Sýnir færslur með efnisorðinu afi og amma. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu afi og amma. Sýna allar færslur

13 september, 2022

Austfirskar rætur (5) LOK

1922
Árið 1922, líklegast um vorið, eða snemmsumars, fluttu afi og amma frá Rangárlóni í Freyshóla, eins og áður hefur komið fram. Þá fóru systir afa og hennar maður í Strönd. Ekki veit ég hverjar voru ástæður þessa.  Sóknarmannatal Vallanessóknar sem viðaði virð árslok, greinir frá því að þá hafi þessi verið í Freyshólum:
Magnús Jónsson, bóndi, 34 ára
Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir, hs. kona, 29 ára
Alfreð Magnússon, 8 ára
Haraldur Magnússin 7 ára
Skúli Magnússon, 4 ára
Björg Magnúsdóttir 3 ára
Óskírð stúlka. 1s árs
Ljósbjörg Magnúsdóttir, móðir bónda, 74 ára
Jón Björgvin Guðmundsson, vinnum. 18 ára.

Jón Björgvin var sonur þeirra Guðmundar og Sigurbjargar, sem búið höfðu á Freyshólum, systursonur Magnúsar, sem sagt.

1923
Þetta ár leið og árið 1923 gekk í garð. Þegar á leið það var Ingibjörg enn þunguð og þann 14. október kom Fannay Magnúsdóttir í heiminn.  Hún var síðan skírð þann 5. desember, ásamt systur sinni, sem hlaut nafnið Sigríður. Þrem dögum eftir skírnina lést Fanney og var jarðsett þann 31. dessember. Banameins hennar er ekki getið.

Á þessu ári fór Ljósbjörg í Gunnlaugsstaði og Jón Björgvin fór sem vinnumaður í Strönd.

1924
Svo hélt lífið áfram á Freyshólum. Árið 1924 fól ekki í sér neinar breytingar.

1925
Ljósbjörg (77), Guðmundur (65), Sigurbjörg (47) og Jón (21) voru öll komin í Ketilsstaði, en enn var fjölgunar von hjá Ingibjörgu og Magnúsi.  Þann 16. júlí komu tvíburar í heiminn og þær voru skírðar daginn eftir, enda munu þær hafa verið fyrirburar. Þær fengu nöfnin Guðfinna og Pálína. Guðfinna lést þann 21. júli (eftir því sem mér sýnist í prestþjónustubók), en Íslendingabók segir hana hafa látist þann 27. júlí.

1926
Á þessu ári hvarf Skúli, á áttunda ári, frá Freyshólum og eftir voru Magnús og Ingibjörg með fimm börn, 0-12 ára gömul. 

Skúli fór sem fósturbarn í Mjóanes til hjónanna Benediks og Sigrúnar Blöndal. Þau höfðu þá flutt í Mjóanes tveim árum fyrr frá Eiðum. Með þeim var Tryggvi Gunnar Blöndal, bróðir Benedikts, þá 10 ára. Sama ár og þau fluttu eignuðust þau soninn Sigurð. 

Um dvöl Skúla hjá þeim Sigrúnu og Benedikt, fyrst í Mjóanesi og síðan á Hallormsstað, hef ég þegar fjallað: Að efna í aldarminningu (4) og læt ég það duga.

Víkingsstaðir koma við sögu síðar, en þar bjuggu á þessu ári Guðmundur Þorbjarnarson, bóndi (48) og kona hans Aðalbjörg Stefánsdóttir (40) me sex börnum sínum, móður bónda Ingibjörgu Guðmundsdóttur (67) og Einari Jónssyni Long (57) - en hann var síðar á Hallormsstað.

Ljósbjörg (78), Guðmundur (68) og Sigurbjörg 48) og Jón Björgvin (22) voru áfram á Ketilsstöðum. Þar var Jón búinn að ná sér í konu, Hildi Stefánsdóttur (29).

1927
Á þessu ári fluttu Magnús og Ingibjörg í Víkingsstaði með börn sín fimm, sem eftir voru heima. Hjónin sem þar höfðu verið, fluttu til Seyðisfjarðar. 

Nú var Jón Björgvin Guðmundsson (23) orðinn bóndi á Freyshólum og þar var kona hans og barn á fyrsta ári, Stefán að nafni. Foreldrar Jóns voru þarna komnir líka og Ljósbjörg (79). magnað hvað Ljósbjörg var mikið á ferðinni. 

1928
Jæja, nú var að færast einhver ró yfir mannskapinn, því enginn hreyfði sig frá sínum bæ.

1929
Haraldur (14) var ekki nefndur meðal heimilisfólks á Víkingsstöðum. Þetta ár var hann vikapiltur á Litla-Sandfelli hjá þeim Runólfi Jónssyni (27) og Vilborgu J. Jónsdóttur (23). 

1930
Haraldur  var þetta ár einnig á Litla-Sandfelli, en árið eftir var hann kominn í Seyðisfjörð til ömmu sinnar og afabróður. 

Ljósbjörg var áfram á Freyshólum, orðin 82 ára.

1931
Enginn Haraldur enn á Víkingsstöðum, en ég fann hann á Lækjarbakka á Seyðisfirði, skráðan sem fósturson Sæbjargar ömmu sinnar og Sigbjörns, föðurbróður. Þarna var hann 16 ára. 

Sæbjörg og Sigbjörn fluttu á Seyðisfjörð eftir ár sín í Jökuldalsheiði og þar lést Sæbjörg í apríl 1946, 65 ára að aldri. Sigbjörn lést rúmu ári síðar.  

1932
Hér var Haraldur (17) kominn aftur frá Seyðisfirði og börnin á bænum þá aftur orðin fimm að tölu. Ljósbjörg varð 84 ára á árinu og enn á Freyshólum..

1933
Allt við sama á Víkingsstöðum.

1934
Haraldur var aftur farinn að heiman og ekki fann ég hvert.

1935
Jæja, Haraldur (20) var kominn aftur og hafði verið í Gíslastaðagerði. 

1936
Öll fjölskyldan á Víkingsstöðum.

1937
Sigfríður var komin í Ketilsstaði og Haraldur í Hallormsstað, vinnumaður hjá Guttormi Pálssyni, skógarverði. Alfreð var kominn með titilinn "húsmaður" á Víkingsstöðum.

1938
Alfreð (24) var orðinn bóndi á Víkingsstöðum. haraldur og Sigfríður voru snúin til baka.

1939 - 1940 (seinni heimsstyrjöld)
Enn vóbreytt á Víkingsstöðum, 7 manns í heimili og Alfreð bóndinn.

1941
Ljósbjörg lést í hárri elli á Freyshólum, þann 5. janúar, 92 ára að aldri. Á Víkingsstöðum var áfram sama fólk með heimilisfesti.

1942
Hér var komin til sögunnar ný húsfreyja á Víkingsstöðum, Guðrún B. Þorsteinsdóttir (22), sem fæddist í Kambaseli á Djúpavogi, en kom í Víkingsstaði frá Gíslasöðum. Annað var óbreytt á bænum.

1943
Engin breyting.

1944
Hér fæddist þeim Alfreð og Guðrúnu dóttirin Þórný Sigurbjörg og Björg hafði hleypt heimdraganum. Hvert hún fór er mér ekki fulljóst.

1945
Sonurinn Benedikt bættist við hjá Guðrúnu og Alfreð og Pálína eignaðist soninn Sæbjörn Eggertsson.

1946
Óbreytt á bænum.

1947
Guðrún og Alfreð eignuðust þriðja barnið, dótturina Ljósbjörgu. Sigfríður (26) hélt út í heiminn og á þessu ári var hún skráð í "Kaupfélaginu".

1948 - 1951
Allt við það sama á Víkingsstöðum og Sigfríður áfram í Kaupfélaginu, 1948, en árið eftir var hún skráð í "Spítalanum" og árið þar á eftir á "Spítalanum III"

Magnús Jónsson, eftir að hann
kom í Hveratún.

1952

Á þessu ári var Magnús (65) ekki lengur skráður á Víkingsstöðum.  Það er mér ljóst, að þó svo afi hafi verið skráður á Víkingsstöðum til 1951 þá kom hann í Hveratún árið 1950, til Skúla sonar sína og Guðnýjar Pálsdóttur. Þar var hann síðan til dauðadags, 16. janúar, 1965. Ég veit að hann hafði starfað við múrverk og hann hélt því eitthvað áfram, en skrokkurinn var orðinn lélegur.

Ingibjörg var á Víkingsstöðum til dauðadags 17. nóvember, 1968.

---------------------

Það er mér ljóst, að kirkjubækurnar segja ekki nema hluta sögunnar um þá forfeður mín sem hér hafa komið við sögu  og þekking mín umfram það sem þessar bækur segja, er harla brotakennd.

Það liggur við að ég skori á ykkur (en geri það samt ekki) afkomendur Alfreðs, Bjargar og Pálínu að fylla í eyður og greina frá sögu þeirra eftir uppvaxtarárin á Víkingsstöðum. Þið sem ólust upp með ömmu, megið einnig gefa af henni fyllri mynd.  Þá er saga Sigfríðar og Haralds ósögð, held ég. 
Ég yrði harla glaður ef svona frásagnir birtust á síðu niðja Ingibjargar og Magnúsar á Facebook - nú eða annarsstaðar. 😇



Sigfríður, brosmildur, grallaraspói.



Austfirskar rætur (4)


Það er rétt að geta þess, að síðan ég skrifaði síðustu færslu, hef ég uppgötvað, að þann 12. mars, 1913, daginn eftir að þau gengu í hjónaband, eignuðust Ingibjörg og Magnús andvana son. Ég hef breytt fyrri færslunni til samræmis

Byggðin í Jökuldalsheiði heyrir nú til liðna tímanum. Einu merkin um þá byggð eru bæjarrústir, sem blasa við augum vegfarenda. Allar eiga þær sína sögu, „sigurljóð“ eða „raunabögu“, eins og skáldið segir. Sú saga verður ekki sögð, en hún gæti, ef vel væri á haldið, orðið efni í margar bækur. .. (Björn Jóhannsson: Frá Valdastöðum til Veturhúsa)

Þessi næturstaður var langt frá mannabyggðum; að undanskildum nokkrum öðrum kotum, sem stóðu á víð og dreif um heiðina, var dagleið til byggða og þrjár dagleiðir í kaupstað, jafnvel að sumarlagi.

Það var ekki sjónarmunur á kotinu og jöklinum; samferðamenn mínir hittu á það með því að að fylgja sérstökum miðum. Við geingum mörg þrep niðurí jökulinn til að komast inní bæardyrnar. Baðstofukytran var á loftinu, niðri var hey og fénaður. Hér bjó karl og kerlíng, sonur þeirra og móðir bónda, farlama gamalmenni. Bóndinn átti nokkrar kindur, en hafði slátrað einu kúnni til þess að hafa nóg handa kindunum. Hann sagði að það gerði minna til þótt fólkið væri mjólkurlaust og matarlítið, aðalatriðið væri að hafa nóg handa kindunum." Fólkið í heiðinni dró fram allt það besta handa ferðalöngunum: þeir fengu soðið beljukjöt um kvöldið og soðið beljukjöt morguninn eftir, kaffi og grjótharðar kleinur. (HKL)

Það hafa sjálfsagt verið sagðar margar sögur af lífi fólks í Jökuldalsheiði og það er sannarlega ekki ætlun mín að fara að bæta þar við neinu umtalsverðu, en ekki neita ég því, að oft hefur mér orðið hugsað til þess hvernig líf afa og ömmu var, á þeim tíma sem þau urðu að ákveða hvert leggja skyldi leið í lífinu og síðan, hvernig líf þeirra í heiðinni var.

Upphafið var að það var ekkert jarðnæði að fá niðri í byggð og fólk fór að leita upp til heiða. Á tímabili var það þannig á Íslandi, að fólk þurfti að hafa land til að geta gift sig. 
Fyrsta heiðarbýlið var byggt 1841 og það síðasta 1862 og byggðust mörg á gömlum seljum. Þegar mest var er talið að um 120 manns hafi búið í Jökuldalsheiði. 
Það voru 16 býli sem byggðust en ekki nema 12-14 byggð á hverjum tíma.   
Því fylgdu ákveðin lífsgæði að búa í heiðinni. Það var silungur í vötnum og fuglinn og jafnvel hreindýr og þetta var yfirleitt grasgefið og það voru tínd fjallagrös. Þetta var svona sjálfsþurftabúskaður. 
Það vor um 75 km leið að fara í Vopnafjörð, þar sem var kaupstaðurinn lengi vel, svo það var ansi langt að fara með klyfjahesta. Þetta snérist um að eiga sitt og vera ekki upp á aðra kominn - svolítil sjálfstæðisbarátta.
En það var svona rómantík hérna og ekkert skrítið, það getur verið alveg yndislegt að vera hérna. - En svo kom veturinn og þá varð harðbýlt og erfitt. (Úr viðtali við Hjördísi Hilmarsdóttur í Landanum í RUV, 4. okt. 2021)


Rangárlón eða Rangalón

Rangárlón eða Rangalón er eyðibýli við norðanvert Sænautavatn. Bærinn var byggður 1844 úr Möðrudalslandi, en fór í eyði 1924 og enn þá sjást bæjarrústirnar greinilega.(Nat.is)

Smá pæling um nafnið á þessu býli:
Því meira sem ég skoða um þennan stað, því sannfærðari er ég um, að hann heiti Rangárlón. Eini gallinn á þeirri niðurstöðu er, að ég hef ekki fundið neina Rangá þarna í nágrenninu.  Þá átta ég mig  ekki heldur á því, hversvegna bærinn heitir RangárLÓN, þar sem hann stendur á bakka Sænautavatns og ekkert lón sjáanlegt í nágrenninu.

Fyrir utan það, að eldri heimildir virðast nota nafnið Rangárlón, þá tel ég aldeilis útilokað, að einhver taki upp á því að nefna bæinn sinn Rangalón - sem væri þá væntanlega andstæðan við Réttalón - fyrir utan það að þarna er ekkert lón, hvorki rétt né rangt.

Lagt í hann 


Ekki veit ég neitt um hvernig ferð fjölskyldunnar frá Freyshólum upp í Jökuldalsheiði var háttað og þá er ekki um annað að ræða en beita ímyndunaraflinu.
Rökréttast finnst mér að lagt hafi veri í hann um vorið 1918, þegar lömb voru orðin nægilega stálpuð til að ráða við ferðalagið. Þá voru klyfjahestar og/eða hestvagn, notaðir undir það sem nauðsynlegt var að hafa með sér.  Það var nú ekki eins og fólk á þeim tíma sem þarna er um að ræða, hafi á sófasett, sjónvarp, eða frystikistu, svo þetta hefur ekki verið neitt í stíl við það sem nú er.

Þetta var fólkið sem lagði upp í ferðina frá Freyshólum:
S. Ingibjörg Björnsdóttir, húsfreyja, 24 ára
Magnús Jónsson, bóndi, 30 ára
Alfreð Magnússon sonur þeirra, að verð  4 ára.
Haraldur Magnússon, sonur þeirra, 2 ára
Sæbjörg Jónasdóttir, móðir Ingibjargar, 47 ára, sem kom frá Seyðisfirði
Sigbjörn Sigurðsson, 60 ára, sem kom frá Seyðisfirði.
Svo var "bumbubúi" (nútíma orðfæri) með í för og sennilegast einhverjir aðstoðarmenn.

Í september 1918 tók ég saman ýmislegt um ævi föður míns í nokkrum þáttum og til þess að fara nú ekki að endurtaka það sem þar kom fram bendi ég á það hér: Að efna í aldarminningu (2) Kannski er rétt að taka það fram, að þá vissi ég ekki að þau Sæbjörg og Sigbjörn hefðu farið með og dvalið hjá þeim fyrsta veturinn í Rangárlóni.

Ferðin

Milli Freyshóla og Rangárlóns eru um 100 km. Hestamaður sagði mér að dagleið  ríðandi væri nálægt 40 km. Ef kýr hefur verið með í för og eitthvert fé með lömbum, má því alveg reikna með að ferðin hafi tekið, tja, þrjá daga.  Hópurinn hefur því þurft að gista á leiðinni og þá sennilega á bæjum í Jökuldal - en ekki veit ég neitt um það, frekar en annað varðandi þetta ferðalag.

Mynd Björn Björnsson, af Sarpur.is
Í áfangastað

Svo komu þau loks í Rangárlón og hver veit hvernig staðan var þar, en ekki held ég nú að þar hafi þeirri beðið glæstar byggingar.  Í sóknarmannatali í Eiríksstaðasókn í árlok, eða síðla árs 1916, voru skráð hjón, tæplega fimmtug með 3 börn sín , 2-23ára og tökubarn.  Næst þegar prestur skráði sálirnar í sókninni, í lok 1917, var Ranagárlón ekki talið þar með, sem bendir einfaldlega til þess að þar hafi enginn búið í jafnvel heilt ár, þegar fjölskyldan frá Freyshólum koma á staðinn. Það þarf ekki frjótt ímyndunarafl til að sjá fyrir sér, hvernig húsakosturinn hafi verið við þessar aðstæður.

Á Rangárlóni

Haustið 1918 bjuggu í Sænautaseli, sem var við suðurenda Sænautavatns,ung hjón, Guðmundur Guðmundsson (36) og Jónína Guðnadóttir (31), ásamt 6 ára syni sínum Pétri og Petru Jónsdóttur, móður bóndans (63). Þetta fólk var, sem sagt, nágrannar hinna nýju Rangárlónsbúa, sem við manntalið hafði fjölgað um einn, en fjórði sonur  Magnúsar og Ingibjargar fæddist þann 29. september og fékk hann nafnið Skúli.
Ég ætla nú ekki að reyna að sjá fyrir mér hvernig lífið hefur gengið fyrir sig fyrsta veturinn, en vísast kom sér vel að hafa þau með sér, þau Sæbjörgu, sem titluð var ráðskona Sigbjörns og Sigbjörn sem var skráður húsmaður.  
Veturinn leið og dýrð sumarsins 2019 tók við, það haustaði og þau Sæbjörg og Sigbjörn dvöldu á Rangárlóni annan vetur. Þann 29. nóvember fæddist fimmta barn hjónanna, Björg, en hún náði ekki inn í sóknarmannatalið 1919. Björg var skírð þann 1. ágúst, 1920.  

Svo leið veturinn og aftur kom fagurt sumar árið 1920 í heiðinni. Kirkjubækur segja, að Haraldur hafi farið í Freyshóla, sem tökubarn, á þessu ári, en hann var samt einnig skráður á Rangárlóni.  Ég get mér þess til að eitthvað það hafi hrjáð piltinn sem varð til þess að talið  væri að honum væri betur borgið niðri í byggð, en ég veit auðvitað ekkert um það.
- smella til að stækka -

Sæbjörg og Sigbjörn
fluttu sig um set í heiðinni, að Grunnavatni, sem var í um 10 km  frá Rangárlóni.  Þar lést húsfreyjan á í byrjun september og þá voru þar eftir ekkillinn Guðni Arnbjörnsson (77) ásamt syni sínum Björgvin (28).  Sæbjörg og Sigbjörn voru á Grunnavatni til ársins 1924, en Guðni lést í nóvember það ár.  
Frá Grunnavatni héldu þau síðan í Hákonarstaði, ásamt Björgvin og þar dvöldu þau til 1929, en héldu þá á Seyðisfjörð aftur og bjuggu þar á Lækjarbakka. Þá var Sigbjörn 71s árs en Sæbjörg 59 ára. Þarna bjuggu þau  þar til Sæbjörg lést þann 16. apríl, 1946. 74 ára að aldri. Sigbjörn lést árið eftir á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði, í 90. aldursári.  Sæbjörg var skráð ekkja, þegar hún lést, svo aldrei gengu þau skötuhjúin í hjónaband, þrátt fyrir áratuga sambúð.   

En aftur að Magnúsi og Ingibjörgu á Rangárlóni, árið 1920. 
Svo kom haustið og veturinn og Magnús, Ingibjörg og voru einu íbúarnir á býlinu ásamt börnum sínum. 
Árið 1921 voraði sem fyrr og síðan leið sumarið, og enn einn veturinn framundan.  Þann 17. september fæddist enn eitt barnið, Sigfríður. Hún náði ekki inn í sóknarmannatalið fyrir þetta ár, en þarna var Una Vigfúsdóttir, nokkur, skráð vinnukona á Rangárlóni. Ekki hef ég fundið neitt handfast um hana, en tel líklegt að hún hafi fæðst 1886. 

Rangárlón kvatt

Ætli maður verði ekki að gera ráð fyrir að fjölskyldan á Rangárlóni hafi kvatt heiðarbýlið vorið eða í sumarbyrjun árið 1922. Þetta voru Magnús (33), Ingibjörg (28), Alfreð (7). Haraldur (5), Skúli (3), Björg (1) og Sigfríður á 1. ári. 
Það geta svo sem verið ýmsar ástæður fyrir því að Rangárlónshjónin ákváðu að yfirgefa heiðina. Kannski er bara ágætt að segja sem svo, að saman hafi farið, að barnahópurinn var orðinn ansi stór við erfiðar aðstæður á veturna og að Guðmundur, kominn á sjötugsalldur, og  Sigurbjörg á Freyshólum hafi þarna ákveðið að bregða búi og flytja að Strönd.
Fjölskyldan tók sig upp, í öllu falli og flutti í Freyshóla. 

---------------------------------

Hér held ég að séu ágæt kaflaskil og held svo bara áfram næst.





11 september, 2022

Austfirskar rætur (3)

Magnús Jónsson og Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir.
Ætli ég byrji ekki á smá pælingum um hvernig það gerðist, mögulega, að Ingibjörg og Magnús náðu saman, með þeim afleiðingum sem afkomendur þeirra hafa síðan upplifað á sjálfum sér.

Kóreksstaðir og Kóreksstaðagerði 1905
Ég hef ekki fundið öruggan snertiflöt á mögulegum kynnum afa og ömmu í tengslum við þennan bæ. 
Dóttir þeirra Páls Geirmundssonar ömmubróður Ingibjargar, bjó í Kóreksstaðagerði til 1906, svo varla hefur stúlkan verið þar eitthvað eftir þann tíma. Ingibjörg, þá 11 ára, var í Kóreksstaðagerði 1904 með fósturforeldrunum. Þetta var sama ár og Magnús, þá 15 ára, fór frá Freyshólum í Ketilsstaði, þar sem hann var vinnumaður. 
Það er spurning hvort árið 1905 hafi verið nokkurskonar úrslitaár, en þá var Magnús (17) kominn í Kóreksstaði og dóttir Páls Geirmundssonar bjó enn í Kóreksstaðagerði. Það má alveg reikna með að Ingibjörg (12) hafi þá dvalið í Kóreksstaðagerði yfir sumarið. Hver veit?


Vallaneshjáleiga 1912
Ingibjörg kom frá Seyðisfirði í Vallaneshjáleigu, sennilega um vorið og Magnús kom frá Hólum, sennilega á svipuðum tíma. Það er auðvitað mögulegt að þetta hafi verið skipulagt hjá þeim, eftir bréfasamskipti síðan á Kóreksstaðaárunum. Það er líka möguleiki, að þetta hafi bara verið alger tilviljun.

Ættartengslin
Ljósbjörg hefur, án efa, verið í samskiptum við hálfbróður sinn, Jónas Valgerðarson Hansson, afa Ingibjargar og ekki ólíklegt að fjölskyldan hafi verið við útför hans á Seyðisfirði, en hann lést 1906, eins og áður hefur komið fram. Mér finnst lítill vafi leika á því, að Magnús og Ingibjörg hafi þekkst nokkuð vel, þó ekki væri nema vegna ættartengslanna. 
Ljósbjörg (65) var í Vallaneshjáleigu með syni sínum, Magnúsi (25) og barnabarni hálfbróður síns, Ingibjörgu (19), árið 1912. Ætli hún hafi átt einhvern þátt í að koma þeim í hnapphelduna? 

Sambúðin hefst

Auðvitað kemur mér ekkert við hvernig það kom til að afi minn og amma stofnuðu til hjúskapar 11. mars árið 1913. Mér finnst áhugavert að reyna að gera mér grein fyrir því hvernig mál þróuðust þannig að ég varð til. Það er, sem sagt, hrein og tær sjálfhverfa, sem ræður för. 
Það er líklegt að ástæðan hafi verið sú, að Ingibjörg varð þunguð og nauðsynlegt að barnið teldist skilgetið þegar það kæmi í heiminn. Daginn eftir brúðkaupsdaginn varð Ingibjörg léttari og eignaðist son, sem fæddist andvana, svo ekki hefur farið mikið fyrir hveitibrauðsdögum ungu hjónanna. 

Frá Vallaneshjáleigu í Freyshóla
Ég geri ráð fyrir að ungu hjónin hafi flutt frá Vallaneshjáleigu í Gunnlaugsstaði vorið 1914, þegar annað barnið var væntanlegt, en það fæddist þann 7. júni og fékk nafnið Alfreð. Ekki var viðdvöl þeirra á nýja staðnum löng, en fluttu þau í Freyshóla ári síðar.  Framundan var að reyna að átta sig á hvernig best væri að haga framtíðinni. Ekki töldu þau það neina framtíðarlausn, að vera í vinnumennsku á hinum og þessum bæjum í héraðinu. Það voru engar jarðir lausar til ábúðar og þau hafa örugglega velt ýmsum möguleikum fyrir sér.  Það varð um það niðurstaða, að þau flyttu á æskuheimili Magnúsar, þar sem fyrir var systir hans, Sigurbjörg og fjölskylda hennar. 

Tvíbýli á Freyshólum. 
Meðalstærð jarða á Íslandi mun vera um 1000 hektarar. Ég sá jörðina Freyshóla auglýsta til sölu fyrir nokkrum árum og þá var hún sögð 272 hektarar. Ætli megi ekki ætla, að hún hafi alltaf verið af þeirri stærð, fjórðungur af meðalstærð jarða?  Í öllu falli held ég að fullyrða megi að Freyshólar hafi varla borið tvær fjölskyldur. 
Hvað sem þessu leið, fluttu Magnús og Ingibjörg í Freyshóla, líklegast vorið (eða á útmánuðum) 1915 og þá var þriðja barn þeirra á leiðinni, Haraldur, sem fæddist þann 4. september. 
Þarna var stofnað annað býli á Freyshólum og þar bjuggu afi og amma með synina tvo til vors (líklegast) 1918. Þau hafa örugglega verið á fullu við að fylgjast með jörðum sem kynnu að losna, því varla hafa þau séð fyrir sér að hokra á landlítilli jörðinni til frambúðar. Það losnuðu greinilega engar jarðir og þá þurfti að hugsa út fyrir rammann. 

Um Guðrúnu Jónsdóttur og fjölskylduna á Kóreksstöðum. (smá hliðarspor)

Árið 1916 lést Sveinn Björnsson, bóndi á Kóreksstöðum, mágur Magnúsar, faðir Guðrúnar Sveins, úr lungnabólgu, 53 ára að aldri. Guðrún, systir Magnúsar var áfram á Kóreksstöðum með börn sín 4, sem líklega hefur ekki gengið til lengdar.  
Þannig var, að í upphafi ársins 1916 voru þessi á bænum:
Sveinn Bjarnason, bóndi (53) - hann lést úr lungnabólgu 20. apríl þetta ár.
Guðrún Jónsdóttir, kona hans (32)
Guðrún Björg Sveinsdóttir (10)
Björn Sveinsson (8)
Þórína Sveinsdóttir (6)
Ester Sveinsdóttir (1)
Einar Sveinsson (á 1)
Guðrún Sveinsdóttir, móðir bónda (87) - hún lést 2. febrúar þetta ár.
Geirmundur Magnússon, vinnumaður (33) hætti líklega um vorið.
Una Kristín Árnadóttir, vinnukona (20)
Síðari hluta ársins var kominn annar vinnumaður á bæinn: Pjetur Pjetursson (38). í sóknarmannatali ársins 1917 er kynnt til sögunnar óskírð stúlka á 1. ári, dóttir Guðrúnar og Pjeturs. 
Í framhaldinu hvarf þessi fjölskylda frá Kóreksstöðum. Guðrún og Pjetur áttu síðan eftir að giftast og þau eignuðust 5 börn saman, en Guðrún átti 6 börn með Sveini Björnssyni.
Ég gæti auðveldlega haldið áfram með þessa systur Magnúsar afa, móður Guðrúnar Sveins, en læt það eiga sig, að öðru leyti en því að í lok árs 1918 var hún komin í Freyshóla með tvö barna sinna og eignaðist þar son í lok árs. 

...... áfram inn á hina réttu braut.

Sannarlega veit ég ekki hvað olli því að tvíbýlið á Freyshólum gekk ekki til langframa, en grunar,að jörðin hafi einfaldlega ekki borið tvær fjölskyldur. Á fyrri hluta ársins 1918 var orðið ljóst að enn væri fjölgunar von hjá Ingibjörgu og Magnúsi. Eftir frostaveturinn mikla, sem gekk yfir fyrri hluta árs 1918, kann ástandið á Freyshólum að hafa verið orðið óburðugt og ekki um annað að ræða en taka af skarið. Niðurstaða varð um að fjölskyldan myndi flytjast að Rangárlóni í Jökuldalsheiði. 

-------------------------------------
Ég ætlaði nú ekki að dvelja svona lengi við þessi sex á frá 1912-1918, en, það er ekki alltaf svo að maður ráði sínum næturstað. Svo virðist þetta bara hafa verið áhugaverður tími.
Áfram gakk.

09 september, 2022

Austfirskar rætur (2)

Mæðginin Magnús Jónsson og
Ljósbjörg Magnúsdóttir við lok 19. aldar.
Ég reyni að rekja stuttlega sögu langafa míns, Jóns Guðmundssonar á Freyshólum og langömmu, Ljósbjargar Magnúsdóttur, fram til þess tíma þegar þau tóku við búi á Freyshólum, árið 1876. Þessi leit mín hefur ekki verið einföld, svo ekki sé meira sagt og niðurstaða mín var sú að láta kyrrt liggja að mestu.  En úr því ég er búinn að sitja við þessa leit, dögum saman, finnst mér óhjákvæmilegt að skrá hér þó það sem ég veit með nokkurri vissu. 

Aðeins um bakgrunn afa míns, 
Magnúsar Jónssonar 
(
05.11.1887-16.01.1965)

Hinn langafinn í föðurætt: Jón Guðmundsson.
Jón Guðmundsson, fæddist 6. mars 1829 og var sonur Guðmundar Jónssonar bónda í Borgargerði  og Katrínar Gunnlaugsdóttur. 
Árið 1834 var fjölskyldan flutt að Lambeyri í Reyðarfirði og var þar enn 1839.
1842 til 1844 var Jón léttadrengur í Vattarnesi en fór þá í Breiðuvík, þaðan hvarf hann árið eftir í Höfða og þaðan í Ketilsstaði 1848.
Árið 1851 var hann mættur sem 22 ára vinnumaður í Freyshóla og var þar til 1862, en þá flutti fjölskyldan að Hofteigi í Jökuldal og Jón flutti með þeim þangað. Þá var hann orðinn 34 ára.
Árið 1964 gerðist hann vinnumaður í Þingmúla og var þar til 1869, en er þá sagður hafa farið í Ormsstaði. Hvaða Ormsstaðir þetta voru veit ég bara ekki. Ormsstaðir í Breiðdal eða ....? 
Eftir það er ég hreint ekki vissu um verustaði hans, fyrr en hann tók við sem bóndi í Freyshólum.

Hin langamman í föðurætt: Ljósbjörg Magnúsdóttir.
Það kom fram í 1. hluta, að langalangafi minn Jónas Valgerðarson Hansson, var hálfbróðir langömmu minnar, Ljósbjargar Magnúsdóttur. Þar segir: "Valgerður giftist 1840 Magnúsi Magnússyni (1808-1866) og eignaðist með honum 7 börn og þar á meðal eitt, sem talsvert kemur við þessa sögu. Hér var um að ræða stúlku, sem hlaut nafnið Ljósbjörg Magnúsdóttir. sem síðar varð þess heiðurs aðnjótandi, að verða hin langamma mín."
Ljósbjörg er sögð fædd á Reykjum í Mjóafirði þann 8. janúar, 1848.

Ég verð að viðurkenna að mér gekk bölvanlega að finna upplýsingar um Ljósbjörgu fyrr en hún var nýkomin í Skjöldólfsstaði í Jökuldal árið 1868, en þá er engu líkara en hún hafi einnig farið í Þingmúla, en þar fann ég hana þetta sama ár. 

Jón og Ljósbjörg
Á þessu ári (1868) var Jón Guðmundsson einnig í Þingmúla, svo ég slæ því bara föstu, að þar hafi kynni þeirra hafist. Árið eftir var Jón áfram í Þingmúla, en Ljósbjörg farin þaðan, líklega í Skjöldólfsstaði, en þaðan er hún sögð hafa farið 1870, sama ár og Jón fór frá Þingmúla í Ormsstaði, sem ég veit ekki hvar eru og þá er Ljósbjörg einnig sögð hafa farið þangað. 
Hjúin eignuðust fyrsta barn sitt, Hólmfríði, í  Hofteigi 1874. Þar voru þau frá 1871 til 1876 og gengu í hjónaband meðan þau voru þar.
 

Freyshólar
Svo varð það 1876 að Þau komu í  Freyshóla frá Hofteigi og tóku þar við búi af Bjarna Bjarnasyni (68) og Salnýju Jónsdóttur (42). Þau attu 4 börn 9-18 ára.  Þau fluttu að Stóra-Sandfelli.
Jón var 48 ára og Ljósbjörg þrítug og þar með 18 ár á milli þeirra. Með þeim var frumburðurinn Hólmfríður Jónsdóttir (1).  Annað fólk á bænum voru 14 ára léttastúlka. Stefán Gunnlaugsson (38) vinnumaður, kona hans Herdís Jónsdóttir (44) og tvö börn þeirra 8 og 2ja ára.  Árið eftir var komið annað fólk í vinnumennskuna. 
1878
Annað barn hjónanna fæddist, Sigurbjörg Jónsdóttir.
1879
Auk fjölskyldunnar voru á bænum 12 ára tökustúlka, 40 ára vinnukona og 3ja ára sonur hennar, 36 ára vinnumaður og 85 ára niðursetningur. 
1880
Hér bættist þriðja barnið við, Guðjón Jónsson.
1881
Allt við það sama nema nú var kominn til sögu húsmaður, Benedikt Gíslason (29) ásamt Ólöfu Ólafsdóttur (28) konu hans og tveggja ára dóttur.
1882
Sama og síðasta ár.
1883
Fjórða barnið, Guðrún Jónsdóttir, bættist í barnahópinn.  og það var enginn húsmaður lengur, heldur þrjár vinnukonur og einn vinnumaður.
1884 - 1886
Hér bar fátt til tíðinda.

Gróft yfirlit yfir helstu staði sem koma við sögu. Grunnur er herforingjaráðskort.


Magnús Jónsson kemur til sögunnar
1887
Þann 6. nóvember kom í heiminn fimmta, og síðasta, barn þeirra Jóns og Ljósbjargar og fékk hann nafnið Magnús. Hann er önnur meginástæða þessarar samantektar og honum verður fylgt héðan í frá. 

Þegar piltur kom í heiminn var þetta fólk á Freyshólum:
Jón Guðmundsson, bóndi (59) - faðirinn sennilega í eldri kantinum. 
Ljósbjörg Magnúsdóttir kona hans (33)
Hólmfríður Jónsdóttir (12), Ingibjörg Jónsdóttir (9), Guðjón Jónsson (8) og Guðrún Jónsdóttir (5) börnin á bænum.
Jóhann Sigurðsson (48) vinnumaður og Herdís Kolbeinsdóttir (25) vinnukona.
1888-1899
Þetta voru nú bara ár sem Magnús var að slíta barnsskónum smám saman, hjá fjölskyldu sinni á Freyshólum. Það voru helst elstu systkinin sem byrjuðu að hreyfa sig á þessum tíma. Þannig fór Hólmfríður sem vinnukona í Sauðhaga og kom aftur með mann með sér, Jón Ólafsson að nafni. Þau eignuðust svo soninn Ólaf Björgvin árið 1895 og bjuggu á Freyshólum, sem vinnuhjú.
Guðrún, þá 18 ára,var komin í Hjaltastaði 1901.
1900
Þann 16. júlí, lést Jón bóndi 72 ára að aldri. Þarna var Ljósbjörg 53 ára og var skráð sem búandi síðari hluta ársins.  
1901
Svona var fjölskyldan á Freyshólum skráð á þessu ári:
Jón Ólafsson, bóndi (35)
Hólmfríður Jónsdóttir, hans kona (25),
Ólafur Björgvin Jónsson (6) þeirra sonur.
Ljósbjörg Magnúsdóttir, vinnukona (54)
Magnús Jónsson, léttadrengur (13)
Þarna fóru í hönd nýir tímar, sem sagt. 
1902
Jón og Hólmfríður eignuðust annað barn, Jóhönnu Björg.  Ljósbjörg var skráð sem "móðir konu" og Magnús áfram "léttadrengur". Það var komin vinnukona og 4ra ára tökubarn.
1903
Hér voru vinnukonan og tökubarnið farin og léttadrengurinn Magnús, orðinn 15 ára. 
Guðrún (20) var orðin vinnukona á Kóreksstöðum. 
1904
Hér var Ljósbjörg farin að Hryggstekk í Skriðdal. Á Kóreksstöðum hafði Guðrún fengið titilinn "ráðskona" hjá Sveini Björnssyni, bónda (42). 
Magnús (16) var orðinn "vinnumaður" á Ketilsstöðum.
1905
Á Freyshólum var kjarnafjölskyldan, hjónin með tvö börn.
Á Kóreksstöðum var Guðrún (22) orðin húsfreyja, gift Sveini Björnssyni (43) og þau höfðu eignast dótturina Guðrúnu Björgu, sem síðan var kunn sem Guðrún Sveins og bjó í Mávahlíð í Reykjavík.
Það sem skiptir hinsvegar mestu fyrir þessa samantekt er, að í Kóreksstaði var kominn 17 ára pilturinn Magnús Jónsson og gegndi hann þar stöðu vinnumanns. 
1906
Magnús var áfram vinnumaður á Kóreksstöðum.
Á Freyshólum voru orðin mikil umskipti. Sigurbjörg (28) var komin aftur heim, með manni sínum Guðmundi Jónssyni (47) og þrem börnum Guðmundi (3), Jóni Björgvin (2) og Sigrúnu (á1)
1907
Ljósbjörg var komin aftur í Freyshóla og fleira fólk. 
Enn var Magnús á Kóreksstöðum hjá systur sinni og nú var þangað kominn sonur Jóns og Hólmfríðar á Freyshólum, Ólafur  Björgvin (12)
1908
Þeir Magnús (20) og Ólafur (13) voru enn á Kóreksstöðum og óbreytt á Freyshólum, utan að Guðjón (27) var kominn sem lausamaður á heimaslóðir.
1909
Óbreytt á Kóreksstöðum og Freyshólum
1910
Magnús (23) kom aftur á Freyshóla, en annað var óbreytt. 
1911
Magnús enn á Freyshólum, en einning í Hólum, en þar var hann hjá Sistur sinn, Sigurbjörgu og hennar fjölskyldu, ásamt Ljósbjörgu móður sinni..
1912
Það vakti athygli að Sigbjörn Sigurðsson, föðurbróðir S. Ingibjargar ömmu, var kominn sem vinnumaður til þeirra Guðrúnar og Sveins á Kóreksstöðum. 
Ingibjörg kom frá Seyðisfirði og gerðist vinnukona í Vallaneshjáleigu, en þar var Magnús þá starfandi sem húsmaður.
1913 
Sigbjörn farinn frá Kóreksstöðum.
Magnús (27) gerðist húsmaður í Vallaneshjáleigu. Þann 2. febrúar var lýst með þeim Ingibjörgu og 2. mars gengu þau svo í hjónaband.  Þau fór svo saman að Strönd, en stöldruðu þar stutt við.
1914
Á þessu ári var Magnús (27) var orðinn húsmaður á Gunnlaugsstöðum. Þar var einnig kona hans, Sigríður Ingibjörg Björnsdóttir (21) með Alfreð, son þeirra, á 1. ári.

--------------------------

Hér með er ég kominn þar með þessa samantekt, að Magnús og Ingibjörg er búin að stofna fjölskyldu.  Það sem nú liggur fyrir, er að fylgja þeim eftir næstu ár, sem líklega voru ekki alltaf dans á rósum - en meira um það síðar.









02 september, 2022

Austfirskar rætur (1)

Skúli Magnússon, Ingibjörg Björnsdóttir, Guðný Pálsdóttir
og Páll M Skúlason. Myntekin um miðjan 6. áratuginn. 
Eina  skiptið sem ég hitti Ingibjörgu ömmu.
Það er víst ljóst einhverjum, að ég og frændfólk mitt í föðurætt, eigum ættir að rekja til austfjarða. Það koma við sögu Loðmundarfjörður, Seyðisfjörður, Norðfjörður og Borgarfjörður eystri, í það minnsta. Ekki liggja rætur bara í fjörðum, heldur einnig á Fljótsdalshéraði, með nokkurra ára viðkomu uppi á Jökuldalsheiði. 
Þarna er um að ræða magnaða blöndu, þar sem við sögu kemur fólk sem þurfti að berjast fyrir lífi sínu og sinna og einmitt þess vegna get ég verið stoltur að þeim sögvef sem spunninn hefur verið fram á þennan dag, og sem ég er hluti af.  Ég vildi gjarnan þekkja þessa sögu miklu betur  og hver veit nema ég komist einhverntíma í tæri við frásagnir af  lífi þessa fólks, en það er líklega ekki af því tagi sem ævisögur hafa verið skrifaðar um.
Ég reyni hér að feta mig í gegnum þennan vef, þar sem forfeður mína í föðurætt er að finna og nota mér til aðstoðar kirkjubækur og svo mögulega frjálslegar vangaveltur.  

Aðeins um bakgrunn ömmu minnar, 
Sigríðar Ingibjargar Björnsdóttur
(
03. 09. 1893-17.11.1968)


Annar langafinn í föðurætt: Björn Sigurðsson
Árið 1824 fæddist í Sandvíkurseli í Sandvík Skorradalssókn (sunnan Norðfjarðarflóa), Sigurður Þórarinsson sem lést í snjóflóði í Seyðisfirði 1885. Hann kvæntist Ingibjörgu Geirmundsdóttur, sem fædd var 1837 í Desjamýrarsókn (Borgarfjörður eystri). Hún lést einnig í áðurnefndu snjóflóði. 
Ingibjörg og Sigurður eignuðust heilmikið af börnum, 16 ef marka má heimildir. Flest þessara dóu ung. Einn sonur þeirra var Björn Sigurðsson, fæddur 1864. Hann varð síðar, óafvitandi, þess heiðurs aðnjótandi, að verða langafi minn.

Önnur langamman í föðurætt: Sæbjörg Jónasdóttir
Árið 1837 fæddist á Selstöðum í Dvergasteinssókn (í Seyðisfirði?), Jónas Valgerðarson Hansson og hann lifði til ársins 1906. Móðir hans var Valgerður Jónsdóttir (1805-1874). Árið 1837 var hún vinnukona í Skálanesi (sem mér sýnist að hafi verið við utanverðan Seyðifjörð sunnan megin.  
Árið eftir (1838) virðist hún vera orðin vinnukona  á Selstöðum  (í norðanverðum Seyðisfirði ?). Þar er hún ekki skráð með soninn með sér. 
Íslendingabók: Í prestþjónustubók segir að lýstur faðir hafi verið Jónas Magnússon vinnumaður á Hofi í Mjóafirði en hann þverneitaði og virðist jafnvel hafa svarið barnið af sér ef rétt er ráðið í máð letur.

Ég held ég gangi ekki lengra í að finna út úr faðerni þessa langalangafa míns. Hann var sem sagt kenndur við móður sína og einhvern Hans, sem ég held að hafa hreint ekki verið neinn Hans, heldur var hann sonur HANS Jónasar.. Látum kyrrt liggja.
Valgerður giftist 1840 Magnúsi Magnússyni (1808-1866) og eignaðist með honum 7 börn og þar á meðal eitt, sem talsvert kemur við þessa sögu. Hér var um að ræða stúlku, sem hlaut nafnið Ljósbjörg Magnúsdóttir. sem síðar varð þess heiðurs aðnjótandi, að verða hin langamma mín.
Til að taka þetta saman, þá voru langalangafi minn Jónas og langamma mín Ljósbjörg, hálfsystkin.
Valgerður fór með syni sína tvo Jón Pétursson (6) og Jónas (1) 1938 frá Selstöðum að Reykjum (í Mjóafirði?).

Guðrún Magnúsdóttir (1842-1906) sem varð eiginkona Jónasar Valgerðasonar og langalangamma mín, var tökubarn á Nesi í Skorrastaðasókn og ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaðan hún kom þangað utan að hún fæddist í Hólmasókn  

Björn og Sæbjörg ná saman

1886
Jónas Valgerðarson Hansson (48) og kona hans, Guðrún Magnúsdóttir fluttu frá Norðfirði í Vestdalseyri í Seyðisfirði, með þrjú barna sinna, 1-9 ára. 
1887
Dóttir þeirra Sæbjörg var þá 16 ára, en kom ekki í Seyðisfjörð fyrr en ári síðar og gerðist vinnukona hjá þeim Einari Halldórssyni og Ragnhildi Gísladóttur.  
1888 - 1891
Árið þar á eftir var hún svo vinnukona í Stakkahlíð í Loðmundarfirði hjá Baldvin Jóhannessyni og Ingibjörgu Stefánsdóttur. Þar var hún til 1891. 
Björn (26) var vinnumaður í Stakkahlíð 1889, en 1890 fór hann í Seyðisfjörð og gerðist vinnumaður hjá Siggeir Sigurðssyni og Sigríði Helgadóttur.  Hann var síðan vinnumaður á Hjálmárströnd hjá Eileifi Magnússyni og Mörju Metúsalemsdóttur árið 1891.  Það ár voru Jónas og Guðrún í Firði í Seyðisfirði með yngri börn sín, tvö. 
1892
Eitthvað virðist hafa kviknað hjá þeim Sæbjörgu og Birni þegar þau voru samtíða í Stakkahlíð, því á þessu ári, þann 3. júlí fæddist þeim dóttirin Guðrún Björg. Þau voru þá skráð sem vinnuhjú í Firði og hún sögð kona hans. 

Sigríður Ingibjörg  elst upp


Sæbjörg og Björn með
Harald og Ingibjörgu

1893
Hér var stórfjölskyldan í Firði og Sæbjörg og Björn eignuðust dótturina Sigríði Ingibjörgu þann 3. september.  Þá var Sæbjörg 23 ára en Björn 30. 
1894
Óbreytt ástand í Firði.
1895
Dóttirin Guðrún Björg lést á þessu ári. Bróðir Sæbjargar, Halldór (14) var skráður sem niðursetningur á heimili þeirra í Firði og foreldrar hennar, Jónas (58) og Guðrún (53) sömuleiðis þar skráð. 
1896
Hér flutti fjölskyldan á Búðareyri í Seyðisfirði og þann 31. janúar fæddist þeim sonurinn Haraldur.
1897
Óbreytt ástand á Búðareyri.
1898 - 1903
Sigríður Ingibjörg, þá 6 ára, hvarf úr foreldrahúsum og var skráð í prestþjónustubók Dvergasteinssóknar sem burtvikin þetta ár og að hún hafi farið í Borgarfjörð. Hún á að hafa farið til ömmubróður síns, Páls Geirmundssonar og konu hans Guðfinnu Guðmundsdóttur, sem bjuggu í Litluvík í Desjamýrarsókn.  Ekki fann ég hana í Borgarfirði fyrr en í lok árs 1902, 3-4 árum eftir að hún er sögð hafa farið frá Seyðisfirði. Þetta ár var hún skráð sem tökubarn í Litluvík. Þar voru þá áðurnefndur ömmubróðir hennar Páll (53) kona hans Guðfinna (56) og tvo uppkomin börn þeirra, Ingibjörg (24) og Sigbjörn (18).
Ég leyfi mér að skýra þetta misræmi í kirkjubókum með  ástandinu á heimilinu í Seyðisfirði sem var átakamikið á þessum árum. Þó ég viti ekki hvað olli dauða Björns föður hennar árið 1900, þá reikna ég með að hann hafi haft aðdraganda og að foreldrarnir hafi viljað hafa dóttur sína hjá sér. Sigbjörn Sigurðsson, bróðir Björns, var kominn á heimilið 1899, þá 41s árs og það má gera ráð fyrir að það hafi tengst veikindum Björns, sem varð aðeins 36 ára þegar hann lést þann 3. júní.  
Ég, sem sagt, geri ráð fyrir, að Ingibjörg hafi verið á heimilinu meira og minna til 1903, en að prestunum í Dvergasteinssókn og Desjamýrarsókn hafi bara láðast að skrá hana á öðrum hvorum staðnum.  Viti eitthvert ættmenna minna meira um þetta, þætti mér vænt um að vita af því.

Seyðisfjörður: Eftir lát Björns flutti fjölskyldan í Álfhól í Seyðisfirði. Þarna voru árið 1902: Sæbjörg (30), Haraldur sonur hennar (6), Halldór Jónasson (21), bróðir hennar, foreldrar hennar, Jónas (64) og Guðrún (59) og loks bróðir Björns, Sigbjörn (44).  Þau Jónas og Guðrún létust bæði árið 1903 og Halldór hvarf á braut.   Það var fámennt á Álfhóli næstu ár. 
1904
Á þessu ári fluttu þau Páll og Guðfinna frá Litluvík í Kóreksstaðagerði, í Hjaltastaðasókn, en þar hafði dóttir þeirra, Ingibjörg, tekið við stöðu ráðskonu tveim árum fyrr.  Ingibjörg, sem þá var 11 ára, flutti með þeim þangað
1905
Hjónin voru aftur komin í Litluvík, Þar hafði sonur hjónanna, Guðmundur látist, rétt um þrítugt, frá þrem ungum börnum og ekkjan fór fyrir búinu. 
Ingibjörg, 12 ára fósturbarn var með í för. 
1906
Heimilið á Litluvík var ekki nefnt í sóknarmannatali á þessu ári og þau Páll og Guðfinna höfðu tekið sér bólfestu á Efri Hóli í sömu sókn (ekki veit ég hvar sá bær var). Þar voru þau með tvö tökubörn, Ingibjörgu, sem var orðin 13 ára og Pál Ingvar Guðmundsson, 8 ára, en hann var sonarsonur þeirra.
1907 - 1908
1907 Enn voru hjónin á ferðinni og á þessu ári voru þau skráð í Brekku í sömu sókn og enn með tökubörnin sín tvö, Ingibjörgu (14) og Pál Ingvar (9). Mér sýnist að Brekka hafi staðið við Húsavík.
Staðan var óbreytt hjá Ingibjörgu árið 1908, Haraldur bróðir hennar, lést árið 1908, 12 ára að aldri. 
1909
Þriðja árið á Brekku bættust tveir einstaklingar við á heimilinu, sonarsonur hjónanna, Sigbjörn Jakob Guðmundsson (6) og móðir hans, Ragnhildur Hjörleifsdóttir (37) húskona, en hún var ekkja Guðmundar, sonar þeirra.  Þarna var Ingibjörg (15) sem sagt áfram skráð, en það sem vekur athygli er, að á árinu var hún talin sem "innkomin" á Seyðisfjörð og til heimilis á Álfhóli hjá móður sinni og Sigbirni föðurbróður sínum.
1910 
Ingibjörg á saumanámskeið 1910.

Hér var tengdadóttir Páls og Guðfinnu, Ragnhildur komin í Sæból með syni sína tvo. Ekki fann ég í fljótheitum, hvað varð um Pál og Guðfinnu, en hann lést 1914 og Guðfinna 1921.
Ingibjörg (18) var ekki skráð í Álfhóli á þessu ári, en hefur þó varla verið langt undan. Á Álfhóli þetta ár voru þau Sæbjörg (39) og Sigbjörn (53) húsmaður, ásamt Þuríði Eiríksdóttur, húskonu (43). 

1911
Ingibjörg var aftur mætt til leiks í Álfhóli á þessu ári.
1912
Ingibjörg (19) gerðist vinnukona í Vallaneshjáleigu og þangað kom einnig Magnús Jónsson frá Freyshólum.

------------------------------------------
Ég treysti því að þau ykkar sem vita meira um þessa sögu, ekki síst um staðhætti þarna fyrir austan, láti mig vita. Ég veitt fátt nema það sem þessar skruddur prestanna segja.

Ég mun svo halda áfram ..... næst. 


Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...