23 apríl, 2015

Hinumegin við girðinguna

Auðvitað er við hæfi að óska ykkur, ágætu lesendur, þess að sumarið megi verða ykkur gjöfult og gott (með mikilli sól á pallinum).
Þessi fyrsti morgunn sumars kveikti einhvern neista til að skjótast að Geysi og Gullfossi. Veðurblíðan í Laugarási var einstök, eins og ávallt, og ég henti mér í jakka (ekki tók ég húfu með, eða trefil, eða vettlinga), greip myndvél og tilheyrandi græjur og síðan lá leið okkar fD í norðurátt þar sem við blasir ægifagur, fannhvítur fjallahringur (reyndar ekki neinn hringur, heldur bara fjöll sem standa hlið við hlið á mörkum óbyggðar og byggðar, en það er bara flottara og venjulegra að segja fjallahringur).
Við Geysi var mannlaust (tveir túristar).
Það var einnig kalt á Geysi (ég ómögulega klæddur fyrir næðinginn). Þar var umhverfið heldur nöturlegt. Undanfarin ár hefur umhverfið sem geymir þetta einstaka svæði verið að drabbast niður, hellulögnin, þar sem hún er, er meira og minna úr lagi gengin, bandspotti sem afmarkar gönguleiðir hangir á skökkum steyputeinum, grasþúfur graslausar, útfellingar orðnar að dufti, runnið úr göngustígum, allt úttroðið og þunglyndisvaldandi. Geysir hefur verið niðurlægður.
Það var ekki laust við að einhver vonleysistilfinning kæmi yfir Kvistholtsbóndann við að ganga um þetta umhverfi eyðilagðrar náttúruperlu. Framundan eru heimsóknir hundraða þúsunda ferðamanna, sem eru fullir tilhlökkunar að líta gersemarnar, en við þeim mun blasa eyðilegging. Strokkur mun að vísu standa fyrir sínu, en skelfing er þarna lítið annað áhugavert.
Geysissvæðið er í mínum huga táknmynd græðginnar, sem flytur inn ferðamenn selur þeim mat, selur þeim drykk, selur þeim gistingu, selur þeim ferðir, selur þeim glingur.
Selur þeim ekki aðgang að náttúrunni svo unnt verði að auka þol hennar fyrir ágangi.
Já, græðgin lætur ekki að sér hæða.

Ég varð bjartsýnni við að fara út fyrir girðinguna og yfir veginn, en þar er allt að gerast. Hótel, veitingastaðir og verslun, allt snyrtilegt og vel við haldið. Fyrir norðan hótelið er búið að grafa fyrir mikilli stækkun, og þyrla lenti á þyrlupallinum í þann mund sem við áttum leið hjá. Það er ánægjulegt að sjá hve myndarleg og kröftug uppbyggingin er þarna megin við veginn.

Það er ekki sama hvorumegin vegar maður er við Geysi.

Hver getur krafist þess að eigendur landssvæðisins sem flestir ferðamenn sem til landsins koma sækja, taki til óspilltra málanna við að bjarga því sem bjargað verður? Svona gengur þetta ekki lengur.


Við lögðum leið okkar einnig að Gullfossi, en það er önnur saga.


Engin ummæli:

(Ráð)villtur unglingur með bleika plötu

Sýnishorn af plötubunkanum Ég er sennilega einn þeirra sem aldrei náði þeirri stöðu á unglingsárum, að verða svokallaður töffari. Ég var...