Sýnir færslur með efnisorðinu garðfuglar. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu garðfuglar. Sýna allar færslur

20 mars, 2020

Minna

"Ég hefði ekki átt að hlusta á þig", voru orð sem  ég fékk að heyra áðan, þegar í ljós kom, að það var ekki nema botnfylli af barbekjú sósu til á bænum. Ég hafði svarað því, aðspurður í verslun í morgun, að ég hefði séð slíka sósu inni í eldhússkáp. Þar með var ekki keypt barbekjkú sósa í þessari kaupstaðarferð. Auðvitað legg ég til að það verði gert gott úr þessu, sett bara meira af öðru kryddi, farnar nýjar leiðir, fundið nýtt bragð. Ég á það gjarnan til, reyndar, að stinga upp á að setja vel af chili í aðskiljanlega rétti og fæ sjaldnast undirtektir sem talist gætu jákvæðar. 

"Nú lifum við fordæmalausa tíma", þreytast alþingismennirnir ekki á að endurtaka, í síbylju, á Alþingisrásinni. Vissulega er það rétt og ég held að við séum nú öll að verða búin að átta okkur á því og endurtekningar þar með óþarfar. Allt sem maður upplifir þessa daga er fordæmalaust (fordómalaust - segja nýyrðasmiðir). Allt umhverfi manns er með nokkrum ólíkindum. Í kaupstaðarferð í morgun mættum við 5 bílum milli Laugaráss og Selfoss, það var aldeilis engin umferð á Selfossi og andrúmsloftið í matvöruverslun, sem hefur opið milli 9 og 10, sérstaklega fyrir eldri borgara og þá sem veikir eru fyrir, var starfsfólkið með grímur fyrir andlitum og latex hanska á höndum. Viðskiptavinirnir sárafáir og gerðu sitt besta til að forðast nánd hver við annan. Brostu kannski hálf vandræðalega, eða kinkuðu kolli. Fólk sprittaði sig inn og fólk sprittaði sig út.
Þetta er í rauninni til fyrirmyndar, í ljósi stöðu mála.
Ég bíð þess þó að fram spretti Trumpistanskir vanvitar og geri ástandið verra en það þarf að vera. Nokkra sér maður reyna fyrir sér í íslenskum samfélagsmiðlum, en mér sýnist tilraunir þeirra flestra vera kæfðar í fæðingu.


Það fer ekki á milli mála, að við erum búin að búa til samfélag, sem gengur varla til lengdar nema við kaupum hluti eða þjónustu, meira með hverju árinu sem líður. Það fer heldur ekki á milli mála, að við getum verið án stórs hluta þeirra hluta og þjónustu sem við kaupum, án þess að lífsgæði okkar skerðist að marki (gætu jafnvel batnað umtalsvert). 
Mér finnst kominn tími  til að við lifum hægar. Látum duga, t.d. að fara ekki til útlanda nema einu sinni á ári, eða jafnvel annahvert ár, jafn vel bara enn sjaldnar. Stefnum að því að eiga símana okkar í það minnsta í 5 ár, förum ekki út að borða nema kannski einusinni í mánuði og svo fram eftir götunum.
Ef við gerum þetta nú öll, hvað þá?  Hvað verður um verslanirnar, veitingastaðina, flugfélögin, símaframleiðendur og allan þann fjölda fólks sem byggir lífsviðurværi sitt á störfum í þessum geirum og öðrum svipuðum?  Þar stendur hnífurinn í vorri kú, nefnilega. Kapítalisminn byggir, að stórum hluta, á því að við dundum okkur við það, daginn út og inn, að kaupa af og selja hvert öðru, vörur og þjónustu. Því meira sem við kaupum og seljum, því betra fyrir hagvöxtinn og því "þægilegra" lífi lifum við. Ég hef reyndar afar lengi velt fyrir mér, hvenær hagvöxturinn verður kominn upp í þak og getur ekki hækkað lengur. Hvað gerist þá? 
Getum við dregið úr þessari neyslu án þess að samfélagið hrynji með tilheyrandi hörmungum? Ég velti því óhjákvæmilega fyrir mér hvort mögulegt geti verið að endurskapa samfélag manna, þannig að þeir verði sjálfum sér nægari, geri minni kröfur til efnislegra gæða, losni við þann klafa sem græðgin leggur á þá. Ég á erfitt með að ímynda mér þann veruleika, eins og maðurinn er samsettur, en aldrei skyldi maður segja aldrei. Út úr þessu veirutímabili kemur líklega annaðhvort eitthvað verulega gott, eða eitthvað verulega slæmt.
Gott: Allt samfélag manna fer í hægari takt og nægjusamari. Umhyggja fólks fyrir öðrum vex, svo og skilningur þjóða í milli. Fólk vinnur skemur og þar með skapast atvinnutækifæri fyrir fleiri, börn fá að njóta meiri samvista við foreldra, heimsbyggðin sameinast í því að bjarga jörðinni frá tortímingu.
Slæmt: "Mannkynslausnarar", fólk sem segist hafa öll svörin, ná að fóta sig enn frekar (varla á bætandi), með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir heimsbyggðina alla.

Kannski er þetta bara allt bull, sem ég set hér fram, hver veit? Ég er nú farinn að nálgast þann aldur sem greinir á milli þess að mega hafa skoðun og mega það ekki.

"Lokaðiðru ekki olíulokinu?" Þessi orð voru sögð í þann mund er við renndum í hlað í Kvistholti eftir kaupstaðarferðina. Ég fyllti bifreiðina af eldsneyti á Selfossi áður en við héldum heim á leið. Í ljós kom, sem sagt, að ég hafði ekki skrúfað olíulokið í og ekki skellt lokinu fyrir. Auðvitað hefði fD átt að taka eftir þessu strax, líta í baksýnisspegilinn, en ekki þegar við vorum búin að aka 40 km. Kannski er að verða eins komið fyrir henni og mér.

Við erum í stöðu sem er ekki ósvipuð samskiptum eyruglunnar og smáfuglanna hér fyrir utan í gær. Hún sat í tré og leitaði færis. Þeir tóku áhættuna af því að renna sér inn á pallinn, tína nokkur korn upp í sig, áður þeir drifu sig, allir í hóp, í skjól í næsta tré. Uglan sat hin rólegasta og lyngdi augum, fylgdist grannt með, beið eftir færi. Samstaða þeirra litlu varð til þess, að hún fékk aldrei færi á þeim. Ég skil nú betur mikilvægi þess fyrir garðfuglana, að vera stöðugt á verði - vara sig.




Litlir kallar og litlar kellingar

Heilsugæslustöðin í Laugarási á vígsludegi 1997 (mynd: Jónas Yngvi Ásgrímsson) Ég hefði óskað þess, að fyrstu dagar nýs árs yrðu ánægjulegri...