Sýnir færslur með efnisorðinu Bláskógabyggð. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Bláskógabyggð. Sýna allar færslur

18 nóvember, 2019

Þrjátíu ára þróun

Það má kannski segja að það geti talist nokkuð nördalegt, þegar maður sest yfir það að skoða talnaefni frá Hagstofunni, en ég lét mig hafa það fyrir nokkru, með áhugann einan í farteskinu.  

Það er rétt að geta þess, svo ég teljist nú ekki vera að koma aftan að neinum, að ég tel mig hafa verið nokkurn baráttumann fyrir sameiningu allra hreppanna í uppsveitum Árnessýslu á tíunda áratug síðustu aldar, þegar ég átti um stund sæti í hreppsnefnd Biskupstungnahrepps. Í framhaldinu var ég síðan andvígur sameiningu Þingvallahrepps, Laugardalshrepps og Biskupstungnahrepps upp úr aldamótum, einfaldlega vegna þess að mér fannst og finnst reyndar enn, að sú sameining hafi verið of lítil og að með henni skapaðist hætta á því misvægi, sem síðan virðist hafa orðið raunin. Hér er ég fyrst og fremst að vísa til byggðakjarnanna þriggja í Bláskógabyggð: Laugaráss, Laugarvatns og Reykholts.

Það er auðvitað ekki nóg að telja að eitthvað virðist vera með einhverjum hætti, það þarf að undirbyggja það og þessvegna tók ég mig til að tók saman þróun íbúafjölda í byggðakjörnunum þrem í Bláskógabyggð frá árinu 1991 til byrjunar árs 2019, eins og hann birtist í tölum Hagstofunnar.

Heimild: Hagstofan
Í byrjun árs 1991 bjuggu 166 á Laugarvatni, 111 í Laugarási og 94 í Reykholti. Það urðu svo sem ekki miklar breytingar á fólksfjöldanum fram að aldamótum, fækkaði lítillega á Laugarvatni og fjölgaði lítillega á hinum stöðunum. Svo var komið, skömmu eftir aldamót, þegar ákveðið var að sameina hreppana þrjá, án þess að íbúarnir tækju þátt í þeirri ákvörðun, að þorpin þrjú voru nánast jafn stór: á Laugarvatni bjuggu 150, í Reykholti 145 og Laugarási 133.
Eftir sameininguna hófst síðan þróun, sem er verðugt rannsóknarefni. Fyrst á eftir fjölgaði íbúum á Laugarvatni og í Reykholti talsvert hratt fram til 2009, en þá voru þessi þorp jafn stór, Laugarvatn með 203 íbúa og Reykholt 192.
Eftir sameininguna varð þróunin með öðrum hætti í Laugarási. Þar fækkaði íbúum um 21 á árunum 2002 til 2004. Fram til 2009 fjölgaði íbúunum aftur nokkuð stöðugt, þannig að árið 2009 voru þeir orðnir 144. Eitthvað varð til þess, árið 2009 að íbúum á Laugarvatni og í Laugarási fór að fækka ansi hratt, en árið 2012 voru þeir orðnir 148 á Laugarvatni og 114 í Laugarási. Á sama tíma fór íbúum stöðugt fjölgandi í Reykholti, en milli áranna 2012 og 2016 fór íbúafjöldinn úr 197 í 252 og í byrjun árs 2019 voru þeir orðnir 260.
Laugarvatn fór aðeins að taka við sér aftur 2014 en þá voru íbúarnir 165. Þar hefur fjölgað síðan og í byrjun árs 2019 voru íbúar þar orðnir 192.
Þróunin hvað varðar íbúafjölda í Laugarási hélt áfram niður á við og fæstir urðu íbúarnir 2016 og 2017, 97, en þá fór að birta aðeins til, því í byrjun árs 2019 var 121 íbúi í Laugarási.


Það er mikilvægt að halda því til haga, að það er nú ekkert óskaplegt fjölmenni sem er eða hefur verið í þessum byggðakjörnum og þar með hafa litlar breytingar tiltölulega mikil áhrif, en hinu ber líka að halda til haga, að þegar horft er á þetta þrjátíu ára tímabil, fer ekki hjá því að draga verði þá ályktun, að það hafi orðið skýrar breytingar í kjölfar sameiningarinnar þegar Bláskógabyggð varð til.

Ég er hugsi fyrir hönd Laugaráss, sérstaklega og mér finnst það undarleg staða, að búa í hjarta Uppsveita Árnessýslu, en teljast samt vera á jaðarsvæði; upplifa það sem hefur einna helst verið talinn þröskuldur sameininga: jaðarsvæðin, sem óttast að verða útundan í sameinuðu sveitarfélagi. Ég get ekki dregið aðra ályktun en þá, að sú hafi orðið raunin hér í Laugarási.

Mér er spurn: Hversvegna hefur þessi þróun orðið hér? 
Vísast eru ýmis svör við þessari spurningu, en ég ætla að varpa fram nokkrum, sem ég tel ekki ólíkleg:

1. Laugarásjörðin er í eigu sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu og þar með einhverskonar einskismannsland, sem ekki er talin ástæða til að nýta sem sameinandi þátt á þessu svæði, enda sveitarfélögin á svæðinu mjög áfram um að byggja upp sína eigin byggðakjarna. Þessi stefna sveitarfélaganna hefur síðan orðið til þess að slagkraftur í uppbyggingu þjónustu á svæðinu í heild hefur orðið minni en hefði getað verið. Þetta tel ég veigamestu ástæðuna.

2. Laugarás er beinlínis jaðarsvæði í Bláskógabyggð þar sem öxullinn liggur milli fyrrum stjórnsýslu-og félagslífsmiðstöðva Laugardalshrepps og Biskupstungnahrepps.

3. Frá kosningum 2006 hefur Laugarás  ekki átt fulltrúa í sveitarstjórn Bláskógabyggðar. Þetta tel ég vera miklvæga ástæðu og get ekki á mér setið að hvetja Laugarásbúa til að stefna að því að bæta úr þessu í næstu sveitarstjórnarkosningum.

4. Þjónustustig er líklegur orsakavaldur. Á Laugarvatni og í Reykholti eru leikskólar, grunnskólar og aðstaða fyrir ýmisskonar afþreyingu, sem ekki er að finna í Laugarási. Það getur ekki talist óeðlilegt, að þangað sæki fólkið frekar, sem slíka þjónustu er að fá.

Fleiri þætti má tína til, en eftir stendur sú þróun sem fram kemur í þeim fólksfjöldatölum sem ég hef birt hér. Ég tel það vera ábyrgð sveitarstjórnar hverju sinni að stuðla að uppbyggingu og framþróun hvar sem er innan áhrifasvæðis síns.

Ég er kominn á þá skoðun, að annað af tvennu þurfi að gerast:
a. Hrepparnir selji Laugarásjörðina, nú eða afhendi Bláskógabyggð eignarhald yfir henni með einhverjum hætti.
b. Sveitarfélög í Árnessýslu verði sameinuð í eitt sveitarfélag. Ég hef ekki séð neinar skýringar á því, að Bláskógabyggð hafnaði þátttöku í viðræðum, síðast þegar slík sameining kom til tals.

-------------------------------------

KYNJAHLUTFÖLL

Til gamans, úr því ég var kominn af stað í þessum talnaleik ákvað ég að bera saman fjölda karla og kvenna í þessum þrem þorpum. Nokkuð athyglisvert:


Það sem helst vekur athygli varðandi kynjaskiptinguna í Laugarási er, að frá 1991 til aldamóta voru karlar í meirihluta, en frá 2009 eru það konur sem eru fjölmennari.


Fram yfir aldamót voru karlar fjölmennari á Laugarvatni en síðan hafa konurnar verið fleiri, allajafna.


Í Reykholti voru karlarnir í meirihluta, nánast alveg þar til 2012, en þá tóku við jöfn kynjahlutföll þar til 2017, en síðan hafa konur verið í meirihluta.

Niðurstaðan er sú, mögulega, að með því að meirihluti karlanna í upphafi þess tímabils sem hér er undir, er horfinn og gott betur, hefur tími kvenna runnið upp í þorpunum þrem.
Ég leyfi öðrum að velta vöngum yfir þeirri þróun, þó ég gæti sannarlega tínt þær fram.

22 janúar, 2019

Að moka heimreiðar

Það er fjarri mér að setja út á það þegar sveitarfélagið sem ég bý í tekur sig til að ákveður að auka þjónustu við íbúana. 
Það sem ég læt frá mér hér á eftir ber að skoða í því ljósi. 
Þá ber að hafa það í huga við lesturinn, að ég fjalla ekki um málið út frá minni persónu, þó sannarlega tilheyri hún þeim hópi sem fjallað er um og er notuð sem útgangspunktur í umfjölluninni. 

Vissulega munu ýmsir afgreiða þetta sem enn einn þáttinn í þeirri "kvartsýki" sem ákveðinn hópur er sagður þjást af, þegar hann gagnrýnir verk yfirvalda og þá er það bara þannig.

Jæja, þá er það tilefni þess að ég nýti hluta þessa fallega dags til að lemja aðeins á lyklaborðið.

Á 199. fundi byggðaráðs Bláskógabyggðar, sem var haldinn í Aratungu þann 26. september, s.l. var þessi tillaga samþykkt:

2.5. Tillaga um breytt fyrirkomulag á snjómokstri, mokaðar verði heimreiðar að öllum bæjum þar sem skráð er lögheimili og föst búseta. Byggðaráð Bláskógabyggðar samþykkir að gera þá breytingu á fyrirkomulagi snjómoksturs að mokaðar verði heimreiðar að öllum bæjum þar sem íbúi/íbúar eru skráðir með lögheimili og hafa fasta búsetu. Í útboði á snjómokstri í Bláskógabyggð, sem Vegagerðin og Bláskógabyggð standa saman að, fyrir tengi- og héraðsvegi, verði boðinn út mokstur heimreiða skv. framangreindu. Sviðsstjóra framkvæmda- og veitusviðs og sveitarstjóra er falið að útbúa drög að verklagsreglum sem lagðar verða fyrir sveitarstjórn.  (feitletrun mín)
Lái mér hver sem vill, en með þessari samþykkt taldi ég víst, að nú fengi ég aukna þjónustu. Það er nefnilega þannig, að til mín liggur heimreið. Ég er skráður með lögheimili og hef fasta búsetu á lögbýli.  Ég var bjartsýnn og fagnaði.

Svo fór loksins að snjóa, bara nokkuð hressilega. Snjóruðningstækin voru tekin til kostanna og í framhaldinu kom stöðufærsla á facebook frá sveitarfélaginu:
Nú hefur reynt í fyrsta sinn á nýtt fyrirkomulag í snjómokstri sveitarfélagsins með að moka heim á bæi þar sem föst búseta er.
Við gerð áætlunar um mokstursleiðir er mögulegt að eitthver bær hafi farið fram hjá okkur og því biðlum til íbúa til að láta vita ef ekki hefur verið mokað til þeirra sem hafa rétt á mokstri. Eins ef eitthvað má betur fara.
(feitletrun mín)
Þar sem ekki hafði verið mokað heim til mín, bað ég, í viðbrögðum við þessari færslu, um nánari útlistun á því hvernig reglurnar sem unnið væri eftir, væru.

Á facebooksíðu Bláskógabyggðar birtust í gær þær verklegsreglur sem unnið er eftir, en þær eru þessar:

Því miður var það mynd af verklagsreglunum sem inn var sett, þannig að ég slæ hér inn það sem fjallað er um og ég hef merkt með gulum lit:

1. Einungis eru mokaðar heimreiðar að bæjum þar sem er föst búseta og viðkomandi íbúar með skráð lögheimili.
2. Sveitarfélagið sér ekki um mokstur á heimkeyrslum að fyrirtækjum eða íbúðarhúsum í þéttbýli, gildir það einnig um heimkeyrslur að lögbýlum sem eru innan þéttbýlis.
3. Samþykkt í sveitarstjórn Bláskógabyggðar 8. nóvember, 2018.
Þessar verklagsreglur hef ég ekki fundið á vef sveitarfélagsins, en þar ættu þær væntanlega að vera. Reglurnar samþykkti sveitarstjórn með þessum hætti (samhljóða):
4.17 Viðmiðunarreglur vegna snjómoksturs. Lagðar voru fram viðmiðunarreglur vegna snjómoksturs. Vegagerðin hefur nýlega boðið út snjómokstur í samstarfi við sveitarfélagið. Í útboðsgögnum er kveðið á um mokstur heimreiða að bæjum þar sem er föst búseta og skráð lögheimili og er það í samræmi við ákvörðun sveitarstjórnar frá því í haust. Í viðmiðunarreglunum kemur fram hvaða reglur hafðar eru til viðmiðunar um mokstur héraðs- og tengivega (svokallaðra helmingamokstursvega) og heimreiða. Umræða varð um reglurnar. Sveitarstjórn samþykkir reglurnar samhljóða.  (feitletrun mín)

Hvað um það, með þessum verklagsreglum er ég útilokaður frá þeirri auknu þjónustu sem sveitarfélagið er að veita íbúunum, jafnvel þó til mín liggi heimreið sú sem sést á myndinni efst, þó ég sé skráður með lögheimili á staðnum og með fasta búsetu og greiði skatta og gjöld rétt eins og hver annar.
Vissulega á það ekki við um mig að ég sé háður því að koma afurðum mínum og aðföngum heim til mín, en það á við um aðra, sem þarna fá ekki þessa þjónustu, þó svo þeir búi á lögbýlum og þurfi að sjá til þess að flutningabílar geti athafnað sig.
Þéttbýlin í Bláskógabyggð eru talvert ólík því sem gerist í þéttbýli eins og t.d. á Selfossi, eða Reykjavík, eins og hver maður getur ímyndað sér.  Hér liggja ekki stofnæðar við húsvegginn, heldur liggja heimreiðar að bæjunum.

Ef eitthvað, þá má segja að mokstur stofnæðanna valdi mér jafnvel meiri vanda en þær leysa, þar sem snjóplógarnir moka upp hryggjum við endann á heimreiðinni sem verða síðan að grjóthörðum saltpækli.

Ég hef nú ekki umtalsverða von um að sveitarfélagið ákveði að breyta skilgreiningu sinni á því hvað telst vera bær með heimreið. Mér finnst hinsvegar ótækt að okkur, sem þarna er gert að sjá sjálf um okkar snjómokstur, sé gert erfiðara fyrir en vera þarf. Því legg ég til að sveitarfélagið veiti mér og öðrum sem við á, þá þjónustu að moka að minnsta kosti burt snjóhryggjunum sem snjóplógarnir ryðja inn í heimreiðar okkar.
Það væri skref í rétta átt.
Ég legg einnig til, að sveitarfélagið reyni í framhaldinu, af fremsta megni, að sjá til þess að íbúar sveitarfélagsins njóti sambærilegrar þjónustu að þessu leyti, óháð búsetu.

Það var fallegt við Hvítá í morgun.

12 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (3)

Ég ætla að helga Laugarási þennan síðasta hluta upphátthugsana minna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.  
Ég er sem sagt búinn að henda frá mér tveim hlutum. (1) og (2).

Laugarás er afskaplega sérstakur staður og yndislegur og byggðin þar bráðung á mælikvarða byggðar í landinu að öðru leyti.

Örsaga

Árið 1922 komst Laugarásjörðin í eigu... já, í eigu hvers og hvernig?  Enn sem komið er virðist mér sýslunefnd Árnessýslu hafa keypt jörðina, en vil ekki fullyrða um hvort eða hvernig, eða með hvaða skilyrðum uppsveitahrepparnir eignuðust hana undir héraðslækninn sem þá settist að í Laugarási. Hann hafði þá búið í Skálholti í einhver ár og þar áður í Grímsnesinu. Í samræmi við það kallaðist héraðið sem þessi læknir þjónaði, Grímsneshérað. Nafninu var síðan breytt á fimmta áratugnum, í Laugaráshérað, eða Laugaráslæknishérað.
1941 hófst uppbygging í Laugarási, að öðru leyti. Hún var mjög hröð á sjöunda og fram á áttunda áratuginn, eftir að Hvítárbrúin hafði verið byggð. Hvert garðyrkjubýlið af öðru var stofnað.

Þetta átti nú ekki að vera sögustund, sérstaklega, en mér fannst rétt að setja þetta í samhengi við það sem á eftir fer.

Hluti af uppsveitum

Laugarás er, landfræðilega í miðju byggðarinnar á svæðinu sem í daglegu tali er nefnt Uppsveitir Árnessýslu. Það var því ekki að ástæðulausu að læknissetri var valinn staður hér. Þessi staður virtist hafa möguleika til að vaxa og dafna á ýmsa lund og forystumenn í uppsveitum töluðu sumir fjálglega um alla þá möguleika sem blöstu við.

Þetta átti hinsvegar aldrei að verða og hefði svo sem átt að vera fyrirsjáanlegt.
Í staðinn fyrir að verða þessi blómlegi bær, reyndist Laugarás verða heit kartafla, sem enginn vildi afhýða. Hver hreppur fyrir sig hóf uppbyggingu síns þéttbýliskjarna og það þykist ég viss um, að allir hafa þeir, í gegnum tíðina litið á Laugarás sem nokkurskonar ógn.
Engan úr þessum sveitarfélögum hef ég nokkurntíma heyrt tala um, í einhverri alvöru, að uppbygging af einhverju tagi í Laugarási væri mikilvæg fyrir uppsveitirnar, enda væru þeir með slíku tali að grafa undan uppbyggingu innan eigin hrepps.

Það sem þó hefur verið reynt að gera, hefur ekki verið af heilum hug og yfirleitt rifið niður á endanum. Þar má til dæmis nefna fyrirhugaða byggingu á þjónustuíbúðum fyrir eldri borgara á 10. áratugnum, í landinu þar sem barnaheimili Rauða krossins stóð áður. Þarna var um að ræða metnaðarfullar fyrirætlanir, sem á endanum voru talaðar svo niður að ekkert varð úr. Nágrannarnir vildu allir fá þetta til sín.
Nýjasta dæmið um þetta eru síðan hugmyndirnar um byggingu hjúkrunarheimilis, sem fóru af stað að frumkvæði kvenfélaga fyrir 2-3 árum. Sú umræða fór af stað af krafti, en áður en við var litið upphófust úrtöluraddirnar og ekkert varð úr neinu.

Að óbreyttu mun Laugarás halda áfram að byggja á því einvörðungu, sem íbúarnir skapa sér sjálfir, sem er að mörgu leyti ágætt. Ég fæ ekki betur séð en eigendum jarðarinnar sé talsvert í mun að tryggja að Laugarás fái ekki að vaxa og dafna að þeirra frumkvæði.

Forsenda eignarhalds brostin

Nú er Laugaráslæknishérað ekki lengur til og heilsugæslan orðin hluti af Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Með þessu má segja að forsendan fyrir eignarhaldi uppsveitahreppanna sé horfin og þeir hafa enga ástæðu til að eiga Laugarásjörðina lengur.

Biskupstungnahreppur áður og Bláskógabyggð nú, hefur það hlutverk að halda utan um þessa sameign og ber á henni ábyrgð, enda jörðin landfræðilega í því sveitarfélagi.
Það má í raun segja alveg það sama um Bláskógabyggð að hina eigendur jarðarinnar. Sveitarfélagið vill sem minnst af Laugarási vita, telur sig (auðvitað ekki í orði) eiga nóg með hina þéttbýliskjarnana sína tvo.  Nú hefur þessi "sameining" hreppanna þriggja staðið í 16 ár og enn snýst flest um einhverskonar helmingaskipti. Enn er flest litað af því að raunveruleg sameining er ekki orðin og fyrir hendi vantraust á ýmsum sviðum, sem síðan er reynt að fjarlægja með tilheyrandi kostnaði fyrir allt samfélagið.

Von í óvissunni

Það liggur ýmislegt í loftinu í Laugarási um þessar mundir. Það eiga sér stað ánægjulegar breytingar með fólksfjölgun á síðustu árum og heyrst hefur að einhver(jir) eigenda jarðarinnar vilji selja hana.

Ég verð nú að segja það, að ég tel slíka sölu geta verið talsvert gæfuspor fyrir Laugarás. Ég held raunar að hvaða eigandi sem væri, myndi fara betur með þessa eign sína, en núverandi eigendur hafa gert.
Í gegnum eignarhaldið hefur hreppunum tekist að halda aftur af þróun byggðar í Laugarási með því að beita áhrifum í gegnum svokallaða oddvitanefnd. Þar með tel ég Biskupstungnahrepp og síðar Bláskógabyggð. Þetta myndi auðvitað enginn viðurkenna.

Með sölu á jörðinni, líklegast til Bláskógabyggðar, hefðu þessir aðilar ekki lengur þetta tangarhald og  þannig gæti Bláskógabyggð ekki lengur skýlt sér á bakvið það að jörðin væri sameign allra hreppanna.

Já, það getur verið gaman að velta hlutum svona fyrir sér.

Nýtt kjörtímabil

Nú sé ég fyrir mér að næsta kjörtímabil, verði kjörtímabilið þegar þegar fólk fer að fjalla um Laugarás, Laugarvatn og Reykholt í sömu andrá, án þess að blikna.
Ég sé fyrir mér að ég muni ekki lengur tala út í tómið þegar ég nefni Laugarás á nafn, eða fjalla um þau málefni sem þar skipta máli.

Maður verður að vera bjartsýnn og vona það besta.


Auk þess legg ég til......

Svo legg ég til svona í lokin, að við sameinumst öll um að berjast fyrir byggingu dvalar- og hjúkrunarheimilis og/eða þjónustuíbúða fyrir aldraða í Laugarási til ómældra hagsbóta fyrir uppsveitirnar allar og styrkingar á heilbrigðisþjónustu almennt, á svæðinu.










Ástæða til að kíkja á þetta:



11 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (2)

Í fyrsta hluta velti ég upp ýmsum staðreyndum varðandi fyrri kosningar í þessu löngu sameinaða sveitarfélagi, Bláskógabyggð. Ég tæpti á því að enn væri ekki komið á það traust innan þessa sveitarfélags, að fólk geti farið að hugsa eftir öðrum nótum en þeim birta þrjá mismunandi hreppa, eða svæði. Mér finnst kominn tími til þess og þó fyrr hefði verið.
Sættum okkur bara við það að við tilheyrum einni stjórnsýslueiningu, sem ber að huga að og sinna jafnt ÖLLUM þáttum og kimum. Einungis þannig myndast sátt.

Ef ég nú kýs að líta framhjá uppruna frambjóðenda á listunum þrem, hver ættu þá viðmið mín að vera?  Ég veit það fyrirfram að allir vilja sveitarfélaginu hið besta, í það minnsta í orði. Við þurfum ekki að fara í grafgötur með það, því það viljum við öll.

Málefnin
Ef ég kýs að líta framhjá uppruna frambjóðendanna, gæti ég reynt að finna út hvað það er nákvæmlega, sem aðgreinir framboðin. Er það eitthvað? Birtast þar einhver áhersluatriði sem ættu að leiða mig að einu framboði frekar en öðru? Er þetta ef til vill bara svona snakk um metnaðarfullt starf eða metnaðarfullar hugmyndir, sem meira og minna vísa út og suður? Má greina einhverja eina línu sem einkennir hvert framboð og greinir þau frá hvert öðru?
Ég held bara ekki, svei mér þá.

Meirihluti og minnihluti
Eftir kosningar verður til meirihluti og minnihluti í sveitarstjórn. Það er eitt megin hlutverk minnihlutans að veita aðhald, spyrja, gagnrýna.  Minnihlutinn á að setja spurningamerki við allt. Það sem hann samþykkir, samþykkir hann. Hann berst gegn því sem hann er andvígur. Þannig á þetta að vera þar sem hópar með mismunandi stefnu eða sýn á samfélagið hafa verið kjörnir til að fara með málefni sveitarfélags í heil fjögur ár.
Ef maður á í erfiðleikum með að greina hver tilheyrir hvaða lista eða listabókstaf, þá finnst mér þetta ekki alveg vera að gera sig (Ég hef og þurft að hugsa mig nokkuð lengi um varðandi Þ og T).

Ef allir eru bara á sömu nótum er hætt við að ákvarðanir séu teknar, sem ekki eru nægilega vel ígrundaðar og þá vaknar spurningin um hvort, þegar upp er staðið, snúist framboðin eða listarnir um eitthvað annað en einhverja stefnu sem greinir þau hvert frá öðru.

Það sem ég er að reyna að segja er, að til þess að til staðar sé minnihluti og meirihluti í sveitarstjórn, þarf að vera til ólík stefna í veigamiklum málum.
Auðvitað eru flest mál sem koma á borð sveitarstjórnar samþykkt samhljóða þar sem þau eru þess eðlis. Önnur snúast um grundvallaratriði af  ýmsu tagi, og ættu óhjákvæmilega að kalla á átök.  Til að útskýra aðeins hvað ég á við með því, vil ég t.d. nefna umhverfismál, sem eru einn mikilvægasti málaflokkur samtímans, hvar sem er. Í þessu sveitarfélagi eru skoðanir vísast mjög skiptar um þennan mikilvæga málaflokk, en svo virðist mér ekki hafa verið í þeirri sveitarstjórn sem nú situr. Þar virðist mér allir ganga í takt, hvar í flokki sem eru.

Nei, ekki held ég að sé einfalt mál að velja sér lista til að kjósa út frá málefnunum.

Ef maður vill horfa framhjá bæði heimilisfangi frambjóðenda og málefnaskrám framboðanna, hvað getur maður þá látið ráða atkvæði sínu?

Framsókn og íhald
Það hvarflar æ oftar að mér, að skást væri að bjóða fram pólitíska lista með öllum þeirra göllum. Við búum ekki lengur í samfélagi þar sem allir þekkja alla eins og áður var. Ég spurði einhverntíma hvar fólkið í sveitarstjórninni stæði í pólitík og fékk það svar að þar væri ekkert nema íhald og framsókn í einhverjum hrærigraut. Ég veit svo sem ekki hvað er satt í því. Hinsvegar finnst mér óþægilegt að vita ekki um grundvallarviðhorf þeirra sem í framboði eru til að ráða málum okkar. Finnst ég reyndar eiga rétt á því, sem kjósandi. Það skiptir mig engu mál hver hjúskaparstaðan er, eða hve mörg börnin eru, eða hvernig bíllinn er á litinn. Ég vil vita hvar þeir standa á hinu pólitíska litrófi.
Það breytir kannski engu alla jafna, en stóru málin snúast alltaf um grundvallaratriðin og þá reynir á lífssýn, eða hugsjónir.
Ég vil geta valið fólk til sveitarstjórnar, sem hefur svipuð grunngildi að þessu leyti og ég. 
Mér finnst það virðingarvert að nú er komið framboð í Hrunamannahreppi þar sem fólk lætur vita fyrirfram fyrir hvað það stendur í þessum efnum.

Ekki hefur mér heyrst að við Bláskógabyggðarbúar séum tilbúnir að fara þessa leið.
Hvað er þá eftir, sem gæti aðstoðað okkur við að finna framboð sem við gætum talið einna skást.

Persónur
Auðvitað stendur þessi möguleiki eftir. Á einhverjum listanna eru einn eða tveir sem ég myndi treysta til að sitja í sveitarstjórn umfram einhverja aðra og kýs því listann hans. Í mínum huga er þetta afar veikburða forsenda fyrir vali að framboðslista.
Þó að ég finni einn frambjóðanda sem afar vandaður einstaklingur í alla staði, er ekki þar með sagt að það sama megi segja um meðframbjóðendur hans. Hverjir eru þeir, hvaðan koma þeir, fyrir hvað standa þeir? Jú, við fáum ef til vill að vita um barnafjöldann eða áhuga þeirra á hrossum eða kórsöng. Það sem við þyrftum að vita um þá er kannski ósagt. Þar dettur mér í hug hagsmunir af hinu og þessu. Hefur frambjóðandinn persónulegan hag af ákvörðunum sveitarstjórnar?  Ákvörðunum sem kunna að reynast honum hagfelldar, en baggi í sveitarfélaginu að öðru leyti?

Ef persónur eiga að vera helsta viðmiðið við val á lista, tel ég að fyrir þurfi að liggja skrá yfir alla hagsmuni viðkomandi, sem mögulega kunna að hafa áhrif á störf hans í sveitarstjórn.

Sannarlega ætla ekki ég því fólki sem situr í sveitarstjórn nú, eða sækist eftir sæti í þeirri næstu, að sigla undir einhverju fölsku flaggi. Ég er hinsvegar að halda því fram að við eigum að hafa svo glöggar upplýsingar sem mögulegt er um frambjóðendur, áður en við ákveðum hvernig við ráðstöfum atkvæðum okkar. Við þekkjum ekki allt þetta fólk sem býður sig fram.

Eftir hverju kjósum við í raun?
Nú er ég búinn að fara yfir helstu forsendur sem ég tel að kjósendur í Bláskógabyggð horfi til. Tveggja þeirra held ég að flestir horfi til umfram aðrar: búsetu frambjóðenda, annarsvegar og hverjir þeir eru, hinsvegar. Með öðrum orðum, þá tel ég ekki að metnaðarfullar málaskrárnar breyti miklu, enda fremur loðnar, teygjanlegar og líkar.




---------
Ég hyggst efna í einn kafla í viðbót og beina þá sjónum að málefnum þorpsins í skóginum, í samhengi við tilveru þess innan sveitarfélagsins Bláskógabyggðar.





10 maí, 2018

Það eru að koma kosningar (1) (kannski)

Það er rétt að taka það fram í upphafi, að ég bý í Laugarási. þar með fjarlægi ég þá mögulegu gagnrýni.

Ég neita því ekki, að það hefur nokkrum sinnum hvarflað að mér að nýta ekki nánast heilagan rétt minn til að greiða atkvæði við kjör til sveitarstjórnar í Bláskógabyggð.
Það hvarflar að mér nú.
Ég kýs að nota þennan vettvang minn til að velta fyrir mér hvað það er helst sem veldur áhugaleysi mínu fyrir þessar kosningar.
Ég ætla að reyna að hugsa upphátt, hvert sem það leiðir mig nú. Ég ætla að reyna að sneiða hjá gagnrýni á það ágæta fólk sem býður sig fram til starfa á þessum vettvangi (þó vissulega megi gagnrýna það á ýmsa lund), en einbeita mér frekar að því ástandi sem er í Bláskógabyggð.

Þrír hreppar sameinast árið 2002.

Biskupstungnahreppur, Laugardalshreppur og Þingvallahreppur gengu í eina sæng og hið nýja sveitarfélag hlaut nafnið Bláskógabyggð.
Ég var aldrei sáttur við þessa sameiningu vegna þess að mér fannst hún of lítil. Ég sá það fyrir, sem síðan gekk eftir, að mínu mati: öll orka sveitarsjórnar færi í að hafa íbúa þessara þriggja sveitarfélaga að mestu góða. Síðan eru 16 ár. Enn í dag heyri ég í óánægðum Laugdælum, sem telja Tungnamenn hafa gleypt allt. Ég sjálfur tel, að Laugarás hafi verið sett lengra út á kantinn en þorpið þó var fyrir þessa sameiningu.
Ekki veit ég hver viðhorf annarra Tungnamanna eða Þingvellinga eru til þessa.

Þegar sameiningin var framkvæmd var íbúafjöldinn í sveitarfélögunum þrem þessi (2001):
Biskupstungnahreppur: 659
Laugardalshreppur : 252
Þingvallahreppur: 39
Árið 2002 voru íbúar í Bláskógabyggð 887. Nú (2018) eru þeir 1115. Hefur fjölgað um 228.

Hvernig hefur svo íbúafjöldinn á þéttbýlisstöðunum þrem þróast?
                                    2002                2018            breyting
Reykholt                       145                  270              +125
Laugarás                       133                  116               - 17
Laugarvatn                   150                   191              + 41


Laugarás fékk fulltrúa í sveitarstjórn í þessum fyrstu kosningum. Hinir 6 voru þrír sem komu úr Laugardal og þrír úr Biskupstungum (utan Laugaráss).

Í kosningunum 2006 komu þrír fulltrúar úr Biskupstungum, þrír úr Laugardal og einn frá Þingvöllum. Enginn fulltrúi úr Laugarási.

Næst var kosið 2010. Þá settust 4 fulltrúar úr Biskupstungum í sveitarstjórn, 2 Laugdælir og 1 Þingvellingur. Enginn úr Laugarási.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum (2014) varð niðurstaðan sú, að 3 fulltrúar komu úr Biskupstungum, 3 úr Laugardal og 1 frá Þingvöllum.  Engan fulltrúa átti Laugarás.

Kosningarnar framundan

Í komandi kosningum virðist nú vera gerð tilraun til að brjóta upp þetta tveggja lista fyrirkomulag sem hefur verið við líði frá sameiningu. Það er kominn fram nýr listi, N-listinn.

Ég lék mér að því að skoða samsetningu listanna þriggja og miða í því við 7 efstu sætin. Sæti þeirra sem eiga fræðilega möguleika á að setjast í sveitarstjórn að loknum kosningum.

Alslemm: 
Verði úrslit kosninganna þannig að einn listi fái alla fulltrúana, myndi svona fólk sitja í næstu sveitarstjórn:

N-listi: 5 Laugdælir, 2 Tungnamenn (þar af 1 úr Laugarási)
T-listi:  2 Laugdælir, 4 Tungnamenn, 1 Þingvellingur (enginn úr Laugarási)
Þ-listi:  3 Laugdælir, 4 Tungnamenn (þar af 1 úr Laugarási).

Þetta gerist nú sennilega ekki. Líklegra að ástandið verði óbreytt, þar sem við íbúar Bláskógabyggðar erum talsverðir hefðarsinnar og lítið fyrir grundvallarbreytingar. Samt metnaðarfullir, að eigin mati, sýnist mér á stefnuskrám.

Óbreytt
Verði niðurstaðan óbreytt hlutfall, sem er líklegast, munu fá sæti í sveitarstjórn:

3 Laugdælir, 3 Tungnamenn, 1 Þingvellingur  (enginn úr Laugarási).

Tapi meirihlutinn einum manni til Þ-lista:
2 Laugdælir, 4 Tungnamenn, 1 Þingvellingur (enginn úr Laugarási).

Auðvitað er hægt að halda svona áfram lengi, en ég sleppi því.
Ég þykist viss um að ýmsa muni langa til að fjargviðrast út þessari áráttu minni að flokka frambjóðendur eftir upprunastað þeirra og að með því sé ég að kynda undir klofningi innan sveitarfélagsins. Þeir mega alveg fjargviðrast, mér að meinalausu. Ef ekki þessar forsendur, hvaða forsendur á ég þá að notast við þegar ég þarf að velja á milli þessara framboða? Ekki virðast það vera hugsjónir sem aðgreina þau.

Ég ætla kannski að velta mér aðeins upp úr því næst.



Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...