Sýnir færslur með efnisorðinu minning. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu minning. Sýna allar færslur

13 febrúar, 2025

Hæpóst og hávörn, langskot og lágvörn

50 ára stúdentar, 2024
Maður áttar sig ekki endilega á því, meðan einhverjar aðstæður eru fyrir hendi, hvort þær hugsanlega muni skipta máli eitthvert inn í framtíðina. Þetta á aðallega við aðstæður í æsku og á unglingsárum. Hvaða varanlegu áhrif höfðu kennararnir þínir á þig?  Skiptu krakkarnir sem þú deildir kjörum með, einhverju máli?  Svörin geta aldrei orðið einhlít, en ég reikna nú með, að fólk sem komið er aðeins lengra en að teljast miðaldra, hugsi nokkuð oft til þess tíma sem var og pæli jafnvel aðeins í því hvernig skólatíminn; samnemendur og kennarar áttu þátt í að móta lífshlaupið sem síðar varð.
 
Fyrstu 15-20 ár ævinnar eru mikill mótunartími hjá okkur öllum. Einmitt þess vegna er hann svo mikilvægur og má helst ekki mistakast.
Vissulega hefur mér s tundum fundist, að hluti þessara mótunarára hafi mistekist í mínu tilfelli, en er samt hreint ekki viss. 
Mér verður stundum á að hugsa til barnaskólagöngunnar, þegar ég var á víxl hálfan mánuð heima og hálfan mánuð á heimavist. Ég á ekkert sérstaklega margar jákvæðar minningar frá þeirri upplifun, en reyni aftur á móti að trúa því að barnaskólaárin hafi mótað mig þannig, að ég varð reiðubúnari til að takast á við enn meiri fjarvistir frá foreldrahúsum, þegar við tók Héraðsskólinn á Laugarvatni. Þar var ég þrjá vetur á heimavist ásamt unglingum í svipuðum sporum. Jú, það tók oft á, en líklega hafði ég bara gott af því. Á ég ekki bara að halda því fram?

Um þessar mundir verður mér hugsað til tímans í héraðskólanum og svo menntaskólanum í framhaldinu. Samtals urðu veturnir 7, sem ég var við nám á Laugarvatni, þeim mikla skólastað. Þar mótuðu kennararnir mig heilmikið og ekki síður jafnaldrarnir.


Ólafur Þór Jóhannsson fæddist 6. apríl, 1954 og lést 2. febrúar síðastliðinn. 
Hann var einn af þessum jafnöldrum sem ég átti samleið með í héraðsskólanum og Menntaskólanum að Laugarvatni. Óli var frá Grindavík, einn af fjölmörgum Suðurnesjamönnum sem komu til náms í héraðsskólanum. Ekki veit ég nákvæmlega hversvegna sá skóli varð fyrir valinu, en allavega var Fjölbrautaskóli Suðurnesja ekki stofnaður fyrr en 1976. 
Ég hygg, að sveitamennirnir af Suðurlandi, sem þarna voru einnig komnir til náms, hafi, svona til að byrja með, litið af nokkurri lotningu til Suðurnesjakrakkanna. Við kunnum "fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn" og þar með voru þau orðin sjóbarin hörkutól. Þetta var fólk sem ólst upp með amerísku herstöðina í bakgarðinum, og bítlagæjana í Hljómum í næsta bæ.  Svo reyndust þetta nú bara svona venjulegir krakkar, sem sömu vandamál og við - kannski bara aðeins öðruvísi. 


Þessir héraðsskólavetur liðu, en það varð flljótt ljóst að Óli var mikill íþróttamaður, með körfubolta sem sinn helsta styrkleika (hvernig mátti líka annað vera: alinn upp rétt fyrir utan girðinguna hjá Kananum). Færni hans í þessum knattleik fylgdi honum svo alla tíð og við hinir reyndum að komast á svipaðan stall í þessari íþrótt, en beljurassar og tómatplöntur voru okkur mögulega fjötur um fót. Við fengum nú samt að fljóta með og urðum bara alveg sæmilegir á endanum.  Í menntaskólanum fórum við líka að æfa blak af krafti og auðvitað tókst Óla að skara fram úr þar, einnig. Hann varð síðan Íslandsmeistari með Ungmennafélaginu Hvöt vorið 1973. (Nemendafélagið Mímir var þá ekki gjaldgengt til að taka þátt í Íslandsmótinu, svo ML-ingar fengu að keppa í nafni Hvatar í Grímsnesi). 

Þetta átti nú ekki að verða nein allsherjar úttekt á íþróttalífi í ML á áttunda áratugnum, en ef Óli er umfjöllunarefnið, þá verður varla hjá því komist að tæpa á því helsta.  Ég átti því láni að fagna að vera oftast í liði með Óla, bæði í blaki og körfubolta og það var alveg ágætt. Hann var hreint enginn "lúser" á því sviði.

Ekki fylgdist ég neitt sérstaklega með námsframvindu Óla, enda hann í stærðfræðideild. Umræðuefni þeirra félaganna í þeirri deild snérust oft um kennarana þeirra og sérkenni þeirra og maður fékk oft miklar sögur af þeim. Þar með er komið að hæfni Óla til að segja sögur. Þar var hann í essinu sínu og með félaga sínum, Jason Ívarssyni, komst hann oft á flug og það var glott og það var hlegið. Framundir þennan dag gátu þeir félagarnir sagt  sögur frá liðinni tíð og þannig rifjað upp fyrir okkur hinum.




Þau eru nú orðin vel á sjötta tuginn, árin sem liðin eru síðan við hófum nám í ML. Lengi framan af vorum við fremur róleg þegar kom að því að kalla hópinn til samveru. Einhver okkar hittust þó á 5-10 ára fresti á Laugarvatni, sum oftar en önnur. Þessi duglegustu hittust þó enn oftar. Síðastliðið vor náðum við því að verða 50 ára stúdentar, hvorki meira né minna og hittumst af því tilefni við brautskráningu stúdenta á Laugarvatni.  Við vorum 24 sem lukum stúdentprófi vorið 1974 og 15 okkar komust á Laugarvatn til að fagna áfanganum. Tvær bekkjarsystur okkar, Jóhanna Ólöf Gestsdóttir  og Sigurveig Knútsdóttir létust 2015.




Það var ákveðið við þetta tækifæri að nú skyldi verða breyting á, enda hópurinn kominn á eftirlaunaldur. Það var, sem sagt, ákveðið að við skyldum hittast einu sinni í mánuði, í hádeginu, á tilteknum stað og tíma.
  

Þetta hefur gengið síðan og sami kjarninn staðið sig vel.  Ég hef ekki staðið mig vel, en stefni ótrauður að því að bæta úr.

Við höfðum nú hreint ekki reiknað með, að Óli kveddi jarðlífið svona snemma, en þetta er nú bara eitt af því sem fylgir því fá þetta líf að láni um stund. Við vitum ekki hverjum klukkan glymur eða í hvaða röð. Það er nánast skylda okkar sem eftir stöndum, að heiðra minningu bekkjarfélaga okkar og freista þess að rifja upp og viðhalda minningum okkar frá Laugarvatni.

Við söknum Óla í þessum litla hópi - þar var hann betri enginn. 
Hugur okkar allra er hjá fjölskyldu hans. 

Útför Óla er gerð frá Grindavíkurkirkju í dag.

--------------------------
Myndirnar, sem hér eru birtar frá ýmsum tímum, eru úr mínum fórum, úr lokuðum facebook hópi stúdenta frá ML 1974, eða af myndavef Nemel





04 júlí, 2024

Jósefína Friðriksdóttir - minning


Við Jósefína kenndum saman í Reykholtsskóla við upphaf 9. áratugarins, þegar ég var að stíga fyrstu skref mín sem kennari og það gekk allavega hjá mér. Hún var rúmum 10 árum eldri en ég og orðinn reynslubolti á þeim starfsvettvangi sem kennslan er. Árin síðan þá eru nú orðin ansi mörg og margt hefur gerst í millitíðinni. 
Það bar ekki skugga á samstarf okkar í Reykholti, utan einu sinni og sá skuggi var stór og hefur einhvernveginn fylgt mér alveg síðan. Ég stóð þá frammi fyrir siðferðilegri klemmu, sem var þannig að báðir kostir voru slæmir. Kosturinn sem ég valdi hafði áhrif á samband okkar starfsfélaganna, þó svo ekkert hefði Jósefína sjálf gert á minn hlut. Ég viðurkenni það fúslega, að lengi síðan hef ég verið hálf miður mín vegna þess sem þarna varð til að varpa skugga á ágætt samstarf.  Ef ég, hinsvegar, stæði aftur frammi fyrir svipaðri klemmu, á ég síður von á að kæmist að annarri niðurstöðu.
Jósefina og fjölskylda hennar fluttu á Selfoss, eftir dvöl sína í Laugarási og öll tengsl við hana rofnuðu. Það var svo ekki fyrr en við Dröfn fluttum á Selfoss fyrir fjórum árum að Jósefína varð aftur á vegi okkar, þá búin að missa bæði son sinn og eiginmann. Hún hafði þá, meðal annars, tekið virkan þátt í fornsagnalesturshópi félags eldri borgara og fyrir dyrum stóð mikil ferð á Vestfirði, eftir að hópurinn hafð þrælað sér í gegnum Gísla sögu (held ég). Þá hafði Jósefína, að fyrra bragði samband til að athuga hvort við vildum ekki slást í hópinn, sem við þáðum, að sjálfsögðu. Það varð reyndar ekkert úr ferðinni vegna dálítillar veiru sem setti ýmislegt úr skorðum.  
Svo urðum við Jósefína samnemendur í fornlestrarhópnum og aldrei fann ég fyrir kala af hennar hálfu í minn garð. Viðmót hennar til mín var alltaf hlýtt og fyrir það er ég þakklátur. 
Ég get ekki látið hjá líða að nefna það, að stjórnmálaskoðanir Jósefínu höfðuðu sannarlega til mín og hún gat verið ansi beitt á stundum, en ávallt réttsýn.
Genginn er ágætur samferðamaður.

Jósefína lést þann 25. júní, og útför hennar er gerð frá Fossvogskirkju í dag.

04 október, 2022

Helga Ágústsdóttir, hirðkveðill - minning

Það vantaði prófíl mynd á facebook
og ég reddaði því
Þegar samferðafólkið um þessa lífsgöngu fer að tína tölunni smátt og smátt og oft óvænt, finnur maður fyrir veruleika endanleikans. Við verðum að sætta okkur við að hann sé fyrir hendi og kannski er það líka eins gott. Ekki veit ég um margt fólk sem væri tilbúið að lifa að eilífu, svo sem. 

Sumt samferðafólksins er manni samferða ungann úr ævinni, en annað kemur við, kannski í nokkur ár, og hverfur síðan einhvernveginn, jafnvel óvart. Maður veit samt að þetta fólk er þarna einhversstaðar, þó stundum komi það fyrir að maður veit ekki hvort það er lífs eða liðið. 

Helga kom eins og vindsveipur, eða jafnvel ferskur blær, inn í Skálholtskórinn og settist að í altinum. Við vissum lítið um þessa konu annað en að hún hafði ráðið sig til kennslustarfa í Reykholti. Með tíð og tíma varð með okkur ágætur vinskapur og ekki skemmdi það fyrir, að skopskyn hennar og sýn á uppeldis- og kennslumál var ekki ólík mínum.  


Ekki get ég sagt, að Helga hafi algerlega smollið inn í samfélag okkar sveitafólksins. Það var yfir henni einhver heimsmennska, jafnvel ákveðin, óútskýranleg tign, stundum með keim af ofurlitlu "dassi" af yfirlæti, en bara á yfirborðinu. Hún var sannur húmanisti og þar held ég að kjarninn hafi verið.
Ætli sé ekki best að ég sleppi því að greina hana eitthvað frekar, hún var flóknari en svo.

Helga barðist lengi við ótrúlega erfiðan sjálfsofnæmissjúkdóm, lúpus, sem ég geri ráð fyrir að hafi, á endanum, borið hana ofurliði. Hún naut sín best þegar skuggsýnt var, eða innandyra. Í kórferðum, í  sólarlandasólskini þurfti hún að hylja líkamann frá hvirfli til ilja vegna þessa sjúkdóms, sólarljósið var einn hennar versti óvinur. Hún tók þessari þungu byrði af aðdáunarverðu æðruleysi. 

Í kórferðum á erlendri grund, eins og þeim sem Skálholtskórinn fór nokkrum sinnum, þegar Hilmar Örn var sjórnandi kórsins og Hófí, þáverandi kona hans, fararstjóri, naut Helga sín vel, nema kannski þegar sólin skein í heiði. sem var nú reyndar oftar en ekki. 

Ég hef átt það til að skrifa blogg hér um árabil um aðskiljanlegustu efni. Þar birtist Helga oft með athugasemdir í bundnu máli og gaf sjálfri sér þar höfundarnafnið "Hirðkveðill". Mér fannst þetta alltaf einkar skemmtilegt, enda á ferðinni talandi kveðskaparsnillingur. Mér finnst betur hæfa að gefa bara hirðkveðlinum Helgu (sem ég kallaði yfirleitt fH) orðið, en að ég haldi áfram að lemja hér inn orð frá sjálfum mér. Ég veit ekkert hvort hún myndi kunna mér þakkir fyrir það, en ætli hún fari nokkuð að mótmæla? (húmor í anda fH)




Einu sinni sem oftar, var ég að fjalla um uppeldismál í bloggskrifum og þá kom þetta:

Ég á rétt á öllu nýju
öllu dóti sem ég vil
gleði með og glotti hlýju
er giska næs að vera til.
Ég fæ bíl og bráðum jeppa
best að lát' ei pakkið sleppa
við að halda mér til vegs
- þau vinna bara - sex til sex.

Með Skálholtskórnum á Ítalíu -
Þarna í Rómaborg með margréti Oddsdóttur
að borðfélaga

Hirðkveðill skyggnist um í hugarheimi ofalins ungmennis

Ljúfur piltur, lítil táta
liggja nú og auðsæld gráta,
allt er horfið engin jól
ekkert fæst nú bankaskjól,
fyrir vindum vondum, köldum
- veltast þau í skuldaöldum.
***

Einhvern veginn urðum við
öll að læra á þennan sið:
"gefðu ekki um getu fram"
ger þeim borga - já og skamm
ef þau heimta meir' og meir'
minnstu þess að fleir' og fleir'
hörðum nýtist heimi í
heldren fjármagns bríarí!

Með Skálholtskórnum í heimsókn hjá páfa.

Heiðarleiki og hlýja tær
helst hér mætti vera nær
vinafesti og verndarhönd
velgjörningar, tryggðabönd
ástúðleikans orðin hlý
eignist hérna sess á ný
gleði frjó án græsku og fals
gróa fái á braut hvers manns!

Hirðkveðill predikar um mannleg gildi :-)


Hér hafði dauðdagi Osama bin Laden verið til umræðu í bloggi: 

Svo þarf ég að vita hvar þær reglur er að finna að íslamstrúarfólki skuli varpað í sæ? Það hlýtur nú að vera býsna erfitt, víða hvað þeir búa.

EN:
Aflífaður, elskan var'ann,
ósköp veit ég lítt um það
felldur, deyddur, féll í þarann
fleygt var loks í sjávarbað.

Deyddur kannski og du'ltið meira
drepinn, banað, sálgað, eytt?
Veginn líka - upp að eyra?
Enginn segja vill mér neitt.

Hirðkveðill finnur enga lausn á hvaða orð eiga við um dauða O.B.L.

Hér reyndi ég að sjá fyrir mér að Laugarásjörðin yrði mögulega seld Kínverjum: 


Hótel sé við himin bera
hugsa: "hvar skal það nú vera?"
Létt var rætt um Laugarás,
líst að þar sé haft á bás.
*****************************

Kvistholtshlaðið kínverskt nú,
hvar er sá er reisti bú
sér og börnum sínum þar?
Sjá!-hann fékk nýtt líf, - en hvar?

Gætir húss með geðþekkt fas,
gerir hreint og slær þar gras,
fetar um og fægir húna
finnst þó lífið tómlegt núna.

"Hvar er allt sem áður var?
Ei mér gagnast peningar,
fyrst mitt Kvistholt kært en lúið
komið er und mold - og búið" :(


Hirðkveðill hugleiðir mögulega líðan fólks eftir landsölu.

Heimsókn músar í Kvistholt var eitt  sinn umræðuefni:


Ekki gáð'ann elskan þessi
að þeim, litlu músunum.
Allt eins þó að ein sig hvessi
er allt vill dautt hjá húsunum.
Engan frið og enga sátt
er að fá úr þeirri átt.

Hirðkveðill Kvistholts kveður um Kvistholtsmorðin- væntanlegu.

Einn pistillinn fjallaði um haustið

Annað prósaljóð að hausti.

Og haustið flaug á móti mér
eins og velhaldinn fugl eftir sumar
sem er þegar horfið á braut.

Hann var svolítið kuldalegur
og ætlar að fara.

Veit ekki hver hún er, í kórbúðum
á Nesjavöllum
Haustið kemur, hreta fer
heyrið trén nú skjálfa
Úlpu vef ég upp að mér
er með húfubjálfa.


Gjört af ljúfu hjarta og hógværu
hirðkveðill Kvistholts ;)

--------------------------------------------

Ætli ég láti þetta ekki duga sem dæmi um viðbrögð fH (Helgu) við  skrifum mínum, en fyrir hennar framlag þar, sem vel getur verið að ég taki saman í ljóðabók þegar tímar líða, er ég afar þakklátur og finnst upphefð að. 

Við Kvisthyltingar erum þakklát fyrir að Helga  skuli hafa, með ýmsum hætti, snert líf okkar undanfarna tvo áratugi eða svo. 

Helga lést á fæðingardegi föður míns, þann 29. september, síðastliðinn.

Myndirnar sem ég læt fylgja, voru teknar við ýmis tækifæri þar sem Skálholtskórinn undi sér við leik og störf.

11 ágúst, 2022

Hörður Vignir Sigurðsson - minning

Hörður V. Sigurðsson
Mynd frá Asparlundi
Þegar við þurftum að fara upp í Holt lá leiðin eftir veginum sem nú kallast Skúlagata, út á þjóðveg og svo bara yfir mýrina sem tók við. Þar varð á vegi okkar vatnsauga eða dý og ef maður leit ofan í það þá sást ekki til botns þó vatnið væri alveg tært. Við pössuðum okkur alltaf að loka munninum og helst halda líka fyrir nefið, svo brunnklukkurnar gætu ekki flogið upp í okkur, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Svo héldum við áfram upp í Holt, þar sem Magnús afi og pabbi voru með lítið fjárhús og þarna var líka útiræktun, kartöflukofi og aflögð aðstaða til að reykja kjöt.

Ég var 10 ára þegar Hörður og Ingibjörg fluttu í Laugarás, með tvo spekingslega syni, þá Atla Vilhelm og Bjarna. Dóttirin, Kristín, fæddist síðan ári eftir að þau komu í Gamla bæinn.
Þarna var Hveratúnsfjölskyldan nýflutt í nýja íbúðarhúsið og gamli bærinn beið einhvers hlutverks. Það hlutverk fékk hann þarna og ungu hjónin bjuggu á hlaðinu hjá okkur þar til þau höfðu byggt sér gróðurhús og íbúðarhús á landinu þar sem dýið með brunnklukkunum hafði áður verið. Landið hafði þá verið ræst fram og þar reis síðan, meðfram þjóðveginum, risastórt gróðurhús.

Sökum þess að ég var hvorki kominn til vits né ára, að neinu ráði á þessum tíma, man ég svo sem harla lítið eftir þessu nýja fólki í gamla bænum, utan það, að Ingibjörg átti það til að bjóða okkur inn til að þiggja eitthvert góðgæti.

Eldri spekingurinn var til í að spjalla við pabba, sem spurði hann út í hitt og þetta, eins og gengur. Sá stutti átti oftast auðvelt með að svara, en þegar að því kom að hann átti ekki svar, sagði hann: „Mamma mín segir að ég megi ekki tala við ókunnugt fólk“. Gamli maðurinn þreyttist ekki á að segja frá þessum samskiptum.


Hörður var rétt að verða þrítugur og Ingibjörg nokkrum árum yngri, þegar þau komu í Laugarás. Þá voru þar fyrir Skúli og Guðný í Hveratúni, Jón Vídalín og Jóna á Sólveigarstöðum, Helgi og Gauja í Helgahúsi, Jóna og Guðmundur á Lindarbrekku, Fríður og Hjalti í Laugargerði (bjuggu þá í Lauftúni) og Sigmar og Sigga í Sigmarshúsi. Laugarás var þétt samfélag á þessum árum og nýbúarnir Hörður og Ingibjörg féllu strax inn í það, enda þannig innréttuð bæði tvö. Þau tóku þátt í öllu og stuðluðu ötullega að því sem betur mátti fara. Ég hef oft séð þau fyrir mér sem tappann sem tekinn var úr, þannig að ungar garðyrkjufjölskyldur gætu streymt að. Það bættust átta nýjar garðyrkjustöðvar við í Laugarási næstu sex árin.

Garðyrkjubændurnir í Laugarási framleiddu aðallega tómata og gúrkur á þessum árum, en með Herði kvað við nýjan tón. Hann ræktaði alla tíð bara blóm. Krusa (eins og við kölluðum þessi blóm sem voru af ýmsum litum, stærðum og gerðum) og seinna einnig jólastjörnu. Svo held ég að hann hafi farið að einbeita sér meira að því að rækta græðlinga fyrir aðra blómaframleiðendur. Þó svo ég hafi einhverntíma á unglingsárum starfað um stund í Lyngási, man ég þetta ekki nákvæmlega.

Hörður tók auðvitað virkan þátt í félagsstörfum af ýmsu tagi í Laugarási, sat í stjórnum hagsmunafélagsins, hitaveitunnar og vatnsveitufélagsins og alltaf þegar eitthvert samfélagsverkefni lá fyrir, voru hjónin bæði mætt fyrst manna. Þau skildu sannarlega mikilvægi samstöðunnar í samfélagi eins og Laugarási.

Hörður kom mér fyrir sjónir sem maður sem hafði allt á hreinu. Mér fannst hann oftast hafa afar skýrar og ákveðnar skoðanir á málum, allavega í orði kveðnu. Þannig var hann ávallt tilbúinn að skoða aðra fleti og ég man ekki önnur en hnökralaus samskipti við hann. Ég hafði oft gaman af því, þegar þau Ingibjörg voru bæði viðstödd og Hörður sagði eitthvað hafa verið með einhverjum hætti. „Hvaða bölvuð vitleysa“ gall þá stundum í henni, áður en hún leiðrétti það sem eiginmaðurinn hafði sagt. Hörður hafði sérstakan hlátur, sem var yfirleitt grunnt á og hann reykti pípu í þá daga. Hann var sjálfstæðismaður, allavega að nafninu til, sem kannski má segja að hafi verið ljóður á persónu hans, en hann virkaði aldrei á mig sem slíkur. ég hef það á tilfinningunni, að félagshyggjan hafi staðið honum nær.

Skúli Magnússon í Hveratúni og 
Hörður V. Sigurðsson í Lyngási.
Það er nú svo, að oft er vísað til hjóna sem eins og hins sama. Mér finnst, þar sem ég er að reyna að setja saman einhverjar minningar mínar um Hörð, að þar sé Ingibjörg alltaf líka. Þau voru ólík og það var líklega einmitt styrkur þeirra.

Við byggðum okkur hús í Holtinu, við hliðina á Lyngási og fengum að njóta nærveru þessara ágætu nágranna. Þannig fannst þeim ekkert sjálfsagðara en að við fengjum að leggja vatnsslöngu og rafmagnskapal yfir á byggingarsvæðið og um greiðslu fyrir það þýddi ekki að að ræða. Allt var bara sjálfsagt.

Ekki síst eru það börnin okkar, sem eiga ljúfar minningar um Hörð og Ingibjörgu, sem voru þeim nánast eins og þriðja parið af ömmu og afa. Á grunnskólaárum barnanna lá stysta leiðin í skólabílinn, sem tók börnin upp í við búðina, í gegnum lóðina hjá þeim. Þessi leið var aldrei kölluð annað en Ingibjargarleið. Eftir að þau hurfu á braut og börnin uxu úr grasi, greri smám saman yfir Ingibjargarleið, en minningin um hjónin í Lyngási er ávallt vakandi.

Hörður og Ingibjörg voru Laugarásbúar eins og þeir gerðust bestir og mig grunar, að það hafi ekki verið þeim auðveld ákvörðun að selja Lyngás, en líklega var hún skynsamleg. Starf garðyrkjubóndans er harla strembið og tekur á skrokkinn. Það er betra að láta staðar numið í tíma og fá góð ár til að njóta lífsins í öðru samhengi. 

Það eru liðin ansi mörg ár frá því ég stóð við dýið, með lokaðan munninn og horfði ofan í djúpið. Ekki sá ég fyrir mér þá, hvernig þetta færi nú allt saman. Það fór eins og það fór, ég ég tel mig heppinn að hafa fengið að vaxa upp og búa í nágrenni við Hörð og Ingibjörgu. Fyrir það erum við Kvisthyltingar þakklát.

Hörður lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands þann 29. júlí og útför hans er gerð frá Hveragerðiskirkju í dag.

Páll og Dröfn frá Kvistholti.

Mynd frá Jakob Narfa Hjaltasyni

22 desember, 2021

Guðrún Ingólfsdóttir (Gulla) - minning

Árið 2008:
Sigurður Jóhannsson, Guðrún Ingólfsdóttir
og Skúli Magnússon 
Það var haustið 1974 og ég hafði fengið kennarastöðu við Lýðháskólann í Skálholti, þar sem sr. Heimir Steinsson stýrði málum. Ég sá þetta sem tækifæri til að komast að því hvort kennsla væri eitthvað sem mögulega ætti við mig, tvítugur, með allt lífið framundan. Þáverandi kærasta og síðar eiginkona fékk einnig vinnu við skólann, svo þetta virtist bara vera hið ágætasta mál. 
Það var auðvitað ekki hægt annað en taka eftir ráðskonunni sem tók þarna á móti okkur, Guðrúnu Ingólfsdóttur, Gullu, sem átti eftir að verða ein þeirra sem hefur verið okkur samferða á þessari göngu sem lífið er. Sumarið áður hafði hún séð um matseldina í sumarbúðunum og var því orðin nokkuð vel kunnug staðnum.  
Gulla átti rauðan Fiat 127 á þeim tíma sem hún var í Skálholti. Ekki að það skipti neinu máli, svo sem, en einhvernveginn festist það í minninu.

Skálholt árið 1975: Guðrún Ingólfsdóttir,
Páll M. Skúlason og Dröfn Þorvaldsdóttir
Jarðvegurinn sem Gulla spratt upp úr var sannarlega ekkert til að kvarta yfir. Afi hennar og amma voru læknishjónin á Breiðabólstað á Síðu, þau Bjarni Jensson og Sigríður Jónsdóttir og foreldrar hennar voru Ingólfur Bjarnason, kaupmaður og kaupsýslumaður og Sigríður Guðmundsdóttir frá Skáholti, en hún var systir Vilhjálms skálds. 
Sjálfur Jón forseti Sigurðsson var langafabróðir hennar. 

Í desember 1959 gekk Gulla að eiga Jakob Guðvarðarson (1933-1992) og með honum eignaðist hún þrjá syni, Ingólf Bjarna 1960, Guðvarð Þórarin 1963 og Sigurð Björn 1968.  Móður sína missti Gulla árið 1965 og eftir það varð það hlutskipti hennar að annast um föður sinn. 
Leiðir Gullu og Jakobs skildi og hún varð einstæð, þriggja barna móðir. Þannig var staðan haustið 1974, þegar leiðir okkar lágu fyrst saman. 
Fyrir utan það að Dröfn og Gulla náðu vel saman við eldhússtörfin í Skálholti, gerðist það dag einn, sumarið 1974, líklegast, að miðsonurinn, Guðvarður, þá 11 eða 12 ára, lagði leið sína í Hveratún til að athuga hvort hann gæti fengið vinnu. Pabbi treysti sér ekki til að veita honum þessa ósk  hans nema heyra í móður hans fyrst. Hann fór í Skálholt þar sem Gulla tók erindinu vel og piltur var ráðinn til starfa. Í framhaldi af þvi varð til ævilangur vinskapur Gullu og foreldra minna. Pilturinn reyndist mikill dugnaðarmaður og var sumarvinnumaður í Hveratúni í ein þrjú sumur eftir því sem næst verður komist.

Eftir vetur okkar í Skálholti, hurfum við á braut, en Gulla sá um matarmálin í sumarbúðunum um sumarið. Það varð úr, að við fengum inni á heimili Gullu og föður hennar á Silfurteigi 2, fyrsta vetur okkar í borginni, en Gulla var þann vetur ráðskona á Skógum.  Eftir þann vetur hóf hún störf í Lyfjaverzlun ríkisins, þar sem hún var lengst af starfsævinnar eftir það.. 

Það var að vonum óskaplegt áfall þegar Ingólfur Bjarni lést í dráttarvélarslysi á bænum Gýgjarhóli II  þann 25. júlí, 1977, 16 ára að aldri og mig grunar að Gulla hafi aldrei komist fyllilega yfir það og lái henni það hver sem vill.  
Undir 1980 kynntist hún Sigurði Jóhannssyni (1930-2020), einstöku ljúfmenni og hagleiksmanni. Hann var húsgagnasmiður og skilur eftir sig margt glæsilegt handverkið. Ekki tel ég ólíklegt, að Gulla hafi stýrt því, að miklum hluta, hvert leiðir þeirra lágu í lífinu eftir að kynni þeirra hófust. Kynnin leiddu til hjónabands sem entist ævina á enda. 
Árið 1980 seldi faðir Gullu heimili þeirra á  Silfurteigi 2 og þá höfðu Gulla og Sigurður hafið samvistir og fluttu að Huldulandi í Fossvogi. Eitt leiddi af öðru og þar varð það úr, að Ingólfur flutti í litla íbúð sem var hluti af húseign í hans eigu á Laugavegi 27, en Gulla og Sigurður keyptu sér íbúð, sennilega í Birkihlíð í Fossvogi. Það má segja að þarna hafi skilið leiðir Gullu, föður hennar og systra hennar tveggja. 

Árið 2001: Híbýli Gullu og Sigurðar í Svíþjóð.


Gulla og Sigurður bjuggu víða á þeim, um það bil fjórum áratugum sem þau deildu súru og sætu. Fyrst í Huldulandi í Fossvogi, þá í Birkihlíð (sennilega) í Fossvogi, síðan á Þórsgötu. Eftir það tók við Svíþjóðardvöl um nokkurra ára skeið, en Siggi sonur Gullu var þá fluttur þangað og búinn að stofna fjölskyldu og fyrirtæki.  Eftir Svíðþjóðardvölina lá leiðin aftur heim til Íslands og þau settu sig niður á Bolungavík, en þar hafði Gutti þá komið sér fyrir og stundaði sjóinn. Eftir nokkur ár þar, fluttu þau í Borgarnes, þaðan í þjónustuíbúð í Boðaþingi í Reykjavík og að lokum á Hraunvang í Hafnarfirði.

Árið 2001: Heimsókn til Svíþjóðar.

Það er nú þannig, að stundum finnst mér það meinleg örlög að þurfa að vera uppi á sama tíma og sumir áberandi einstaklingar í þjóðfélaginu, en sem betur fer eru þeir margir sem á vegi mínum verða, sem ég þakka fyrir. Gulla var ein þeirra. Hún var sannarlega ekki skoðanalaus kona. Þannig var hún talsverður sjálfstæðismaður þegar við kynntumst henni fyrst, en eftir því sem árin liðu hallaðist hún æ meir til vinstri. Hún hafði til að bera skynsemina til að átta sig á pólitískum vindum í samfélaginu og réttlætiskennd hennar var sterk.  Synirnir tveir, sem hún átti eftir voru augasteinar hennar. "Gutti minn" og "Siggi minn", voru ávallt einhvern veginn það sem flest í lífi hennar snerist um, ásamt honum "Sigurði mínum" og sonasonunum. Það fór ekkert á milli mála hve stolt hún var af afkomendum sínum, og það mátti hún sannarlega vera. Báðir synirnir dugnaðarmenn og ömmusynirnir hver öðrum dásamlegri, að hennar mati.  

Júní, 2020: Dröfn, Páll, Gulla, Sigurður
Stöðug leit hennar að einhverskonar ró eða sátt, held ég hafi kannski átt þátt í því hve ör bústaðaskiptin reyndust verða. Ég held líka að Sigurður hafi notið nokkurs góðs af því, þar sem hann fékk tækifæri til að setja í stand, og græja ný heimili, enda var hann stöðugt að meðan heilsa og kraftar hans entust.

Eftir að Sigurður lést fyrir rúmu ári síðan, rétt að verða níræður, taldi Gulla sér ekki fært að halda íbúðinni, sem  þau leigðu dýrum dómum á Hraunvangi og fór að skoða möguleika sem í boði voru. Fljótlega stefndi hugurinn til Svíðþjóðar, en þar hugðist hún búa í nágrenni við Sigga og fjölskyldu hans og njóta í leiðinni sænskrar heilbrigðis- og félagsþjónustu. Það varð svo úr, að hún flutti utan í júlí s.l. 

Gulla lést í Svíðþjóð þann 23. nóvember og útför hennar var gerð í dag, 22. desember. 

Við erum þakklát fyrir næstum hálfrar aldar samfylgd hennar, Sigurðar og sonanna. 

Páll og Dröfn

Skólaspjald Lýðháskólans í Skálholti veturinn 1974-5






20 desember, 2021

Georg Franzson - minning


Ég vissi hver Georg var áður en hann flutti með fjölskyldu sinni í Laugarás árið 1978 til að reka þar garðyrkjustöðina Birkiflöt, en ekki meira en svo. Aðeins meiri urðu kynnin eftir að þau urðu Laugarásbúar. 
Eftir um tvö ár voru þau hjónin Georg og Brynja Ragnarsdóttir, búin að byggja sér íbúðarhús í Vesturbyggð 5, sem þau fluttu í um 1980. Þá höfðu þau fengið fengið á leigu landið milli sláturhúslóðarinnar og Vesturbyggðar og Georg stundaði þar útirækt. Á þessu landi, sem fékk nafnið Traðir, reis svo tæplega 800 ferm. gróðurhús einum þrem árum síðar. Þá komu börn þeirra Brynju inn í reksturinn.

Brynja, lést árið 1999 og um þrem árum síðar flutti Georg á Selfoss þar sem hann bjó til dauðadags, þann 10. desember s.l., þá rétt að verða 92 ára.   

Georg fæddist í Slesíu og bar þar nafnið Georg Michael Ant­onius Wyrwich, en hörmungar seinni heimstyrjaldar leiddu til þess, að eftir fjögur ár í flóttamannabúðum, lá leið hans, þá 19 ára, til Íslands, þar sem hann fékk vinnu við garðyrkjustörf  hjá Grími Ögmundssyni á Syðri Reykjum. Í stríðinu hafði hann misst föður sinn og tvo bræður. 

Um fimm árum eftir komuna til Íslands gengu Georg og Brynja í hjónaband og eignuðust fimm börn á næstu 9 árum.

Ekki treysti ég mér til að setja mig í spor Georgs, sem barns og unglings í Þýskalandi nazismans og í þeirri upplausn og skelfingu sem styrjöldin hafði í för með sér. Ég reikna þó með að lífsreynslan hafi sett varanlegt mark á líf hans. Hinsvegar minnist ég hans fyrir það hve hress hann var ávallt og góðlegur. 

Útför Georgs er gerð frá Skálholtsdómkirkju í dag.

Georg og Brynja með börnum sínum.
Aftar f.v. Jón Þór Þórólfsson (sonur Brynju),
Ragnheiður, Hjördís, Eiríkur.
Fyrir framan vinstra megin Heiðrún
og Íris hægra megin. (mynd af Fb)





26 júní, 2021

Séra Egill Hallgrímsson

Í Skálholti 2016
Að deyja þegar sumar er framundan, hafa mér þótt verri örlög en að kveðja lífið síðla hausts, þegar vetrardrunginn og kuldinn er framundan. Í rauninn er það þó svo að það skiptir engu máli hver árstíminn er, þegar fólk deyr. Það er aldrei einhver réttur tími til þess, hvort sem það er sumar eða vetur, hvort sem fólk er ungt eða gamalt, hvort sem það kveður lífið snögglega eða smám saman. Þetta er alltaf erfitt og kallar fram allskyns hugsanir hjá þeim sem eftir standa hverju sinni. Hvað sem því öllu líður, þá er dauðinn bara eðlilegt framhald af lífinu, sem við, mannfólkið höfum alltaf vitað að biði okkar á einhverjum tíma. 

Séra Egill tók við prestsembætti í Skálholti fyrir 23 árum, sama árið og Skálholtskórinn fór í merka söng- og gleðiferð til Þýskalands og Frakklands. Nýi presturinn slóst í för með kórnum í þessa ferð og þar hófust fyrstu kynni okkar af manninum sem sett hafði stefnuna á að verða sálusorgari okkar og samstarfsmaður til framtíðar.
Kórferð á erlenda grund 1998

Leiðin lá í Móseldalinn það sem vínviðurinn grær, schnitzel er borið á borð, og hvítvínið fyllir glösin. 
Hópurinn reyndi margt saman í þessari eftirminnilegu ferð, en ekki hyggst ég fjölyrða um hana hér, en vísa þess í stað á frásögn af henni sem er að finna HÉR. Samt get ég ekki látið hjá líða, að nefna tvennt sem varð til þess að hjálpa til við að búa til þá mynd af nýja prestinum, sem síðan hefur fylgt honum í mínum huga, í það minnsta.

Þann 5. október 1998 kom kórinn og allt fylgdarfólkið saman til kvöldverðar, sem auðvitað er ekki í frásögur færandi í sjálfu sér. Þarna vorum við búin að dvelja í Móseldalnum í nokkra daga og framundan heimsókn yfir landamærin til Frakklands, bæjarins Barr í Elsasshérðinu.  
Umræddur kvöldverður var á veitingahúsi og í boði voru mismundandi tegundir af Schnitzel, mismunandi tegundir af hvítvíni og margt annað girnilegt. 
Eðlilega hafði ferðafólkið, þegar þarna var komið, fengið að njóta ríkulega helstu framleiðslu Móselmanna, hvítvínsins, bæði í meiri og minni mæli, eins og gengur.  Þar sem séra Egill sat við borðsendann hjá mér, gekk þjónn um salinn og bjóða gestunum drykki með matnum, líka séra Agli. Pöntun hans hljóðaði svona:
"Dræ kóla, bitte"
Skömmu síðar kom þjónninn aftur með pöntunina, en það voru þá þrjú stór glös af kóladrykk, sem hann raðaði skilmerkilega fyrir framan þennan sérstaka gest.  Það er skemmst frá því að segja, að við sem sátum við sama borð, veltumst um við þessa uppákomu og séra Egill hló manna mest. Þarna var þá kominn prestur sem hafði húmor fyrir sjálfum sér. Það var ágætt.

Með Ólafíu á þorpshátíð í Laugarási 2002
Séra Egill átti það til, í ferðinni, að hverfa þegar færi gafst og kanna  umhverfið á eigin spýtur. Eftir eitt slíkt skipti kom hann til baka með merkilegt miðaldasverð, sem hann hafði orðið sér úti um og lýsti ánægju sinni yfir kaupunum. Með þessu tiltæki varð uppi nokkur spenna í hópnum, því ólíklegt taldist að prestinum tækist að koma gripnum á íslenska jörð, þar sem ekki væri einfalt að flytja vopn til landsins bara si svona. 
Hápunktur afleiðinga vopnakaupanna átti sér síðan stað, fimmtudaginn 8. október þegar hópurinn beið þess í flugvél í Frankfurt, að halda heimleiðis. Svo segir í frásögn af ferðinni:   
Það síðasta sem við sáum af meginlandi Evrópu þennan dag var malbikið á flugvellinum nokkrir vöruvagnar og einmana miðaldavopn, vafið í pappír. Vopnið átti að vera hluti af farangrinum í vélinni sem var á norðurleið, til landsins nyrst í Atlantshafinu, þar sem skammdegið var að setjast að, en það fór hvergi. Hvar það er nú veit undirritaður ekki á þessari stundu.
Ekki veit ég enn hvað varð um þetta sverð.

Ég held að sú ákvörðun séra Egils að skella sér með kórnum í þessa ferð hafi orðið til þess að samband hans við þetta framtíðar samstarfsfólk, hafi orðið eins hnökralaust og samstarf prests við kór sinn getur orðið. Að baki embættismannsins er maðurinn og honum fengum við að kynnast aðeins betur í þessari ferð og ég tel fullvíst að aðlögun kórs og prests hafi orðið auðveldari eftir.

Það er ekki mitt að fjalla um séra Egil sem predikara og boðbera Orðsins. Til þess eru aðrir betur fallnir. Þar að auki get ég ekki sagt, að ég hafi kynnst manninum svo heitið geti. Það kemur þó ekki í veg fyrir að mér finnist ég hafa eitthvað um hann að segja og sem mér finnst hafa einkennt hann, sem hluta af  lífinu í Tungunum.

Aldarafmæli Guðmundar Indriðasonar, maí 2015
Þegar hann kom í Skálholt urðu eðlilega nokkrar áherslubreytingar og okkar var að aðlaga okkur að þeim, en hans líka, að okkar siðum og venjum. 
Þar má til dæmis nefna þetta með fermingarnar. Þar kom séra Egill fram af krafti, í samfélagi sem hafði verið vant því að fermt væri á hvítasunnudegi ár hvert. Með honum kvað við nýjan tón, smám saman. Hann var tilbúinn að ferma sem oftast, eitt barn hér og annað þar. Sannarlega fengu foreldrarnir þarna meira valfrelsi með dagsetningar, en á móti hvarf auðvitað sú sameiginlega upplifun allra fermingarbarna hvers árs að játa trú sína saman, með tilheyrandi minningum síðar. Hér var sennilega bara um að ræða vaxandi kröfur fólks um að ákveða fermingardaga sjálft, sem séra Egill tók bara fagnandi. Hann starfaði í samfélagi sem var smám saman að víkja frá einsleitninni, svona eins og þegar Ríkisútvarpið hætti að vera eina útvarps- eða sjónvarpsstöðin. Hér væri hægt að fjalla í löngu máli um hvort þær breytingar sem síðustu áratugir hafa fært okkur séu til góðs fyrir mannkynið, eða merki um upplausn, úrkynjun og endalok. Það mun ég þó ekki gera.

Annað einkenni á störfum séra Egils voru predikanirnar og útfararræðurnar, en þar dró hann ekki af sér alla jafna og ekki vil ég neita því, að stundum urðu þær full ítarlegar og að sama skapi í lengra lagi. Ég er nú samt þakklátur honum fyrir ræðuna sem hann hélt yfir föður mínum, en hana tel ég hafa verið í samræmi við það sem sá gamli hefði getað sætt sig við.

Skálholtshátíð 2018
ásamt Jóni Sigurðssyni og Drífu Hjartardóttur
Á tímabili í lífi mínu smitaðist ég af umhverfinu með því að sjá möguleikann á að verða ríkur af því að kaupa hlutabréf í einhverjum bönkum eða fyrirtækjum. Skemmst er frá að segja að ekkert hefur komið út úr neinu að þessum tilraunum mínum til að auðgast. Með einhverju móti kom það til, á þessum tíma, að ég sótti séra Egil heim, til að afla mér upplýsinga um ótrúlega vænlegan fjárfestingarkost, þar sem hann bjó yfir miklvægum upplýsingum; var einhverskonar tengiliður eða mjög vel heima í því sem þarna var um að ræða. Hann reyndist afar sannfærandi og það fór svo að ég sló til, en það hefur farið eitthvað minna fyrir arðinum af þeim hlutabréfakaupum og þetta félag, eða sjóður hvarf af sjónarsviðinu eða gufaði upp, rétt eins og aðrir vænlegir fjárfestingakostir sem hafa orðið á vegi mínum um ævina. Mér var víst aldrei ætlað að efnast af veraldlegum auði, svo mikið lærði ég á þessu brölti. 

Séra Egill var maðurinn sem fylgdi takti samfélagsins og tók sér ýmislegt fyrir hendur, þar sem íhaldssamara fólk hefði staldrað við, en á sama tíma tókst honum að vera fullkomlega trúverðugur í hlutverki sínu sem sálusorgari og predikari. Það var eins og hann væri alltaf tilbúinn að feta nýja slóð, afla sér þekkingar á ólíkum sviðum. Ætli það kallist ekki, að vera leitandi.

Nú er sögu hans sem samferðamanns okkar sóknarbarnanna lokið, en við höldum áfram og þökkum honum hlýjuna og ljúfmennskuna sem einkenndi alla hans framkomu. Hann varð bráðkvaddur á heimili sínu þann 9. júní síðastliðinn og útför hans er gerð frá Skálholtsdómkirkju í dag.  

 - fyrir hönd Kvisthyltinga







23 október, 2020

Fríður


"Við fluttum í Laugarás árið 1957. Hjalti var þá búinn að steypa grunn að fyrsta gróðurhúsinu okkar, en við byrjuðum að rækta í húsi sem við leigðum af Ólafi Einarssyni. Fyrstu sjö árin bjuggum við í Lauftúni sem krakkarnir í hverfinu kölluðu „Silfurhúsið“ af því að það var álklætt og það glampaði svo fallega á það. Þar var allt nánast jafn frumstætt og hafði verið í Reykholti, munurinn var sá að nýbúið var að leggja rafmagn í Laugarás. Það var lagt fyrir köldu vatni í húsið en þar sem það var sjálfrennandi og engin dæla þá náði það bara að renna í klósettkassann en ekki í vaskinn, við höfðum ekki baðkar. Ég þurfti því að ná í vatn út í hver, sem var nánast við húsvegginn, ef mig vantaði vatn til annars en að sturta niður".  (brot úr viðtali við Fríði, sem birtist í Litla Bergþór 2013 og er einnig á finna á Laugarásvefnum).

Þeim fækkar "mæðrum" mínum. 
Fríður og Hjalti fluttu í Laugarás þegar ég var á fjórða ári, með þrjá stráka, þar af einn jafnaldra, hann Pésa. Þær voru allar mæður okkar í ákveðnum skilningi, konurnar í Laugarási á þessum tíma. Auk mömmu sjálfrar (Guðnýju Pálsdóttur í Hveratúni 1920-1992)), áttum við þarna mæðurnar Fríði í Lauftúni/Einarshúsi), Gauju í Helgahúsi (Guðnýju Guðmundsdóttur (1913-1993)), Jónu á Lind á Lindarbrekku (Jónínu Jónsdóttur (1926-2016)) og Gerðu (Gerda Jónsson í læknishúsinu (1924-2013)),  Jónu Sólveigu á Sólveigarstöðum (1928-2004) og Sigurbjörgu í Launrétt (Sigurbjörgu Lárusdóttur (1909-1999) sem tók að sér að kenna okkur einn vetur, minnir mig. Svo komu fleiri mæður eftir því sem árin liðu, en þá var ég víst líka farinn að stækka og taldi mig síður þurfa á viðbót.

Ætli Fríður hafi ekki verið krakkinn í þessum mæðrahópi, fimmtán árum yngri en móðir mín, og þar með nær okkur í aldri og þar með meiri töffari. Hún var góð viðbót inn í þétt samfélagið sem þarna var fyrir og þau Hjalti skáru sig ekki úr þegar aðstoðar var þörf. 

Félagarnir Magnús Skúlason í Hveratúni og Jakob Narfi, 1962

"Húsið í Lauftúni hefur ekki verið nema um 40 fermetrar og þar var ekkert þvottahús. Þau voru almennt ekki við bústaðina á þessum tíma heldur voru þvottarnir þvegnir úti við hver eða hjá Guðnýju í Hveratúni sem bjó svo vel að vera með þvottahús. Þegar þurfti að þvo suðuþvott þá var óhreini þvotturinn settur í sápuvatn í bala, svo var öllu skellt í hverinn þar sem það var látið malla góða stund. Ef um eitthvað viðkvæmara var að ræða þurfti að láta vatnið standa og kólna". (
úr viðtalinu við Fríði). 
Við fólki, sem var að byrja búskapinn á þessum tíma, blöstu ekki glæstar hallir, en þetta var nú bara lífið  eins og það var og ég held að ekkert þess fólks sem kom undir sig fótunum í Laugarási á þessum tíma, hafi gert neinar kröfur um að undir það væri mulið með einhverjum hætti. Það trúði á sjálft sig, mátt sinn og megin og lagði síður upp úr ytri umbúnaði. Sannfærður er ég um að það líf sem það bjó sér í Laugarási, hafi verð gott líf, sem sjá má af barnafjöldanum sem spratt út úr þessum litlu húsum og því, hvernig kjörin bötnuðu ár frá ári, eftir því sem garðyrkjunni óx fiskur um hrygg. 

Fríður og Hjalti byrjuðu búskapinn með því að leigja gróðurhús Ólafs læknis og síðan að byggja eigin gróðurhús og loks íbúðarhús í Laugargerði. Þetta óx allt og dafnaði.

Börnin urðu, þegar upp var staðið sex. Hófst með fjórum strákum, Pétri Ármanni (1953), Erlingi Hreini (1955), Hafsteini Rúnari (1957) og Jakob Narfa (1960). Svo komu tvær stúlkur í lokin, þær Guðbjörg Elín (1964) og Marta Esther (1968).  Án þess að gera lítið úr uppruna piltanna þriggja sem fæddir voru áður en fjölskyldan flutti í Laugarás, þá er rétt að halda því til haga að þau þrjú sem fæddust árin í kjölfar flutningsins á þann góða stað, eru tvímælalaust örlítið meira Laugarásfólk. (Þetta er nú smá grín, svona).
Hjalti féll frá 1992, en Fríður bjó áfram í Laugargerði til ársins 2015, en þá flutti hún á Selfoss ásamt sambýlismanni sínum, Reyni Ásberg Níelssyni.

Nú má segja að það sé lokað einum kafla í sögu Þorpsins í skóginum, en Fríður er sú síðasta frumbýlinganna á fimmta og sjötta áratugnum til að kveðja.  Hún lést þann 17. október og útför hennar er gerð frá Selfosskirkju í dag.

Blessuð sé minning hennar.

12 desember, 2019

Gylfi læknir

Þorpshátíð í Laugarási 2003.
Þar sýndu Gylfi og Rut að þau voru samhent hjón. 
Árið 1984 var heilmikið örlagaár í lífi okkar Kvisthyltinga; árið þegar næstelsti sonur okkar greindist með  með hættulegan sjúkdóm, árið þegar við eignuðumst einu dóttur okkar og árið sem við fluttum í nýbyggt húsið okkar í Laugarási, sem við höfðum þá gefið nafnið Kvistholt.
Ég ætla ekki að draga í efa, að Laugarásbúar hafi fagnað komu okkar, en mig grunar að þeir hafi fagnað enn meir nýja lækninum, Gylfa Haraldssyni, sem settist að í Launrétt 2 þá um haustið, ásamt fjölskyldu sinni. Þá var þegar tekinn til starfa á heilsugæslustöðinni, maðurinn sem átti eftir að vera samstarfsmaður Gylfa í áratugi, Pétur Skarphéðinsson.
Í hönd fóru einhverjir heilsufarslega öruggustu áratugir í sögu Laugaráslæknishéraðs. Um þetta hef ég fjallað áður. 
Þar með er ég hreint ekki að gera lítið úr hluta annarra þeirra lækna sem hér hafa starfað. Þeirra hlutskipti, flestra, var hinsvegar lengst af að vera einir ábyrgir fyrir því víðfeðma héraði sem Laugaráslæknishérað var og er.

Ég þekkti Gylfa nú ekki svo vel að ég treysti mér til að fara eitthvað út í að leggja mat á persónueinkenni hans. Hann virkaði þannig á mig, með rólyndislegu fasi sínu, að þar færi maður sem maður gat treyst, tók á málum af yfirvegun, fjallaði um þau hægri og djúpri röddu, leysti málin eins og hann taldi best hæfa hverju tilviki, rétt eins og manni finnst að læknar eigi að gera.

Gylfi var virkur í félagsstarfi af ýmsu tagi í Biskupstungum. Hann var mikill Lions maður, sat í ýmsum nefndum innan Ungmennafélags Biskupstungna, í sóknarnefnd Skálholtssóknar og tók þátt í innansveitarpólitíkinni, svo eitthvað sé nefnt.

Þorpshátíð í Laugarási 2003. Gylfi með feðgunum
Skúla Magnýssyni og höfundi.
Það er örugglega ekki einfalt að vera á daginn læknirinn sem gægist inn í sál og líkama sjúklingsins og sitja síðan með honum á nefndarfundi um kvöldið. Þetta er kannski  eins og að vera tvær manneskjur í einni, en vera samt ein manneskja. "Annars má ég ekkert segja um starf mitt sem læknir, er bundinn algerri þagnarskyldu", sagði Pétur, samstarfsmaður Gylfa, í viðtali í Litla Bergþór. Mér varð stundum á að hugsa með sjálfum mér, að það gæti verið fróðlegt (ef ég væri þannig þenkjandi) að kíkja inn í hugarheim þessara félaga, eftir ríflega þrjátíu ára samskipti þeirra við sjúklinga á þessu svæði.

Þegar Gylfi lét af störfum hygg ég að hann hafi þegar verið farinn það finna fyrir þeim veikindum sem hann þurfti síðan að kljást við. Manni fyndist það nú bara réttlátt að fá að lifa mörg góð ár með fjölskyldu sinni, eftir að starfsævinni lýkur. Slíkt réttlæti er víst ekki til.  Gylfi þurfti að glíma við vanheilsu alveg frá starfslokum. Hann lést annan desember og útför hans er gerð frá Neskirkju í dag.

Eftir situr fjölskylda hans, konan hans sem var honum stoð og stytta, Rut Valtýsdóttir, börnin sem hann eignaðist með fyrri konu sinni, Höllu Arnljótsdóttur, þau Þröstur Freyr og Guðbjört og fóstursynirnir, synir Rutar, en sá yngsti þeirra, Hreiðar Ingi ólst upp hjá Gylfa og Rut að mestum hluta.
Fjölskyldan, sem Gylfi skilur eftir sig er mikið sómafólk og vitnisburður um það sem Gylfi stóð fyrir og sýndi ávallt af sér gagnvart sjúklingum sínum og samstarfsfólki.


Bæði góður, en líka leiðinlegur.

Þ að er nú ekki vegna þess að ég hef ekkert við tímann að gera, nema finna eitthvað í lífinu til að fjargviðrast yfir, sem ég ákvað að reyna...