðar fréttir og ég held mig við það hér, enda mikilvægt að halda til haga því sem miður fer, svo hægt sé að draga af því einhvern lærdóm - þannig höfum við það á Íslandi. Af þessum sökum, og í samhengi við áður skráða pistla, eins og til dæmis þennan hér: Þá er það frá , sem er frá því í mars, 2018, hyggst ég einbeita mér að rétt rúmum sólarhring ferðarinnar, sólarhring sem best væri að gleyma, en það gengur auðvitað ekki, því að það verður að draga lærdóm af því sem þá gerðist.

Upphaf máls


Síðdegis, laugardaginn 22. júlí, stödd á Egilsstöðum, vorum við fD orðin ásátt um að halda af stað heim daginn eftir, suðurleiðina, þó svo áður hafi verið höfð um það nokkur orð að hún væri bæði "löng og leiðinleg". Þegar raunin hafði síðan orðið sú, að norðurleiðin þótti heldur ekkert sérstök, var sem sagt niðurstaða um að halda suður um og leita uppi einhvern þann gististað sem ætti hugsanlega möguleika á að hýsa okkur eina nótt. Þar með tók ég fram símann minn og hóf leit, sem í langflestum tilvikum skilaði engu. Þar kom þó, að upp dúkkaði laus nótt á gististaðnum Gerði, sem var vel í sveit settur, miðað við ferðaráætlun. Ég pantaði og greiddi fyrir bústað/"bungalow", kr. 25.000 og þótti bara vel sloppið miðað við stuttan fyrirvara. Með þessum gjörning var allt orðið klárt varðandi heimferðina og við skelltum okkur út að borða, af því tilefni, meðal annarra. Það gekk ágætlega fyrir sig á veitingastað sem ég kýs að nefna ekki vegna framhaldsins. 

Atburðir næturinnar og morgunsins

Mynd af vef.

Segir nú ekki af málum fyrr en kl. 2 um nóttina, þegar ég vaknaði af værum blundi með hamagang í maganum, sem gerði ekkert nema ágerast. Það sem fylgdi læt ég liggja milli hluta, enda yrði sú frásögn hreint ekki þess eðlis að myndi kæta nokkurn mann.  Á því sem þarna fór fram, gekk fram á morgun og ég orðinn flak eitt. Frændi fór um víðan völl að leita eftir aðstoð heilbrigðisþjónustu á svæðinu, án árangurs og ég svo sem ekkert á því að þörf væru á slíku, þar sem ástandið var farið að réna þegar annað fólk, ósnert af magakveisu, reis úr rekkju.  Fyrirhuguð kynnisför um Skriðdal var slegin af, bæði vegna mín og þess að veðurfarið gaf ekki tilefni til þess að virða fyrir sér útsýnið í þeim fagra dal. Þá var ljós að ekki myndi ég njóta sunnudagskaffihlaðborðs kvenfélagsins í sveitinni, væntanlega með brauðtertum og rjómatertum eins og hver gat í sig látið.  
Í sem stystu máli, þá var þessi dagur allur frekar hörmulegur, þó auðvitað reyndi ég að bera mig vel.  Sannarlega velti ég því fyrir mér, hvernig þetta gat gerst, en varð litlu nær, þar sem ekkert þeirra þriggja sem tóku þátt í borðhaldinu með mér og borðuðu og drukku það sama, fann fyrir neinum einkennum. Þetta var því og verður líklegast óupplýst.

Haldið heim á leið


Við lögðum í hann suður á tilsettum tíma og stefndum á næsta gististað, Gerði, sem er í bæjaþyrpingunni þar sem Þórbergssetur er að finna. Til að flýta för ókum við fjallveginn Öxi í heilmikilli rigningu, eftir malarvegi, á bílnum sem ég hafði eytt hálfum degi í að þvo og bóna fyrir ferðina. "Það er best að skola bara af honum á Djúpavogi" hafði frændi sagt og því var haldið þangað. Þar er hinsvegar ekki þvottaplan við eldsneytisáfyllingarstöð, heldur einhversstaðar niðri við höfn, að skemmst frá því að segja, að þvottaaðstaðan fannst ekki, þrátt fyrir tilraun til að spyrja til vegar.  Það varð, af þessum sökum úr, að gera næstu tilraun til að skola skítinn af á Höfn, sem gekk eftir. Þaðan héldum í átt að gististaðnum, sem nálgaðist óðum. Tilhlökkunin var mikil að komast í hvíld, enda ég alveg búinn á því. Í huganum var ég farinn að sjá fyrir mér risastóran bústað, með arni og 50" sjónvarpi, baði, en varla heitum potti. Allavega stað til að hvílast og safna kröftum fyrir síðasta legg ferðarinnar. Ekkert átti að geta komið í veg fyrir, að vel færi um okkur þessa síðustu nótt.

Innritun í gistihúsið


Allt leit þetta vel úr, þar sem við ókum í hlað í Gerði og drifið í að klára innritun og fá í hendur lykið að slotinu sem beið okkar.  Ljúfmennska einkenndi enskumælandi konuna í móttökunni og hún fór strax í að leita að bókun okkar. Það kom tiltölulega fljótt í ljós, að hún átti ekki í erfiðleikum með að  vinna nafn mitt, vegna þess hvernig það er stafsett, helldur vegna þess, að það var bara ekkert á lsitanum yfir gesti þessa kvölds. "Wait a minute, I'll just call our booking office. Have some coffee while we sort this out". Þar með tók hún upp símann og hringdi og auðvitað fór það samtal fram á ensku. Um leið og ég heyrði hana segja "last night" í símann, tók ég fram símann minn til að geta staðfest bókun þessa nótt. Auðvitað þyrmdi yfir mig, þegar við mér blasti staðfesting á bókun fyrir síðustu nótt, en ekki þá sem var framundan. Ég var því tilbúinn því em konan í móttökunni upplýsti mig um, að loknu símtali sínu við bókunarskrifstofuna. Við vorum sem sagt á ferðinni sólarhring of seint.
Nú voru góð ráð dýr, eins og hver maður getur ímyndað sér. Lá það virkilega fyrir okkur að þurfa að aka alla leið heim þetta kvöld og komandi nótt, ofan á allt annað sem á daginn hafði drifið?
"Don't worry" sagði konan þar sem við henni blasti upplitið á mér eftir þessa uppgötvun. "We'll try to solve this, Just sit down and relax". Slappa af, já. Það þótti mér hægara sagt en gert, en niður settumst við fD og biðum þess sem verða vildi nokkra stund, eða þar til maður nokkur opnaði útidyrnar og spurði mig (á íslensku) hvort ég væri ég, sem ég játti auðvitað. Þarna var á ferð eigandinn, eða "bossinn", en þeir eru kallaðir til í svona tilvikum. Hann hafði verið einhversstaður úti að sinna girðingavinnu, þegar hann fékk símtal um vandamálið sem uppi var. 
Eftir stuttar umræður um stöðuna sagði hann okkur að það væri eitt laust herbergi í gamla hreppstjórahúsinu á Reynivöllum, en að þar væri reyndar ekki sér baðherbergi. Léttirinn var auðvitað mikill og okkur nokk sama hver þægindi myndu fylgja gistingunni. Síðan fegnum við miða með aðgangskóða að lyklaboxi í anddyri Reynivalla og leiðbeiningar um hvernig við kæmumst þangað. Þá skrifaði hann símanúmerið sitt á miðann, ef við skildum eiga í einhverjum vandræðum með að finna húsið, sem er í um 3 km fjarlægð frá Gerði. 
Allt gekk þetta síðan eins og í sögu, þar til ......

Herbergismálið


Reynivelli fundum við án vandkvæða. Við ákváðum að athuga fyrst hvort við kæmumst í herbergið, áður en við færum að flytja inn farangurinn. Lyklaboxið í anddyrinu opnaðist eins og það átti að gera. Þar var Assa-lykill, sem síðan gekk að herbergi númer 57. Ekki nóg með það, herbergið var risastórt með uppbúnum rúmum fyrir fjóra, hreint og fínt. Þetta leit allt mjög vel út, og þá ekkert annað að gera en ná í farangurinn. Ég fór úr jakkanum og setti á stól og hélt svo af stað út í bíl. Þá heyrði ég hurðina lokast, en það tók fD að sér og spurði í framhaldinu hvort ég væri ekki með lykilinn. Auðvitað var ég ekki með hann, því hann var í jakkavasanum og jakkinn á stólbaki í herberginu. Í jakkavasanum var einnig miðinn með símanúmeri eigandans, svo enn voru góð ráð dýr.  
Ég fór nú að líta í kringum mig í húsinu, en þar var sameiginlegt eldhús og, eins og við mátti búast, leiðbeiningar um umgengni þar. Á því balaði var, eins og við mátti svo sem búast, símanúmer sem hringt skyldi í ef einhver vandræði mættu gestum. Það er ekki um annað að ræða en hringja í þetta númer, sem reyndist vera númerið hjá eigandanum. Ekki veit ég hvort hann var þarna aftur farinn að lagfæra girðingarnar sínar, en mér tókst að greina honum þannig frá aðstæðum okkar, að viðbrögð hans voru hin ljúfustu. Hann sagði okkur að bíða smástund, hann skyldi bjarga þessu. Svo kom hann bara með "master" lykil og opnaði fyrir okkur.  Þar með tókst okkur loks að fara að vinna í að koma okkur í  ró. Ekki meira um það.

Við erum full þakklætis til gestgjafanna í Gerði, en öll þeirra viðbrögð við undarlegu eldri borgurunum sem þarna voru á ferð, einkenndust að ljúfmennsku og hjálpfýsi.

Lærdómurinn

Ekki segir meira af ferð þessari, en af henni er ýmislegt að læra:
a. Ekki fara á veitingastað - eldaðu sjálfur.
b. Láttu aðra athuga hvort þú bókaðir rétta daga á gististað.
c. Ekki skella hurð í lás, nema þú sért örugglega með lykilinn á þér.07 júní, 2023

Laugarás: Sorgleg staða, en fyrirsjáanleg.

Kortið sýnir staðsetningu þéttbýliskjarna
í uppsveitum Árnessýslu.
Ég vil nú ganga svo langt að halda því fram, að sú staða sem nú er komin upp í uppsveitum Árnessýslu, sé afleiðing  um það bil fjögurra áratuga þróunar. 
Þetta byrjaði allt vel, þó umdeilt væri, þegar uppsveitahrepparnir sameinuðust um að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum, fyrir 100 árum, beinlínis til að koma þar upp læknissetri fyrir svæðið. 
Af sögulegum ástæðum kallaðist læknishéraðið þá Grímsneslæknishérað, en varð svo Laugaráslæknishérað á 5. áratug aldarinnar.
Oddvitar hreppanna mynduðu stjórn héraðsins og þannig var það svo, allt þar til ný lög um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt rétt fyrir hrun fjármálakerfisins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands varð til.

Ekki verður annað séð, en það hafi verið nokkuð góð sátt um læknissetrið í Laugarási lengst af. Laugarásjörðin var sameiginleg eign hreppanna og fólk sá fyrir sér að þar myndi byggjast upp öflugur byggðarkjarni í hjarta uppsveitanna. Sú uppbygging fór vel af stað á fimmta og sjötta áratugnum, aðallega. þegar garðyrkjustöðvar spruttu upp og innviðir voru efldir til samræmis. Kannski er hægt að ímynda sér að fólkið hafi þá séð Laugarás með svipuðum augum og Árni G. Eylands: 
Þ A N K A R    V I Р   I Ð U B R Ú
Þar hef ég staðið undrandi.
Þvílíkur staður, hversu mikill ætti ekki hlutur þess hverfis að verða. Jarðhitinn, ræktunarlandið, áin – iðan – Vörðufell, og umhverfið allt. Hér á að rísa, hlýtur að rísa, mikið svitaþorp, borg garðyrkjubænda og annarra.
Fyrstu sporin þarf að stíga sem fyrst, og hljóta að verða stigin sem fyrst. Verzlun, sumarhótel, líkt því sem Þrastalundur var, þegar bezt var.
– Þvílíkur stðaur, þvílíkir möguleikar, ríkidómur og Guðsblessun. Hér hlýtur að rísa engu minna þorp en Selfoss og í bræðraböndum við þann stað.
– Já, ég nefndi Guðsblessun.
– Skálholt að baki, með það sem þar er búið illa að gera, og verið vel að gera – og verður vel gert. Og að fáu getur Skálholt og menningarhugsjónum þeirra sem þeim stað unna orðið meiri styrkur heldur en að vaxandi byggð við Iðu – ræktunarþorpi og miðstöð um samgöngur og framþróun nærliggjandi sveita.
– Sjá ekki allir Sunnlendingar hversu mikið hér er í efni? Vonandi gera þeir það, eins vel og betur en ég. Enn á ég ógert það sem mest er, að ganga á Vörðufell og líta yfir þetta fyrirheitna land.

Árni G. Eylands (1895-1980)
Heilsugæslustöðin í Laugarási og Hvítárbrú hjá Iðu. 

Sérstakt eignahald á Laugarásjörðinni hefur verið bæði blessun og bölvun gegnum áratugina. 
Blessun, vegna þess að með samstöðu uppsveitahreppanna tókst að byggja upp mjög öfluga heilsugæslu á svæðinu. 
Bölvun, vegna þess að með því hver hreppur fór í síauknum mæli að ota sínum tota varðandi uppbyggingu á þjónustu "heima fyrir", var markvisst dregið úr áherslu á frekari uppbyggingu í Laugarási.
 
Biskupstungnahreppur tekur Laugarás að sér
Þarna hugsaði hver um sitt og þar kom, að Biskupstungnahrppur tók jörðina á leigu um 1980 og hefur stýrt þróuninni síðan. Við þessa breytingu batnaði hagur Laugaráss harla lítið, þó vissulega hafi það vakið ákveðna bjartsýni þegar ný heilsugæslustöð var reist á síðari hluta 10. áratugarins. Það var eins með Tungnamenn og aðra uppsveitamenn: þeir unnu að því að byggja upp hver hjá sér og litu þannig á, að það sem gert væri í Laugarási væri til þess fallið að stöðva eða hægja á uppbyggingunni "heima fyrir".  Þetta var sem sagt áfram "bölvun" Laugaráss. Hugmyndir um uppbyggingu sem fram hafa komið gegnum tíðina, hafa verið kæfðar með þeim rökum að þær væru betur komnar á Flúðum, í Reykholti, eða á Laugarvatni, þar væru innviðirnir fyrir, svo ekki sé nú minnst á rökin um að þar væri "fólkið".
Þegar Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, var uppi sú sérkennilega staða, að honum var ætlað að stuðla að uppbyggingu á jörð, sem aðrir uppsveitahreppar áttu og fengu tekjur af. Á sama tíma voru Tungnamenn að byggja upp sinn byggðarkjarna í Reykholti, þar sem grunnskólinn var, félagsheimilið, sundlaugin og fleira. Hvaða ástæðu höfðu Tungnamenn svo sem til að efla byggðina í Laugarási?  Eina "opinbera" stofnun á vegum hreppsins fengu Laugarásbúar, en það var sorpbrennsluofn:
Þessi brennsluofn var sá eini í Biskupstungum og ætlaður til brennslu á sorpi frá öllum heimilum og má segja að hann hafi verið eina opinbera stofnunin sem sveitarfélagið hefur valið stað í Laugarási. Þannig var sorpi í Reykholti safnað og flutt til brennslu í Laugarási, við misjafnar undirtektir íbúa þar og þá aðallega vegna reykmengunar sem lagði frá honum yfir byggðina í norðlægum áttum. (laugaras.is)
Aðrir hreppar hafa líklega verið ágætlega hressir með þetta fyrirkomulag því þeir gátu einbeitt sér að uppbyggingunni heima fyrir.  Tungnamenn sátu uppi með að reyna að leiða hjá sér "síkvartandi" Laugarásbúa, sem töldu fram hjá sér gengið í uppbyggingu. Ég er þess fullviss, að tekjurnar frá Laugarási komu sér ágætlega fyrir hreppsjóð, en frumkvæði hreppsins í að halda áfram uppbyggingu þar var og er lítið sem ekkert. 

Bláskógabyggð verður til
Það var ákveðið, í byrjun þessara aldar, án þess að íbúar fengju að greiða um það atkvæði, að sameina Þingvallahrepp, Laugardalshrepp og Biskupstungnahrepp í sveitarfélagið Bláskógabyggð. Þá fór verulega að halla undan fæti í Laugarási, eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi línuriti um íbúaþróun í þéttbýliskjörnunum þrem.
 

AUGLÝSING um staðfestingu félagsmálaráðuneytis á sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Með vísan til 2. mgr. 91. gr. og 95. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, tilkynnir ráðuneytið að það hefur hinn 18. mars 2002 staðfest sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps í eitt sveitarfélag. (18. mars, 2002)
Tungnamenn voru stærsta sveitarfélagið í þessari sameiningu og var mikið í mun að hin tvö upplifðu það ekki svo, að allur fókusinn eftir sameininguna yrði á uppbyggingu í Reykholti. Í aðlöguninni sem þarna fór fram, varð Laugarás nánast eins og neðanmálsgrein.  Ég vil nú ekki ganga svo langt, að halda því fram, að það hafi verið markviss stefna í uppsveitum, að ganga endanlega frá Laugarási, þó vissulega hafi það stundum hvarflað að mér. 
Sameiningin, þegar Bláskógabyggð varð til, var mistök, að mínu mati og ein birtingarmynd þeirra er það sem nú er í farvatninu og fjallað eru um þessa dagana.  Í mínum huga er þarna að birtast ein afleiðing ótrúlegs andvaraleysis (eða stefnu) sveitarstjórnarfólks í Bláskógabyggð undanfarna áratugi. Það kæmi mér ekkert á óvart ef tárin sem grátið er í samþykkt sveitarstjórnar (sjá hér fyrir neðan), séu, að miklum hluta, krókódílatár.

Hvað er svo framundan?  
Oddvitanefndin heldur sjálfsagt áfram að hittast til að ráða ráðum sínum, nefndin sem kallaði sig Stjórnarnefnd Laugaráslæknishéraðs. Hlutverk þessarar nefndar síðstliðna fjóra áratugi, í það minnsta, hefur ekki verið það að stuðla að uppbyggingu í Laugarási, heldur miklu frekar að tryggja það að í Laugarási yrði ekki uppbygging sem gæti ógnað uppbyggingunni "heima fyrir", þar sem fólkið er. 

Niðurstaða mín er sú, að það sem hefði getað orðið kjarninn í öflugri byggð í uppsveitunum, varð til þess að tefja þessa uppbyggingu, varð ok, sem uppsveitahrepparnir reyndu að losna við, en þótti samt (og þykir enn) gott að eiga ítök í til að tryggja að þessi kjarni fengi ekki að blómstra.

Það sem helst gæti orðið Laugrási til bjargar við þær aðstæður sem við blasa nú, þegar upp eru komnar hugmyndir um að flytja þaðan heilsugæsluna, er líklega að hrepparnir komi sér saman um að selja jörðina. Ég er ekki viss um að það verði ofan á, ekki meðan einhvern lífsneista er að finna í "þorpinu í skóginum".
Ég bíð nú nokkuð spenntur eftir framhaldi þessa máls og þar með hvort sveitarstjórn Bláskógabyggðar meinar eitthvað með samþykkt sinni, sem sjá má hér fyrir neðan. Mér finnst þessi samþykkt nú reyndar fremur veikburða, ef ég á að segja alveg eins og er, en það er rétt að sjá til hvað nú gerist.Liður í undirbúningi að sameiningu?
Vissulega hvarflar það að mér, að það sé uppsveitamönnum smám saman að verða ljóst, að það mun koma til sameiningar þessar asveitarfélaga á næstu árum. Ég er alveg til í að líta að þessar hugmyndir um flutning heilsugæslunnar í því ljósi. Með honum væri rutt úr vegi einni stærstu hindruninni. Laugarás væri þá með engu móti lengur valkostur sem einhverskonar kjarni uppsveitanna til framtíðar. Þá yrðu stóru kjarnarnir tveir ótvíræðir valkostir í frekari uppbyggingu.
---------------------------------

Ég er búinn að fjalla oft um málefni Laugaráss í pistlum hér á þessu svæði
Hér eru hlekkir á nokkur dæmi:

Einskis manns eða allra 29. mars, 2015
Ólygnir sögðu mér 23. apríl, 2015
Enn á að selja 8. maí, 2017

Ef einhver sem þetta les veit ekki hver ég er, eða hversvegna ég er að blanda mér í þessa umræðu, þá er ég fæddur og uppalinn í Laugarási og bjó þar að langmestu leyti, þar til vorið 2022, þegar við Kvisthyltingar fluttum á Selfoss. 
Ég hef einnig unnið að því, í rúm 10 ár, að safna efni um Laugarás á vefinn https://www.laugaras.is

12 apríl, 2023

35/70 og öfugur karlahringur

Ég held að við Kristinn Kristmundsson höfum verið sem næst jafn lengi viðloðandi Menntaskólann að Laugarvatni. Við lukum þaðan báðir stúdentsprófi og störfuðum síðan báðir þar í ríflega þrjá áratugi. Ég veit ekki um um neinn annan sem hefur snert sögu þessa skóla lengur en við félagarnir. Helsti munurinn á okkur er líklega sá, að hann stýrði skólanum allan sinn starfsferil þar, en ég kom bara að stjórnun hans í eina tvo áratugi. 

Menntaskólinn að Laugarvatni á 70 ára starfsafmæli í dag, sem þýðir að hann er nokkrum mánuðum eldri en ég. Helming þessa starfstíma var ég nemandi eða starfsmaður skólans, sem augljóslega þýðir að innan veggja hans hef ég eytt hálfri ævinni.  Ja, hérna!

Við ML höfum gengið í gegnum ýmislegt saman, bæði súrt og sætt en báðir höfum við staðið af okkur þau brot sem hafa orðið á vegi okkar. Munurinn er sá, að þar sem ég er mannvera, þá á ég markaðan tíma, en starfstími eða líftími skólans á sér engan ramma og ekki efast ég um, að ef vel tekst til við að halda honum á lofti sem æskilegum stað fyrir ungt fólk á mótunarskeiði, á hann framtíð sem framtíðarkynslóðir  munu geta notið. 

Í tilefni dagsins gengum við fD öfugan karlahring, en það fyrirbæri munu víst fáir kannast við og það er ekki nema von.  Þennan hring má sjá, svona næstum því, á meðfylgjandi korti. Karlahópurinn sem gengur þennan hring á hverjum virkum morgni, kallast  "Gönguhópur Hermanns" og ég tók þátt í þessum göngum í einhverja mánuði, en hætti því af ótilgreindum eða óhunnum ástæðum. 
Þar sem við gengum þennan öfuga hring í morgun, mættum við karlahópnum tvisvar og í báðum tilvikum kom afmælishátíðin á Laugarvatni í dag til tals, aðallega í samhengi við væntanlegar veitingar, en síður ræðuhöldin.  Fréttamaðurinn deildi mér mér tilhlökkun og þökkum fyrir að hafa tekist á við þessa morgungöngu, til að geta tekið betur á veitingunum síar í dag.

Hamingjuóskir til alls þess fólks sem fyrr og nú hefur sótt sér menntun og þroska í Menntaskólans að Laugarvatni og einnig þess fólks sem þar hefur fengið að starfa.

01 apríl, 2023

Heilmynd (hologram) af nýju Ölfusárbrúnni.

Heilmynd tekin 31. mars.
Uppfært, 2. apríl: 
Í tilefni 1. dags aprílmánaðar, anno 2023 var eftirfarandi skráð:

Maðurinn sem fann upp svokallað "hologram" eða heilmynd, var ungverski vísindamaðurinn Dennis Gabor, árið 1948. Hann fékk seinna Nóbelsverðlaunin fyrir vísindastörf sín. 

Þróun í gerð heilmynda hefur verið stöðugt í gangi síðan þá, og ég get montað mig af því, að hafa starfað  hjá sprotafyrirtæki, sem heitir Gaboria inc. (til heiðurs Gabor) á seinni hluta áttunda áratugarins, en það var megin markmið fyrirtækisins, að þróa þessa tækni áfram. Það voru ung hjón, Ila og Vihaan Began, hámenntaðir eðlisfræðingar, sem stofnuðu þetta fyrirtæki. Þau eru bæði indversk að uppruna, en fluttu með foreldrum sínum til Englands á sjöunda áratugnum. Þau hafa stjórnað fyrirtækinu alla tíð síðan, en eru nú reyndar komin á eftirlaun, þó enn láti þau til sín taka og láta ekkert sem þessari tækni viðvíkur, framhjá sér fara. 

Ila og Vihaan í Skálholti.

Þetta var nú skrítinn formáli, en nauðsynlegur til skýringar á því sem á nú að vera megin efni þessa pistils. Ég  hef, gegnum tíðna verið í sambandi við þessi ágætu hjón og reynt að fylgjast með hvernig þessu heilmyndatækni hefur þróast hjá Gaboria, en fyrirtækinu hefur sannarlega vaxið fiskur um hrygg. Þetta fyrirbæri "hologram", eða heilmynd, er nú farið að nálgast það að verða svo fullkomið, að vart verður greint á milli heilmyndar og raunverulegs fyrirbæris. Þannig eru til margar sögur af því þegar heilmynd af t.d. kúm hefur verið skotið inn í nautgripahjarðir, nautunum til mikillar furðu og þau hafa þá starað á nýju kúna eins og naut á nývirki.  
Fram til þessa hefur reynst nokkuð flókið að finna leiðir til að búa til heilmyndir af stærri fyrirbærum, eins og húsum, nú eða brúm. Þarna hefur þá helst staðið á nægilega öflugum tækja-, eða tæknibúnaði. Á síðustu  árum hefur hinsvegar orðið mikil framþróun og tilraunir víða um Evrópu hafa gefið góðar vonir um að á næstu árum verði heilmyndir hluti af daglegu umhverfi okkar. Gaboria hefur verið og er eitt framsæknasta fyrirtækið á þessu sviði.


Heilmynd af nýju Ölfusárbrúnni.
Snemma á síðasta ári, undir lok Covid bylgjunnar, fékk ég tölvupóst frá Vihaan, þar sem hann velti fyrir sér, hvort ekki væri upplagt að gera tilraun til að skapa mjög stóra heilmynd, einmitt á Íslandi, bæði vegna þess, að hér er loftið tærara og orkan aðgengilegri en víðast hvar, en hvort tveggja skiptir miklu máli í verkefnum af þessu tagi. Í stuttu máli héldu samskipti okkar áfram, mér datt strax í hug nýja Ölfusárbrúin og hafði samband við helstu stofnanir og stjórnir sem um mál af þessu tagi fjalla hér á landi. Verkefnið hlaut góðar undirtektir og fyrir þrem vikum komu hjónin til landsins, ásamt 32 aðstoðarmönnum og hafa síðan unnið að uppsetningu og tengingu tækjanna sem notast þarf við. en þeim hefur verið kpmið fyrir þar sem rauðu punktarnir eru, á myndinni hér fyrir neðan.

Hér má sjá staðsetningu tækabúnaðarins.
Þar sem  Gaboriufólkinu var og er mikið í mun að halda þessum fyrirætlunum leyndum fyrir almenningi, hefur ekkert af þessu frést fyrr en nú, þegar ljóst er orðið, að tilraunir við að búa til heilmynd af nýju Ölfusárbrúnni, nákvæmlega þar sem hún mun rísa, hafa gengið með ágætum. Í gær, í suddaveðrinu sem var fyrir hádegið, þegar öllum búnaði hafði verið komið fyrir á réttum stöðum, tókst að kalla fram mynd af brúnni í allri sinni dýrð og hvílíkt mannvirki!  Tilraunin stóð yfir í rúmar 30 sekúndur, og ég fékk að taka mynd af heila klabbinu og hana má einmitt sjá hér efst.  Ég ætlaði varla að trúa því sem við mér blasti og myndin ber þess kannski merki.


Þetta verk er stórt skref fram á við í heilmyndatækni og í tilefni af því, hyggjast hjónin og þeirra fólk, bjóða Selfyssingum og nágrönnum að líta þetta undur í dag, en brúin mun birtast þrisvar sinnum nú eftir hádegið, kl 13.00-13.03, kl. 14.30-14.33 og loks kl. 16.00 - 16.03. Auðvitað getur ýmislegt í umhverfinu haft áhrif á hvernig til tekst, en það er einmitt það sem hópurinn frá Gaboria ætlar að rannsaka samhliða þessum "sýningum". 

Sýningatímarnir eru, sem sagt:
kl 13.00-13.03, 
kl. 14.30-14.33 
og loks 
kl. 16.00 - 16.03.
í dag, 1. apríl.

Til þess að tryggja það að umferð geti gengið vel fyrir sig, mun lögreglan sinna umferðarstjórn í klukkutíma í kringum hvert skipti sem heilmyndin verður sett upp.18 febrúar, 2023

"Ég falleraði á henni Blesperlu"

Ég rambaði á þetta viðtal í Vísi, frá árinu 1961.  Þar er rætt við Birgi Stefánsson, en fyrir ykkur sem ekkert vitið um þann pilt, þá er hann fóstursonur Guðnýjar Guðmundsdóttur (Gauju) og Helga Indriðasonar, sem stunduðu búskap í Laugarási frá 1946-1970, eða þar til kúabúskapur lagðist af.  
Harla margt fólk kemur við sögu í viðtalinu og ég lét það eftir mér að tína saman myndir af flestum sem nefndir eru. Vonandi hef ég hitt rétt á allt þetta fólk. - nú ef ekki, vonast ég til að verða leiðréttur.

Ef orðið "fallera" vefst fyrir einhverjum, þá er þessa skýringu að finna   í íslenskri orðsifjabók: 

fallera s. ‘fara í hundana; verða gjaldþrota; gata á prófi; †svíkja, blekkja’. To. úr mlþ. fallēren < ffr. faillīr < lat. fallere. Sumar merkingar ísl. orðsins eru síðar tilkomnar, frá d. fallere.


Hér kemur viðtalið við Bigga: 

"Ég falleraði á henni Blesperlu"
Dráttarvélaslysin eru orðin æði mörg á landi voru. Austan fjalls eru þau það tíð, að vart telst fréttnæmt þótt enn eitt slysið verði af völdum dráttarvélar.

Er fréttamaður blaðsins hitti Birgi Stefánsson, 13 ára yngismann frá Laugarási í Biskupstungum, í hjólastól á ganginum í sjúkrahúsinu á Selfossi, með hægri fótinn í gibsumbúðum, liggur því beint við að spyrja hann, hvort dráttarvélarskömmin hafi nú orðið honum að slysi.

Nánar á www.laugaras.is:   https://www.laugaras.is/laugars-i

„Nei, ég falleraði á henni Blesperlu", svaraði Birgir og síðan segir hann alla hrakfallasöguna, sem endaði í sjúkrahúsinu á Selfossi, og vonandi fer vel, eftir atvikum. Þeir höfðu verið í hestasnatti, Birgir, og kaupamaðurinn á bænum, Kristinn [Arnar Jóhannesson], sem er 14 ára. Þeir voru búnir að eltast við Blesperlu, en Reykur, 10 vetra gæðingur, var búinn að gera hana og hin hrossin hálfvitlaus í óþekkt.

Loksins náðu þeir merinni og Birgir lagði nú við hana og sté á bak, sló í og hugsaði henni þegjandi þörfina fyrir alla óþekktina. Blesperla tók viðbragð, en hún á til að vera dálítið hrekkjótt, þegar sá gállinn er á henni, enda ekki nema 5 vetra gömul, greyið.

Birgir hafði hugsað sér að hyggja að henni Golsu sinni, sem nýlega bar hvítum hrút og átti að vera einhvers staðar í námunda við Auðsholtsafleggjarann. Er þeir riðu í sprettinum niður brekkuna fyrir norðan Laugarástúnið vildi slysið til, Blesperla skvetti upp rassinum, Birgir kastaðist fram á makka á hryssunni og hékk þar nokkra stund, en Blesperla linnti ekki á sprettinum. Birgir reið í hnakk með opnum ístöðum og losnaði hann fljótlega úr þeim, en er hann sleppti hryssunni og féll af baki kræktist annað ístaðið í kálfann á honum og reif þar flipa upp undir hné, svo af varð svöðusár.


Kiddi reið strax heim, til að leita hjálpar, en Birgir gat skriðið út undir þjóðveginn. Skömmu síðar bar þar að bíl. Þar var kominn Þorfinnur mjólkurbílstjóri [Tómasson], sem í þetta skipti var í einkabíl sínum og var að halda á skemmtun í Aratungu. Tók hann nú hinn slasaða dreng upp í bílinn til sín og ók honum heim í Laugarás. Þar er læknissetur og gerði nú Grímur læknir [Jónsson] að sárum Birgis.

Daginn eftir fór Birgir að fá þrautir í fótinn og nú lét Grímur læknir flytja hann í sjúkrahúsið á Selfossi. Þar tók Kjartan sjúkrahúslæknir Magnússon við honum og hefur síðan stundað hann af mestu nærfærni, en Birgir heldur því fram, að hann sé einhver færasti læknir í heimi og stundum hefur Jón læknir Gunnlaugsson aðstoðað Kjartan. Það gróf illa í fætinum og Birgir hefur eftir Kjartani, að þegar hann sé búinn að hreinsa sárið nægilega vel og klippa burt allt skemmt og dautt skinn og hold, verði hann að taka sneið úr lærinu á honum og fylla upp í gatið. En Birgir kvíðir því engu, hugsar mest um að ná fullum bata og komast heim í heyskapinn.

„Ertu mikill heyskaparmaður?“

„Ég vil heldur vinna við heyskapinn heldur en í görðunum, ég er latur garðyrkjumaður“.

„Hafið þið mikla garðrækt í Laugarási, með búskapnum?“

„Já, það eru miklir gulrótargarðar, fyrir utan kartöflurnar, og svo er töluvert af rauðrófum hjá okkur“.

„Áttu Blesperlu, merina?“


„Nei, en ég á Blesa, 4 vetra fola, ættaðan frá Skálholti, frá Birni bónda [Erlendssyni] þar“.

„Ertu farinn að temja hann?“

„Ja, hún Jóhanna, dóttir hans Ingólfs á Iðu, er að temja hann fyrir mig. Svo var hann Geiri á Hrafnkelsstöðum í Hrunamannahreppi með hann dálítinn tíma í vor, hann er ágætur tamningamaður.“

„Heldurðu, að Blesi sé gott hestsefni?“

„Já, ég held hann verði bara nokkuð góður. Hanna fór með hann á hestamótið á Hellu í sumar".

„Fékk hann verðlaun?"

„Ja, hann komst á forsíðu Tímans, og Jóhanna líka, á Blesa.“

„Nú, það var ekki svo lítil upphefð fyrir ykkur öll saman. 

Ég ek nú Birgi inn í sjúkrastofu hans, sem er númer 8. Þar eru fyrir herbergisfélagar hans, þeir Bjarnhéðinn mjólkurbílstjóri [Árnason] og Magnús [Jónsson] frá Hveratúni í Biskupstungum, sem er í Laugaráshverfinu og Magnús því nágranni Birgis. Hann er maður á áttræðisaldri, en vel ern og hressilegur. Er ég spyr þá um veikindin, segir Bjarnhéðinn að það sé maginn, sem sé í ólagi. Hann segir, að læknirinn vilji ekki skera, sérstakt mataræði og spítalalega, sem nú fari að styttast, eigi að bæta hann. Annars virðist Bjarnhéðinn, sem er einn af vinsælustu mjólkurbílstjórunum á Selfossi, vera hálf móðgaður yfir því að vera ekki „skorinn".

— Magnús segir að þeir, læknarnir, hafi fyrst haldið að það væri hjartað sem væri að gefa sig, en svo kom í Ijós, að það mun bara hafa verið annað lungað sem „sprakk", eins og hann orðar það. Hann hefir fótavist og röltir útivið.

Báðir eru þessir herbergisfélagar Birgis hressir bragði og ég segi honurm, að ef honum leiðist geti hann stytt sér stundir við að stríða körlunum. En þeir segja, að hann sé góður strákur og duglegur, þegar læknarnir séu að „krukka" í hann. Ég kveð þá félaga og óska þeim góðs bata.

Sjúkrahúsið á Selfossi er myndarleg stofnun, þar ríkir auðsjáanlega stjórnsemi og reglusemi og ég hef orð héraðslæknisins Bjarna Guðmundssonar fyrir því, að hinn ungi sjúkrahúslæknir, Kjartan Magnússon, sé „vel verki farinn". 

(Vísir 14. ágúst, 1961)17 febrúar, 2023

Hilmar Einarsson - minning

"Fleiri nýjungar litu dagsins ljós og voru til marks um þá viðleitni stjórnvalda og skólayfirvalda að endurskipuleggja starfsemi menntaskólanna og bæta úr því sem aflaga hafði farið á undanförnum árum. Þegar um haustið 1970 var ráðinn sérstakur starfsmaður til að hafa umsjón með nemendabústöðum, umgengni þar og heimilisháttum. Var það gert á grundvelli nýrra laga um menntaskóla frá sama ári og var meira en tímabært ef tekið er mið af rekstri skólans á undanförnum árum. Nýi starfsmaðurinn var Hilmar Einarsson trésmíðameistari og hafði hann reyndar unnið að byggingu og frágangi heimavistarhúsanna allt frá því fyrsta skóflustungan var tekin.  Annálaritari skólans  þóttist hinsvegar vita allt um það,  til hvers leikurinn var gerður: "Hann á að passa að nemendur drekki ekki brennivín og að þeir gangi vel um húsin". Nú var líka kjörið tækifæri fyrir nemendur, að sýna snyrtimennsku í hvívetna." 

 (Margrét Guðmundsdóttir, Þorleifur Óskarsson: Menntaskólinn að Laugarvatni, forsaga, stofnun og saga til aldarloka. Sögusteinn 2001, bls 193)

Það má kannski segja, að haustið 1970 standi, að vissu leyti, upp úr í sögu Menntaskólans að Laugarvatni og kemur þar þrennt til: Hilmar var ráðinn til að hafa umsjón með heimavistunum, nýr skólameistari, Kristinn Kristmundsson, hóf störf, og ég settist í 1. bekk. Þetta þrennt átti síðan fljótlega eftir að búa til þá sögu sem hér verður frá greint, eftir stuttan inngang.

Ungt fólk á þessum árum var, svona þegar litið er til baka, ekkert sérlega leiðitamt, ef svo má að orði komast. Ekki vil ég segja að það hafi verið uppreisnargjarnt, en allavega vildi það, mögulega umfram aðrar kynslóðir ungs fólks, gjarnan fara sínar eigin leiðir. Mér verður stundum hugsað til þeirrar stöðu sem þeir Kristinn og Hilmar voru búnir að koma sér í með því að taka við rekstri skólans þetta haust. Þarna beið þeirra starf með, eða fyrir, all kraftmikið ungt fólk.

Þetta vor lauk ég námi í Héraðsskólanum, þar sem Benedikt Sigvaldason var skólastjóri. Dvölin í héraðsskólanum var að mörgu leyti eftirminnileg, er hún er ekki umfjöllunarefnið hér, utan að geta þess, að ekki fór hjá því að ég hlakkaði dálítið til þess að komast í hóp menntskælinganna, sem nutu talsvert meira frelsis til ýmissa athafna, en dvölin í héraðsskólanum bauð upp á. 

Hvað um það, þarna héldu þeir Kristinn, 33 ára og Hilmar, þrítugur, inn í haustið og voru búnir að setja upp hvernig þeir hygðust nú halda utan um hópinn sem lagði leið sína á staðinn. Þeir voru búnir að setja upp nokkuð ákveðið kerfi um það hvernig tekið skyldi á málum, ef nemendur vikju af tiltekinni braut siðprýði og ásættanlegrar hegðunar.  Einn hluti áætlunarinnar fólst í því, að Hilmar fékk bók í hendur, þar sem skráð skyldu frávik frá því sem hægt væri að sætta sig við, að því er hegðun varðaði. Þannig var það hugsun þeirra (tel ég), að með bókhaldi af því tagi yrði hægt að kortleggja hvernig landið lægi hverju sinni og bregðast við með fyrirfram ákveðnum hætti við ítekuð brot á þeim reglum sem giltu á heimavistinni.

Það sem fer hér á eftir, skrái ég eftir nokkrar vangaveltur um réttmæti þess að varpa ljósi á gamlar syndir. Hilmar hafði gaman af að rifja upp þessa sögu í heyranda hljóði, eftir að ljóst var orðið að ég, með framgöngu minni á fullorðinsárum, hafði sýnt fram á að ég hafði komist tiltölulega óskaddaður frá þessu öllu saman. Þetta er saga sem hvorugur okkar gleymdi og fyrir mér er hún einkar ljóslifandi. Ég treysti mér til að segja hana frá minni hlið, vegna þess að nú nýt ég eftirlaunaáranna og ekkert getur snert mig lengur þannig að skaða megi.  Vissulega er sumt í þessari sögu ekki alveg skýrt, en það verður að vera svo. Nú er ég einn eftir til frásagnar og frásögn mín er svona:

Haustið 1970 kom ég, ásamt öðrum nýnemum inn í þennan nýja heim, sem heimavist ML var. Vissulega hafði ég þá kynnst heimavistarlífi ágætlega, eftir þrjá vetur á heimavist héraðsskólans í skjóli Benedikts Sigvaldasonar og hans fólks. Ég vissi auðvitað, að um dvölina á vistinni giltu reglur. Ég var einnig kominn á þá skoðun og deildi henni með skólafélögunum, að reglurnar væru þess eðlis, að ef brot á þeim færu "undir radarinn" teldist ekki um raunverulegt brot að ræða. 

Þar sem þessi saga hefst minnir mig að framundan hafi verið Busaball. Við busarnir (nýnemar) sem ekki höfðum aldur til, fengum eldri og reyndari skólafélaga til og kaupa fyrir okkur það sem til þurfti, svo ballið gæti "farið vel fram". Þarna hafði ég gert nauðsynlegar ráðstafanir. Þegar þeir sem tóku að sér að kaupa inn fyrir mig komu síðan úr innkaupaferðinni, þurfti ég að fara út í bílinn til þeirra til að nálgast varninginn. Þarna var um að ræða einskonar uppmjóa vodkaflösku af tiltekinni tegund.  Ég fékk flöskuna í hendur á bílaplaninu fyrir utan NÖS og kom henni fyrir undir úlpunni. Síðan hélt ég glaður í bragði inn í vistina. Þar var herbergið mitt  á efri hæðinni, í þeim hluta sem næstur er skólahúsinu. Það var tveggja manna, hægra megin á ganginum, líklegast fyrsta eða annað herbergi frá snyrtingunum. 

Ég átti ekki von á því að heimavistarhúsbóndinn Hilmar yrði neitt á ferðinni á þeim tíma dags sem þarna var um að ræða og var því mögulega full kærulaus (eða saklaus) í umgengni minni við flöskuna. Það næsta sem ég vissi var, að á móti mér, í anddyrinu þegar ég kom inn, kom Hilmar. Væntanlega með áðurnefnda bók í vasanum og væntanlega þegar farinn að fá lítilsháttar kvíðahnút í magann vegna ballsins sem framundan var.  Auðvitað áttaði hann sig á því, að þarna var ég ekki með allt mitt uppi á borðinu; varð ljóst að ég hafði ólöglegan varning falinn undir úlpunni og gerði mér ljóst hvað það þýddi.  Auðvitað fylltist ég þarna talsverðri skelfingu og sá, á örskotsstund, hvað þetta myndi hafa í för með sér og ég reikna með að Hilmar hafi séð, afar skýrt hvernig mér varð við. 

Við vorum bara þarna tveir í anddyrinu, svo engin voru vitnin. Hilmar sagði þá, að við skyldum koma upp í herbergi og fara þar yfir málið, sem við síðan gerðum. Þar áttum við einhver samskipti, þar sem ég reikna með að ég hafi verið talsvert miður mín, og Hilmar í nokkurri klemmu með stöðuna. Ég sá sennilega fyrir mér viðbrögð móður minnar, þar sem sonurinn kæmi heim með skottið á milli lappanna eftir örskamma dvöl í menntaskóla. Þá er ekki ólíklegt að ég hafi líka séð fyrir mér handónýtt busaball, eða bara ekkert ball.  
Klemma Hilmars fólst hinsvegar í því, annarsvegar, að fyrir framan hann var heldur aumur nýnemi, sem ekki hafði áður sýnt af sér ósæmilega hegðun og, hinsvegar, að í vasnum var bókin, bókin þar sem skráð skyldu öll þau brot sem framin væru og áfengisnotkun á heimavistinni taldist meðal verstu brota. Hann yrði að greina skólameistara frá, sem síðan myndi þurfa að taka afstöðu til sakarefnisins, mögulega þannig, að um brottvikningu úr skóla yrði að ræða, í lengri eða skemmri tíma.  

Eitthvað var málið rætt áfram, en hvaða orð féllu, nákvæmlega, man ég ekki lengur, enda má reikna með að fátt hafi brennt sig fast í minnisstöðvarnar annað en yfirþyrmandi skelfing yfir þeirri stöðu sem ég var þarna kominn í.  Hilmar tjáði mér, eins og honum bar, að hann yrði að gera vodkaflöskuna upptæka og auðvitað átti ég ekki von á öðru, þó líklega hafi ég gert málamyndatilraun til að malda í móinn. 
Augljóslega þurfti að ná einhverri niðurstöðu þarna og hún náðist, með nokkurskonar Salómonsdómi Hilmars: Hann spurði mig hvort ég væri með eitthvert ílát í herberginu og sú var raunin. Þá opnaði hann flöskuna og hellti vænum slurk úr henni, skrúfaði síðan tappann á aftur og tjáði mér að ég gæti vitjað flöskunnar hjá honum þegar skóla lyki vorið eftir og sjálfsagt fylgdu föðurlegar leiðbeiningar um tilgang lífsins og heimavistardvalarinnar, en ekki man ég það. 

Svona lauk þessum eftirminnilegu samskiptum, og úr varð sameiginleg minning okkar Hilmars. Hann skráði brotið í bókina, eins og þeir Kristinn höfðu ákveðið. Ég veit hinsvegar ekki hvort þeir áttu samtal um málið í framhaldinu, en finnst það líklegt, vegna þess, að Hilmar sagði mér síðar, að nafn mitt hefði verið það eina sem rataði í þessa bók. Þetta skráningarkerfi var aflagt eftir þetta, en ekki finnst mér ólíklegt að þeir félagar hafi skemmt sér konunglega í umfjöllun um málið. 

Ég fór svo heim til Hilmars vorið eftir og fékk flöskuna í hendur aftur og reikna með að innihaldið hafi komið í góðar þarfir á einhverju Mánaballi í Aratungu sumarið 1971. 
Bókina geymdi Hilmar hinsvegar, með þessu eina nafni brotamanns og mér finnst nú alveg við hæfi, að ég fái hana í hendur, rúmlega hálfri öld síðar og með henni nokkurskonar "uppreist æru".

Eftir þetta lauk ég mínum fjórum árum í ML og fór að sinna hinu og þessu eins og gengur, en örlögin leiddu mig  aftur á Laugarvatn um miðjan 9. áratuginn og þá í hlutverki kennarans. Það gekk svo sem áfallalaust. Eðlilega áttu börn Hilmars og Lindu leið í gegnum skólann og það leiddi síðan til þess að ég fékk að reyna það, að fortíð manns getur bankað upp á hvenær sem er. Þannig gerðist það, að eitt sinn uppljóstraði eitt barnanna, í heyranda hljóði um atburðinn sem ofanskráð saga lýsir. Þá hafði viðkomandi mögulega verið að gramsa í gömlu dóti frá föður sínum og fundið þar þessa bók, með einu nafni og líklega atvikalýsingu. Ég er ekki frá því að uppljóstrunin hafi frekar komið mér til góða í samskiptum mínum við nemendur. Þau áttuðu sig kannski betur á því að ég var einusinni á þeirra aldri og hafði reynt svipaðar aðstæður og þau voru stundum í sjálf.Mér finnst þessi saga lýsa Hilmari afar vel. Hann bjó yfir sterkri siðferðiskennd og manngæsku, naut þess ekkert sérstaklega setja öðrum stólinn fyrir dyrnar, en ef það reyndist nauðsynlegt, valdi hann til þess leið sem allir gátu sætt sig við.  
Bæði hann og Linda störfuðu lengi við ML og þeirra beggja minnast þeir nemendur skólans, sem kynntust þeim í störfum þeirra, með mikilli hlýju, því þau voru (og eru) fyrst og fremst gott fólk. Fólk eins og þau er vel til þess fallið að vinna með ungu fólki á mikilvægu þroskaskeiði.

Hilmar lést þann 10. febrúar síðastliðinn. Úför hans var gerð í dag frá Selfosskirkju og hann mun hvíla í Laugarvatnskirkjugarði.

-----------------------

Ef ofangreind frásögn af hálfrar aldar gömlum atburði (frekar en atviki) víkur í einhverju verulegu frá því sem telst satt vera og rétt, þá er engu um að kenna nema einhverri gloppu í minni mínu. Við slíku er víst fátt að gera.

Myndirnar sem birtar eru með þessari grein tók ég við ýmis tækifæri þar sem við Hilmar vorum báðir á ferð og ég með myndavélina, Þarna er um að ræða t.d. Íslendingaslóðir í Kanada, Bayern í Þýskalandi og  Helsinki í Finnlandi og Ísland. 

Vettvangurinn


16 desember, 2022

Ofurspenna og englahár

Heimagert, anno 2022
Spennan var nánast óbærileg. Pabbi og mamma skiptust á við að hverfa inn um dyrnar á stofunni, sem voru annars rammlæstar. Við vissum svo sem að þau væru að undirbúa, skreyta og koma fyrir.  Það var aðfangadagur, eins í allmörg ár, bæði í gamla bænum og þeim nýja. Alltaf var stofan læst á aðfangadegi. Við urðum æ spenntari eftir því sem á leið daginn, en það lá sko ljóst fyrir, að inn í stofuna færum við ekki.

Dagurinn leið og klukkan sjö var komið að því að setjast að dýrðar jólamatnum, sem var allavega í mínu minni, svínakótilettur steiktar í raspi, sem hafa aldrei bragðast jafn vel síðan. Með þeim það sem hæfði, líklega sulta, grænar baunir, brúnaðar kartöflur og rauðkál (minnir mig). Spenningurinn dvínaði aðeins meðan maturinn var snæddur en rauk svo upp jafnskótt og máltíðinni lauk. Þá tók uppvaskið og frágangurinn við, en ég minnist þess ekki að hafa tekið verulegan þátt í því óspennandi verkefni. Grunar að þar hafi systur mínar fengið að njóta sín. 

Það var svo ekki fyrr en allt var frágengið, að það kom að opnun stofunnar. Lykillinn var tekinn fram og stungið í skrána, þar sem við biðum í ofvæni, eftir því bakvið dyrnar beið. Dyrnar lukust upp og við blasti ótúlegur töfraheimur, þar sem jólatréð var miðpunkturinn. Tréð var ekki stórt, kannski svona metri á hæð, gervitré, sem var hluti af þessum hefðum. Önnur jólatré voru fremur ómerkileg í samanburðinum. Á trénu var jólasería, sem var hreint ómótstæðileg. Á henni voru ljóskúlur í ýmsum litum og upp úr hverri þeirra var vökvafyllt glerpípa, sem sauð í - eða allavega risu loftbólur stöðugt upp í þessar pípur. Það var einnig búið að hengja allskyns skraut  á þetta fína tré, en það sem gerði útslagið var englahárið. Tréð var hreinlega þakið englahári, þá lá yfir því eins og teppi, sem varð til þess,að ljósið frá seríunni glitraði. Það liðu mörg ár áður en ég tók tré, sem voru öðruvísi en þetta, í sátt. Jólatré án englahárs voru bara ekkert hátíðleg.  
Nú er liðinn einhver slatti af árum síðan og eitthvað hefur smekkurinn breyst, bæði vegna aukins aldurs og kannski eitthvað meiri víðsýni, eða tískustraumum í skreytingum. Ætli megi ekki segja að smekkurinn sé bara farinn að nálgast tímann áður en hægt var að verða sér úti um jólatré á Íslandi, svona yfirleitt, þegar fólki smíðaði sjálft jólatrén sín, eitthvað í líkingu við það sem þeir héldu að þau hlytu að vera.

Kannski er bara best að fara alla leið með þetta, úr því englahárið og seríurnar með glerpípunum eru ekki lengur valkostur. 

Englahár

EnglahárÉg fór svo aftur í fótbolta ....

Líklega lið annars bekkjar veturinn 1971-1972.  Aftari röð f.v. Helgi Þorvaldsson, Eiríkur Jónsson,  Kristján Aðalsteinsson, Páll M, Skúlaso...