Það sem hér birtist í tveim hlutum er ferðsaga sem ég færði í letur í nóvember 1998 og hún birtist síðan í Litla Bergþór, (19. árg. 3. tbl, desember 1998).
Ferðasöguna birti ég einnig á vefsíðu sem ég var þá að reyna að koma mér upp, en umsýsla með henni fjaraði út, þó enn hangi hún þarna eftir um 20 ár. Internetið gleymir engu.
Ég fór að leita að myndum úr þessari ferð,af tilteknu tilefni, eitt leiddi af öðru og ég ákvað að setja þessa ferðasögu hér inn og tengja hana við myndirnar sem voru teknar á myndavél í minni eigu í ferðinni. Þetta geri ég nú bara til að halda þessu til haga - geri ekki ráð fyrir að fólk fari að leggja í lestur, enda margt þarna sem aðeins þeir sem í ferðinni voru munu mögulega skilja.
Textann hef ég óbreyttan og óaðlagaðan. Slóðin á myndirnar
Ferð Skálholtskórsins, maka og áhangenda til Þýskalands og Frakklands 1.- 8. október 1998
1. hluti
tímalaust
tilurðin, ábyrgðin, frásögnin
Sú frásögn sem hér fer á eftir er ekki opinber ferðasaga Skálholtskórsins þó svo hún greini nokkurn veginn í réttri tímaröð frá því sem gerðist í ferðinni. Ýmsir atburðir eru færðir í stílinn til að fullnægja kröfum um óábyrga frásögn. Ég valdi þá leið að fjalla ekki um fólk undir nafni nema í undantekningartilfellum. Ástæða þess er aðallega sú, að með því að fjalla um nafngreint fólk er höfundur að taka á sig meiri ábyrgð en ég er tilbúinn til á þessu stigi. Ef þið lesendur góðir teljið ykkur þurfa nánari útskýringar á því sem ýjað er að í frásögninni þá skuluð þið bara hafa samband við einhvern þeirra sem í ferðina fóru. Meðfylgjandi er listi yfir þá. Ég fékk í hendur punkta frá Perlu, formanni og hef nýtt þá mikið, bæði beint og óbeint, þannig að hennar hlutur í frásögninni er umtalsverður. Hinsvegar verð ég einn að teljast ábyrgur (svo fremi að hægt sé að tala um ábyrgð í því sambandi, því ég hef þegar vísað frá mér ábyrgðinni og gert grein fyrir því) fyrir skrifunum en tek það strax fram, að öllum hugsanlegum ákúrum fyrir óvönduð eða ófagleg vinnubrögð við skriftirnar vísa ég til föðurhúsanna fyrirfram.miðvikudagurinn, 30. september
eftirvæntingin, lýsingin, flugstöðin
Það er nú varla hægt að segja annað en að hópur sá, sem tók sig upp frá landinu elds og ísa að morgni hins 1. október, hafi fundið til eftirvæntingar og spennu. Eftirvænting og spenna eru hér notuð einvörðungu í þeim tilgangi að nota einhver lýsingarorð um allar þær kenndir sem ég tel að hafi bærst í hugum og hjörtum ferðalanganna úr hinni íslensku sveit þennan dag. Reyndar var það nú svo, að til að taka örlítið forskot á dýrðina dvaldi stór hluti hópsins, sem utan fór, á Hótel Keflavík nóttina fyrir brottför. Því var ég fegnastur þar, að hafa ekki kvartað undan því við hótelstjórann, að rafmagni á herberginu okkar hjóna hlyti að hafa slegið út. Hefði ég gert það hefði komist upp þvílíkur sveitamaður var hér á ferð. Það var nefnilega svo á þessu hóteli, að til þess að "ræsa" lýsinguna í herberginu þurfti að beita lykilígildinu á þar til gerðan útbúnað.fimmtudagurinn, 1. október
morgunverðurinn, fríhöfnin
Klukkan 4.30 var risið úr rekkju, snæddur indæll morgunverður og því næst haldið í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Einhvern veginn hefur það þróast þannig að Fríhöfnin er nauðsynlegur þáttur í utanferð hvers Íslendings; táknmynd fyrir hinn framandi heim sem ekki allir fá að upplifa og njóta. Þeir sem komast í þá aðstöðu þurfa að sjálfsögðu að fá tækifæri til að eyða þar drjúgum tíma áður en þeir setjast upp í Flugleiðavélina og ferðin yfir Atlantshafið hefst. Þetta allt gerðist þarna.
2. hluti - Þýskaland
Erst Deutschland
rútan, Bæjarajakkinn, afþrýstibúnaðurinn
Ferðin yfir hafið hafði sinn endapunkt í Luxembourg í hlýju veðri, og gaf það góð fyrirheit um framhaldið. Rútubílstjórinn sem þar tók þar á móti okkur og seldi okkur gosdrykki, meðal annars, alla ferðina á 2 mörk, er íslenskur og við það létti sumum ferðalanganna töluvert, hann myndi skilja hið sérstaka íslenska hegðunarmynstur sem yrði áberandi í rútuferðum og annars staðar næstu 8 daga.Ferðin frá flugvellinum til næsta áfangastaðar tók nokkra stund og reyndi leiðsögumaðurinn að fræða landann um sögu svæðisins. Athyglin var upp og ofan hjá farþegum.
Til hinnar sögufrægu borgar Trier kom hópurinn. Gengu menn þarna frá borði rétt við hið forna borgarhlið, Porta Nigra (Svarta hliðið) . Út frá hliðinu var síðan aðal verslunargatan í bænum. Voru menn fljótir að finna helstu stórmarkaðina á svæðinu: Kaufhof og Karstadt (undirritaður reyndist hafa klætt sig á ófullnægjandi hátt fyrir þann lofthita sem var á staðnum, svo hann varð sér þarna úti um jakka einn ágætan, sem kórstjórinn síðar tjáði honum að kallaðist "Bæjarajakki" og að ekkert vantaði á hann nema merki þýskra þjóðernissósíalista.) Þarna dvöldum við um stund svona aðallega til að fá tilfinningu fyrir hinu erlenda andrúmslofti, svona eins og þegar kafarar eru settir í afþrýstibúnað. Fyrir utan að kynna sér verslunarhætti þýskra, setjast á útikaffihús og virða fyrir sér fornar byggingar, kynntust nokkrir úr hópnum lífi innfæddra næstum því náið, að því er sagt er.
Á tilsettum tíma hittist svo hópurinn á tilsettum stað og hafði ferðalöngunum flestum tekist ná aftur yfirvegun hugans. Þótti þá einhverjum við hæfi að hefja umræðu um íslensk sveitastjórnarmál, og segir ekki fleira af þeirri umræðu.
Síðasti áfanginn þennan daginn var stuttur spölur til smábæjarins Leiwen í
Móseldalnum, en þar var síðan samastaður okkar næstu fjóra daga.
vínræktin, hjónarúmið
Beggja vegna árinnar Mósel eru hlíðar dalsins þaktar vínviði. Þar er nú aldeilis ekki eyðilegt um að litast. Viði vaxið milli fjalls og fjöru. Þorpið Leiwen er fremur ríkmannlegt, enda býr þar vínræktarbóndi í nánast hverju húsi (Weingut), auk þess sem stór hluti íbúanna hefur atvinnu af ferðaþjónustu.Þegar inn í þorpið var komið tók Ásborg þeirra Leiwenmanna, Frau Spieles-Fuchs, á móti okkur og vísaði okkur til dvalarstaða, en hópurinn dvaldi þarna í nokkurs konar bændagistingu vítt og breitt um þorpið á einum átta stöðum segja þeir sem töldu.
Það verð ég að segja, fyrir okkur hjónin í það minnsta, að á betra varð ekki kosið í aðbúnaði öllum á þessum stað. Í okkar hlut kom íbúð með baðherbergi, eldhúsi og risastóru hjónarúmi. Það sama held ég sé hægt að segja um flesta aðra.
kvöldverðurinn, aðlögunin
Það var hjá stórhöfðingjanum Jóhanni Lex sem allir komu saman eftir að hafa tekið upp út töskunum. Lexarnir reka nefnilega all umfangsmikla ferðaþjónustu auk vínræktarinnar og fóru því létt með að taka við ríflega 40 manns í kvöldmat. Þarna var borið fram hið indælasta "schweinerschnitzel" að hætti þeirra Leiwen manna (í 98% tilvika gerði svínakjöt ferðalöngunum gott, þannig að á annað verður ekki minnst.) Eftir matinn skemmti hópurinn sér hið besta við söng og grín fram eftir kvöldi, eins og sagt er.Það var feikilega dimmt í Leiwen á þeim tíma sólarhrings sem hér um ræðir og því ekki að undra, og reyndar vel skiljanlegt, að ferðalöngunum hafi gengið misvel að finna sinn næturstað þessa nótt. Ýmsar sögur gengu svo sem meðal fólks um óvænta gesti, en skýringarinnar er fyrst og fremst að leita í því að þetta var dimmt, framandi umhverfi og kennileiti fá, í það minnsta verður sú skýring að duga.
Til þess var sömuleiðis tekið um tíma, hve utan við sig faglegur stjórnandi hópsins er sagður hafa verið. Það verður í því sambandi að taka mið af því hvílíkt álag var á stjórnandanum við þessar aðstæður. Hann var þarna mættur með heilan kór á erlenda grund til að syngja í stærstu kirkjum fyrir háa sem lága, hátt og lágt, sterkt og veikt. Eðlilega var hann með hugann við það vandasama verkefni sem framundan var, en ekki húsdyralykil. Lyklinum hélt hann auðvitað á í hendinni allan tímann sem leit stóð yfir að honum. Ég veit ekki einu sinni til hvers ég er yfirleitt að minnast á þennan lykil!
Það annað sem nefna má, og sem fylgdi þessu kvöldi (þegar ég segi "kvöldi" er það auðvitað ekki mjög afmarkað hugtak) var auðvitað að sá kvittur heyrðist morguninn eftir, að líkur væru á að heimilisfólki á nokkrum bæjum í íslenskri sveit fjölgaði. Staðfestingar er enn beðið á því hvort nokkur fótur er fyrir þessu.
föstudagurinn, 2. október
klettasyllan, kastalinn, Jungfrauin, söngurinn, iðnaðarmennirnir, þrautagangan, útsýnið
Undir hádegið var lagt í hann til Bernkastel, og voru allir endurnærðir eftir góðan nætursvefn (svona er þetta orðað í ferðasögum).Á leiðinni um Móseldalinn var mest áberandi, auk árinnar Mósel, vínviðurinn. Hver einasti skiki lands, í bókstaflegri merkingu, er þarna nýttur til ræktunar vínviðar. Ef einhvers staðar var smá klettasylla þá hafði þar verið plantað 5-6 vínviðartrjám. Í fljótu bragði verða vinnuaðstæður þarna í hlíðunum að verða að teljast illa viðunandi, á íslenskan mælikvarða.
Borgin Bernkastel-Kues á sér langa sögu og merkilega, sem ég treysti mér ekki til að rekja hér, enda alger óþarfi þegar hafður er í huga tilgangurinn með þessum skrifum. Það verð ég hinsvegar að segja að sagan helltist yfir okkur þarna í formi þess andrúmslofts sem við upplifðum á þessum stað. Þröngar göturnar, bindiverkshúsin og kastalarústirnar. Þetta var eins og að ganga inn í gamalt ævintýri.
Iðnaðarmennirnir í hópnum urðu fyrir vægri heilabilun…jæja, allavega smávægilegu menningarlegu áfalli, þegar þeir litu þá byggingarlist sem þarna hafði tíðkast. Ég fullyrði hér með að, þarna hafi þeir áttað sig á því að það er hægt að reisa falleg hús án þess að vinklar, tommustokkar eða hallamál komi mikið við sögu. Ég tel að þeir komi miklu frjálslyndari að þessu leyti til baka og þess muni sjást merki í húsagerð í uppsveitunum á næstu árum.
Á litlu torgi, sem iðaði af mannlífi og sögu, tróðum við upp fyrsta sinni í ferðinni og það með glæsibrag. Þarna var gefinn tónninn fyrir framhaldið.
Í fjarska glitti í kastalarústir. Þangað lögðu flestir leið sína. Og leiðin var löng og ströng: í það minnsta 2 km. og öll upp á við. Það verður að segjast eins og er, að í það minnsta ég var þeirrar skoðunar á tímabili, og reyndar heyrði ég aðra einnig hafa á því más á leiðinni upp að kastalanum, að þarna hefði ef til vill verið færst of mikið í fang. Hreppsnefndin í Bernkastel-Kues þyrfti að huga að því að koma þarna upp svona nokkurs konar togvíralyftu eins og tíðkast í Ölpunum til að ekki verði gert upp á milli ferðalanga eftir því hvort þeir stunda keppnisíþróttir að staðaldri eða ekki.
Hún gleymdist fljótt, þrautagangan þegar upp var komið. Köstulum var valinn staður með tilliti til þess hve víðsýnt var (þetta er nú speki sem varla er þörf á að hafa mörg orð um). Þessi kastali er engin undantekning. Ef ekki hefði komið til nagandi samviskubit vegna aumingja þjónustustúlkunnar, "Die Bernkastler Jungfrau", sem stóð og reytti hár sitt yfir þessu vandræðafólki sem þarna helltist yfir hana óundirbúna og krafðist þess að fá að borða, meira að segja úti, þá finnst mér að kastalagangan hafi verið einn af hápunktunum í þessari ferð.
Sökum þess hve tímafrek máltíðin í kastalaveitingahúsinu varð, gafst minni tími til að rölta um hjarta bæjarins og njóta andblæs liðinna alda í bland við höfgan ilminn af Kebab og Bratwurst. Þetta gerði samt hver sem betur gat, þó mest þau þrjú sem ekki lögðu í brattann.
snitzelin, salatbarinn, knattspyrnuleikurinn
Þetta kvöld fór hópurinn á veitingahús að borða. Borðhaldið hófst með salathlaðborði. Það hvarf snarlega í maga, og það þrátt fyrir að einhver teldi sig hafa orðið vara við líf í því. Þá gat fólk valið um 3 tegundir af svínakjöts Schnitzel í aðalrétt: Wienerschnitzel, Jägerschnitzel og einhverja þriðju tegund af Schnitzel. Megin munurinn á þessum þrem tegundum var sósurnar. Um 2% hópsins fengu nautasteik.Þarna var sem sagt borðað og sungið í kapp við knattspyrnuleik í sjónvarpinu. Segir ekki meira af þessu kvöldi, enda flestir tilbúnir að hvílast eftir fjallgönguna.
laugardagurinn, 3. október
stundvísin, kirkjurnar, baðhúsin
Það var nú bara haldið snemma af stað þennan daginn, því margt var á dagskránni – eins og reyndar allan tímann. Íslendingar hafa það orð á sér að sveigja fyrirmæli og reglur án þess að hafa svo sem stórar áhyggjur af því. Það bar eðlilega á þessum eðlisþætti í þessari ferð. Þetta gerir þá bara auknar kröfur á útsjónarsemi fararstjórans og sveigjanleika ferðaáætlunarinnar. Það getur þó komið fyrir að seinkun í ferðaáætlun geti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar, eins og varð þennan dag. Þarna varð alvarlegur árekstur milli hins mikla heraga og reglufestu sem Þjóðverjar hafa tamið sér, en ekki Íslendingar. Kem ég að því hér nokkru síðar á þessum degi.
Hópurinn hélt nú aftur til Trier, hinnar fornu borgar Rómaveldis. Þar hittum við annan tveggja kórstjóra sem tóku á móti okkur í tónlistarlegum skilningi, í ferðinni. Þetta var hann Heiko. Þarna fengum við hina bestu leiðsögn um borgina; kynntumst glæsilegum dómkirkjum og rómverskum baðhúsum.
Meginmarkmið okkar sumra var náttúrulega að leyfa þeim sem kost áttu á, að njóta þeirrar fegurðar sem sönglist okkar hafði upp á að bjóða. Af þessum sökum tók Skálholtskórinn lagið hvar og hvenær sem unnt var eða leyft, alla ferðina. Þess vegna fer ég ekkert að tilgreina hvert einstakt tilvik þar sem kórinn hóf upp raust sína. Þarna í Trier fórum við í þrjár risakirkjur: dómkirkjuna, Maríukirkjuna, sem var næstum sambyggð dómkirkjunni og var í laginu eins og rós, sem mun vera tákn hinnar helgu meyjar, og síðan í feikilega stóra mótmælendakirkju, sem átti sér sögu frá tímum Rómaveldis og hafði gengt ýmsum hlutverkum á þeim tíma sem liðinn er síðan þá.
elliheimilið, áheyrendurnir
Eftir kirkjuskoðunarferðina var komið að hádegisverði sem beið okkar á elliheimili í göngufæri frá miðborg Trier. Eftir á að hyggja var sú leið sem fara þurfti nú ekki ýkja flókin, en reyndist þó flóknari en svo að öllum tækist að rata, meira að segja þó allir væru í einum hóp með Heiko í fararbroddi.Maturinn á elliheimilinu tókst hið besta og þetta var sérlega snyrtileg og hlýleg stofnun. Næstum því örugglega einkarekin og fyrst og fremst á færi ákveðins þjóðfélagshóps að eyða þar síðustu árunum.
Þá kem ég að frásögninni af árekstrinum milli íslenskrar og þýskrar menningar. Okkur þykir ekki tiltökumál þótt eitthvað dragist fram yfir tilsettan tíma að mæta á samkomur eða fundi, en það finnst Þjóðverjum hinsvegar. Skálholtskórinn og föruneyti kom til hádegisverðarins svona hálftíma - klukktíma of seint miðað við þá áætlun sem gerð hafði verið. Þannig er það með eldra fólk, eins og ungabörn, að það þarf á meiri hvíld að halda en gengur og gerist um þá sem eru á besta aldri, eins og sagt er. Í stuttu mál gerðist það þarna, að þegar Skálholtskórinn og föruneyti hafði lokið við að snæða hádegisverð og hugðist taka til við að syngja nokkur lög fyrir íbúana, eins og um hafði verið samið þá var, samkvæmt klukkunni, kominn hvíldartími eldri borgaranna. Og þegar sá tími var kominn þá hvíldu eldri borgararnir sig, hvað sem tautaði og raulaði. Allir utan tveir. Í samkomusalnum sátu tvær gamlar konur (sem eiga alveg örugglega ættir sínar að rekja til föðurlands vors). Það skipti engum togum að Skálholtskórinn upphóf þarna raust sína fyrir þessar gömlu konur og það reyndist alveg þess virði. Það sannaðist þarna eins og svo oft áður, að það er ekki magnið sem skiptir máli, heldur gæðin. Þessir áheyrendur fóru glaðari af fundi okkar. Hinir sváfu svefni hinna réttlátu eins og reglur gerðu ráð fyrir. Heiko sannaði þarna snilli sína sem hljóðfæraleikari þar sem hann var undirleikari okkar við Húmljóð Lofts S. Loftssonar. Hann spilaði þarna óaðfinnalega verk sem hann var að sjá í fyrsta sinn.
baðhúsin, garðurinn, kommúnísminn
Eftir viðkomuna á elliheimilinu var haldið áfram um stund skoðunarferðinni um Trier. Við komum þarna við í rústum rómverskra baðhúsa og garði keisarahallar og var hvort tveggja eftirminnilegt. Ég hafði fyrir tilviljun rekist á að einhvers staðar í Trier hafði Karl Marx fyrst séð ljós þessa heims. Mig langaði töluvert að sjá staðinn þar sem það gerðist. Á leið okkar um borgina heyrðist mér ég einu sinni heyra fararstjórann okkar spyrja fólk hvort það langaði að heimsækja staðinn þar sem þessi áhrifamikli einstaklingur fæddist, en viðbrögð hópsins, allavega þeirra sem hæst létu, voru á þann veg að ég treysti mér ekki til að hvetja til heimsóknarinnar. Þar fór það. Öreigar allra landa, sameinist!messan, kaþólikkarnir, kuldinn, trúarbragðastyrjöldin
Það sem næst var á dagskrá ferðarinnar var söngur við messu í bæ sem heitir Fell. Þessi messa var kl. 18.00 og því lá á að drífa sig heim til Leiwen og skella sér í kórgallann: svörtu buxurnar, hvítu skyrtuna, græna vestið, SVARTA BINDIÐ og viðeigandi búnað annan.Með Skálholtskórnum sungu við þessa messu tveir kórar, annar var kirkjukórinn á staðnum undir stjórn Heikos og ekki veit ég hvaðan hinn var, en stjórnandinn var yngri bróðir Heikos sem heitir Ralf. Þannig var, að þessi messa var sú fyrsta í kirkjunni um all langan tíma þar sem umfangsmikil viðgerð hafði staðið yfir á henni. Þarna var kirkjusókn góð og söngurinn ekki síðri. Í messunni las séra Egill ritningarorð.
Með einhverju móti hafði sú hugmynd skotið upp kollinum, allavega í huga prestsins á staðnum, að Skálholtskórinn væri kór kaþólska safnaðarins á Íslandi. Þetta held ég að ekki hafi tekist að leiðrétta, allavega ekki formlega, enda breytir það sjálfsagt ekki neinu. Trúarbragðastyrjaldir heyra sögunni til, og þó…….
Ég hef fengið ábendingu um að geta þess sérstaklega að eitthvað skorti á að hitakerfið í kirkjunni virkaði sem skyldi og að innfæddir hljóta að hafa haft af því pata. Þeir komu til messu dúðaðir í hlý föt, meðan Frónbúar gerðu enn ráð fyrir því, á þriðja degi ferðarinnar, að það væri hlýtt í Þýskalandi á þessum árstíma. Eftir messuna heyrðust heitingar um að kvarta aldrei aftur yfir kulda í Skálholtskirkju.
móttakan, lopapeysurnar, veiðimaðurinn
Að lokinni messunni buðu kórarnir okkur til móttöku í safnaðarheimili sínu. Nóg var þar af hvítvíni, pylsum, kjötbollum, osti og brauði. Þarna undum við okkur hið besta um stund hjá sérlega gestrisnu og alúðlegu fólki. Það var þarna sem þeim Heiko og Ralf voru afhentar lopapeysurnar sem Helga María prjónaði (fallegar peysur að sjálfsögðu). Það mun hafa verið kórstjórinn Hilmar sem hafði gefið upp málin á þeim bræðrum, sem peysurnar voru síðan prjónaðar eftir. Vandinn var bara sá, að þegar hann sá þá bræður síðast var Heiko frekar lágvaxinn og grannur, en núna bara lágvaxinn, og Ralf hafði einnig verið lágvaxinn og grannur, en núna hvorki lágvaxinn né grannur. Þetta kom þó ekki að sök, því hefðbundnar íslenskar lopapeysur eru yfirleitt víðar. Nú vill hinsvegar svo til, að tískan hefur ákveðið að þær skuli vera þröngar. Þær voru sem sagt bara alveg eins og til stóð þegar upp var staðið. Helsta áhyggjuefni Hilmars, fyrir utan það að eiga að halda utan um stjórnina á kórnum, hafði þar með verið rutt úr vegi.Einn makinn hvarf þarna út í nóttina með skuggalegum, þýðverskum veiðimanni og skildi eiginkonuna eftir á nálum. Myndi hún nokkurntíma sjá elskuna sína aftur? Ó, já - makinn kom aftur, hlaðinn gjöf. Ekki skal fullyrt neitt um það hvort þetta voru heimagerð ilmkerti, en svo mikið er víst að plastpokinn utan um gjöfina ilmaði heil ósköp.
Hugmyndin, sem upp hafði komið um að kíkja á hátíð í nágrenninu þetta kvöld, reyndist sjálfdauð þar sem það var orðið áliðið þegar heimsókninni til Fell lauk. Þessi laugardagur var nefnilega þjóðhátíðardagur í Þýskalandi; dagurinn þegar þýsku ríkin voru sameinuð.
Í stað hátíðarinnar héldum við heim til Leiwen.
sunnudagurinn, 4. október
samhljómurinn, heimsklassinn, toppurinn
Þegar svona hópur fær tækifæri til að eyða nánast öllum sólarhringnum saman (sumir kannski mis ánægðir með það) við söng, borðhald og ekki síst allt það nýja sem mætir honum nánast í hverju skrefi, verður vart hjá því komist að það myndist einhver óútskýranlegur samhljómur í honum. Sama reynsla, sama hugsun eykur líkurnar á að það finnist hinn eini sanni hljómur.Þetta er allavega sú skýring sem ég hef á því sem gerðist þennan dag á tónleikum Skálholtskórsins með kirkjukórnum og karlakórnum í Leiwen, sem voru haldnir í kirkjunni þeirra Leiwenbúa. Ég ætla hér að gefa Perlu, formanni orðið: "Þetta voru skilyrðislaust bestu tónleikar sem haldnir hafa verið hjá okkur. Það var eins og fólkið hafi lent í einhvers konar leiðslu, ekki bara einn eða tveir, heldur allir" Ég held að ég geti bara tekið undir þetta. "Weltklasse!"
skugginn, slysið, drykkirnir, þvotturinn,
Allt annað, sem gerðist á þessum síðasta degi í Þýskalandi, féll í skuggann. Meira að segja ímynduð stórslys sem áttu að hafa átt sér stað þegar hundtryggir eiginmenn mættu ekki á "treffpunkt" á réttum tíma, eða þegar ákveðinn fjöldi kóladrykkja var pantaður með matnum um kvöldið, eða þegar verið var að gera upp við Frau Spieles-Fuchs á heimili hennar, eða þegar gerð var tilraun til að þvo óhrein föt á ónefndum stað og tíma og allt hitt. Svona er nú lífið.framhald..........
Engin ummæli:
Skrifa ummæli