Sýnir færslur með efnisorðinu Kvenfélag Biskupstungna. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Kvenfélag Biskupstungna. Sýna allar færslur

02 júní, 2019

Kvenfélag Biskupstungna 1929-1949-2019


Kvenfélag Biskupstungna er 90 ára á þessu ári. Það var stofnað 24. janúar 1929. Fyrsti formaður félagsins var frú Anna Eggertsdóttir í Laugarási. Eftir að hún flutti burt úr sveitinni árið 1932 tók við frú Sigurlaug Erlendsdóttir á Torfastöðum, og hún var formaöur í 23 ár, eða til ársins 1955.
Ef einhver skyldi ímynda sér að ég sé að hefja ritun á sögu Kvenfélags Biskupstungna, þess ágæta félags, þá er það ekki svo. Ég tel að það muni verða gert af öðrum og fróðari einstaklingum.

Tilefni þessa pistils er lítill blaðabunki (7 blöð, heftuð saman)  sem ég fann á gólfinu á vinnuaðstöðu minni í Kvistholti. Hvernig hann lenti þar veit ég hreint ekki - gæti hafa dottið úr einhverri bók. Það skiptir ekki öllu.  Þessi litli bunki, sem er frumrit, reyndist vera ávarp eða ræða sem var flutt á samkomu í tilefni af 20 ára afmæli kvenfélagsins, haustið 1949. Það kemur ekki fram hver höfundur textans er, en ég til víst að um sé að ræða þáverandi formann þess, frú Sigurlaugu Erlendsdóttur á Torfastöðum (1878-1966).

Fremsta blaðið.

Hér er ræðan eins og hún birtist á þessum blöðum: 

Kæru vinir. 
Kvenfélag Biskupstungna býður ykkur hjartanlega velkomin. Okkur er það mikil gleði að hingað eru komnar fjelagskonur, sem flutt hafa í fjarlægð og aðrir velunnarar, sem hafa sýnt fjelaginu svo mikla góðvild. Vil jeg í því sambandi nefna Bjarna Gíslason og fjölskyldu hans, sem í minningu eiginkonu og móður, gáfu sjúkrasjóði okkar stórhöfðinglega gjöf. Ágústa, húsfreyja frá Lambhústúni var ein af okkar  ágætu fjelagskonum.
Við höfum margra góðra kvenna að sakna á liðnum árum úr okkar fámenna hóp, en um það þýðir ekki að sakast. Það er lífsins órjúfandi lögmál að heilsast og kveðjast, minnast og sakna.
En - ef við sjáum sólskinsblett í heiði, þá  viljum við fegnar fá að staðnæmast þar um stund. Og í kvöld óskum við þess innilega að mega eiga með ykkur eina slíka stund, vinir og fjelagar.
Við höfum því miður lítið að bjóða af skemtiföngum, sem kölluð eru, en við mætum ykkur með hlýjum og þakklátum hugum, að þið vilduð vera  hjer með okkur þessa kvöldstund.
Þótt fjelagsskapur okkar sje nú orðinn tuttugu ára, þá ætla jeg þó ekki að rekja hjer sögu hans. Við höfum ekki af miklu að státa með framkvæmdir. Það hefur farið lítið fyrir okkur, eins og segja má, hingað til um íslenskar sveitakonur. Þær hafa unnið störf sín í kyrþey og innan síns heimilis. Þær hafa átt það sameiginlegt með öllum konum veraldar, sem dýrmætast finnst í þessum heimi, móðurást og fórnfýsi, sem er og verður gefanda og þyggjanda til heilla og blessunar.
Þótt ég sé algjörlega utanveltu í þeim stórmálum sem á döfinni eru í dag, þá er þó langt í frá að jeg vilji vanmeta kall þeirra kvenna, sem vilja vekja okkur til þess að hugsa um þjóðfjelagsmál og heimta þau rjettindi sem eðlilegust er að stæðu til boða þeim sem finna svona mikið til þess að þau vanti.
En það er sannfæring mín, að í engu starfi þjóðfjelagsins sje til veglegra verkefni en það, ef konunni tekst að skapa gott heimili. Jeg veit það, að aldrei hefur hún átt þar við rammari reip að draga en nú.
Þessi snauði, hugsunarlausi hraði, hann dregur máttinn úr huga hennar og höndum, til þess að bjarga þeim verðmætum, sem hingað til hafa verið grundvöllur undir góðu heimili. Hún þarf því sannarlega að hafa sig alla við ef hún á ekki að verða eins og sá, sem misst hefur stjórn á fleyi sínu og verður að þola að hver aldan annarri meiri skoli í burtu farminum. Þeim sem ekki eru því bjartsýnni, finnst nú allra veðra von. Það er því ekkert hjegómamál, að konurnar geti og vilji með fjelagsskap sínum sýna hver annarri skilning of vinarþel. Jeg veit það, að fjelagsskapur kvenna í sveitunum minnsta kosti, er ekki bundinn neinum stórfeldum málum, þótt við hinsvegar vildum fegnar leggja lið því sem til heilla horfir í sveitinni.
En, hver annarri viljum við vera það, sem góður vinur er, hvort sem um gleði eða sorg er að ræða. - Eptir því sem kynning er meiri og betri, eptir því hjaðnar ýmiskonar misskilningur og sitthvað annað sem fjarlægir fólk.  Þótt ekkert gerðist annað á fundum okkar en það, að finna vinarhugi hver annarrar þá væri það sannarlega ómaksins vert að finnast og sjást og talast við.
Þessum fjelagsskap okkar hefur því orðið það mikils virði, að til móts við okkur hafa komið margar ágætar konur, sem í sveitina hafa flutt nú á síðustu árum. Og þeim sem staðið hafa með okkur frá byrjun, erum við þakklátar fyrir hverja stund, sem samtök okkar hafa fært okkur nær hver annarri í góðvild og skilningi.
Það er ágætt að trúa á hamingju sína. Og nú trúi ég á hamingju kvenfélagsins.
Sumarið var sannarlega erfitt á flesta lund. En nú hefur sólin skinið í heiði  undanfarna daga, og lítur helst út fyrir að þetta verði hinn besti sumarauki.
Þótt við sjéum dálítið á eptir tímanum að minnast þessa afmælis, þá hefðum við líklega aldrei getað kosið á betra veður en nú.
Og gleymast ekki furðu fljótt erfiðleikar þegar betur blæs?
Og nú óska ég þessu kvenfjelagi allrar blessunar í framtíðinni, um leið og  jeg þakka því allt sem það hefur verið mjer á umliðnum árum.

Ég óska Kvenfélagi Biskupstungna til hamingju með afmælið. 

Ég hyggst koma þessum blöðum á Héraðsskjalasafn Árnessýslu, en þangað eigum við að skila gögnum af þessu tagi - er það ekki bara?

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...