Ég vil halda því til haga, að þetta var kveikjan. Jafnframt, að ég ætla framkvæmdastjóranum ekki að halda fram þessari skoðun skýringalaust, en ég hef ekki hlustað að viðtalið við hann/hana, sem fyrirsögnin byggir á.
Eins og ég nefndi í pistlinum taldi og tel ég að það séu einhverjar ástæður fyrir þessum "draumum" ungra pilta. Í framhaldi af því setti ég fram skoðanir á því og vísa bara í pistilinn varðandi þær.
Af ráðnum hug setti ég inn í greinina myndskeið sem lýsa því hvað gerist þegar ein dýrategund er alfarið alin upp af annarri. Ef einhverjum hefur dottið í hug að með því væri ég að halda því fram að uppeldisaðstæður pilta varu fyllilega sambærilegar því sem þar birtist, þá er mér ljúft og skylt að leiðrétta það. Tilgangur minn var auðvitað að benda á að umhverfi okkar mótar okkur, sem er auðvitað bara ágætt og eðlilegt. Það er ekki fyrr en í ljós kemur, að mótið sem við erum sett í passar ekki eðlislægum eða líffræðilegum eiginleikum okkar, sem jafnvægi raskast.
Ég held því fram að jafnvægið í uppeldislegum aðstæðum barna á Íslandi (og reyndar miklu víður í hinum vestræna heimi) hafi raskast, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Þetta er auðvitað mín skoðun og hver sem er getur tjáð sínar skoðanir og jafnavel haldið því fram að þarna sé ekkert sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Það getur hver sem er haldið því fram að skoðanir mínar séu bara gamaldags og taki mið af raunveruleika sem er horfinn. Það er mér að meinalausu.
Ég byggi málflutning minn á tvennskonar þróun, sem erfitt getur reynst að afneita:
1. Kynjahlutfall starfsfólks í leik-, grunn- og framhaldsskólum:
Leikskólar 1998: konur 3635, karlar 79 - 2014: konur 5635, karlar 384
Grunnskólar 1998: konur 2993, karlar 1052 - 2014: konur 3911, karlar 902
Framhaldsskólar 1998: konur 644, karlar 823 - 2012: konur 1009, karlar 902
2. Kynjahlutfall háskólanema
1984: konur 2500, karlar 2500 - 2013: konur 12500, karlar 7500 (fyrir 1984 voru karlar fjölmennari í háskóla).
Það er betra að skoða þessa þróun á línuritum hér.
Það sem fólk segir eða heldur fram um þessi kynjamál, byggir á skoðunum, en minna fer fyrir einhverju því sem ótvírætt gefur til kynni hvernig á þeim breytingum stendur, sem þarna birtast. Mér var bent svör á vísindavef HÍ við spurningunni:
Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?
Þarna eru birt tvenns konar svör, annað frá sjónarhóli kynjafræðings og hitt frá sjónarhóli heimspekings. Kjarni málsins í sambandi við þessi svör, sem eru sjálfsagt ágæt, út af fyrir sig, er, að þau koma af tilteknum "sjónarhóli". Þar með geta þau engan veginn talist algild eða marktæk og það sem meira er, þau veita hreint ekki svar við þessum spurningum:
Er samhengi milli skekkts kynjahlutfalls við kennslu í leik- og grunnskólum og samsetningu nemenda í háskólum?
Ef þetta samhengi er ekki fyrir hendi, hvað er það þá sem veldur því að piltar leggja síður fyrir sig háskólanám en stúlkur (annað en bara draumurinn um að verða atvinnuknattspyrnumaður)?
Mér er alveg sama hvaða skoðanir eru settar fram um þetta efni. Þær munu ekki breyta minni fyrr en gerð hefur verið einhver sú rannsókn sem ég treysti mér til að taka mark á. Öll erum við, jú, á okkar sjónarhólum. Hver er sá sjónarhóll sem er bestur? Sá sem veitir sýn á flestar hliðarnar, að mínu mati.
Konur eru jafn góðir kennarar og karlar og öfugt. Um það snýst málflutningur minn ekki. Hinsvegar breytum við því ekki, að konur eru konur og karlar eru karlar. Hættum að reyna að gera karla að konum, eða konur að körlum. Annað er hvorki betra né verra en hitt. Þau bara eru, með réttu eða röngu.
Málflutningur minn gengur út á það, að fjöldi kennara sem eru konur, hafi áhrif á pilta. Ég er ekkert á leiðinni að breyta þeirri skoðun minni.
Hér get ég farið að fjalla í löngu máli um þær gífurlegu þjóðfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað á síðustu áratugum, með afleiðingum sem við erum ekki farin að sjá fyrir endann á.
Jack Myers, höfundur bókarinnar The Future of Men: Masculinity in the Twenty-First Century segir í grein í TIME:
Donald Trump and Bernie Sanders are tapping into what I’m calling a “Lean Out” generation of young, discouraged and angry men—men who are feeling abandoned by the thousands of years of history that defined what it meant to be a real man: to be strong; to be a provider; to be in authority; to be the ultimate decision maker; and to be economically, educationally, physically and politically dominant. A growing percentage of young men are being out-earned by young women, as women capture 60% of the higher education degrees required for success in today’s economy.Eru ungir menn farnir, í síauknum mæli að upplifa sig utanveltu? Eru þeir farnir að leita fyrirmynda í "hetjum"af einhverju tagi frekar en venjulegum karlmönnum sem eiga venjulegt líf, bara vegna þess að þeir hafa ekki tækifæri til að kynna sér slíka karla?
Líta ungir karlmenn í vaxandi mæli á sig sem tapara, ofbeldismenn, fávita eða eitthvað álíka jákvætt?
Í niðurlagi greinarinnar segir Myers:
If we fail to focus on redefining men’s roles alongside women’s, we are in danger of fostering a culture of hostility among men who are feeling left out in school, in the job market, and in relationships. These men will be less likely to accept gender equality, less likely to advocate advances for women, and less likely to foster healthy relationships and families. For the sake of a healthy society, we need to redefine a positive and appropriate form of masculinity.Svei mér þá, ég held að ég hætti bara hér.
Just as it’s no longer acceptable to educationally, economically and politically restrict women, it is no longer acceptable to disregard men’s issues. When we bring men into the conversation, we further gender equality for everyone.
Ég hef enga trú á að skoðanir mínar breyti einu eða neinu, en það skiptir mig ekki öllu. Ég veit um marga sem eru mér sammála og deila áhyggjum mínum af þróuninni, ég veit líka um fólk sem telur að þetta sé allt með eðlilegum hætti.
Svona er nú lífið nú létt og skemmtilegt.
Hér fyrir neðan set ég svona til gamans, viðbrögð við pistlinum sem ber nafnð Hetjudraumar. Ég vona að mér hafi tekist að bregðast við einhverju því sem þar kom fram, en hafa ber í huga að allar eru þessara umræður fremur þokukennadar.
Ég þakka þeim sem þar lögðu sitt til málanna.
9 ummæli