Sýnir færslur með efnisorðinu heilsugæslan. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu heilsugæslan. Sýna allar færslur

27 júní, 2024

Laugarás: Æ, ég veit ekki....

Heilsugæslustöðin í Laugarási
virðist ekki að hruni komin.
Nú hefur forstjóri HSU skrifað annan pistil á vefinn island.is, til að upplýsa okkur um að heilsugæslan verði flutt að Flúðum næsta vor. Forstjórinn var búinn að þessu og lítil ástæða til að endurtaka það sem þegar hefur verið sagt. Vissulega bætir hann við skrifin ágripi af sögu heilsugæslu í uppsveitum. Þar ýjar hann að því, að þegar Skúli Árnason, fyrsti læknir héraðsins, lét af störfum og það þurfti að finna nýjan stað fyrir læknissetur, að ekki hafi það gengið hnökralaust fyrir sig. Það gekk hreint ekki hnökralaust fyrir sig.  
Hér er reiknað með því, að menn hafi séð fyrir sér, að í uppsveitum yrðu tvö læknishéruð, annað vestan Hvítár og þá líklegast með læknissetri í Grímsnesi og hitt austan árinnar, mögulega með aðsetri í Hrunamannahreppi. (af laugaras.is)

Það var þarna uppi ágreiningur, sem var leystur með því að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum. Draumurinn um að fá sitt læknissetur, eða heilsugæslu, hefur lifað allar götur síðan austan Hvítár og það lítur út fyrir að hann fái nú að rætast - hver veit?

Forstjórinn fer í framhaldinu í það að reyna að klóra yfir blekkingarnar sem beitt var sem megin rökum fyrir þessum flutningi. Þarna finnst mér mikil lágkúra vera borin fram. Svo heldur hann áfram:

Í ljósi þessa var því mikilvægt að leggja mat á það hvort núverandi staðsetning heilsugæslunnar væri hentug til framtíðar eða hvort vænlegra væri að færa heilsugæsluna í þéttari byggðarkjarna og á sama tíma efla þjónustuna við íbúa uppsveita Suðurlands.

Í ljósi hvers - að það var svo dýrt að gera við húsið í Þorlákshöfn!?  Þá þurfti að meta hvort vænlegra væri að flytja heilsugæslustöðina í Laugarási í "þéttari" byggðakjarna?  Mér er fyrirmunað að skilja þessa röksemdafærslu og þegar forstjórinn klikkir svo út með því að segja: "og á sama tíma efla þjónustuna við íbúa uppsveita Suðurlands"  tekur steininn úr, að mínu mati, að sjálfsögðu. Hvernig ætlar forstjórinn að efla heilsugæslu í uppsveitum með þessu? Á kannski bara að vera svona lítil, "kósý" stöð á Flúðum fyrir Hreppamenn, en aðrir á svæðinu fái að njóta fádæma góðrar þjónustunnar á Selfossi? 

 Ekki meira um pistil forstjórans.

Fyrir þau ykkar sem þetta kunna að lesa, en vita kannski ekki alveg hvernig landið liggur í uppsveitum Árnessýslu, læt ég hér fylgja kort af uppsveitunum sem sýnir leiðirnar sem liggja frá byggðakjörnum í uppsveitunum, í heilsugæsluna í Laugarási.  Vegalengdir frá Laugarvatni, Flúðum og Árnesi, í Laugarás, eru um 25 km. Til annarra byggðakjarna er hún styttri.


Svo læt ég fylgja sama kort, en nú með þeim leiðum sem íbúar í uppsveitum þyrftu að fara frá byggðakjörnum í fyrirhugaða heilsugæslu á Flúðum.


Hér er mynd sem sýnir íbúafjölda í byggðakjörnum í uppsveitunum:



Hér er kort sem sýnir sveitarfélagamörk í uppsveitum.


Grímsnes- og Grafningshreppur á sneið innan Bláskógabyggðar, sem hefur því miður annan lit.

 

Hér er súlurit sem tilgreinir íbúafjölda í sveitarfélögunum 4 þann 1. jan., 2024, en þessar upplýsingar er að finna á vef Hagstofunnar.


Loks er hér súlurit sem tilgreinir íbúafjölda í Hrunamannahreppi, annarsvegar og hinna þriggja sveitarfélaganna hinsvegar.



Mér finnst upplýsingarnar hér fyrir ofan sýna fram á það, að það er enginn faglegur grunnur fyrir því að flytja heilsgæslu frá Laugarási á Flúðir, en það dregur sjálfsagt hver sína ályktun af þeim.

Ég viðurkenni, að ég nenni ekki að fara í meiri spurningaleik við forstjórann, enda mun hann ekki svara mér þannig, að ég sannfærist um að faglega hafi verið staðið að þessu máli. Í mínum huga er það ljóst að það var makkað um þetta bakvið tjöldin og síðan tínd til einhver rök, sem engu vatni virðast halda.

Ég ætla ekki að fara að eyða frekari tíma í þetta mál, en mun auðvitað fylgjast grannt með, hvort fyrirsvarsmenn í uppsveitum, sem lýsa sig andvíga þessum flutningi, ætla að láta þetta ganga yfir, án þess að leita færra leiða til að láta fara fram mat á þeirri málsmeðferð sem hér er um að ræða.

Góða helgi.

(Ég er fæddur og uppalinn í Laugarási og bjó þar síðan í um 40 ár. Nú bý ég á Selfossi. Undanfarin 12 ár hef ég unnið að vefnum um Laugarás: https://www.laugaras.is/ )

Það nýjasta sem ég hef skrifað um þennan fyrirhugaða flutning Heilsugæslunnar er: 

Laugarás: Fagmennska, eða annað  

14. júní, 2024

7. janúar, 2024





14 júní, 2024

Laugarás: Fagmennska, eða annað.


Þann 13. júní birtist á island.is island.is  tilkynning frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands þar sem greint er frá því á vorið 2025 verði heilsugæslan fyrir uppsveitir Árnessýslu, flutt frá Laugarási að Flúðum. 
Hér er  mynd sem sýnir  hvar Laugarás er og hvar Flúðir er að finna. 


Hér fyrir neðan birti ég einstaka hluta þessarar tilkynningar, og við þá geri ég mínar athugasemdir og varpa fram spurningum. 

Tilkynningin hefst á þessu:
Í ljósi stöðugrar uppbyggingar og fjölgunar íbúa í uppsveitum Suðurlands hefur Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) ákveðið að flytja starfsemi heilsugæslunnar í nýtt og nútímalegt húsnæði á svæðinu.

Hvaða nútímalega húsnæði er þarna um að ræða? Er það hannað og byggt með þarfir heilsugæslu í huga?  Er það nýtt, í ljósi þessarar athugasemdar sem birtist á Facebook:   "En kofinn á Flúðum er eldgamalt hús sem á að breyta í heilsugæslu og hentar engan veginn til starfans. Texti um að þetta þjóni sérstaklega nútíma kröfum er þvílík endemis lygi að ég hef varla séð annað eins haft eftir opinberum aðila." (Ólafur Ragnarsson).  

Um ástand húsnæðis heilsugæslunnar í Laugarási er eftirfarandi einnig á finna í athugasemdum á Facebook: "Hins vegar er það fásinna að kenna 25 ára gömlu, sérhönnuðu húsnæði um. Eina sem hægt er að benda á er kannski uppsöfnuð viðhaldsþörf ef eitthvað er." (Jónas Yngvi Ásgrímsson)

Ég skal alveg viðurkenna, að fjölgun íbúa í Laugarási hefur látið á sér standa og að þar skortir ýmsa þjónustu aðra en heilsugæsluna, en það er sérstakt mál, sem ég mun fjalla um, eina ferðina enn, í lokin

Í janúar síðastliðnum auglýsti FSRE eftir húsnæði til að hýsa heilsugæslu HSU í uppsveitum Suðurlands. 
Hvað kallaði á þessa auglýsingu? Hver átti frumkvæðið að því að þörf var talin á henni?  Svör við þessum spurningum skipta ansi miklu máli fyrir umræðuna. Er frumkvæðið komið frá ráðuneytinu, stjórn HSU, eða Hrunamannahreppi? Sem sagt: Hvernig þessi umræða fór af stað? 
Þrjú tilboð bárust og eftir ítarlegt mat á tilboðunum var ákveðið að ganga til samninga við Hrunamannahrepp um að leigja húsnæði undir heilsugæslu HSU á Flúðum. 

Hver var munurinn á þessum tilboðum? Hvað fólu þau í sér?  Hvernig fór þetta "ítarlega" mat fram,  hvaða aðilar stóðu að því og hverjar voru forsendurnar sem gengið var út frá?  Hvaða þættir voru það sem réðu úrslitum? 

Nýja húsnæðið býður upp á fjölmarga ávinninga fyrir samfélagið. Það er ekki aðeins fjárhagslega hagkvæmara en núverandi húsnæði, heldur verður það einnig sérhannað til að mæta nútímakröfum heilbrigðisþjónustu. 
Í hverju felast þessir "fjárhagslegu ávinningar"?  Hvaða kröfum um "nútíma heilbrigðisþjónustu" fullnægir 28 ára gamalt hús heilsugæslunnar í Laugarási ekki?

Heilsugæslustöðin í Laugarási, sem var vígð árið 1997 (mynd úr safni Jóns Eiríkssonar) fengin á  laugaras.is  - en þar er að finna mikið af myndum frá vígslunni.

Með betri aðstöðu og þjónustu tryggir HSU að heilbrigðisþjónusta svæðisins sé ávallt í samræmi við þarfir íbúa.
Hvernig er sú niðurstaða fengin, að með flutningi heilsugæslunnar verði tryggara en áður, að þjónustan sé í "samræmi við þarfir íbúanna"?  Þarfir hvaða íbúa er þar um að ræða - einhverra ákveðinna umfram aðra?
Staðsetningin á Flúðum leggur jafnframt grunn að frekari þjónustutækifærum, þar á meðal möguleika á opnun nýs apóteks.
 "Frekari þjónustutækifærum?"  Sá aðili sem rak apótekið í Laugarási gafst upp á rekstrinum Hvað liggur fyrir um að lyfjakeðja sé tilbúin að setja upp apótek á Flúðum?

Flutningurinn mun einnig stuðla að bættu samstarfi við björgunarsveitir og aðra viðbragðsaðila sem eru með aðsetur á Flúðum, sem er mikilvægt fyrir öryggi og velferð íbúa.

Þarna er um fremur fátækleg rök að ræða, auðvitað. Nánast rökleysa og bendir bara til þess, að verið sé að grípa í hálmstrá.  Samkvæmt vef Landsbjargar eru þrjár björgunarsveitir í uppsveitum, aðrar en Björgunarfélagið Eyvindar, en þær eru Björgunarsveit Biskupstungna, sem er í Reykholti, Björgunarsveitin Ingunn á Laugarvatni og Hjálparsveitin Tintron á Borg í Grímsnesi. 
Þetta framfaraskref er liður í stefnu HSU um að tryggja að íbúar í uppsveitum Suðurlands hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu sem mætir þörfum nútímans. 
Það vantar útskýringu á því hvert framfaraskrefið er, fyrir uppsveitir Árnessýslu. Þá á ég við uppsveitirnar sem heild, ekki bara afmarkaðan hluta þeirra. 
Það vantar útskýringu á því hvernig þessi flutningur tryggir betri aðgang íbúa í uppsveitum Árnessýslu.
Það vantar útskýringu á því hverjar "þarfir nútímans" eru, sem verða betur uppfylltar með flutningnum.
Með því að flytja heilsugæsluna á Flúðir er HSU ekki eingöngu að bæta aðstöðu heilbrigðisþjónustunnar, heldur er einnig verið að skapa öflugri grunn fyrir framtíðarþróun heilbrigðisþjónustu HSU í uppsveitum Suðurlands.
Hvernig  mun flutningurinn bæta "aðstöðu heilbrigðisþjónustunnar"?
"Skapa öflugri grunn fyrir framtíðarþróun heilbrigðisþjónustu HSU í uppsveitum Suðurlands."  
Fyrir mér segir þessi röksemd bara nákvæmlega ekki neitt. Er búið að móta einhverja framtíðarþróun að þessu leyti? Hver er hana að finna, ef svo er? Í hverju felst þessi framtíðarþróun? 
Flutningur heilsugæslunnar er fyrirhugaður vorið 2025 og mun nánari tímasetning verða tilkynnt þegar nær dregur.
Díana Óskarsdóttir, forstjóri

Þá er ég búinn að fara í gegnum tilkynningu um þennan flutning, en hann skilur eftir helling af spurningum.  Auðvitað fagna íbúar Hrunamannahrepps því að vera komnir með heilsugæsluna "heim", eins og hefur lengi verið draumurinn. Megi þeir njóta hennar vel og allrar þeirrar þjónustu, sem hún mun njóta góðs af og styrkja.  

Er ef til vill betur heima setið en af stað farið? 
Hver verða jákvæð áhrif þessa á íbúa uppsveitanna, aðra  en íbúa Hrunamannahrepps? 
Ef reyndin verður nú sú, að flutningurinn verði til þess að íbúar uppsveitanna, annarra en íbúa Hrunamannahrepps, muni í vaxandi mæli, eða alveg, telja henta sér betur að sækja læknisþjónustu á Selfoss, er þá heilsugæslan á Selfossi undir það búin?  Ég bý þar og veit að þar er löng bið eftir læknisþjónustu. 
Hvað felst í nútímavæðingunni, sem ætlað er að taka á þeirri framtíðarþróun?
Apótekið, sem er notað sem ein stóru röksemdanna í málinu, hvarf úr Laugarási vegna þess að það var ekki rekstrargrundvöllur. Hvað segir um það í framtíðaráætlunum HSU á nýjum stað?

Með ákvörðum um flutning heilsgæslunnar frá Laugarási að Flúðum er búið að stuðla enn frekar að klofningi í uppsveitum, í stað þess að  þær sameinist. Er það virkilega einhverjum til góðs? 

Ég er búinn að varpa fram, hér að ofan,  mörgum spurningum um þennan fyrirhugaða flutning. Mig grunar, að ef stjórnsýslan sem um hann hefur fjallað, getur ekki sýnt fram á, svo óyggjandi sé, að allt þetta ferli hafi verið faglegt, þannig að það þoli dagsljósið, muni óánægja grassera áfram. Það er talað um spillingu, sem tengist tveim ríkisstjórnarflokkanna, það er talað um pólitísk sambönd, fjölskyldutengsl og jafnvel skiptimynt í samningum um framgang mála innan ríkisstjórnarinnar.  
Það kæmi mér ekki á óvart, að þau orð hafi fallið einhverntíma í þessu ferli að það væri alveg hægt að standa af sér nokkurra daga hvassviðri á samfélagsmiðlum og halda svo bara áfram ótrauð. 
"Þegjum bara, þetta gengur yfir" - sem það gerir því miður ansi oft hér á landi.

---------------------------------------

Hér ofar, sagði ég: "Ég skal alveg viðurkenna, að fjölgun íbúa í Laugarási hefur látið á sér standa og að þar skortir ýmsa þjónustu aðra en heilsugæsluna, en það er sérstakt mál, sem ég mun fjalla um, eina ferðina enn, í lokin. "

Ég er reyndar búinn að fjalla ítrekað um ástæður þess, að Laugarás hefur átt skárri tíma og veit, svei mér ekki, hvort ég ætti að að fara endurtaka mig of míkið um það. Ef einhver hefur ekki lesið skoðanir mínar á því máli (flestir, líklegast) bendi ég til dæmis á  þennan pistil og  þennan .
Biskupstungnahreppur, Bláskógabyggð og Stjórnarnefnd heilsugæslunnar í Laugarási (Oddvitanefndin), hafa, með sinnuleysi, áhugaleysi og beinlínis andstöðu við uppbyggingu í Laugarási, skapað þá stöðu sem nú er uppi.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Þar er svo.
-----------------------------------------

Bakgrunnsefni:
Á vefnum laugaras.is er ítarleg umfjöllun um Laugaráslæknishérað og heilsugæsluna í Laugarási. Hér eru hlekkir á brot af því:




Uppfært 16. júní:
Ég hef nú sent erindi á heilbrigðisráðherra, þingmenn kjördæmisins og formann og varaformann velferðarnefndar Alþingis, með hlekk á þennan pistil.

07 júní, 2023

Laugarás: Sorgleg staða, en fyrirsjáanleg.

Kortið sýnir staðsetningu þéttbýliskjarna
í uppsveitum Árnessýslu.
Ég vil nú ganga svo langt að halda því fram, að sú staða sem nú er komin upp í uppsveitum Árnessýslu, sé afleiðing  um það bil fjögurra áratuga þróunar. 
Þetta byrjaði allt vel, þó umdeilt væri, þegar uppsveitahrepparnir sameinuðust um að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum, fyrir 100 árum, beinlínis til að koma þar upp læknissetri fyrir svæðið. 
Af sögulegum ástæðum kallaðist læknishéraðið þá Grímsneslæknishérað, en varð svo Laugaráslæknishérað á 5. áratug aldarinnar.
Oddvitar hreppanna mynduðu stjórn héraðsins og þannig var það svo, allt þar til ný lög um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt rétt fyrir hrun fjármálakerfisins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands varð til.

Ekki verður annað séð, en það hafi verið nokkuð góð sátt um læknissetrið í Laugarási lengst af. Laugarásjörðin var sameiginleg eign hreppanna og fólk sá fyrir sér að þar myndi byggjast upp öflugur byggðarkjarni í hjarta uppsveitanna. Sú uppbygging fór vel af stað á fimmta og sjötta áratugnum, aðallega. þegar garðyrkjustöðvar spruttu upp og innviðir voru efldir til samræmis. Kannski er hægt að ímynda sér að fólkið hafi þá séð Laugarás með svipuðum augum og Árni G. Eylands: 
Þ A N K A R    V I Р   I Ð U B R Ú
Þar hef ég staðið undrandi.
Þvílíkur staður, hversu mikill ætti ekki hlutur þess hverfis að verða. Jarðhitinn, ræktunarlandið, áin – iðan – Vörðufell, og umhverfið allt. Hér á að rísa, hlýtur að rísa, mikið svitaþorp, borg garðyrkjubænda og annarra.
Fyrstu sporin þarf að stíga sem fyrst, og hljóta að verða stigin sem fyrst. Verzlun, sumarhótel, líkt því sem Þrastalundur var, þegar bezt var.
– Þvílíkur stðaur, þvílíkir möguleikar, ríkidómur og Guðsblessun. Hér hlýtur að rísa engu minna þorp en Selfoss og í bræðraböndum við þann stað.
– Já, ég nefndi Guðsblessun.
– Skálholt að baki, með það sem þar er búið illa að gera, og verið vel að gera – og verður vel gert. Og að fáu getur Skálholt og menningarhugsjónum þeirra sem þeim stað unna orðið meiri styrkur heldur en að vaxandi byggð við Iðu – ræktunarþorpi og miðstöð um samgöngur og framþróun nærliggjandi sveita.
– Sjá ekki allir Sunnlendingar hversu mikið hér er í efni? Vonandi gera þeir það, eins vel og betur en ég. Enn á ég ógert það sem mest er, að ganga á Vörðufell og líta yfir þetta fyrirheitna land.

Árni G. Eylands (1895-1980)
Heilsugæslustöðin í Laugarási og Hvítárbrú hjá Iðu. 

Sérstakt eignahald á Laugarásjörðinni hefur verið bæði blessun og bölvun gegnum áratugina. 
Blessun, vegna þess að með samstöðu uppsveitahreppanna tókst að byggja upp mjög öfluga heilsugæslu á svæðinu. 
Bölvun, vegna þess að með því hver hreppur fór í síauknum mæli að ota sínum tota varðandi uppbyggingu á þjónustu "heima fyrir", var markvisst dregið úr áherslu á frekari uppbyggingu í Laugarási.
 
Biskupstungnahreppur tekur Laugarás að sér
Þarna hugsaði hver um sitt og þar kom, að Biskupstungnahrppur tók jörðina á leigu um 1980 og hefur stýrt þróuninni síðan. Við þessa breytingu batnaði hagur Laugaráss harla lítið, þó vissulega hafi það vakið ákveðna bjartsýni þegar ný heilsugæslustöð var reist á síðari hluta 10. áratugarins. Það var eins með Tungnamenn og aðra uppsveitamenn: þeir unnu að því að byggja upp hver hjá sér og litu þannig á, að það sem gert væri í Laugarási væri til þess fallið að stöðva eða hægja á uppbyggingunni "heima fyrir".  Þetta var sem sagt áfram "bölvun" Laugaráss. Hugmyndir um uppbyggingu sem fram hafa komið gegnum tíðina, hafa verið kæfðar með þeim rökum að þær væru betur komnar á Flúðum, í Reykholti, eða á Laugarvatni, þar væru innviðirnir fyrir, svo ekki sé nú minnst á rökin um að þar væri "fólkið".
Þegar Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, var uppi sú sérkennilega staða, að honum var ætlað að stuðla að uppbyggingu á jörð, sem aðrir uppsveitahreppar áttu og fengu tekjur af. Á sama tíma voru Tungnamenn að byggja upp sinn byggðarkjarna í Reykholti, þar sem grunnskólinn var, félagsheimilið, sundlaugin og fleira. Hvaða ástæðu höfðu Tungnamenn svo sem til að efla byggðina í Laugarási?  Eina "opinbera" stofnun á vegum hreppsins fengu Laugarásbúar, en það var sorpbrennsluofn:
Þessi brennsluofn var sá eini í Biskupstungum og ætlaður til brennslu á sorpi frá öllum heimilum og má segja að hann hafi verið eina opinbera stofnunin sem sveitarfélagið hefur valið stað í Laugarási. Þannig var sorpi í Reykholti safnað og flutt til brennslu í Laugarási, við misjafnar undirtektir íbúa þar og þá aðallega vegna reykmengunar sem lagði frá honum yfir byggðina í norðlægum áttum. (laugaras.is)
Aðrir hreppar hafa líklega verið ágætlega hressir með þetta fyrirkomulag því þeir gátu einbeitt sér að uppbyggingunni heima fyrir.  Tungnamenn sátu uppi með að reyna að leiða hjá sér "síkvartandi" Laugarásbúa, sem töldu fram hjá sér gengið í uppbyggingu. Ég er þess fullviss, að tekjurnar frá Laugarási komu sér ágætlega fyrir hreppsjóð, en frumkvæði hreppsins í að halda áfram uppbyggingu þar var og er lítið sem ekkert. 

Bláskógabyggð verður til
Það var ákveðið, í byrjun þessara aldar, án þess að íbúar fengju að greiða um það atkvæði, að sameina Þingvallahrepp, Laugardalshrepp og Biskupstungnahrepp í sveitarfélagið Bláskógabyggð. Þá fór verulega að halla undan fæti í Laugarási, eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi línuriti um íbúaþróun í þéttbýliskjörnunum þrem.
 

AUGLÝSING um staðfestingu félagsmálaráðuneytis á sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Með vísan til 2. mgr. 91. gr. og 95. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, tilkynnir ráðuneytið að það hefur hinn 18. mars 2002 staðfest sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps í eitt sveitarfélag. (18. mars, 2002)
Tungnamenn voru stærsta sveitarfélagið í þessari sameiningu og var mikið í mun að hin tvö upplifðu það ekki svo, að allur fókusinn eftir sameininguna yrði á uppbyggingu í Reykholti. Í aðlöguninni sem þarna fór fram, varð Laugarás nánast eins og neðanmálsgrein.  Ég vil nú ekki ganga svo langt, að halda því fram, að það hafi verið markviss stefna í uppsveitum, að ganga endanlega frá Laugarási, þó vissulega hafi það stundum hvarflað að mér. 
Sameiningin, þegar Bláskógabyggð varð til, var mistök, að mínu mati og ein birtingarmynd þeirra er það sem nú er í farvatninu og fjallað eru um þessa dagana.  Í mínum huga er þarna að birtast ein afleiðing ótrúlegs andvaraleysis (eða stefnu) sveitarstjórnarfólks í Bláskógabyggð undanfarna áratugi. Það kæmi mér ekkert á óvart ef tárin sem grátið er í samþykkt sveitarstjórnar (sjá hér fyrir neðan), séu, að miklum hluta, krókódílatár.

Hvað er svo framundan?  
Oddvitanefndin heldur sjálfsagt áfram að hittast til að ráða ráðum sínum, nefndin sem kallaði sig Stjórnarnefnd Laugaráslæknishéraðs. Hlutverk þessarar nefndar síðstliðna fjóra áratugi, í það minnsta, hefur ekki verið það að stuðla að uppbyggingu í Laugarási, heldur miklu frekar að tryggja það að í Laugarási yrði ekki uppbygging sem gæti ógnað uppbyggingunni "heima fyrir", þar sem fólkið er. 

Niðurstaða mín er sú, að það sem hefði getað orðið kjarninn í öflugri byggð í uppsveitunum, varð til þess að tefja þessa uppbyggingu, varð ok, sem uppsveitahrepparnir reyndu að losna við, en þótti samt (og þykir enn) gott að eiga ítök í til að tryggja að þessi kjarni fengi ekki að blómstra.

Það sem helst gæti orðið Laugrási til bjargar við þær aðstæður sem við blasa nú, þegar upp eru komnar hugmyndir um að flytja þaðan heilsugæsluna, er líklega að hrepparnir komi sér saman um að selja jörðina. Ég er ekki viss um að það verði ofan á, ekki meðan einhvern lífsneista er að finna í "þorpinu í skóginum".
Ég bíð nú nokkuð spenntur eftir framhaldi þessa máls og þar með hvort sveitarstjórn Bláskógabyggðar meinar eitthvað með samþykkt sinni, sem sjá má hér fyrir neðan. Mér finnst þessi samþykkt nú reyndar fremur veikburða, ef ég á að segja alveg eins og er, en það er rétt að sjá til hvað nú gerist.



Liður í undirbúningi að sameiningu?
Vissulega hvarflar það að mér, að það sé uppsveitamönnum smám saman að verða ljóst, að það mun koma til sameiningar þessara sveitarfélaga á næstu árum. Ég er alveg til í að líta að þessar hugmyndir um flutning heilsugæslunnar í því ljósi. Með honum væri rutt úr vegi einni stærstu hindruninni. Laugarás væri þá með engu móti lengur valkostur sem einhverskonar kjarni uppsveitanna til framtíðar. Þá yrðu stóru kjarnarnir tveir ótvíræðir valkostir í frekari uppbyggingu.
---------------------------------

Ég er búinn að fjalla oft um málefni Laugaráss í pistlum hér á þessu svæði
Hér eru hlekkir á nokkur dæmi:

Einskis manns eða allra 29. mars, 2015
Ólygnir sögðu mér 23. apríl, 2015
Enn á að selja 8. maí, 2017

Ef einhver sem þetta les veit ekki hver ég er, eða hversvegna ég er að blanda mér í þessa umræðu, þá er ég fæddur og uppalinn í Laugarási og bjó þar að langmestu leyti, þar til vorið 2022, þegar við Kvisthyltingar fluttum á Selfoss. 
Ég hef einnig unnið að því, í rúm 10 ár, að safna efni um Laugarás á vefinn https://www.laugaras.is

09 júlí, 2018

Nú stendur til að kanna þann möguleika, .....

Hvítárbrú hjá Iðu
.... að byggja hjúkrunarheimili í Uppsveitum Árnessýslu.
Frétt á Bylgjunni

Að hluta til fagna ég því auðvitað, að enn fer af stað umræða um að byggja hjúkrunarheimili í Uppsveitum; hjúkrunarheimili sem ætti að vera komið hér fyrir löngu.

Að öðrum hluta til lít ég þessa frétt sem enn eina umræðuna sem fær að renna út í sandinn. 

Mér finnst það gott framtak hjá Hrunamönnum að setja þessa umræðu af stað, þessu sinni. Þeir hyggjast ræða við hin sveitarfélögin um málið og vona að það náist samstaða um þetta verkefni. Það má vera orðin mikil breyting á ef slík samstaða á að nást, einfaldlega vegna þessa að allir hrepparnir eiga besta staðinn fyrir hjúkrunarheimili. Þannig er það bara.

Ég bendi, eins og oft áður, á þann samnefnara sem uppsveitahrepparnir eiga, en það er jörðin Laugarás.  Fyrir utan það, auðvitað að Laugarás er sá staður í uppsveitum sem er næst miðjunni, þá er þar heilsugæslustöð sem mikilvægt er að styrkja af öllum mætti.

Það hefur verið þannig og er enn, að þegar umræða í uppsveitunum beinist að Laugarási, eru sveitarstjórnir og reyndar íbúar hreppanna, utan Laugaráss, fljótir að fara í vörn, einfaldlega vegna óttans við að fari eitthvað í Laugarás af þeim verkefnum sem sinna þarf í uppsveitunum, sé það jafnframt tap allra hreppanna.  Vegna þess að allir vilja opinbera þjónustu til sín, fær enginn neitt. 
Svo einfalt er það nú. 

Jæja, ég er búinn að skrifa mig bláan í framan á þessum miðli mínum um þá skoðun mína, að eðlilegasti samnefnarinn í þessu sé Laugarás. Ég var búinn að ákveða að hætta að skipta mér af þessu máli og sú ákvörðun stendur enn. 

Þumbist hrepparnir enn við varðandi hjúkrunarheimili í Laugarási, tel ég eðlilegast að þeir selji jörðina.  Eignarhald þeirra á henni skaðar framþróun byggðar í Laugarási verulega. Ágætur Skeiðamaður sagði við mig að Laugarás hefði borið mikinn skaða af þessu eignarhaldi. Nú þegar Laugaráslæknishérað er ekki lengur til, er ekki lengur ástæða til þessa sameiginlega eignarhalds hreppanna á jörðinni.
Svona gengur þetta ekki áfram, að því er ég tel.
Og hananú.

Þetta er hlekkur þar sem finna má þau tilvik sem ég hef notað orðið hjúkrunarheimili undanfarin allmörg ár.




10 júní, 2017

Forsetaheimsókn í máli og myndum

Í gær var tekið á móti Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni í Bláskógabyggð. Um heimsóknina verður vísast fjallað annarsstaðar.  Forsetinn kom í Laugarás, ásamt konu sinni Elízu Reid og heilbrigðisráðherranum Óttarri Proppé. Tilefnið var undirritun samnings um Heilsueflandi samfélag í Bláskógabyggð.
Þessi heimsókn í Laugarás fór nú ekkert sérlega hátt og ekki mikill mannfjöldi á staðnum, en þetta var samt hin ágætasta viðkoma þjóðhöfðingjans og heilbrigðisráðherrans.
Þarna hafði ég reyndar hlutverk, sem fólst í því að renna yfir sögu heilsgæslu á svæðinu. Til þess voru mér ætlaðar 5-10 mínútur, en það má telja fremur knappan tíma, en reyndist niðurskurður efnis fremur strembið verkefni.
Úr því ég lagði í þessa vinnu, birti ég hér það sem ég þarna hafði fram að færa, auk ýmissa þátta, sem ég sleppti, tímans vegna.

Hlekkur á myndir frá heimsókn í Laugarás og Aratungu

Sigurjón Kristinsson, Anna Ipsen og forsetahjónin
Saga læknisseturs/ læknasetur og heilsugæslu í Laugarási hefur ekki enn verið skrifuð nema að hluta, en Bjarni Harðarson, sem á hér rætur,  birti ágæta samantekt í riti Sögufélags Árnesinga fyrir rúmum 20 árum.
Ég ætla að stikla á stóru í samantekt Bjarna og bæta við eftir því sem mér finnst hæfa.

Laugarás er ekki sérstaklega þekktur sögustaður, enda hefur staðurinn staðið í  skugga Skálholts frá fyrstu tíð. Líklega er eitt það merkilegasta sem nefnt hefur verið um staðinn, að hér lést Ketill biskup Þorsteinsson í laug árið 1145. 
Þá hefði verið gott að hafa lækni á staðnum.
Laugin er ófundin en leit stendur yfir.

Það má halda því fram, að heilsugæsla hafi hafist í Laugarási með Guðmundi Vigfússyni hómópata (smáskammtalækni) 1883, en þá keypti hann jörðina og bjó hér fram að aldamótum. Hann hvarf þá á braut, en átti jörðina til 1917, en þá keypti hana Guðmundur Þorsteinsson, sonur Þorsteins bónda í Höfða og Guðrúnar Guðmundsdóttur, konu hans. Guðmundur var móðurbróðir Guðrúnar Víglundsdóttur, en hún bjó í Höfða til 1980.

1875 var stofnað með lögum læknishérað Árnessýslu, en 1896 var settur læknir í aukalæknishéraði Árnessýslu með aðsetur á Kiðjabergi í Grímsnesi. 
Magnús Ásgeirsson var skipaður í embættið. Hann þjónaði því svæði sem nú kallast alla jafna uppsveitir Árnessýslu.

1899 var Grímsneshérað stofnað og fyrsti læknirinn var Skúli Árnason. Hann tók Skálholt á leigu og var þar með heilmikinn búskap til 1927 og gegndi stöðu héraðslæknis til 1921.
Þegar hann lét af störfum þurfti að finna stað fyrir læknissetur og Laugarás varð fyrir valinu, enda landfræðilega miðsvæðis.
Jörðin var keypt af Guðmundi Þorsteinssyni fyrir 11000 krónur. Hann mun hafa fengið bakþanka og reynt að rifta sölunni þear honum hafði verið bent á að líklega væri mikið verðmæti í jarðhitanum.  
Á fjárlögum 1922 fékk  Sýslunefnd Árnessýslu kr.10.000, til kaupa á Laugarásjörðinni. Í ræðu sem Jón Eiríksson í Vorsabæ flutti 1977 segir að framkvæmdanefndin, sem oddvitar uppsveitahreppanna höfðu valið til að gera tillögu að jarðakaupum, hafi keypt LAugarásjörðina á kr. 11.000. Ekki kemur fram hvaðan það fé er komið, en hafi það komið úr ríkissjóði í gegnum sýslunefnd Árnessýslu, sýnist mér líklegt að uppsveitahrepparnir hafi lagt fram kr. 1000 af þeim 11000 sem jörðin kostaði.
Það var einn hængur á þessari staðsetningu læknisseturs. Það var engin brú  á Hvítá milli Ölfusárbrúarinnar við Selfoss og Brúarhlaða, en við Brúarhlöð hafði verið sett bráðabuirgðabrú vegna konungskomunnar 1907. 
Það kom ekki akvegur milli Laugaráss og Spóastaða fyrr en 1931. Til að komast yfir Hvítá að öðru leyti, þurfti að nota ferju og við Laugarás voru tvær lögferjur. Milli Skálholtshamars og Iðuhamars, þar sem brúin stendur nú og við Auðsholtshamar.

En Laugarás var keypt og fyrsti læknisbústaðurinn var hús sem hafði verið byggt vegna konungskomunnar 1907, við Geysi.  Það var tekið niður og flutt í Laugarás. Það var bárujárnsklætt að utan en panilklætt að innan. Flutningarnir fóru fram í kalsarigningu og panillinn verptist. Þetta hús hun ekki hafa reynst vel, var víst hálfgerður hjallur, en var samt  eitt af fyrstu húsum hér á landi sem hitað var með hveravatni.
Á síðari hluta fjórða áratugarins var byggt hús á tveim hæðum þar sem læknirinn bjó á efri hæðinni og læknastofa á þeirri neðri.
Þannig var þetta til 1966 þegar tekin var í notkun sambyggð heilsugæslustöð og læknisbústaður hér í Launrétt . Enn var bara einn læknir starfandi og hann sá um alla læknisþjónustu á svæðinu auk þess að reka lyfsölu. 

1970 höfðu umsvifin aukist, ekki síst vegna byggingaframkvæmda við Búrfell. Þá var ákveðið að bæta við lækni og hjúkrunarfræðingi og byggja annan læknisbústað. Einnig var byggt við lækningaálmu heilsugæslustöðvarinnar.  Þar var hinsvegar ekki aðstaða nema fyrir einn lækni í einu
Frá því á fyrri hluta áttunda áratugarins hafa starfað hér tveir læknar í senn.
  
1997 var þetta húsnæði síðan tekið í notkun og gerbreytti allri aðstöðu heilsugæslunnar, auk þess sem hér er starfsstöð velferðarþjónustu Árnesþings. Gamla heilsugæslustöðin hýsir nú lyfsölu.

2004 var heilsugæsla hér flutt undir hatt Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, og ekki er því að neita, að það skapaði hér ákveðinn ótta við að þar með færðist læknisþjónusta í uppsveitunum í auknum mæli á Selfoss.
Nú er meiri ástæða en oft til að efla frekar en draga úr.
Íbúarnir á svæðinu voru tæplega 2000 þegar fyrsti læknirinn tók til starfa 1922. Nú eru þeir rétt um 3000.
Það má segja að það sé aðallega þrennt sem kallar á að vel verði haldið á spöðunum hér í uppsveitum:
-          nú eru ríflega 7000 frístundahús á svæðinu, en þeim hefur hefur fjölgað um 3000 á síðustu 20 árum.
-          fjöldi ferðamanna er vel á aðra milljón á ári og þeir leggja hingað leið sína í stórauknum mæli allt árið
-          miklu meiri kröfur fólks til heilsugæslunnar.
  

Læknarnir í Laugarási. 

Það má segja að við höfum verið afar heppin með lækna, svona á heildina litið.
Óskar Einarsson
1922 var Óskar Einarsson skipaður læknir. Þá var ekki búið að ljúka húsbyggingu og til að byrja með var hann með aðsetur í Birtingaholti.
Óskar staldraði stutt við, eða til hausts 1924.  Hann „...., þoldi ekki ferðalög á hestbaki í þvi stóra héraði,...“. – segir í minningargrein um hann.
„Það stóra hérað" er milli 7 og 8000 ferkílómetrar (líklega ríflega 2000 ferkílómetrar í byggð), ívið stærra en hin danska eyja Sjáland.

Við af Óskari tók Sigurmundur Sigurðsson sem var hér í ein 7 ár. Hann barðist fyrir lagfæringum á húsinu. Eftir hann tók Ólafur Einarsson við. Hann starfaði hér í ein 15 ár og tók slíku ástfótri við staðinn að hann byggði hér sumarhús og var hér sumargestur með fjölskyldunni svo lengi sem hann hafði heilsu til.
  
Ólafur H. Einarsson
Sigurmundur Sigurðsson
Knútur Kristinsson
1947 kom Knútur Kristinsson til starfa og stóð við 8 ár á eftir honum Jón G, Hallgrímsson  í tvö ár.  Hann hvarf á braut þrem mánuðum áður en ný brú á Hvítá var tekin í notkun.
Grímur Jónsson varð fyrsti læknirinn í Laugarási sem komst í vitjanir yfir Hvítá á jeppanum sínum, sem var um skeið  Austin Gypsy, sem okkur sumum fannst algjör drusla í samanburði við Land Rover.
Í desember 1957, fyrir 60 árum, var brúin opnuð og með tilkomu hennar breyttist afar margt.
Grímur var hér í 10 ár.
Konráð Sigurðsson var næstur, en hann var síðasti læknirinn til að gegna héraðinu einn. Hann var hér að mestu frá 1967- 1983. Guðmundur Jóhannsson var ráðinn með Konráð 1973 og var hér í um 10 ár.
  
Jón G. Hallgrímsson
Grímur Jónsson
Konráð Sigurðsson
Guðmundur B. Jóhannsson
Eftir það hófst lengsti og ég vil segja farsælasti tíminn í sögu heilsugæslu í uppsveitunum með því Pétur Skarphéðinsson og Gylfi Haraldsson komu á svæðið.  Þeir störfuðu hér frá byrjun 9. áratugarins, þar til þeir létu báðir af störfum vegna aldurs á síðasta ári, eða í rúma þrjá áratugi.

Hvað sem má segja um þróunina úr húskofa sem hélt varla vatni eða vindum í glæsibyggingu eins og þessa, þá stendur það eftir sem lýtur að mennskunni í þessu öllu saman.  
Læknir er ekki betri eða verri læknir vegna þeirra aðstæðna sem hann býr við.
Það er manneskjan sem gerir gæfumuninn.
Læknirinn fæst við fólk, oft á erfiðustu og viðkvæmustu augnablikum lífsins. 
Læknir sem býr meðal okkar, þekkir okkur, deilir kjörum með okkur, skilur okkur, leggur sig fram í þágu okkar. Það er læknirinn sem við viljum hafa.  Við höfum lengst af notið þess að hafa lækna af þessu tagi. Þannig viljum við auðvitað að því verði háttað áfram.

Bæði góður, en líka leiðinlegur.

Þ að er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna...