Sýnir færslur með efnisorðinu skoðanir. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu skoðanir. Sýna allar færslur

17 mars, 2017

Rétturinn til að vera eins og mann langar að vera.

Þessi pistill bendir ótvírætt til þess að ég verði sífellt þjálfaðri í að segja ekki neitt í mörgum orðum, en segja þó margt.
Stundum stend ég mig að því að hafa hug á að segja, bæði á þessu svæði og í töluðu máli, nákvæmlega það sem mér býr í brjósti (sem er nú ekki alltaf birtingarhæft), en ákveð jafnharðan, að það sé sennilega ekki þess virði.
Hvað myndi ég hafa upp úr því annað en heilaga vandlætingu heimsins?
Yrði ég einhverju bættari?
Myndi tjáning mín breyta einhverju umfram það sem nettröllunum tekst að koma til leiðar?
Svo velti ég auðvitað fyrir mér hvort öðrum komi við hvað mér finnst um hitt og þetta?
Svo ekki sé nú nefnd spurningin um það hvort einhver hefur yfirleitt áhuga á að öðlast innsýn í hugarheim karls á sjötugsaldri (hvíts, meira að segja), sem þekkir ekki sjálfan sig í þeim "staðlmyndum" sem dregnar eru upp af körlum af þessu tagi, eða körlum yfirleitt..

Það fer auðvitað ekki milli mála, að ég hef fullan rétt á að halda fram skoðunum mínum, hvort sem þær eru rökstuddar eða ekki. Ég þarf bara að svara því hvort þessar skoðanir megi bara ekki vera mínar, og í sófanum með fD.
Skoðanir mínar og sýn mín á lífið eru til staðar, en stundum er bara betra að þegja; leyfa þeim sem vilja tjá sig út í hið óendanlega, í hópi jábræðra/jásystra sinna, án þess að nokkur nenni að bregðast við.
Auðvitað er ég ekkert upprifinn yfir því að ég skuli ekki bara láta vaða, en að sama skapi dálítið stoltur af sjálfum mér að halda ekki út á það forarsvað sem íslensk umræðuhefð býður upp á.

Kannski sætti ég mig bara við þá STAÐALMYND sem ég er settur í. Kannski endar með því að ég trúi því að þar eigi ég heima. Ég fæ daglega að vita af því hvaða flokki ég tilheyri, án þess að hafa gert mér grein fyrir að þar ætti ég heima.  Ég fæ daglega að vita af því hvað ég er, hvernig ég er og hvað ég stend fyrir. Ég fæ daglega upplýsingar um það að ég eigi að vera öðruvísi en ég er og haga mér öðruvísi en ég geri.  Myndin sem ég fæ af sjálfum mér, á hverjum einasta degi, er hreint ekki falleg. Því miður. Mér hefur ekki fundist ég vera neitt sérstaklega vondur maður, eða verulega ósanngjarn í framgöngu minni. Finnst meira að segja, að ég hafi lítið eitt til brunns að bera, sem er jákvætt, uppbyggilegt eða hlutlaust.  Það er víst ekki svo, er mér sagt, daglega.  Ég er alltaf að troða á öðrum eða taka pláss frá öðrum.

Einhversstaðar var sagt: "Ég er eins og ég er" og það er mikið til í því. Ég fæddist í þennan heim með tiltekna kosti eða galla, í líffræðilegum skilningi. Það er víst hægt að breyta því nú til dags, sem getur vissulega verið jákvætt þar sem það á við.  Ég velti því hinsvegar fyrir mér hvort mér beri verða við kröfum um að ég breyti mér frá því sem ég varð í móðurkviði. Ég hef ávallt hafnað því, vegna þess, að ég er eins og ég er. Ef ég er mögulega tiltölulega sáttur við sjálfan mig, í stórum dráttum, þannig, þá er það bara svo og verður svo.

Til að hafa þetta nú allt á hreinu þá má gjarnan skipta út orðunum ég/mig/mér/mín hér fyrir ofan og setja í staðinn hann/honum/hans eða hún/hana/henni/hennar.
Setji fólk 3. persónu fornafn í stað 1. persónufornafns, bið ég það að hugsa sem svo, að á bak við þau sé ungt fólk á mótunarárum. Ég fer ekki fram á annað.
----------------
Hvað sem því líður, þá er tilefni þess að ég settist niður á þessum föstudegi til að skrifa mörg orð sem segja kannski ekki neitt, af ástæðum sem í honum má finna ef vel er að gáð, myndin sem er hérna efst, en hana sá ég í einhverjum vefmiðli.  Þarna voru á ferð Guðrún Jónsdóttir(ljósmyndarinn) og dóttir hennar Sóley Tómasdóttir (fyrirsætan). Guðrún kenndi með mér fyrir ártugum síðan. Hún var litrík baráttukona þá og hefur verið síðan. Sóley var þá barn að aldri. Ég man ekki eftir mikilli baráttu hjá henni þá, fyrir einhverjum málstað, en hún hófst og stendur enn.



22 janúar, 2017

Hetjudraumar og framtíð karlmennskunnar (1) kannski

Það sem hér fer á eftir er framhald þess sem ég skrifaði á þessa síðu í gær og tengist einnig því sem ég hef áður skrifað um þessi mál.  Kveikjan að greininni í gær var tilvitnun í framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, sem ég sá í fjölmiðlum, þar sem eftir honum/henni var haft, að: piltar falli frekar úr skóla vegna þess að þeir ali með sér drauma um að verða atvinnuknattspyrnumenn.
Ég vil halda því til haga, að þetta var kveikjan. Jafnframt, að ég ætla framkvæmdastjóranum ekki að halda fram þessari skoðun skýringalaust, en ég hef ekki hlustað að viðtalið við hann/hana, sem fyrirsögnin byggir á.
Eins og ég nefndi í pistlinum taldi og tel ég að það séu einhverjar ástæður fyrir þessum "draumum" ungra pilta.  Í framhaldi af því setti ég fram skoðanir á því og vísa bara í pistilinn varðandi þær.
Af ráðnum hug setti ég inn í greinina myndskeið sem lýsa því hvað gerist þegar ein dýrategund er alfarið alin upp af annarri. Ef einhverjum hefur dottið í hug að með því væri ég að halda því fram að uppeldisaðstæður pilta varu fyllilega sambærilegar því sem þar birtist, þá er mér ljúft og skylt að leiðrétta það. Tilgangur minn var auðvitað að benda á að umhverfi okkar mótar okkur, sem er auðvitað bara ágætt og eðlilegt.  Það er ekki fyrr en í ljós kemur, að mótið sem við erum sett í passar ekki eðlislægum eða líffræðilegum eiginleikum okkar, sem jafnvægi raskast.
Ég held því fram að jafnvægið í uppeldislegum aðstæðum barna á Íslandi (og reyndar miklu víður í hinum vestræna heimi) hafi raskast, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Þetta er auðvitað mín skoðun og hver sem er getur tjáð sínar skoðanir og jafnavel haldið því fram að þarna sé ekkert sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Það getur hver sem er haldið því fram að skoðanir mínar séu bara gamaldags og taki mið af raunveruleika sem er horfinn. Það er mér að meinalausu.

Ég byggi málflutning minn á tvennskonar þróun, sem erfitt getur reynst að afneita:
1. Kynjahlutfall starfsfólks í leik-, grunn- og framhaldsskólum:
Leikskólar 1998: konur 3635, karlar 79 - 2014: konur 5635, karlar 384
Grunnskólar 1998: konur 2993, karlar 1052 - 2014: konur 3911, karlar 902
Framhaldsskólar 1998: konur 644, karlar 823 - 2012: konur 1009, karlar 902

2. Kynjahlutfall háskólanema
1984: konur 2500, karlar 2500 - 2013: konur 12500, karlar 7500  (fyrir 1984 voru karlar fjölmennari í háskóla).

Það er betra að skoða þessa þróun á línuritum hér.

Það sem fólk segir eða heldur fram um þessi kynjamál, byggir á skoðunum, en minna fer fyrir einhverju því sem ótvírætt gefur til kynni hvernig á þeim breytingum stendur, sem þarna birtast. Mér var bent svör á vísindavef HÍ við spurningunni:
Er í alvöru til eitthvað sem heitir eðli, hjá mannfólki og sem munur á milli kynjanna?
Þarna eru birt tvenns konar svör, annað frá sjónarhóli kynjafræðings og hitt frá sjónarhóli heimspekings. Kjarni málsins í sambandi við þessi svör, sem eru sjálfsagt ágæt, út af fyrir sig, er, að þau koma af tilteknum "sjónarhóli". Þar með geta þau engan veginn talist algild eða marktæk og það sem meira er, þau veita hreint ekki svar við þessum spurningum:
Er samhengi milli skekkts kynjahlutfalls við kennslu í leik- og grunnskólum og samsetningu nemenda í háskólum?
Ef þetta samhengi er ekki fyrir hendi, hvað er það þá sem veldur því að piltar leggja síður fyrir sig háskólanám en stúlkur (annað en bara draumurinn um að verða atvinnuknattspyrnumaður)?
Mér er alveg sama hvaða skoðanir eru settar fram um þetta efni. Þær munu ekki breyta minni fyrr en gerð hefur verið einhver sú rannsókn sem ég treysti mér til að taka mark á.  Öll erum við, jú, á okkar sjónarhólum. Hver er sá sjónarhóll sem er bestur? Sá sem veitir sýn á flestar hliðarnar, að mínu mati.

Konur eru jafn góðir kennarar og karlar og öfugt. Um það snýst málflutningur minn ekki.  Hinsvegar breytum við því ekki, að konur eru konur og karlar eru karlar. Hættum að reyna að gera karla að konum, eða konur að körlum.  Annað er hvorki betra né verra en hitt. Þau bara eru, með réttu eða röngu. 
Málflutningur minn gengur út á það, að fjöldi kennara sem eru konur, hafi áhrif á pilta. Ég er ekkert á leiðinni að breyta þeirri skoðun minni. 

Hér get ég farið að fjalla í löngu máli um þær gífurlegu þjóðfélagsbreytingar sem hafa átt sér stað á síðustu áratugum, með afleiðingum sem við erum ekki farin að sjá fyrir endann á.  

Jack Myers, höfundur bókarinnar  The Future of Men: Masculinity in the Twenty-First Century segir í grein í TIME:
Donald Trump and Bernie Sanders are tapping into what I’m calling a “Lean Out” generation of young, discouraged and angry men—men who are feeling abandoned by the thousands of years of history that defined what it meant to be a real man: to be strong; to be a provider; to be in authority; to be the ultimate decision maker; and to be economically, educationally, physically and politically dominant. A growing percentage of young men are being out-earned by young women, as women capture 60% of the higher education degrees required for success in today’s economy.
Eru ungir menn farnir, í síauknum mæli að upplifa sig utanveltu? Eru þeir farnir að leita fyrirmynda í "hetjum"af einhverju tagi frekar en venjulegum karlmönnum sem eiga venjulegt líf, bara vegna þess að þeir hafa ekki tækifæri til að kynna sér slíka karla?
Líta ungir karlmenn í vaxandi mæli á sig sem tapara, ofbeldismenn, fávita eða eitthvað álíka jákvætt?
Í niðurlagi greinarinnar segir Myers:
If we fail to focus on redefining men’s roles alongside women’s, we are in danger of fostering a culture of hostility among men who are feeling left out in school, in the job market, and in relationships. These men will be less likely to accept gender equality, less likely to advocate advances for women, and less likely to foster healthy relationships and families. For the sake of a healthy society, we need to redefine a positive and appropriate form of masculinity.
Just as it’s no longer acceptable to educationally, economically and politically restrict women, it is no longer acceptable to disregard men’s issues. When we bring men into the conversation, we further gender equality for everyone.
Svei mér þá, ég held að ég hætti bara hér.
Ég hef enga trú á að skoðanir mínar breyti einu eða neinu, en það skiptir mig ekki öllu.  Ég veit um marga sem eru mér sammála og deila áhyggjum mínum af þróuninni, ég veit líka um fólk sem telur að þetta sé allt með eðlilegum hætti.
Svona er nú lífið nú létt og skemmtilegt.

Hér fyrir neðan set ég svona til gamans, viðbrögð við pistlinum sem ber nafnð Hetjudraumar. Ég vona að mér hafi tekist að bregðast við einhverju því sem þar kom fram, en hafa ber í huga að allar eru þessara umræður fremur þokukennadar.
Ég þakka þeim sem þar lögðu sitt til málanna.


9 ummæli
Ummæli
Helga Ágústsdóttir Fleiri karla í uppeldisstéttirnar. Það er lífsnausyn - hef lengi sagt.
Helga Ágústsdóttir Feleiri karla - ins if skot!
Bjarni Þorkelsson Þetta er ég fús að taka undir - og á þessu er ég alltaf að hamra þegar tækifæri gefast!
Pálmi Hilmarsson Alveg sammála þér þarna Páll, eins og svo oft áður😊
Freyja Rós Haraldsdóttir Eins og nærri má geta þá hef ég velt þessum málum fyrir mér og hef á þessu skoðun. Alveg sammála því að körlum þarf að fjölga í kennarastéttinni. Eðlishyggjan þar sem muninum á körlum og konum er líkt við muninn á lambi og hundi eða fólki og úlfum er hins vegar eitthvað sem ég get ekki tekið undir. Læt duga að benda á þessa grein: http://www.visindavefur.is/svar.php?id=1084. Fyrst og fremst erum við fólk. Strákar eru allskonar og stelpur eru allskonar. Fjölbreytni í skólastarfi er því af hinu góða. 

Kyn kennara skiptir máli, ekki af því að strákar þurfi einhverja sérstaka tegund af kennslu. Ekki trúi ég því heldur að þeir hafi þörf á tilsögn í því að vera "karlmannlegir". 
En þeir þurfa fyrirmyndir. Í þeim skilningi að þeir ættu að fá að upplifa skólastarf sem vettvang fyrir bæði karla/stráka og konur/stelpur. 

Til samanburðar má taka dæmi af fótboltanum. Stelpur eru færri í fótbolta heldur en drengir. Til að fjölga stelpum í sportinu væri mjög til bóta að fleiri konur væru sýnilegar í tengslum við íþróttina; iðkendur, þjálfarar, fréttafólk, dómarar o.s.frv. Ekki svo fótboltinn geti orðið kvenlegri svo stelpur finni sig þar betur, heldur svo stelpur upplifi að fótboltinn sé vettvangur þar sem konur jafnt sem karlar taka þátt.
Líka viðSvara220 klst.Breytt
Páll M Skúlason Skelli í viðbrögð á morgun 😎
Gylfi Þorkelsson Mér er nær að halda að öldum saman, sennilega alla tíð, hafi konur séð um uppeldi barna og því sé það engin ný bóla, eins og álykta má af þessum pistli. Auðvitað hafa þau ekki alla tíð verið jafn lengi undir verndarvæng kvenna enda samfélög breyst mikið og þau ekki send til ,,vinnu" utan heimilis jafn snemma nú á dögum og áður tíðkaðist, þar sem drengir fengu að fylgja feðrum sínum, bræðrum, öfum og kynbræðrum, ef þeir voru það heppnir að fá að alast upp meðal vandamanna. En hræddur er ég um að mæður, systur, ömmur, langömmur og frænkur hafi alla tíð séð um uppeldi drengja mestan hluta sólarhringsins, alveg þar til þeir voru taldir hæfir til, með réttu eða röngu, að yfirgefa hreiðrið og fara að ,,vinna karlmannsverk". Þó því verði síður en svo neitað að afar mikilvægt sé að karlmönnum fjölgi í kennarastétt og öðrum uppeldisstéttum þá má heldur ekki gleyma þeirri mikilvægu grundvallarbreytinu sem orðin er á mikilvægasta uppeldisstaðnum, með fæðingarorlofi karla og þátttöku þeirra inni á heimilunum. Þar njóta drengir (og auðvitað stúlkur líka) nú feðra sinna, mikilvægustu karlkynsfyrirmyndanna, sem fyrri kynslóðir nutu ekki eða mjög takmarkað. Og þó vökutími barna á heimilum sínum, eftir að þau komast á ,,stofnanaaldur", sé of stuttur þá gæti sá tími sem þó gefst með báðum foreldrunum, en ekki bara móður, vegið býsna þungt. Nema menn trúi því að mikilvægasta fyrirmyndin fyrir unga drengi sé að faðir þeirra sé að heiman - á veiðum til að færa björg í bú?
Bjarni Þorkelsson Var ekki ,,vandamálið", sem lagt var upp með í grein Páls, að karlar skuli nánast vera horfnir úr kennarastétt, nema einstaka nátttröll eins og undirritaður, sem hér leyfði sér orð til hneigja - um það megininntak?
Líka viðSvara6 klst.Breytt
Gylfi Þorkelsson ... það væri vandamál að ungir drengir væru nánast eingöngu í umsjá kvenna frá 8-20 (vegna skorts á körlum í kennara- og uppeldisstéttum) sem ég leyfði mér að halda fram að væri ekki ný bóla - og því varla nýtt vandamál.
Líka viðSvara13 klst.
Bjarni Þorkelsson Gylfi Þorkelsson Ekki spánnýtt, auðvitað - en kannski visst vandamál samt, og viðvarandi. Verst er nú ef vopnin snúast í höndum manns og einhverjir fara að skilja það svo að maður efist um yfirburði þeirra góðu kvenna sem sjá um uppeldi þjóðanna og kennslu skólabarna!
Gylfi Þorkelsson Ekki held ég neinum detti það í hug.
Gylfi Þorkelsson Best að taka það fram, áður en Páll hakkar mig í sig í nýjum, beittum pistli, að ég leit ekki svo á að ég væri að gagnrýna, hvað þá mótmæla neinu sem hér hefur verið skrifað. Aðeins að reifa málið frá öðru sjónarhorni.
Líkar ekki viðSvara11 klst
Páll M Skúlason Gylfi Þorkelsson  Ég hef ekki í hyggju að hakka eitt eða neitt - svo því sé nú haldið til haga.
Líka viðSvara11 klst
Gylfi Þorkelsson Bjóst ekki við því. En gamansemi skilar sér illa. Nema helst með ,,brosköllum" 😌
Páll M Skúlason Ég er nú bara að bíða eftir því að þið hættið þessari umræðu svo mér gefist færi á að byrja pistilinn mikla.
Líkar ekki viðSvara11 klst
Bjarni Þorkelsson ..............og ég líka, ef mig skyldi kalla!
Líkar ekki viðSvara11 klst
Páll M Skúlason Auðvitað þakkaég ykkur sem hér hafið lagt orð í belg. Allt er þar auðvitað á málefnalegum nótum, eins og ykkar er von og vísa. Ég mun, í framhaldsgrein í bloggi mínu (nema hvað) freista þess að takast á við verkefnið sem þið hafið fært mér. Mér finnst þetta samfélagsmiðlaumhverfi einhvern veginn ekki henta og vel því að fr þá leið sem ég nefndi hér að ofan. Vona að það sé ykkur að meinalausu að ég vitni til ummæla ykkar, sem hluta af greininni.
Líka viðSvara12 klst.
Geirþrúður Sighvatsdóttir Góðir pistlar hjá þér Palli og ég er sammála greiningunni á þróun samfélagsins frá því að konur voru "dregnar" út á vinnumarkaðinn í seinni heimsstyrjöldinni í fjarveru karla og fólk uppgötvaði að þær gátu gert allt sem karlar gátu allavega á andlega sviðinu. Það er munur á líkamlegum styrk og viðhorfum til margra mála og það þarf að viðurkenna. Og best að það sé jafnvægi milli kynjanna sem víðast, í uppeldismálum, stjórnmálum, launamálum o.s.frv... En þú átt samherja Páll, hlustaðir þú á Ævar Kjartansson og Gísla Sigurðsson tala við félagsfræðinginn Ingólf (man ekki hvers son) í morgun á Rás 1?:)
Líkar ekki viðSvara22 klst. 

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...