Sýnir færslur með efnisorðinu Egill. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Egill. Sýna allar færslur

14 nóvember, 2016

Dyngjan og athvarfið

Drungavaldandi regn undanfarinna vikna hefur engan veginn náð að slá Kvisthyltinga út af laginu. Listin er að verða búin að grípa stóran hluta þessarar Laugarásfjölskyldu heljartökum, þannig að daglegt líf snýst um að kanna þau mörk sem hún setur þessum ofurprúða hópi.
Eftir að fD tók sig til og sýndi afurðir sínar á þessu sviði fyrir nokkru, hefur hún æ meir horfið inn í dyngju sína, þar sem leirfígúrur eru hannaðar, mótaðar og málaðar. Við og við kíkir hún fram að talar um að fara út að ganga eða skjótast á Selfoss til að setja vetrardekkin undir. 
Þessi hendir burt andleysinu og hnoðar sama texta fyrir innansveitarblaðið, kemur því síðan frá sér upp á drævið. Hann tekur svo óvæntar syrpur á EOS-inn, smellir og smellir og gerir síðan tilraunir með útkomuna með dularfullum tölvuforritum, sem oftar en ekki hlýða ekk því sem þeim er ætlað að gera. 

Í aðdraganda aðventu sameinast þessi tvö í því að raða nótum í möppur, vita ekkert hvenær næsta æfing er, eða með hverjum, sem vissulega skapar gundvöll til hástemmdra umræðna um tilgang þessa alls. Þau líta svo að á tvo viðburðir á tónlistarsviðinu á næstunni beri hæst og séu mikilvægastir: útgáfutónleikar í Salnum í Kópavogi þann 26. nóvember þar sem frumburðurinn fylgir glænýjum hljómdiski sínum, sem kallast 'Leiðsla', úr hlaði og síðan árlegir aðventu- eða jólatónleikar í Skálholti þann 9. desember, þar sem ofangreindur frumburður og sunnlenskur eðalsópran leiða gesti inn í jólaskapið með aðstoð okkar sem erum búin að vera að flokka nótur og ruglast á æfingum, sem eru einhverntíma, einhversstaðar með einhverjum.

Við ætlum fyrir utan þessa tvo viðburði, að vera virkir þátttakendur í tónleikum á Laugalandi í Rangárþingi ytra þann fyrsta desember og Skálholti þann 3. desember, með rangæskum ágætis kór. 

Þessi hefur haft það á orði, að það sé eins gott að hann er farinn að minnka við sig. 

Málaralist, ljósmyndlist, ritlist og sönglist veita öllum litum regnbogans inn í drunga regnvotra vikna. 


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...