![]() |
50 ára stúdentar, 2024 |
Fyrstu 15-20 ár ævinnar eru mikill mótunartími hjá okkur öllum. Einmitt þess vegna er hann svo mikilvægur og má helst ekki mistakast.
Þetta hefur gengið síðan og sami kjarninn staðið sig vel. Ég hef ekki staðið mig vel, en stefni ótrauður að því að bæta úr.
Vissulega hefur mér s tundum fundist, að hluti þessara mótunarára hafi mistekist í mínu tilfelli, en er samt hreint ekki viss.
Mér verður stundum á að hugsa til barnaskólagöngunnar, þegar ég var á víxl hálfan mánuð heima og hálfan mánuð á heimavist. Ég á ekkert sérstaklega margar jákvæðar minningar frá þeirri upplifun, en reyni aftur á móti að trúa því að barnaskólaárin hafi mótað mig þannig, að ég varð reiðubúnari til að takast á við enn meiri fjarvistir frá foreldrahúsum, þegar við tók Héraðsskólinn á Laugarvatni. Þar var ég þrjá vetur á heimavist ásamt unglingum í svipuðum sporum. Jú, það tók oft á, en líklega hafði ég bara gott af því. Á ég ekki bara að halda því fram?
Um þessar mundir verður mér hugsað til tímans í héraðskólanum og svo menntaskólanum í framhaldinu. Samtals urðu veturnir 7, sem ég var við nám á Laugarvatni, þeim mikla skólastað. Þar mótuðu kennararnir mig heilmikið og ekki síður jafnaldrarnir.
Ólafur Þór Jóhannsson fæddist 6. apríl, 1954 og lést 2. febrúar síðastliðinn.
Hann var einn af þessum jafnöldrum sem ég átti samleið með í héraðsskólanum og Menntaskólanum að Laugarvatni. Óli var frá Grindavík, einn af fjölmörgum Suðurnesjamönnum sem komu til náms í héraðsskólanum. Ekki veit ég nákvæmlega hversvegna sá skóli varð fyrir valinu, en allavega var Fjölbrautaskóli Suðurnesja ekki stofnaður fyrr en 1976.
Ég hygg, að sveitamennirnir af Suðurlandi, sem þarna voru einnig komnir til náms, hafi, svona til að byrja með, litið af nokkurri lotningu til Suðurnesjakrakkanna. Við kunnum "fast þeir sóttu sjóinn og sækja hann enn" og þar með voru þau orðin sjóbarin hörkutól. Þetta var fólk sem ólst upp með amerísku herstöðina í bakgarðinum, og bítlagæjana í Hljómum í næsta bæ. Svo reyndust þetta nú bara svona venjulegir krakkar, sem sömu vandamál og við - kannski bara aðeins öðruvísi.
Þessir héraðsskólavetur liðu, en það varð flljótt ljóst að Óli var mikill íþróttamaður, með körfubolta sem sinn helsta styrkleika (hvernig mátti líka annað vera: alinn upp rétt fyrir utan girðinguna hjá Kananum). Færni hans í þessum knattleik fylgdi honum svo alla tíð og við hinir reyndum að komast á svipaðan stall í þessari íþrótt, en beljurassar og tómatplöntur voru okkur mögulega fjötur um fót. Við fengum nú samt að fljóta með og urðum bara alveg sæmilegir á endanum. Í menntaskólanum fórum við líka að æfa blak af krafti og auðvitað tókst Óla að skara fram úr þar, einnig. Hann varð síðan Íslandsmeistari með Ungmennafélaginu Hvöt vorið 1973. (Nemendafélagið Mímir var þá ekki gjaldgengt til að taka þátt í Íslandsmótinu, svo ML-ingar fengu að keppa í nafni Hvatar í Grímsnesi).
Þetta átti nú ekki að verða nein allsherjar úttekt á íþróttalífi í ML á áttunda áratugnum, en ef Óli er umfjöllunarefnið, þá verður varla hjá því komist að tæpa á því helsta. Ég átti því láni að fagna að vera oftast í liði með Óla, bæði í blaki og körfubolta og það var alveg ágætt. Hann var hreint enginn "lúser" á því sviði.
Ekki fylgdist ég neitt sérstaklega með námsframvindu Óla, enda hann í stærðfræðideild. Umræðuefni þeirra félaganna í þeirri deild snérust oft um kennarana þeirra og sérkenni þeirra og maður fékk oft miklar sögur af þeim. Þar með er komið að hæfni Óla til að segja sögur. Þar var hann í essinu sínu og með félaga sínum, Jason Ívarssyni, komst hann oft á flug og það var glott og það var hlegið. Framundir þennan dag gátu þeir félagarnir sagt sögur frá liðinni tíð og þannig rifjað upp fyrir okkur hinum.
Þau eru nú orðin vel á sjötta tuginn, árin sem liðin eru síðan við hófum nám í ML. Lengi framan af vorum við fremur róleg þegar kom að því að kalla hópinn til samveru. Einhver okkar hittust þó á 5-10 ára fresti á Laugarvatni, sum oftar en önnur. Þessi duglegustu hittust þó enn oftar. Síðastliðið vor náðum við því að verða 50 ára stúdentar, hvorki meira né minna og hittumst af því tilefni við brautskráningu stúdenta á Laugarvatni. Við vorum 24 sem lukum stúdentprófi vorið 1974 og 15 okkar komust á Laugarvatn til að fagna áfanganum. Tvær bekkjarsystur okkar, Jóhanna Ólöf Gestsdóttir og Sigurveig Knútsdóttir létust 2015.
Það var ákveðið við þetta tækifæri að nú skyldi verða breyting á, enda hópurinn kominn á eftirlaunaldur. Það var, sem sagt, ákveðið að við skyldum hittast einu sinni í mánuði, í hádeginu, á tilteknum stað og tíma.
Þetta hefur gengið síðan og sami kjarninn staðið sig vel. Ég hef ekki staðið mig vel, en stefni ótrauður að því að bæta úr.
Við höfðum nú hreint ekki reiknað með, að Óli kveddi jarðlífið svona snemma, en þetta er nú bara eitt af því sem fylgir því fá þetta líf að láni um stund. Við vitum ekki hverjum klukkan glymur eða í hvaða röð. Það er nánast skylda okkar sem eftir stöndum, að heiðra minningu bekkjarfélaga okkar og freista þess að rifja upp og viðhalda minningum okkar frá Laugarvatni.
Við söknum Óla í þessum litla hópi - þar var hann betri enginn.
Hugur okkar allra er hjá fjölskyldu hans.
Útför Óla er gerð frá Grindavíkurkirkju í dag.
--------------------------
Myndirnar, sem hér eru birtar frá ýmsum tímum, eru úr mínum fórum, úr lokuðum facebook hópi stúdenta frá ML 1974, eða af myndavef Nemel