07 júní, 2023

Laugarás: Sorgleg staða, en fyrirsjáanleg.

Kortið sýnir staðsetningu þéttbýliskjarna
í uppsveitum Árnessýslu.
Ég vil nú ganga svo langt að halda því fram, að sú staða sem nú er komin upp í uppsveitum Árnessýslu, sé afleiðing  um það bil fjögurra áratuga þróunar. 
Þetta byrjaði allt vel, þó umdeilt væri, þegar uppsveitahrepparnir sameinuðust um að kaupa jörðina Laugarás í Biskupstungum, fyrir 100 árum, beinlínis til að koma þar upp læknissetri fyrir svæðið. 
Af sögulegum ástæðum kallaðist læknishéraðið þá Grímsneslæknishérað, en varð svo Laugaráslæknishérað á 5. áratug aldarinnar.
Oddvitar hreppanna mynduðu stjórn héraðsins og þannig var það svo, allt þar til ný lög um heilbrigðisþjónustu voru samþykkt rétt fyrir hrun fjármálakerfisins og Heilbrigðisstofnun Suðurlands varð til.

Ekki verður annað séð, en það hafi verið nokkuð góð sátt um læknissetrið í Laugarási lengst af. Laugarásjörðin var sameiginleg eign hreppanna og fólk sá fyrir sér að þar myndi byggjast upp öflugur byggðarkjarni í hjarta uppsveitanna. Sú uppbygging fór vel af stað á fimmta og sjötta áratugnum, aðallega. þegar garðyrkjustöðvar spruttu upp og innviðir voru efldir til samræmis. Kannski er hægt að ímynda sér að fólkið hafi þá séð Laugarás með svipuðum augum og Árni G. Eylands: 
Þ A N K A R    V I Р   I Ð U B R Ú
Þar hef ég staðið undrandi.
Þvílíkur staður, hversu mikill ætti ekki hlutur þess hverfis að verða. Jarðhitinn, ræktunarlandið, áin – iðan – Vörðufell, og umhverfið allt. Hér á að rísa, hlýtur að rísa, mikið svitaþorp, borg garðyrkjubænda og annarra.
Fyrstu sporin þarf að stíga sem fyrst, og hljóta að verða stigin sem fyrst. Verzlun, sumarhótel, líkt því sem Þrastalundur var, þegar bezt var.
– Þvílíkur stðaur, þvílíkir möguleikar, ríkidómur og Guðsblessun. Hér hlýtur að rísa engu minna þorp en Selfoss og í bræðraböndum við þann stað.
– Já, ég nefndi Guðsblessun.
– Skálholt að baki, með það sem þar er búið illa að gera, og verið vel að gera – og verður vel gert. Og að fáu getur Skálholt og menningarhugsjónum þeirra sem þeim stað unna orðið meiri styrkur heldur en að vaxandi byggð við Iðu – ræktunarþorpi og miðstöð um samgöngur og framþróun nærliggjandi sveita.
– Sjá ekki allir Sunnlendingar hversu mikið hér er í efni? Vonandi gera þeir það, eins vel og betur en ég. Enn á ég ógert það sem mest er, að ganga á Vörðufell og líta yfir þetta fyrirheitna land.

Árni G. Eylands (1895-1980)
Heilsugæslustöðin í Laugarási og Hvítárbrú hjá Iðu. 

Sérstakt eignahald á Laugarásjörðinni hefur verið bæði blessun og bölvun gegnum áratugina. 
Blessun, vegna þess að með samstöðu uppsveitahreppanna tókst að byggja upp mjög öfluga heilsugæslu á svæðinu. 
Bölvun, vegna þess að með því hver hreppur fór í síauknum mæli að ota sínum tota varðandi uppbyggingu á þjónustu "heima fyrir", var markvisst dregið úr áherslu á frekari uppbyggingu í Laugarási.
 
Biskupstungnahreppur tekur Laugarás að sér
Þarna hugsaði hver um sitt og þar kom, að Biskupstungnahrppur tók jörðina á leigu um 1980 og hefur stýrt þróuninni síðan. Við þessa breytingu batnaði hagur Laugaráss harla lítið, þó vissulega hafi það vakið ákveðna bjartsýni þegar ný heilsugæslustöð var reist á síðari hluta 10. áratugarins. Það var eins með Tungnamenn og aðra uppsveitamenn: þeir unnu að því að byggja upp hver hjá sér og litu þannig á, að það sem gert væri í Laugarási væri til þess fallið að stöðva eða hægja á uppbyggingunni "heima fyrir".  Þetta var sem sagt áfram "bölvun" Laugaráss. Hugmyndir um uppbyggingu sem fram hafa komið gegnum tíðina, hafa verið kæfðar með þeim rökum að þær væru betur komnar á Flúðum, í Reykholti, eða á Laugarvatni, þar væru innviðirnir fyrir, svo ekki sé nú minnst á rökin um að þar væri "fólkið".
Þegar Biskupstungnahreppur tók Laugarásjörðina á leigu, var uppi sú sérkennilega staða, að honum var ætlað að stuðla að uppbyggingu á jörð, sem aðrir uppsveitahreppar áttu og fengu tekjur af. Á sama tíma voru Tungnamenn að byggja upp sinn byggðarkjarna í Reykholti, þar sem grunnskólinn var, félagsheimilið, sundlaugin og fleira. Hvaða ástæðu höfðu Tungnamenn svo sem til að efla byggðina í Laugarási?  Eina "opinbera" stofnun á vegum hreppsins fengu Laugarásbúar, en það var sorpbrennsluofn:
Þessi brennsluofn var sá eini í Biskupstungum og ætlaður til brennslu á sorpi frá öllum heimilum og má segja að hann hafi verið eina opinbera stofnunin sem sveitarfélagið hefur valið stað í Laugarási. Þannig var sorpi í Reykholti safnað og flutt til brennslu í Laugarási, við misjafnar undirtektir íbúa þar og þá aðallega vegna reykmengunar sem lagði frá honum yfir byggðina í norðlægum áttum. (laugaras.is)
Aðrir hreppar hafa líklega verið ágætlega hressir með þetta fyrirkomulag því þeir gátu einbeitt sér að uppbyggingunni heima fyrir.  Tungnamenn sátu uppi með að reyna að leiða hjá sér "síkvartandi" Laugarásbúa, sem töldu fram hjá sér gengið í uppbyggingu. Ég er þess fullviss, að tekjurnar frá Laugarási komu sér ágætlega fyrir hreppsjóð, en frumkvæði hreppsins í að halda áfram uppbyggingu þar var og er lítið sem ekkert. 

Bláskógabyggð verður til
Það var ákveðið, í byrjun þessara aldar, án þess að íbúar fengju að greiða um það atkvæði, að sameina Þingvallahrepp, Laugardalshrepp og Biskupstungnahrepp í sveitarfélagið Bláskógabyggð. Þá fór verulega að halla undan fæti í Laugarási, eins og glöggt má sjá á meðfylgjandi línuriti um íbúaþróun í þéttbýliskjörnunum þrem.
 

AUGLÝSING um staðfestingu félagsmálaráðuneytis á sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps. Með vísan til 2. mgr. 91. gr. og 95. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, tilkynnir ráðuneytið að það hefur hinn 18. mars 2002 staðfest sameiningu Biskupstungnahrepps, Laugardalshrepps og Þingvallahrepps í eitt sveitarfélag. (18. mars, 2002)
Tungnamenn voru stærsta sveitarfélagið í þessari sameiningu og var mikið í mun að hin tvö upplifðu það ekki svo, að allur fókusinn eftir sameininguna yrði á uppbyggingu í Reykholti. Í aðlöguninni sem þarna fór fram, varð Laugarás nánast eins og neðanmálsgrein.  Ég vil nú ekki ganga svo langt, að halda því fram, að það hafi verið markviss stefna í uppsveitum, að ganga endanlega frá Laugarási, þó vissulega hafi það stundum hvarflað að mér. 
Sameiningin, þegar Bláskógabyggð varð til, var mistök, að mínu mati og ein birtingarmynd þeirra er það sem nú er í farvatninu og fjallað eru um þessa dagana.  Í mínum huga er þarna að birtast ein afleiðing ótrúlegs andvaraleysis (eða stefnu) sveitarstjórnarfólks í Bláskógabyggð undanfarna áratugi. Það kæmi mér ekkert á óvart ef tárin sem grátið er í samþykkt sveitarstjórnar (sjá hér fyrir neðan), séu, að miklum hluta, krókódílatár.

Hvað er svo framundan?  
Oddvitanefndin heldur sjálfsagt áfram að hittast til að ráða ráðum sínum, nefndin sem kallaði sig Stjórnarnefnd Laugaráslæknishéraðs. Hlutverk þessarar nefndar síðstliðna fjóra áratugi, í það minnsta, hefur ekki verið það að stuðla að uppbyggingu í Laugarási, heldur miklu frekar að tryggja það að í Laugarási yrði ekki uppbygging sem gæti ógnað uppbyggingunni "heima fyrir", þar sem fólkið er. 

Niðurstaða mín er sú, að það sem hefði getað orðið kjarninn í öflugri byggð í uppsveitunum, varð til þess að tefja þessa uppbyggingu, varð ok, sem uppsveitahrepparnir reyndu að losna við, en þótti samt (og þykir enn) gott að eiga ítök í til að tryggja að þessi kjarni fengi ekki að blómstra.

Það sem helst gæti orðið Laugrási til bjargar við þær aðstæður sem við blasa nú, þegar upp eru komnar hugmyndir um að flytja þaðan heilsugæsluna, er líklega að hrepparnir komi sér saman um að selja jörðina. Ég er ekki viss um að það verði ofan á, ekki meðan einhvern lífsneista er að finna í "þorpinu í skóginum".
Ég bíð nú nokkuð spenntur eftir framhaldi þessa máls og þar með hvort sveitarstjórn Bláskógabyggðar meinar eitthvað með samþykkt sinni, sem sjá má hér fyrir neðan. Mér finnst þessi samþykkt nú reyndar fremur veikburða, ef ég á að segja alveg eins og er, en það er rétt að sjá til hvað nú gerist.



Liður í undirbúningi að sameiningu?
Vissulega hvarflar það að mér, að það sé uppsveitamönnum smám saman að verða ljóst, að það mun koma til sameiningar þessara sveitarfélaga á næstu árum. Ég er alveg til í að líta að þessar hugmyndir um flutning heilsugæslunnar í því ljósi. Með honum væri rutt úr vegi einni stærstu hindruninni. Laugarás væri þá með engu móti lengur valkostur sem einhverskonar kjarni uppsveitanna til framtíðar. Þá yrðu stóru kjarnarnir tveir ótvíræðir valkostir í frekari uppbyggingu.
---------------------------------

Ég er búinn að fjalla oft um málefni Laugaráss í pistlum hér á þessu svæði
Hér eru hlekkir á nokkur dæmi:

Einskis manns eða allra 29. mars, 2015
Ólygnir sögðu mér 23. apríl, 2015
Enn á að selja 8. maí, 2017

Ef einhver sem þetta les veit ekki hver ég er, eða hversvegna ég er að blanda mér í þessa umræðu, þá er ég fæddur og uppalinn í Laugarási og bjó þar að langmestu leyti, þar til vorið 2022, þegar við Kvisthyltingar fluttum á Selfoss. 
Ég hef einnig unnið að því, í rúm 10 ár, að safna efni um Laugarás á vefinn https://www.laugaras.is

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Jósefína Friðriksdóttir - minning

Við Jósefína kenndum saman í Reykholtsskóla við upphaf 9. áratugarins, þegar ég var að stíga fyrstu skref mín sem kennari og það gekk allave...