Sýnir færslur með efnisorðinu Pabbi. Sýna allar færslur
Sýnir færslur með efnisorðinu Pabbi. Sýna allar færslur

29 desember, 2014

Samtíðin er jafnan verst.

Ég er sjálfsagt ekki einn um það meðal þeirra sem eldri eru á hverjum tíma að telja margt vera verra en það var. Það er algengt viðhorf að tímarnir breytist til hins verra; hver sú kynslóð sem við tekur sé lakar sett að mörgu leyti en þær en á undan hafa farið.
Faðir minn gekk um tveggja vetra skeið (1936-7 og 1937-8) í Menntaskólann á Akureyri. Á þeim tima og einnig eftir að hann kom að S-Reykjum í árslok 1939, skrifaðist hann á við fósturforeldra sína, Sigrúnu og Benedikt Blöndal á Hallormsstað. Það virðast reyndar aðallega hafa verið þau sem skrifuðu, sem má sjá af því að í hverju bréfi þeirra kvarta þau yfir að hafa ekki fengið bréf (á Akureyri var hann á aldrinum 17-19 ára svo það er ef til vill skiljanlegt).
Í bréfum sínum segja þau fréttir að austan og spyrja frétta frá Akureyri. Þau leggja honum einnig lífsreglurnar og veita góð ráð. Þar er margt áhugavert, ekki síst ef það er tengt stöðu mála á okkar tímum. Í bréfi sem hann skrifaði pabba í nóvember 1937 segir Benedikt Blöndal:


Úr bréfi Benedikts
"Annars er einkennilegt hvernig eldra fólkið lítur ávallt á samtíð sína. Hún þykir jafnan verst og æskan og ungdómurinn stórum verri en var í ungdæmi þeirra. Mikil væri sú afturför frá kynslóð til kynslóðar ef þessir dómar hefðu við full rök að styðjast".

Í bréfi í lok árs 1941, en þá er pabbi búinn að vera tæp tvö ár á S.-Reykjum, skrifar Sigrún Blöndal (skólastýra í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað):


Úr bréfi Sigrúnar
"Stúlkur eru að búa sig á "ball" út í Ketilsstaði, því ekki hefur maður frið með heimili sitt einusinni á jólunum fyrir þessum strákagörmum sveitarinnar, sem ekki geta látið þessa aumingja sakleysingja í friði og finnst víst eðlilegast að Jesús Kristur byrji frelsunarstarf sitt í sálum þessara ungu stúlkna á "balli"! Þess vegna stilla þeir því upp fáum dögum eftir minningarhátíðina um fæðingu hans! Og dettur ekki í hug, að hann eigi að fæðast í hverju einasta mannshjarta! Það er erfitt að glíma við heimskuna og óþokkaskapinn og barnalegt að hafa nokkurntíma látið sér detta í hug, að maður væri þess megnugur".
Bréf þeirra hjóna staðfesta að mannskepnan er söm við sig á öllum tímum.

Þrátt fyrir þetta ætla ég ekkert að víkja frá þeirri skoðun minni, að þær breytingar sem hafa orðið frá því mín kynslóð óx úr grasi, við undirleik Bítlanna, Rolling Stones, Jethro Tull, Bob Dylan, Joan Baez, The Kinks og svo  mætti lengi telja, séu síður en svo til bóta. Með þessu er ég ekki að halda því fram að ungt fólk nú sé eitthvað lakara að upplagi en það hefur verið á hverjum tíma. Það kann jafnvel að vera talsvert betra.

Umhverfi og uppvaxtarskilyrði barna finnst mér hafa farið verulega versnandi síðastliðin 15-20 ár og hér tíni ég fram nokkrar ástæður fyrir þessari skoðun minni:


  1. Veröldin er orðin miklu flóknari en hún var og þar með meiri óvissa um framtíðina.
  2. Uppeldi fer æ meir fram á stofnunum þar sem börn læra að talsverðum hluta hvert af öðru frekar en af foreldrum sínum. Máltaka á sér því miður stað í of miklum mæli í gegnum samskipti jafnaldra.
  3. Rafrænt umhverfi getur haft neikvæð áhrif á ýmsa þætti sem lúta að mannlegum samskiptum. Foreldrar og börn sogast æ meir inn í þann heim sem tölvur og internet búa þeim til afþreyingar.


Til að vera jákvæður vil ég halda opnum þeim möguleika að hvað sem breytist muni manninum takast að breytast með og ná einhverju jafnvægi við umhverfi sitt á hverjum tíma.
Hver segir líka að það megi ekki segja: "Það var sagt mér að það væri ball í kvöld"?



27 ágúst, 2014

Af gömlum unglingi og fleiru.

Skúli Magnússon
Haustið er að ganga í garð og gróður jarðar býr sig undir að tryggja upprisu að vori. Mannlífið skiptir um takt og daglegt líf Kvisthyltinganna tveggja, sem eftir eru í kotinu þegar börn og barnabörn eru horfin til síns heima til að sinna sínu, er sem óðast að komast í fastar skorður og því líkur á að upp verði tekinn þráðurinn á þessum vettvangi sem ýmsum öðrum.

Viðfangsefni mitt þessu sinni er sú breyting sem varð í lífi okkar, afkomenda Skúla Magnússonar, garðyrkjubónda í Hveratúni, þegar hann lét gott heita í byrjun ágúst og kvaddi jarðlífið eftir langa og nokkuð vel útfærða glímu við Elli kerlingu. Hann var á 96. áldursári og þótti það bara orðið ágætt, kvaddi sáttur, saddur lífdaga.
Við skildum og skiljum það vel að hann var tilbúinn að hverfa á braut. Þannig er nú lífinu einusinni háttað, að það tekur enda einhverntíma og svo langt líf sem hans er hreint ekki sjálfsagt, en þakkarvert. Þrátt fyrir að allir væru nokkuð sáttir við þessi málalok, var þarna um að ræða endinn á langri sögu og þar með fylltumst við trega og söknuði. Okkar bíður auðvitað það hlutskipti að halda áfram okkar leið á okkar forsendum. Við systkinin erum nú kominn á þann aldur að við teljumst, eftir því sem ég best veit, fullfær um að kunna fótum okkar forráð, en samt... með "gamla unglingnum" hvarf töluvert mikilvægur þáttur í tilveru okkar, rétt eins og gerist oftast, allsstaðar og á öllum tímum þegar lífi lýkur.

Ég nefndi langa sögu, sögu sem hófst við aðstæður sem nútímamaðurinn á erfitt með að ímynda sér. Pabbi fæddist í september, veturinn eftir að frostaveturinn mikli hafði valdið fólki ýmsum búsifjum. Foreldrar hans, eins og svo margir aðrir í þeirra sporum, liðu fyrir skort á jarðnæði á láglendinu, svo þau tóku það til bragðs að flytja að Rangárlóni við norðanvert Sænautavatn í Jökuldalsheiði, líklegast vorið 1918, með tvo syni á barnsaldri og þann þriðja á leiðinni. Sjá einnig hér.

Það er eiginlega ekki fyrr en maður fer að skoða þau lífskjör sem svokölluðu almúgafólki voru búin á fyrri hluta síðustu aldar ofan í kjölinn út frá einhverjum sem maður þekkir, sem maður áttar sig á hvílikar breytingar hafa átt sér stað.  Það hlýtur að vera mikið spunnið í þær kynslóðir sem þurftu að takast á við tilveruna á fyrri hluta tuttugustu aldar, ekki síst þann hluta þeirra sem þurfti að leggja á sig ómælt erfiði til að hafa í sig og á.  Þetta fólk fann leiðir til lífsbjargar, en það þurfti líka að færa fórnir. Föðurforeldrar mínir eru, til að mynda, sagðir hafa eignast 10 börn, en einungis sex þeirra náðu að vaxa úr grasi.  Faðir minn var sendur um sex ára gamall í fóstur á næsta bæ, líklegast til að létta á barnmörgu heimili.  Eftir það ólst hann upp með Sigurði Blöndal, syni hjónanna í Mjóanesi og síðar á Hallormsstað, sem hann hefur ætíð vísað til sem fóstbróður síns.
Þar sem ég sit og skrifa þetta fæ ég þær fregnir að Sigurður hafi látist í gær. Þeir fóstbræðurnir munu því ferðast áfram saman, nú á slóðum sem ég kann ekki að fjalla um.

Ég ætla nú ekki að fara að rekja ævigöngu föður míns, en hann dvaldi í Hveratúni til haustsins 2012, en þá varð það úr að hann flutti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu.
Fram til þess síðsta tókst honum að halda léttri lund og þeim sem heimsóttu hann mætti alltaf brosandi andlitið, eða í það minnsta glott út í annað. Hann spurði frétta og tók í nefið og svo spurði hann aftur frétta. Hann var ekkert mikið fyrir að gera sjálfan sig og sína líðan að umfjöllunarefni, hafði meiri áhuga á því sem var að öðru leyti um að vera. Svo þegar umræðuefnið þraut um stund kom fyrsta línan í einhverri vísu, svona einskonar biðleikur til að kalla fram frekari frásagnir. Þessi var til dæmis nokkuð algeng

Svo er það við sjóinn viða
sama gerist upp til hlíða,
sveinn og meyja saman skríða,
segjast elskast jafnt og þétt,
     hvað er auðvitað alveg rétt!
Í hjónabandi að lifa og líða
uns lausakaupamet er sett.
          (ég hef ekki fundið höfundinn)

Við sem umgengumst hann lærðum þessar vísur smám saman og þá fór hann að láta sér nægja að fara með fyrstu línuna og beið svo eftir að við kláruðum dæmið og svo skellihló hann á viðeigandi stöðum.

Dvölin á Lundi á Hellu er kapítuli út af fyrir sig. Miðað við allt og allt held ég að betri staður til ljúka langri vegferð sé vandfundinn. Þetta segi ég ekki endilega vegna þess að mér finnist Hella í sjálfu sér vera sérlega hentugur staður fyrir aldraða í uppsveitum Árnessýslu, heldur vegna þess, að starfsfólkið á Lundi er einstaklega vel starfi sínu vaxið.
Við setjum lög og reglur um aðbúnað hinna ýmsu þjóðfélagshópa, meðal annars þeirra sem þurfa einhverja aðhlynningu síðustu árin. Þar er gert ráð  fyrir lágmarksfermetrafjölda á mann, lágmarks lofthæð og hvaðeina sem varðar ytri aðbúnað.
Ég leyfi mér að segja að húsakynnin eru ekki það sem mestu máli skiptir, heldur fólkið sem hefur þann starfa að annast um þá sem aldraðir eru, reynsluboltana, sem eiga langa og viðburðaríka sögu, en eru smám saman að missa krafta, eru orðnir vígamóðir í baráttu sinni við áður nefnda Elli, tapa heyrn eða sjón og jafnvel dvelja æ meir á sviðum sem raunveruleikinn nær ekki alveg til.  Við þessar aðstæður er það starfsfólkið sem skiptir sköpum. Það þarf að nálgast öldungana þar sem þeir eru á hverjum tíma og reyna að setja sig í spor þeirra, sinna þeim og þörfum þeirra af nauðsynlegri þolinmæði og umhyggju, spjalla við það og grínast við það.
Lífsgæði aldraðra felast ekki síst í því að þeir fái að njóta þess að finnast þeir skipta máli.

Hér fyrir ofan var ég að lýsa nálgun starsfólksins á Lundi, eins og við systkinin upplifðum hana. Rangæingar eru eflaust þakklátir fyrir að svo samhent, velhugsandi og dugmikið fólk skuli starfa við umönnun aldraðra á Lundi.
Svona fólk eiga aldraðir skilið í lok ævidagsins og fyrir umhyggjuna, velvildina og nærgætnina erum við systkinin afar þakklát.

Við sem stöndum undir samfélagsrekstrinum hverju sinni, skuldum öfum okkar og ömmum hverju sinni það, að síðustu áranna fái þau að njóta áhyggjulaust og við bestu aðstæður.  Nútíminn talar mikið um að horfa fram á veginn, en sannleikurinn er auðvitað sá, að ef ekki væri sá vegur sem þegar hefur verið farinn, þá væri heldur enginn vegur framundan.
---------
Í lokin skelli ég hér myndbandi af söng Laugaráskvartettsins. Þeir flytja Nú máttu hægt, en lagið er eftir H. Pfeil og ljóðið eftir Þorstein Erlingsson. Upptakan var gerð í Skálholti 16. ágúst. Laugaráskvartettinn skipa æskufélagar úr Laugarási: Egill Árni og Þorvaldur Skúli Pálssynir frá Kvistholti og Hreiðar Ingi Þorsteinsson og Þröstur Freyr Gylfason frá Launrétt í Laugarási. Það var Brynjar Steinn Pálsson frá Kvistholti sem myndaði og klippti, meðupptökumaður hljóðs var Guðný Rut Pálsdóttir frá Kvistholti.
Laugaráskvartettinn flutti þetta lag við útför afa síns og fyrrum nágranna.

NÓTT (Nú máttu hægt)




04 febrúar, 2014

Ungur Norðmaður varð úti

Þann 6. desember, 1929 kom ungur maður, 21 árs, að Torfastöðum til frú Sigurlaugar og séra Eiríks. Hann kom austan frá Hallormsstað og fyrir lá, að hann myndi hefja störf á Syðri-Reykjum, hjá Stefáni og Áslaugu um mánaðamótin janúar febrúar, 1940. Hann fékk þarna inni á Torfastöðum í tæpa tvo mánuði sökum kunningsskapar frú Sigurlaugar og frú Sigrúnar Blöndal á Hallormsstað, en hana kallaði þessi ungi maður, Skúli Magnússon, "fóstru".
Það  hefur greinilega verið ætlun hans að skrásetja nú vel og rækilega þann tíma sem hann átti hér fyrir sunnan og hélt því dagbók um daglegt líf í eitt ár, árið 1940, svo ekki söguna meir.

Dagbókin geymir aðallega frásagnir af daglegu lífi á Torfastöðum og Syðri-Reykjum. Það sem hér fer á eftir er frásögn af einum atburði, og því sem honum fylgdi.

29. janúar, 1940
Austan gola og dálítil rigning. Þeir menn sem eru nú í vinnu hjá Stefáni eru Magnús Sveinsson frá Miklaholti, Bergur Sæm(undsson), Olav hinn norski og ég.
Færslurnar næstu daga greina að mestu leyti frá daglegum störfum, en síðan kemur laugardagurinn 17. febrúar:

Mbl. 23. febrúar
Laugardagurinn 17. febrúar, 1940
Norðaustan kaldi, bjart veður, 10°frost. Ég var í ýmsum snúningum, svo sem fægja rör, láta rúður í glugga og grafa skurði. ég fékk bréf að heiman og frá móður Hlyns.
Ólav fór upp að Efstadal.

Sunnudagurinn 18. febrúar.
Norðan og norðaustan gola og 2°frost, mikil snjókoma með morgninum.
Olav var ókominn frá Efstadal.

Mánudagurinn 19. febrúar
Norðaustan strekkingur, mikil snjókoma og fjúk er á daginn leið, en var slydda um morguninn og fremur stillt veður. Þegar við höfðum borðað morgunverð lögðum við fjórir af stað, Stefán, Jón Guðmundsson (hann kom að S.-Reykjum 31. janúar til að leggja miðstöð í gróðurhusin), Bergur (Sæmundsson) og ég til að líta eftir Olav, því að veður tók heldur að versna, snjókoman og vindurinn jókst. Við vonuðum að hann hefði aldrei lagt af stað frá Efstadal, en þorðum samt ekki annað en grennslast eftir því. Þegar við vorum koomnir norður fyrir Brúará var kl. 9.50. Við reyndum að hraða ferð okkar sem mest, en það var ekki auðvelt, því að snjórinn var mjög mikill, stöðugt kafald í mitt lær og mitti og jafnvel enn meira sumsstaðar. Okkur sóttist seint sem vonlegt var.
Þegar við höfðum gengið æði spöl áleiðis til Efstadals mættum við pilti þaðan sem fræddi okkur á því að Olav hefði farið þaðan kl 8 um morguninn og kvaðst ekki hafa þorað annað en fara á eftir honum er hann varð þess var hve veðrið var orðið ískyggilegt.
Nú leist okkur ekki á blikuna og vissum sem sagt ekki hvað gera skyldi. Snjókoman jókst enn meir, jafnframt því sem hvessti. Loks tókum við þá ákvörðun að fara vestur að Böðmóðsstöðum, því að okkur þótti líklegt að hann hefði leitað þangað, þar eð þetta var næsti bær. Eftir hér um bil tvær klukkustundir komumst við þangað (þegar sæmilegt er umferðar er þessi vegalengd farin á 20' til hálftíma) og vorum flestir orðnir þurfendur hvíldar. Eftir að við höfðum hresst okkur þar og fengið þau klæði sem okkur vanhagaði um (við höfðum ekki búið okkur nægilega vel er við lögðum af stað að heiman) lögðum við af stað sömu leið ásamt Guðmundi bónda. Ferðin heim gekk slysalaust og vorum við komnir þar um kl. 5.
Jón fór með Guðmundi til baka aftur, því að varhugavert þótti að láta einn mann vera á ferð í þessu veðri.
Þreyttir og áhyggjufullir lögðumst við til hvíldar.

Þriðjudagurinn 20. febrúar
Hvass norðaustan, snjókoma og talsvert frost. Dimmviðri var svo mikið að ekki þótti fært nokkrum manni að leita Olavs. Sátu því allir heima og gátu ekkert að gert.

Miðvikudagurinn 21. febrúar
Austan kaldi, úrkomulaust, en dálítið fjúk. Fjórir menn héðan af bæjunum fóru norður að Efstadal og vestur að Laugardalshólum til að vita hvort Olav hefði komið þangað, en svo reyndist ekki vera. Leituðu þeir síðan hér á mýrunum meðan bjart var, en án nokkurs árangurs.
Nú gerðu menn sér ekki von um að Olav væri lífs fyrst hann hafði ekki komist til þessara áðurnefndu bæja. Var nú tekið að safna lið hér í nágrenni til að leita á morgun.

Fimmtudagurinn 22. febrúar
Austan strekkingur, krapahríð. Laitað var að Olav meirihluta dagsins. Við vorum átta, sem tókum þátt í leitinni. Heim komum við án nokkurs árangurs. Eins og áður er sagt var krapahríð, enda urðum við mjög hraktir og kaldir. Á mýrunum var snjóinn ekki að sjá, en í skóginum og þar sem eitthvert afdrep var, var kafald og him mesta ófærð.
Okkur þótti fullvíst að leit yrði árangurslaus meðan þessi snjóþungi væri á þessum slóðum. Var því ákveðið að geyma hana þar til þiðnaði.

Föstudagurinn 23. febrúar.
Norðaustan gola, skýjað loft, úrkomulaust, að kvöldi var 4°frost.
Við lögðum rör í 4 og 5 (númer gróðuhúsa), en létum okkar týnda vin og félaga hvíla í sinni hvítu og friðsömu sæng, óáreittan.

Næstu daga er ekki vikið að hvarfi Olavs, en veðri lýst, svo og daglegum störfum á Syðri Reykjum.

Föstudagurinn 1. mars.
Hæg suðvestan átt, éljaveður en bjart á milli. 1°frost. Lokið var við að logsjóða miðstöðina í 4 og 5. Ég fór niður að Torfastöðum með Agli logsuðumanni.
Lík Olavs heitins fannst. Var það á svokallaðri áveitu, sem er vestur af Efstadal. Hafði hann auðsjáanlega ætlað að rekja sig með girðingu sem liggur frá grundarhúsunum í Efstadal suður að Brúará, en sökum dimmviðris tekið skakka girðingu og lent suður á áveituna.

Laugardagurinn 2. mars
Suðvestan kaldi, rigning af og til, 5°hiti. Ég batt upp tómata í 6 og lauk því.
Gröf Olavs var tekin af Bergi. Systir Olavs heitins og maður hennar komu hingað.

Mánudagurinn 3. mars
Norðaustlæg átt, bjart veður, 5°frost.
Jarðarför fór fram á Torfastöðum.
Í framhaldi af þessum lestri komst ég að því að Olav sá sem þarna lét lífið hét fullu nafni Olav Sanden og systir hans, Liv Sanden var kona Stefáns Þorsteinssonar, garðrkjufræðings í Hveragerði á þessum tíma. Þau höfðu gengið í hjónaband 1938. 1946 fluttu Liv og Stefán að Stóra-Fljóti og bjuggu þar saman til 1951, en þá lést Liv úr berklum. Stefán bjó áfram á Stóra-Fljóti til 1956. Hann lést 1997.



 Myndin er komin frá Jarle Sanden í Molde í Noregi, með aðstoð Sigrúnar Stefánsdóttur, dóttur Stefáns og Liv. Á henni eru Liv og Stefán, ásamt elstu börnum sínum, Aðalbjörgu (f. 1940), Þorsteini (f. 1938) og Guri Liv (f. 1941). Mynd: Vigfús Sigurgeirsson (1943).


29 september, 2013

95 ára unglingur

Ég hef stundum kallað föður minn "gamla unglinginn". Þetta með að hann sé orðinn gamall, segir sig svo sem sjálft, maðurinn kominn vel á tíræðisaldur. Unglingsnafngiftin er nú til komin einfaldlega vegna þess hve vel honum hefur tekist að viðhalda æsku sinni í anda. Hann á afskaplega létt með að gera að gamni sínu, tala þvert um hug sér til að ögra til umræðna og skopskynið er aldrei langt undan. Þessir eiginleikar hans hafa kosti og galla. Kostirnir eru þeir að hann er einstaklega auðveldur í umgengni og kvartar aldrei og kveinar. Gallarnir eru þá augljóslega sá persónueiginleiki hans að vera ekkert fjalla um líðan sína, þarfir, vonir eða væntingar. Það er eitthvað sem hann heldur mikið til hjá sjálfum sér. Hann biður ekki um aðstoð nema í ýtrustu neyð. Það hefur löngum einkennt hann að fara sínar eigin leiðir  án þess að vera mikið að ræða það. Þannig var það þegar hann kom heim einn daginn fyrir um 50 árum, akandi á brúna
Sigurður Blöndal og Skúli.
Landróvernum, splunkunýjum úr kassanum, án þess nokkur úr fjölskyldunni hefði grun um að það stæði til að kaupa bíl.
Ég held að mér sé alveg óhætt að halda því fram að pabbi sé bara ansi skemmtilegur kall, þó ekki hafi hann nú verið sérlega áberandi, eða látið mikið fara fyrir sér út á við.

Hann fæddist á Rangárlóni í Jökuldalsheiði á þessum degi árið 1918. Foreldrar hans voru þau Ingibjörg Björnsdóttir, fædd á Seyðisfirði og Magnús Jónsson frá Freyshólum ( í Vallahreppi) á Héraði. Fyrstu 4 æviár hans, bjó fjölskyldan á Rangárlóni og börnunum fjölgaði. Hann var þriðji í röð 6 systkina að komust á legg. Tveir eldri bræður hans voru Alfreð og Haraldur, en yngri en hann voru þær Björg, Sigfríður og Pálína. Um 1922 flutti fjölskyldan í Freyshóla, en þegar pabbi var 6 ára fór hann í fóstur í Mjóanes til Sigrúnar og Benedikts Blöndal. Þau stofnuðu Húsmæðraskólann á Hallormsstað nokkrum árum síðar og hann flutti þangað með þeim og ólst upp hjá þeim eftir það.
Skúli og Guðný
Um tvítugt, eftir að hafa stundað nám í Menntaskólanum á Akureyri í tvö ár, hugðist hann fylgja eftir þeim fyrirætlunum sínum að læra garðyrkju. Til að komast í það nám þurfti hann að hafa starfað í greininni í einhvern tiltekinn tíma og það varð úr að hann hóf störf hjá Stefáni og Áslaugu á Syðri-Reykjum hér í Biskupstungum. Á þeim tíma sem hann var þar mótaðist samband þeirra mömmu og þau hófu síðan búskap sinn í Hveratúni árið 1946. Ári síðar fæddist fyrsta barnið, en þau urðu 5 þegar upp var staðið.
Í Hveratúni bjuggu þau svo bara allan sinn búskap. Mamma lést árið 1991 og því hefur pabbi búið einn í ríflega tuttugu ár.
Fyrir rúmu ári flutti hann svo á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Lund á Hellu og dvelur þar í góðu yfirlæti, gerandi að gamni sínu við konurnar.

18 maí, 2013

"Framsóknarflokkurinn er ekki til lengur"

Þessi fyrirsögn á rætur sínar að rekja til heimsóknar minnar til aldraðs föður í dag, en sá hefur löngum haldið því fram að hann væri framsóknarmaður. Ég ólst upp við að Tíminn væri eina dagblaðið sem mark væri á takandi og að Kaupfélag Árnesinga væri eina verslunin sem maður stygi fæti inni í. Höfn (alræmd verslun íhaldsins) kom ég ekki inn í fyrr en ég var farinn að öðlast talsvert sjálfstæði í þessum efnum. Hin síðari ár hef ég svo sem fengið á tilfinninguna að trú föður míns á að framsóknastefnan, með nýjum herrum þar á bæ, væri farin að gefa sig. Þetta hef ég skynjað með því hvernig umræðu um ágæti flokksins hefur fylgt tiltekið glott, sem sá gamli lætur að öllu jöfnu fylgja yfirlýsingum sem ganga þvert á raunverulegar skoðanir. Einhverju sinni hélt hann því fram, að eftir Steingrím hafi framsóknarflokkurinn misst fótanna, vikið af braut þeirra hugsjóna sem honum var ætlað að halda á lofti. Blómatími hans hafi verið í tíð Eysteins Jónssonar.

Hvað um það.

Ég kíkti sem sagt til þess gamla í dag, en þar hefur, í náttborðinu hans, verið að þvælast, frá því fyrir kosningar, kaffipoki sem mun hafa verið ein þeirra gjafa sem framsóknarflokkurinn deildi út til líklegra kjósenda í aðdraganda kosninga. Pokinn "skartar" mynd af formanninum ásamt hvatningunni um að aflétta umsátrinu um íslensk heimili (fyrirgefið, en rétt í þessu fann ég til ónota í maganum). Þessi poki hefur legið þarna óhreyfður, enda hefur gamli maðurinn ekki aðgang að kaffivél til að hella upp á, og hefur reyndar yfirleitt ekki stundað slíka iðju, að ég tel. Við ræddum þennan poka lítillega og það var þá sem fyrirsögn þessa pistils hrökk upp úr hinum aldraða framsóknarmanni.

Hvað sem systkin mín segja um það (alræmt framsóknarfólk, sum hver ;)), þá tók ég þennan poka með mér heim og nýtti innihaldið mér til síðdegishressingar. Það er ekki laust við að tilfinningar mínar til framsóknarflokksins hafi gerbreyst við að neyta drykkjarins, .........eða þannig. Ég er þess fullviss, að hann muni nú sýna og sanna úr hverju hann er gerður, með kaffipokaskrautið í fremstu víglínu. Við munum vonandi sjá sumum íslenskra heimila gert gott. Umsátrinu um þau mun vonandi ljúka - vonandi ekki á kostnað þeirra heimila sem ekki upplifðu þetta umsátur.

Kaffið var ágætt.

24 febrúar, 2013

Aflgjafi fólksins

Ég hef verið hálf orkulaus undanfarin ár.
Mér varð ástæða þess ljós í gær.
Ég komst líka að því hvað það er sem hafði valdið því, að smám saman átti ég erfiðara með ýmislegt í daglegu lífi mínu: lélegri við að fara úr með ruslið, latari við að fara í kirkju, hættur í kórnum, tæmdi ekki gamla hreiðrið úr fuglahúsinu, hætti að nenna að blogga af eins miklum krafti og áður...... Svo má lengi telja upp þætti í lífi mínu sem ég hef smám saman hætt að sinna af sama krafti og áður. Mér datt aldrei í hug að leita skýringarinnar á ástandinu, enda hafði ég ekki áttað mig á að það væri fyrir hendi. Það virðist hafa sigið yfir mig, fyrst eins og gagnsæ hula sem smám  saman varð þykkari, þar til ég var nánast kominn á hættusvæði í ýmsum skilningi, þar sem hvaeiðana gat gerst án þess ég hefði dug í mér til að takast á við það.

Þetta hefur komið jafn mikið aftan að mér og dvínandi sjónin. Ég las alltaf talsvert mikið áður fyrr, en upp úr fertugu fór að draga úr lesáhuganum, að það var ekki fyrr en eftir um fimm ár dvínandi lestraráhuga, að ég uppgötvaði að ég þyrfti að fá mér gleraugu.

Það er eins með þetta sem ég uppgötvaði í gær.

Sem oft áður lagði ég leið mína á Hjúkrunarheimilið Lund til að hitta aldraðan föður, sem vill helst aldrei vara sammála síðasta ræðumanni, jafnvel þó hann sé það. Þarna var marg rætt, og í tilefni þessarar miklu helgar pólitískrar pælinga og stefnumörkunar, var pólitíkin rædd eftir því sem tilefni gafst til. Gamli maðurinn var framsóknarmaður og þar af leiðandi áskifandi að Tímanum. Kaupfélag Árnesinga sá heimilinu fyrir helst öllum vörum. Höfn kom ég ekki inn í á æskuárum nema ef til vill fyrir einhver hrapalleg mistök.
Mig grunar, og hef fengið þann grun nokkuð vel staðfestan eftir ýmsum leiðum, að síðan Steingrímur hætti sem formaður, hefur hugsjónin sem þessi stjórnmálaflokkur byggði tilveru sína á, látið á sjá, ekki síst fyrir það að mengun hugarfarsins í áralöngu samstarfi við helsta andstæðinginn og orðrómur um að forystumennirnir væru gagnsýrðir af spillingu, að sá gamli hafi orðið afhuga þessum flokki, en það hefur hann auðvitað aldrei viðurkennt. Þvert á móti er hann ávallt tilbúinn að verja hugsjón samvinnuhreyfingarinnar, hugsjón samvinnu og bræðralags, sem virðist nú ekki vera lengur til og margir fyrrum forystumenn gengnir í björg þar sem þeir leggja stund á andstæðu samvinnu og bræðralags.
Meðal þess sem kom til umræðu á Lundi í gær var dagblaðalestur. Ég lýsti skoðunum mínum á blaðsneplinum sem ég hef ekki einusinni lesið forsíðuna á, frá því fyrrum seðlabankastjóri tók við ritstjórninni. Þá glotti sá gamli og sagði: "Mogginn er aflgjafi fólksins." Við það rann upp fyrir mér ljós. Auðvitað var þarna komin ástæðan fyrir magnleysi mínu og sinnuleysi undanfarin ár.

Megi ég halda áfram að vera latur að fara út með ruslið.

24 desember, 2012

"Þessi er sterk"

 Nú er upp runninn aðfangadagur, rétt eina ferðina. Ég er óendanlega árrisull nú sem aðra morgna, og er reyndar löngu búinn að átta mig á því, að slíku háttalagi fylgja margir kostir (ég nefni ekki gallana á degi sem þessum).
Fyrst það er kominn aðfangadagur þá var auðvitað Þorláksmessa í gær. Hún hefur undanfarin, allmörg ár falið í sér að fD og gamli unglingurinn hafa átt saman ágæta stund þar sem fjallað hefur verið um hvernig skatan væri það árið og síðan hafa þau sameinast í að gera þessu skemmda sjávardýri skil með sínum hætti. Minn hlutur og flestra þeirra sem einnig hafa tekið þátt í þessu borðhaldi, hefur verið sá,að snæða aðrar tegundir fiska með fullum skilningi á sérviskulegu skötuátinu og þar með höfum við leyft gegnsýrandi ilminum að leika um lyktarfærin allt um kring þessa átveislu þeirra félaganna í skötudýrkun.

Í gær var sá gamli fjarri góðu gamni.

Í aðdragandanum var fD í talsverðum vafa um hvort hún færi að standa í að sjóða skötu fyrir sig eina, en ég hvatti hana til þess að láta vaða með óljósu loforði um að ég kynni að freista þess að láta af skötubindindinu þó í litlu yrði. Það var keypt skata (eða "það var versluð skata" eins og þeir sem mæla á nútíma íslensku vilja hafa það). Henni var svo skellt í pottinn þegar leið að kvöldverði. Til vara, og fyrir eina Kvisthyltinginn auk okkar, sem heima var, voru þrjár aðrar fisktegundir á boðstólnum.  Innra með mér var ég búinn að búa mig undir það að takast á við að reyna einu sinni enn að aðlaga mig því að koma ofan í mig þessum ókræsilega mat. (Fyrir utan það, að lyktin er síður en svo aðlaðandi þá sér maður nú varla neitt ókræsilegra á borðum en nýsoðna skötu). Ég lagði mig fram um að sýnast svalur þar sem ég settist að borðinu.

"Úff, þessi er sterk" fD gefur skötu ávallt styrkleikaeinkunn og þar með hafa þau gamli maðurinn getað tengst í umfjöllun um ákveðið málefni. Nú þurfti hún að segja þetta upp úr eins manns hljóði, þar sem ég beið litla stund áður en ég tók þá stóru ávörðun að skella mér á barð. Setti það á diskinn minn og fékk síðan leiðbeiningar frá reynsluboltanum um hvernig best væri að aðskilja það sem maður setur ofan í sig frá hinu sem er síður ætt. Að því búnu skellti ég vel af kartöflum og vel af hamstólg yfir og allt um kring. Því næst tók við það sem átti að verða samstöðuát. Ég, sem sagt, skellti í mig fyrsta bitanum.

Ég held að það sé engum manni hollt, og allra síst á aðfangadegi jóla, að þurfa að lesa um það sem þessu fylgdi. Fyrsti þáttur þess átti sér stað þar sem ég bar gaffalinn upp að opnum munni og gerði þau stóru mistök að anda að mér um leið. Þeir sem borða skötu vita örugglega hvað ég er að tala um. Ég gafst ekki upp þrátt fyrir þá hnökra sem þarna urðu í byrjun. Gegnum þykkt og þunnt var ég ákveðinn í að sýna samstöðu með fD, sem annars hefði í einsend svitnað yfir þessum uppáhalds mat sínum. Eftir fjóra bita, sem ég naut engan veginn, voru líkamleg áhrif orðin of mikil til að áfram yrði haldið. Mér hafði láðst að setja vatn í glas til að skola "matnum" niður með, en mér hafði ekki láðst að bera á borð tiltekna framleiðslu frá Álaborg (til að sýna Kvisthyltingum sem þar búa alla jafna, samstöðu. Ég er á fullur í allskonar samstöðu um þessar mundir) sem kom beint úr frystinum. Það var af þessum sökum, einnig, sem allt stefndi í óefni undir máltíðinni. Álaborgardrykkinn notaði ég til að skola skötunni niður, hann virkaði algerlega bragðlaus og átti ekki séns í skötuna þegar kom að því að kyngja. Mér hafði bara láðst að setja á borð nægilega stórt glas og því þurfti ég  að hella alloft í glasið (var orðið skítkalt á hægri hendinni).

Þarna varð sá hluti máltíðarinnar sem sneri að þessum brjóskfiski, eins og sjá má af framansögðu, fremur endasleppur. Það var ekki þannig hjá fD, sem með glampa í augum, dásemdarorð á vörum og svitaperlur á enni, skóflaði dýrindismatnum í sig eins og enginn væri morgundagurinn.
Aðrar fisktegundir voru alveg ágætar.
-------------------
Ég læt mér í léttu rúmi liggja þótt einhver ykkar sem þetta lesið, líti viðhorf mín til skötuáts hornauga og telji afstöðu mín þar til bera vott um aumingjaskap eða gikkshátt. Ég hef lagt  mig fram um að sýna samstöðu og það er fyrir mestu.
-------------------
Með því að nú er framundan jólahátið þykir mér við hæfi að senda tryggum lesendum þessara stopulu bloggskrifa, bestu óskir mínar um að jólin verði þeim sem allra indælust. 
Við hugsum til barnanna, tengdadætranna og barnabarnanna í Hjaltadalnum og Ástralíu og hlökkum mikið til að sameinast um áramótin.

03 ágúst, 2012

Rangárlón eða Rangalón

Sagnfræðingur ætla ég ekki að þykjast vera. 
smella á myndir til að stækka
Önnur ástæða þess að ég er að fjalla hér lítillega um Rangárlón/Rangalón í Jökuldalsheiði, er að þangað lá leið á ferð um landið fyrir nokkrum dögum. Ég var svo sem búinn að sjá rústir bæjarins  í talsverðri fjarlægð í fyrri ferðum yfir Möðrudalsöræfi, en nú tókst mér (með nokkurri aðstoð) að finna slóða sem liggur heim í hlað á þessum bæjarrústum í heiðinni.  




Sænautasel
Sænautasel, heitir bærinn sem stóð við suðurenda Sænautavatns, þar er skemmtileg ferðaþjónusta: við langborð í fyrrum lambhúsi er t.d. hægt að setjast niður og fá sér heitt kakó og nýbakaðar lummur hjá vertinum, skemmtilegum karli á sjötugsaldri, sem þarna fæddist og ólst upp til 11 ára aldurs. Hann sagði að það væri klukkustundar gangur frá Sænautaseli í Rangárlón, og gerði tilraun til að lýsa hvernig best væri að komast þangað akandi, en Rangárlón er við hinn enda ílangs vatnsins.

Hvernig tengist þetta mér svo?
Hin ástæðan fyrir þessari færslu snýr að tengingu minni við þetta eyðibýli í Jökuldalsheiðinni.
Í 3-4 ár, nánast þau síðustu í ábúendasögu Rangárlóns, árin 1918-1921 eða 1922 bjuggu afi minn Magnús Jónsson (1887-1965) og amma, (Sigríður) Ingibjörg Björnsdóttir (1893-1968), á þessu heiðarbýli. Þau fluttu þarna uppeftir  með tvo syni, þá Alfreð (1914-1994) og Harald (1915-1991). Árið sem þau fluttu fæddist þriðji sonurinn Skúli (1918- ), sem er einmitt hlekkurinn milli mín og Rangárlóns. Hann fæddist, sem sagt, í Jökuldalsheiði veturinn eftir  frostaveturinn mikla, sem er fremur kuldaleg tilhugsun. Fjórða barn sitt, þeirra sex sem upp komust, og fyrstu dótturina, eignuðust afi og amma ári eftir flutninginn, en það var Björg (1919-1982). Þriðja barnið sem fæddist í heiðinni var Sigfríður (1921-1993). Árið eftir að Silla fæddist, eða sama ár, (Íslendingabók) flutti fjölskyldan í Freyshóla á Héraði, en þar fæddist afi. Þar eignuðust þau tvíbura. Annar lifði, en það var Pálína (1925-1987). Alls munu afi og amma hafa eignast 10 börn, en það var nú bara veruleiki þess tíma, að barnadauði var talsvert stærri partur af veruleikanum en við eigum að venjast nú.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef þá urðu barnabörn afa og ömmu 19 að tölu:
Alfreð eignaðist 3, Skúli 5, Björg 10 og Pálína 1.

-----------



Afkomenda hvað?
Ítrekað hefur það komið fram í samtölum, ekki síst að undanförnu, en einnig um árabil, að það væri kominn tími til þess að afkomendur Magnúsar og Ingibjargar blésu til afkomendahátíðar. Það mál er nú komið svo langt, að vonir standa til að af þessu verði sumarið 2013. Sjálfskipuð nefnd skipar sig og leitar síðan leiða til að hafa upp á öllum sem geta gert tilkall til að tilheyra svo glæstum hópi sem þarna gæti komið saman.  Það hefur nánast verið ákveðið að þessi hátíð verði haldin á viðeigandi stað á Héraði, eða í Jökuldal.

-----------

Það er spurningin um Rangárlón eða Rangalón. 
Því meira sem ég skoða um þennan stað, því sannfærðari er ég um, að hann heiti Rangárlón. Eini gallinn á þeirri niðurstöðu er, að ég hef ekki fundið neina Rangá þarna í nágrenninu. Þetta er eina dæmið um á með þessu nafni austanlands. Þá átta ég mig  ekki heldur á því, hversvegna bærinn heitir RangárLÓN, þar sem hann stendur á bakka Sænautavatns og ekkert lón sjáanlegt í nágrenninu.

Fyrir utan það, að eldri heimildir virðast nota nafnið Rangárlón, þá tel ég aldeilis útilokað, að einhver taki upp á því að nefna bæinn sinn Rangalón - sem væri þá væntanlega andstæðan við Réttalón - fyrir utan það að þarna er ekkert lón, hvorki rétt né rangt.

----------

Hafi einhver sem þetta les, athugasemdir, vegna betri þekkingar á þessum málum, bið ég hann hafa samband við mig svo mér auðnist að leiðrétta mögulegar rangfærslur sem fyrst.


15 apríl, 2012

Sálin er ægileg eyðimörk


Þau tíðindi hafa gerst að hrafnapar er búið að byggja sér laup hér í Laugarási. Mikil og vönduð smíð, eins og myndin ber með sér.
.........
Gamli unglingurinn heldur fram að velta fyrir sér forsetaframbjóðendum -  horfir yfirleitt bara á eina myndanna. Ég hef nú bent honum á hinar líka, þar sem það sé mikilvægt að kynna sér fleiri möguleika.
Hann leit stuttlega á myndina af karlframbjóðanda nokkrum, sem ég leyfi lesendum bara að giska á, og sagði að, jú, hann tæki sig svo sem ágætlega út á mynd, en sálin væri óttaleg eyðimörk.  Þessi yfirlýsing kom mér talsvert á óvart, enda sá gamli ekki vanur að fella neikvæða dóma yfir fólki, öllu jöfnu. Þá kom skýringin:

Þinn líkami er fagur sem laufguð björk 
en sálin er ægileg eyðimörk.

Þetta mun vera eftir Davíð Stefánsson

Mig grunar að sá gamli hafi téð álit á frambjóðandanum, þótt hann gripi til þess að vísa í Davíð.

Meira úr smiðju Þórðar Kárasonar

Halla og Eyvindur eru aðalpersónurnar
í leikriti Jóhanns Sigurjónssonar, 

Fjalla-Eyvindur: Leikrit í fjórum þáttum.
Sænski kvikmyndaleikstjórinn Victor Sjöström
(1879-1960) gerði kvikmynd eftir leikriti
Jóhanns árið 1918 og heitir hún á sænsku
 
Berg-Ejvind och hans hustru.
Þar fór Sjöström sjálfur með hlutverk Eyvindar.
Það kann vel að vera að einhversstaðar sé haldið saman kveðskap Þórðar Kárasonar frá Litla Fljóti í Biskupstungum. Það virðist þó ekki vera í því formi að hægt sé að finna í þessum rafræna miðli. Í gær skellti ég hér inn sálmi eftir Þórð, nú bæti ég aðeins við af blöðum þeim sem ég fékk úr fórum gamla unglingsins:

Vísur úr eftirsafni 1942

Drjúgum jóar teygja tær
traust með hófa blökin.
Nokkrir menn með tíkur tvær
tóku að hirða rökin.

Á Hveravöllum

Hefst upp þungur hugurinn
hrindir drunga gráum.
Verðum ungir í annað sinn
ef við sungið fáum.

Skyldi þetta ganga greitt
þó gott sé í meðlætinu.
Vilja rommið aðeins eitt
en ekki neitt af hinu.

Veisla er næg sem vera ber
við skulum hafa gaman
einu sinni á ári hér
er við komum saman.

Hér er maður hírgaður
húsa kostir góðir,
ólíkt því er Eyvindur
einn var hér um slóðir.

Á beinahólnum

Minjar treinast, maður sér
og mikinn gerði skaða,
þegar beinin báru hér
bræður Reynisstaða.

Þöglum huga ég hólinn lít
hér í veldi fanna.
Bera vitni beinin hvít
byljum öræfanna.

Veður grimmd og hörku hjarn
höfðu völd og ráðin,
þegar Einar, aðeins barn,
ævi sleit þar þráðinn.

...................

Alltaf hressir huga minn
heiða blærinn tæri.
Flýti ég  mér í faðminn þinn
fjallahringur kæri.

Fyrst veröldin slíkt veitir hnoss
oss vermir þessi skál.
Við skulum bara skemmta oss,
já, skemmta af lífi og sál.

Veginn ríðum við í kveld
varla kvíðum trega.
Okkur líður, að ég held,
alveg prýðilega.

Ekki verða kjörin köld
það kætin yljar geði.
Syngdu þessa alveg öld
út, og haltu gleði.

Við lestur bókar

Finn ég streyma andans yl
út frá þessum brunni.
Ég hef fengið, af og til,
ást á kerlingunni.



14 apríl, 2012

Til huggunar ógiftum bændum

Í fórum gamla unglingsins fann ég nokkur blöð með vísum eftir Þórð Kárason frá Litla-Fljóti. 
Þrátt fyrir ítrekað gúgl, finnst sálmur þessi ekki:

Einn lítill sálmur til huggunar nokkrum ógiftum bændum.
(Mig grunar hverjir sumir þeirra, sem hér ert ort um, eru, en þætti afskaplega gott að fá um þetta upplýsingar, því ég veit að þær eru til)

Margt er skrítið mannheimi í
margur fær að kenna á því
ýmsir konur eignast tvær
en aðra bara vantar þær.
Hamingjan er einum ýfð en öðrum kær.

Jón einn tel ég mektarmann
marga vegi ryður hann
aura því hann eignast sand
en enga hann fær í hjónaband.
Undarlegar eru stúlkur oft í bland.

Drengja hefur Siggi sveit
sá kann bæði margt og veit,
kvonbænir þó kennt ei fær
kunnað aldrei hefur þær
ellegar þá engin vill hann ógift mær.

Lindi eignast kindur kann
konu bara vantar hann.
Þær vilja honum ekki leggja lið
þótt liðugt dansi hann þær við.
Öfugt verður einhvernveginn átakið.

Gvendur var að gá að þeim
og gera sér ferð til þeirra heim,
en þær litu ekki við,
allavega gengu á snið
og svartan skugga settu yfir sjáaldrið.

Einar, bæði í hljóði og hátt,
huga snýr til meyja þrátt,
en þær brúka svona sið
að setja upp kamb og líta ei við.
Kynlegt er hvað kalt er stundum kvenfólkið.

Þraut er fyrir Þorsteins skinn
þrátt að steita piparinn
og bágt er meðan fullt er fjör
að fljóðin séu á blíðu spör.
Kannski hann giftist áður en hann kemst í kör.

Konu vantar Eirík enn
ætli það geti lagast senn
þó að það gangi þetta seint?
En þeir vita sem hafa reynt
að það er vont að eiga ekki eina, alveg hreint.

Dóri fær hjá drengjum lof
en drósa skorti hylli um of.
Veit ég ei hvað valda kann,
þær vilja ei slíkan dánumann.
Hann einhvern veginn aldrei á þeim lagið fann.

Páll er dauður æðum úr
ungar þó hann líti frúr.
Eitt sinn þó hann ungur var
eða það héldu meyjarnar,
en allt var sama, ekki nokkurn ávöxt bar.

Þyljið, piltar, þennan söng
þegar nótt er myrk og löng
og ykkur verður lífið leitt
og lundin bæði körg og þreytt.
Það er betra að eiga eina, en ekki neitt.

Kosningaáróður og hrákasmíði

Í morgun tók ég á mig rögg og bjó til hafragraut handa gamla unglingnum, sem var nú reyndar farinn að kólna þegar hann kom sér framúr.
Börnin hans, elskuleg, eru farin að tjá skoðanir sínar á hinum ýmsu frambjóðendum til embættis forseta Íslands með því að prenta út myndir af, væntanlega, uppáhalds frambjóðendum sínum og stilla upp á áberandi stað.
Sá gamli hefur nú ekki nýtt kosningarétt sinn í afar mörg ár, þannig að ég tel að þarna sé frekar um að ræða að Hveratúnsbörnin séu að ögra hvert öðru, því varla telja þau að húsráðandinn fáist á kjörstað í lok júní.
Hann talar mikið um hve vel honum líst á "þessa konu".

Vísan sem rann upp úr gamla unglingnum í morgun, eftir að hann hafði rennt hafragrautnum niður ("Þetta er nú bara góður grautur hjá þér. Þú ert bara húslegur, Það sópar af þér í eldhúsinu") reynist við gúglun vera eftir Dýrólínu Jónsdóttur (1877-1939)

Meyjan keypti meðalið
sem mýkti fegurð líkamans.
Hún var að reyna að hressa við
hrákasmíði skaparans.



Tildrög: Stúlka nokkur, sem Dýrólína kannaðist við keypti, fegrunarkrem sem í þann tíð gekk undir nafninu 'fegrunarmeðal'. Þá orti Dýrólína vísu þessa.

22 mars, 2012

Loðfirðingarógur

Nýjasta vísan sem gamli unglingurinn skellti fram nú áðan fjallar um rógburð, sem ekki verður nægilega hefnt fyrir.

Að launa það þú laugst á mig,
Loðfirðingarógur,
hrykki ekki að hýða þig
Hallormsstaðaskógur.

Loðfirðingur mun vera einstaklingur frá Loðmundarfirði.

Tildrög:Við skoðun reyndist þessi vísa vera eftir Pál Ólafsson. Ekki er vitað hverju séra Sigurður Gunnarsson á Valþjófsstað á að hafa logið á Pál en ekki hefur Páll verið ánægður með það. Um það ber þessi ferskeytla hans vott.

27 janúar, 2012

Kjaftasaga úr fortíðinni

Gamli unglingurinn fer oft með vísur af ýmsu tagi, meðal annars þessa,s em hann segir vera eftir Þórð Kárason frá Litla-Fljóti (d. 1968):
Margt er skrítið mannheimi í,
margur fær að kenna á því.
Ýmsir konur eignast tvær
en aðra bara vantar þær.
Hamingjan er einum ýfð
en öðrum kær.

Ég hef nú auðvitað innt þann gamla eftir því um hverja er verið að yrkja, en hann hefur löngum ekkert þóst vita um það. Í gær lét hann þó vaða, en ég er ekki viss um það sé rétt af mér að upplýsa um þau nöfn sem þarna er um að ræða. Ég læt því nægja þessu sinni gefa það upp, að um er að ræða karla sem allir áttu heima rétt fyrir neðan miðja sveit, annarsvegar heilmikinn kvennamann (að sögn gamla) með upphafsstafina G.I. en hinsvegar bræður tvo sem aldrei voru kvæntir og jafnvel ekki við konu kenndir, hvað veit ég?

05 nóvember, 2011

Dæmir þær úrhrök

Í morgunsárið fór gamli unglingurinn með fyrstu vísuna, ég fann síðan framhaldið með mínum aðferðum.





Ég þekki konur með eld í æðum 
frjálsar í skapi, fyndnar í ræðum,
sem þekkja lífið og lífsins sorgir
en minnast aldrei á brunnar borgir.


Æskan er svívirt og eiðar lognir
en brennumennirnir í burtu flognir.
Heimurinn dæmir þær hyggju spilltar
um nætur bestar, í nautnum villtar.

Dæmir þær úrhrök og einskis virði
og dræpi þær eflaust ef hann þyrði.
"Heimur, skolaðu hendur þínar,
ég þekki sjálfur systur mínar."

Konur sem dansa með dauðann í hjarta.
Þær kunna að elska en ekki að kvarta.
Konur sem hlægja og hylja tárin,
þær brosa fegurst þá blæða sárin

Böðvar Guðjónsson frá Hnífsdal


Nú er ekkert annað fyrir áhugamenn en að velta fyrir sér hvað hér býr að baki.

27 september, 2011

"Það er ekkert að geeeraaa!"

Ég hugsa að þeir séu ansi margir foreldrarnir sem kannast við þessa setningu hjá börnum sínum. Svarið í mínu tilviki hefur nú oftast verið eitthvað í þessa veruna: "Finndu þér þá eitthvað að gera", nú eða "Hvernig væri að fá sér bók og fara að lesa?"

Þessar aðstæður hafa komið aftur og aftur upp í hugann undanfarna daga við að hlusta á fádæma vælið í þessum forkólfum atvinnulífs í landinu. Það er eins og þeim finnist að Jóhanna mamma og Steingrímur pabbi eigi að finna eitthvað fyrir þá að gera.

Þeir hegða sér eins og ofdekraðir unglingar sem gera kröfur á alla aðra en sjálfa sig.

Ég fæ mig ekki til að skilja þennan ótrúlega þreytandi málflutning öðruvísi en svo að annað búi að baki en einhver raunveruleg andstaða ríkisstjórnarinnar við að atvinnulíf fari í gang.
Það er markvisst verið að vinna að því að koma þessari stjórn frá. Svo einfalt er það nú í mínum huga.

Svo sorglegt sem það er nú, þá virðist málflutningurinn ganga í þjóðina.

Ég hef áður fjallað um þjóðina - hún er eins og hún er.

18 júní, 2011

...og þá fer hún að mala

Ég hef áður skráð á þessum síðum vísur sem gamli unglingurinn fer með, eftir því sem honum þóknast. Oft nefnir hann hvað honum finnst gott þegar er komin kona í eldhúsið, en hefur jafnframt takmarkað álit á því þegar ég er að bardúsa þar, enda telur hann slík verk ekki vera við hæfi karlmanna.

Þessi vísa spratt fram þegar fD kom til að hafa til kaffið:


Komir þú á bæ þar sem kaffi er ekki á borðum
og kunnir ekki við að biðja um það með orðum.
Stattu þá hjá frúnni' um stund án þess að tala,
strjúktu henni um bakið og þá fer hún að mala.


Á vefnum skagafjörður.is er vísan, en þar er hún svona:

Komir þú á bæ þar sem kaffi er ekki á borðum
og kunnir ekki við að biðja um það með orðum.
Stattu við hjá frúnni og stilt þig um að tala
strjúktu henni um bakið og þá fer hún að mala.

Höfundur:
Guttormur J. Guttormsson skáld í Vesturheimi f.1878 - d.1966

Fleiri eru vísurnar sem hafa verði skráðar eftir þeim gamla í minnisbók sem liggur frammi.

Ekki fann ég höfund þessarar:

Austur í sveitum býr ágætis fólk,
með úttroðinn maga af skyri og mjólk.
Þar er mörg jómfrúin, þjóðleg og spræk
og þaðan er Einar frá Geldingalæk.

Þessi vísa Þórðar Kárasonar kemur alloft fyrir:

Margt er skrítið mannheimi í
margur fær að kenna á því.
Ýmsir konur eiga tvær,
en aðra bara vantar þær.
Hamingjan er einum ýfð
en öðrum kær.

Þarna mun Þórður hafa verið að yrkja um einhverja sveitunga. 
Ég fann ekki staðfestingu á að vísan væri eftir Þórð.

Þessi er eftir einhvern gárunga á S.-Reykjum, á þeim tíma sem sá gamli var þar við störf:

Lúter og Jensen líða þraut,
þau lífsins börn.
Elta báðir, eins og naut,
Ernu á Tjörn.
(Lúter hét Marteinn Lúther (Sk.M.) og Jensen var aldrei kallaður annað en Jensen í mín eyru. Erna er náttúrulega Erna Jensdóttir, húsfreyja á Tjörn í Biskupstungum)

Loks er vísa sem ég hef ekki fundið höfund að, og því ekki upplýsingar um hver Ingibjörg var:

Ingibjörg er aftandigur,
en örmjó að framan.
Skyld'ekki mega skera'na sundur
og skeyta'na saman?

18 apríl, 2011

Auðs þótt beinan akir veg

Til umræðu hjá gamla unglingnum var ásókn fólks í veraldleg verðmæti og völd. Þá rann þessi vísa upp úr honum:
Auðs þó beinan akir veg
ævin treinist meðan,
þú flytur á einum eins og ég
allra seinast héðan.
Við rannsókn mína á uppruna þessarar komst ég að því á vef Skjalasafns Skagfirðinga að vísan er eftir Einar Andrésson. Tildrög hennar munu vera þessi:
Einar fór einhesta að sækja sér björg í bú og mætti þá sveitunga með klyfjaða lest. "Þú flytur þá á einum, karltetrið" sagði sveitunginn, en Einar svaraði með þessari vísu. 
 Það var nú ekki mikil framsóknarmennska í annarri vísu sem sá gamli skellti fram í tengslum við yfirgang og frekju í samfélaginu, með sérstakri tilvísun í síðasta útspil ákveðins, valdamikils þjóðfélagshóps:
Ef að kraftur orðsins þver
á andans huldu brautum
gefa á kjaftinn verðum vér
vorum skuldunautum. 
Þessi vísa er eftir Káin. - K.N. - Kristján Níels Jónsson

Ekki fæ ég betur séð en þarna sé flytjandi vísunnar að hvetja til  uppreisnar gegn auðvaldinu í landinu.
Sko til! - Margt vitlausara.

Í útlöndum er ekkert skjól

Kvisthyltingar þeir að hafa kosið að dvelja til skemmri eða lengri tíma erlendis, koma stundum til tals í samræðum við gamla unglinginn, sem alloft hefur átt sinn þátt í að efla andagift við þessi skrif.  Það bregst ekki, þegar 'útlendingana' ber á góma, að sá gamli skýtur þessu að, á einhverjum tíma:


Ja, í útlöndum er ekkert skjól,
eilífur stormbeljandi.
sagði skáldið.

Hann vissi nú ekkert hvaðan þetta var komið og uppi hafa verið kenningar í samræðunni um, að hér hafi verið á ferðinni einn úr fyrri bylgju útrásavíkinga okkar, sem gisti kóngsins Kaupmannahöfn á einhverjum tíma, áður fyrr.

Myndin sem var þarna dregin upp, var af Íslendingnum, sem fór utan í leit að fé og frama, en reyndist  þegar upp var staðið, hafa dottið í það þar ytra og legið úti allan veturinn fyrir hunda og manna fótum, síðan komið heim í heiðardalinn og gert lítið úr því að dvelja ytra vegna þeirra aðstæðna sem að ofan er lýst.
Forvitni mín um uppruna þessara lína hefur aukist jafnt og þetta og loks tók ég mig til og gúglaði. Niðurstaðan var hreint ekki sú sem ég átti von á.
Hér er um að ræða línur úr vögguljóði eftir Nóbelsskáldið, en vissulega virðist það ort til að dásama dýrð og fegurð föðurlandsins og allt það skjól og öryggi sem það veitir þegnum sínum:
Íslenskt vögguljóð (á Hörpu)
Ég skal vaka og vera góð
vininum mínum smáa
meðan óttan rennur rjóð,
roðakambinn bláa,
og Harpa syngur hörpuljóð
á hörpulaufið gráa.

Stundum var í vetur leið
veðrasamt á glugga:
var ekki' eins og væri' um skeið
vofa' í hverjum skugga?
Fáir vissu að vorið beið
og vorið kemur að hugga.

Sumir fóru fyrir jól.
fluttust burt úr landi,
heillum snauðir heims um ból
hús þeir byggja' á sandi.
Í útlöndum er ekkert skjól,
eilífur stormbeljandi.

Þar er auðsýnt þurradramb
þeim sem út er borinn,
engin sól rís yfir kamb
yfir döggvuð sporin.
Þar sést hvorki lítið lamb
né lambagras á vorin.

Þá er börnum betra hér
við bæjarlækinn smáa,
í túninu þar sem trippið er.
Tvævetluna gráa
skal ég, góði gefa þér
og gimbilinn hennar fráa.

Og ef þig dreymir, ástin mín,
Oslóborg og Róma,
vængjaðan hest sem hleypur og skín
hleypur og skín með sóma,
ég skal gefa þér upp á grín
allt með sykri og rjóma.

Eins og hún gaf þér íslenskt blóð,
ungi draumsnillingur,
megi loks hin litla þjóð
leggja' á hvarm þinn fingur
á meðan Harpa hörpuljóð
á hörpulaufið syngur.
HALLDÓR LAXNESS

20 febrúar, 2011

Í tilefni dagsins

"Ja, hart es í heimi" sagði gamli unglingurinn í dag, í tilefni af óróa í samfélaginu. 
Ekki hélt hann áfram, en auðvitað gerði ég það:
Hart er nú í heimi,
helvíti' er það gaman.
Guð, í alheimsgeimi
grettir sig í framan.


Ef sá gamli hefði haldið áfram á með vísuna sem hann byrjaði á, hefði það verið með þessum hætti:
Hart es í heimi
Hórdómr mikill
Vindöld, vargöld
áðr veröld steypisk
Þetta kemur úr Völuspá og er væntanlega lýsing á aðdraganda heimsendis.



Hin tápmiklu 12 og þjófagengið (síðari hluti)

  Framhald af þessu Þar sem hin tápmiklu 12 stóðu fyrir utan flóttaherbergið, var óhjákvæmilegt að hugurinn beindist að verkefninu framundan...