![]() |
Veitingastaðurinn á leiðinni milli Varadero og Casilda |
Þar með held ég áfram að skanna svona helstu þætti þess að bar fyrir augu eða átti sér stað.
Leiðin lá úr flugstöðinni í Varadero út í kúbverskt vorið. Ekki svona alveg íslenskt vor. Sól skein í heiði og lofthitinn um 30°C og því engin hætta á að við yrðum loppin.
Það fyrsta sem blasti við var bílastæði flugstöðvarinnar með tveim rútum og einum bíl frá því um 1950: glæsikerru, en af þeim áttum við eftir að sjá harla mikið það sem eftir var ferðar.
Fyrsta verkið, eftir að komið var inn í þetta magnaða land fólst í því að skipta evrum eða kanadadollurum yfir í kúbanska mynt. Fyrir utan flugstöðina var hægt að gera þetta í gegnum lúgur. Þarna var einnig hraðbanki sem maður gat bara tekið út af kortinu sínu, svona eins og víðast annarsstaðar.
![]() |
Fólkið birgir sig upp af CUC fyrir utan flugstöðina. |
CUC er sú mynt sem ferðamenn þurfa að nota og sem hægt er að skipta fyrir erlendan gjaldeyri. Þessi mynt er stundum kölluð kúbanskur dollari og gengi hans er nánast það sama og ameríska dollarans, eða nú um 120 ISK.
CUP er svokallaður kúbanskur pesói, sem landsmenn nota í viðskiptum sín á milli. Þessari mynt er ekki hægt að skipta fyrir erlenda gjaldmiðla. Í hverju CUC eru einhversstaðar um 25 CUP.
Ekki treysti ég mér síðan til að gera grein fyrir samskiptum þessara tveggja mynta innan Kúbu, en þau virðast allavega ganga.
Annað verkið sem sinna þurfti, áður en rútuferð dagsins hófst, var að tryggja nægan vökva, en þarna fyrir utan var að finna sölumenn drykkjarfanga. Úr kæli sínum buðu þeir til sölu tvær tegundir af kúbönskum bjór. Fyrir mér er bjór bara bjór, svo ég tók kostaboði um að kaupa 4 bjóra fyrir 5 CUC, en hafnaði margítrekuðu kostaboði sölumannsins um að kaupa 8 fyrir 10 CUC, en ekki var annað á honum að skilja en að þar væri um að ræða enn betri díl.
Ekki meira um það
Gengið var til rútu og haldið af stað, klukkan farin að ganga fjögur og framundan einhversstaðar um 5 tíma rútuferð til náttstaðar í Casilda, syðst á eyjunni.
![]() |
Kortið sem sýnir leiðir sem farnar voru í ferðinni. Set það inn með hverri færslu, til glöggvunar. |
Þarna sátum við spennt í öryggisbelti, sem höfðu verið tekin sérstaklega fram af tilefninu. Þau eru að sögn venjulega vandlega falin í rútum á Kúbu, þar sem ástæða þykir til að komast hjá því að þau slitni óhóflega.
Skipulagt matarhlé
![]() |
Á áningarstað, saddar og sælar eftir samloku, bjór og búst. |
Þetta var sennilega fyrsta menningarsjokkið sem við, frá landi allsnægtanna, urðum fyrir í þessari ferð og reyndist alls ekki það síðasta. Fyrsta hugsunin var ef til vill: "Hvaða rugl er þetta?", en það tók önnur strax við: "Hvaða vit hefði svosem verið í því að þessi veitingastaður hefði verið tilbúinn að 15 mismunandi tegundir af samlokum í plastumbúðum, sem síðan myndu meira og minna renna út og enda loks í ruslinu?" Það sem við þurftum þarna var biti til að seðja hungrið og drykkir til að slökkva þorstann. Snýst þetta ekki bara um það, annars?
Klukkutíma eða svo eftir pöntunina renndum við í hlað, fengum okkar samloku, afar verklega, afar gómsæta og afar ferska, ásamt nýmaukuðu ávaxtabústi eða bjór. Þetta var hreint ágætt.
Trinidad og Casilda (mynd af Google maps) |
Segir nú ekki af ferðnni fyrr en komið var í áfangastað í myrkri um kl. 20. Þarna vorum við komin í þorpið Casilda, sem er svona nokkurskonar úthverfi bæjarins Trinidad (sjá kort). Ekki gat maður nú greint hvernig þarna var umhorfs, enda afskaplega mikið myrkur og engin flennigötulýsing.
CAlle Real og La Rosa (mynd af Google maps) |
Hópnum var skipt í 5 hús og við þrjú, sem vorum þarna í samfloti vorum sett út við hús sem ber heitið Rósin, Hostal La Rosa, sem stendur, rétt eins og aðrar íbúðir sem hópurinn gisti í, við Calle Real (Real götuna).
Okkur var tekið með kostum og kynjum og hjónin ágætu fóru afskaplega vel með okkur meðan við dvöldum þarna. Úrvalsfólk.
Eftir að töskurnar höfðu verið bornar fyrir okkur, alveg inn á gólf, fór skammur tími í hvíld eftir harla erfiðan dag, áður en haldið var á veitingahús í nágrenninu þar sem lifandi tónlist fór inn um augu og eyru, meðan ofgnótt matar voru gerð skil eins og kostur var á Það var gert um munn, rétt eins og maður gerir yfirleitt.
Hvíldin var kærkomin í notalegum húsakynnum og þar með tek ég mér pásu þar til næst.
![]() |
Gististaðurinn La Rosa við Calle Real í Casilda. |