Sýnir færslur með efnisorðinu #kosningar 2017. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu #kosningar 2017. Sýna allar færslur

26 október, 2017

Forsetinn snerti mig

Ekki vafðist fyrir okkur fD að ljúka því sem ljúka þurfti í höfuðstað Suðurlands í morgun, enda orðin með eindæmum þjálfuð í að vita hvað við þurfum í raun til að lifa með umtalsverðri reisn næstu vikuna. Það má segja, að minnismiðar séu að verða óþarfir í þessum kaupstaðarferðum.

Kannski var nú helsti tilgangurinn með þessari ferð að greiða atkvæði í þessum Alþingiskosningum sem framundan eru. Eins og fram hefur komið hér áður, hef ég verið nokkuð tvístígandi varðandi það hvernig atkvæði mitt geti nýst sem best þeim stjórnmálaflokkum sem næst standa  þeim gildum sem mér finnst mikilvægt að séu í hávegum höfð á þessu ísahlýja landi, þar sem varla er hægt að tala um að komið sé haust, ennþá, hvað þá vetur.

Konan sem sat bak við skrifborðið, vildi sjá skilríki, sló eitthvað inn, náði síðan í kjörseðil og umslag. Rétti mér þetta tvennt og benti mér síðan á að ganga eftir húsinu endilöngu þar til ég kæmi að kjörklefa, sem ég gerði auðvitað. Þar fann ég, bakvið sturtuhengi, aðstöðu þar sem gert var ráð fyrir að þeir sem inn kæmu, þyrftu ekki að setjast, enda kannski óþarfi, sérstaklega ef enginn vafi léki á hver skyldi nú fá atkvæðið. Ekki er því að neita, að ef efi minn hefði verið því meiri, hefði nú ekki verið slæmt að geta tyllt sér og ekki hefði nú blessaður kaffisopi, jafnvel smá koníaksdreytill komið sér illa við slíkar aðstæður, en ég var nú ekki svo langt frá niðurstöðunni.

Inni í kjörklefanum, eða sturtuhenginu, var sem sagt borð sem maður þurfti að standa við. Á því, uppi við vegginn, var röð af TRODAT stimplum, sem merktir voru hver með sínum bókstafnum. Ég lét augun reika frá einum stimplinum til annars, þar sem ég hafði opnað kjörseðilinn, en hann var næstum eins og fermingarkort. Utan á honum svartar, óreglulegar línur til að tryggja að ekki væri nú hægt að lesa í gegn, sem enginn möguleiki hefði verið á hvort sem var, enda seðillinn úr svokölluðum karton pappír.  Sennilega er þetta gert, eins og flest annað, sem þarna fer fram, til þess að draga úr líkum á að lögmæti utankjörfundaratkvæðagreiðslu yrði dregið í efa og jafnvel kært.
Ég neita því ekki, að hönd mín nánast réði því að ég tók einn stimpil, en ekki annan, enda staðfastlega þeirrar skoðunar, að að fjöldi stjórnmálaflokka sé ekki til þess fallinn að gera Ísland að betra landi. 
Ég tók stimpil og stimplaði á miðjan kjörseðilinn í þar til gerðan reit. Teningnum var kastað. Ég verð að lifa með þessari ákvörðun minni, og er bara nokkuð sáttur við hana, svona miðað við allt og allt. Ég ætlaði að þessu búnu, að skila kjörseðlinum og ljúka málinu þannig, en það var nú ekki svo einfalt. Ég verð að hafa fyrir því að koma atkvæðinu á skrifstofu Bláskógabyggðar eða fá einhvern til að fara með hann fyrir mig á kjördag í viðeigandi kjördeild, bara til þess að hægt verði síðan að flytja hann aftur á talningarstað í Suðurkjördæmi. Mikið bull, að mínu mati.  Við tóku pælingar um hver væri best til fallinn að sinna þessu verki, en ekki kom nú hver sem er til greina. Um þetta varð niðurstða og málið er í höfn.

X fær fólk víst ekki að setja á kjörseðla fyrr en á laugardag, en þá verð ég fjarri góðu gamni, ef að líkum lætur. Það verð ég að segja alveg eins og er, að mér er harla mikið sama um að missa af þeirri gleði, eins og í stefnir.  Mér sýnist að áfram verði það sama uppi á teningnum. Það verður þannig þar til hægt verður að bera traust til þeirra framboða og frambjóðenda sem vilja fá X-ið okkar við sinn staf á kjörseðlinum.

Djö... held ég nú að við værum mikið betur sett, ef stjórnmálamenn þyrftu að aflétta leynd af fjármálavafstri sínu með ættmennum og viðskiptafélögum.  Ég held, svei mér þá, að þetta fyrirbæri "bankaleynd", sé sá þáttur sem stendur mest í vegi fyrir því að á þessu landi verði hægt að byggja upp traust á ný.
Hvað um það, ekki raunar margt fleira um það að segja, en í lágvöruverðsverslun í framhaldinu rakst ég á  forseta og bæjarstjóra, harla brosmilda báða. "Það þýðir víst ekkert að eiga orð við þig", sagði forsetinn kankvís, um leið og hann snerti öxl mína létt (engan veginn kynferðislegt áreiti þar á ferð). "Nei, þannig held ég að tíma þínum væri ekki vel varið", svaraði ég.  Í framhaldinu brostum við hvert við öðru, forsetinn, bæjarstjórinn og ég. Ég sá ekki hvort fD brosti, en tel það fremur ólíklegt.
Forsetinn og bæjarstjórinn hurfu út í haustdaginn, en við fD keyptum okkur skyrdrykk.



15 október, 2017

Öfug sálfræði #kosningar 2017

Ef maður vill vinna málstað fylgis á þessum tímum, er vísast leiðin að beita öfugri sálfræði.
Ég get hamast þangað til ég fæ blóðbragð í munninn, og ælu upp í háls, við að leiða fram rök fyrir því að það sé hin argasta fásinna, að styðja tiltekinn stjórnmálaflokk, eða flokka, eða einstaka stjórnmálamenn.
Ég væri í rauninni aðeins að fullnægja tjáningarþörf minni: "Mikið djö.. er þetta gott hjá mér!"
"Þarna kýldi ég hann/hana kalda(n)!"
Það er nefnilega þannig, að mínu mati, með stjórnmálaskoðanir, að þær herðast eftir því sem fleiri rök eru leidd fram gegn þeim. Það gengur meira að segja svo langt, að skjöl sem tengjast suðrænum eyjum breytast í eitthvert jákvætt fyrirbæri í höfðum þeirra sem hafa stillt sér upp við hlið frambjóðanda sem tengist slíkum skjölum. Fólk herðist í trúnni, sérstaklega það fólk sem ekki býr yfir neinni sérstakri sannfæringu, eða lífsskoðun, sem er yfir hið persónulega hafin.

Fólk forherðist og þegar upp er staðið verður engin breyting. Hvenær ætlar okkur að skiljast þetta?

Að taka á einhverjum tímapunkti í lífinu ákvörðun um að kjósa tiltekið stjórnmálaafl felur í sér ákveðna skuldbindingu gagnvart sjálfum sér. Flökti maður síðan í trúnni og telji eitthvað annað mögulega betra, kostar það talsverða sálarangist, því með því að viðurkenna að maður hafi valið rangt, er maður jafnfram að tapa ákveðinni sjálfsvirðingu. Viðurkenna að maður hafi verið vitlaus síðast þegar kosið var. 

Að viðurkenna slíkt fyrir sjálfum sér, er í eðli sínu niðurbrjótandi atferli. Maður bíður hnekki gagnvart sjálfum sér. Maður er helv.... aumingi og vitleysingur. Nei, maður verður að standa keikur með sínum flokki. Annað er ekki boðlegt eða til umræðu.

Til þess að komast hjá því að upplifa sjálfan sig sem vitlausan aumngja, sem hefur enga lífsskoðun, eða hugsjón, hlýtur niðurstaðan að verða sú, að maður kýs áfram það sama og síðast, hvað sem eyjum í suðurhöfum líður.

Ég held að væri frekar reynandi, að fara hina leiðina, leggja áherslu á hið jákvæða og uppbyggilega, en það er víst ekki valkostur, og því hef ég tekið þá stefnu með sjálfum mér, að benda ekki sveitungum mínum, til dæmis, sem ég kýs að nefna ekki á nafn, frekar en ég hef þegar gert, á villuna sem þeir hafa ratað í með afstöðu sinni - það forarsvað sem þeir eru komnir út á.

Nei, ég ætla bara að þegja og leyfa þeim að vaða áfram í villu og svíma; taka með sínum hætti þátt í því að gera endanlega út af við þessa þjóð, og allt það.  Það er bara hreint ekkert sem ég get gert við því.

Vissulega viðurkenni ég, að það eru til hópar sem hægt er að hafa áhrif á, en þeir eru þessir helstir:

1. Ungt fólk, sem er svo heppið að fá tækifæri til að móta eigin lífsskoðun og hugsjónir, en taka það ekki með sér úr foreldrahúsum. Við þeim blasir hinsvegar sá vandi, að íslensk stjórnmálaumræða snýst frekar um hagsmuni en hugsjónir.

2. Fólk sem er laust við að burðast með sómakennd af einhverju tagi.

3. Fólk sem hagar seglum eftir vindi, og þá þeim vindi sem líklegastur er til að blása því, og aðeins því, áfram til betra lífs. Þá oft betra lífs sem byggir á peningalegum hagnaði af einhverju tagi.

Fólk með sjálfsvirðingu, breytir ekki pólitískri afstöðu sinni svo glatt og er tilbúið að ganga lengra en góðu hófi gegnir, til að verja eitthvað, sem allt eins líklega kemur því frekar illa  en vel.

Þetta var pólitískur pistill dagsins.

Það var fallegt við Hvítá í dag.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...