Sýnir færslur með efnisorðinu íbúafundur. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu íbúafundur. Sýna allar færslur

09 maí, 2017

Íbúafundur

Ætli mér væri ekki nær að skammast mín fyrir að hafa ekki lagt leið mína á íbúafundinn sem sveitarstjórn Bláskógabyggðar boðaði til og sem var haldinn í gærkvöld?
Nei, ég kann sennilega ekki að skammast mín, Það ætti að vera metnaðarmál mitt að mæta á íbúafund þegar sveitarstjórn gefur færi á slíku, ekki síst þar sem ég var nýbúinn að skrifa langloku í tilefni af bókun á sveitarstjórnarfundi, sem snertir málefni sem ég hef allmikinn áhuga á.

Ég fór ekki á íbúafundinn.  Ég geri mér þar með ljóst, að ég get ekki kvartað yfir að ekki skuli vera haldnir íbúafundir. Þar með er það frá.

Ég hef farið á íbúafundi. Þeir eru alla jafna þannig upp settir að það gefst ekkert færi á að fjalla um þau mál sem brenna kunna á íbúum. Jú, vissulega brenna einhver þeirra mála sem eru sett á dagskrána á einhverjum íbúanna og þeir mæta á fundinn. Aðrir sem fara, gera það ef til vill í þeirri von, að færi gefist að koma einhverju áhugamáli á dagskrá undir liðnum "Önnur mál". en það er þannig með þessa íbúafundi að dagskráin sem er í boði sveitarstjórnar, fyllir meira en þann tíma sem eðlilegt má telja að fundur sem þessi standi.

Til upplýsingar er dagskrá fundarins hér:
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar boðar til íbúafundar 
í Aratungu 8. maí 2017 kl. 20:00.
Dagskrá:
1. Löggæslumál – Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi.
2. Ársreikningur Bláskógabyggðar 2017 – Valtýr Valtýsson, sveitarstjóri
3. Ljósleiðaramál, staða mála í Bláskógabyggð – Guðmundur Daníelsson
4. Samgöngumál í Bláskógabyggð – Ásmundur Friðriksson alþingismaður, formaður samgönguráðs og fulltrúi í samgöngunefnd Alþingis.
5. Framkvæmda- og viðhaldsáætlun Bláskógabyggðar 2017 – Bjarni D. Daníelsson
6. Íþróttamannvirki á Laugarvatni
7. Önnur mál.

Það sér hver maður, og það sá ég, að þarna er um að ræða málefni sem hægt væri að ræða út í hið óendanlega.  Þannig mun það hafa verið í gærkvöld.  
Eðlilega hafur fólk borið saman bækur sínar eftir fundinn og ég hef enn ekki hitt neinn sem var ánægður og fannst tíma sínum vel varið. Það er talað um of langar ræður um of lítið. Þetta hafi verið frekar leiðinlegur fundur.  Þetta er svona það sem stendur upp úr eftir því sem ég hef hlerað í dag.  

Ég vil halda því til haga, að sveitarstjórn er að vissu leyti vorkunn. Hún vill vel. Vill ástunda góð vinnubrögð. Vill gera sitt besta.  Allt sem hún gerir er hinsvegar gagnrýnivert á einhvern hátt. Það heyrist  alla jafna meira af því sem fólki mislíkar, en því sem það er ánægt með í störfum sveitarstjórnar. Þannig er það nú bara og því þarf sveitarstjórn víst að geta tekið.

Íbúafundir geta verið ágætir, en áhugamál fólks eru afar misjöfn.  Íbúar í Bláskógabyggð eru einhversstaðar nálægt 1000 og áhugamál okkar hvers og eins eru ólík.  Ég á mitt, Laugdælir eiga sitt, Hlíðamenn sitt, Þingvellingar sitt, eldriborgarar sitt (og þó ekki), foreldrar sitt, og svo framvegis.   

Ég leyfi mér að leggja til, að íbúafundir framtíðarinnar fjalli um afmarkaðri og staðbundnari mál og ekki síst mál sem eitthvað er um að segja, eða hafa skoðun á.  Fyrir fundi af því tagi þyrftu sveitarstjórnarmenn að vera búnir að kynna sér mál í þaula og móta einhverskonar afstöðu til þeirra, en samt vera tilbúnir að hlusta og taka rökum.  Ég held að slíkir íbúafundir yrðu frjórri en það sem mér skilst að boðið hafi verið upp á í gærkvöld.

Í mínum huga gætu svona opnir fundir sveitarstjórnar verið af tvennum toga; annarsvegar upplýsingafundir, svipaðir þeim sem var haldinn í gærkvöld og hinsvegar samráðsfundir, þar sem samtal á sér stað milli sveitarstjórnar og íbúa um afmörkuð málefni.

Sannarlega ber að þakka sveitarstjórn það að hafa haldið fundinn í gærkvöld. Það er ekkert sjálfgefið að slíkir fundir séu haldnir.  Svo er ár í kosningar... og svona :), en ég held að það hafi nú ekki verið ástæða fundarins.

Mér finnst ekki nægilega gaman á fundum til að sækja þá bara til að sýna einhvern lit. Ég vil gjarnan fara á fundi sem eru vel skipulagðir, afmarkaðir og um málefni sem ég hef áhuga á.

Áfram sveitarstjórn, til allra góðra verka, eins og stundum er sagt.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...