Sýnir færslur með efnisorðinu kennarastarfið. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu kennarastarfið. Sýna allar færslur

16 nóvember, 2016

Gamalt en mögulega einnig nýtt (1)


Eftirfarandi texti er ekki eftir mig, svo því sé nú haldið til haga. Ég skelli honum hér inn í tilefni af stöðu mála hjá grunnskólakennurum um þessar mundir.
Það er erfitt að skilgreina hugtakið »kennari«. Ef vér segjum að kennari sé maður vel bóklærður og lagaður til að kenna, maður hæfur til að stjórna, og leiða aðra, maður sem er skjótur að sjá hvað við nemendurna á í hvert sinn og sem ávalt beitir réttum tökum o.s.frv. - þá er ekki alt þar með sagt.
Þó að alt þetta sé tekið saman í eitt, þá skortir mikið á góða skilgreiningu, af því að það er eitthvað í góðum og vel hæfum kennara sem ekki verður skilgreint. Það skiftir ekki eins miklu fyrir barnið hvað það lærir. »Heiminn hungrar og þyrstir ekki nærri því eins eftir fræðslu eins og innilegri hluttekningu og samúð«, því að þegar öllum lexíunum er skilað, öllum kennslustundum lokið, þá munu áhrifin, sem eftir verða - þau áhrifin sem barnið geymir frá skólaverunni, - mynda lífsskoðun þess, og hugsunarhátturinn mótast eftir því, hvernig það hefur lært að hugsa af kennaranum.
Vér eigum enn engan áreiðanlegan mælikvarða á hæfileika manna og kvenna til kennarastarfsins; vér getum ekki metið kennarann eftir öðru en því, hve vel honum tekst að styrkja hjarta og skilning nemendanna. Þeir einir sem skilja til fulls mikilvægi kennarastarfsins, geta átt von á að vinna það til gagns.
Það er ekki nauðsynlegt að kennarinn sé neinn Samson að burðum, né spakur sem Salómon, né þolinmóður eins og Job, né engill að gæðum. En hann verður að hafa alla þessara mannhæfileika, þó að á lægra stigi sé. Þetta verður skiljanlegt, er vér minnumst þess að kennarastarfið er dag eftir dag og ár eftir ár að ná meira og meira áliti og virðingu. Kennararnir eru að vinna verk sitt betur og betur; þeir eru að fá hærri og hærri laun af því að starf þeirra verður æ verðmætara; kennarar njóta nú meiri virðingar en nokkru sinni fyr; öll skólaskipunin er nú áhugaefni hinna mætustu manna og uppskeran af starfinu er mjög undir henni komin. Starf kennaranna á mikla framtíð.
Vér erum að kenna börnum og ala þau upp, ekki einungis fyrir öldina sem er að líða, heldur fyrir allar komandi aldir. Í sannleika er það háleit hugsun, að þeir sem vinna að þessu mikla starfi, megi hafa áhrif á huga óborinna kynslóða.
Hvaðan hann er, frá hvaða tíma og hve mikið erindi hann á í dag, læt ég lesendur um að velta fyrir sér.
Það á sannarlega eftir að koma fleira í þessum brunni síðar.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...