Sýnir færslur með efnisorðinu umfjöllun. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu umfjöllun. Sýna allar færslur

21 mars, 2017

Ég veit ekki hvert þetta stefnir

(Ef einhver sem þetta les skyldi falla aftur fyrir sig af undrun yfir því að ég geti þetta, miðað við stöðu mála, bendi ég á neðanmálsgrein)*
Verk Ásmundar Sveinssonar eru flest fremur mikilúðleg. Þau hafa ekki orðið til nema vegna þess að það var nóg pláss. Það er ekki nóg pláss í Kvistholti, en ef svo fer sem horfir blasir við bygging á 130 fermetra vinnustofu einhversstaðar í lóðinni.
Þetta byrjaði allt rólega: litlar akrylmyndir, svona 10x10 cm. Þær stækkuðu síðan aðeins eftir því sem tímar liðu.

Það tók við tími flutninga eins og ég hef þegar gert grein fyrir hér. Þarna munaði minnstu að ég yrði settur í þá stöðu að deila vinnuaðstöðu minni með listamanninum, sem þá þegar hafði uppgötvað leirinn sem ákjósanlegt efni til að tjá sig í.

Þar með hófst annar þáttur sögunnar, þátturinn þar sem furðufuglar og ruglur tóku yfir. Þar hafa orðið ýmsar vendingar og ýmislegt orðið til sem ekki verður nefnt með nafni.

Fyrir nokkru hófst síðan þriðji þáttur sögunnar, þáttur RIFfuglanna (risafurðufuglanna). Þeir byrjuðu á blöðrum og pappírsmassa. Látum það nú vera, Með því þessi þáttur hófst, hófst einnig útrásin úr dyngjunni.
"Það er ekkert pláss þarna inni", voru nákvæmlega þau orð sem voru notuð.
Það þarf vart að taka það fram, að blöðrurnar eru umtalsvert stærri en  furðurfuglarnir og þar með var að verða til ný tegund og miklu stærri.  Blöðrurnar voru klæddar pappírsmassa og mótað í kringum þær eins og þurfa þótti.
Þar sem þessum RIFfuglum er ætlað að vera utanhúss lá fljótlega fyrir að ekki dygði pappírsmassinn.
Steypa skyldi það vera og múrblanda var keypt í næstu kaupstaðarferð, ásamt hænsnaneti og festifrauði. Allt var þetta útpælt.

Gott og vel.

Það sem veldur mér áhyggjum er sú staðreynd, að nú er borðstofuborðið undirlagt þessari vinnslu, og þvottahúsinu hefur verið breytt í steypustöð.  Þetta þýðir það, á mannamáli, að þrjár vistarverur í húsinu eru nú orðnar að vinnustofum fD.
Ef að líkum lætur, mun fuglategundin sem um ræðir, ekkert gera nema stækka. Það er ekki ólíklegt að  ZÚMBA-boltinn myndi stoðgrindina í fjórða þætti þessarar sögu.

Ég mun verjast mögulegri innrás í vinnuaðstöðu mína og er því byrjaður að hugsa fram í tímann.

*Ef einhver datt aftur fyrir sig: ég er að skána þó ég eigi talsvert í land enn. 


04 mars, 2017

Bítlagarg

"Lækkaðu í þessu bítlagargi" sögðu foreldrar mínir ítrekað við systur mínar á táningsaldri þar sem þær nutu nýjusta laganna í vikulegum þætti af "Lögum unga fólksins". Þá var ekki um það að ræða að ungdómurinn gæti skellt heyrnartólum í eyrun á sér og skaðað heyrnina varnalega. Foreldrarnir héldu aftur af þeim í því efni. Tækið sem hlustað var á var transistor ferðatæki af nýjustu gerð, ekki ósvipað því sem meðfylgjandi mynd sýnir. Systurnar voru farnar að túbera á sér hárið og gera sig til fyrir töffarana í sveitinni.  Þetta var svona undir miðjan sjöunda áratug síðustu aldar og þær muna þetta allt örugglega betur en ég, fjórum og sex árum eldri.
Ég fór auðvitað sjálfur í gegnum skeið af þessu tagi og þar standa Mánaböllin upp úr, með öllum sínum ævintýrum og óstjórnlegum hávaða

Síðan eru liðin mörg ár.

"Það gæti nú verið gaman að fara á þetta", sagði fD upp úr eins manns hljóði fyrir nokkrum vikum. Ekki get ég sagt að ég hafi verið upprifinn, en fagnaði auðvitað með sjálfum mér áhuganum sem þarna skein í gegn.

Led Zeppelin í Laugardalshöll 1970
Ég festi því kaup á miðum þó og ég hafi verið kominn um eða vel yfir tvítugt þegar hljómsveitin Queen með F.M. í fararbroddi byrjaði að gera garðinn verulega frægan. Áhugasvið mitt á tónlist hafði legið annarsstaðar. en fD virðist hafa smellpassað inn í þennan Queentíma, og það var meira að segja hægt að greina á fasi hennar, látbragði og talanda, að hún hlakkaði til. (tókstu eftir að ég segi HÚN hlakkaði til, en ekki HANA hlakkaði til?)

Síðan var haldið á tónleika í Hörpu, þar sem hópur listamanna minntist þess að Freddie (Farrokh Bulsara) hefði orði sjötugur í september á síðasta ári.
Þetta munu hafa verði í kringum tuttugustu tónleikarnir og Eldborgarsalurinn var sneisafullur.

Deep Purple á efri árum.
Ég viðurkenni, að ég vissi ekki við hverju mátti búast, enda fór ég síðast á svona tónleika þegar Deep Purple komu hingað 2004 eða 2007 (man ekki á hvora tónleikana ég fór) og þar áður á tónleika Led Zeppelin í Laugardalshöll 1970,

Fólkið sem kom í Hörpu  á þessa ágætu tónleika, var hreint á öllum aldri, en ansi margir voru samt gráu kollarnir.

Tónleikarnir "Freddie Mercury sjötugur"

Tónleikarnir hófust og ég hafði auga með fD, ef svo skyldi fara að hún yrði okkur til minnkunar með taumlausum gleðilátum. Það leið ekki á löngu áður en ég þurfti að hnippa í hana þar sem hún ætlaði að fara að príla upp í sætið, syngjandi "We are the Champions" eða "Bohemian Rhapsody", klappandi höndum fyrir ofan höfuðið, (svona eins og þegar HÚ-hað er) og gefandi frá sem amerísk kúrekaöskur (jííí-ha)..............................ekki.
Samtónleikagstir okkar utu tónleikanna, margir hverjir, til hins ítrasta, sveifluð handleggjum fram og til baka, klöppuðu, hrópuðu, sungu með og almennt slepptu fram af sér beislinu.... en ekki við fD. Við vorum alveg róleg.  Kona um fertugt við hlið fD missti sig alveg í gleðinni og meira að segja hafði fD orð á að henni fyndist gleðilætin varla við hæfi. Ég hugsa að konan sem sat við hliðina á mér hafi átt erfiðara með þetta, enda á mínum aldri. Kannski hefur henni ekki litist á að sleppa sínu innra sjálfi lausu, með mig við hlið sér. Ég var farinn að vorkenna henni aðeins og á sama tíma að álasa sjálfum mér fyrir að hafa mögulega þessi neikvæðu áhrif á hana.  En kannski tók hún þessu bara með sama jafnaðargeðinu og ég.

Ég hef ekki áður upplifað aðra eins ljósanotkun á neinum viðburði. Hef reyndar séð slíkt í sjónvarpi. Það kom fyrir, aftur og aftur, að ég þurfti að loka augum þegar ógnarsterku ljósi var beint , blikkandi fram í salinn þegar hæst lét.  Þá velti ég fyrir mér hættunni á því að einhver í hópi tónleikagesti myndi fá flogakast, en ég veit ekki hvort það gerðist.

Ég skil óskir foreldra minna betur nú, þegar þau vildu að systurnar lækkuðu í transistortækjunum sínum.  Hávaðinn var, ógurlegur á köflum, og svo vivirtist sem söngvurunum þætti vænst um þær stundir þegar þeir gátu sýnt okkur sem í salnum vorum, hve hátt þeir kæmust og þá á ég bæði við tónhæð og decibel.  Ég hefði kosið að þetta væri aðeins lágstemmdara.

Ég er búinn að segja ýmislegt hér að ofan sem má túlka sem neikvæða upplifun á þessum tónleikum, en ég er nú víðsýnni maður en svo, að upplifunin hafi verið neikvæð. Ég sat allan tímann í sæti mínu og klappaði við lok hvers lags, hóflega og kurteislega, enda var þarna á ferðinni ágætis listafólk sem á allt gott skilið.  Ég var bara ekki tilbúinn í þetta eru-ekki-allir-í-stuði dæmi og þar með ekki meðal skemmtilegustu tónleikagesta.

Þetta var bara gaman.  





07 nóvember, 2016

Með hálfum huga

'Furðufuglar" með nýju merkingunni.
Hver er mögulegur tilgangur minn með því að auglýsa sjálfan mig?
Þykist ég hafa eitthvað fram að færa umfram aðra?
Er ég með þessu að sýna af mér samskonaar innræti og faríseinn í Biblíunni?
Þetta eru mikilvægar spurningar þegar maður spyr sjálfan sig þeirra þar sem maður stendur frammi fyrir því að ákveða hvort maður opinberar verk sín fyrir öðru fólki.

Fyrir nokkru hélt fD sýningu á myndverkum sem hún hefur unnið að undanfarin ár. Þetta gerði hún eftir mikla umhugsun og vangaveltur af því tagi sem nefndar eru hér fyrir ofan. Lét vaða og það sem meira er, henni tókst að draga mig inni í málið einnig.

Sýningin gekk glimrandi vel og nú er frúin nánast horfin inn í dyngju sína til að freista þess að vinna upp lagerinn sem tæmdist.  Tenórsöngurinn sem oftast hefur verið í bakgrunni er hljóðnaður um stund.

"Verð ég ekki að setja upp einhverja síðu?" var óhjákvæmileg spurning í kjölfar sýningarinnar. Svarið var einnig óhjákvæmilegt. Og framkvæmd verksins einnig.
Nú er hafin uppestning á galleríi í kjallaranum í Kvistholti.
Auðvitað mun það heita 'Gallerí Kvistur'
Sem fyrr þegar ég fæ spurningar, tæknilegs eðlis frá fD, kemur svar mitt: "Ég veit ekkert hvernig það er gert". Spurningin hljóðnaði samt ekki og ég fór að prófa mig áfram og komst fljótt að því, að enginn þeirra möguleika sem boðið var upp á passar við það sem um var að ræða.  Valdi þar með bara einhvern sem gat ekki verið langt frá því rétta.

Það var ekki um að ræða að mynd af fD yrði gerð að prófíl mynd síðunnar, en hún reyndist ekki í vandræðum með að finna lausn á því máli: "Getum við ekki bæði notað þessa síður og merkið sem þú bjóst til?"  og þar með var ég orðinn virkur þátttakandi í innihaldi þessarar kynningarsíðu. Þarna skyldu sem sagt vera myndverk okkar beggja, sitt á hvað undir vörumerki Kvisthyltinga, en það hannaði ég fyrir rúmum þrjátíu árum og gerði grein fyrir tilurð þess hér.  Merkið hef ég síðan notað til að merkja ljósmyndir sem ég hef dundað mér við að taka og vinna úr síðan. Nú fékk þetta merki nýtt og mikilvægt hlutverk: að fylgja öllum myndverkum fD héðan í frá.

Það þarf ekki að orðlengja það, en í morgun var síðunni https://www.facebook.com/kvisturart/ varpað út í alheiminn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Ég neita því ekki að það bærðust með mér ýmsar hugsanir þar sem ég sat frammi fyrir því að hefja útgáfuna, en lausnarorðin voru, á nútímamáli, en aðeins í huganum: "Fokkitt" og þar með smellti ég á fyrsta mögulega gestinn á síðunni.

Úr því ég er blandaður í málið hlýt ég að birta hér mynd
af minni mynd. Hún ber nafnið 'Verkfallsórar' máluð í
síðasta verkfalli ævi minnar í mars 2014.
Ég hef látið þess getið að mynd þessi sé föl fyrir
ISK350000. Þetta er akrýlmynd 140x130 cm.

20 október, 2016

Hvað á maður að segja?

Ég hef nú hingað til reynst geta tekið fyrir hin ólíklegustu viðfangsefni á þessum síðum mínum, bæði umfangsmikil og alvarleg og lítilvæg og léttúðug. Nú bregður svo við að ég á í vandræðum með að finna rétta flötinn á því að segja frá, eða fjalla um síðustu helgi í lífi okkar Kvisthyltinga. Þetta var helgin þegar fD tók sig til og blés til fyrstu einkasýningar á verkum sínum. Yfirlýstur tilgangur var að þetta væri eitthvað sem þyrfti að gera, fyrr eða síðar.  Í því efni var ég alveg sammála, enda stefndi í að ég yrði að gefa eftir mitt vinnusvæði í húsinu þar sem stöðugt bættist í myndverk af ýmsu tagi í dyngju hennar og þau voru byrjuð að vætla inn til mín með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Þarna varð eitthvað að koma til.
Við tókum Skálholtsbúðir á leigu, bjuggum til viðburð(i) á samfélagsmiðlum, auglýstum í Bláskógafréttum og reyndum að kynna í sunnlenskum prentmiðlum. Þarna átti að vera um að ræða tvo viðburði, annan opinn öllum með kynningu á sýningu sem yrði opin laugardag og sunnudag, undir heitinu "Myndlist og meira", hinn, sem var lokaður og beint að tilteknum markhópi vinnufélaga, kórfélaga, ættingja og vina, fékk heitið "Myndlist og meira - á tímamótum".

Sýninguna settum við upp á föstudegi með ómetanlegri aðstoð annarra Kvisthyltinga. Þar var mikið pælt í hvað skyldi vera hvar og um það urðu engin veruleg átök. Allt var klárt fyrir opnun á hádegi á laugardeginum. Eitthvað virðast tilraunirnar til auglýsingar hafa skilað sér því þó nokkrir lögðu leið sína í Oddsstofu í Skálholtsbúðum.
Á laugardagskvöldinu tóku gestir að streyma að, á viðburðinn "Myndlist og meira - á tímamótum" um kl. 18. "Á tímamótum" að þrennu leyti: 1. Fyrsta einkasýning fD, 2. stórafmæli fD fyrr á árinu og 3. nýtt æviskeið hjá mér. Úr þessu varð hin ágætasta kvöldstund þar sem tókst, eftir því sem best er vitað að skapa harla óþvingað og létt andrúmsloft með öruggum veislustjóranum, einkadótturinni, úthugsuðu inngangserindi fD, fádæma löngu, en innihaldsríku uppistandi þess sem þetta ritar og ekki síst yndisfögrum tónlistarflutningi Þóru Gylfadóttur (sópran), Egils Árna, Kvisthyltings (tenór) og Jóns Bjarnasonar, píanósnillings.

Það verður að segjast eins og er: okkur Kvisthyltingum var mikill heiður sýndur um þessa helgi og þakkir okkar til gestanna sem kíktu til okkar eru getum við ekki sett í einhver almenn orð.  Ætli sé ekki bara áhrifaríkast að segja einfaldlega" takk".

Síðustu daga hefur fD tekið í að jafna sig og freista þess að átta sig á bókhaldinu, sem var víst ekki alveg hannað fyrir það sem gerðist. Allt mun þó koma heima og saman áður en langt um líður.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...