21 nóvember, 2015

Hlátur hljóðnar

Magga ásamt sr. Agli Hallgrímssyni
í garðveislu sem kórnum var boðið
til í Mülheim í Þýskalandi árið 1998
"Hvaða kona er þetta eiginlega?"
Aðstæðurnar voru þær, að leikhópur Menntaskólans að Laugarvatni var að sýna leikritið Land míns föður í Félagsheimili Seltjarnarness og leikararnir áttu erfitt með það halda andlitinu í hlutverkum sínum vegna þess að einhver kona úti í sal hló svo innilegum og smitandi hlátri að öllu því sem talist gat fyndið eða skemmtilegt í verkinu.
Konan var hún Margrét Oddsdóttir, eða Magga Odds.

Magga Odds lést þann 13. nóvember síðastliðinn, á 62. aldursári, nokkrum mánuðum yngri en ég.  Útför hennar fer fram frá Skálholtskirkju í dag.

Þýskaland 1998: Áning með tilheyrandi.
Þarna má líta Geirþrúði Sighvatsdóttur,
Pál M Skúlason og Gísla Einarsson
Enn einu sinni er maður minntur á að maður getur ekki gengið að neinu vísu þegar um er að ræða ævilengdina.  Með Möggu er látinn fjórði einstaklingurinn á nokkrum mánuðum, úr hópi fólks sem ég þekki til og sem voru á svipuðum aldri og ég. Í öllum tilvikum var krabbameinið afgerandi þáttur í því að lífsganga þeirra fékk ekki að verða lengri.  Svona er það nú bara.Við hin höldum áfram þann tíma sem okkur er mældur.
Magga kom í Tungurnar um svipað leyti og ég sneri aftur til að kenna í Reykholtsskóla. Hún og þáverandi maður hennar, Páll Óskarsson frá Brekku, byggðu yfir sig Brekkuskógi. Þau hjónin eignuðust þrjú börn, Odd Óskar, Heklu Hrönn og Kristin Pál, en þar kom að leiðir hjónanna skildi. Magga var þó áfram í Tungunum þar til hún tók sig upp og flutti á Suðurnesin í einhver ár. Síðan kom hún aftur og bjó í Reykholti til dauðadags.
Kórferð til Ítalíu 2007: Vatíkanið
Magga Odds var stór. Sannarlega var hún stórvaxin, en ég held að enn meira máli hafi skipt að hún hafði stórt hjarta. Konan var mikill ljúflingur, hress og brosmild og hláturmild og bar það ekki utan á sér ef líf hennar var ekki alltaf dans á rósum.
Snertifletir mínir við þessa ágætis konu voru aðallega af tvennum toga. Annarsvegar fæddust elstu börnin okkar árin 1977 og 1979. Þar með hittumst við nokkuð á vettvangi grunnskólans.  Hinsvegar vorum við saman í Skálholtskórnum um alllangt skeið, en í gegnum kórstarfið var ýmislegt brallað fyrir utan sönginn og með okkur tókst ágætur kunningsskapur. Skálholtskórinn fór reglulega í söng- og skemmtiferðir til útlanda á þeim tíma sem við vorum þar. Meðal annars fórum við eftirminnilega ferð kórsins, maka og áhangenda til Þýskalands og Frakklands í október 1998 og í mikla Ítalíuferð árið 2007, en þá held ég að Magga hafi komið með sem svokallaður áhangandi.

Kórferð til Ítalíu 2007: Caprí. Magga
ásamt, Dröfn , Hilmari, Hófí,og Þrúðu
Það er nokkuð síðan ég frétti af því að Magga hefði greinst með meinið sem hefur nú lagt hana að velli. Ætli ég hafi ekki hitt hana síðast fyrir um hálfu ári síðan, talsvert breytta, en augljóslega með sama hjartalagið.

Hér er horfin á braut ein af þeim manneskjum sem maður hefur aldrei haft nema gott eitt af að segja. Ef Magga átti einhverjar aðrar hliðar þá voru þær mér huldar.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Sæludagar í sandkassanum (12 - LOK)

Framhald af þessu Þannig er það víst alltaf, að það sem byrjar á annað borð, því lýkur á endanum. Þannig var það einnig með þessa ferð til D...