Sýnir færslur með efnisorðinu Bjarni Harðarson. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Bjarni Harðarson. Sýna allar færslur

05 júlí, 2018

Gangan sem var ekki gengin til enda

Hér fyrir neðan má lesa kynninguna á viðburðinum sem hér er fjallað um.  Við fD ákváðum að taka slaginn. Þetta yrði örugglega ekki nein píslarganga, frekar svona létt rölt um staðinn og næsta nágrenni.
Um Helgusystur sem minnst er á í kynningunni hafði ég aldrei heyrt, en það fyrirbæri var sagt vera í Langasundi, sem olli mér örlitlum ónotum og óvissu varðandi þessa göngu. Þetta gæti þýtt að gengið yrði niður brekku og síðan upp hana aftur, sem er ekki sérstakt áhugamál mitt þessar vikurnar, af ástæðum sem skipta engu máli í samhenginu.

Söguganga um Skálholt 18. aldar

Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands stendur Skálholtsstaður fyrir röð viðburða þar sem boðið verður upp á ýmsan fróðleik sem tengist sögu staðarins.
Miðvikudaginn 4. júli ætlar Bjarni Harðarson að bjóða uppá sögugöngu. Bjarni er bóksali á Selfossi, fyrrverandi blaðaútgefandi og var alþingismaður um skamma hríð. Hann sendi á síðasta ári frá sér skáldsöguna Í skugga drottins sem fjallar um Skálholt 18. aldar. Á þessu og næsta ári kemur framhald þeirrar sögu í bókum sem ná til þess tíma að skóli og stóll hafa flutt endanlega til Reykjavíkur. Gengið verður frá staðnum upp til Helgusystur í Langasundi og Smiðjuhóla þar sem margvísir Skálholtssmiðir hafa breytt mýrarrauða í járn. Hann [Bjarni] er einnig fjögurra barna faðir, Tungnamaður, óforbetranlegur fornaldardýrkandi, þjóðfræðinemi og umhverfissinni fram í fingurgóma.

Hann mun fjalla um stað, merka menn og líf fólks á 18. öldinni og fluttning skólans frá Skálholti til Reykjavikur, en hann tók þar til starfa í nýreistu skólahúsi haustið 1786.
Þessi viðburður er opin öllum og að kostnaðarlausu. Veitingarstaðurinn í Skálholtsskóla verður opinn ef fólk hefur áhuga á að fá sér veitingar fyrir eða eftir sögustundina.
Nákvæmlega kl. 19.30 umrætt kvöld renndum við síðan í hlað á þessum mikla sögustað, í þessu venjulega sunnlenska veðri á þessu sumri. Þaðan gengum við til kirkju  og í þann mund er við stigum inn, hófst inngangur Bjarna að göngunni. Ekki hafði ég nú átt von á öðru en það sem frá honum kæmi bæri með sér sannfæringarkraft og innblásna þekkingu á málefninu: Skálholti á 18. öld, en hann hefur lagt sig sérstaklega eftir þeim tíma í sögu staðarins. Það verður seint sagt um Bjarna að hann eigi í basli með að koma fyrir sig orði. Inni á milli fróðleiksmolanna kom hann fyrir skemmtisögum og tókst þannig að létta andrúmsloftið í umfjöllun um annars fremur drungalegan þátt í sögu þessa fyrrum höfuðstaðar landsins við ysta haf.

Fjallað um aftökustaðinn
Ekki er tilgangur minn með þessum texta að fjalla að verulegu marki um viðburðinn og það sem Bjarni hafði fram að færa, heldur líta inn á við og fanga með mínum hætti eigin upplifun, sem reyndist endasleppari en vonir höfðu staðið til.

Áhugasamir gestir streymdu í kirkjuna og þeir komust líklega eitthvað á annað hundraðið þegar allt er talið. Það var því nokkuð þröngt í fremur loftlitlum kjallara kirkjunnar þar sem Bjarni velti meðal annars upp pælinginunni um hvernig kvef Hannesar Finnssonar biskups olli því, að öllum líkindum, að biskupssetrið og allt sem því fylgdi, var flutt til Reykjavíkur.. Hann fjallaði einnig um möguleg afdrif skeggs Þórs Vigfússonar sem af honum var klippt í Laugarási og síðan hent út í Hvítá og rak síðan við Ullarklett, allmiklu neðar í ánni. Ekki gat Bjarni um hvort kletturinn hefði fengið nafn sitt af skeggi Þórs, en án efa varð tilkoma þess þar til að treysta örnefnið í sessi. Eins og hver leasndi getur ímyndað sér, er hér um hálfkæring að ræða af minni hálfu.

FYRSTI LEGGUR

Út úr göngunum komst hópurinn á endanum. Enn rigndi og enn var ég í allgóðu standi. Þarna fjallaði Bjarni um ýmislegt sem kallaði á að hópurinn snéri sér ýmist til suðurs eða norðurs, austurs eða vesturs, eftir því hvert umfjöllunarefnið var hverju sinni. Nokkuð tók hann fyrir aðdragandann að aftöku Jóns Gerrekssonar og taldi fullvíst að Brúará hefði orðið fyrir valinu til verksins, vegna þess að þar sá Skálholtskirkja ekki, enda Brúará í hvarfi frá kirkjunni. Það sama var síðan uppi á teningnum þegar næst var numið staðar á þessum söguslóðum.  Rétt sunnan minnisvarðans um Jón Arason og syni hans, má greina rústir af gamalli byggingu af einhverju tagi. Taldi Bjarni líklegast og hafði fyrir því, að mér skildist, Guðmund Indriðason á Lindarbrekku, að norðan undir þessum kofa hefðu feðgarnir misst höfuð sín, þar sem Skálholtskirkja sá ekki.

Sögugangan, þegar hún var að byrja að taka á og þar til henni var nánast lokið af minni hálfu.


ANNAR LEGGUR

Næst lá leið að Þorlákssæti, en  þar sat Þorlákur biskup Þórhallsson hinn helgi oft og ekki meira um það að segja, enda ekki sérlega áberandi staður í umhverfinu.

ÞRIÐJI LEGGUR

Við Skólavörðu
Nú fór  hinsvegar gamanið að kárna nokkuð því næst lá leiðin beint frá Þorlákssæti upp að Skólavörðu. Bjarni viðurkenndi að leiðin hefði ekki verið könnuð en lýsti þeirri von sinni að hún væri fær.  Það má svo sem halda því fram að svo hafi verið, en eftir því sem á leið gönguna og Skólavarðan nálgaðist mjög, mjög hægt, tók að bera á því sem ég hafði átt von á þegar ég lagði af stað frá Þorlákssæti. Fyrir utan það að þessi leið lá talsvert upp á við þá skiptust á stórar þúfur og holtabörð sem klífa þurfti eða stökkva niður af. Þetta hafðist þó og kærkomið hlé náðist þar sem Bjarni, uppi á vörðunni, bar fram ýmislegt henni tengt og sögunni að öðru leyti.

FJÓRÐI LEGGUR!

Ég viðurkenni, að þegar Bjarni greindi frá því hvernig næsti leggur sögugöngunnar yrði, fór nokkuð um mig, enda benti hann af Skólavörðunni eitthvert niður á við og út í buskann. Ég var nú hreint ekki tilbúinn að leggja árar í bát eða myndavél í tösku við svo búið, og hélt af stað ásamt öðru göngufólki, eins og leiðin lá. Þarna höfðu Bjarni og Elín (sem hann hafði sér til fulltingis við rötun) að sögn fundið færa leið, sem þau töldu sig enn vita hvar væri að finna. Eftir að komið var yfir þjóðveginn var beygt til hægri, niður, niður, neðar og neðar án þess að nokkur endapunktur sæist lengi vel. Ég hugsaði um þrennt, til skiptis á þessari göngu: 
1. Hvernig fer ég að því að komast upp aftur? 
2. að detta ekki um þúfurnar og rofabörðin 
3. hvort þessi ganga væri virkilega þess virði. 
Við Helgusystur með fókusinn á kirkjuturninn auðvitað.
Af þessum þrem atriðum var það fyrsta mér efst í huga og greinilega fleiri samferðamannanna, sem heyrðust tauta ýmislegt á niðurgöngu sinni. 
Það rann smám saman upp fyrir mér, að til baka upp þessa þúfóttu og börðóttu brekku kæmist ég hreint ekki. Ég var því harla slakur meðan Bjarni fjallaði um ýmislegt sem tengist tveim, eða einni og hálfri vörðu sem blöstu við þegar leggnum lauk. Þær eru, að hans sögn, menjar um hið kaþólska Skálholt og kallast Helgusystur - eða Helgusystir (Þetta er svo nýtilkomið eða nýþekkt heiti, að sjálfur Google finnur það ekki). Harla merkilegt, en ekki síður merkilegt að ég, sem hef nánast eytt allri ævinni á þessum slóðum, skuli aldrei hafa heyrt á þessar menjar minnst, en kannski er það skiljanlegt í okkar strangtrúaða, lútherska samfélagi.

FIMMTU LEGGIR

Þau sem fylgdu Bjarna fóru þarna uppeftir.
Þegar Bjarni hafði gert Helgusystrum skil á skemmtilegan hátt, varð ekki hjá því komist að takast á við næsta legg. Bjarni benti upp í ásana í vestri, Skálholtsása. Þangað lægi næsti leggur og þar myndi birtast yfirsýn yfir margt fróðlegt og skemmtilegt. 
Ég hafði annan legg í huga og í ljós kom að fleiri hugsuðu eins og ég. Sá leggur lá stystu leið út á þjóðveg, yfir talsverðar ófærur reyndar, en samt ekki upp í mót fyrr en komið var út á þúfna- og barðalausan veginn, Þá hafði hópurinn sem valdi sér þennan legg, klöngrast yfir girðingu Vegagerðarinnar sem var nokkur hindrun í veginum, en þegar heilsan er annarvegar lætur maður girðingar ekki stöðva sig.

NIÐURSTAÐAN

Minn hópur tók þennan fimmta legg
Næst þegar mér verður boðið svona göngu ætla ég að vera betur í stakk búinn. Ég ætla líka að kynna mér betur hvað gangan felur raunverulega í sér.   Það er bara þannig. 

Það leiðist engum sem fær Bjarna sem leiðsögumann og þess þáttar nutum við að sjálfsögðu og erum honum þakklát fyrir.

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...