Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til Dúbæ.
Síðasti dagurinn, miðvikudagurinn 30. október var skipulagður sem rólegheitadagur; dagur til að íhuga og melta það sem á undan var gengið. Það var þó ljóst að lengri tíma þyrfti til að móta þetta allt í höfðinu og koma þar fyrir á viðeigandi stöðum. Þrátt fyrir það, að ég væri aðeins orðinn rólegri, sem farþegi í bíl í dúbæskri umferð, sá ég ekki fyrir mér, að á þessum slóðum myndi ég geta fest rætur. Þetta umhverfi er bara einfaldlega alltof manngert og hiti og glampandi sól alla daga yrði þar að auki of uppáþrengjandi fyrir minn norræna smekk.
Hinsvegar, var það óhemju gaman og upplýsandi að koma þarna við í tæpa 10 daga og njóta þess að búa eins og á hóteli, án þess að búa á hóteli, fá að sjá allflest það helsta, án þess að vera á vegum ferðaskrifstofu, að þurfa nánast bara að smella fingrum til að bílstjóri og bíll yrði til reiðu til að flytja mann hvert sem hugurinn girntist. Í þessum þáttum komu Dúbæingarnir sterkir inn og einnig heimilishjálpin þeirra hún Bernadetta frá Filippseyjum sem var vakin og sofin yfir velferð okkar.
Þorvaldsdætur
Fyrirfram hafði ég nú ekki reiknað með stórkostlegri ævintýramennsku af hendi systranna þriggja, sem þarna voru í aðalhlutverki, en þær komu mér talsvert á óvart á ýmsum sviðum og voru í einstaka tilvikum tilbúnar að fara alveg út á brún þægindarammans. Vissulega fengust þær ekki til að stökkva í loft upp í myndatöku í eyðimörkinni, né heldur að stinga sér til sunds í bátsferðinni, en þær klæddust slæðubúnaðinum svikalaust.
Ég var sá eini í þessari ferð sem ekki var blóðtengdur við Dúbæinginn hana frú Áslaugu, en það var hreint ekki látið bitna á mér, nema síður væri.
Flug til Kaupinhafnar
Við rifum okkur upp um miðja nótt til að vera klár í flug eldsnemma að morgni 31. október og það gekk allt eftir, hnökralaust. Mér láðist alveg að fylgjast með flugleiðinni, en veit þó að leiðin lá yfir Svartahaf, sem þýðir að þarna var flogið á milli átakasvæða við botn Miðjarðarhafs og í Úkraínu.
Eðlilega var flugtíminn aðeins lengri en síðast, sem hlýtur að skýrast af því, að við þurftum að keppa við jörðina, sem flutti náttúrulega Kaupinhöfn stöðugt lengra í vestur - æ hættu þessu bulli!
Eðlilega var flugtíminn aðeins lengri en síðast, sem hlýtur að skýrast af því, að við þurftum að keppa við jörðina, sem flutti náttúrulega Kaupinhöfn stöðugt lengra í vestur - æ hættu þessu bulli!
Það var uppgefið fólk sem renndi sér niður á Kastrup flugvöllinn upp úr hádegi, en það þurfti samt að fara í búð, til að birgja sig upp af nauðsynjum, en daginn eftir, 1. nóvember lá svo leiðin heim til eyjarinnar við ysta haf. Allt fór það vel.
Og svo að lokum
Takk fyrir mig, Dúbæingar, fyrir afburða gestrisni og stuðning í þessari fínu ferð. Takk, samferðafólk, fyrir að vera til friðs og ávallt tilbúið að takast á við nýjar áskoranir.
كانت هذه رحلة لطيفة للغاية.