Sýnir færslur með efnisorðinu 1891. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu 1891. Sýna allar færslur

12 ágúst, 2022

Baugsstaðir - leit að botni 1888-1891

Sigurður Pálsson (f. 1928)
Hve gamall skyldi hann vera þarna?

 Ég ákvað nú að byrja þessu sinni á að greina frá því sem ég hef komist að um Eyfakot á Eyrarbakka, þar sem langafi minn Jóhann Hannesson og langamma, Elín Magnúsdóttir, bjuggu í nokkur ár. Þar fæddist amma mín. 
Það getur vel verið að þið vitið langflest hvað Eyfakot á Eyrarbakka var eða er. Ég vissi nú bara ekkert, heyrði bara alltaf talað um að amma hafi fæðst í Eyfakoti á Eyrarbakka. Það hafa sennilega verið taldar nægilegar upplýsingar, eða þá að ég spurði bara aldrei.
Þessi staður virðist hafa verið mikill örlagastaður fyrir langömmu og langafa, því þangað komu þau með tvö elstu börnin, Stefán og Guðlaugu, þar eignuðust þau fimm börn til viðbótar og þrjú þessara 7 barna dóu og eitt fór sem tökubarn í austurbæinn á Baugsstöðum.
Mér fannst ég þurfa að vita aðeins meira um þetta Eyfakot.
Jú, ég hafði séð meinta mynd af Eyfakoti. Eftir að ég hafði skoðað sóknarmannatal, fannst mér ótrúlegt að þær 11 fjölskyldur sem þar voru taldar, gætu allar komist fyrir húsinu á myndinni. Ég fór því aðeins á stúfana. Spurði Eyrbekking sem var nágranni minn hér, sem vissi ekkert um Eyfakot, en öll ummerki um það eru horfin. Hún benti mér á að tala við Ingu Láru Baldvinsdóttur, sagnfræðing, sem ætti að vita allt um Eyrarbakka, sem ég gerði og kom ekki að tómum kofanum. 
Eyfakot var hverfi, þyrping lítilla torfhúsa líklegast, þar sem ekkert húsanna þar hefur varðveist. Þarna bjuggu aðallega tómthúsmenn [sjómaður eða daglaunamaður í verstöð eða kauptúni sem hefur ekki afnot af jörð, þurrabúðarmaður].
Ég hafði líka sambandi við Óðin K. Andersen sem skrifar blogg um Eyrarbakka - sögu og atburði, hér: http://eyrbekkingur.blogspot.com/.../eyrarbakka-annall.html
Hann sagði mér, að í þessum hverfum hafi þetta oftast verið svona:
Algengast var að karlmenn stunduðu sjómennsku á vertíðum og vegavinnu að sumri eða dútluðu við búskap. En eldri menn aðalega hjá versluninni yfir sumarannir. Haustin eftir sláturtíð var lítið um að vera, einhverjir höfðu verkamannavinnu t.d. við grjóthleðslur o.þh. og byggingavinnu hér og í nærsveitum.

Þarna hafði ég komist að því hvað þetta Eyfakot var og held svo áfram með að pæla í gegnum sögu Baugastaðaættarinnar, eins og hún birtist í kirkjubókum og víðar.  Eini mögulegi heimildamaðurinn sem er á lífi er móðurbróðir minn Sigurður Pálsson og smávegis hef ég eftir honum. 

Árið 1887 fæddust þau amma mín, Elín Jóhannsdóttir í Eyfakoti á Eyrarbakka og Páll Guðmundsson í vesturbænum á Baugsstöðum. Það sem ég hef tekið saman hingað til er mikið til um forfeður ömmu, en en hyggst einnig grafast fyrir um hvað leiddi til þess að afi kom þarna í heiminn. Fyrst ætla ég þó að greina frá örlagasögu þeirra sem stóðu að ömmu og held því áfram það sem frá var horfið síðast.


1888

Staðan í austurbænum á Baugsstöðum var óbreytt stærstan hluta þessa árs, allavega í sóknarmannatalinu.  Þar bjó Magnús Hannesson og varð sjötugur á árinu, ásamt konu sinni Guðlaugu Jónsdóttur, 63 ára  og 4 sonum, þeim Jóni (32), Hannesi (31), Magnúsi (19) og Sigurði (17). Auk þess var hjá þeim tökubarnið Guðlaug Jóhannsdóttir 6 ára (dóttir Elínar og Jóhanns) og vinnukonan Þóra Einarsdóttir (44).  Sem sagt, það voru 9 sálir í austurbænum.
Síðla árs varð hinsvegar mikil breyting á, þegar fimm manna fjölskylda flutti í bæinn frá Eyfakoti á Eyrarbakka. Þarna voru þau komin, Elín Magnúsdóttir, 34 ára og Jóhann Hannesson, 35 ára, ásamt börnum sínum þrem, Kristínu, 5 ára, Stefáni Jóhanni 3ja ára og Elínu eins árs.  Eins og fólk ætti að vita, þá var Elín Magnúsdóttir dóttir hjónanna í austurbænum.  

Með þessu voru sálirnar í austurbænum við árslok orðnar hvorki meira né minna en 13.

Allt var með ró og spekt í vesturbænum. Þar var Guðmundur Jónsson bóndinn, 39 ára að aldri, ásamt konu sinni Guðnýju Ásmundsdóttur, 35 ára, sonunum tveim Siggeir 9 ára og Páli eins árs. 
Jón Ásmundsson (32) var vinnumaður á bænum og Guðrún Sigurðardóttir (18) vinnukona, Jón Bjarnason (53) var húsmaður og Guðrún Guðmundsdóttir (72) húskona.  

Alls voru því 8 sálir í vesturbænum í árslok og alls bjuggu þá 21 á Baugsstöðum .

Ekki hef ég forsendur til að kveða upp úr um ástæður þess að Elín og Jóhann fluttu frá Eyfakoti í austurbæinn á Baugsstöðum, en vissulega hvarflar að mér að aðstæður þeirra á Eyrarbakka hafi verið orðnar illþolanlegar. Siggi (Sigurður Pálsson) sagði mér, eftir föður sínum (Páli afa) að áfengið hafi farið illa með Jóhann. Sömuleiðis (sem ætti að vera hægt að staðfesta þó ég sé ekki á leiðinni þangað) að Elín hafi verið eigandi Byggðarhorns þegar þau fluttu á Eyrarbakka, en að þegar þau síðan yfirgáfu Eyfakot, hafi ekki verið til matur handa börnunum. Allavega var fjölskyldan þarna komin í skjól og meira öryggi.  

1889

Í austurbænum voru 12 einstaklingar, en vinnukonan var farin. Prestþjónustubókin greinir frá því að Hannes Magnússon hafi eignast son, Magnús, með Þórdísi Grímsdóttur og að þau væru ógift par á Baugsstöðum. Þórdís og Hannes fluttu að Hólum 1891 og bjuggu þar. Amma Þórdísar og amma Hannesar voru systur. Þá er það sagt.

Í vesturbænum eignuðust þau Guðmundur og Guðný dóttur, Margréti, þann 3. október, en hún dó þann 20. desember og er ekki getið í sóknarmannatali og ekki í Íslendingabók.

1890

Aldurinn færðist yfir hjónin í austurbænum, þau Magnús Hannesson (72) og Guðlaugu Jónsdóttur (65). Meðal ævilengd Íslendinga um aldamótin 1900 var nú ekki nema 47 ár. (frettabladid.is/skodun/lengri-og-betri-aevir/). Þann 30. nóvember lést Guðlaug.

Að öðru leyti var líf fólksins á Baugsstöðum tíðindalítið í opinberum gögnum.

1891

Þetta má segja að þetta hafi verið talsvert mikið örlagaár í sögu Baugsstaðaættarinnar.  Í sóknarmannatali þetta ár er íbúum á Baugsstaðabæjunum skipað niður að 4 býli.

Á 1. býli var bóndinn enn Magnús Hannesson (73), synir hans tveir, Magnús (30) og Sigurður (22), Sigríður Sigurðardóttir (30) hjú og Hólmfríður G. Bjarnadóttir (15) á sveit.  Hólmfríður fór síðar að Hólum og við sem heyrðum á tal foreldra okkar áður fyrr munum eftir henni sem Fríðu í Hólum.

Á 2. býli, sem þá tilheyrði einnig austurbænum voru þau Jón Magnússon (35) húsmaður og Helga Þorvaldsdóttir (31) ráðskona, verðandi eiginkona Jóns.

Á 3. býli, sem einnig tilheyrði austurbænum, var í lok þessa árs, skráð ekkjan Elín Magnúsdóttir (37), ásamt dóttur sinni Elínu Jóhannsdóttur (4).

Á 4. býli, sem var vesturbærinn voru sem fyrr Guðmundur Jónsson, 42, bóndi, Guðný Ásmundsdóttir (38) kona hans, Siggeir (12) og Páll (4) synir þeirra, Jón Ásmundsson (35) bróður húsfreyju, vinnumaður og Elín Erlendsdóttir (31) hjú.

Eins og ljós má vera, voru þarna orðnar breytingar á austurbænum frá síðasta ári.  
Hannes Magnússon (34), sonur Magnúsar bónda, var orðinn húsmaður á Hólum og bjó þar á 2. býli með konu inni Þórdísi Grímsdóttur, syninum Magnúsi (1) og Guðlaugu Jóhannsdóttur (9) systurdóttur hans, dóttur Elínar og Jóhanns Hannessonar.  Sex ára sonur þeirra Elínar og Jóhanns, Stefán Jóhann var kominn að Hólum líka, skráður á 1. býli hjá þeim Sigurði Einarssyni (68) og Kristínu M. Hansdóttur (64) konu hans.

Þriðja barn þeirra Elínar og Jóhanns, Kristín (8) var komin sem tökubarn að Tóptum (Tóftum) til þeirra Einars Sigurðssonar (35) bónda og Ingunnar Sigurðardóttur (27). Þau voru þá nýflutt þangað frá Hólum, með son á fyrsta ári, Sigurð Kristin (0).  Sigurður varð síðar faðir Ingunnar Óskar (Ingu á Efra-Hvoli) og Einars, sem við Hveratúnsfólk, allavega, þekktum vel í samhenginu "Einar og Imma".

Já, hér eitt nafn ónefnt af þeim sem hefðu átt að vera á Baugsstöðum síðari hluta þessa árs.   

Í Lögbergi, frá 29. júlí þetta ár segir svo:
Slysfarir. — „Mánudaginn 22. þ. m. var Jóhann Hannesson tómthúsm. frá Bergsstöðum [Baugsstöðum] í kaupstaðarerindum út á Eyrarbakka; mun hafa orðið þaðan nokkuð síðbúinn, en töluvert óveður var; kom hann ekki heim um kveldið, en um morguninn fannst hann örendur skammt frá heimili sínu. Er helzt til getið að hann hafi dottið af baki og steinn hafi orðið undir honum, þar eð vottað hafði fyrir blett eða meiðslaáverka á höfði fyrir ofan gagnauga, en hestur hans var með reiðtygjum eigi alllangt frá. Jóhann sál. var einn af sonum Hannesar bónda í Tungu, Einarssonar frá Kaldaðarnesi. Hann lætur eptir sig ekkju heilsuveika og fjögur börn í ómegð. Formaður var hann talinn góður, en efnalítill. Hann mun hafa verið nær fertugsaldri“

Jóhann Hannesson var 37 ára þegar hann lést. Í kirkjubókum er hann sagður hafa orðið bráðkvaddur og hann hafi verið jarðaður á Stokkseyri.


Þegar ég ræddi dauða Jóhanns aðeins við Sigga (Sigurð Pálsson) hafði hann það eftir föður sínum, sem  væntanlega heyrði það í umhverfi sínu í uppvextinum, að Jóhann hafi dottið af baki þar sem hann var á leiðinni að Leiðólfsstöðum umrædda nótt. Ég er nokkuð viss um,  að hann hafi talað um þennan bæ. Hestur hans hafi síðan verið kominn að Baugsstöðum um morguninn og að við leit hafi Jóhann fundist, ekki langt frá Leiðólfsstöðum. 

Svo eru auðvitað aðrar skýringar, eins og gengur.  Þannig birtir Skúli Sæland, sagnfræðingur og systursonur minn, eftirfarandi í bloggi sínu í febrúar, 2010. en þar er um að ræða frásögn í ritinu Íslenzkir sagnaþættir og þjóðsögur II, sem Guðni Jónsson skrásetti og sem kom út 1941:

Um þær mundir [~1870] bjó í Eyfakoti á Eyrarbakka Jóhann Hannesson frá Tungu, Einarssonar spítalahaldara í Kaldaðarnesi, atorkumaður og formaður góður. Kona hans var Elín Magnúsdóttir bónda á Baugsstöðum, Hannessonar á Baugsstöðum, Árnasonar, efnileg og dugleg kona. Það varð nú úr, að þau Jóhann og Elín fluttust að Baugsstöðum og fóru að búa þar. Vildu þau þá fá bæ Guðrúnar [Guðmundsdóttur] rifinn og byggja nýjan á sama stað. En það vildi Guðrún ekki heyra nefnt og aftók það með öllu. Því var þó ekki sinnt, og var bærinn rifinn móti vilja Guðrúnar, og urðu þau Jón [Björnsson] og hún að hrekjast frá Baugsstöðum. En daginn sem Guðrún fór þaðan, stumraði hún út að tóftinni, vappaði kringum hana, laut yfir rústina og tuldraði eitthvað yfir henni. Heyrði enginn, hvað hún sagði, en hitt vissu menn, að henni var ærið þungt í skapi. Byggði Jóhann þarna nýjan bæ. eins og ráð var fyrir gert, en þau Guðrún og Jón fluttust í verbúð eina úti í Stokkseyrarhverfi.

Skömmu eftir að þau Jóhann og Elín fóru að búa í nýja bænum á Baugsstöðum, brá svo við, að Elín, sem aldrei hafði kennt sér neins meins, varð undarlega veik, aðallega á sinninu. Lá hún rúmföst í tvö ár, þannig að hún mátti ekki á heilli sér taka, en var þó aldrei líkamlega þjáð. Á öðru ári, sem þau bjuggu á Baugsstöðum, bar svo við um Jónsmessuleytið um vorið, að Jóhann fór ríðandi út á Eyrarbakka. Kom hann ekki heim um kvöldið fyrir háttatíma, en engum datt þó í hug að undrast um hann. En morguninn eftir stóð hestur hans með reiðtygjum á hlaðinu. Var þá farið að leita Jóhanns. Fannst hann rétt fyrir vestan túngarðinn á Baugsstöðum, örendur og mikið skaddaður að kunnugra sögn, en lítið orð var borið í það út í frá. [Jóhann varð úti 22. júní 1891.] Var margt um atburð þennan talað. En af Elínu er það að segja, að hún tók að hjarna við upp úr þessu og varð aftur heil heilsu.

    
Þá ræddi Siggi það, að það hafi veri algengt að þegar karlar, sem voru að koma frá Eyrarbakka, og lentu í einhverjum óhöppum á leiðinni, hefðu ítrekað kvartað yfir ásókn drauga og kenndu þeim um  hvernig fór. Draugar voru hinsvegar aldrei til trafala á leiðinni út á Eyrarbakka, að sögn Sigga.

Ekki meira um það.  Atburðir þessa árs höfðu varanleg áhrif á þau sem eftir lifðu.

-----------------------

Framhald þessarar miklu sögu kemur vonandi innan tíðar, en næst hyggst ég taka fyrir forsögu þess, að Páll Guðmundsson, afi minn, fæddist á Baugsstöðum árið 1887.


FRAMHALD

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...