Sýnir færslur með efnisorðinu bílaleigubíll. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu bílaleigubíll. Sýna allar færslur

22 maí, 2017

Það sem maður ekki veit getur verið gott að læra

Sú var tíð, að ég vissi ekki að ef einhver sem ætti fjögur epli og gæfi tvö, ætti tvö epli eftir.  Svo áttaði ég mig á því og fannst eftir það, að það væri með ólíkindum að fólk skyldi ekki átta sig á þessu.  
Svona hefur þetta gengið síðan: ég veit ekki eitthvað og síðan flýtur vitneskjan um það inn í höfuð mitt og ég skil í rauninni hreint ekki hversvegna hún var þar ekki alltaf.  Ég fæ enn, stöðugt staðfestingu á ófullkomleika mínum og er fyrir nokkru búinn að átta mig á því, að ég mun aldrei vita allt sem ég ætti sennilega að vita, eða sem er þess virði að vita.
Ég er ekki einn um að vera svona því þetta á við um okkur öll.  


Í síðasta pistli ýjaði ég að lítilsháttar vanda sem tengdist bílaleigubifreið sem ég hafði umráð yfir í borg Margrétar drottningar fyrir nokkrum dögum.  Ævistarf mitt kallar á að ég deili þeirri þekkingu sem ég innbyrti á þessum tíma og sem tengist því hvernig maður tekur og skilar bílaleigubíl á Kastrup flugvelli.
Það er í eðli mínu að fræða fólk og freista þess þannig að stuðla að því, að líf þess verði að einhverju leyti skárra en það hefði ella orðið. Því hef ég ákveðið að birta leiðbeiningarnar sem hér fylgja og ég tel nokkuð ítarlegar og skotheldar.

A. Að taka bílaleigubíl á Kastrup.

Þar sem græni krossinn er koma farþegar úr í ggnum tollhliðið. Rauði krossinn sýnir hvar bílaleigurnar voru áður.
Græna línan sýnir hvernig maður gengur um Terminal 3 til að komast í skutluna "shuttle bus" sem er gjaldfrjáls.
Gula línan sýnir leið skutlunnar að bílaleigunum.
Það fyrsta sem olli vanda mínum þar sem ég kom út í gegnum tollhliðið var að bílaleigubásarnir voru horfnir af þeim stað þar sem ég síðast hafði gengið frá leigutöku.  Þar var nú bara skilti sem sagði mér að taka skutlu. Til þess þurfti ég auðvitað að finna þessa skutlu og það kostaði ekki meira ein eina spurningu til flugvallarstarfsmanns. Eftir það lá þetta allt ljóst fyrir, utan það að fD hafði uppi ákveðnar efasemdir, þegar í skutluna var komið, um að hún myndi flytja okkur á áfangastaðinn frekar en bara eitthvert út í buskann.  Það fór þó allt vel og bílinn fengum við og GPS tæki, sem var vandlega stillt áður en lagt var af stað og síðan brunað til Íshæðar á tiltekið heimilisfang í Furulundi.

A: Þarna í enda hússins eru bílaleigurnar. B: Þarna inni bíða bílarnir.
C: Þarna er ekið út úr húsinu, beygt til vinstri í gegnum hringtorgið og þaðan inn á hraðbraut í bæinn.

B. Að skila bílaleigubíl á Kastrup

Þetta er eiginlega snúni þátturinn í þessu öllu saman og sá sem ég lærði mest af. Það þurfti sem sé að skila bílnum áður en sest væri inn í flugvélina og haldið heimleiðis. Þarna gerðust nokkuð dramatískir hlutir.

Áður en lagt var af stað út á flugvöll stillti ég auðvitað GPS tækið og það samþykkti að vísa mér á á "CAR RENTAL" á Kastrup. Það var þó einhver beygur í mér, sem síðan reyndist fyllilega réttlætanlegur. Tækið tók mið af staðsetningu bílaleiganna fyrir þá breytingu sem nú er orðin á.
Þetta olli  allt að því hörmungum, en sem betur fer hafði verið tekin samhljóða ákvörun um að fara vel tímanlega af stað, ef eitthvað skyldi nú koma upp á.
A: Torgið sem var örlagavaldur  B: Bílastæði þar sem bílaleigubílum skal skilað.
C: Biðstöð fyrir skutluna sem flytur fólk í flugstöðina.
Eins og sjá má af myndinni hér fyrir ofan, er óendanlega einfalt að skila af sér bílaleigubíl á Kastrup. Maður ekur frá borginni á hraðbraut þar til hvert skiltið á fætur öðru, auk GPS tækisins hvetja mann til að taka afrein inn á flugvallarsvæðið. Sé það gert kemur maður að hringtorginu, sem merkt er A. Af því beygir maður strax til hægri og síðan eftir því sem leið liggur á bílastæði sem merkt er B.  Þar þarf bara að aka inn á stæði viðkomandi bílaleigu og starfsmaður tekur við lyklum. Því næst er gengið ú á stoppistöð skutlunnar, sem merkt er með C.  
Hér er önnur mynd sem greinir nánar frá því máli.
Gul lína táknar leiðina sem skutlan ekur frá bílaleigunum.
 Græna línan sýnir gönguleiðina sem við tekur inni í Terminal 3.
Svona er þetta nú einfalt, gott fólk og ég vænti þess að þið sendið mér kveðju með þökk eftir að hafa notað þessar leiðbeiningar.  Nú mun ég hinsvegar greina frá því sem  getur gerst þegar maður ekki veit.
Þegar nálgaðist flugvöllinn varð mér ljóst að GPS tækið ætlaði að láta okkur fara á staðinn sem bílaleigurnar voru á áður. Þar með varð bara að treysta á hyggjuvitið, sem var nú ekkert sérstakt svo sem, enda ávallt treyst á að tækið gerði enga vitleysu.
Við komum að torginu. Það sem síðan gerðist má sjá á myndinni hér fyrir neðan:

Rauð lína: tilraunin sem mistókst. Græn lína: leiðin sem farin var í annarri tilraun
Köben - þaðan vorum við að koma frá eða fara til.. A: torgið margnefnda.
B: bílastæði fyrir bílaleigubíla.  C: Biðstöð fyrir skutluna.  D: Flugvallarstarfsmaðurinn ónákvæmi.
Þar sem við komum að torginu sáum við skilti sem á stóð CAR RENTAL við fyrsta legginn út úr torginu og þangað beindi ég bifreiðinni. Hér er rétt að geta þess að á alla vegu byrgðu háar byggingar sýn og því hreint ekki ljóst að við værum á réttri leið.  Þá kom ég auga á flugvallarstarfsmann (D) og afréð að snúa við og spyrja vegar.  Hann sagði mér að aka út á hringtorgið og þar myndi ég sjá skilti sem vísaði mér á bílaleigurnar. Hann hefði nú alveg getað bent í átt að bílaleigunum - leiðin sem græna lína sýnir, en það gerði hann sannarlega ekki. Þar með ók ég út á torgið. Um leið og ég tók ákvörðun um að beygja út af því, vissi ég að það var vitlaus ákvörðun.
Við vorum sem sagt aftur á leið til Kaupmannahafnar.  Svo mikið veit ég um hraðbrautir, að þar er frekar sjaldgæft að hægt sé að snúa við og því blasti við ökuferð út í óvissuna.
Myndin hér fyrir neðan sýnir þá leið sem farin var og hún var bara helv. ári löng.

Eftir hina örlagaríku beygju út úr torginu.
A: Flugvallarstarfsmaðurinn ónákvæmi  B: Hin ranga ákvörðun.
C: Þar sem loksins var hægt að snúa við. D: Bílastæðið þar sem loks var hægt að anda léttar.
Þetta var þörf lexía í mörgum skilningi:
1. Ég hefði átt að skoða þetta kort áður en ég lagði í þessa ferð.
2. Ég átti að muna eftir GPS tækinu mínu.
3. Ég hefði átt að kynnast betur staðháttum í kringum bílaleigurnar þegar ég tók bílinn.
4. Ég hefði átt að spyrja flugvallarstarfsmannin fleiri spurninga.
......og svo framvegis.
Nú er ég hinsvegar svo heppinn að vita hvernig það gengur fyrir sig að taka og skila bílaleigubíl á Kastrup. Vitneskja mín er svo nákvæm og yfirgripsmikil, að ég get leyft ykkur að njóta góðs af.
Verði ykkur að góðu, lesendur góðir.

Svo held ég áfram að læra eitthvað nýtt. Bílaleigur á Kastrup eru nú í mínum huga jafn einfalt mál og þetta með eplin fjögur.

21 maí, 2017

Næstum búinn að hengja frúna

Það kemur í minn hlut að aka bílaleigubílum í útlöndum. Það er einhverskonar  kaleikur sem mér er ætlað að neyta af. Það gerir sig enginn annar líklegan til að taka þann kaleik af mér.
Það get ég sagt með góðri samvisku, að ekki líkar mér bragðið af því sem þessi kaleikur geymir; á allt eins von á því að það geti orðið mér að aldurtila áður en minnst varir.
Það eru ekki ýkja mörg ár síðan ég tók fyrst bílaleigubíl á erlendri grund. Sú ákvörðun hafði í för með sér talsverða angist í aðdragandanum. Tilhugsunin um að aka ókunnum bíl á Autobahn í Þýskalandi, á áður óþekktum hraða, eða að rata eftir GPS tæki um iðandi bílmergð stórborga, kallaði fram heilmikla ónotatilfinningu.
Í fyrsta sinn á Autobahn fór ég fljótlega að laumast yfir hundraðið, en fD tók því fjarri að við færum að reyna að halda í við umferðina allt í kringum okkur. Ég sá hinsvegar fram á, að íslenskur sveitavegaakstursmáti myndi ekki leiða til neins nema stórlyss og tók því þátt í því sem á umræddum slóðum telst vera eðlilegur aksturshraði. Fyrr en varði var ég farinn að færa mig milli akreina, en þar sem eru t.d. þrjár akreinar, telst sú sem er lengst til hægri vera sú hægasta, aðallega ætluð vörubílum eða örvasa gamalmennum. Sú í miðjunni virtist mér henta þeim sem voru svona á milungsróli, eða 120-130 km. hraða á klukkustund. Akreinin sem er lengst til vinstri er fyrir þá sem eru ekki til í að láta einhvern standa í vegi fyrir sér og þar er hraðinn léttilega um 150-160.
Í sem stystu máli er ég nú kominn á það stig í akstri á hraðbrautum, að ég er oftast lengst til vinstri, með fD sallarólega við hlið mér. Hún gerir allavega ekki athugasemdir við aktursmátann. Ég túlka það svo að hún sé fyllilega sátt, enda ekki svo sjaldgæft þegar við ökum um íslenska vegi að hún hvetji til framúraksturst við aðskiljanlegustu aðstæður, enda ökumennirnir fyrir framan, oft í þeim flokki sem kallast "fávitar".

Þetta var inngangur að nýjustu reynslunni af akstri bílaleigubíls, þessu sinni í Drottningarinnar Kaupmannahöfn.

Ég hafði pantað minnstu gerð af bíl á sérstöku tilboði.  Þegar á staðinn kom reyndist það ekki vera alveg sá bíll sem ég hafði ímyndað mér. Ekki beinskiptur með bensinvél, heldur sjálfskiptur, "hybrid" smábíll.  Ég átti sjálfskiptan bíl í gamla daga. Það var þá. "Hybrid" bíl hafði ég aldrei ekið. Ef einhver skildi ekki vita hvernig bíll það er, þá gengur hann að hluta til fyrir bensíni og stundum fyrir rafmagni sem hann framleiðir sjálfur við ákveðnar aðstæður.
Nú, ég hafði ekkert hlakkað til borgarakstursins sem framundan var, en þessir óvæntu þættir urðu ekki til að lækka streitustigið, þvert á móti.  Það sem síðan bættist við var, að GPS tæki Kvisthyltinga hafði gleymst heima og því var ekki um annað að ræða en taka slíkt á leigu (fyrir dágóðan pening). Þar bættist enn í kvíðapokann, þannig að þörf fyrir áfallahjálp var á næsta leiti. Allt slíkt fór fram innra með mér, því ekki vildi ég auka á angist fD yfir því að þurfa að sitja í bíl með mér í borgarakstri í útlöndum.   Svipbrigði mín og látbragð gáfu þar með ekki annað til kynna en allt væri þetta hið besta mál.
Einbeitingin við aksturinn frá Kastrup á áfangastað var slík, að ekkert kom upp á og ég varð smám saman öruggari undir stýri þessa jariss.
Daginn eftir var ég orðinn enn öruggari með þetta allt saman: vissi t.d. að maður verður ekki var við neitt þegar bílnum er startað, það gerir rafmagnið. Ég vissi orðið nokkurn veginn hvernig GPS tækið virkaði. Allt, sem sagt í góðu,
Við héldum af stað frá hótelinu á vit ævintýranna með tækið stillt. Allt klárt. Okkur var leiðbeint gegnum hringtorg og framundan beinn og breiður vegur, sem ég hafði meira að segja ekið um áður. Ég jók hraðann út úr hringtoginu, steig á kúplinguna til að skipta í næsta gír, svona eins og maður gerir.
Lesandinn getur gert sér það í hugarlund hvað gerist þegar maður stígur fast á bremsuna með vinstri fæti í bíl á 60 km. hraða.  Jarisinn nam staðar á punktinum. Í sekúndubrot skildi ég ekkert hvað hafði gerst. Ég heyrði korrhljóð úr aftursætinu, en þar hafði fD komið sér þægilega fyrir, með spennt öryggibelti og "alles".  Yngsta syninum hafði verið eftirlátið framsætið þar sem hann skyldi vera öldruðum föður sínum til halds og trausts, enda heimamaður.
Í kjölfar korrsins var þögn litla stund.
Svo hófst tiltekin tjáning, sem ekki er ástæða til að greina frá hér í smáatriðum.
Þarna vildi svo heppilega til að það var enginn bíll á eftir okkur, svo ekkert varð slysið, en vissulega var þetta atvik áminning um að aldrei skyldi maður verða of öruggur með sjálfan sig.

Það dugði þó ekki þegar til stóð að skila bílnum. Þar varð rangt metið hringtorg á Kastrup til þess að við urðum að aka langar leiðir til baka eftir hraðbrautinni til borgarinnar  áður en hægt reyndist að gera aðra tilraun, sem fór betur.

Ég er hinsvegar að verða nokkuð vel áttaður í akstri bílaleigubíl í útlöndum.

Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...