Sýnir færslur með efnisorðinu Hannes Einarsson. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Hannes Einarsson. Sýna allar færslur

09 ágúst, 2022

Baugsstaðir - Hannes og ofurölvi prestur

Teikning Finns Jónssonar á Kerseyri,
bróðursonar séra Guðmundar.
Þetta er lítilsháttar millileikur og fyrir honum eru fyrst og fremst tvær ástæður: 
1. Ég ætla að taka mér góðan tíma til að reyna að greina í og koma frá mér því sem gerðist á og í kringum Baugsstaði í grennd við og um aldamótin 1900. Það er eins gott að ljúga allavega engu. Hvort ég skauta framhjá einhverju er annað mál, sem kemur í ljós. 
2. Verkefni bíða mín í hrönnum og má ætla að það verði til þess að ég þarf að setja annað í forgang.
Til að þið sem þetta lesið og bíðið í ofvæni, birti ég hér frásögn úr lesbók Morgunblaðsins frá 1957, þar sem Hannes Einarsson (faðir Jóhanns Hannessonar, sem var faðir Elínar Jóhannsdóttur, sem var móðir Guðnýjar Pálsdóttur, sem var móðir mín - sem sagt langa-langafi minn í móðurætt) málar Reykjavíkurbæ rauðan með kófdrukknum presti. 
Hannes var bóndi í Kaldaðarnesi áður en fjölskyldan fluttist að Tungu, sem er í næsta nágrenni við Baugsstaði. 


Hér er frásögnin

ÞEGAR Stefán Gunnlaugsson var bæjarfógeti í Reykjavík hófst hann handa gegn drykkjuskapnum í bænum. Þótti kaupmönnum sér nær höggvið með því og kærðu fyrir stiftamtmanni, í bréfi, sem Stefán skrifar sér til varnar, segir hann meðal annars: „Það er kunnugt, að fyrrum var drykkjuskapur dagleg iðkun allt of margra, þar i meðal virðulegra embættismanna, sem gáfu almúganum þar með illt fordæmi. Það var því nauðsynlegt að grípa í taumana og sýna alvöru. Og hinn 29. maí 1839 var t. d. prestur nokkur tekinn fastur fyrir ölæði á götu og dæmdur til að greiða 10 rdl í sjóð fátækra prestsekkna og 4 mörk í löggæzlusjóð Reykjavíkur. Þetta varð til þess að hann hætti að drekka og hefir nú að maklegleikum fengið gott embætti".

ÞESSI prestur var séra Guðmundur Torfason, er þá átti heima í Kálfhaga en þjónaði Kaldaðarnesi. En málavextir voru þessir, samkvæmt aukaréttarbók Reykjavíkur:

Séra Guðmundur var staddur í Reykjavík ásamt meðreiðarmanni sínum, Hannesi Einarssyni frá Kaldaðarnesi. Þeir komu inn í búð hjá Einari borgara Hákonarsyni, og var prestur allmjög ölvaður. Margir fleiri menn voru þá þarna í búðinni, en enginn þeirra er nafngreindur nema Jón nokkur Skúlason frá Ögmundarstöðum í Skagafirði.

Séra Guðmundur var knár maður og glíminn og hætti honum til þess að bjóða mönnum í glímu þegar hann var við öl, og var þá allsvakafenginn. Ekki er nú vitað hvort hann vildi glíma við þessa menn, er hann hitti í búðinni, en brátt lenti þarna í ryskingum og var prestur hinn æfasti. Hannes fylgdarmaður hans bað hann hvað eftir annað að koma með sér og ætlaði að reyna að koma honum burt úr bænum, áður en hneyksli yrði af drykkjuskaparlátum hans. En prestur var nú ekki á því, og er Hannes ætlaði að stilla til friðar og ganga á milli, hratt prestur honum svo óþyrmilega af höndum sér, að Hannes hentist út í glugga og mölbraut hann, en meiddist um leið í andliti og þó einkum á nefinu. Varð af þessu mikill brestur er glugginn brotnaði og heyrðist, nú út á götu hávaðinn og lætin inni í búðinni. Þusti þá þegar að margt fólk og myndaðist brátt þyrping á götunni úti fyrir húsinu, en það stóð á horninu á Brattagötu og Aðalstræti.

Tveir voru lögregluþjónar þá í bænum og báðir íslenzkir, Magnús Jónsson og Þorsteinn Bjarnason í Brunnhúsum. Þeir komu nú þarna að og réðust til inngöngu í búðina. Báðu þeir séra Guðmund með góðu að hætta öllum illindum, en hann skeytti því engu. Þá skipuðu þeir honum að koma með sér í skrifstofu bæjarins, sem þá var í vesturendanum á húsinu þar sem nú er Haraldarbúð í Austurstræti. Ekkert segir frá því hvort hann hlýddi þeim af fúsum vilja, eða þeir urðu að beita hann valdi, en í skrifstofuna komu þeir með hann „hvar nefnds prests ástand var prófað og fannst hann þá að vera töluvert kenndur af brennivíni og Séra Guðmundur Torfason (Teikning Finns á Kerseyri) sterkar en máske kynni að geta álitist eiga við hans geistlega stand“.

Til skrifstofunnar voru og kvaddir menn til að bera vitni, þar á meðal Einar Hákonarson, Hannes Einarsson og Jón Skúlason. En auk þess voru kvaddir þangað þeir Jón Snorrason hreppstjóri og bæarfulltrúi á Sölvahóli, og Helgi Jónsson snikkari (faðir þeirra tónskáldanna Helga og Jónasar). Skyldu þeir dæma um ástand prestsins og áverka Hannesar.

Presturinn var ofurölvi og dró upp úr vasa sínum rauðbláan brennivínspela og stútaði sig á honum inni í þingsalnum. Var þá pelinn af honum tekinn. En Hannes stóð þarna með bólgið og blóðugt nef og kvaðst ekki mundu heimta neinar bætur fyrir, en bauðst til þess að greiða helming kostnaðar af rúðubrotinu.

Þeir Einar Hákonarson og Jón Skúlason skýrðu frá því sem gerðist í búðinni, og var framburður þeirra mjög á sama veg og framburður Hannesar. Þess er getið í dómabókinni, að þeir Jón Thorsteinsson landlæknir og séra Ólafur Einarsson Hjaltested hafi orðið vottar að drykkjuskap séra Guðmundar.

Það er almælt, að vegna ölvunar og óstýrilætis séra Guðmundar, hafi bæjarfógeti sett hann í tugthúsið, en ekki er þess skilmerkilega getið í dómsgerðinni, enda þótt skilja megi að svo hefir verið gert. Fer bæarfógeti mildum orðum um það, því að hann segir:

„Prestinum var fleirum sinnum boðið að fara strax í burtu af götum og alfaravegi bæjarins, hverju hann með drykkjurabbi þverneitaði, hvers vegna honum, sem ófærum til að vera laus á almannafæri, var boðið til svefns á óhultum stað. En blárauður brennivínspeli, sem prestur var að drekka úr hér inni í skrifstofunni, og sem þar var eftir skilinn, er nú afhentur Hannesi Einarssyni til að ráðstafa honum til eigandans“.

Þessi „óhulti svefnstaður" hefir sjálfsagt verið uppi á loftinu yfir bæjarþingstofunni, því að þar var hið svonefnda „svarthol", sem vant var að stinga ölvuðum mönnum í, einkum aðkomumönnum. Þar hefir séra Guðmundur verið látinn dúsa um hríð. Síðan segir:

„Eftir nokkurn tíma rann svo ölið af presti, að hann kvaðst vilja fara á stað frá bænum með Hannesi Einarssyni, hvað að svo komnu ekki áleizt vert að hindra, þó með geymdum rétti frá pólitísins hálfu til í það minsta 4 marka óeirðar bóta til pólitíkassans — þó upp á háyfirvaldsins væntanlegt samþykki, undir eins og yrði að álitum gert hvaða verkan slík truflun á opinberri rósemi og góðri orðu kynni að hafa á ins seka geistlega verðugleik og embættisstöðu".

 Finnur Jónsson á Kerseyri, sem var bróðursonur séra Guðmundar, ritar um hann alllangan þátt í bók sinni „Þjóðhættir og ævisögur“. Segir hann þar frá þessu máli, en mjög á annan veg, því að hann hefir þar farið eftir sögusögnum annarra og segist aldrei hafa spurt séra Guðmund um það. Hann segir þar meðal annars: „Steingrímur biskup spurði séra Guðmund hvort hann ætlaði ekki að höfða mál á hendur landfógeta fyrir tiltækið. Ekki helt séra Guðmundur það, kvaðst heldur vilja sækja málið á vopnaþingi. „Láttu þá vopnin bíta“, mælti biskup. Það eru víst engin önnur dæmi til þess, að Steingrímur biskup hafi hvatt menn til að jafna á náunganum mótgerðir".

Séra Guðmundur hafði verið við nám hjá Steingrími biskupi meðan hann var prestur í Odda á Rangárvöllum. Gaf hann Guðmundi vitnisburð á jólunum 1812 og hælir honum mjög fyrir „gáfur hans, skarpleika, næmi og minni“. Var Steingrímur biskup honum jafnan síðan hliðhollur, en ekki egndi hann séra Guðmund upp á móti landfógeta, eins og sjá má á þessu:

Þegar er séra Guðmundi hafði verið sleppt, sendi landfógeti afrit af réttarhaldinu til Bardenfleth stiftamtmanns, en hann skrifaði biskupi þegar og skaut undir hans úrskurð hvað gera skyldi. En biskup skrifaði Jakob prófasti Árnasyni í Gaulverjabæ og fól honum að tilkynna séra Guðmundi, að ef hann vildi komast hjá opinberri lögsókn út af framferði sínu, þá verði hann að varast drykkjuskap framvegis og afplána þetta hneyksli með 10 rdl. sekt til fátækra prestekkna og 4 mörkum í bætur til lögreglusjóðs Reykjavíkur.

Séra Guðmundur mun ekki hafa séð sér annað fært en greiða þessar sektir og lofa bót og betrun Varð hann svo miklu hófsaman upp frá þessu og varð hinn vinsælasti meðal sóknarbarna sinna, glaður og reifur fram á elliár Hann fekk Miðdalsþing 1847 og Torfastaði 1860 og helt þá til 1875 Hafði hann þá verið prestur í 50 ár. Lýsir Finnur frændi hans honum svo: „Hann var því manna fjarlægastur að láta heyra til sín mögl eða harmatölur, þó eitthvað væri andstætt, lengst af efnalítill og mjög óeigingjarn, lítt fallinn til búskapar, en vann þó eins og vinnumaður fram á síðustu ár“. Dr. Hannes Þorsteinsson segir að fyrsta prestverk séra Guðmundar í Tungunum hafi verið að skíra sig og seinasta prestverk hans þar að ferma sig. Hann ber séra Guðmundi vel sögu, segir að hann hafi verið mesta ljúfmenni og vel þokkaður.
-----------------------------------

Reyndar mun helsti tilgangurinn með þessari frásögn hafa verið að birta brag sem sr. Guðmundur orti og sem kallaðist Reykjavíkurbragur yngri. Þið sem áhuga hafið, getið fundið hann hér.

Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...