Sýnir færslur með efnisorðinu gondólar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu gondólar. Sýna allar færslur

05 maí, 2018

Að daðra við dauðann í Feneyjum


Gott að spila þetta undir lestrinum

Feneyjar.
Það stórkostlegt hvernig einhverjum hefur einhverntíma dottið í hug að kalla þessa borg eða svæði þessu nafni, en hún fær nafn sitt af ævafornri þjóð sem bjó á svæðinu á 10. öld fyrir Krist. Það voru Venetar (Veneti) og á ítölsku kallast hún Venezia.

Jæja, úr því ég var nú kominn á þennan stað fyrir nokkrum dögum, var ekki um annað að ræða, en láta gamlan draum rætast, um að sigla með gondóla um síkin sem gegna hlutverki gatnakerfis á þessum sérstaka stað. Enginn bíll, engin reiðhjól, strætisvagnar eða sporvagnar. Aðeins gangandi eða siglandi vegfarendur.

Frá glæsilegu skipinu okkar, Michelangelo, var um eins og hálfs kílómetra gangur niður á Markúsartorgið fræga (Piazza San Marco), þar sem finna má Hertogahöllina (Palazzo Ducale) og Markúsarkirkjuna (Basilica di San Marco). Þaðan mátti síðan ganga eftir þröngum krókaleiðum að Ríalto brúnni frægu (Ponte di Rialto).
Ótrúlega áhugavert, allt saman, en ótal greinar hafa verið skrifaðar um þetta svæði, þannig að ég sé ekki tilgang í að fara að endurtaka það allt saman.

Þessi stubbur minn fjallar bara um gondólasiglinguna mína og fD. 
Þar sem fD var engu minna áhugsöm um að fá að upplifa siglingu um þröng síkin í Feneyjum, var eitt það fyrsta sem við gerðum, að leita upp hentugan stað til að komast um borð í það fley sem myndi geta  leyft þessum draumi okkar að verða að veruleika.
Fyrir framan innganginn að Markúsartorginu, rétt við Hertogahöllina var heilmikið af gondólun, sem biðu þess eins að fá að flytja ferðamenn. Við komumst að því að hver ferð kostaði €80 (ISK10.000) styttri hringinn en  €100 (ISK12.000) þann stærri. Þetta þótti okkur nú vel í lagt, en létum það ekki aftra okkur frá að uppfylla drauminn okkar í þessari draumasiglingu um Feneyjar.

Næst á dagskrá var síðan að velja ræðara. Gondólarinir í Feneyjum eru allir svartir með rauðum plusssætum, en um það var einhverntíma tekin miðlæg ákvörðun. Þeir skyldu allir vera eins og bera með sér ákveðinn prjállausan virðuleika.  Við þurftum bara að velja okkur ræðara sem við teldum geta fullnægt óskum okkar, en þær voru aðallega fjórar:
1. Hann skyldi vera klæddur eins og gondólaræðari (þarna voru ræðararnir klæddir með ýmsu móti, og jafnvel ekki með ómissandi hattinn). Nei okkar skyldi vera í þverröndóttri peysu og með gondólahatt.
2. Hann átti að vera trúverðugur í öllu fasi og framgöngu. Þeir voru það nú flestir.
3. Hann átti að geta sungið göndólasöngva meðan hann þræddi örmjó síkin og undir brýrnar. Þarna þurfti bara að spyrja, sem svo: Puoi cantare O sole mio? (Geturðu sungið O sole mio?)
4. Hann þurfti að leyfa mér að standa á gondólanum eins og ræðari, með hatt og í þverröndóttri peysu og syngja með silfurtærri tenórrödd, (meðan fD smellti af mynd) fyrstu línurnar í: O, sole mio, sem ég hafði lagt á mig að læra fyrir ferðina, en textinn er svona:

Che bella cosa na jurnata 'e sole,
N'aria serena doppo na tempesta!
Pe' ll'aria fresca pare già na festa...
Che bella cosa na jurnata 'e sole.

Ma n'atu sole
Cchiù bello, oje ne'.
O sole mio
Sta 'nfronte a te!
O sole
O sole mio
Sta 'nfronte a te!
Sta 'nfronte a te!

Quanno fa notte e 'o sole se ne scenne,
Me vene quase 'na malincunia;
Sotto 'a fenesta toja restarria
Quanno fa notte e 'o sole se ne scenne.

Þar með hófst leit okkar að hinum eina sanna gondólaræðara. Leitin stóð ekki lengi og fyrr en varði fundum við einstaklega góðlegan og jákvæðan ræðara, sem vildi allt fyrir okkur gera. Hann kvaðst syngja, hann var í réttri peysu og með réttan hatt og sagði að sannarlega mætti ég stilla mér upp eins og ég vildi meðan fD smellti af mér nokkrum myndum.
Ræðarinn fór úr peysunni og tók af sér hattinn. Ég klæddist þessum fatnaði síðan, áður en ég skellti mér um borð. 
Á þessum tíma, um 10:30 að morgni, var ferðamannafjöldinn orðinn óheyrilegur á bakkanum og því eins gott að ekkert  kæmi nú upp á.

Ekki neita ég því að það örlaði á kvíða í brjósti mér þar sem ég tók skrefið af bryggjunni yfir í gondólann. Þetta eru nú ekki stór skip, heldur mjóir smábátar sem rugga auðveldlega í ölduganginum frá bátunum sem stöðugt sigla hjá. Mér tókst þó að komast niður í bátinn og skríða síðan upp á pallinn þar sem ræðarar eiga að standa. Þar brölti ég á fætur með nokkrum erfiðismunum og það var ekki laust við að góðlegi ræðarinn væri orðinn nokkuð óþolinmóður, þar sem hann stóð hattlaus á nærbolnum á bryggjunni.
Upp tókst mér að komast og fékk árina í hendur, kom henni fyrir á sínum stað, rétti mig upp, stóð beinn í baki, horfði fram á við og hóf að syngja: Che bella causa na jurnata 'e sole, n 'aria serena doppo na tempesta!.............
Þegar þarna var komið í textanum var ég orðinn nokkuð öruggur með mig fyrir framan myndavélina hjá fD (sjá mynd efst) og farinn að lifa mig inn í textann og fagnaði þannig sólinni, sem baðaði Feneyjar geislum sínum á þessum ljúfa morgni. Ég var farinn að sveifla höndunum í geðshræringu og vagga mér til og frá í takti við fagra tóna, sem ekki fóru framhjá hundruðum austurlenskra ferðamanna sem stóðu á bakkanum og tóku myndir.

Ég hefði átt að standa kyrr, en ég gerði það ekki.
Ég hefði aldrei átt að óska eftir að standa þarna á pallinum og syngja, en ég gerði það.

Áður en varði hvarf mér jafnvægið. Ég athugaði hvort árin dygði mér, sem reyndist ekki vera og þar með gerðist hið óhjákvæmilega: ég féll í sjóinn, á bólakaf.
Fyrst varð mér hugsað til viðbragða allra myndatakandi áhorfendanna á bakkanum og reyndi því að koma úr kafinu eins virðulega og mér var unnt. 
Reynslunni ríkari frá bananabátsævintýrinu á Gran Canaria, vissi ég að það yrði ekki auðvelt (reyndar útilokað) að komast upp á gondólann. Því synti ég að tréverki þarna í nágrenninu, þar sem mér tókst eftir talsvert streð, og þúsundir ljósmynda, sem síðan myndu rata inn á samfélagsmiðla í Austurlöndum, að príla upp á bryggjuna.

Í sjónum flaut hattur gondólaræðarans.

Ég hefði aldrei átt að stíga fæti á pall ræðarans með ár í hönd og syngja O, sole mio ......





Ég gerði það heldur ekki.
Frásögnin hér að ofan fellur undir svokallaðar falsfréttir, eða "fake news", sem eins og allir vita, eru mjög "inni" þessi misserin.

Við fD reyndum aldrei að komast um borð í gondóla í "Draumasiglingunni" okkar um Feneyjar.

Þannig er það nú.

Þar fyrir utan gaf fD það sterkt til kynna að bátsferð af þessu tagi væri ekki ofarlega á óskalistanum hjá henni, frekar en bananabátsferðin. 
Það sem eiginlega gerði útslagið var ótrúleg mannmergðin hvert sem leið lá á þessum mikla ferðamannastað, sérstaklega eftir kl. 10 á morgnana.

Ég ákvað hinsvegar að skrifa falsfrétt og í því skyni fékk ég fD til að taka uppstillta mynd af mér í hlutverki gondólaræðara, sem ég ætlaði síðan að fótósjoppa inn á mynd þegar heim kæmi. 
Svo kom auðvitað í ljós að engin myndanna (uppstillinganna) passaði við neina þeirra mynda sem  sem ég hafði tekið af gondólaræðurum. Því varð ég að stilla mér upp úti á palli, þar sem mynd var tekin og nýtt eins og sjá má hér efst.

Svona í lokin biðst ég auðvitað velvirðingar á því að hafa skráð niður þessa vitleysu og lofa því að gera þetta aldrei aftur.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...