Sýnir færslur með efnisorðinu Dubai. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Dubai. Sýna allar færslur

12 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (5)

Beðið eftir lyftunni.
Framhald af þessu.

Þar sem við fimmmenningarnir, héldum sem leið lá, að lyftunum upp í turninn mikla, hæstu byggingu heims, Burj Khalifa, bar aðallega tvennt til tíðinda, fyrir utan það, að við vorum hreint ekki ein á ferð. Hið fyrra gerðist þegar við vorum búinn að ganga stillt og prúð í röð eftir gangi sem bar okkur áleiðis. Þá kom maður hlaupandi á eftir okkur og veifaði úri. Hann var að leita að eigandanum og eigandinn reyndist vera ég. Úrið hafði orðið eftir í bakka í öryggisleitinni. Ég var sannarlega þakklátur fyrir að öryggisvörðurinn hafi ákveðið að elta uppi úreiganda meðal mannfjöldans sem þarna fór í gegn.

Hitt sem gerðist á leið okkar varð þegar við nálguðumst lyfturnar. Þá stóð þar maður og bað fólk að sýna aðgöngumiða. Við sáum auðvitað fram á að þarna lyki ævintýrinu, þar sem fÁ var með alla miðana í símanum sínum og hún var hreint ekki með í för! Góð ráð voru dýr og þegar ég kom að þessum öryggisverði brá ég á það ráð að brosa blíðlega og útskýra í örfáum, vel völdum orðum, stöðu mála frá okkar hlið. Þetta virkaði án nokkurra vandræða.

Á leiðinni að lyftunum, sem var ansi löng, hafði verið komið fyrir sýningu á myndum, teikningum og líkönum, sem sýndu turninn á ýmsum byggingarstigum. Við vorum hinsvegar að drífa okkur og litum varla við öllum þeim fróðleik sem þarna var í boði. Svo komum við að lyftunum, en þær voru tvær og á stöðugri ferð upp og niður með ferðafólk. Þeir sem biðu niðri gátu varla leynt spenningi sínum, en þeir sem komu út úr lyftunni sem var að koma niður, sýndu engin merki þess að þeir hefðu upplifað eitthvert stórkostlegt ævintýri. 
Þarna var okkur raðað fyrir framan lyfturnar og þar stóðum við eins og prúðum túristum sæmdi, þar til önnur lyftan var komin niður frá 124. hæð. Við þyrptumst inn í hana og spennan var áþreifanleg á leiðinni upp meðan arabískur sheik fjallaði um eitthvað tengt þessu mikla mannvirki.
Lyftan ferðast allra lyfta lengst, fer hraðar en nokkur önnur lyfta (36 km/klst). Það tók um 1 mínútu að komast upp þessar 124 hæðir.

Þarna upp tók svo við mikill fjöldi fólks í sömu erindagerðum og við. Það var varla hægt að finna lausan glugga til að taka myndir út um. Svo var allstór minjagripaverslun á þessari útsýnishæð.  Sem sagt, þetta var all öðruvísi en ég hafði séð fyrir mér.
Það sem mér kom svo einna helst á óvart var, að við fystu sýn virtist eins og það væru bara varla nokkrar byggingar í kringum turninn; bara nokkrir turnar á stangli.  Við nánari athugun kom auðvitað í ljós að ansi verklegar byggingar þarna niðri virtust varla rísa upp fyrir jafnsléttu. Þetta má sjá á myndunum sem hér fylgja, en þar er ég búinn að setja bláan ramma utan um hluta efri myndarinnar og stækka svo það sem er í bláa rammanum í þeirri neðri: 



Þarna undum við okkur við að drekka í okkur útsýnið og ég var sérlega duglegur að bæta myndum inn á myndflöguna.  Rykmistrið sá til þess, að sjáanlegur fjarski var ekkert svo fjarri. Það grillti í 7 stjörnu lúxushótelið Burj Al Arab, en ekki tókst mér að sjá til Palm Jumeirah.  Að því búnu lá leiðin niður aftur, en ég læt hér fylgja nokkrar myndir úr þessum stóra turni.  (Svo kemur aðeins meira fyrir neðan)








fA, fD og fS í Burj Khalifa


Lyftubiðröð beið okkar þar sem við reyndum að komast niður og meintur áhrifavaldur, truflaði nokkuð ánægjuna af því að standa í biðröðinni. Það fór þó allt vel, þótt tvísýnt væri á tímabili og ég tók meira að segja áhrifavaldalega mynd til að krydda þetta aðeins.


Niður aftur
Fyrir framan turninn fundum við vökvunarstað og undum þar við umtalsverða gleði þar til okkar beið bókað borð á líbönskum veitingastað rétt hjá, með útsýni að turninum og tjörninni fyrir framan hann. Þar fór svo fram þekkt sýning með samspili vatns, ljóss og tónlistar, undir kvöldverðinum.
Einn þessara daga sem seint gleymist víst.




11 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (4)

Þetta er framhald af þessu.

Kalífaturninn í arabíska furstadæminu Dubai er 829,9 metra hár. Hæðirnar eru 163 og spíran eft á honum er 12 metrar í þvermál. Þetta er hæsta mannvirki í heimi og hlaut þann heiður við opnun árið 2010. Næst hæsta byggingin í dag er Merdeka í Kuala Lumpur, sem var tekin í notkun 2023. Hún er ekki nema 679 metrar og hæðirnar 118. 
Turninn sérstaklega byggður til að vera hærri en fyrrverandi hæstu turnar heims: Petronas tvíburaturnarnir í Malasíu. Þetta er, með öðrum orðum, algjör montturn. (fararheill.is)


Það má teljast rétt vera að um sé að ræða "montturn", en ekki ætla ég að blanda mér í þá umræðu. Hinsvegar munu hafa borist að því fregnir fyrir nokkru, að Kínverjar hygðust byggja hærra en Dúbæjar og það mun ekki verða látið óátalið, því teikningar liggja fyrir á turni sem gæti orðið 1.3 km á hæð.  Nenni ekki að pæla meira í því.

Burj Khalifa er alveg sæmileg bygging og fyrir sérstakt áhugafólk. set ég hér hæðina á honum inn á tvö kort, annað af Selfossi, en þar myndi turninn ná frá Bónustorginu að Pálmatréblokkunum.  Hitt er kort af Laugarási en þar myndi turninn ná frá Skúlagötu, eftir Skógargötu og Höfðavegi, langleiðina að Brennuhól.  

 

Turninn sigraður

Eftir hvíldardaginn var lagt af stað um hádegisbil sem leið lá að Dubai verslunarmiðstöðinni, sem er sannarlega risastór, ef ekki stærst í heimi, en hún er einmitt sambyggð Burj Khalifa. Það var fÁ sem flutti hópinn þangað í bílaumferð sem jaðrar við geðveiki, en ég mun koma nánar að henni síðar. Smátt og smátt fór að sjást meira til turnsins í mistrinu og ég tók fleiri myndir en ég hefði þurft, þar sem turninn breyttist lítið sem ekkert milli mynda. Þessar fjórar myndir hér fyrir neðan sýna fram á þetta.


Til að vera nú ekki að lengja þetta úr hófi, þá endaði þessi ferð í bílakjallara, skínandi hreinum og fínum, og þaðan lá leiðin upp í verslunarmiðstöðina, Dubai Mall. Auðvitað var þetta bara háborg kapítalismans í sinni tærustu mynd, en þar var einnig ógnarstórt fiskabúr, sem tekur 10 milljón lítra af vatni og stærðin er lengd: 51 m, breidd:20 m. og hæð:11 m. Í búrinu eru 140 tegundir sjávardýra, þar af einir 300 hákarlar.

 

Glerið í búrinu er 75 cm á þykkt og auðvitað það stærsta glerplata (panel) í heimi.

Í Dubai Mall
Það er líka foss í þessari miklu byggingu, en þrátt fyrir að við röltum vítt og breytt munum við ekki hafa náð að komast í nema í mesta lagi 10% af henni.
 Tilgangur okkar var sannarlega fyrst og fremst að renna upp turninn mikla, en til þess að komast þangað þurftum við að fara um þá glyshöll sem þessi verslunarmiðstöð er. Það var auðvitað búið að ganga frá miðakaupum fyrir okkur og því allt klárt.

Gangan í turninn hefst
Miðatékkun nálgast.
Ég hafði, meðan ég var enn hér á Fróni, verið að velta aðeins fyrir mér heimsókninni í turninn, reiknað með, að þetta yrði svona nánast einkaheimsókn okkar öldunganna þarna upp, en því reyndist aldeilis ekki að heilsa.
Þarna, rétt eins í á annatíma á Keflavíkurflugvelli, voru uppi mannfjöldastjórnunarbönd, sem sáu til þess að leiðin að turninum færi nú eftir settum reglum. Við vorum þarna eins og leikskólabörn með fÁ í hlutverki fóstrunnar (eldra og betra nafn en leikskólakennari). Hún hafði nefnilega keypt miða fyrir okkur á netinu og var því með miðana okkar í símanum sínum. Þar sem miðar voru tékkaðir af, þurfti hún að gera grein fyrir okkur og framvísa gögnum þar að lútandi, áður en hún sneri frá, enda hafði hún áður upplifað leyndardóma turnsins. 
Eftir að við vorum komin gegnum miðahliðið, tók við sprengjuleit, þar sem við þurftum að renna öllu okkar gegnum skanna eins og gerist á flugvöllum. Þar með vorum við komin inn og bara framundan að koma sér að lyftunum sem myndu flytja ökkur til himna og niður aftur, en frá því ferðalagi greini ég næst.

FRAMHALD síðar.

10 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (3)

Framhald af þessu

Þau fÁ og hS búa í hverfi í Dúbæ sem kallast  Sustainable city. Með því að smella á hlekkinn hér fyrir framan er hægt að fá hugmynd um hvað þar er um að ræða. Fyrir þau ykkar sem ekki vita, þá er bein þýðing á nafni þessa hverfis "Sjálfbæra borgin", sem auðvitað þýðir að hverfið er beinlínis byggt með það í huga að innan marka þess sé sjálfbært samfélag. Ég hef nú reyndar átt í nokkrum vandræðum með það gegnum tíðina að skilja þetta hugtak "sjálfbær" fyllilega, en skil það í stórum dráttum þannig að sjálfbært svæði eða samfélag, sé mikið til sjálfu sér nægt og valdi ekki skaða á auðlindum og svo framvegis. 

Sjálfbæra hverfið


Dúbæbúarnir sóttu okkur fimmenningana þarna á flugvöllinn í tveim bifreiðum sínum og fluttu okkur til síns heima aðfaranótt 22. október. Þarna var um að ræða um það bil hálftíma akstur, sem var langt umfram það sem ég hafði svo sem átt von á. Aðallega var það nú vegna þess að hugmyndir mínar um þetta furstadæmi komu ekki heim og saman við raunveruleikann, eins og hann birtist mér þessa nótt og dagana sem á eftir fylgdu. Það var margt sérstakt þarna, sem ég vonast til að geta varpað lítilsháttar ljósi á hér, þótt síðar verði.

Þetta er kannski tækifæri til að geta þess, að við ritun þessa texta, hyggst ég einbeita mér að upplifun minni, sem kann að víkja talsvert frá upplifun hinna ferðafélaganna, svo ekki sé nú talað um reynslu og þekkingu Dúbæbúanna á svæðinu. Þannig verður þetta bara að vera og vanþekking mín og mögulegir fordómar verða bara að fá að njóta sín.

Varðmaður í Sustainable city -
myndin tekin af vefnum.
Þar sem við komum þarna um nóttina að þessu hverfi þar sem Dúbæingarnir búa, var fyrst komið að slá yfir götuna. Þar var varðmaður í búri sínu. Ég komst aldrei að því, hvort hann þurfti að lyfta slánni með því að ýta á hnapp, eða hvort skynjari las bílnúmerið og sendi frá sér merki um að slánni skyldi lyft. Það breytir svo sem engu. Sláin fór upp og dúbæski ökumaðurnn veifaði kumpánlega til varðmannsins um leið og hann ók í gegn. Svo var haldið lengra inn í hverfið og viti menn, þegar komið var inn í þann hluta þessarar sjálfbæru borgar, þar sem hús Dúbæinganna stendur, blasti við önnur slá yfir götuna og annar varðmaður, sem þurfti að hleypa okkur í gegn. Þarna er um að ræða tvöfalda sólarhringsvörslu á svæðinu. 
Mér láðist nú að spyrja hvort svona væri staðið að málum í öllum hverfum þessarar borgar, en allavega komum við síðar í ferðinni inn í annað íbúðahverfi, sem varið var með þessum sama hætti.  Mér skildist að stærstur hluti íbúanna í þessari sjálfbæru borg, væru útlendingar, mikið til komnir frá vesturlöndum.

Sustainable City - yfirlitsmynd og dæmigerð íbúð. Myndir af vefnum. 

Ekki fjölyrði ég um húsnæðið sem þarna beið okkar. Öll herbergin reyndust vera með baði og sér loftkælingu, þannig að aðbúnaðurinn var eins og hóteli með slatta af stjörnum. 
Svo tók svefninn við og nokkur spenningur fyrir því sem byði morguninn eftir. 

Mig grunar, að ef ég held svona áfram um það sem ferð fól í sér, muni úr verða helst til mikil langloka. Ég mun því reyna að draga úr orðaflóðinu eins og kostur reynist, í því sem fylgir. Það verður að láta á það reyna, hvort það tekst. 

Skipulag ferðarinnar gerði ráð fyrir að fyrsti dagurinn færi í að hvíla sig eftir ferðalagið, enda engin unglömb þarna á ferð. Þetta var vel til fundið og tími gafst til að ná aðeins áttum og ræða stöðuna og framhaldið og mögulega fá sér smók.
Til að ferðast um innan hverfisins, hafa íbúar aðgang að rafmagns "buggy" bílum, eins konar skutlum, sem geta flutt 4 farþega. Íbúar hafa kort sem þeir geta notað til að nálgast ýmsa þjónustu innan hverfisisn, meðal annars til að virkja þessi farartæki og til að komast í sundlaugina. Leið okkar lá einmitt í sundlaugina á fyrsta degi okkar í Dúbæ, til að innbyrða D-vítamín, og/eða kalla fram sólaexem eða annað skemmtilegt. Þetta var ágætur dagur afslöppunar, og til að safna kröftum fyrir næsta dag, en hann kemur til skoðunar næst.




09 nóvember, 2024

Sæludagar í sandkassanum (2)

Framhald af þessu.

Fyrst aðeins um Dúbæ, sem er hluti af Sameinuðu arabísku furstadæmunum, sem eru 7 að tölu. Þau eru, auk Dubai, Abu Dhabi, sem er langstærst að flatarmáli, Sharjah, Ajman, Umm Al Quwain, Ras Al Khairmah og Fujairah.  Höfuðborg þessara furstadæma er Abu Dhabi, en Dubai er þettbýlasta borgin og  einkonar alþjóðleg miðstöð á svæðinu með þennan feiknastóra alþjóðaflugvöll sem við áttum leið um. 
Olíuframleiðsla Dubai fer stöðugt minnkandi að sögn kunnugra og áherslan á ferðaiðnað eykst að sama skapi. Það eru stórar fyrirætlanir fyrir svæðið og markmiðið sett á að tvöfalda íbúafjöldann á næstu 10 árum, úr 4 milljónum í 8. Þetta sást glöggt á gríðarlegum byggingaframkvæmdum hvar sem drepið var niður fæti.  Meiri fróðleikur um ýmis skringilegheit í Dúbæ síðar.

Flugstöðin í Dúbæ

Þar sem við komum þarna úr flugvallarstrætó inn í flugstöðina, blasti við kona sem hélt á skilti með nöfnum okkar fimmmenninganna. Það var aldeilis ekki vegna þess að til stæði að hindra för okkar, skal ég segja ykkur. Ætli sé ekki rétt að útskýra þetta aðeins. 
Þannig var, að sögur höfðu borist af því til landsins bláa, að flugstöðvarbyggingin væri ógnarstór og fyrri gestir hefðu þurft að ganga á annan kílómetra til að komast þar á milli staða. Auðvitað stökk fD af þessum sökum, á upplýsingar frá Dúbæ um, að það væri hægt að panta fylgdarþjónustu frá flugvél að útgangi. Það hafði sem sagt verið gengið frá því, að hS pantaði þjónustu af þessu tagi fyrir tengdaforeldra sína og okkur hin. Það skildist okkur, að með því móti myndi bíða okkar rafmagnsknúinn kaggi, sem myndi síðan flytja okkur sem leið lá gegnum vegabréfaeftirlit og töskumóttöku.

Konunni með skiltið fylgdi enginn rafmagnskaggi, heldur benti hún okkur á að fylgja sér að stærðar lyftu, sem flutti okkur á næstu hæð fyrir neðan (eða ofan - hvað veit ég). Þegar úr lyfunni kom blasti við mikið kraðak af fólki sem beið þess að komast í gegnum vegabréfaeftirlit. Fylgdarkonan fór hinsvegar með okkur í gegnum sérstakt hlið, sem lá beint að borði, þar sem hvítklæddur landamæravörður tók ljúflega á móti okkur, skoðaði vegabréfin og tók af okkur andlitsmyndir.  Lítið mál það. 

Þessu næst leiddi konan okkur áfram inn gríðarstóran sal og þar bættist henni liðsauki, karlmaður, sem þýddi að við vorum komin með tvær fylgdarmanneskjur. Þau fóru með okkur að töskufæribandinu og sögðu okkur að setjast niður og bíða meðan þau fyndu töskurnar okkar. Ekki neita ég því, að mér fannst nú ekkert sérlega þægilegt að sitja þarna og fylgjast með ókunnugu fólk leita að töskunum okkar, sem við vissum hvernig litu út og hefðum því haft minna fyrir að finna. Fylgdarfólkið var búið skönnum sem það notaði við að þefa uppi töskurnar.

Fylgdarfólk leitar að töskum, Dúbæfarar slappa af.

Hátt til lofts og vítt til veggja
Töskurnar fundust, að sjálfsögðu og þá var bara að koma sér út með farangurinn. Auðvitað sá fylgdarfólkið um töskurnar, en við fylgdum, eins og fínt fólk, sem við vorum auðvitað.  Gangan reyndist enginn kílómetri, svo það hefði verið harla ankannalegt að keyra þessan spotta í rafmagnsrútu. 
Fljótlega komum við að þar sem fólk beið til að taka á móti flugfarþegum og meðal þess voru Dúbæingarnir, fÁ og hS, sem ætluðu að vera gestgjafar okkar næstu 10 daga, eða svo.  Þau voru auðvitað á tveim bílum, ekki dugði nú minna. Svo var haldið frá flugstöðinni að áfangastað, sem reyndist miklu lengra í burtu en ég hafð ímyndað mér. Reyndar var bara allt miklu stærra en ég hafði ímyndað mér, ef út í það væri nú farið.

Fyrir utan það að hitinn sem skall á okkur þegar við stigum úr flugvélinni var rúmlega 30°C, þá var mistur í lofti, sem okkur var tjáð að væri einskonar blanda af  sandryki frá eyðimörkinni og einhverskonar raka í lofti.  

Svo fór nú, eins og reikna mátti með, að síðasta legg ferðarinnar lauk á heimili Dúbæinganna þegar nokkuð var liðið á nótt.  Þau búa í borgarhverfi sem er all sérstakt, svo ekki sé meira sagt, en frá því segir næst.

Sæludagar í sandkassanum (1)

fS, fA og fD með Burj Al Arab í baksýn. 
Í baksýn má greina á himni helstu martraðarsviðsmynd
ferðarinnar, sem ekki raungerðist.
Ferðin sem hér er ætlun mín að gera tilraun til að varpa nokkru ljósi á, á sér margra ára aðdraganda. Hún varð ekki eins uppsett og upphaflega var ætlun fD, en hún hafði hugsað sér sð við færum tvö í einhverja svakalega reisu, sem ætti endapunkt í Ástralíu, en með viðkomu í Dúbæ við Persaflóa í bakaleiðinni, þar sem áð skyldi í einhverja daga til að njóta getrisni Dúbæ-búandi frændfólks hennar. Ég spyr mig auðvitað, hvort undirtektir mínar hafa ef til vill ekki verið nægilega afgerandi til að af þessu ferðalagi yrði á þeim tíma. Við því er ekkert svar. Það má hinsvegar velta fyrir sér, hvort skipulag ferðar af þessu tagi hefði reynst mér ofviða, þar sem þarna hefði ég þurft að stíga ansi langt út fyrir þægindarammann.

Draumurinn um Dúbæferð lifði þó áfram.


Ætli sé ekki að verða ár síðan hugmyndir um þessar ferð fóru að taka á sig skýrari mynd. Áður en lengra er haldið er rétt að greina aðeins frá fólkinu sem hér kemur við sögu. Þar ber fyrst að nefna Þorvaldsdætur, sem ólust upp hjá foreldrum sínum í Kópavogi í árdaga og eru nú allar komnar á eða að nálgast áttræðisaldurinn. Þetta eru þær Dröfn (fD) sem býr nú á Selfossi, Auður (fA) sem hefur búið um langt árabil í Ishøj í kóngsins Kaupmannahöfn og Sóley (fS), sem situr á föðurleifð sinni í Kópavogi. Systrunum til aðstoðar í þessu ferðalagi voru svo Anfinn (hA) sem fæddur er og uppalinn Færeyingur, og eiginmaður fA og svo sá sem þetta ritar, sem gegndi sérstöku hlutverki aðstoðarmanns fD.  Loks ber að geta fólksins sem fékk það hlutverk að taka við þessum fimm  manna hópi og leiða í allan sannleik um lífið í sandkassanum þarna austurfrá; arabíska furstadæminu Dúbæ. Þetta eru hjónin Áslaug (fÁ), dóttir fA og hA og Sören Ekelund (hS). Þau hafa búið í Dubai um árabil og komið sér þarvel fyrir.

Ferðin raungerist.

Það varð úr að Þorvaldsdætur ákváðu ýmislegt:
1. Að ferðin skyldi eiga sér stað í síðari hluta októbermánaðar, þar sem þá yrði farið að kólna nokkuð á Arabíuskaganum.  Rannsókn leiddi í ljós,að sumarhitinn á þessum slóðum geti verið frekar lítt þolandi, meðalhiti í júní til ágúst er 33-42°C, í október er hann að jafnaði 30-38°C.

2. Að verða sér úti um viðeigandi höfuðbúnað, til að fá inngöngu í bænahús múslima, mosku. Mér fannst eiginlega, að þessi slæðumál væri alltaf stærsta ákvörðunaratriðið. Frænka í sandkassanum fékk það hlutverk að útvega sérhannaðar slæður, þannig að engin hætta yrði á því að virðulegar vestrænar konur yrðu sér til minnkunar þegar  í moskuna kæmi.



Það var ekki nóg með það, heldur var gerð tilraun til mátunar á mismunandi hyljandi slæðum, með aðstoð AI var gerð við Austurveginn. 

Upphaf ferðar.

Nú, þetta hófst allt með eðlilegum hætti, þannig séð. Það var þó alltaf nokkur óvissa um það hvernig ástandið við botn Miðjarðarhafsins yrði og á tímabili voru jafnvel uppi efasemdir um að  óhætt yrði að leggja leið þarna austur eftir, en slagur var látinn standa. 
Þorvaldsdætur á leið að flugvöllinn

Íslandsbúandi hluti hópsins flaug til Kaupinhafnar þann 19. október og gisti þar hjá Íshæðarhjónunum í tvær nætur, áður en Emirates flugvélin hóf sig til flugs með hann innanborðs, mánudaginn 21. október.
Sögur höfðu gengið af flugferðum með þessu flugfélagi, sem leiddu til allmikillar tilhlökkunar, en búist hafði verið við rúmgóðum sætum og þjóni á hverjum fingri alla leið. Þetta reyndist svo bara vera venjuleg flugvél, með venjulegum flugvélamat. Engin gullslegin hnífapör eða sérhannaðir matardiskar. 
Það var auðvitað hægt að fylgjast með flugleiðinni á skjá fyrir framan sig, en hún lá yfir Miðjarðarhafið í grennd við Kýpur og síðan í sveig framhjá átakasvæðum, þannig að við, með mismikinn móral yfir þessu ferðalagi okkar á þessum slóðum, þyrftum ekki að berjast við aukinn hjartslátt með kvíðahnút í maganum.


Á kortinu af flugleiðinni mátti einnig sjá í hvaða átt Mekka var hverju sinni, sem auðvitað hentaði vel þeim sem þurftu af hafa það í huga.
Svo segir ekki af flugferðinni fyrr en lent var í Dúbæ um miðnætti, eftir um það bil 6 klukkustunda ferð.

Flugvallarstrætó tók við okkur úr flugvélinni og ók með okkur ógnarlengi þar til komið varð að inngangi í flugstöðina. Þar sem við komum þar inn blöstu nöfn okkar við á skilti, sem hefði getað verið áhyggjuefni, en var þvert á móti talsvert gleðiefni, af ástæðum sem greint verður frá í næsta þætti.



Sæludagar í sandkassanum (5)

Beðið eftir lyftunni. Framhald af þessu. Þar sem við fimmmenningarnir, héldum sem leið lá, að lyftunum upp í turninn mikla, hæstu byggingu h...