28 janúar, 2017

Minni kvenna - á minn hátt

Það er ótvíræður kostur við þorrabót eldri borgara í Biskupstungum, að það er ekki boðið upp á dansiball með tilheyrandi hávaða þegar fólk hefur matast og notið þess að syngja saman og fara með gamanmál.
Ég trúi því varla að það sé ég sjálfur sem skrifaði þetta. Ég, sem einu sinni sótti böllinn af engu minni krafti en aðrir á mínum aldri. Nú er bara öldin önnur  og einhvernveginn er maður þannig forritaður að hvert aldursskeið kallar á misjafnar kröfur til þess sem kalla má skemmtun.

Við fD ákváðum fyrir nokkru, að skella okkur á þorrablót eldri borgara í Aratungu, en það er alla jafna haldið viku eftir aðal þorrablótið, þar sem aðal fólkið er sagt að finna.  Við höfum farið nokkrum sinnum á þetta "ellibelgja blót" og hefur líkað ágætlega. Þetta hafa verið fremur lágstemmdar samkomur og ekki hefur skemmt fyrir þegar skemmtiatriði af aðalblótinu hafa fylgt með, en það er upp og ofan hvernig því hefur verið háttað - heldur lítið þessu sinni.

Hvað um það. Á miðvikudag fékk ég símtal frá formanni félags eldri borgara, Guðna Lýðssyni, þar sem hann fór þess á leit við mig að ég flytti minni kvenna á blótinu, þar sem ekki yrði um að ræða að endurflutt yrði það minni sem flutt var á aðalblótinu.  
Eftir talsverðar mótbárur varð það úr að ég gekkst inn á þetta, án þess að hafa hugmynd um hvernig hægt væri að fjalla um konur á svona samkundum án þess að fara yfir ásættanleg mörk. Ég huggaði mig við það, að þarna yrðu sennilega bara konur á aldur við mig, eða eldri, sem hefðu meira þol gagnvart því að "meðtaka lof og prís" úr munni manns á mínum aldri.
Hér fyrir neðan er síðan samsetningurinn, sem auðvitað er ekki hálfur án flutningsins. Mig grunar nú að margir þeirra um það bil 60 sem voru á blótinu í gærkvöld, hafi hreint ekki skilið hvað ég var að fara oft á tíðum, en svoleiðis er það bara.

Þorrablót eldri borgara föstudag 27. janúar, 2017

Ágætu konur og aðrir gestir

Ég hef mikið hugsað um það hvernig ég get mögulega nálgast þetta viðfangsefni, svona miðað við allt og allt. Ég var á tímabili að hugsa um að hringja í Guðna og tjá honum þá niðurstöðu mína að ég treysti mér ekki í verkið. Augljóslega gerði ég það ekki og tel mig sýna af mér heilmikinn hetjuskap með því að standa hér nú, á þorra árið 2017 og mæla fyrir minni kvenna.

Fósturlandsins Freyja, fagra Vanadís
Móðir, kona, meyja, meðtak lof og prís.
Blessað sé þitt blíða bros og gullið tár
Þú ert lands og lýða, ljós í þúsund ár.

Svona tjáði Matthías Jochumsson virðingu sína fyrir íslensku konunni fyrir vel á annað hundrað árum.
Enn syngjum við karlarnir þennan texta Matthíasar á þorrablótum. 
Vitum við allir hvað við erum að syngja eiginlega? Hvernig túlka nútímakonur þennan fallega og vel meinta texta? Ég held að þær séu bara sáttar – eða vona það, í það minnsta.

Eftirfarandi er skoðun ritstjóra barnablaðsins Sólaldar, árið 1918, en hann var karlmaður:
Matthías Jochumsson orti þetta um íslenzka kvenfólkið; um íslenzku mömmurnar, íslenzku konurnar, íslenzku stúlkurnar, og engin þjóð á til eins fallegt erindi um kvenfólkið sitt. Þið eigið öll að læra þetta erindi og kenna það hinum börnunum.
------- 
Við eigum að vita að Freyja er gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Við vitum ef til vill síður, að Vanadís er annað nafn á Freyju, en hún tilheyrði þeim flokki goða sem kallast Vanir, hinn flokkurinn er Æsir.

Annað það sem fram kemur í textanum sem sunginn verður á eftir, læt ég liggja milli hluta, enda er þarna um að ræða orð Matthíasar og hann þar með ábyrgur fyrir þeim.

Ég get glaður tekið undir þau öll, en er hinsvegar alveg tilbúinn að draga stuðning minn við innihald vísunnar til baka, telji Freyjur nútímans orðavalið ekki við hæfi þar sem það dragi upp aðra mynd af konum en þær geta sætt sig við.

Ætli sé ekki best að ég fari að byrja á minninu – MINNI KVENNA.

Það get ég sagt ykkur og það vitum við, að minni kvenna er hreint ágætt öllu jöfnu, en getur þó birst með ýmsum hætti eftir því hvernig viðrar.

Áður en ég held lengra vil ég halda því til haga, eins og fram hefur komið áður, að ég veit fullvel að minni kvenna snýst ekki um minni kvenna, heldur nokkurskonar lofgjörð um konur.

Mig grunar nú að þetta orð í þessari merkingu, sé eitt þeirra orða á íslensku sem eru að hverfa með tímans straumi og gæti vel trúað því að innan ekki svo langs tíma muni þeir (eða þau) sem fá það hlutverk að flytja minni kvenna (eða karla), tala um minni þeirra í stað þess að flytja minni þeirra. Mig grunar að sá tími sé ekki fjarri, að sá sem beðinn verður um að flytja minni kvenna muni spyrja hvernig hann eigi nú að fara að því og hvert hann eigi þá að flytja það.

Þannig hefði það getað verið, þegar Guðni formaður bað mig að flytja minni kvenna hér í kvöld, að ég hefði einmitt byrjað að velta fyrir mér hvert ég ætti nú helst að flytja þetta merka fyrirbæri. Þá kæmi mér mögulega fyrst í hug að flytja það til mín. Þar með yrði tilvera mín hugsanlega að mörgu leyti einfaldari og þægilegri.

Með því móti yrðu svona orðaskipti úr sögunni:
„Jæja, ljúfur. Ert‘ ekki tilbúinn?“
„Tilbúinn? Til hvers, ljúfan?“
„Þú ætlar þó ekki að segja mér, að þú sért búinn að gleyma því að við erum að fara í afmæli hjá systurdóttur minni, henni Töru Mist, litlu!“
„Þú hefur aldrei minnst á að við værum að fara í eitthvert afmæli!“
Ó, jú. Ég sagði þér frá því að fimmtudaginn var, klukkan korter yfir sex.“
„Aldeilis ekki!“
„Jú, ég er nú hrædd um það.“

Þegar hér er komið er það yfirleitt niðurstaðan, að minni mitt hafi brugðist mér og ég segi:
„Jæja“.
Því segi ég það, að hefði ég færi á að sameina minni konunnar mínu minni, yrði ég í góðum málum.

Mér er samt til efs að Guðni sé í aðstöðu til að biðja mig að flytja minni kvenna á einhvern stað, þó svo Guðni sé maður yfirvegaður, rólyndur og djúpur.

Eftir sem áður öfunda ég konur af minni þeirra, sem er þannig fyrir komið, að það er í mörgum hólfum. Hverju hólfi getur konan síðan lokað, eða opnað, eftir því sem við á hverju sinni. Það er þannig hjá mér að annað hvort man ég eða ég man ekki. Það er bara eitt hólf og ekki um það að ræða að ég geti lokað fyrir eitt við einhverjar tilteknar aðstæður og opnað fyrir annað, sem hentar þá aðstæðunum betur. Þannig getur t.d. þetta samtal átt sér stað:

„Dúllan mín. Ég er þá farinn. Á að vera mættur eftir korter.“
Þarna lokar konan því minnishólfi sem geymir upplýsingar um fundinn í félagi eldri borgara sem ég er að fara á og sem ég var sannarlega búinn að ssegja henni frá,  og opnar í staðinn sérstakt hólf sem geymir óvænta minnispunkta.
„Farinn? Farinn hvert, dúllinn minn? Þú varst ekki búinn að segja mér að þú væri að fara eitthvert í kvöld. Við ætluðum að kúra, krúsídúllinn minn. Ertu búinn að gleyma því?
„Þetta var ég sko búinn að segja þér, ítrekað.“
„Ó, nei. Þetta hefurðu ekki nefnt einu orði. Við ætluðum að kúra í kvöld.“

Þarna varð, sem sagt, félag eldri borgara af vænum sauð.

Ég ætlaði hreint ekki að tala hér um minni kvenna, heldur flytja minni kvenna eins og mér var uppálagt.
Nú er ég hinsvegar búinn að koma mér í þá aðstöðu að fara talsvert fram úr þeim tímamörkum sem mér voru sett:
„Bara svona nokkur orð“, var sagt. „Bara stutt“, svar sagt.
Eftir á að hyggja, er ég líklega bara búinn að tala um minni kvenna, flytja minni kvenna og mæla fyrir minni kvenna.
Það sem meira er, þá er ég búinn að mæra konur í aðdáun minni á kraftinum, sem geislar af þeim, þar sem þær stíga fram þessi árin til forystu hvar sem er í þjóðlífinu.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...