Sýnir færslur með efnisorðinu Sigurður Ágústsson. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Sigurður Ágústsson. Sýna allar færslur

12 júlí, 2019

Ekki henda fornum afrekum

Bækur eru vinsælar þegar kemur að því að veita verðlaun eða viðurkenningar fyrir góðan árangur af einhverju tagi og þá aðallega fyrir afrek á sviði menntunar. Þetta er gert vegna þess að bækur geyma þekkingu og menningu, fyrir utan að vera eigulegir gripir, sem fara vel í bókahillum.
Það sem hér verður ritað virkar sjálfsagt sem sjálfshól af minni hálfu og það verður þá bara að hafa það. Ég hef fengið slatta af árituðum bókum gegnum tíðina, langmest vegna einhverra lítilla sigra í námi. Mér þótti vænt um að fá þessar viðurkenningar og hef geymt þessar bækur síðan, en af einhverjum orsökum hef ég ekki lesið nema brot af þeim.
Nú stend ég frammi fyrir því að grisja bókaskápa og kemst að því, sem ég svo sem vissi fyrir, að það er meira framboð af gömlum bókum en eftirspurn, sem þýðir ekkert annað en það, að stærstur hluti bókanna hverfur ofan í tunnu og gæti með heppni endað sem klósettrúlla. Þetta er nánast átakanleg tilhugsun, en fátt við því að gera, víst.

Ég er viss um, að við ákvarðanir um hvaða bækur í Kvistholti fá þetta hlutskipti, hafa ýmsar gamlar viðurkenningabækur lent í tunnum. Ég hef samt reynt að fylgjast með því sem flokkað er til förgunar, til þess að leyfa bókum af þessu tagi að fá lengra líf. Ég þykist samt viss um að þær munu þegar sá tími kemur fá sömu örlög og hinar.

Ég sé sjálfan mig reyndar ekki fyrir mér, sitjandi í leisíbojnum mínum í ellinni, blaðandi í gömlum viðurkenningum. Þær eru viðurkenningar fyrir eitthvað sem var, einhverjar litlar vörður á lífsleiðinni, sem höfðu fyrst og fremst gildi þá.

Tólf ára pjakkurinn sem fékk þessa bók um Örn Arnarson fyrir að vera nokkuð góður í stafsetningu, var á sínum tíma glaður og stoltur yfir því að reynast góður á einhverju sviði og ég er ekki frá því að þessi litla bók hafi haft áhrif langt inn í framtíð hans.


Bókina hef ég aldrei lesið, frekar en flestar þeirra bóka sem mér hafa verið gefnar við svipuð tilefni síðar.  Mér finnst það ekki bera vott um vanþakklæti þar sem ég lít á svona bækur sem tákn eða eigulegan grip, sem minnir mann kannski á það sem eitt sinn var, en ekki endilega til þess ætlaðar að verða lesnar upp til agna. Ef sá væri tilgangurinn yrðu sennilega þau Arnaldur og Yrsa vinsælli til viðurkenninga.

Tólf ára pjakkurinn man nokkuð vel eftir þessum kennara, Sigurði Ágústssyni frá Birtingaholti. Hann var gamall og góður kall sem maður bar virðingu fyrir. Myndin af því þegar hann var að kenna okkur smíði í kjallaranum í Aratungu, undir kaffisalnum, og missti fingur í vélsög, hverfur einhvern veginn ekki úr huganum. Hún er þarna hvort sem hún er rétt, eða til komin vegna umhverfissmits á þeim tíma sem þetta gerðist.

Þarna var ég ekkert að velta fyrir mér hvernig á því stóð að Sigurður var að kenna í Reykholtsskóla, né heldur hvaðan hann var, eða hvað hann var.  Það var ekki fyrr en talsvert seinna.
Ekki finnst  mér ólíklegt að samnemendur mínir margir hverjir muni miklu betur en ég ýmislegt um þennan ágæta karl.

Svona getur ein lítil bók komið af stað allskyns hugreninngum og upprifjunum, bók sem aldrei hefur verið lesin þó hún beri þess merki að hafa verið handfjötluð talsvert. Það kom aðallega til þegar þurrkað var úr bókahillunum í Kvistholti; hver bók tekin og ryksuguð, af mis mikilli vandvirkni, eins og verða vill stundum.


Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...