Sýnir færslur með efnisorðinu fuglar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu fuglar. Sýna allar færslur

12 september, 2018

Fyrir litlu greyin

Það haustar, eina ferðina enn. Orðið napurt á stundum þó veðrið undanfarna daga hafa verið harla gott á þann mælikvarða sem settur er á liðið sumar. 
Mér finnst ágætt að gera stundum annað en afla gagna, vinna myndir, skrifa texta eða vinna í vef, en þetta hefur nú verið meginstarf mitt undanfarnma mánuði og á því er ekkert lát sjáanlegt á næstu mánuðum.
Þegar ég geri eitthvað annað, þá reyni ég að láta það ekki vera af því tagi sem veldur mér leiðindum. Vissulega kemst ég ekki alltaf hjá því að sinna slíku, en þannig verður það bara að vera.

Eftir að vorið tók við af síðasta vetri og vetrargestirnir hurfu smátt og smátt af pallinum með ungunum sínum, hóf ég að velta fyrir mér hvernig framhaldið gæti orðið. Þegar ég fer að velta einhverju fyrir mér, þá má slá því nokkuð föstu að það fyrsta sem mér dettur í hug verður ekki niðurstaðan. Það má líka slá því nokkuð föstu, að þegar fD segir að ég skuli bara gera svona, og svona og svo svona, þá verður ekkert úr því. 
Ég kýs að láta hugmyndir mínar gerjast nokkuð lengi, og ég þarf að vera búinn að hugsa allt til enda áður en ég læt til skarar skríða.  Þessi háttur minn á ekki upp á pallborðið hjá fD, sem telur einna helst að skortur minn á framkvæmdasemi stafi af einberri leti, sem auðvitað er raunin.  Sá tími sem notaður er til að hugsa áður en maður framkvæmir, verður seint ofmetinn. 

Það kom sá tími fyrir nokkru að ég var búinn að hugsa alla leið, hvernig ég hygðist búa að fuglum himinsins á pallinum í Kvistholti á komandi vetri. Grunnurinn sem hann verður byggður á, á sér þá sögu að hafa verið trégrindin utan um gasgrillið sem við ákváðum að keyra í ruslagám í Reykholti. Í okkar huga er gasgrill ekki í tísku lengur, en lítið kolagrill uppfyllir allar okkar þarfir í grillmálum í staðinn. 

Grindin utan af gasgrillinu var sem sagt grunnurinn, sem síðan var hugsað í kringum og inn í  og nú er fyrsti þáttur í fóðurpallssmíðinni klár. Ungir helgargestir þær Júlía og Emilía Egilsdætur sáu um listskreytingu, sem án efa mun falla ræflunum litlu vel í geð. Götin á bakhliðinni ákvað ég að setja í þrennu augnamiði: 1. Til að fuglarnir setjist þar og skoði kræsingarnar áður en þeim eru gerð skil, 2. til að fuglarnir rammi sjálfa sig inn fyrir mig og EOS-inn, og 3. til að búa til nokkurskonar vindbrjót, þó auðvitað sé ekki þörf á slíku í Laugarási.

Það stendur enn yfir hugsanaferli sem lýtur að því hvernig þak verður sett á pallinn. Ég þykist viss um að því ferli lýkur farsællega, enda vel til vandað hugsunarinnar.

12 júní, 2018

Í rándýrskjafti

Kettir eru rándýr og hluti af náttúrunni, rétt eins og við öll og eiga þar með sama rétt og við til lífs og lífsviðurværis. Þeir eru heimilis/húsdýr víða, bæði sem innikettir og útikettir, eða hvað sem það er kallað.
Sumir kettir teljast villikettir, enda eiga þeir engan samastað í híbýlum manna. Þessari tegund katta tel ég að ætti að halda í skefjum og einhverjir skilst mér (kattavinir) gera átak í því að fanga villiketti til að gelda þá, í augljósum tilgangi.

Þá er ég kominn að tilgangi mínum með þessum vangaveltum.
Í morgun sá ég svartan loðinn kött undir matarborði smávina okkar Kvisthyltinga. Smávininrnir steinþögðu. Kötturinn var rekinn af staðnum með sérstökum kattafæluhljóðum fD.

Bak við borðið lá tætt hræ fullorðins auðnutittlings og þar skammt frá höfuð af öðrum. Mér var nokkuð létt yfir því að þarna var ekki um að ræða hann Bassa, vin minn, en reyndar hefur hann ekki látið sjá sig í nokkra daga og getur því allt eins hafa farið sömu leið.

Ábyrgð? Ber einhver ábyrgð á svona aðstæðum?
Ætli það. Ef maður færi að benda á hina eða þessa eða hitt eða þetta, kæmist maður fljótt að því að þarna er um að ræða hið eðlilegasta fyrirkomulag í náttúrunni.
Við eigum líf okkar undir býflugum. Þannig er hver dýrategund háð annarri og sú eina sem virðist vinna markvisst að því að raska því jafnvægi sem náttúran byggir á er mannskepnan, sem drepur meira og eyðir meiru en hún þarf til að komast af.

Vissulega gætu kattaeigendur haldið köttunum sínum innandyra yfir þann tíma sem ungar eru að komast á legg, eða troðið svo miklu af mat í þá að þeir hefðu enga þörf fyrir ránsdýrseðli sitt.

Vissulega gæti ég dregið þann lærdóm, að fóðrun fugla á þessum tíma sé misráðin, enda geti þeir alveg bjargað sér sjálfir og fóðrunin þar með tilkomin einvörðungu vegna sjálfselsku.

Þó það hafi ekki verið ánægjulegt að fjarlægja fyrverandi gesti mína líflausa frá matarborðinu, þá er það bara eins og það er. 
Punktur.

.............................................

Að öðru, sem gæti mögulega létt lund eftir svo þunglyndislega færslu.

Ég er búinn að flytja myndirnar sem ég hef tekið af fuglalífinu í kringum okkur í Kvistholti og lítillega einnig í nágrenninu upp í skýið, þar sem þú getur, lesandi góður, skoðað þær að vild, sé viljinn og áhuginn fyrir hendi.




04 febrúar, 2018

Ég nálgast efsta stig.

Ég ætla að reyna að komast að niðurstöðu um hvað felst í því að vera góður. Ég tæpti á þessu málefni í síðasta pistli og ætla að freista þess að halda áfram.  Ég hef ákveðið, við þessa pælingu mína að líta til smávinanna sem njóta veitinga í görðum landsmanna yfir vetrartímann. Ég ætla meira að segja að þrengja vinfengið alveg niður í eina tiltekna tegund: auðnutittling.

Í framhaldi af því hyggst ég freista þess að flokka fólk niður eftir nálgun þess að "litlu kvikindunum" eins og fD kallar þessa smáfugla oftast.

Hefst nú flokkunin:
1. Sá sem er ekki góður, lætur sem vind um eyru þjóta auglýsingar um að við skulum muna eftir smáfuglunum með því að fóðra þá í garðinum.

2. Sá sem segist vera góður, en er það ekki, hvetur fólk til að muna eftir smáfuglunum, en gerir ekkert í málinu sjálfur. Hann lítur svo á að hann sé búinn að senda frá sér skilaboð um gæsku sína með því að tjá sig um málið og fá kannski einhverja til að bregðast við. Þar með telur hann sig vera búnn að uppfylla kröfur um það sem telst að vera góður. Það er hann auðvitað ekki. Hann er bara búinn að lemja einhver orð á lyklaborðið.

3. Þetta er neðsta stig þess sem telst vera góð manneskja. Þessi kaupir eitthvert korn í Bónus án þess að velta fyrir sér hvort það hentar auðnutittlingum. Hendir því síðan einu sinni að morgni út á pall og lætur þar við sitja. Telur sig þar með vera búinn að sjá nægilega fyrir þörfum þessa fiðurfjár. Þarna skiptir hann engu máli hvort það er brunagaddur eða mígandi rigning, eða allt þar á milli. Hann fóðrar þessa fugla út frá SÍNUM forsendum og innan síns þægindaramma. Tekur jafnvel myndir af ræflunum rétt eftir að hann er búinn að henda korninu út, birtir síðan á samfélagsmiðli, nánast með skilaboðunum: "Sjáið hve góður ég er!"

4. Á þessu stigi er góða manneskjan farin að henda út fóðri tvisvar til þrisvar á dag. Jafnframt kíkir hún inn á Fuglavernd.is til að nálgast upplýsingar um hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Er búin að komast að því að bónuskornið er harla takmarkað, leitar uppi aðra aðila sem mögulega selja fuglafóður, og næst þegar hún á leið í kaupstað, jafnvel nokkrum dögum seinna, eykur hún fjölbreytni fóðursins með því að fara á fleiri staði. Nú er hún jafnvel farin að kaupa inn eftir vigt hjá Fóðurblöndunni og einnig farinn að fylgjast vel með birgðastöðunni á pallinum og bæta á eftir þörfum. Hún er þó ekki farin að huga að veðurfarslegum þáttum, þannig að úrkoma veldur því að síður er sett út fóður, enda hverfur það fljótt undir snjóinn, eða rignir niður og verður að mauki.

5. Auk þess sem getið er á fjórða stigi, er góða mannskjan nú búin að átta sig á því, að smáfuglarnir þurfa ekki síður fæðu þegar snjóar eða rignir. Þar með upphugsar hún leiðir til að skýla fóðrinu, og þá einnig litlu kvikindunum fyrir ofankomu. Þannig nýtir hún ef til vill garðbekk sem hún skellir masóníttplötu ofan á, vitandi að hún býr við aðstæður þar sem úrkoma fellur ávallt lóðrétt úr loftinu. Hún fylgist nákvæmlega með lífinu á pallinum og sér til þess að þar sé ávallt eitthvað að bíta og brenna. Stofuborðiið er nú orðið þakið pokum og fötum með fóðri og það er jafnvel svo komið, að þessi góða manneskja er farina að reyna að lesa í tístið til að átta sig á hvað mætti betur fara.
Auk þess sem að ofan er nefnt er þessi góða manneskja farin að gera sér sérstaka ferð í kaupstað til fóðurkaupa.

6. Þegar hér er komið, á efsta stig þess að vera góð manneskja, er litlu kvikindunum boðið húsnæði. Þannig yrði stofunni lokað og opnað út á pall. Fyrir innan væri komið fyrir fóðurstömpum og jafnvel brynningartækjum. Í tilvikum þar sem aðeins tveir einstaklingar búa í tiltölulega stóru einbýlishúsi, gæti hér verið um að ræða hina endanlegu lausn. Hástig manngæskunnar.

Þá er ég búinn að flokka fólk, með tilliti til gæða þess.  Það skal skýrt tekið fram, að hér er um að ræða dæmisögu sem hægt er að beita hvar sem er í samfélaginu. Það eru allstaðar einhverjir sem eru aflögufærir og einhverjir sem þurfa.
Hvar ert þú á þessum skala?


Mér finnst líka nauðsynlegt að fram komi, að fD hefur hafnað hugmynd minni um að opna inn í stofuna og þar með verður bið á að ég ná hástigi manngæsku.

Loks, svona til að fyrirbyggja misskilning, þá er ég í rauninni ekkert sérstaklega góður - fell bara vel að þessum skala.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...