Sýnir færslur með efnisorðinu Kvistholt. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Kvistholt. Sýna allar færslur

26 október, 2021

Kvistholt: Greypt í stein

 

Hann var þarna, þessi veggur, sem stakk dálítið í augu, mín augu, altso. Það var dálítið með hann eins og svipaðan vegg á dæluhúsi hitaveitunnar. Mér fannst að það vantaði eitthvað á hann. Þetta var vorið 1982, þegar smiðir slógu upp fyrir kjallaranum í Kvistholti. 

Þetta var einum 16 árum áður en lög um listskreytingar opinberra bygginga tóku gildi og sú aðgerð mín sem lýst verður hér fyrir neðan kann að hafa haft áhrif á þá lagasetningu. Ég trúi því bara. 


Þarna var búið að planta út og tiltölulega rólegur tími, milli þess sem einstakir verkþættir byggingarinnar stóðu yfir. 

Mér fannst að eitthvað vantaði á þennan vegg og að endingu varð það úr að ég myndi koma fyrir í honum einhverju varanlegu. Þar með hófst hönnunarferli og í framhaldinu uppsetningarferli, en það hófst á gólfinu í bílskúrshluta pökkunaarhússins í Hveratúni. Ég varð mér úti um lista sem ég heflaði og pússaði, áður en ég mátaði þá við mótið sem ég hafði útbúið á gólfinu.   Þegar allt var klárt þar, merkti ég alla listana svo þeir myndu nú rata á réttan stað ínnan á mótunum.  

Þarna tók síðan við hin eiginlega uppsetning verksins sem síðar var einskonar einkennismerki Kvistholts og Kvisthyltinga. Ég hefði svo sem gjarnan viljað hafa mótað einhverja útgáfu af kvisti þarna á vegginn, en það hefði tekið meiri tíma og verið flóknara í vinnslu.

Uppsetningin á listunum innan á vegginn reyndist ekki sérstökum vandkvæðum bundin, enda hafði ég auðvitað vandað til hönnunar og allrar útfærslu. Hvern lista negldi ég á sinn stað innan á mótin  og var bara harla sáttur í verklok. 

Þessu næst hófst járnabindingin og þá kom innra byrði mótanna og loks var slegið upp undir plötuna, þar sem öll steypa átti að fara fram í einum rykk, 

Þegar plötuuppslátturinn var klár, var jarnabundið af miklum móð, áður en  steypubíllin og kraninn komu frá Selfossi og gæðasteypan var hífð á sinn stað. Allt gekk þetta sérlega vel fyrir sig, en engir aukvisar sem að komu: ættingjar og nágrannar. 

Merkið tilbúið innan á mótunum.


Komið að því að slá upp fyrir plötunni yfir kjallarnum. Þarna er rotþróin komin
og ekki sé ég betur en Þórir Sigurðsson sé að aka fullhlöðnum bíl úr Asparlundi.
Það ver einmitt Þórir sem kom með rotþróna.

Talsverð streita í kringum þetta steypustand, en með góðra manna hjálp fór það allt vel.

Kannski hlakkaði ég mest til að sjá hvernig verkið myndi birtast þegar timbrinu hafði verið slegið utan af veggjunum í kjallaranum, en eins og við mátti búast, var að það vonum. 

Merkið í hvíta rammanum.

Þarna var merkið enn, þegar nýir eigendur tóku við Kvistholti, vorið 2020.

Svo liðu árin og merkið var á sínum stað. Það var bara þarna og það má segja að það hafi einhvern veginn síast inn í undirmeðvitundina. Þannig var það eiginlega aldrei spurning, þegar fD ákvað að fara að kynna þau verkefni sem hún var að vinna að og þegar ég ákvað einnig að merkja mér myndirnar sem ég tók; þetta merki kom strax til skoðunar og úr varð að ég teiknaði það upp til þess arna og þar gegnir það enn hlutverki sínu hjá fD. Ég fór aðeins aðra leið með myndamerkinguna.




10 október, 2021

Ekki var nú fyrirhyggjan neitt sérstök - og þó.

Ekki veit ég hvernig við höfðum hugsað okkur að þetta yrði. Það sem réði var sennilega bara einhver rómantísk sýn á framtíðina. Mögulega trúðum við því í sakleysi okkar, að þetta yrði ekkert mál.  Allavega ákváðum við að stefna að því að fá lóð í Laugarási, reyndar bestu lóðina, og byggja þar hús yfir fjölskylduna, sem enginn vissi hve stór yrði, eða hvort eitthvað það gæti gerst, sem myndi koma í veg fyrir að áform okkar yrðu að veruleika. 
Ef við hefðum vitað, þegar lagt var af stað, hvað beið okkar, veit ég hreint ekki hvort við hefðum lagt í þessa vegferð.  

Þarna var ég að nálgast þrítugt, kennari við Reykholtsskóla og ef kennaralaunin hafa einhverntíma verið  óviðunandi, þá var það á þessum tíma. Ekki áttum við kost á því, að leikskóli tæki við sonunum tveim og þar með var ég eina fyrirvinnan, að stærstum hluta. Þarna, árið 1980 var verðbólgan ekki nema um 30%, sem reyndist bara vera lítið miðað við það sem framundan var og við sáum ekki fyrir. Lán voru vísitölutryggð, eins og nærri má geta.


Gula svæðið sýnir verðbólgu á Íslandi þegar
framkvæmdir stóðu yfir í Kvistholti.
Það var gengið frá því við foreldra mína, að þau væru tilbúin að gefa eftir hluta af landinu úti í Holti, sem tilheyrði Hveratúni. Af sögulegum ástæðum voru þar tveir hektarar um það bil, sem tilheyrðu þeim og við gátum fengið annan þeirra, en þar hafði áður verið fjárhús fjölskyldunnar, kartöflukofi og reykkofi, auk þess sem þar höfðu þau stundað útirækt. 

Svo kem ég að tilefni þess að ég ákvað að reyna að taka helstu þætti þessarar sögu saman, en hún er sú, að ég er þessi árin að renna í gegnum fundargerðir hreppsnefndar Biskupstungnahrepps, meðal annarra. Þar rakst ég á tvær færslur, fyrst þessa frá því 2. október, 1980:
Einbýlishúsin sem við höfðum til afnota
í Reykholti
4. erindi Páls M. Skúlasonar.

Bréf hafði borist frá Páli M Skúlasyni, þar sem hann greinir frá því að hann hafi í hyggju að byggja íbúðarhús á erfðafestulandi Skúla Magnússonar í Hveratúni, miðja vegu milli íbúðarhúsanna í Lyngási og Asparlundi. Einnig óskar hann eftir því, að hreppsnefnd taki afstöðu til möguleika á byggingu gróðrarstöðvar á hluta þessa lands.
Samþykkt var að láta skipuleggja garðyrkjubýli með íbúðarhúsi og garðyrkjustöð á erfðafestulandi Skúla Magnússonar milli Lyngáss og Asparlunds.

Svo kom hin færslan í fundargerðabókinni, en hún er frá 28. desember, 1981:

Fyrsta skóflustungan
2. Erindi Páls M. Skúlasonar

Borist hafð bréf til hreppsnefndar, dags. í Reykholti 28. desember, 1981, undirritað af Páli M Skúlasyni, þar sem hann óskar eftir leyfi til að stofna lögbýli að Laugarási í Biskupstungum.
Hreppsnefnd samþykkti að mæla með því að Páli M. Skúlasyni verði veitt leyfi til að stofna lögbýli á landi því sem hann hefur fengið á leigu í Laugarási, sem áður var hluti af landi Hveratúns.

Þann tíma sem framkvæmdir stóðu yfir í Laugarási, bjuggum við í kennaraíbúð í Reykholti, reyndar bjuggum við tveim, splunkunýjum einbýlishúsum, hvoru á fætur öðru. Fyrst í húsinu sem stendur við Miðholt 3, að ég held, og síðar í húsinu sem kallast nú Miðholt 5.
Þegar stund gafst og á sumrin vorum við mikið í Laugarási,, enda var ekki um annað að ræða en reyna að afla einhverra viðbótartekna. það gerðum við með því að stunda útiræktun í landinu okkar og vinna það sem til féll, t.d. vann ég eitthvað við að aðstoða bróður minn, hitaveitustjórann, við að leggja hitalagnir þvers og kruss um Laugarás.

1981

Hilmar Ólafsson, arkitekt, mældi fyrir húsinu, sem fyrirhugað hafði verið að yrði á einni hæð, en það gat víst ekki orðið vegna þess, að á þessum tíma var búið að setja bann við því að íbúðarhús í Laugarási væru byggð á  botnlausri mýrinni. Það var, af þessum sökum ekki um annað að ræða, en láta teikna kjallara undir hluta af húsinu,  
Fyrsta skóflustungan var tekin vorið 1981 og við tók vélavinna með jarýtu og traktorsgröfu, áður en Böðvar Ingimundarson og hans menn sáu um að slá upp fyrir grunninum. 
Þá hófust svokölluð Marteinsmál, sem snérust um það, að Marteinn Björnsson, sem þá var byggingafulltrúi á Suðurlandi, neitaði að samþykkja teikningarnar. Úr þessu varð mikið argaþras, margar ferðir, margar atlögur  að því að breyta teikningunum svo þær kæmust í gegnum nálarauga Marteins. 

1982 

Á endanum tók með tilstyrk Félagsmálaráðuneytisins, að fá Martein til að gefa eftir, en þá var liðinn heill vetur, þar sem uppslátturinn hafði beðið eftir steypunni. Þetta hafði það í för með sér, að það þurfti að fara yfir mótin og rétta af eftir veturinn, en það tókst að steypa og í hönd fór tími mótaniðurrifs og hreinsunar. 

Svo var bara að drífa þetta áfram. Það var slegið upp fyrir kjallaranum og hann steyptur og þá tók platan, við. Mörg voru handtökin við þetta allt saman. 

1983

Við fengum svo Steingrím Vigfússon, sem hafði þá flutt með fjölskyldu sína í Laugarás og bjó í Lyngbrekku, til að ljúka því að reisa húsið og hans aðkoma að þessu verki varð til þess að þessi bygging varð afar vönduð. Hann kastaði hreint ekki til höndunum, sá ágæti smiður.

Á þessu ári tókst að gera húsið fokhelt. Milli þess sem ég skrapp í Reykholt til að reyna að sinna starfi mínu sem kennari, eyddi ég tímanum í nýbyggingunni. Á þessu sumri var orðið ljóst að fjölgunar væri von í fjölskyldunni, sem var fagnaðarefni, þó tímasetningin hefði mögulega getað verið betri.

1984

Í mars 1984 veiktist yngri sonurinn alvarlega og við tók tími, sem væri sennilega allur í móðu, ef ekki væri fyrir dagbók sem ég færði þessi ár og mun líklega fjalla um einhversstaðar, einhverntíma, endist mér aldur til. 

Í byrjun ársins var komið formlegt leyfi fyrir því að við fengjum að nefna  þennan stað okkar í alheiminum Kvistholt. 
Í lok mars fæddist okkur dóttir, sem var sannarlega gleðiefni á þeim umbrotatímum sem gengu yfir.
Sú aðstoð, sem við fengum þennan tíma, var með þeim hætti að verður aldrei fullþökkuð.  Þarna kom fjölskyldan í Laugarási sterk inn, bræður mínir við húsbygginguna og foreldrar, systir og mágur við að hlaupa til hvenær sem þörf var á, að ógleymdri einstakri aðkomu skólastjórans, Unnars Þórs Böðvarssonar og hans fjölskyldu allri.
Allt gekk þetta og í ágúst fluttum við inn í kjallarann og þann hluta hússins sem sneri fram á hlað og þaðan í frá var Kvistholt heimili okkar.
Það liðu ansi mörg ár þangað til íbúðarhúsið í Kvistholti taldist vera fullklárað. Ætli megi ekki segja að það hafi verið þegar við tókum lán í japönskum yenum, rétt fyrir bankahrunið mikla, til að setja upp þakskegg.

Þau fimm ár ævinnar sem þarna er um að ræða, hef ég litið á sem nokkurskonar eldskírn. Þarna lærðist ótalmargt um tilgang lífsins og það hvað er mikilvægt og hvað það er sem skiptir minna, eða engu máli. 
Sannarlega vildi ég gjarnan búa yfir betra minni um þennan tíma til að geta gert honum almennilega skil. Ég vona bara, að það sama verði hjá mér og mörgu fólki, að eftir því sem árunum fjölgar, opnast betur fyrir það sem reynsla fortíðar hefur komið fyrir á góðum stað í heilabúinu.



11 júní, 2020

Kannski öfgakennd fortíðarþrá.

Nei, þetta er ekki eins slæmt og það hljómar, en einhverntíma, meðan Kvistholt var í svokölluðu söluferli, tók ég mig til, með keðjusögina góðu að vopni, og sagaði niður stubb af furutré, sem hafði staðið í svokölluðum Sigrúnarlundi frá því ég var bara barn í Laugarási, en sem var farið að skyggja á pallinn og draga þannig úr möguleikum á sóldýrkunartjáningu okkar Kvisthyltinga.  
Þegar þetta tré hafði verið fellt fyrir einum sjö árum var skilinn eftir um það bils meters stubbur af þessu tré og ég hafði alltaf ætlað mér að saga þennan stubb niður, en það hafði frestast, eins og gengur.

Ég, sem sagt sagaði niður þennan stubb, en í framhaldi af því datt mér í hug, að það gæti verið gaman að taka með, þegar kæmi að flutningum, einhverskonar minjar um trjágróðurinn í Kvistholti. Því varð það úr að ég sagaði stubbinn í sneiðar, sem síðan voru með því fyrsta sem við fluttum á Selfoss.

Ekki hafði ég svo sem ákveðið neitt um hvað gert yrði við þessar furusneiðar - var búinn að ímynda mér einhverskonar minnismerki um fyrri tíð, verk sem myndi ætíð minna okkur á áratugina í Kvistholti. 

Síðan lágu þessar sneiðar hér fyrir utan á nýja pallinum og biðu örlaga sinna. 

Það þurfti að setja upp lampa í hjónaherberginu, því lampalaus getur maður ekki verið. Auðvitað var þarna um að ræða sömu lampa og voru í Kvistholti, hvernig gat annað verið?

Svo gerðist það fyrir nokkrum dögum, að fD varpaði fram ígrundaðri hugmynd sinni um að nýta furusneiðarnar í tengslum við uppsetningu lampanna í hjónaherberginu. Ég veit ekki hvað mér fannst um þá hugmynd til að byrja með, en smám saman fór ég að sjá fyrir mér leið til að láta hugmyndina raungerast. 
Svo fór undirbúningurinn af stað, og í framhaldi af honum framkvæmdin. Þarna kom WORX-inn í góðar þarfir. Fyrst juðað með mjög grófum og síðan fínum, svo rykhreinsað, þá lakkað, síðan pússað og loks lakkað tvisvar.  Festingaferlið hafði ég á þeim punkti hugsað allt til enda, eins og maður á að gera, enda gekk allt eftir, eins og upp var lagt með. 

Það er ekki amalegt að hugsa sér, að það síðasta sem maður sér fyrir svefninn en sneið af Kvistholti og það er einnig það fyrsta sem maður sér að morgni. 


Nei, þið sem teljið að nú sé heldur langt gengið í þránni eftir því sem var - hér er allt í góðu og við fD erum óðum að ná betri tökum á þeirri nýju tilveru sem við höfum komið okkur í.   Það er hinsvegar gaman að eigna minningar og eitthvað sem kveikir á þeim við og við. 
Það er nefnilega þannig, að ef ekki væri fyrir það sem var, þá væri ekkert núna, og heldur engin framtíð. Okkur er hollt að hafa það bak við eyrað.

30 maí, 2020

Þetta smáa

Við fD erum flutt úr Kvistholti, sem er í sjálfu sér frétt, allavega hvað okkur varðar, skiptir aðra líklega minna máli.
Það er nefnilega þannig, að fólk flytur og sjaldnast telst það einhver stórfrétt.
Þrátt fyrir lítið fréttagildi þessara umskipta, eða umturnunar á lífi okkar, má halda því fram að hvert einasta litla skref, eða atriði sem tengist þessum flutningum, sé þess virði að halda því til haga.

Þegar maður hverfur úr talsvert stóru einbýlishúsi eftir tæplega fjögurra áratuga dvöl og tekur sér bólsetu í tiltölulega lítilli blokkaríbúð í öðru sveitarfélagi, er að ýmsu að hyggja.
Verkefnið sem við blasir, er að finna öllu því stað , sem ekki hlaut þau örlög að hverfa ofan í gám í Vegholtinu. Þetta verkefni er stærra en margur kann að hyggja, ekki síst þegar um er að ræða að koma fyrir því sem búrið og eldhússkáparnir í Kvistholti geymdu. Vissulega eru skáparnir margir og rúmgóðir á Austurveginum á Selfossi, en það, í sjálfur sér leysir ekki þann vanda sem við blasir: að koma þar öllu fyrir, þannig að vel sé aðgengilegt og henti íbúunum, helst ekki síður en áður var.

Ég veit það, af áratuga reynslu, að ég telst ekki hæfur til ákvarðana af því tagi sem þarna er um að ræða. Hefði ég farið að raða í skápana, hefði það leitt til allskyns spurninga og upphrópana, eins og: Afhverju er þetta hér? Hvernig datt þér í hug að setja þetta hér? Það er alveg glatað að hafa þetta hér!
Ég veit nú ekki hvað þú varst að pæla, eiginlega!
Af þessum sökum, hallaði ég mér í sófann, meðan fD tíndi upp úr flutningagrindunum og inn í skápana eftir einhverju kerfi, sem hún hafði búið til í höfði sér og sem ég vissi ekkert um hvert var, fyrr en eftir á. Þessi aðgerð tók dágóðan tíma og mér fór jafnvel að renna í brjóst í sófanum meðan hún stóð yfir.
Svo lauk verkinu.
Svo kom að því að mig langaði í kaffi og eins og hver maður getur ímyndað sér fann ég það hvergi. Ég opnaði skáp eftir skáp, eftir skáp, bæði útdregna og með hurðum, en ekkert fann ég kaffið. Leitinni lauk þannig að ég stóð þarna fyrir framan óræða eldhúsinnréttinguna og braut heilann með það að markmiði að freista þess að komast inn í hugarfylgsni fD: Hvar er líklegast að hún hefði sett kaffið?
"Hvað vantar þig?" hljómaði spurningin upp úr kaplinum.
"Mig vantar kaffið. Hvar tókst þér eiginlega að koma því fyrir?"
"Nú, auðvitað er það þarna í efri skápnum vinstra megin við eldavélina!"
Hvar annarsstaðar svo sem?
Ég fékk svo útskýringu að kerfinu sem fD hafði beitt við að raða í skápana (allavega sem eru í þeirri hæð sem hún getur teygt sig í).
Kerfið hljóðar, í sem stystu máli upp á, að allt var sett á hlutfallslega sama stað og það hafði verið í Kvistholti. Það tók mig ekki langan tíma að átta mig á ýmsum göllum á þessu kerfi. Bæði er það svo, að í Kvistholti er vaskurinn vinstra megin við eldavélina, öfugt við Austurveg og að allt það sem var í búrinu í Kvistholti þurfti nýjan og fordæmalausan stað á nýjum stað.

Þetta kerfi á sjálfsagt eftir að venjast, en enn þarf ég að beita talsverðri hugarleikfimi til að komst hjá því að opna alla skápa í eldhúsinnréttingunni ef mig vantar eitthvað af einhverju.

Svo er það þetta með vangavelturnar um það hvort rafmagnið á Selfossi fari hægar en rafmagnið í Kvistholti, en þær vöknuðu þar sem beðið var eftir að suðan kæmi upp í hraðsuðukönnunni.

--------

Í gær gengum við frá kaupsamningi vegna sölu á Kvistholti og afhentum nýjum eigendum formlega.  Kaupendurnir eru þau Anna Margrét Elíasdóttir og Árni Ingason, en þau flytjast úr Kópavogi á þann fagra og ljúfa stað, sem þorpið í skóginum er.

23 maí, 2020

Tími breytinga


Fardagar voru þeir dagar ársins sem fólk skyldi flytjast búferlum af einni jörð á aðra og átti það fyrst og fremst við um leiguliða. Þeir voru frá fimmtudegi í sjöundu viku sumars íslenska misseristalsins á tímabilinu 31. maí til 6. júní í Nýja Stíl og lauk með sunnudegi. Voru þeir því um miðjan skerplu samkvæmt misseristalinu og lok vors og upphaf sumars samkvæmt Snorra-Eddu.
Ekki er vitað hvenær þessi siður var fyrst tekin upp það er að allir skyldu flytjast búferlum af einni jörð á aðra á sama tíma árs sem þó augljóslega er mikið hagræði af. En svo gömul er þessi hefð að fardagar eru nefndir í íslenskum fornritum og kemur þar fram að þeir tíðkuðust einnig í Noregi og líklega víðar og voru því ekki bara bundnir við Ísland. /íslenskt alamank
Kvistholt 1984
Lóðina fengum við þegar foreldrar mínir afsöluðu sér svæðinu sem þau höfðu þurft að taka á leigu þegar þau gerðu Hveratún að lögbýli, eftir að þau komu sér þar fyrir 1946. Þarna byggðum við okkur síðan hús  sem við fluttum í haustið 1984 og  1988 byggðum við þarna gróðurhús.
Þetta var nú þá.

Svo liðu árin og börnin uxu úr grasi, hægt og hljótt og flugu síðan úr hreiðrinu eitt af öðru og að því kom að við hættum að hafa þörf fyrir gróðurhúsið og stóran hluta íbúðarhússins.
Þarna vorum við þá orðin ein eftir í talsvert stóru einbýlishúsi, eigendur gróðurhúss, sem við vorum hætt að nota. Það var í rauninni ekkert sem átti að koma í veg fyrir að við kæmum okkur í hæfilegra húsnæði, þar sem við þyrftum ekki að ganga framhjá tómum herbergjum til að komast á milli þeirra hluta hússins sem við þó notuðum. Ég held að þetta sé saga margra, einfaldlega vegna þess að svona gengur þetta líf nú fyrir sig.
fD byggir gróðurhús
Við vildum í rauninni ekki fara úr Laugrási - ég vegna þess að þar fæddist ég og ólst upp og  fD, sem hafði sætt sig við að setjast þar að með mér, hafði fest þar talsvert djúpar rætur.
Það hefur ekki farið á milli mála, að Laugarás skipti og skiptir okkur miklu máli og því sambandi er ekki lokið.

Það tók okkur nokkur ár að komast að þeirri niðurstöðu, að stefna að því að færa okkur um set og ýmislegt kom til greina, svo sem. Stærsta ákvörðunin var að fara, hin var einhvernveginn auðveldari, þar sem fD hafði ákveðnar skoðanir á því hvar hún vildi ekki koma sér fyrir. Ég greini ekki frá nöfnum þeirra bæja vítt og breitt um landið, sem ég hef stungið upp á, en sem hefur jafnharðan hefur verið hafnað. Það geri ég þeirra vegna, enda ágætis bæir, flestir hverjir.

Það varð á endanum niðurstaða um það, þegar skynsemin og raunsæið hafði náð yfirhöndinni, að leggja í það ferli sem sala á svona hjartastað felur í sér. Það ferli hefur tekið meira á en ég, í það minnsta, hef tjáð mig mikið um. Þetta reyndist verða tími biðar og óvissu og lengri en við höfðum gert ráð fyrir í upphafi. Skildum bara ekkert í fólki að stökkva ekki á þá dásemd sem þarna er um að ræða.  Auðvitað hafði maður líka skilning á því að svona kaup færi enginn út í nema að vel athuguðu máli og allt það.

Nýtt heimili.
Nú erum við flutt með hafurtask okkar á staðinn sem ég hef oft kallað höfuðstað Suðurlands. Þessir fyrstu dagar hérna eru talsvert óraunverulegir. Það er eins og við séum bara á ferðalagi, en munum síðan í lok þess, snúa aftur heim. Það er hinsvegar sannarlega ekki svo. Hér erum við í óða önn að koma okkur fyrir og ég stelst í smá pistlaskrif til að hvíla hugann frá einhverjum verklegum framkvæmdum.
Svo þarf að fara í búð, sem er með fyrirkomulagi sem er nokkuð ný reynsla. Þó hér séu uppi hugmyndir um að haga búðarferðum bara eins og þegar við vorum í Kvistholti, þegar farið var í kaupstað einu sinni í viku að jafnaði, er óljóst enn hvernig fer með það. Ég bíð spenntur framtíðarinnar að þessu leyti.

Höfundur á ballárum. Mynd: Eiríkur jónsson
Hvernig er það svo að vera orðinn Selfyssingur? Það er góð spurning, sem ég treysti mér ekki til að svara sjálfum mér, enn sem komið er.  Á Mánaböllunum í gamla daga voru það alltaf Selfyssingar sem stóðu fyrir slagsmálunum (þannig var allavega rætt um það). Ég hef ekki rekist á slagsmálafólk hér, ennþá, og reikna ekkert sérstaklega með að svo verði. Margt ágætis fólk býr á Selfossi (ég segi það ekki vegna þess að ég óttast að verða barinn) - í það minnsta það fólk sem ég þekki til hér.
Vissulega verður maður minni hérna - með þvi að flytja úr 120 manna þorpi í tíuþúsund manna bæ. Líklega má telja það bara harla jákvætt, að mörgu leyti.



Svo er það þetta með fuglana á pallinum.
Þeirra mun ég sakna talsvert, söngvanna inn á milli trjánna, slagsmála þeirra á fóðurpallinum, tístsins í ungunum á vorin, varnaðarhrópa þrastanna þegar köttur nálgast, ánægjusöngvanna þegar þeir sitja mettir uppi í tré eftir góða máltíð, dynsins sem hundruð snjótittlinga valda þegar þeir taka á loft, allir sem einn ......
Ég þarf bara að finna mér nýja fugla og er þegar kominn með lílega kandídata. Framhjá hafa, síðustu daga, streymt glæsikerrur með splunkuný hjólhýsi og svei mér ef það er ekki bara nokkuð gaman að fylgjast með þegar nýju hjólhýsaeigendurnir reyna að komast áfram í umferðinni fyrir utan gluggann minn.
Hvert skyldu þeir vera að fara?
Ætli þeir komi við í Bónus?
Hvað ætli svona hjólhýsi kosti?
Hve miklu máli skyldi það skipta stolta eigendurna, að vera með svona falleg hjólhýsi í eftirdragi?  Svona er hægt að velta ýmsu fyrir sér, en ég mun líklega ekki taka upp á því að sitja með EOS-inn á nýja pallinum mínum og taka myndir af spegilgljáandi hjólhýsum farfuglanna úr borginni.

Það sem skiptir nú mestu nú, er ekki endilega umhverfið, sem við eigum eftir að aðlagast betur, heldur aðstaðan - þessi fína nýja íbúð, sem er bara með herbergjum sem við notum á hverjum degi, með palli sem er jafnstór pallinum í Kvistholti, bara tveim hæðum ofar.

Mig grunar að þetta verði bara harla gott og á örugglega eftir að fara betur yfir ýmsa þætti þessa nýja lífs síðar.

23 apríl, 2020

Sjálfum okkur næg

Aftast á myndninni eru Ellý, frænka úr Vestmannaeyjum
og móðir mín, Guðný Pálsdóttir. Þar fyrir
framan er Ella frænka (formaður félags eldri
borgara í Biskupstungum) og síðan ég sjálfur.
Fremst stendur Magnús bóndi í Hveratúni.
Ég fæddist inn í garðyrkjuna, en sannarlega ætla ég ekki að halda því fram að störfin sem mér var ætlað að sinna á garðyrkjustöð foreldra minna á æskuárum hafi verið sérlega skemmtileg; planta út, binda upp, brjóta þjófa, blaða, hreinsa götur, tína, vökvar (með slöngu), planta út. Nei, mér fannst þetta ekki neitt sérstaklega áhugaverð vinna, en hún var nú bara hluti af því að tilheyra svona fjölskyldu.
Það sem hefur eiginlega valdið mér einna mestum vangaveltum, þegar ég horfi til baka í samhengi við nútíma garðyrkju er, hvernig foreldrar mínir fóru að því að lifa af og ala upp 5 börn á ekki stærri garðyrkjustöð en Hveratún var.  Það var engin lýsing í gróðurhúsum og því lauk ræktun í október og það fór ekki að koma uppskera aftur fyrr en í apríl eða maí. Þetta þýddi að 5 mánuði ársins (svona um það bil) voru engar tekjur af þessum rekstri. Ég skil þetta ekki alveg enn.


Grunnur að gróðurhúsi í Kvistholti steyptur.
Ásamt mér sjálfum ber ég þarna kennsl á soninn
Þorvald Skúla og Skúla Sæland með hjólbörur.
Það leit  lengi vel ekki út fyrir að ég kæmi nálægt garðyrkju eftir að ég hleypti heimdraganum, en það æxlaðist samt þannig, að 1988 byggðum við, Kvisthyltingar 400 ferm gróðurhús, blokk, og hófum að rækta papriku, meðfram öðrum störfum. Þetta kom sér sannarlega vel, þar sem tekjur að aðalstarfi mín voru í mikilli lægð og svo virtist sem það starf þætti ekki ýkja mikilvægt í samfélaginu.
Þessi paprikuræktum bjargaði okkur sannarlega, en hafði það augljóslega í för með sér, að enginn varð frítíminn. Jólafríið fór í að hreinsa húsið, síðan fóru allar helgar í að sá, potta og planta út,  páskfríið fór í að sinna plöntum og sumarfríið frá kennslunni var undirlagt, eins og nærri má geta, því þá var uppskerutíminn.

Kvistholtshjón vinna vorverk í gróðurhúsinu.
Þetta "vinnurugl" var látið ganga fram undir aldamót, en þá var þráin eftir sumarfríi orðin of mikil, auk þess sem tekjuflæðið inn á heimilið orðið umtalsvert betra.
Þriðji þátturinn, og sá mikilvægasti, ef til vill, sem varð til þess að við hættum paprikuræktuninni var sá, að innflutningur á papriku var orðinn hömlulaus. Þetta hafði það í för með sér, að verslanirnar fóru að selja erlendu paprikuna fyrst og þá íslensku þegar upp á vantaði. Sölufélagið seldi svo elstu paprikuna á lagernum í búðirnar, þannig að þaðan kom alltaf gömul og jafnvel krumpuð, íslensk paprika, sem rétt  má ímynda sér að féll neytendum ekkert sértaklega vel í geð. Þar fyrir utan, auðvitað, var íslenska paprikan umtalsvert dýrari en sú innflutta og hver maður, sem vill á annað borð, getur ímyndað sér hversvegna það var nú.

Fjölskyldan tók öll þátt, hver með sínum hætti. Þarna eru
Brynjar Steinn og Guðný Rut að vinna við papriku vorið 1990
Því sem ekki tókst að koma út með þessum hætti var svo hent og það var kallað afföll.  Þetta var nefnilega þannig, að innflutninginn þurftu innflytjendur að greiða fyrir og tapið af því sem ekki seldist lenti á versluninni. Því var henni meira í mun að selja hann en íslensku vöruna, því það sem ekki seldist af innlenda grænmetinu fór í afföll (var hent), eins og það var kallað. Verslunin þurfi ekki að taka þátt í þeim afföllum, það þurftum við, ræktendurnir, að gera.

Eins og hver maður getur ímyndað sér, þá er ég nú loksins kominn að því sem varð kveikjan að þessum pistli á sumardaginn fyrsta, árið 2020, í miðjum heimsfaraldri; faraldri sem ekki sér fyrir endann á, en hefur orðið til þess að ég og sennilega flestir íbúar jarðarinnar, veltum fyrir okkur hvaða áhrif verða af þessu stóráfalli sem nú ríður yfir okkur.

Það voru líka ræktaðar gulrætur um tíma. Þarna brjóta fD og
Brynjar Steinn af  sumarið 2002.
Mín niðurstaða, eða bráðabirgðaniðurstaða, í það minnsta er sú, að við þurfum að fara að hægja aðeins á okkur, ekki bara aðeins, heldur bara alveg heilmikið. Þar er sannarlega að mörgu að hyggja.

Lega þessa lands okkar er þannig, að sumt getum við, en annað getum við ekki.
Við getum framleitt nóg af papriku fyrir okkur og þess vegna eigum að ekki að flytja inn papriku.
Við getum framleitt ísmola og þessvegna eigum við ekki að flytja inn ísmola.
Við getum framleitt nóg af lambakjöti fyrir okkur og þessvegna eigum við ekki að flytja inn lambakjöt.
Við getum ekki framleitt bíla (enn) og þess vegna skulum við flytja inn bíla.
Við getum ekki framleitt tölvuskjái (enn) og þess vegna skulum við flytja inn tölvuskjái. 
Við getum ekki framleitt myndavélar (enn) og þessvegna skulum við flytja inn myndavélar.

Þorvaldur Skúli bindur upp papriku árið 2002.
Það eru ótal ástæður fyrir því, að við eigum nú að stefna að því að verða sjálfum okkur nóg um allt það sem við getum framleitt sjálf. Þar er ekki síst um að ræða matvæli af ýmsu tagi.

Ég þykist vita að til séu þeir sem hafa ýmislegt að athuga við hugmyndir um að stöðva innflutning á matvælum sem við höfum fulla getu til að framleiða sjálf. Það veit ég, að útfærsla á svona hugmyndum er ekkert endilega  einföld, enda ekkert æskilegt að hún sé það.  Mikilvægur þáttur í að hrinda þeim í framkvæmd er, að hætta að hlaupa eftir kröfum innflytjenda um afnám tolla á matvæli. Þeir hafa, að mínu mati, fengið að vaða upp alltof lengi og í alltof miklum mæli. Þegar þeir svo þykjast bera hagsmuni neytenda fyrir brjósti, þá veit ég, að þeir eru að verða rökþrota.  Í þeirra huga snúast kröfurnar hreint ekki um neytendur, heldur hagsmuni þeirra sjálfra.

Við getum ræktað nóg af grænmeti fyrir þessa þjóð og við getum gert það á lægra verði. Til þess þurfum við að búa til aðstæður sem gera það kleift og þar skiptir, til dæmis, raforkuverð miklu máli; vistvæn raforka sem nóg er til af, sem hægt væri að selja á miklu lægra verði en gert er, jafnvel svipuðu og stóriðan greiðir fyrir þessa auðlind okkar.

Hvað með alþjóðasamninga og tollfrelsi eða hvað þetta kallast allt saman? Svar mitt við því er einfalt: flytjum inn það sem við getum ekki séð um að framleiða sjálf, bæði okkar vegna og  umhverfisins vegna. Þær aðstæður sem uppi eru núna: veirufaraldur sem skekur heimsbyggðina og bætist þannig við vaxandi loftslagsvá, ættu að kenna okkur, að hver þjóð verður að vera sjálfri sér næg um þá þætti sem stuðla að því að hún lifi af mögulegar hamfarir. Sú þjóð sem ekki áttar sig á þessu, er ekki í góðum málum.

Verum sjálfum okkur næg.

Gleðilegt sumar og þakkir til ykkar 
sem kíkt hafið að þennan litla miðil minn, á liðnum vetri.

Farinn að nálgast það að ljúka ævistarfinu.
Skúli Magnússon, garðyrkjubóndi í Hveratúni
tínir steinselju.


14 maí, 2019

Takk fyrir matinn (998)

Það verða að teljast forréttindi að rölta út á pall á svona morgni og sitja þar um stund, baðaður í þakklæti fugla himinsins; þakklæti fyrir matinn á liðnum vetri, þakklæti fyrir að hafa ekið nánast sérstaka ferð í kaupstað þegar fóðrið var upp urið, þakklæti fyrir að þrífa eftir þá með háþrýsitidælu, úrganginn og kornið sem þeir dreifðu um allan pall, þakklæti fyrir að fá að brosa ítrekað í myndavélarauga og verða þannig ódauðlegur - um stund.
Þakklæti til mín fyrir að vera ég.

Þakklætið sýna þeir með því að syngja fyrir mig, hver með sinni rödd svo undir tekur í skóginum allt um kring, með því að flögra í fögnuði sínum yfir blíðviðrinu og einfaldlega lífinu, með því að atast við matborðið og þykjasr vera ógnandi og reiðir hver við annan, með því að tylla sér á grein og skanna svæðið og tryggja að af mér stafi engin ógn, áður en þeir láta vaða í eplið eða sólblómafræið, eða maískornin.

Auðvitað veit ég að þeir eru mér ekkert þakklátir. Það gæti varla verið fjær hugsun þeirra eða ætlan, að ímynda sér að mér beri einhverjar þakkir, að þeirra mati.
Þeim finnst það vera réttur sinn og aldeilis sjálfsagt að hafa aðgang að mat á þessum stað, dag hvern.
Þeir eru bara að hugsa um sjálfa sig, í fullu samræmi við það eðli sem í þeim býr.

Þeir eru ekki að syngja fyrir mig, heldur fyrir þann eða þá sem þeir vilja makast við.
Svo held ég nú líka að veðrið hafi mikil áhrif á söngþörfina.

Ég veit það fullvel, að þeir eru ekki að syngja fyrir mig, en það getur enginn láð mér þó ég túlki lífsgleði þeirra sem þakklæti sem beinist að mér.
Aðeins mér.
Það er minn réttur.

(þetta er prósaljóð, ef einhver skildi telja það vera eitthvað annað)

07 nóvember, 2016

Með hálfum huga

'Furðufuglar" með nýju merkingunni.
Hver er mögulegur tilgangur minn með því að auglýsa sjálfan mig?
Þykist ég hafa eitthvað fram að færa umfram aðra?
Er ég með þessu að sýna af mér samskonaar innræti og faríseinn í Biblíunni?
Þetta eru mikilvægar spurningar þegar maður spyr sjálfan sig þeirra þar sem maður stendur frammi fyrir því að ákveða hvort maður opinberar verk sín fyrir öðru fólki.

Fyrir nokkru hélt fD sýningu á myndverkum sem hún hefur unnið að undanfarin ár. Þetta gerði hún eftir mikla umhugsun og vangaveltur af því tagi sem nefndar eru hér fyrir ofan. Lét vaða og það sem meira er, henni tókst að draga mig inni í málið einnig.

Sýningin gekk glimrandi vel og nú er frúin nánast horfin inn í dyngju sína til að freista þess að vinna upp lagerinn sem tæmdist.  Tenórsöngurinn sem oftast hefur verið í bakgrunni er hljóðnaður um stund.

"Verð ég ekki að setja upp einhverja síðu?" var óhjákvæmileg spurning í kjölfar sýningarinnar. Svarið var einnig óhjákvæmilegt. Og framkvæmd verksins einnig.
Nú er hafin uppestning á galleríi í kjallaranum í Kvistholti.
Auðvitað mun það heita 'Gallerí Kvistur'
Sem fyrr þegar ég fæ spurningar, tæknilegs eðlis frá fD, kemur svar mitt: "Ég veit ekkert hvernig það er gert". Spurningin hljóðnaði samt ekki og ég fór að prófa mig áfram og komst fljótt að því, að enginn þeirra möguleika sem boðið var upp á passar við það sem um var að ræða.  Valdi þar með bara einhvern sem gat ekki verið langt frá því rétta.

Það var ekki um að ræða að mynd af fD yrði gerð að prófíl mynd síðunnar, en hún reyndist ekki í vandræðum með að finna lausn á því máli: "Getum við ekki bæði notað þessa síður og merkið sem þú bjóst til?"  og þar með var ég orðinn virkur þátttakandi í innihaldi þessarar kynningarsíðu. Þarna skyldu sem sagt vera myndverk okkar beggja, sitt á hvað undir vörumerki Kvisthyltinga, en það hannaði ég fyrir rúmum þrjátíu árum og gerði grein fyrir tilurð þess hér.  Merkið hef ég síðan notað til að merkja ljósmyndir sem ég hef dundað mér við að taka og vinna úr síðan. Nú fékk þetta merki nýtt og mikilvægt hlutverk: að fylgja öllum myndverkum fD héðan í frá.

Það þarf ekki að orðlengja það, en í morgun var síðunni https://www.facebook.com/kvisturart/ varpað út í alheiminn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég neita því ekki að það bærðust með mér ýmsar hugsanir þar sem ég sat frammi fyrir því að hefja útgáfuna, en lausnarorðin voru, á nútímamáli, en aðeins í huganum: "Fokkitt" og þar með smellti ég á fyrsta mögulega gestinn á síðunni.

Úr því ég er blandaður í málið hlýt ég að birta hér mynd
af minni mynd. Hún ber nafnið 'Verkfallsórar' máluð í
síðasta verkfalli ævi minnar í mars 2014.
Ég hef látið þess getið að mynd þessi sé föl fyrir
ISK350000. Þetta er akrýlmynd 140x130 cm.

13 október, 2016

PR í molum


Það er, eins og hver maður getur ímyndað sér, óskaplega mikilvægt, þegar maður þarf að koma einhverju á framfæri, og renna yfir þá möguleika sem í boði eru, og sem geta leitt til þess að markhópur manns viti yfirleitt af því sem maður ætlar að fara að gera og sem maður vill að sem flestir viti af.
Ég er búinn að vera í hlutverki PR-manns, sem kallast á íslensku "almannatengill", undanfarnar vikur. Ég hef þurft að koma fram með hugmyndir að myndefni og texta sem þykir við hæfi og ég hef haf með höndum að koma þessu efni á framfæri með slíkum hætti að enginn gæti sagt síðar að hann hafi ekki vitað af viðburðinum.
Þetta hefur gengið svona fyrir sig:


1. Ég bjó til samsetningu sem ég skellti sem forsíðumynd á viðburðarsíðu á samfélagsmiðlinum Facebook. Ég deildi þeim viðburði síðan og þannig hafa þeir sem teljast til fina (facebookvina) minna fengið veður af viðburðinum.

2. Ég útbjó auglýsingu í Bláskógafréttir vel tímanlega og hún birtist síðan með pomp og prakt í nýjasta eintaki. Ágætur miðill, Bláskógafréttir, þar sem auglýsingar kosta ekkert og öll heimili í Bláskógabyggð fá eintak.

3. Ég óskaði eftir því við tvö helstu héraðsfréttablöðin á Suðurlandi að þau birtu fréttatilkynningu fyrir mig, með mynd og litlum texta.
Þessi þáttur fór alveg í vaskinn, utan það að fréttatilkynningin birtist í morgun á Sunnlenska.is.
  a. Ég svo sem skil það alveg að annar sunnlenski prentmiðillinn sem ég hafði samband við, sem byggir tilveru sína á auglýsingatekjum alfarið, birti ekki fréttatilkynningar si svona, enda gerði hann það ekki. Mér hefði þótt vænt um að vita af höfnuninni svo ég gæti þá leitað annarra leiða.
  b. Ég þykist hafa vissu fyrir því að fréttatilkynningin kemur í hinum prentmiðlinum, en þar er sá hængur á, að það vill svo til að póstur er ekki borinn út í Biskupstungum á föstudegi í þessari viku og þar með kemur það blað ekki fyrr en eftir helgi.

Textinn sem átti að birtast í prentmiðlunum er svohljóðandi:


Dröfn Þorvaldsdóttir, Kvistholti í Laugarási, heldur fyrstu einkasýningu á verkum sínum í Oddsstofu í Skálholtsbúðum helgina 15. – 16. október, næstkomandi. Sýningin verður opin frá kl. 12:00 til 16:00 báða dagana.

Á sýningunni eru verk sem Dröfn hefur unnið að frá árinu 2010, að stærstum hluta akrylmyndir, en einnig verk unnin í leir og á bolla. Hrosshár koma talsvert við sögu í verkunum. Dröfn er að mestu sjálfmenntuð í listsköpun en hefur sótt námskeið bæði hérlendis og Danmörku.

Dröfn, sem er leikskólakennari að mennt, fagnar stórafmæli á þessu ári og eru þau tímamót ekki síst tilefni sýningarinnar. Hún hefur búið í Biskupstungum frá 1979, þar af í Laugarási frá 1984.

Hér situr almannatengillinn og fær fáar hugmyndir til viðbótar til að koma sýningu frúarinnar á framfæri. Hann gæti auðvitað hringt inn í símatíma á útvarpsstöðvum, skellt inn einhverjum kveikjum á Twitter (sem hann hefur nú ekki komist upp á lag með að nota), beitt sér á Instagram eða Snapchat, eða einhverju öðru slíku, sem hann á langt í land með að tileinka sér svo vel.

Hugmyndaflug mitt við þessar aðstæður leiðir mig bara að þeirri niðurstöðu að ég þurfi að leita til velviljaðra vina minna um að deila viðburðasíðunni þar sem greint er frá því sem þarna er um að ræða.   Nú velti ég því fyrir mér hvort það er vel gert.


14 ágúst, 2016

Ég hef varann á mér

Dröfn Þorvaldsdóttir: Drög að leirtauslínu
Það fer ekki mikið fyrir henni í dyngjunni, svona alla jafna. Endrum og eins berast tenóraríur úr hljómtækjunum þarna inni, sem merki um að litir snerta flöt í erg og gríð.
Innan dyra í dyngjunni safnast fyrir myndverk af ýmsu tagi: hefðbundin akrýlverk á striga, hrosshársstungin akrýlverk, leirfígúrur og lampaskermar. Það er oftast þegar lítið er orðið um striga að hún leitar á önnur mið og úrval þeirra flata sem verða fyrir valinu eykst stöðugt. Nú síðast er það leirtau, eins og það sem sjá má á meðfylgjandi mynd. Harla fínt, auðvitað.

Ég dunda mér í minni skonsu, eins og gengur, alveg með það á hreinu, að ef hún finnur ekki hefðbundinn flöt til að mála á, þá fái hún ekki að mála á mig.

02 ágúst, 2016

Í bráðri lífshættu

Dæmi um límmiða á stiganum
Á fyrstu árum áttunda áratugs síðustu aldar var sumarvinnan mín brúarvinna og eftir mig liggja allmargar merkar brýr, svo sem nærri má geta. Ætli tvær þær eftirminnilegustu séu ekki brúin yfir Þjórsá fyrir ofan Búrfell og brúin í botni Skötufjarðar á Vestfjörðum hún hefur nú vikið fyrir annarri og nútímalegri, sem styttur leiðina fyrir fjarðarbotninn).
Á vorin tók það aðeins á fyrstu dagana að príla upp í stillansana og ógnvænlegt, mögulegt hrap niður í straumhart jökulfljót, eða grjótharða klöpp blasti við. Lofthræðslan rjátlaðist fljótlega af manni og  áður en varði var maður farinn að príla upp og niður, þvers og kruss án þess að leiða hugann að einhverju mögulegu falli. Þarna var ég nokkuð yngri en nú; menntaskólagaur, eitthvað liprari, léttari og óvarkárari.
Þar með vippa ég mér fram í tímann um vel á fimmta tug ára, til dagsins í dag.

Það lá fyrir að það þurfti að bera á húsið á þessu sumri og ekki hefur nú vantað blíðviðrið til þess arna. Heimadveljandi Kvisthyltingar gengu í verkið og auðvitað var byrjað á þeim hlutum hússins sem auðveldastir eru, en þar kom að ekki varð því frestað lengur að takast á við þá hliðina sem fram á hlaðið snýr. Af ókunnum ástæðum kom það í minn hlut að sjá um að bera á þennan hluta, allavega efri hluta hans ("Ég skal reyna að bera á undir gluggunum" - var sagt). 
Auðvitað var mér það vel ljóst, að ekki yrði um að ræða að fresta verkinu út í hið óendanlega og því fékk ég mikinn álstiga að láni hjá Hveratúnsbóndanum. Þessi stigi getur verið langur, alveg ógnarlangur. Svo langur að framleiðandinn hefur, örugglega í ljósi reynslunnar, klístrað á hann límmiðum hvar sem við var komið, með varnaðarorðun og nánast hótunum um slys eða dauða ef ekki væri rétt farið með stigann.
"HÆTTA. Ef leiðbeiningar á þessum stiga eru ekki lesnar og þeim fylgt, getur það leitt til meiðsla eða dauða", er dæmi um lesefni á límmiðunum. Ég játa það, að lesefnið var ekkert sérlega hvetjandi, þvert á móti.
Þó svo í gegnum hugann hafi þotið leiftur um allskyns fall með eða úr stiganum, þar sem ég myndi t.d. ligg, fótbrotinn, handleggsbrotinn, nú eða höfuðkúpubrotinn á stéttinni, leiddi ég þau hjá mér af fremsta megni. Fjandinn hafi það, ég hafði klifrað upp þennan stiga áður til að mála þennan sama gafl, og mundi óskaplega vel eftir tilfinningunni.

Til að orðlengja það ekki og kynda þannig undir frestunaráráttunni, þá stóð ég við stigann með málningarfötu og pensil í annarri hönd/hendi. Hinn endi stigans var einhversstaðar þarna hátt uppi, svo hátt, að hann mjókkaði eftir því sem ofar dró. Efst mátti greina mæninn, tveim hæðum, plús hæð rissins ogar jörðu. Uppgangan hófst, hægri fótu upp um  rim og síðan vinstri fótur að þeim hægri og svo koll af kolli, um leið og vinstri hönd var beitt til að halda jafnvægi. Ég horfði beint fram, á húsvegginn og alls ekki niður og helst ekki upp heldur.
Um miðja leið fór stiginn að titra og síðan vagga til hliðanna og mér komu í huga, með réttu eða röngu ljóðlínur úr Grettisljóðum Matthíasar:
Hann hlustar, hann bíður, hann bærist ei,
heldur í feldinn, horfir í eldinn
og hrærist ei.
Þarna er lýst spennunni sem verður til þar sem maður veit ekki hvað er framundan. Ég bara vonaði að framhaldið yrði ekki eins og fram kemur aðeins síðar í ljóðinu, nefnilega:

Það hriktir hver raftur.
Hann ríður húsum og hælum lemur,
það brestur,
það gnestur,
nú dimmir við dyrin,
það hlunkar, það dunkar,
það dynur, það stynur.
Framhaldið varð ekki eins og í ljóðinu. Smám saman og á þrjóskunni einni saman, nálgaðist ég efri enda stigans og þar með einnig vegginn. Til þess að ná alla leið upp í kverkina undir mæninum þurfti ég að stíga í eitt efstu þrepanna í stiganum og mála síðan nánast beint upp fyrir mig.
Óvíst var hvernig ég færi með að halda jafnvæginu við þessar aðstæður, en smátt og smátt, með því að hugsa hverja hreyfingu áður en hún var framkvæmd, tókst mér að teygja mig alla leið. Út úr kverkinni skaust stærðar kónguló með hvítmálað bak og ekki einu sinni reiðileg framganga hennar varð til þess að ég missti taktinn, slík var einbeitingin. Ég málaði og málaði, bar á og bar á og þar kom að þarna gat ég ekki málað meir, niðurferðin hófst: fyrst vinstri fótur niður og siðan hægri fótur að honum, meðan pensill og dós héldu hægri hönd upptekinni starfaði sú vinstri við að halda öllu í réttum skorðum.
Eins og lesa má út úr þessum pistli komst ég til jarðar, óskaddaður og þess albúinn að klifra upp aftur jafnskjótt og viðbótarmálning hefur verið keypt og það hættir að rigna.

(myndir: óttaslegin fD, eða þannig)

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...