Sýnir færslur með efnisorðinu brúðkaupsafmæli. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu brúðkaupsafmæli. Sýna allar færslur

16 apríl, 2022

Stefnufesta?


Það kom til umræðu í lokuðum hópi þar sem ekki einusinni facebook gat hlerað, hvernig stæði á því að Hveratúnssystkinunum hefði haldist á mökum sínum. Þetta er sannkallað rannsóknarefni, ef einhver skyldi nú treysta sér til að leggja í verkefnið. Það fór ekki hjá því, að sett yrði fram tilgáta um ástæður þessa; aðeins ein tilgáta: Ástæðan er stefnufestan sem þessum systkinum er í blóð borin og hefur fylgt fólki í fjölskyldu þeirra svo lengi sem elstu menn muna og á líklega rætur sínar uppi í Jökuldalsheiði fyrir meira en öld síðan og mögulega enn aftar. Skúli bóndi í Hveratúni hafnaði því ávallt, að hann gæti talist þrjóskur, en viðurkenndi fúslega að hann væri stefnufastur, sem er auðvitað allt annað fyrirbæri.

Tilefni þessa er það, að á þessum degi fyrir 45 árum, gengum við frú Dröfn í heilagt hjónaband í Skálholtsdómkirkju og létum um leið ausa frumburðinn vatni. Þessar athafnir framkvæmdi sr. Guðmundur Óli Ólafsson. Elsta barn fumburðarins var síðan fermt fyrir tveim dögum. Svona heldur þetta líf áfram.

Ég held að það megi varla milli sjá, hvort okkar fD er stefnufastara, en um það má deila. Aðalatriðið er, að niðurstaðan verði ásættanleg, í stórum dráttum.  Ekki svo að skilja að þar sé einhver framsóknarmennska á ferð, heldur einhverskonar aðlögun að aðstæðum hverju sinni. 

Þakklátur er ég fyrir þessa áratugi og hvernig til hefur tekist með börn og barnabörn, afrakstur þessara áratuga, en það er einmitt það sem skiptir máli almennt og á öllum tímum, að vel takist til með uppeldi þeirra sem á eftir koma. Við búum við það sem kallað hefur verið barnalán.

Takk fyrir áratugina fD, það eru ekki nema 5 ár í gullbrúðkaupið. 😉

----------------------------------

Hér gefur að líta ofannefnd Hveratúnssýstkin með mökum sínum, fyrir þrem árum, eða svo: 


English summary - as requested:

You may wonder about the reasons why me and my four sibling have all managed to be married to the same spouses all our married lives. The most viable hypothesis is, that it has to do with genes inherited from our father's side of the Hveratún family. He always admitted, readily, that he was "purposeful" but never "stubborn".

The reason for the blogpost is, that 45 years ago, today, me and my wife, Dröfn, got married at Skálholt cathedral and our firstborn Egill Árni was christened. 

We are both purposeful and it is anyones's guess, which of us is more purposeful. 

I am grateful for our time together and our four children have turned out to be solid individuals for us to be proud of.

That's more or less it.



16 apríl, 2017

Fjörutíu ár

Það hef ég fengið að heyra, aðallega var það þó svona kannski fyrri tvo áratugina, að ég væri lítið rómantískur. Seinni tvo hefur þetta  komið minna til tals. Ég get svo sem alveg verið sammála því, að rómantík verður víst seint talin til hluta af því sem einkennir persónu mína fremur öðru.

Varðandi þetta með rómantíkina þá má kannski segja að þar sé nokkuð jafnt á komið, því fD á ekki yfir höfði sér þann dóm að verða kölluð einkar rómantísk, þó ekki efist ég um að hún telji sig búa yfir þeim eiginleika í ríkum mæli.

Á þessum degi eru fjórir áratugir liðnir frá því við gengum í heilagt hjónaband í Skálholtsdómkirkju. Það var sr. Guðmundur Óli Ólafsson sem sá um það sem að honum sneri.  Tveim árum síðar fluttum við í Reykholt þar sem við stóðum við í 5 ár, en þá var íbúðarhúsið í Kvistholti komið það langt að hægt var að flytja inn með börnin þrjú sem þá höfðu litið dagsins ljós. Það síðasta bættist síðan við fimm árum síðar.
Síðan höfum við gengið lífsins veg svona rétt eins og það gengur fyrir sig. Eins og oft vill verða, hefur þessi ganga ekki alltaf eftir sléttu malbiki, Það hafa komið kaflar sem ef til vill má líkja við ferðamannabrautir í uppsveitum, en þeir eru nú harla fáir.

Ef ég ætti að nefna eitt ár sem kemur fyrst upp í hugann og sem felur í sér ótrúlegar andstæður, yrði það árið sem George Orwell notað á eina frægustu bók sína. Ég hygg, svona fyrir mína parta, að varla sé hægt að finna annað ár ævinnar, sem hefur þroskað mig meira og hraðar. Á þessu ári sigldum við sennilega úfnasta sjóinn á þessari leið.

Það á hinsvegar ekki að líta til einstakra ára eða atburða þegar fjallað er um þann umtalsverða tíma sem hér er undir, heldur þá heildarmynd sem sjá má út úr honum. Heildarmyndin er bara hreint ágæt, verð ég að segja..
Við fD getum verið ánægð með börnin fjögur sem við höfum sent út í veröldina. Þar er á ferð rétthugsandi og ábyrgt fólk.

Við getum verið sátt við að hafa byggt húsið okkar í Laugarási, Þorpinu í skóginum, sem hefur verið skjól okkar og samastaður í 33 ár.

Við getum verið ánægð með að hafa tekist að losna úr fjötrum skulda þó heimilistekjurnar hafi ekki alltaf dugað milli mánaðamóta.

Við getum verið ánægð með að hafa ekki í lífi okkar troðið öðrum um tær, eftir því sem við best vitum.

Við getum sennilega bara verið ánægð með hvort annað og okkur sjálf, svona ef grannt er skoðað.

Hvert verður svo framhaldið?
Hver veit. Það gætu verið kaflaskil framundan. Það er hinsvegar þannig, að þegar maður er búinn að lesa einn kafla, tekur annar við, nema auðvitað ef bókin er búin. Næsti kafli byggir oftar en ekki á því sem þegar hefur verið lesið.
Það er eins með lífið. Maður byggir alltaf á því sem búið er.
Vegurinn áfram er framhald af veginum sem farinn hefur verið. Beygjur við og við, vissulega, en alltaf framhald.

Ef einhver ætlar að halda því fram, að myndin sem fylgir sé ekki þrungin af rómantík, þá er mér að mæta. Annað eins hefur varla sést.



        Gleðilega páska    


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...