Sýnir færslur með efnisorðinu Rómeó og Júlía. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Rómeó og Júlía. Sýna allar færslur

01 júlí, 2022

Kórferð - heit og áhrifamikil (6)


... framhald af (1), (2), (3), (4) og (5)

"O Romeo, Romeo,
wherefore art thou Romeo?
Deny thy father and refuse thy name,
Or if thou wilt not, be but sworn my love,
And I’ll no longer be a Capulet."

 Fram undir kl. 16 á þessum ágæta degi, 22. júní, 6. degi ferðar kirkjukórs úr Flóanum til Ítalíu, var mikilvægt að nýta tímann vel, enda ferðafólkinu frjálst að taka sér það fyrir hendur sem best hentaði. Sumum þótti henta að leigja sér reiðhjól á hótelinu og bruna á rafknúnum (eða fótstignum) fararskjótum um nágrennið, eða bara "fara eitthvað og gera eitthvað", eins og stundum er sagt á þessu heimili. Við fD og allmargir aðrir, töldum hinsvegar tíma okkar betur varið á sundlaugarbakkanum eða ofan í lauginni, enda mikilvægt að safna D-vítamíni fyrir veturinn og að ná sér í aðeins fegurðaraukandi brúnku fyrir óperusýninguna miklu sem framundan var.  Ský voru þarna farin að skyggja á sólina við og við, svo þetta var allt eins og best varð á kosið. Hlé gerðum við á sólböðum um miðjan dag til að leggja steini lagðar gangstéttir til miðbæjarins undir fót. Þar nutum við matar, Aperol spritz og Negroni í miklu hófi áður en leið okkar lá aftur á hótelið, til andlegs undirbúnings fyrir ferðina til Verona.

Rauðu hringirnir vísa á heimili Rómeós og Júlíu

Verona er borg elskenda, þar sem þar eiga að hafa gerst þeir atburðir sem urðu Shakespeare að yrkisefni í leikritinu "Rómeó og Júlía" eins og allir ættu nú að vita. Ég neita því ekki, að það hefði verið gaman að eyða öllum deginum í þessari borg til að kynnast sögusviðinu. Á kortinu hér til hægri má sjá (rauðir hringir) heimili þeirra Júlíu og Rómeós.  Eftir á að hyggja hefði heill dagur í borginni auk óperusýningarinnar sennilega orðið heldur stór biti að kyngja og það verður því að bíða betri tíma. 

A  I  D  A   í  Arena di Verona

Hringleikahúsið mikla sem leið okkar lá í, var byggt árið 30 e.Kr og man því tímana tvenna. Það skemmdist talsvert í jarðskjálfta árið 1117, en þá hrundi ysti hringur byggingarinnar.  En, hvað um það, fólksflutningabifreiðin sótti hópinn á hótelið kl. 16 og þá kom í ljós, að einhverjir úr hópnum ætluðu bara hreint ekki að leggja í þessa ferð, sem kom mér nokkuð á óvart, þar sem ég hafði litið að þetta sem hápunkt þessarar utanlandsreisu. Auðvitað má fólk hafa mismunandi skoðanir á þessu sem öðru og að ýmsu leyti gat ég skilið - óperur eru ekki allra og ég get ekki hreykt mér af því að vera mikill óperuunnandi, þó svo ýmsir hlutar margra þeirra séu meðal fegurstu perla tónbókmenntanna.  Ég var ekki mikið búinn að kynna mér söguþráð þessarar óperu fyrirfram, en vissi að þar mátti finna ýmsa perluna, eins og t.d. þetta: SIGURMARSINN

Á Castelvecchio brúnni
Ekki segir af þessari ferð fyrr en til Verona var komið. Fólksflutningabifreiðin flutti okkur yfir ána  Adige, og setti okkur út þar sem gula brotalínan sýnir á myndinni hér fyrir neðan. Þaðan gengum við aftur yfir ána um Castelvecchio brúnaog síðan lá leiðin eftir Rómarvegi (Via Roma) allt þar til komið var á torgið og að styttu Viktor Emanúels II, en þar skyldi fólkið hittast á fyrirfram ákveðnum tímum, svo allt færi nú ekki í vitleysu í mannmergðinni sem væntanleg var á þetta torg þegar nær drægi sýningunni, en Arenan mun taka um 22.000 manns í sæti.


Eftir að hópurinn hafði fengið að teygja úr sér og jafnvel fengið sér eitthvað í gogginn, svo ekki sé nú minnst á Aperol spritz, kom hann saman við styttu Viktors Emanúels, þar sem talning fór fram, en síðan leiddi fararstjórinn kórfólk og maka eins og leikskólabörn að hliði nr. 61. Það varð að klára allt vatn sem var með í för og fara í gegnum vopnaleit, en þar sem við höfðum ekki tekið með okkur neina hríðskotariffla eða handsprengjur, sluppum við öll nokkuð auðveldlega í gegn. Eftir það hófst ganga niður tröppur og síðan upp mjög brattar tröppur, áður en sjálf dýrðin blasti við og það var nú bara talsvert magnað, skal ég segja ykkur. Við fD fengum sæti á fremsta bekk (sjá rauða punktinn á myndinni fyrir ofan) og vorum heppnari en margur annar að því leyti. Þau sem sátu fyrir ofan okkur greindu frá því að stutt væri í sætisbökin fyrir framan þau og fyrir einstaka í hópnum, sem voru óþarflega langleggjaðir fyrir slíkar aðstæður, reyndust sætin nánast óbærileg. Þau voru úr járni og ófóðruð með öllu, þannig að það var nauðsynlegt að hafa með sér rasspúða, sem seldir voru fyrir utan Arenuna og auðvitað höfðum við fD haft vit á því. 


Rétt í þann mund er óperan var að byrja, gengu í salinn glæsikvendi með fylgdarliði og þar sem þær nálguðust sviðið hófust myndatökur með þær í forgrunni, sem stóðu yfir allt þar til fyrstu tónar forleiksins liðu um hringleikahúsið.
Ég ætla nú ekki að fara að fjalla um um þessa óperusýningu, listfræðilega, enda hef ég lítið vit á þessu listformi. Ég get þó sagt, að uppsetningin var stórfengleg og textinn sem sunginn var, birtist á stórum skjá (sjá efstu myndina), sem hjálpaði mikið til við að skilja það sem fram fór. 


Vegna þess að ég þekki aðeins til tenóra, verð ég að segja það að ég var ekkert sérlega hrifinn af þeim sem þarna söng hlutverk Radamésar, en þar mun hafa verið um að ræða tenór að nafni Yusif Eyvazov frá Azerbaijan, sem mun vera svo heppinn að vera maki hinnar stórfrægu sópransöngkonu Önnu Netrepko, sem til skamms tíma var ein aðal söngkonan í Metropolitan óperunni í New York, en mun hafa horfið þaðan eftir að Pútín réðst inn í Úkraínu. Þarna vorum við, sem sagt komin í óbeina tengingu við heimsmálin og þær hörmungar sem saklaust fólk þarf að líða vegna vitbrenglaðs einræðisherra. Mér fannst rödd Yusufs ekkert sérstök sem sagt, hvað sem líður Pútín og brölti hans.

Þetta kvöld var mikil upplifun og er ánægður með að það skyldi hafa verið hluti af dagskrá þessaarar Ítalíuferðar, þó svo ekki geti ég sagt að ég hafi verið yfir mig hrifinn af öllu, og hafði vissan skilning á sessunaut mínum (altso hinum, en ekki fD) sem lýsti því yfir í hléi, að hún/hann væri bara farin(n), en fór þó ekki. 

Klukkan var að verða tvö um nóttina þegar við komum heim á hótelið, örþreytt auðvitað, en þetta var aldeilis ekki búið. 







Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...