Sýnir færslur með efnisorðinu njóttu lífsins. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu njóttu lífsins. Sýna allar færslur

11 apríl, 2018

"Lifðu núna" Er það nú vitlegt?

Þar sem ég ek niður á Selfoss, tæmi ég plastflöskuna sem ég var að drekka úr, renni niður hliðarrúðunni og hendi henni út.
Ég lifi núna.

Ég finn síðu á facebook og kemst þar í samband við fíkniefnasala og panta stöff hjá honum. Síðan skelli ég því í mig og nýt upplifunarinnar.
Ég lifi núna.

Mig langar að berja nágranna minn. Fer heim til hans og gef honum einn á hann.
Ég lifi núna.

Ég veit fátt betra en sælgæti. Kaupi það í kílóavís og nýt þess í botn að gúffa því í mig.
Ég lifi núna.

Ég læt vaða yfir femínista og réttrúnað í samfélaginu á blogginu mínu.
Ég lifi núna.

Mig langar í 75" sjónvarp á vegginn hjá mér. Ég panta það á Hópkaup.
Ég lifi núna.

Ég nenni ekki að burðast með eitthvert pokadrasl undir innkaupin mín og kaupi þess vegna alltaf plastpoka þegar ég fer í búð.
Ég lifi núna.

Ég er eins og fuglarnir á pallinum. Þeir eru ekkert að spá í hvað gerðist í gær, hvað þá að þeir velti fyrir sér hvað morgundagurinn ber í skauti sínu.
Þeir lifa núna.


Ég veit fullvel hver hugsunin á bakvið þetta tískufyrirbæri "Lifðu núna" er.  Vefurinn sem ber þetta heiti fjallar sannarlaga um mikilsverð málefni:
Markmiðið með rekstri vefsíðunnar er að gera líf og störf þeirra landsmanna sem eru komnir um og yfir miðjan aldur sýnilegri en þau eru, auka umræðu um þau málefni sem tengjast þessu æviskeiði og lífsgæði þeirra sem eru komnir á þennan aldur.

Það sem ég óttast hinsvegar er, að margir skilji þetta sem svo, að við eigum í æ meiri mæli og fara að hegða okkur eins og fuglar himinsins.

Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? (Mt. 6:26)

Við eigum hvorki að byggja á reynslu fortíðar, né velta fyrir okkur hvað er framundan. Við eigum að lifa núna. Það verður séð til þess að allt verði í lagi hjá okkur (Hver sem á nú að sjá til þess)

Því miður eru þetta skilaboðin sem maður heyrir orðið allt í kringum sig. Þetta er að verða næstum eins og kveðja:
"Lifðu núna!" = Bless
"Já, einmitt. Lifðu núna!" = Bless.
Skilaboðin skiljast óhjákvæmilega sem ákveðið ábyrgðarleysi gagnvart öllu öðru en núinu, sem er til dæmis ekki æskilegt ef hugað er að  umhverfisvernd, heilsunni eða afleiðingum þess sem maður gerir. 

Niðurstaða mín er því sú, að við ættum frekar að segja:
NJÓTTU LÍFSINS 
Hugsaðu til þess sem gerðist í gær og lærðu af því. veltu fyrir þér hvað morgundagurinn ber í skauti sér og gerðu þitt til að hann verði ekki síðri en dagurinn í dag. Að þessu búnu skaltu njóta dagsins, njóta þess að lifa.

Svo mörg voru þau óskiljanlegu orð.




Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...