Sýnir færslur með efnisorðinu náttúra. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu náttúra. Sýna allar færslur

31 ágúst, 2015

Í lífshættu á Kili

Ég þakka fyrir að sitja hér fyrir framan tölvuskjáinn í góðu yfirlæti í stað þess að öðruvísi sé komið fyrir mér. Reynsla gærdagsins hefur kennt mér (reyndar er ég alltaf að læra það sama í þessum efnum) að það sé mikilvægt að hugsa hvert skref áður en það er tekið. Ég hef reyndar haft þetta að leiðarljósi í því sem ég hef tekið mér fyrir hendur. Oft hef ég hinsvegar staðið frammi fyrir aðstæðum sem verða til þess að ég gleymi einu og einu skrefi og það var það sem gerðist í gær.

Við fD skelltum okkur í Kerlingarfjöll. Ég, með alla myndatökuútgerðina mína og hún með litlu spjaldtölvuna sína. Ég, til að taka myndir til að dunda mér síðan við í myndvinnsluforritum. Hún til að taka myndir á spjaldtölvuna sína til að finna flott form og liti til að mála eftir á dimmum vetrardögum sem framundan eru. Í sambandi  við spjaldtölvuna stóð ein spurning fD uppúr: "Af hverju sé ég bara sjálfa mig?" Ég læt lesendur um að finna út tilefni spurningarinnar.

Hér ætla ég ekki að fjalla um þær dásemdir sem í Kerlingarfjöllum er að finna, nema með nokkrum myndum, heldur það sem gerðist þegar myndatökum var lokið og haldið var í áttina heim aftur.

Við vissum að ferðin þarna uppeftir gæti tekið einhvern tíma þannig að það var ákveðið að taka með nesti, útileguborðið, útilegustólana og gastæki til að hita vatn í kaffi. Eftir Kerlingarfjöll þurftum við síðan að finna góðan og ofurrómantískan grasbala til að koma græjunum fyrir, hita vatnið og snæða í guðsgrænni náttúrunni á fjöllum. Þennan stað fundum við við Gýgjarfoss í Jökulfalli við veginn upp í Kerlingarfjöll. Hreint indæll staður og það sem meira var, þarna gat ég æft mig í að taka myndir af fossinum meðan vatnið hitnaði. Í sem stystu máli, settum við allt upp. Kúturinn var settur í gastækið, potturinn á og vatn í hann, skrúfað frá gasinu og kveikt á. Að því búnu kom ég þrífætinum fyrir á góðum stað og tók að mynda í gríð og erg. Ég prófaði mismunandi stillingar á filternum, mismunandi ljósop, mismunandi hraða og mismunandi hitt og þetta.
"Á að rjúka svona úr gastækinu?" spurði fD þar sem hún stóð allt í einu fyrir aftan mig, en myndatakan fór fram í um 20 m fjarlægð frá eldunarstaðnum.  Mér varð litið við og sá hvar blásvartur reykur liðaðist upp af tækinu, augljóslega ekki úr pottinum. Það fór um mig við þessa sjón, eins og vænta mátti. Eitthvað var ekki eins og það átti að vera. Annaðhvort var tækið bilað, eða ég hafði gert einhver mistök við tengingar.

"Nei, það á ekki að rjúka svona úr tækinu" varð mér á orði í huganum þar sem ég skildi myndatökutækin eftir á bersvæði við beljandi Jökulfallið á sama tíma og túristarúta nam staðar skammt frá, og hraðaði mér í átt að eldunarstaðnum. Þarna var augljóslega eitthvað mikið að, en eins og vænta mátti sýndi ég fumlaus viðbrögð þótt inni í mér ólgaði óvissan um hvað þarna gæti gerst í þann mund er ég nálgaðist tækið til að slökkva á því.  Ég byrjaði á að loka snöfurmannlega fyrir gasstreymið og átti  von á því að þá og þegar spryngi gaskúturinn í andlitið á mér.  Tækið allt var orðið glóandi heitt, en gaskútnum er komið fyrir inni í því, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
Eftir nokkra stund hvarf ég aftur að tækinu þó svo hættan á sprengingu væri enn ekki liðin hjá og tók pottinn af hellunni, en hún er laus. Þá blasti við mér miði á hellunni sem greindi frá því, svo ekki varð um villst, að hluti af því að græja tækið til notkunar væri að snúa hellunni við. Þá rifjaðist það upp fyrir mér og þannig hafði ég gert þetta áður. Þarna hafði ég haft hugann meira við myndatökur en eldamennsku og því fór sem fór.

Mér tókst að snúa hellunni rétt og þegar tækið hafði kólnað nokkuð kveikti ég aftur á því og nú var allt með eðlilegum hætti, vatnið hitnaði, brauðið var smurt og álegg skorið. Það var etið og drukkið í guðsgrænni náttúrunni  og einu áhyggjurnar sneru að því hvort við vektum meiri athygli túristanna sem framhjá fóru, en vegurinn framundan, með þeim mögulegu afleiðingum, að þeir ækju á Qashqai þar sem hann stóð í vegarkantinum.

Svo var fram haldið ferðinni heim á leið.


16 maí, 2015

Með ásjónur engla

Í dag langaði mig að prófa nýja filterinn minn (Tiffen variable ND), en það þýðir bara það, að það myndefnið þarf að vera á hreyfingu til að ná fram tilteknum áhrifum. Fossar eru t.d. tilvaldir til þess arna. Ég veit bara um einn foss í nágrenninu og ég er nú búinn að komast að því að hann kallast Dynjandi og er í Brúará um það bil kílómetra fyrir ofan brúna. Ég hef reyndar ekki rannsakað til hlítar hvort þetta er rétt nafn þessa foss, eða flúða, en kalla hann bara Dynjanda þar til annað kemur í ljós.
Til að komast að fossinum er í fljótu bragði um tvær leiðir að ræða. Annarsvegar gengur maður frá brúnni, meðfram ánni þar til komið er að fossinum. Þessa leið fór ég einhverntíma í gamla daga.
Hina leiðina sá ég með því að fara á Google-maps. Sú leið virðist ótrúlega einföld: það liggur akvegurvegur frá Biskupstungnabraut og nánast alveg að fossinum.
Það þarf ekki að spyrja að því hvora leiðina ég valdi, og við fD lögðum í hann eftir að ég hafði tínt til græjurnar, sem verða stöðugt umfangsmeiri (og flottari).
Ég vissi að það var hlið þar sem ekið er inn á veginn niður að ánni, en hafði aldrei kannað hverskonar hlið það var. Nú veit ég það hinsvegar.
Þar sem ég beygði af aðalveginum, blasti við mjög sterkbyggt hlið og á því var skilti sem gaf skýrt til kynna að þarna væri um einkaveg að ræða. Það varð þá svo að vera, og við fD vorum þess albúin að yfirgefa Qashqai og ganga spölinn niður að ánni. Sannarlega var sá kostur og aka þennan spöl þó talsvert eftirsóknarverðari.
Í þann mund er við vorum að stíga frá borði, bar að bifreið innan af svæðinu handan hliðsins. Þegar hún nálgaðist opnaðist hliðið hægt og rólega og ég ákvað að reyna að ná sambandi við ökumannin til að kynna mér hve mikinn einkaveg væri þarna um að ræða. (Þetta gat verið einkavegur eins og sá sem liggur heim í Kvistholt og þetta gat líka verið einkavegur þar sem alvarleg viðurlög eru við akstri í óleyfi og jafnvel kölluð til lögregla. Hliðið benti til þess að einmitt sú gæti verið raunin).
Bílstjórinn, kona á ríflega miðjum aldri, stöðvaði bíl sinn hjá okkur og renndi niður hliðarrúðunni, þess albúin að tilkynna okkur að þarna færum við ekki í gegn. Í sama mund rann hliðið til baka og lokaði leiðinni. Spurningu minni um hvort það gæti verið möguleiki að við fengjum að aka veginn handan hliðsins svaraði hún sem svo:
"Þetta er einkavegur", hverju ég svaraði þannig að ég hefði fullan skilning á því, og svo framvegis og gaf til kynna að þá næði þetta ekki lengra. Konan horfði rannsakandi á okkur um stund en sagði svo:
"Þið eruð svo heiðarleg á svipinn að það hlýtur að vera óhætt að hleypa ykkur í gegn", og þar með ýtti hún á opnara (svona eins og notaðir eru á bílhurðir) og hliðið rann frá.
"Það gæti orðið vandamál hjá ykkur að komast út aftur, en það er yfirleitt hægt með því að........(hér vil ég ekki ljóstra upp um aðferðina). Ef það gengur ekki þá verðið þið að semja við einhvern um að hjálpa ykkur".
Spennan ætlaði ekki að verða endaslepp þennan daginn. Þar sem við erum spennufíklar, ekki síst fD, létum við slag standa og ókum þennan veg sem við alderi höfðum farið áður, könnuðum sem sagt ókunnar slóðir á 30 km hámarkshraða eins og tilskilið var, engin ástæða til að taka áhættuna á að verða tekinn fyrir of hraðan akstur. Qashqai var lagt  við sumarhús sem greinilega var mannlaust. Það, eins og ótrúlega mörg hús, sem við höfðum ekki áður haft vitneskju um, stóð á fögrum stað á bakka Brúarár og við blasti fossinn Dynjandi, sem venjulega væri nú bara kallaður flúðir frekar en foss.

50 m ganga var allt sem til þurfti til að komast að ánni. Græjurnar settar upp, stilltar og hvaðeina sem þurfti til myndatöku. Það var ágætur bónus að geta fylgst með og myndað straumandarpar og auka stegg sem létu fara vel um sig við bakkann okkar megin.
Segir ekki af myndatökunni fyrr en henni lauk, enda um að ræða enn eina æfinguna í að ná tökum á broti þeirra möguleika sem búa í græjunum.

Þegar konan ók frá okkur við hliðið fannst mér hún glotta, frekar en brosa, sem gæti þýtt að ráðið sem hún gaf okkur til að komast úr aftur væri ekkert sérstaklega gott.  Af þessum sökum fylgdi því nokkur spenna að aka veginn til baka á löglegum 30 km hraða, að hliðinu.
Hvernig skyldi enda vor för?
Á leiðinni sáum við nokkra einstaklinga horfa rannsakandi á löglegan akstur okkar og mér fannst ég geta greint af svipbrigðum þeirra og látbragði að við værum ekkert sérlega velkomin á þessum slóðum og að það gæti nú verið fróðlegt að sjá hvernig við færum að því að komast út.
Hliðið nálgaðist æ meir og spennan fór vaxandi.
Þar sem við vorum að verða komin að verklegu hliðinu tók það sig til og renndi sér kurteislega til hliðar og hleypti okkur í gegn og þar með hafði ráð konunnar dugað til.

Við heimkomu skoðaði ég afraksturinn til þess eins að komast að því að ég get gert betur, eins og ávallt.  Hvað væri líka varið í að ná einhverri fullkomnun á þessu sviði frekar en öðrum, ef út í það er farið.

23 apríl, 2015

Hinumegin við girðinguna

Auðvitað er við hæfi að óska ykkur, ágætu lesendur, þess að sumarið megi verða ykkur gjöfult og gott (með mikilli sól á pallinum).
Þessi fyrsti morgunn sumars kveikti einhvern neista til að skjótast að Geysi og Gullfossi. Veðurblíðan í Laugarási var einstök, eins og ávallt, og ég henti mér í jakka (ekki tók ég húfu með, eða trefil, eða vettlinga), greip myndvél og tilheyrandi græjur og síðan lá leið okkar fD í norðurátt þar sem við blasir ægifagur, fannhvítur fjallahringur (reyndar ekki neinn hringur, heldur bara fjöll sem standa hlið við hlið á mörkum óbyggðar og byggðar, en það er bara flottara og venjulegra að segja fjallahringur).
Við Geysi var mannlaust (tveir túristar).
Það var einnig kalt á Geysi (ég ómögulega klæddur fyrir næðinginn). Þar var umhverfið heldur nöturlegt. Undanfarin ár hefur umhverfið sem geymir þetta einstaka svæði verið að drabbast niður, hellulögnin, þar sem hún er, er meira og minna úr lagi gengin, bandspotti sem afmarkar gönguleiðir hangir á skökkum steyputeinum, grasþúfur graslausar, útfellingar orðnar að dufti, runnið úr göngustígum, allt úttroðið og þunglyndisvaldandi. Geysir hefur verið niðurlægður.
Það var ekki laust við að einhver vonleysistilfinning kæmi yfir Kvistholtsbóndann við að ganga um þetta umhverfi eyðilagðrar náttúruperlu. Framundan eru heimsóknir hundraða þúsunda ferðamanna, sem eru fullir tilhlökkunar að líta gersemarnar, en við þeim mun blasa eyðilegging. Strokkur mun að vísu standa fyrir sínu, en skelfing er þarna lítið annað áhugavert.
Geysissvæðið er í mínum huga táknmynd græðginnar, sem flytur inn ferðamenn selur þeim mat, selur þeim drykk, selur þeim gistingu, selur þeim ferðir, selur þeim glingur.
Selur þeim ekki aðgang að náttúrunni svo unnt verði að auka þol hennar fyrir ágangi.
Já, græðgin lætur ekki að sér hæða.

Ég varð bjartsýnni við að fara út fyrir girðinguna og yfir veginn, en þar er allt að gerast. Hótel, veitingastaðir og verslun, allt snyrtilegt og vel við haldið. Fyrir norðan hótelið er búið að grafa fyrir mikilli stækkun, og þyrla lenti á þyrlupallinum í þann mund sem við áttum leið hjá. Það er ánægjulegt að sjá hve myndarleg og kröftug uppbyggingin er þarna megin við veginn.

Það er ekki sama hvorumegin vegar maður er við Geysi.

Hver getur krafist þess að eigendur landssvæðisins sem flestir ferðamenn sem til landsins koma sækja, taki til óspilltra málanna við að bjarga því sem bjargað verður? Svona gengur þetta ekki lengur.


Við lögðum leið okkar einnig að Gullfossi, en það er önnur saga.


21 júlí, 2014

Í sunnlenskri sól


Maður má ekki forsmá það sem máttarvöldin þó veita manni af heimsins gæðum. Það er mikilvægt að halda því til haga að sólin komst óhindrað á pallinn í Kvistholti í gær í eina klukkustund og 35 mínútur og er það lengsta samfellt sólskin á þessu sumri.
Það þarf varla að geta þess að fD nýtti þennan tíma til hins ítrasta til að safna forða d-vítamíns fyrir veturinn. Sólbaðið var auðvitað lengra en sem nemur þeim tíma sem sást til sólar, enda uppi sú kenning að sólarljósið gagnist svo lengi sem maður sér skuggann af sjálfum sér á sólbekknum. Á grundvelli þessarar kenningar náði sólskinssleikurinn allt að 4 klukkustundum, sem verður að teljast harla gott.

Ég mátti, að venju, þegar yfirleitt sést að það er sól á himni, sitja undir hneykslan fD á því að ég væri að "húka inni í svona góðu veðri" og í framhaldi af því lét ég til leiðast að liggja gegnum mesta sólskinið, án sjáanlegs árangurs.
Ekki efa ég það að á næstu vikum, í það minnsta áður en vetur leggst að, fái ljóshnötturinn að senda geisla sína í æ rikara mæli óhindrað á sólsjúka Kvisthyltinga.

22 júní, 2014

Af ákvörðunum og líðan fugla.

Ekki neita ég því að maríuerluparið sem tók sig til, að því er virðist upp úr þurru, á þjóðhátíðardeginum, við að efna í hreiður í fuglahúsi, sem Álaborgarmaðurinn smíðaði fyrir áratugum síðan í handmennt í Reykholtsskóla, gladdi mig.
Maríuerlupar kom sér upp ungum í þessu húsi fyrir tveim árum okkur til ómældrar ánægju. Reyndi aftur í fyrra, en hætti við, að öllum líkindum vegna ógnandi tilburða krumma, sem þá hafði komið sér upp ungviði í Ólafslandi svokölluðu.
Fyrr á þessu voru varð vart við parið þar sem það kannaði aðstæður, en ekkert varð þá úr framkvæmdum.
17. júní hófst verkið hinsvegar af fullum krafti og hver goggfyllin á fætur annarri hvarf inn í húsið og Kvisthyltingar glöddust. Sannarlega þótti þetta heldur seint farið af stað og talið líklegt að fyrra varp parsins hafi farist fyrir með því egg eða ungar hafi endað í hrafnskjafti.
Eftir margar ferðir með efni fór að rigna og það sem meira var, það settist hrafn um stund í trjátopp í Sigrúnarlundi.  Hreiðurgerðinni var hætt og ekkert hefur gerst í húsinu síðan. Það síðasta sem ég sá til parsins í kringum þessa tilraun til hreiðurgerðar var annað þeirra norpandi í hellirigningu um kvöld, skammt frá húsinu, skömmu eftir að krummi hafði sest í furutoppinn.

Ég velti því fyrir mér hvernig maríuerla tekur ákvarðanir.  Kannski bara svona: "Þarna er krummi uppi í tré og núna veit hann að ég er að fara að búa til hreiður í húsinu og hann kemur svo þegar ég er búin að verpa og tekur eggin". Það getur svo sem verið að það hafi verið úrhellið sem fældi parið frá, en það hóf síðan hreiðurgerð á öðrum stað í nágrenninu og ekki veit ég hvernig það hefur gengið.

Ungar krumma hér í næsta nágrenni, eru allir þrír farnir úr hreiðrinu. Sá fyrsti virðist hafa hrapað til dauða eftir átök við systkin sín, löngu fyrir tímann. Sá næsti virðist  einnig hafa yfirgefið hreiðrið heldur snemma því hann er ófær um að fljúga og virðist hafa tognað eða brákað væng við brottförina úr laupnum. Hann heldur til hér uppi í brekku fyrir neðan Kirkjuholt og væri sjálfsagt gustukaverk að einhver áhugamaður um hrafnauppeldi tæki mál hans til umfjöllunar. Sá þriðji virðist hafa komist klakklaust frá þessu. 30% árangur - ekki veit ég hvað hrafnshjónunum
finnst um það.

Þetta var stutt yfirferð um fuglalífið í grennd við Kvistholt þetta vorið.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...