Sýnir færslur með efnisorðinu skjalasafn. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu skjalasafn. Sýna allar færslur

14 apríl, 2019

Skrifum og skilum

Höfundur, árið sem hann varð 7 ára (1960)
og hóf formlega skólagöngu.
(Mynd: Matthías Frímannsson)
7. júní, 1960 hélt Kvenfélag Biskupstungna fund í barnaskólanum að Reykholti. Mættar voru 27 konur. Fundargerð ritaði Guðný Pálsdóttir í Hveratúni, en hún var þá ritari kvenfélagsins.
Ég ætla að grípa niður í áhugaverðan lið í fundargerðinni, en það er Ingibjörg Guðmundsdóttir á Spóastöðum sem talar fyrir umræddu máli. Svo segir í fundargerðinni:
Þá kvaddi sér hljóðs Ingibjörg á Spóastöðum. Bað hún konur að ræða það vandamál hvort þeim þætti æskilegt að senda 7 - 9 ára börn á heimavistarskólann. Komu fram ýmsar raddir og töluðu sumar af eigin reynslu og voru allar sammála um að ekki væri hægt að senda svo ung börn á heimavistarskóla; þau væru engan veginn fær um að hjálpa sér sjálf, hvorki hvað þrifum viðviki né öðru.
Kvað form[aður] þá nauðsynlegt að þau börn sem væru skólaskyld mættu á prófi, a.m.k. einusinni á vetri - helst mánaðarlega, svo hægt væri að fylgjast með að þau lærðu heima. Það væri óviðunandi að börn kæmu í skóla og ættu að fara að læra í bókum, en kynnu hvorki að lesa né skrifa.
Þá var rætt um sundlaugina og álitu konur að það væri ekki vansalaust að hafa hana í því ástandi sem hún er. Auk þess sem það er til stórskammar fyrir sveitina.
Samþykkti fundurinn að senda áskorun til hreppsnefndar varðandi þessi mál.
Á næsta fundi í félaginu, sem var haldinn þann 11. nóvember þetta sama ár á Brautarhóli, þar sem mættar voru 28 konur, var tekið fyrir svarbréf frá formanni skólanefndar. Fundarritari var sá sami:
Lesið var bréf frá formanni skólanefndar, þar sem hann svarar bréfi sem stjórn félagsins sendi skólanefnd varðandi skólaskyldu barna á aldrinum 7 - 9 ára, þar sem m.a. var dregið í efa  að svo ung vön væru skólaskyld í sveitum. Kvað hann, að á síðustu árum  hefði lestrarkunnáttu barna stórhrakað, þar sem mörg börn kæmu í skóla lítt læs og sum alveg ólæs og af þeim erfiðleikum sem þetta veldur börnum við nám kvaddi skólastjóri sjö ára börn í skólann og gerði það með fullum rétti, því að nú eru, lögum samkvæmt, sjö ára börn skólaskyld í öllum föstum skólum bæði í sveitum og kaupstöðum. Kvað hann skólastjóra fúsan  til að veita þessum yngstu börnum undanþágu með því skilyrði þó, að heimilin taki á sig þá skyldu að kenna börnunum lestur, að þau séu sæmilega læs þegar þau koma í skóla 8 ára gömul.
Þá las formaður lestrareinkunnir barna á 7 - 9 ára aldri núna síðustu ár og voru þær hreint ekki glæsilegar. Mátti þar glöggt sjá hvað ástandið er slæmt í þessum efnum.
 Það er sannarlega ekki megintilefni þessa pistils að fjalla um persónulega reynslu mína af fyrstu árunum í heimavistarskólanum í Reykholti. Frá þeim tíma standa upp úr minningar sem ég vil helst gleyma, þó örugglega hafi þar ýmislegt verið ágætt. Margir jafnaldrar mínir hafa ugglaust notið þessa tíma. Það er erfitt á þeim dögum sem við lifum nú, að ímynda sér að börn séu send í heimavistarskóla á þeim aldri sem þarna er um að ræða, hálfan mánuð í skóla og hálfan mánuð heima. Heimilið var, í mínu tilviki í 12 km. fjarlægð.  Svona var þetta bara.

Megintilgangur minn er að vekja athygli á mikilvægi þess, að öll félög, stjórnir og ráð, hverju nafni sem nefnast, haldi góðar fundargerðir og skili þeim síðan í fyllingu tímans á héraðsskjalasafnið.  
Kvenfélag Biskupstungna hefur staðið sig afar vel að þessu leyti.

Mér finnst ástæða til að hvetja alla sem einhverntíma hafa setið í stjórnum félaga eða átt forfeður sem það hafa gert, að ganga úr skugga um hvort mögulegt sé að heima hjá þeim leynist gamlar fundagerðarbækur eða önnur gögn, sem eiga frekar heima á skjalasafni, þar sem efnið er skráð og mun mögulega nýtast grúskurum framtíðar.
Það hefur reynst mér ómetanlegt að hafa komist í allskyns gögn sem varða þau mál sem ég er að veltast í þessi misserin og þar hef ég rekist á gloppur, sem torvelt gæti verið að fylla í, nema gögn finnist og komist í réttar hendur.

Samantekt:
Skrifum góðar fundargerðir og skilum þeim í fyllingu tímans á Héraðsskjalasafn Árnesinga.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...