Sýnir færslur með efnisorðinu jólakveðja. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu jólakveðja. Sýna allar færslur

22 desember, 2020

Fordæmalaus jólakveðja á öfgaári


Ég ætla ekkert að bæta verulega í öll þau orð sem sögð hafa verið, eða munu verða sögð um árið sem kveður bráðum. Þetta er merkilegt ár, ekki bara fyrir heimsbyggðina heldur og ekki síður fyrir Kvisthyltinga. 
Það verð ég að segja, að þetta er líklega skrítnasta ár sem ég hef fengið að upplifa. Við deilum öll allskyns reynslu af veiruskrattanum og líf okkar hefur litast af því. Ég get ekki látið hjá líða að geta þess, að mér hefur liðið harla vel í þessu ástandi, enda ekki mikið félagsmálatröll og get alveg lifað góðu lífi án þess að þurfa alltaf "að fara eitthvert eða gera eitthvað". Þetta er sennilega vegna þess að ég er sjálfum mér nægur og líður best í samfélagi við sjálfan mig. Ég er að  vissu leyti bara einkar skemmtilegur í sjálfum mér og sjálfum mér. 
Nóg þá um þetta veiruár.

Kvistholt kvatt
Brottför okkar úr Kvistholti á árinu tók heilmikið á, enda hefur sá góði staður verið heimili okkar frá haustinu 1984. Við byggðum það frá grunni, þar lágu spor okkar og þar höfum við sinnt mörgu verkinu. Að mörgu leyti má segja, að þessum flutningi sé ekki lokið enn og það eru meira að segja uppi þær raddir, í umhverfi mínu, að við séum svona bara eins og í fríi í lúxus hótelíbúð. Það er nú þannig með frí, að þeim lýkur alltaf - einhverntíma. 
Niðurstaða mín í gegnum þetta flutningastand er sú, að skynsemin hafi fengið að ráða; að það séu ákveðin forréttindi fólgin í því að fá að flytja á eigin forsendum, meðan við búum enn yfir nægilegum krafti til að sjá um þetta allt saman sjálf.


Selfossi heilsað
Jú sannarlega erum við flutt og kunnum vel við okkur í þægindunum sem okkur eru búin hérna við Austurveginn á Selfossi, við þjóðveg númer 1, hvorki meira né minna.
Flutningarnir gengu vel, enda höfðum við haft nægan tíma til undirbúnings. 
Svo hófst aðlögun okkar að nýjum heimkynnum og umhverfi, en af ástæðum sem ekki þarf að rekja, hefur hún ekki verið alveg jafn hröð og verið hefði við eðlilegar aðstæður.

Ég held að mér sé óhætt að segja, að Selfyssingar hafi tekið okkur almennt vel og hér í kringum okkur er ágætasta fólk, sem hefur að miklu leyti sætt sig við okkur eins og við erum: nýkomin í logninu og skóginum, með sérkenni okkar og tiktúrur. 

Því verður ekki neitað, að umbreytingin sem felst í því að flytja úr einbýlishúsi, sem stendur á hektara lands, í talsvert minni híbýli í fjölbýlishúsi, er sko alveg áskorun, en það snýst allt um hugarfar.
Íbúðin okkar er afar þægileg og hefur reynst duga okkur til þess sem þörf er á. 


Börnin og allt það
Við njótum þess að hafa hjá okkur tvö yngri börnin nú um jólin. Þeir tveir eldri sinna fjölskyldum sínum af kostgæfni, annar býr í höfuðborginni en hinn í Álaborg. 
Við fD erum heppin með börn, tengdabörn og barnabörn, svo það sé nú sagt.

-----------------

Ég ætlaði að láta þennan pistil vera nokkurskonar jólakveðju okkar Kvisthyltinga (við verðum víst seint eitthvað annað í hjartanu) en svo gripum við tækifærið, með videósnillinginn, örverpið okkar við höndina 
og í dag var skotin stuttmynd, sem verður hin formlega kveðja frá okkur til ættingja og vina, til sjávar og sveita, landa og heimsálfa. Hún verður birt áður en jólin ganga í garð og verður eitthvað.

Ég leyfi mér nú samt að óska lesendum þessara pistla minna og fjölskyldum þeirra, gleði og friðar á jólum og um áramót, meira svona innri gleði og innri friðar, frekar en taumlauss gjálífis og núvitundarskarkala.
Megi nýtt ár færa okkur bóluefni í vöðva, jafnvel tvisvar og í framhaldinu, upprisu til venjulegs lífs.







Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...